146. löggjafarþing — 46. fundur
 22. mars 2017.
málefni aldraðra, 1. umræða.
frv. EyH o.fl., 223. mál (akstursþjónusta). — Þskj. 312.

[18:16]
Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1990, um akstursþjónustu.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.

Frumvarpið er ekki langt, það er tvær greinar, og snýr að því að tryggja að aldraðir sem búa við fötlun eða skerðingu njóti sambærilegra réttinda og fatlað fólk hefur notið á grundvelli laga um fatlað fólk. Hér er sem sagt verið að leggja eftirfarandi til, með leyfi forseta:

„Aldraðir skulu eiga kost á akstursþjónustu á vegum sveitarfélags sem miðar að því að þeir geti farið allra sinna ferða á þann hátt sem þeir kjósa og á þeim tíma sem þeir velja gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar eða annarra skerðinga kleift að stunda atvinnu“ — og þar er verið að endurspegla að það eru orðið mun fleiri sem eru 67 ára og eldri sem vinna — „og nám“ — við höfum líka séð aukningu hvað það varðar — „og njóta tómstunda.

Jafnframt skulu aldraðir eiga rétt á akstursþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem þeir njóta samkvæmt lögum um þjónustu við aldraða.

Ráðherra er heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur akstursþjónustu á grundvelli þessa ákvæðis. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra.“

Hér er jafnframt heimildarákvæði um að innheimta sanngjarnt gjald fyrir akstursþjónustuna samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja og að gjaldið skuli vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.

Það kann að vera að einhver hefði talið að þetta væri þegar fyrir í lögum því að mörg sveitarfélög hafa sinnt þessari þjónustu, en það hefur hins vegar ekki byggt á lagaskyldu. Hér er sem sagt kveðið almennt á um rétt til akstursþjónustu. Er það von mín að það muni fækka gráum svæðum í verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Þetta frumvarp byggir á vinnu sem var unnin í velferðarráðuneytinu um breytingar á félagsþjónustulögunum og lögum um málefni fatlaðs fólks. Þar eru fjölmörg önnur ákvæði sem ég mundi gjarnan vilja annaðhvort fá að mæla fyrir sjálf eða að ráðherra kæmi hér inn og mælti fyrir þeim, sem snúa að mikilvægri réttarbót, annars vegar fyrir fatlað fólk og hins vegar fyrir aldraða og aðra þá sem þurfa á félagsþjónustu að halda frá sveitarfélögunum.

Varðandi nákvæmlega þetta sérstaka ákvæði hefur afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga verið að það séu óljós ábyrgðarskil á milli heilbrigðis- og öldrunarþjónustu annars vegar og fötlunarþjónustu hins vegar. Það hefur leitt til þess að komið hafa upp mál þar sem einstaklingur sem hefur óskað eftir því að fá akstursþjónustu hefur ekki fengið hana. Það hefur sérstaklega komið fram þegar fólk hefur farið inn á þjónustustofnanir þegar einstaklingur verður fyrir áfalli eða skerðingu eftir 67 ára aldur. Það er von mín að með því að samþykkja þetta frumvarp og það verði að lögum skýri það ábyrgðarskilin og tryggi þessa mikilvægu réttarbót fyrir aldrað fólk sem býr við ákveðnar skerðingar.

Ég vil hins vegar taka fram, virðulegi forseti, að hér er um nýja lagaskyldu að ræða fyrir sveitarfélögin. Það sinna ekki öll sveitarfélög þessu þannig að það gæti fyrirsjáanlega haft í för með sér ákveðinn kostnaðarauka.

Þegar umræðu um málið er lokið mundi ég gjarnan vilja að hv. velferðarnefnd fjallaði um málið og færi betur yfir og aflaði upplýsinga um kostnaðinn sem tengist þessu ef hann liggur fyrir, en ég hafði ekki upplýsingar um hann.



[18:21]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta frumvarp. Hún svaraði því sem ég ætlaði að spyrja um í lok ræðunnar varðandi kostnaðinn. Ég er svo sannarlega sammála því og tek undir þetta með að skýra ábyrgðarskilin, eins og hér er sagt að sambandið vilji gera, og skiljanlega viljum við skýra þau. Við þekkjum þá umræðu hjá sveitarfélögunum að sífellt sé verið að bæta á þau tiltekinni þjónustu sem ekki fylgi með fjármunir o.s.frv. Hér er gengið út frá því að það megi rukka fyrir þessa þjónustu.

Ég veit að þingmaðurinn þekkir þessi mál mun betur en ég, þ.e. innviðina, og þá langar mig að spyrja hann. Það segir hér að þetta sé sambærilegt og gagnvart fötluðu fólki. Eru ákvæði um það í þeim lögum að taka megi gjald fyrir þessa þjónustu líka? Er þetta sambærilegt?

Ég er alveg hjartanlega sammála því að aldraðir, hvort sem þeir hafa orðið fyrir tiltekinni skerðingu eða ekki, eigi að njóta þessarar þjónustu. Ég bý í sveitarfélagi þar sem eru 15 kílómetrar á milli og alls ekki allir sem hafa tækifæri eða eiga bíl eða hafa getu til þess að keyra og eru að sækja sér þjónustu beggja vegna. Maður finnur bara og skynjar að það er þörf fyrir slíka þjónustu. Það eru ekki almenningssamgöngur þarna á milli, það er eitt af því sem sveitarfélagið hefur ekki treyst sér til að fara út í nema í gegnum skólabílinn, sem er auðvitað ekki almenningssamgöngur sem slíkar. Mig langar að spyrja hvort þetta sé sambærilegt.



[18:23]
Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í frumvarpsdrögum sem nefnd um endurskoðun á félagsþjónustulögunum og lögum um málefni fatlaðs fólks skilaði til mín þegar ég var ráðherra í velferðarráðuneytinu var ætlunin að búa til samhljóða ákvæði sem tryggði bæði fötluðu fólki og öldruðum þessa þjónustu. Ég fletti einmitt upp lögunum um málefni fatlaðs fólks og þar kemur fram að það er gjaldtökuheimild þar líka þegar kemur að fötluðu fólki.

Hér er hins vegar verið að ramma þetta af. Við vitum að sveitarfélög hafa oft greitt með almenningssamgöngum, þannig að það er ekki endilega verið að greiða raunkostnaðinn við þá þjónustu. Eins og þingmaðurinn fór í gegnum hefur verið mikil framþróun, til að mynda þegar sveitarfélögin tóku yfir rekstur grunnskólanna og skólaaksturinn var tryggður. Við sjáum líka að fleiri sveitarfélög eru farin að bjóða upp á strætóferðir, þannig að þá er það möguleiki. Hér er ítrekað að þegar einstaklingurinn er ekki fær um að nýta almenningsfarartæki eigi að bjóða upp á þessa þjónustu. Maður hefur séð í ýmsum verkefnum, ekki bara gagnvart akstursþjónustunni, enn á ný hversu miklu máli viljinn skiptir til þess að leysa úr málum. Þótt þetta mál snúi að öldruðum huga ég líka að réttindum fatlaðs fólks almennt. Þegar menn hafa virkilega meðtekið þessi réttindi hafa sveitarstjórnir oft náð að leysa mjög vel úr, jafnvel án þess að það sé viðbótarkostnaður, og hafa tryggt að þjónustan sé betri sem er veitt þeim sem þurfa á henni að halda.



[18:25]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er akkúrat það sem maður hefur verið að ræða. Þar sem ég hef starfað í sveitarstjórn veit ég að það er ein af þeim umræðum sem sífellt er til staðar, hvernig við getum bætt og samþætt þjónustu við fullorðið fólk, við fatlað fólk, við börnin okkar o.s.frv. til þess að búa til heildstæða þjónustu. Það var auðvitað tilefni til þess að flytja málefni fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaga. Það hefur í rauninni verið kallað eftir því að flytja málefni eldri borgara líka yfir til sveitarfélaganna, en eðlilega hefur verið staldrað aðeins við þar sem sá kostnaður sem hefur fylgt nærþjónustunni eftir að hún fór yfir hefur orðið meiri en gert var ráð fyrir. Við höfum líka innleitt íþyngjandi reglugerðir og annað slíkt fyrir sveitarfélögin en um leið aukið þjónustu fyrir fólkið.

Þetta á að vera til þess að jafna réttinn og jafna stöðu fólks þannig að það búi við sambærileg lífsgæði. Ég lít þannig á að það séu lífsgæði að geta komist á milli staða, að geta sótt sér þjónustu og þurfa ekki að vera upp á fólkið sitt kominn og jafnvel hafa það ekki til þess að sinna sér, börn eða aðra aðstandendur. Mér finnst þetta því mjög skynsamlegt. Ég vona að sveitarfélögin bregðist ekki neikvætt við með því að fara í þann gír strax að þetta kosti of mikið heldur að farið verði í að vega þetta og meta og þá hvert gjaldið þyrfti að vera sem yrði innheimt og ef það er talið of hátt fyrir einstaklinga yrði það kannski á einhvern hátt brúað af ríkinu.



[18:27]
Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur kærlega fyrir andsvarið. Ég myndi eiginlega frekar flokka þetta sem samsvar en andsvar.

Við ræddum fyrr í dag um tekjuhliðina varðandi úthlutun í gegnum jöfnunarsjóðina gagnvart sveitarfélögunum. Við heyrum reglulega sveitarfélögin benda á að þau hafi tekið að sér aukin verkefni, séu að reyna að veita betri þjónustu og það þurfi því að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna. Ég er mjög sammála því. Það eru svo mörg verkefni sem ég tel að sveitarfélögin eigi að sinna, geti sinnt betur, það snýr ekki hvað síst að félagsþjónustulögunum sem geta verið alveg gífurlega mikilvæg, t.d. í ljósi mikillar umræðu um fátækt síðustu daga í samfélaginu. Félagsþjónustulögin eru grundvallarlög til að hjálpa fólki til sjálfsbjargar og sjálfstæðs lífs á ný.

Það væri óskandi að við gætum hætt að ræða almennt að við þurfum að efla tekjustofnana og færum að gera það í reynd, þá ekki aðeins í gegnum það að heimila eða líta fram hjá þegar sveitarfélögin eru að rukka fyrir lóðir eða byggingarrétt, heldur horfa til þess að sveitarfélög fá ekki tekjur af fyrirtækjum sem eru í viðkomandi sveitarfélagi, einstaklingar sem eru með miklar fjármagnstekjur skila svo sannarlega ekki sínu. Ég held að það séu fjölmörg tækifæri til að tryggja að fleiri innan sveitarfélags greiði í sameiginlega sjóði og við getum þá nýtt það til að efla þjónustuna.



[18:29]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að veita andsvar, ég ætla að veita samsvar og höggva dálítið í sama knérunn og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Um leið og ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir framlagninguna og yfirferðina set ég það algjörlega hennar í hendur hvort hún svari mínu samsvari. Ég ákvað bara að koma hingað upp og segja að mér finnst þetta mjög áhugavert frumvarp, en það vekur upp ýmsar spurningar eins og hv. þingmaður kom inn á, sem er mjög vel, og að skoða þurfi ýmislegt í þessu. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á það að kannski þyrfti á einhvern hátt að brúa það af ríkinu ef til þess kæmi. Það er eitthvað sem þarf að skoða.

Það sem mér finnst mikilvægt í greinargerðinni, eða einn af mörgum mikilvægum punktum eru þessi óljósu skil sem komið er inn á þegar einstaklingur verður fyrir áfalli eða skerðingu eftir 67 ára aldur. Það sem meira er að það er í sumum tilvikum þannig að einstaklingur sem hefur notið ákveðinna réttinda undir 67 ára aldri missir þau kannski þegar hann er kominn yfir þau aldursmörk sem er náttúrlega alveg galið, svo ég leyfi mér bara að segja það.

Hér hefur aðeins verið komið inn á gjaldskrána og hvernig það allt skuli vera. Hér er miðað við almenningssamgöngur. Augljóst er að það er eitthvað sem þarf að greiða með, því að það gjald mun ekki standa undir svona löguðu. Hvað varðar akstursþjónustu á vegum sveitarfélags, eins og ferðaþjónusta fatlaðra og annað slíkt, þá er ekki alls staðar samræmi þar á milli, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel, og ekki einu sinni eftir öllum skerðingum. Blindir eru með sérsamning og svo er almenn ferðaþjónusta.

Ég vil bara fagna því að þetta frumvarp hafi verið lagt fram. Ég hefði verið til í að ræða þetta mikið við hv. þingmann. Ég held að við séum sammála og held að hv. þingmaður hafi svörin við mörgum spurningum. (Forseti hringir.) En henni er algjörlega í sjálfsvald sett hvort hún svarar þessu samsvari mínu.



[18:31]
Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að það megi ekki finna í þessu stutta frumvarpi, þá er held ég mjög mikilvægt að í félagsþjónustulögunum og í þeirri þjónustu sem sveitarfélög veita sé horft í auknum mæli á þörfina, mat á þörfinni, að við horfum ekki einmitt á einhver aldursmörk, að við 67 ára aldurinn eigi fólk að fá ákveðna tegund af heimaþjónustu, heldur hvort fólk hafi raunverulega þörf fyrir slíka þjónustu eða ekki. Við vitum það öll mjög vel að sjötugur einstaklingur — þú getur verið með tvo sjötuga einstaklinga og líkamleg heilsa þeirra er mjög ólík. Annar er mjög langt frá því að þurfa á einhverri aðstoð að halda meðan hinn þarf á mikilli aðstoð að halda. Það hefur verið mjög einkennilegt að kynnast því að bara við það að eiga afmæli þá allt í einu á maður að losna við skerðingu sem maður hefur jafnvel verið með alla ævi, læknast af örorku sinni eða fötlun. Við vitum bara að raunveruleikinn er ekki þannig.

Sveitarfélögin hafa verið að þróa í samstarfi við ráðuneytið betra mat á þjónustuþörfinni þannig að í auknum mæli sé hægt að veita þeim betri þjónustu sem þurfa á mikilli þjónustu að halda. En við sem höfum betri heilsu og þurfum ekki á þjónustunni að halda að sama skapi fáum þá minni eða jafnvel enga þjónustu á móti. Það hefur alla vega verið mín afstaða að við eigum að hjálpa þeim sem þurfa á aðstoð að halda.



[18:33]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það fór eins og ég sagði að hv. þingmaður hefði svör við mörgum af þeim fjölmörgu spurningum sem vöknuðu við lestur minn á þessu. Ég nýti mér þá kannski aðstöðu mína til að ræða þessi mál frekar því að þetta er eitt af stóru málunum. Ég vil ítreka mjög ánægju mína með að frumvarpið skuli komið hér fram.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á í framsögu sinni, og komið er inn á í greinargerðinni, afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga um þessi óljósu ábyrgðarskil á milli heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Hér í umræðunni hefur komið fram flutningur málaflokks fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaga. Málefni aldraðra voru og eru væntanlega enn í skoðun. En af því að þetta tengist nú allt þessum fjármunum sem eru oft upphaf og endir ýmissa framfaramála og mannréttindamála sem ég vil nú kalla þetta, þá langar mig að spyrja hv. þingmann aðeins út í það hver hún telji að verði afstaða sveitarfélaganna gagnvart þessu, en eins og hv. þingmaður veit telja þau að þau hafi borið frekar skarðan hlut frá borði þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks, fjármunir hafi ekki endilega fylgt með þeim kostnaði sem þjónustan hefur kallað á og fleira í þeim dúr. Og af því að hér hefur verið tala um að mögulega verði þetta brúað af ríkinu langar mig að spyrja, bara af því að ég heyrði það ekki, það hefur kannski farið fram hjá mér, hvort hv. þingmaður hafi svarað því beint hvort hún telji að það þurfi jafnvel að koma til þess, að með svona frumvarpi þurfi að brúa einhvern kostnað af hálfu ríkisins.



[18:35]
Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hér og spyr raunar um yfirfærslu verkefna til sveitarfélaganna, hvort sveitarfélögin hafi fengið þá fjármuni sem þau hefðu þurft á að halda við yfirfærsluna. Ég vil gjarnan halda því fram, alla vega því sem snýr að málefnum fatlaðs fólks, að umtalsverðir fjármunir hafi fylgt þeim verkefnum. Það hafi líka verið ákvæði um endurmat á reynslunni við flutninginn og fjármunir hafi bæst við enn frekar. Hins vegar er það þannig að ekki er hægt að gera ráð fyrir, sérstaklega í málaflokki sem er í stöðugri þróun, að það sé einhvern veginn þannig að verkefnin taki ekki breytingum. Það eru ýmis verkefni þarna sem hafa bæst við, verkefni sem reyndust vera dýrari, þannig að ríkið hefur reynt eins og hægt er að koma til móts við sveitarfélögin hvað það varðar.

Það var að vísu gripið til annarra stórra aðgerða á síðasta kjörtímabili sem sneru ekki beint að félagsþjónustunni eða lögum um málefni aldraðra eða fatlaðs fólks, heldur var einfaldlega verið að taka á stórum lífeyrissjóðaskuldbindingum, gífurlegir fjármunir sem ríkið varð að taka á sig til þess að létta af sveitarfélögunum. Þó að það hafi verið mín ákvörðun eða afstaða á sínum tíma að það væri t.d. ekki rétt að halda jafn hratt áfram yfirfærslu frekari verkefna fyrr en búið væri að ljúka við yfirfærsluna varðandi málefni fatlaðs fólks, þannig að því var frestað hvað varðar þjónustu við aldraða, þá hef ég séð að sveitarfélögin t.d. á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að vinna saman í tíu ár þegar kemur að heimaþjónustu og heimahjúkrun. Við erum stöðugt að vinna á verkefnum. (Forseti hringir.) En við getum alltaf gert betur. Það er það sem skiptir svo miklu máli að hafa í huga. Við erum aldrei búin að því hvað varðar að bæta velferðarþjónustuna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.