146. löggjafarþing — 48. fundur
 27. mars 2017.
kostnaðarþátttaka sjúklinga vegna sérfræðiþjónustu.

[15:40]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegur forseti. Ég er hér með spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra sem varðar kostnaðarþátttöku almennings vegna mismunandi tegundar sérfræðiþjónustu.

Það styttist í innleiðingu á nýju greiðsluþátttökukerfi eins og hér hefur komið fram. Ætlunin er að verja þá notendur heilbrigðisþjónustunnar sem þurfa á mikilli þjónustu að halda. Af því tilefni sendi ASÍ frá sér tilkynningu um daginn. Athygli mín var vakin á því að í dæmum sem ASÍ tók af kostnaðarþátttöku almennings á þrenns konar þjónustu, þ.e. viðtali við kvensjúkdómalækni, viðtali hjá háls-, nef- og eyrnalækni og viðtölum hjá hjartalækni, var kostnaðarþátttaka almennings, kvenna, varðandi viðtöl hjá kvensjúkdómalækninum töluvert hærri. Í kjölfarið fór ég í nánari skoðun og greindi tölur frá árunum 2010–2016. Gróf yfirferð leiðir í ljós að þegar við skoðum meðaltal kostnaðarþátttöku almennings þá er hún í blönduðum greinum, þ.e. þar sem ekki er munur á því hvort karlar eða konur sækja þjónustuna, 11,5% yfir heildarmeðaltali. Þegar um er að ræða svokallaðar kvenlegar greinar er kostnaðarþátttaka almennings 10% yfir meðaltali. En þegar um er að ræða karllægar greinar er kostnaðarþátttaka einstaklinganna 33% undir meðaltali.

Ég ætla í sjálfu sér ekkert að standa hér og mótmæla því ef lesa má milli línanna að karlar séu almennt einfaldari og ódýrari gerð af homo sapiens en konur. En mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort ekki sé ástæða til að fara betur ofan í saumana á þessum málum, kyngreina komugjöld til sérfræðinga og nota tækifærið nú þegar verið er að vinna að breytingum á greiðsluþátttökureglugerðum og koma þessum málum í lag. Því að þetta er ekki í lagi svona.



[15:42]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða fyrirspurn. Nú erum við að taka í gagnið nýtt kostnaðarþátttökukerfi sem unnið var af þverpólitískri nefnd sem skilaði af sér til heilbrigðisráðherra í mars 2015. Það er greiðslujöfnunarkerfi sem jafnan er kennt við Pétur H. Blöndal sálugan; hann er þingmaðurinn sem er skrifaður fyrir hugsuninni á bak við kerfið. Eins og hv. þingmaður benti á er það hannað til að dreifa kostnaðarþátttöku á sjúklinga þannig að þeir sem njóta mjög mikillar þjónustu greiði minna en ella, en þeir sem nota þjónustuna minna greiði að einhverju leyti meira. Auk þess var samkomulag um það — það var hluti af því þegar nýju lögin voru samþykkt í júní 2016, af öllum þingmönnum, ef ég man rétt, sem greiddu atkvæði — að bæta peningum inn í kerfið til þess að koma sérstaklega til móts við börn, aldraða og öryrkja.

Ég verð að taka undir með hv. þingmanni, ég er sjálfur mikill aðdáandi kynjaðrar hagstjórnar og finnst að kynjagleraugun séu mjög mikilvæg þegar kemur að því að skoða málefni, bæði heilbrigðismál en ekki síður fjármál og excelinn. Ég verð að viðurkenna að almennt þegar ég horfi á heilbrigðisþjónustu og krankleika þá kyngreini ég hvorki þjónustuna né vandræðin, en ég veit að vissulega er sum heilbrigðisþjónusta háðari öðru kyninu en hinu. Ég hef ekki annað en orð hv. þingmanns fyrir þessum mismun sem mér þykir sláandi. Mér finnst vissulega ástæða til að skoða það betur og greina. Ég mun fagna þeirra vinnu og beita mér fyrir henni. Ég kem kannski betur að því í seinni ræðu.



[15:44]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir svarið. Það er enda í anda þess sem ég vonaðist til að fá. Ég hef fullan skilning á því, þrátt fyrir töluverða umfjöllun í fjölmiðlum síðasta árið, ef ég man rétt, um hinn svokallaða bleika skatt sem virðist detta á hinar ótrúlegustu vörur, svo lengi sem einhverjar líkur er á að konur eða stúlkur noti þær umfram karla eða pilta, að það þarf töluvert hugmyndaflug til að ímynda sér að bleiki liturinn sé að ryðja sér til rúms í heilbrigðiskerfinu eins og þessar tölur benda til. Ég get því ekki annað en fagnað því að hæstv. ráðherra ætli að taka þetta upp og býð fram aðstoð mína við að sýna honum þessar tölur sem ég hef verið að glöggva mig á.



[15:45]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég fagna því að fá að skoða þessar tölur betur. Það er alveg ljóst að í nýjum lögum um greiðsluþátttöku er það alls ekki ætlun löggjafans, ekki andi laganna, þvert á móti vil ég meina, að mismuna fólki eftir kyni eða öðru. Þvert á móti er löggjöfin sérstaklega hönnuð og sett fram til að reyna að jafna byrðarnar, bæði að reyna að koma í veg fyrir að þeir sem þurfa að nota mikla og fjölbreytta heilbrigðisþjónustu þurfi að greiða sérstaklega mikið fyrir það, eins og brögð voru að í fyrra kerfi, því miður, en einnig að gera það þannig að reyna að hlífa þeim sem hallast standa við miklum kostnaði. Það var greint að það væru sérstaklega barnafjölskyldur, heilbrigðisþjónusta barna, aldraðir og öryrkjar. Ég fagna þessari umræðu og hlakka til þess að halda henni áfram í betra tómi.