146. löggjafarþing — 46. fundur
 22. mars 2017.
um fundarstjórn.

athugasemdir forseta um orðalag þingmanns.

[15:39]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Virðulegi forseti bað mig að gæta orða minna áðan. Ég er ekki alveg viss um hvaða orða ég átti að gæta. Mér þætti vænt um að hún útskýrði það þannig að ég myndi ekki hnjóta um það aftur.



[15:39]
Jón Þór Ólafsson (P):

Ég vil kannski bæta við ef forseti gæti vísað í þær greinar þingskapalaga sem styðja þá ákvörðun um að biðja þingmanninn að gæta að sér. Í þingskapalögum er vissulega hægt að gera slíkt, t.d. ef menn fara með brigslyrði. Ég hef spurt lagaskrifstofu þingsins hvað það þýði og það er mjög óljóst. En við þurfum að fá það á hreint frá forseta nákvæmlega hvað hann meinar og vísun þá í hvaða greinar, hvar hann fær heimild til þess í rauninni að vera með ákveðin kulnunaráhrif á orðræðu þingmanna í þingsal.



[15:40]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í gær fögnuðum við tjáningarfrelsinu. Ég vil bara minna á að það er fátt eins dýrmætt og tjáningarfrelsið og því mjög mikilvægt að þingmenn fái að vita af hverju forseti lítur svo á að þeir þurfi að gæta orða sinna og nákvæmlega hvað það er þannig að við þingmenn upplifum ekki undir neinum kringumstæðum að slík áminning frá forseta sé háð dyntum eða smekk forseta hverju sinni.



[15:41]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að taka undir það. Ég átta mig ekki á því hvað það var sem hv. þingmaður sagði sem stuðaði forseta. Mér er farið að finnast þetta býsna sérkennilegt. Hér má ekki nota tiltekin orð, hér þarf maður helst að vera í dressinu, samkvæmt gömlum siðum. En það er allt í lagi að segja ósatt, allt í lagi að neita að svara. Ég held að Alþingi ætti miklu frekar að huga að því hvort menn segja yfir höfuð satt frekar en hvaða orð menn nota. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:42]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að fá að taka undir með öðrum hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls. Hvaða orð voru það nákvæmlega sem fóru fyrir brjóstið á virðulegum forseta og hvernig getum við komið í veg fyrir að þetta endurtaki sig? Það er oft þannig að forseti segir eitthvað í ræðustól en það er aldrei útskýrt nánar hvað það er nákvæmlega. Og til þess að við getum nú tekið upplýsta ákvörðun um áframhald þingsins og hvaða orð við notum væri gott að fá betri greinargerð fyrir því.



[15:43]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég skora á forseta að gera það að sið hér að þegar ráðherrar svara ekki þingmönnum eða spyrja á móti þegar krafist er skýrra svara — við förum hér með eftirlitshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu og það gerist ítrekað hér að ráðherrar æfi sig í þeim leik að svara engu, vera aldrei skýrmæltir. Og það hefur jafnvel komið fyrir að ráðherrar hafi farið hér með rangt mál. Það hefur ítrekað verið sannað.

Ég legg til að í staðinn fyrir að skammast út í hvernig þingmenn klæða sig eða hvaða orð þeir nota sem farið gætu fyrir brjóstið á forseta, að forseti taki sig til og sýni að þetta er forseti Alþingis, ekki forseti ráðherra, og láti ráðherra hreinlega heyra það þegar þeir vanvirða Alþingi hér trekk í trekk, árum saman, áratugum saman. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)