146. löggjafarþing — 42. fundur
 9. mars 2017.
atvinnuleysistryggingar, 1. umræða.
frv. SilG o.fl., 121. mál (bótaréttur fanga). — Þskj. 180.

[14:44]
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, bótaréttur fanga. Auk mín eru meðflutningsmenn frumvarpsins hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Björn Leví Gunnarsson og Birgitta Jónsdóttir.

Frumvarp þetta byggist á frumvörpum til breytinga á eldri lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997. Þau hafa margsinnis verið lögð fram hér á þingi en ekki hlotið afgreiðslu og því legg ég þetta fram hér að nýju í dag.

Atvinnuleysistryggingum er ætlað að tryggja einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir leita sér vinnu. Meðal almennra skilyrða þess að einstaklingar teljist tryggðir samkvæmt lögunum er að þeir hafi fengist við launuð störf eða verið sjálfstætt starfandi á tilteknu ávinnslutímabili áður en sótt er um atvinnuleysisbætur. Þeim sem afplána refsivist eða sitja í gæsluvarðhaldi stendur jafnan ekki til boða vinna sem lög nr. 54/2006 taka til og þeir ávinna sér því ekki rétt til atvinnuleysisbóta meðan á vistinni stendur. Að vísu geta þeir sem eru tryggðir samkvæmt lögunum og hverfa af vinnumarkaði þegar þeir taka út refsingu samkvæmt dómi geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þar til þeir hafa lokið afplánun refsingar. Ákvæði þetta á þó við um minni hluta fanga þar sem fæstir þeirra stunduðu vinnu reglubundið áður en afplánun hófst. Af þessu leiðir að oftar en ekki standa fangar utan atvinnuleysistryggingakerfisins þegar þeir ljúka afplánun en það gerir þeim erfiðara um vik að komast aftur á réttan kjöl að afplánun lokinni. Að mati flutningsmanna eykur núverandi kerfi líkur á því að þeir brjóti af sér á ný og stríðir þannig gegn því markmiði refsivörslukerfisins að vinna gegn afbrotum og hjálpa einstaklingum sem hafa brotið af sér að snúa við blaðinu.

Í frumvarpinu er því lagt til að hafi fangi samkvæmt vottorði frá fangelsismálayfirvöldum stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun sem í boði er innan viðkomandi fangelsis til samræmis við lög um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, ávinni hann sér rétt til atvinnuleysisbóta vegna þess tímabils eins og hann hefði verið í launaðri vinnu. Af því leiðir að þeir sem lokið hafa afplánun geta talist tryggðir þótt þeir teljist ekki launamenn. Aftur á móti verður viðkomandi að uppfylla önnur skilyrði tryggingaverndar, svo sem um virka atvinnuleit og búsetu.

Rétt er að leggja ávinnslu vegna þess tímabils sem einstaklingur situr í gæsluvarðhaldi, eða afplánar refsivist og stundar vinnu, nám eða starfsþjálfun til samræmis við lög um fullnustu refsinga, að jöfnu við ávinnslu samkvæmt reglum 15. gr. við útreikning á tryggingarhlutfalli. Hafi einstaklingur t.d. á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur afplánað tveggja mánaða refsivist og stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun allan þann tíma og verið í fullu launuðu starfi tvo mánuði bæri að leggja þann tíma saman þannig að viðkomandi teldist tryggður að einum þriðja hluta, samanber 2. mgr. 15. gr., að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Að þessu sögðu, hér greip ég aðeins niður í greinargerð sem fylgir frumvarpinu, langar mig til að segja að ég geri mér fulla grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þeir hafa kannski sem eru andsnúnir þessu frumvarpi, þá helst að tryggingagjaldið sé notað í þessum tilgangi, þ.e. til þess að koma til móts við fanga sem stunda vinnu, nám eða starfsþjálfun innan fangelsis. Þá segi ég á móti að þetta er leið sem flutningsmenn frumvarpsins leggja til að verði skoðuð vandlega og horft á hana í heildarsamhenginu við stöðu fanga og hugmyndafræði um betrun sem við ræddum akkúrat hér í sérstökum umræðum að ég held fyrir tveimur dögum sem hv. þingmaður og meðflutningsmaður Birgitta Jónsdóttir var upphafsmaður að. Það er eitt að gera fangelsin okkar betri þannig að menn hafi raunverulega tækifæri til þess að snúa við blaðinu og koma sem betri þegnar aftur út í samfélagið, en þetta er kannski hinn helmingurinn á því máli, þ.e. að það sé eitthvað sem taki á móti fólki, að menn sjái tilganginn með því að stunda nám, vinnu eða starfsþjálfun í fangelsi, það sé eitthvað sem taki við sem þeir geti treyst á þegar þeir koma út úr fangelsinu.

Eins og ég segi, þetta er e.t.v. ekki besta leiðin, en þetta er hugmynd að leið sem við getum skoðað og mögulega farið ef sátt næst um hana. Við þá sem eru ósammála þessari leið og vilja ekki að tryggingagjaldið sé notað í þetta segi ég: Komið þið með betri hugmynd, ég er opin fyrir því að skoða aðrar leiðir, en það er ekki hægt að skilja þennan hóp eftir. Það er ekki hægt. Það höfum við gert of lengi. Þetta er ekki stór hópur sem betur fer þannig að ég held að núverandi kerfi fari nú ekki á hliðina þótt tryggingagjaldið verði að einhverjum hluta notað til þess að koma til móts við þennan hóp. Þetta er ein leið, leið sem við verðum að skoða með opnum huga og í heildarsamhengi alls þess sem við höfum verið að ræða hér upp á síðkastið á Alþingi.



[14:50]
Andri Þór Sturluson (P):

Virðulegi forseti. Í fangelsunum fer fram margvísleg vinna. Ég sé ekki hvernig sú vinna er frábrugðin annarri vinnu þó að hún hafi einhvern veginn verið tekin út úr sviga í þessu kerfi.

Í fyrsta lagi vil ég minna á þá gífurlegu ábyrgð sem við berum sem samfélag þegar við fangelsum menn. Ég hef minnst á það áður á mínum stutta tíma hér að þetta er grafalvarlegt. Tilgangur afplánunar er fyrst og fremst að skila mönnum aftur út í samfélagið betri en þeir komu þangað inn. Aðrar ástæður eru bara úreltar. Afplánun er ekki refsing. Ef einhver heldur það þá þarf hann alvarlega á endurmenntun að halda.

Þetta frumvarp leggur til fjárhagslegan grundvöll fyrir nýtt og betra líf fyrir menn og konur sem snúa út úr fangelsum, það er einfaldlega svo. Þegar fangar losna glíma þeir við ótrúleg vandamál sem við getum varla ímyndað okkur. Það er hálfgerð útskúfun þegar þeir fara svo að reyna að koma sér inn á vinnumarkaðinn. Þeir eiga alls ekki auðvelt með það fyrir utan allar áhyggjurnar sem fylgja með. Frumvarpið hvetur líka beinlínis til náms. Nám er af mörgum talið, sérfræðingum Fangelsismálastofnunar og annarra, lykilforsenda þess að eitthvað breytist í þeirra högum, menntunin. Sumir eru að klára próf sem þeir áttu ólokið, það skiptir kannski ekki öllu máli, en það er mjög mikilvægt að hvetja þá til náms sem síðan skilar þeim tækifærum þegar þeir losna út.

Fyrir utan þetta þá er vinna í fangelsi, sama hvort það eru skúringar, eldamennska, þvottastöðin á Litla-Hrauni, bílnúmerasmíðin og annað sem þar fer fram, bara vinna. Og það að við skulum einhvern veginn taka það svona út er forkastanlegt. Þetta eru ekki háar fjárhæðir. Þetta er ekki mikið af fólki, en það kostar okkur gríðarlega að gera þetta ekki og skila mönnum út á strætóstoppistöð eftir afplánun, allslausa, oft með engin plön beinlínis vegna fjárskorts líka af því við sinnum þeim ekki. Þetta frumvarp gefur þeim það svigrúm sem þarf til að ná áttum þegar þeir losna, hafandi hvatt þá til náms, til vinnu, vinnu sem þeir geta síðan sinnt áfram utan fangelsisins, það má segja að þeir öðlist jafnvel starfsreynslu. Þetta er allt saman gríðarlega mikilvægt. Þeir sem ganga út úr fangelsi hafa gert upp við samfélagið og eiga því að hafa sama rétt og aðrir menn. Það yrði mikil blessun ef þetta frumvarp gengi fram.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.