146. löggjafarþing — 47. fundur
 23. mars 2017.
skipting útsvarstekna milli sveitarfélaga, fyrri umræða.
þáltill. ÞórE o.fl., 270. mál. — Þskj. 377.

[14:43]
Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga. Hún hljóðar svona:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort unnt sé að skipta útsvarstekjum milli tveggja sveitarfélaga.

Ráðherra hafi samráð við ráðherra sem fer með sveitarstjórnarmál og Samband íslenskra sveitarfélaga.“

Í greinargerð kemur eftirfarandi fram:

„Með þingsályktun þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að skipa starfshóp sem kanni möguleikann á skiptingu útsvarstekna milli tveggja sveitarfélaga.

Nokkuð er um að einstaklingar eigi frístundahús eða jörð, án þess að þar sé stundaður búskapur, í öðru sveitarfélagi en lögheimili er. Útsvarstekjur einstaklings renna til þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili og þar með renna engar útsvarstekjur til sveitarfélagsins þar sem frístundahús eða jörð viðkomandi er staðsett. Jafnvel getur verið um það að ræða að dvalið sé drjúgan hluta ársins á viðkomandi jörð eða í frístundahúsi og þá myndast oft krafa eða vænting um tiltekna þjónustu frá því sveitarfélagi þar sem jörð eða frístundahús er staðsett. Sem dæmi má nefna óskir um snjómokstur og ýmsa aðra þjónustu.

Flutningsmenn telja brýnt að kanna hvort unnt sé að leita leiða til að bregðast við framangreindri áskorun.“

Auk þess langar mig að benda á hluti sem snúa að sveitarfélögunum. Mörg sveitarfélög standa frammi fyrir því að stór hluti jarða í sveitarfélaginu hefur verið seldur til einstaklinga sem ekki búa á staðnum. Af sölunni fær sveitarfélagið engar tekjur því að af því er greiddur fjármagnstekjuskattur. Oft og tíðum kaupa menn þessar jarðir vegna hlunninda. Af hlunnindunum fara heldur engar tekjur til sveitarfélagsins. Þær fara til ríkisins. En margir af þessum eigendum, og ég hef heyrt á tal þeirra, vilja gjarnan vera meiri þátttakendur í samfélögunum þar sem þeir kaupa jarðir eða hús og eru stóran hluta af árinu.

Ég vona að þetta mál fái hér framgang.

Auk mín eru á þessu máli hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, Gunnar I. Guðmundsson, Einar Brynjólfsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Að lokinni umræðu legg ég til að málið gangi til umhverfis- og samgöngunefndar.



[14:45]
Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið heils hugar undir efni þingsályktunartillögunnar sem við ræðum hér. Vandamálið er stórt sem skapast við sumarhús í litlum byggðum þar sem byggingarkostnaður er langt yfir verðmati eigna. Ungt fólk í heimabyggð hefur hvorki aðgengi að kaupum né leigu á húsnæði og lítil bæjarfélög verða draugabyggðir hluta af ári.

Sveitarfélögin sjálf verða síðan fyrir mikilli tekjuskerðingu vegna þessa. Hér stígum við þó skref til þess að mæta þörfum minni sveitarfélaga í fjármögnun, sem gæti orðið til þess að lækka lóðaverð svo hægt sé að byggja á ný.

Píratar hafa fyrirliggjandi stefnu um að virðisaukaskattur verði eftir að hluta á þeim stað þar sem hann er inntur. En þingsályktunartillagan sem við ræðum hér er önnur nálgun á sama viðfangsefni, sem er að styrkja sveitarfélögin. Tillagan rímar því vel við hugmyndir um valdeflingu og stef í grunnstefnu Pírata um verndun þeirra valdaminni gagnvart þeim valdameiri.



[14:46]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að taka þátt í þessari umræðu um skatttekjur eða útsvarstekjur sveitarfélaga. Ég tek heils hugar undir að þetta er eitt af því sem við höfum verið að ræða um árabil, þ.e. hvernig við skiptum tekjum milli ríkis og sveitarfélaga, þetta er einn angi af því, þ.e. að dvelja um lengri eða skemmri tíma á eign sinni sem telst t.d. til frístundahúsa og greiða engin gjöld en þiggja þar margs konar þjónustu sem tilheyrir, hvort sem það er sorphirða eða annað slíkt.

Þetta á líka við um margt annað. Við þekkjum líka að sveitarfélög hafa orðið fyrir því að mikill fjöldi einkahlutafélaga hefur orðið til mjög víða sem hefur kannski skert tekjur sveitarfélaga meira en annars hefði orðið. Það er a.m.k. einhver skýring fólgin í því þar sem sá skattur rennur beint í ríkissjóð og er ekki til skiptingar fyrir sveitarfélögin.

Svo þekkjum við líka hvernig það er núna á stóru ferðamannastöðunum, mér dettur í hug Mývatnssveit, Skútustaðahreppur, sem er lítið sveitarfélag sem hefur á að skipa miklum fjölda starfsmanna yfir hábjargræðistímann sem ekki á lögheimili í sveitarfélaginu og er ekkert skikkaður til þess því það er vöntun á starfsfólki og það kemur í uppgripin. Það þarf að útbúa einhverja aðstöðu fyrir fólk eins og við höfum frétt af og er partur af húsnæðisskorti. Ýmislegt er lagt til en svo fara útsvarstekjurnar auðvitað á lögheimili viðkomandi aðila. Lítil sveitarfélög, og stærri auðvitað, verða af útsvarstekjum sem fylgja þessu.

Það hefur verið rætt við okkur þingmenn Norðausturkjördæmis og eflaust fleiri, á ég von á, hvort ekki sé hægt með einhverjum hætti að skipta útsvarstekjunum þegar viðkomandi er í vinnu í öðru sveitarfélagi, ég veit ekki hvort það ætti að miða við tiltekinn tíma eða ákveðið hlutfall eða eitthvað slíkt, þar sem það sveitarfélag þar sem maður vinnur þiggur einhvern hluta útsvarstekna. Þetta á líka við eins og við þekkjum um vertíðarbissness og hreyfanleika vinnuafls þar sem maki er kannski að vinna í burtu í einhverjum lotum og kemur svo heim og þiggur náttúrlega þjónustu á báðum stöðum og skilar vinnuframlagi á öðrum. Þá skila tekjurnar sér ekki nema á annan staðinn.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka til gagngerrar endurskoðunar. Því veldur það vonbrigðum núna þegar við erum að fara að taka fjármálastefnuna til umræðu í næstu viku að ekki skuli hafa tekist samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um þessa tekjuskiptingu annars vegar og svo líka um útgjalda- og viðmiðunarmörk. Það virðist ekki sjá til lands í þessu. En ég vona að þennan starfshóp verði hægt að skipa því að við höfum ekki verið beinlínis að horfa á þetta. Ég held að það hafi ekki verið horft til þess hjá fyrrverandi fjármálaráðherra og væntanlega ekki núverandi heldur þegar rætt hefur verið um að prósentan sé svo lág sem ríkið tekur til sín af heildarskattprósentunni og það renni töluvert til sveitarfélaganna. En einhvern veginn þarf samt sem áður að skipta tekjunum með sanngjörnum hætti út frá þessum sjónarmiðum. Það er eitt að hækka tiltekna prósentu eða þá að skipta þessu þar sem fólk dvelur stóran hluta úr ári eða skemmri tíma, það þarf að finna flöt á því að skipta þessu.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vona að það verði auðveldara að finna flöt á þessu en virðist vera í öðrum samningaviðræðum milli ríkis og sveitarfélaga þessa dagana um svo ótrúlega mörg mál og gráu svæðunum fjölgar alltaf. En þetta er gott mál og á svo sannarlega rétt á sér. Ég vona að það nái fram að ganga.



[14:51]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp til að taka undir þessa þingsályktunartillögu um að skipaður verði starfshópur um að finna út úr því hvort ekki sé skynsamlegt að hægt sé að skipta útsvarstekjum á milli tveggja sveitarfélaga. Við þekkjum það, og það gerðist kannski í meiri mæli upp úr aldamótum í uppsveiflunni sem þá varð, að mjög margir einstaklingar keyptu jarðir og jörðum var skipt upp í smábýli, lítil lögbýli, sem menn hafa síðan nýtt í vaxandi mæli til dvalar og jafnvel atvinnu að hluta til, annars vegar á þeim stað og svo í því sveitarfélagi sem þeir ellegar búa og hafa lögheimili í. Margir þessara aðila, eins og kom fram hjá hv. þm. og flutningsmanni Þórunni Egilsdóttur, hafa áhuga á að taka þátt í samfélaginu sem þeir dvelja í jafnvel hálft árið eða í það minnsta jafn stóran hluta ársins og á þeim stað þar sem þeir hafa lögheimili og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir vilji að tekjur þeirra renni jafnframt til sveitarfélagsins þar sem þeir dvelja.

Í mörgum löndum í kringum okkur hafa menn haft áhyggjur af þessari þróun. Það er sjálfsagt að hafa þær áhyggjur hér líka. Við þurfum jú að verja gott landbúnaðarland til matvælaframleiðslu. Þess vegna hafa sveitarfélög í auknum mæli tekið upp skýrar reglur þar að lútandi. Í landsskipulagsstefnu sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili voru einmitt sett slík ákvæði til stuðnings sveitarfélögunum, að hafa skýra stefnu um hvernig þau geta tryggt það í skipulagi að góðar jarðir til matvælaframleiðslu verði nýttar áfram til hennar. En það eru líka til önnur landsvæði þar sem ekkert er að því og er til bóta að halda áfram uppbyggingu fyrir þá sem vilja koma og dvelja í samfélaginu. Þess vegna getur þessi tillaga hjálpað til við að skapa tekjur inn í það samfélag. Það er m.a. vilji þeirra sem hafa ákveðið að skipta búsetu sinni með þessum hætti.

Mörg önnur lönd eins og Noregur og Danmörk, svo dæmi séu tekin, ganga vissulega miklu lengra, gera kröfu um búsetuskilyrði, þ.e. að það sé skylt að búa á jörðum sem menn kaupa. Í Danmörku er skylt að nýta landið til landbúnaðar. Það er ekki hægt að kaupa land og eiga það og gera eitthvað annað við það. Við höfum ekki velt fyrir okkur að ganga svo langt en ég vil þó minna á starfshóp sem þáverandi landbúnaðarráðherra, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, setti á laggirnar í haust og vonast til að núverandi ríkisstjórn fylgi honum eftir, sem sneri að því hvernig við getum varið ríkisjarðir og jarðir sem eru nýttar til matvælaframleiðslu til áframhaldandi matvælaframleiðslu og hvernig við förum með kaup og sölu á jörðum. Það er einfaldlega ekki þannig að jarðir eigi að vera eins og hver önnur fasteign. Þetta er land sem við nýtum til matvælaframleiðslu fyrir komandi kynslóðir ekki síður en okkur sem búum hér á landinu í dag.

Það er eitt sem ég vil koma á framfæri. Ég tel að það þurfi að skoða það mjög vel hvort þetta eigi að gilda líka um frístundahús. Það gæti orðið hængur á fyrir sveitarfélögin ef í frístundahúsum, þar sem ekki er leyfð heilsársbúseta, fer að búa fólk sem greiðir útsvar og getur þar af leiðandi eðlilega krafið sveitarfélagið um ýmsa þjónustu. Þá myndi verða ósamræmi á milli svæða sem menn skilgreina sem heilsársbúsetusvæði þar sem sótt er sorp, börn sótt í skóla og sjúkraflutningum sinnt og annað í þeim dúr, og hinna raunverulegu sumarhúsasvæða eða frístundabyggða þar sem slík búseta er ekki heimil.

En varðandi hinn þáttinn, allan þann fjölda jarða, hvort sem eru stórar jarðir eða jarðir sem er búið að búta niður í smábýli, held ég að þetta sé mjög góð tillaga og kem hérna fyrst og fremst upp til að styðja við hana og vonast til að hún fái góða umfjöllun í nefnd og komi aftur til þingsins til afgreiðslu síðar í vor.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til um.- og samgn.