146. löggjafarþing — 46. fundur
 22. mars 2017.
kosningar til sveitarstjórna, 1. umræða.
frv. PawB o.fl., 258. mál (kosningarréttur erlendra ríkisborgara). — Þskj. 356.

[18:38]
Flm. (Pawel Bartoszek) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að kosningaréttur erlendra ríkisborgara í kosningum til sveitarstjórna verði færður til svipaðs horfs og þekkist annars staðar á Norðurlöndum og þá helst í Danmörku og Svíþjóð. Tillaga okkar sem stöndum að frumvarpinu er sú að 3. mgr. 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna orðist svo:

Enn fremur eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar, ríkisborgarar ríkja Evrópusambandsins og EFTA-ríkja sem eiga lögheimili hér á landi og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.

Að frumvarpinu stendur allur þingflokkur Viðreisnar. Þetta er fyrsta þingmannafrumvarpið okkar og það er í takt við stefnu flokksins, að Ísland eigi að vera opið samfélag fyrir alla.

Ég ætla í ræðunni að reifa örsnöggt sögu þessara mála hér á landi og í nágrannalöndunum. Síðan ætla ég að færa rök fyrir því af hverju við teljum að þetta sé góð hugmynd. Loks ætla ég að færa rök fyrir þeirri útfærslu sem varð fyrir valinu.

Það hefur verið þróun í þessum málum annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu allri sem er á þá leið að útvíkka þennan rétt eftir því sem stjórnarskrá viðkomandi ríkja heimila. Á Norðurlöndum reið fyrsta bylgja þessara breytinga yfir fyrir um 40 árum síðan. Árið 1975 veittu Svíar öllum erlendum ríkisborgurum kosningarrétt í sveitarstjórnakosningum eftir þriggja ára búsetu. Danir fylgdu í kjölfarið árið 1977 og þá var miðað við þrjú ár en bara fyrir norræna borgara. Síðan bættust Norðmenn og Finnar við árið 1980 og 1981. Öll ríkin hafa síðan afnumið búsetuskilyrðin fyrir Norðurlandabúa og ESB fyrir þau ríki sem eru í ESB og útvíkkað þennan rétt til allra útlendinga en þá oftast með einhvers konar búsetuskilyrði. Ég kaus þannig í dönskum sveitarstjórnarkosningum árið 2005 þegar ég bjó þar í námi.

Þá hafa, eins og ég segi, ESB-ríki útvíkkað þau til allra ESB-borgara.

Í Evrópusambandinu, svo ég fari um víðan völl í Evrópu, hafa ESB-borgarar ríkjanna kosningarrétt í sveitarstjórnum og ríki gamla breska samveldisins hafa sömuleiðis sett sér sambærilegar hefðir. Það ríki Evrópu sem hefur gengið lengst í þessum málum er Írland en þar fá allir erlendir ríkisborgarar kosningarrétt strax, eftir því sem ég best veit, í sveitarstjórnarkosningum og síðan eru mismunandi reglur á landsvísu í forsetakosningum og kosningum til írska þingsins.

Á Íslandi hafa í nokkur ár gilt þær reglur að norrænir borgarar fá atkvæðisrétt eftir þrjú ár en aðrir eftir fimm. Við flutningsmenn frumvarpsins viljum auka þann rétt.

Virðulegi forseti. Það er upplifun mína að eftir ákveðinn tíma í landinu fari menn að hafa áhyggjur og oftast nær áhuga á nærumhverfi sínu. Sá tími er gjarnan 2–3 ár. Það hefur verið þannig fyrir okkur sem höfum tekið þátt í stjórnmálum að ef boðað er til einhvers konar fundar með fulltrúum innflytjenda er það oftast sá tími sem það tekur fólk að koma sér í pólitíska gírinn. Fyrstu tvö árin eru menn einungis að koma sér fyrir, síðan þegar fólk er búið að því, koma til landsins, taka börnin með, kaupa sér íbúð o.s.frv., þá er fólk tilbúið að láta nærumhverfi sitt sig varða.

Ég held að það sé kraftur sem við ættum að virkja. Það þarf nefnilega ekki að vera þannig að kosningaþátttaka sé einhver fríðindi sem við látum af hendi. Við höfum notið þeirrar gæfu á Íslandi og annars staðar Norðurlöndum að búa við frekar virka stjórnmálaþátttöku fólks. Við viljum að þannig verði áfram. Við eigum nefnilega ekki að óttast að hér rísi upp kynslóð fólks af erlendum uppruna sem lætur að sér kveða í pólitík. Við eigum að óttast að það gerist ekki, að hér verði stórir hópar fólks sem telji sig ekki geta haft nein áhrif á stjórn samfélagsins, stjórn landsins og nærumhverfis síns.

Þetta er spurning um valdeflingu en líka spurning um ákveðin borgaraleg réttindi. Þeir fjölmörgu útlendingar sem búa hér borga skatta og það er enginn aðlögunartími þegar kemur að þeim skattgreiðslum. Þá er spurning hvort kosningarréttur, alla vega til sveitarstjórna, ætti ekki að vera meginregla líka, óháð þjóðerni.

Ef við föllumst á að stíga skrefi lengra en við höfum gert hingað til eru nokkur skref í boði. Við sem stöndum að þessu frumvarpi höfum í það minnsta viljað taka það skref að vera svipuð hinum norrænu ríkjunum, þ.e. að aðrir Norðurlandabúar fái kosningarrétt strax. Þá eru nokkrar útfærslur í boði. Við getum gert eins og Írar og sagt bara: Allir útlendingar fá kosningarrétt strax. Það væri skref sem væri þeim sem hér stendur að meinalausu en hugsanlega væri það stærra fyrsta skref en næðist í gegn. Önnur leið væri að fara sömu leið og Norðmenn, að setja Norðurlandabúa á þá reglu að þeir fái kosningarrétt strax en útvíkka síðan réttinn til allra hinna eftir þrjú ár. Þá verður auðvitað að hafa í huga að Norðurlandabúar eru ekki lengur stærsti hópur þeirra útlendinga sem hér búa heldur íbúar hins stóra EES-svæðis. Þeir íbúar þurfa ekki lengur sérstakt leyfi til að setjast hér að. Að því leytinu eru þeir með ámóta rétt hérna í öllu og Norðurlandabúar.

Meginhugmyndin með að draga línuna þar er að um leið og fólk er komið í þá stöðu að hafa öðlast þann rétt að geta búið á Íslandi ótímabundið án frekari kvaða geti það kosið í sveitarstjórnarkosningum. Sá tími er strax fyrir alla íbúa EES-svæðis. Aðrir útlendingar fá þann rétt eftir um þrjú ár.

Við höfum ákveðið að fara þessa leið. Eins og ég segi er hún svipuð því sem þekkist í Danmörku og Svíþjóð.

Reyndar vaknar þá upp sú spurning hvort ekki ætti miðað við þau rök sem ég færi fram, að miða réttinn við réttarstöðu frekar en tímalengd búsetu, þ.e. hvort ætti að miða við það að um leið og menn eru komnir með ótímabundið dvalarleyfi megi þeir kjósa í kosningum til sveitarstjórna. Það eru vissulega ákveðin rök í því. En við höfum hins vegar valið þá leið að miða einungis við tímalengd búsetu samkvæmt lögheimili af þeirri einföldu ástæðu að það er praktískt ódýrari leið til að greina þar á milli. Það væri mikið í lagt að láta kjörstjórn t.d. þurfa að leita eftir skjölum og upplýsingum frá Útlendingastofnun áður en hún ákvæði kjörskrá viðkomandi sveitarfélags. Okkur þykir þessi leið einfaldlega miklu hreinni. Þetta er leiðin sem flest ríki í kringum okkur hafa farið, til að mynda Danmörk, Svíþjóð og Noregur.

Virðulegi forseti. Það er okkur í Viðreisn kappsmál að Ísland sé opið fyrir fólk alls staðar að úr heiminum. Kosningarréttur er mikilvægur þáttur í þátttöku í íslensku samfélagi. Okkur þykir því rétt að útvíkka þann rétt. Ég legg til að frumvarpið gangi til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.



[18:47]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pawel Bartoszek og samþingmönnum hans í þingflokki Viðreisnar fyrir framlagningu þessa máls. Ég vona svo sannarlega að þetta verði eitthvað sem við getum náð saman um að breyta. Ég held að þingmaðurinn hafi fært hér mjög góð rök fyrir því. Við berum okkur mjög oft saman við Norðurlöndin og viljum vera sem líkust þeim og hér er svo sannarlega kominn tími til þess að við stígum þetta skref.

Ég vildi hins vegar bæta því við og spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að við þyrftum — samhliða því að verið er að stytta tímabilið varðandi kosningarétt erlenda ríkisborgara, þegar kemur að kosningum í sveitarstjórn — að tryggja að við getum komið á framfæri betri upplýsingum um mikilvægi þess að fólk af erlendum uppruna taki þátt í okkar lýðræðislega samfélagi. Eitt af því sem hefur til dæmis slegið mig, eftir að hafa farið í kosningaeftirlit annars staðar, er hve oft eru miklu nákvæmari upplýsingar á kjörstað um það hvernig fólk kýs. Það er svo mikilvægur þáttur í því að geta tekið afstöðu að hægt sé að nálgast upplýsingarnar, í því tilviki á fleiri tungumálum en akkúrat á íslensku.



[18:48]
Flm. (Pawel Bartoszek) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að það sé að sjálfsögðu rétt. Það væri æskilegt að samhliða svona breytingum myndum við veita frekari upplýsingar til þeirra sem um ræðir. Ég sé kannski ekki hvernig ég get tengt það efni þessa frumvarps. Þetta frumvarp er um pólitísk réttindi. Svo hef ég ákveðnar væntingar til þess að um leið og ákveðinn hópur getur kosið í kosningum til sveitarstjórna muni ákveðnir hagaðilar, sem eru þá viðkomandi pólitískir flokkar, sjá hag sinn í því að ná sérstaklega til þess hóps á sama hátt og þeir sjá hag sinn í því að ná til allra annarra hópa sem þeir óska eftir að muni kjósa sig.

Ég hef ákveðna upplifun af þessu starfi sem stjórnmálamaður. Miðað er við fimm ár og það er það langur tími að oftast þegar menn halda fund á einhverju tungumáli þurfa flestir þeirra sem mæta kannski ekkert sérstaklega á því að halda að upplýsingar séu veittar á móðurmáli þeirra. Þeir eru bara farnir að tala íslensku ansi vel.

Jú, ég held að þetta sé mikilvægt. En eins og ég segi vænti ég þess að hagaðilarnir, stjórnmálaflokkarnir, muni sjá um að veita ákveðnar upplýsingar í þessu samhengi.



[18:50]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pawel Bartoszek kærlega fyrir svarið. Ég held að það sé mjög táknrænt og jákvætt varðandi þróunina í íslensku samfélagi, varðandi fjölbreytnina, að frumvarpið endurspeglar uppruna forseta og 1. flutningsmanns málsins. Ég held að það sé mjög jákvætt.

Það sem verið er að benda á hér, og þingmaðurinn ítrekaði í framsögu sinni, er að erlendir ríkisborgarar eru orðnir um 8% allra íbúa Íslands. Ef við tökum síðan innflytjendur af annarri kynslóð, sem eiga hugsanlega annað foreldrið af erlendum uppruna, erum við komin í töluvert hærri tölu.

Það er líka annað sem er svo mikilvægt: Ég tel að við Íslendingar höfum að mörgu leyti ekki staðið okkur sérstaklega vel í að efla og styðja við fólk af erlendum uppruna þegar það kemur hingað til lands. En eitt höfum við þó gert vel og það tengist bara okkar menningu, þ.e. að meginþorri þess fólks sem kemur, fullorðins fólks, er virkt á vinnumarkaðnum. Það hefur líka sýnt sig, þegar tölur hafa verið skoðaðar aftur í tímann, að erlendir ríkisborgarar hafa einmitt aukið landsframleiðsluna, skilað verulegum verðmætum inn í samfélagið. Þar af leiðandi er hann réttur rökstuðningurinn sem hv. þm. Pawel Bartoszek fór hér í gegnum: Að sjálfsögðu eiga þeir hinir sömu þá að geta, sem skattgreiðendur og sem einstaklingar sem leggja mjög mikið fram til samfélagsins, haft eitthvað að segja um það hvernig samfélagið er mótað.



[18:52]
Flm. (Pawel Bartoszek) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að bregðast við þessu. Það er ekkert í ræðu hv. þingmanns sem ég er ósammála. Það er alveg rétt að erlendir ríkisborgarar eru um það bil 8% allra landsmanna og ég held að vel færi á því, þegar við útvíkkum þennan rétt, að láta hann ná til stórs hóps fólks, ekki einungis miða við Norðurlandabúa. Norðurlöndin voru atvinnusvæði sem við bjuggum til. Við bjuggum til sameiginlegan norrænan vinnumarkað. Það var það svæði sem við litum til. Í dag er þessi sameiginlegi vinnumarkaður Evrópa. Þess vegna þótti rétt að miða við það.

Að öðru leyti þakka ég þingmanninum kærlega fyrir hennar andsvar.



[18:53]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni og framsögumanni þessa máls, Pawel Bartoszek, sérstaklega fyrir málið og framsöguna. Ég hef dálítið verið í því og ekkert verið feiminn við að játa á mig vanþekkingu. Held að það sé okkur hollt að gera það, þá eru meiri líkur á að við fræðumst.

Hvað þetta mál varðar ætla ég að segja að varðandi útfærsluna hef ég enga sérfræðiþekkingu. Mér finnst þau rök sem hv. þingmaður tiltók hljóma mjög vel. Mér finnst greinargerðin skynsamleg. Svo rímar þetta almennt við afstöðu mína um að sem flestir njóti sem mestra og bestra réttinda hér og tek því heils hugar undir það sem hv. þingmaður kom hér inn á.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra. En ég vildi koma hingað upp til að lýsa yfir stuðningi mínum með málið, ánægju með að við skulum takast á við þetta í umhverfis- og samgöngunefnd. Hv. þm. Pawel Bartoszek kom inn á það, og það kemur einnig fram í greinargerðinni, að margir þeirra sem málið tekur til greiði hér skatta. Það er mjög eðlilegt að mínu viti að þeim fylgi ákveðin réttindi. Það varð nú heilt land til hér árið 1776 undir slagorði sem mætti þýða eitthvað á þá vegu: Engar skattálögur án umboðs. Sem ég þori ekki fyrir mitt litla líf að fara hér með á frummálinu. Bæði óttast ég að hæstv. forseti snupri mig fyrir að tala ekki þingmálið okkar, íslensku, en ekki síður fyrir að hæstv. forseti snupri mig fyrir framburð á frummálinu. Ég held mér við þessa íslensku snörun; engar skattálögur án umboðs. Það er mjög skiljanleg krafa, ef maður er orðinn það stór hluti samfélags að maður er farinn að greiða til þess skatta og leggja töluvert til uppbyggingar samfélagsins, að því fylgi ákveðnar skyldur og réttindi.

Ég hlakka til að ræða þessi mál enn frekar innan nefndarinnar, hafi verið rétt tekið eftir hjá mér að málið kæmi þangað. Hvar sem það verður fagna ég þessu frumvarpi.



[18:56]
Flm. (Pawel Bartoszek) (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp síðara sinni til að þakka í fyrsta lagi umræðuna og í öðru lagi að breyta þeirri ósk minni í samræmi við þær upplýsingar sem ég hef fengið að málið, þar sem það er mál sem lýtur að lýðræði og þeim réttindum, ætti heima í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það var rétt sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé heyrði mig segja, ég mæltist fyrst til þess að málið færi til umhverfis- og samgöngunefndar þar sem ég taldi það varða sveitarstjórnarmál, en þarna er víst heimili þessa máls. Þangað óska ég eftir við þingheim að málið fari. Takk fyrir.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.