146. löggjafarþing — 39. fundur
 6. mars 2017.
jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.
fsp. ELA, 183. mál. — Þskj. 254.

[16:27]
Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þann 12. maí 2014 var samþykkt þingsályktunartillaga hér á Alþingi og var hv. þm. Guðmundur Steingrímsson fyrsti flutningsmaður málsins. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í þingsal eftir að þverpólitísk samstaða náðist um málið innan hv. velferðarnefndar. Þingsályktunartillagan hafði það að markmiði að fela þáverandi hæstv. innanríkisráðherra og þáverandi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa starfshóp sem kannaði með hvaða leiðum mætti jafna stöðu foreldra sem færu sameiginlega með forsjá barna sinna.

Þann 24. september 2015 skilaði starfshópurinn niðurstöðum sínum. Niðurstöðurnar voru að gerðar yrðu breytingar á barnalögum til að jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna og ákveða að ala upp barn saman á tveimur heimilum. Þar kæmi nýtt ákvæði sem heimilaði skipta búsetu barns á grundvelli staðfests samkomulags foreldra að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Auk þessa voru lagðar til breytingar á ýmsum lögum varðandi opinberan stuðning, breytingar á lögum um lögheimili og breytingar á barnalögum. Ásamt því var lagt til að sveitarfélög landsins löguðu þjónustu sína að breyttum þjóðfélagsháttum og tækju þannig virkt tillit til jafnrar ábyrgðar og skyldna foreldra og uppeldi og umönnun barna í málum sem þau varða og falla undir valdsvið sveitarfélaga.

Virðulegur forseti. Nú er komið um eitt og hálft ár síðan starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum. Einu breytingarnar sem komið hafa fram eru að með nýjum lögum um húsnæðisbætur telst barn til heimilis hjá báðum foreldrum sínum, og er það afar jákvætt skref. En enn er beðið eftir öðrum aðgerðum sem starfshópurinn lagði til. Þess vegna lagði ég fram þá fyrirspurn sem við ræðum hér og óska eftir svörum frá núverandi hæstv. dómsmálaráðherra.

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra eftirfarandi spurninga: Er unnið að lagabreytingum á grunni skýrslu fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum í skýrslu sem lögð var fram á Alþingi í september 2015? Ef svo er, hvenær verða frumvörp um málið lögð fram? Ef ekki, hvenær ætlar hæstv. ráðherra að hefja þá vinnu?

Ég vona að við förum að sjá niðurstöður starfshópsins koma fram í frumvörpum á Alþingi. Ég trúi reyndar ekki öðru þar sem mjög skýrt er kveðið á um þessi atriði í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar og fagna ég því verulega. Í stjórnarsáttmálanum segir meðal annars að samfélagið eigi að styðja við ólíkar fjölskyldugerðir og hvetja til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali upp börn sín í sátt. Þar kemur jafnframt fram að tryggður skuli réttur barna til að vera skráð í skiptri búsetu á tveimur lögheimilum og aðstaða umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra jöfnuð.



[16:30]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um þetta mikilvæga mál sem ég held að langflestir séu sammála um að sé brýnt, ekki bara í umræðunni heldur er brýnt að taka til hendinni í þessum málaflokki.

Í framhaldi af nefndri skýrslu ráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum, sem lögð var fram á Alþingi í september 2015, skipaði ráðherra verkefnisstjórn þriggja ráðuneyta, þ.e. innanríkis-, velferðar- og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Í þeim starfshópi var einnig fulltrúi frá Þjóðskrá Íslands. Hlutverk þessarar verkefnisstjórnar var að útbúa nákvæma greiningu á því hvaða ákvæðum laga og reglugerða sé nauðsynlegt að breyta svo hægt sé að útbúa frumvarp og lögfesta ákvæði í barnalögum sem heimila foreldrum, sem fara með sameiginlega forsjá barns og hafa ákveðið að ala það upp saman á tveimur heimilum, að skipta búsetu barns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Við upphaf vinnu verkefnisstjórnar var ljóst að ekki þyrfti einungis að breyta ákvæðum laga og reglugerða heldur þyrfti einnig að gera tilteknar kerfisbreytingar. Var talið mikilvægt að upplýsa fleiri aðila sem málið snertir um verkefnið, ásamt því að kalla eftir ábendingum frá þeim og áliti. Verkefnisstjórnin gerði einmitt það. Hún kallaði eftir tengiliðum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sjúkratryggingum Íslands, Tryggingastofnun og Barnaverndarstofu. Af þessari upptalningu má greina hversu ótrúlega flókið það er í raun að ná fram því sem okkur finnast alveg sjálfsögð réttindi barna, að vera tilgreind á heimilum beggja foreldra sinna, einkum og sér í lagi ef foreldrarnir eru sammála um það.

Fyrirhugað er að vinnu verkefnisstjórnarinnar ljúki í mars næstkomandi. Næsta skref yrði þá að hefja vinnu við að útbúa lagafrumvarp til breytinga á barnalögum ásamt bandormi með breytingum á ýmsum öðrum lögum. Jafnframt þyrfti að gera breytingar á tilteknum reglugerðum. Lagt verður upp með að slík vinna verði í höndum nokkurra ráðuneyta þar sem viðkomandi breytingar á lögum og reglugerðum heyra undir innanríkisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti.

En í tilefni orða hv. þingmanns um að lítið hafi gerst í þessum málum frá því að skýrslan var lögð fram finnst mér rétt að nefna hér, sem er þó kannski ekki sýnilegt nema þeim sem málið varðar, að Þjóðskrá hefur lagt mikla vinnu í það undanfarið að breyta tölvukerfum sínum þannig að börn séu skráð og með tengingar við báða foreldra. Það er svo sem ekki sýnilegt neinum öðrum en viðkomandi foreldrum. Mér er sagt að foreldri geti farið inn á vefslóðina www.island.is, jafnvel foreldri sem ekki er með forsjá barns og ekki með barn sem býr heima, og fengið lista yfir börn sín á bréfsefni Þjóðskrár. Þeim upplýsingum er ekki miðlað áfram. Þjóðskrá er ekki farin að miðla þeim áfram. En allt að einu getur viðkomandi foreldri fengið þessar upplýsingar. Það hefur nefnilega ekki endilega verið hægt nema með ákveðinni vinnslu í Þjóðskrá, með því að fletta upp frumgögnum. En Þjóðskrá hefur lagt í þessa vinnu. Mér skilst að það séu eingöngu fjórir árgangar barna, ef við miðum við börn upp að 18 ára aldri, sem enn á eftir að færa inn í kerfi Þjóðskrár með þessum hætti. Það er vinna sem Þjóðskrá hefur lagt í með annarri tilfallandi vinnu, þ.e. ef Þjóðskrá fær beiðni um einhvers konar færslu á tilteknu barni er þetta fært inn um leið. Þetta er mikil handavinna, svo því sé haldið til haga, þetta gerist ekki einn, tveir og þrír að breyta skráningum barna í Þjóðskrá.

Svo er spurt hvenær frumvörp um málið verði lögð fram. Eins og ég hef nefnt er fyrirhugað að vinna við frumvarp til breytinga á barnalögum ásamt bandormi á ýmsum öðrum lögum geti hafist í vor.



[16:35]
Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Mig langar að lesa hér hluta úr umsögn umboðsmanns barna við skýrslu um jafnt búsetuform en þar kemur fram sú mikilvæga áminning að ávallt þurfi að huga að hagsmunum barna við ákvarðanir sem þau varða. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Umboðsmaður telur þó ekki rétt að skipt búseta muni fela í sér að foreldrar þurfi að taka allar ákvarðanir sem varða barn í sameiningu. Þó að það sé að sjálfsögðu æskilegt að foreldrar hafi samráð um allar ákvarðanir sem varða börn, er ljóst að sú staða getur ávallt komið upp að foreldrar séu ósammála. Mikilvægt er að takmarka eins og hægt er togstreitu í lífi barna og reyna eftir fremsta megni að hlífa þeim við deilum foreldra. Að mati umboðsmanns barna er ekki viðunandi að barn geti lent í þeirri stöðu að ekki sé hægt að taka ákvörðun, til dæmis um skólavist eða læknismeðferð, einungis vegna þess að foreldrar geta ekki komist að samkomulagi. Eins og umboðsmaður hefur áður bent á eiga hagsmunir barna af því að njóta stöðugleika og samfellu í daglegu lífi ávallt að vega þyngra en hagsmunir foreldra af því að standa jafnfætis þegar kemur að ákvarðanatöku [...] Þess vegna telur hann rétt að lögheimilisforeldri eigi áfram lokaorðið um vissar ákvarðanir sem varða daglegt líf barna, þegar foreldrar geta ekki komist að samkomulagi.“

Ég hvet (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra til að lesa þessa umsögn og nýta sér þessar ráðleggingar við gerð frumvarps.



[16:37]
Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda. Mitt fólk í Bjartri framtíð hefur haldið þessu flaggi hátt á lofti undanfarin misseri og er það nú að finna í ríkisstjórnarsáttmálanum. Ég hef kynnt mér þetta mál vel, sérstaklega niðurstöður skýrslu innanríkisráðherra sem hér hafa verið nefndar. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að skýra stöðu málsins og spyr hvort upplýsingar liggi fyrir hvað varðar hlutverk og ábyrgð sveitarfélaganna í framkvæmdinni.

Ég vil minna aftur á ósk mína um að taka barnalög til endurskoðunar með hliðsjón af barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem meginmarkmiðið er að hugsa til nútímans og virða réttindi barna sem sjálfstæðra einstaklinga sem búa á tveimur stöðum, sem er einnig nefnt í skýrslunni.



[16:38]
Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað um málið hér og hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin þar sem hún skýrði málið fyrir okkur. Eins og fram kom í svörum hæstv. dómsmálaráðherra er verið að vinna að frumvörpum um breytingu á barnalögum, breytingum á hinum og þessum bandormum og að breytingum á reglugerð. Ég veit það eftir að ég fór að skoða þessi mál rækilega, sem ég hef gert undanfarnar vikur, að þau er mjög flókin. Það er svo margt þarna undir, eins og t.d. varðandi lögheimili, skattalöggjöf og ýmislegt annað sem býr að baki.

En ég fagna því að mikil vinna hafi farið fram á málinu og eftir að starfshópurinn skilaði af sér. Það er greinilega verið að vinna að því. Eins og hæstv. dómsmálaráðherra segir er búið að hafa samband við Barnavernd, Samband ísl. sveitarfélaga og Þjóðskrá. Þjóðskrá hefur verið að vinna að breytingum á tölvukerfum sínum og öðrum þáttum. Auðvitað veit ég að mikil vinna hefur farið fram en úti í samfélaginu eru hópar sem bíða eftir breytingum á þessu fyrirkomulagi, við verðum að muna það. Sveitarfélög eru í þeirri stöðu að þau þurfa að haga reglum sínum eftir því hvernig lög og reglur eru varðandi leikskólavist. Mörg dæmi eru um foreldra sem búa hvort í sínu sveitarfélaginu og deila forsjá með barni. Ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra áfram til dáða í þessum efnum og vonandi að við náum að sjá frumvörp um málið sem allra fyrst hér innan hv. Alþingis.



[16:40]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Já, það eru mörg álitaefnin í þessu. Sveitarfélögin eru hluti af verkefnisstjórninni, þau hafa að einhverju leyti tekið þátt í vinnu hvað þetta varðar og munu gera það áfram. Svo mega menn heldur ekki gleyma því að fyrirkomulag þessara mála — þótt það þurfi kannski að byrja hjá stjórnvöldum eða Þjóðskrá, við erum bara að tala um skipta búsetu og skráningu á því. Í framhaldinu þurfa fjölmargir aðilar að vera tilbúnir til að taka á móti skráningu í þjóðskrá um tvöfalda búsetu. Það getur verið talsverð áskorun fyrir marga aðila, fjármálastofnanir og aðra sem þurfa að fara að vinna eftir því að einhver einstaklingur er með tvö heimili.

Það eru mörg álitaefni í þessu. En í vinnu sem þessari eru hagsmunir barnsins að sjálfsögðu ávallt hafðir að leiðarljósi fyrst og fremst. Það mun aldrei koma til þess að menn játi einhverjum reglubreytingum hérna sem skert geta hagsmuni barnsins með beinum eða óbeinum hætti. Þetta mál er hins vegar líka mikið réttlætismál fyrir börn. Það er mikilvægt fyrir þau að geta gengið að því vísu að þau eigi tvo foreldra sem ekki búa saman og foreldra sem eru sammála um að ala þau upp í sameiningu. Börn eiga að geta gengið að því vísu að þau eigi rétt á að vera skráð hjá báðum foreldrum og að báðir foreldrar séu upplýstir um stöðu þess og hagi.