146. löggjafarþing — 48. fundur
 27. mars 2017.
mengun frá United Silicon.

[15:19]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hæstv. umhverfisráðherra er ekki í salnum og hæstv. forsætisráðherra ekki heldur til þess að svara fyrirspurn um málefni er lýtur að verksmiðju í Reykjanesbæ, United Silicon. Því langar mig að beina fyrirspurn minni er lýtur að þessum málaflokki til hæstv. heilbrigðisráðherra, því að hann er jú formaður eins flokks sem á sæti í þessari ríkisstjórn. Samþykkt hefur verið tillaga um meira samráð milli ráðherra um flókin málefni og töluvert var rætt í samningaviðræðum við myndun ríkisstjórnar að nauðsynlegt væri að meira samráð væri á milli ráðuneyta og ráðherra þegar kæmi að því að taka á málefnum sem spanna mörg svið.

Í þessu tilfelli fellur einn þáttur þessa máls undir málasvið hæstv. heilbrigðisráðherra og varðar það heilsutjón sem íbúar bæjarfélagsins óttast að verða fyrir. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Stendur til að að funda þvert á flokka eða þvert á ráðuneyti um þetta mál og hvernig bregðast skuli við því? Hefur það eitthvað verið rætt á ríkisstjórnarfundum hvort til standi að verða við óskum sveitarfélagsins um að verksmiðjunni verði lokað?



[15:21]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og traustið að beina henni til mín. Það verður að segjast eins og er að ég sem heilbrigðisráðherra hef ekki haft þessi mál á borðinu hjá mér og á erfitt með að svara fyrir hæstv. umhverfisráðherra og vinnu hennar eða vinnu í ráðuneyti hennar. Ég þykist þó vita, og hef heyrt það, að málefni þessarar verksmiðju hafa verið sérstaklega uppi á borðinu undanfarið enda hafa margar fréttir verið af vandræðagangi í rekstrinum.

Auðvitað mun hætta á heilsutjóni þar koma beint mitt á borð og okkar á heilbrigðissviði velferðarráðuneytisins en það er ekki komið þangað enn. Ég get því eiginlega ekki svarað nákvæmar fyrir hæstv. umhverfisráðherra í þessu samhengi. Ekki hefur komið sérstaklega til tals að ræða þetta mál á þverfaglegum grunni ráðherranna, ekki svo ég viti, en ég vil alls ekki útiloka að það geti verið gáfulegt. Eins og er veit ég lítið meira um þetta mál en það sem stendur í fjölmiðlum og hv. þingmaður vitnar væntanlega til. Ég verð að svara því þannig að réttast sé að fá upplýsingar um það frá hæstv. umhverfisráðherra.



[15:23]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð nú bara að spyrja: Það voru þingflokksfundir hér rétt áðan og mér skilst að umhverfisráðherra hafi setið á þingflokksfundi með hæstv. heilbrigðisráðherra. Var þetta mál ekkert rætt á þingflokksfundi flokksins, Bjartrar framtíðar? Það kemur verulega á óvart. Og ég verð líka að nefna að ítrekað hefur verið farið fram yfir heilsumörk varðandi arsen, sem fer yfir leikskólasvæði í byggðarlaginu. Þetta hefur verið vitað. Við höfum fengið ítarlegar upplýsingar um þessi vandamál frá Umhverfisstofnun, vandamál sem lúta að heilbrigðismálum, frá því í upphafi þessa árs. Því verð ég að spyrja hæstv. ráðherra og formann ríkisstjórnarflokks að því hvort ekki sé tilefni til að kalla saman þverfaglegan fund með ráðherrum úr öllum ríkisstjórnarflokkum til að fara yfir þetta mál strax í dag.



[15:24]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður veit þá er umræða á þingflokksfundum stjórnmálaflokkanna almennt um málefni þingsins og það er nú kannski ekki vani að við ræðum þær umræður sérstaklega hér í þingsal. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að auðvitað hef ég eins og aðrir áhyggjur af þessum fréttum, þegar við heyrum af mengun sem fer yfir hættu- og viðmiðunarmörk. Ég ber fullt traust til hæstv. umhverfisráðherra til að taka slíkar upplýsingum mjög alvarlega og treysti því að hún og starfsfólk í ráðuneyti hennar séu að skoða þetta mál. Ég geri ráð fyrir því að ríkisstjórnin muni ræða þessi mál á næsta fundi sínum og ég hef ekki ástæðu til annars en að treysta vinnu hæstv. umhverfisráðherra þar til ríkisstjórnin kemur saman.