146. löggjafarþing — 48. fundur
 27. mars 2017.
almenningssamgöngur.
fsp. SilG, 142. mál. — Þskj. 201.

[18:37]
Fyrirspyrjandi (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Undanfarið hefur framkvæmd landshlutasamtaka sveitarfélaga í almenningssamgöngum verið til umræðu og hallar þar mjög á samtökin. Í nýlegri fundargerð Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi segir m.a. að nauðsyn sé að að tryggja landshlutasamtökum einkaleyfi almenningssamgangna og að einkaréttur landshlutasamtakanna til að starfrækja almenningssamgöngur á tilteknum leiðum og svæðum verði virtur og að þeim rétti sé veitt ríkari vernd í lögum. Samtökin fara einnig fram á að gerður verði skýrari greinarmunur á almenningssamgöngum og farþegaflutningum í atvinnuskyni. Hið sama er uppi á teningnum á Suðurnesjum. Þar hafa hagsmunaaðilar í hópferðaþjónustu barist gegn því að leiðin Flugstöð–Reykjavík verði skilgreind sem almenningssamgöngur og vilja óhefta samkeppni. Samkeppniseftirlitið hefur gefið út álit sem styður sjónarmið hópferðafyrirtækjanna. Nú hefur innanríkisráðuneytið beitt sér gegn samningi milli Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og lægstbjóðanda. Vegagerðin afturkallaði síðan ólöglegt sérleyfi SSS á leiðinni, svo nú eru almenningssamgöngur á Suðurnesjum sem og á landinu öllu í uppnámi, en niðurstaða dómstóla liggur enn ekki fyrir.

Í áliti Samkeppniseftirlitsins er gengið út frá því að umrædd leið sé ekki almenningssamgöngur heldur ferðaþjónusta. Þar segir einnig að óheimilt sé samkvæmt Evrópurétti að nýta leiðir er skila hagnaði til að bæta þjónustu á öðrum leiðum. Jafnframt er fullyrt að SSS muni nýta tekjur af þessari leið í almennan rekstur sveitarfélaga. Ekkert af þessu á við rök að styðjast.

Í Evrópurétti er heimilt að ríki veiti sérleyfi á almenningssamgöngur og að ágóða af arðbærum leiðum megi nýta til að bæta þjónustu á óarðbærum leiðum svo fremi sem kerfið í heild skili ekki hagnaði. Alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum eru akstursleiðir frá alþjóðaflugvöllum taldar hluti af almenningssamgöngum enda hefur almenningur hag af hagkvæmum og greiðum samgöngum um alþjóðaflugvöll.

Almenningssamgöngur eru á ábyrgð ríkisins og fer Vegagerðin með það verkefni. Árið 2011 var lögum um fólks- og farflutninga á landi breytt svo Vegagerðinni væri heimilt að fela Samtökum íslenskra sveitarfélaga að sjá um almenningssamgöngur á sínu starfssvæði. Rökin voru að sveitarfélög þekktu best þörfina innan svæðismarka sinna og gætu best nýtt féð almenningi til hagsbóta. Samtök sveitarfélaga víðs vegar um landið hafa farið í útboð og í mörgum tilvikum hafið samstarf við Strætó bs. Almenn ánægja er með þetta fyrirkomulag hjá almenningi. Kostir þess að auka notkun almenningssamgangna eru m.a. minna álag á samgöngukerfið og minni útblástur, sem sagt jákvæð umhverfis- og samfélagsleg áhrif.

Sú sem hér stendur vill að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur. Það hefur marga kosti í för með sér, eins og áður er nefnt. Ég vil ekki að kerfið okkar sé þannig að einkaaðilar fái gróðann af leiðum sem standa undir sér en almenningur greiði hallann af óhagstæðum leiðum.

Síðan þessi fyrirspurn var lögð fram er liðinn dágóður tími og hefur ráðherra í millitíðinni lagt fram frumvarp um almenningssamgöngur sem er nú hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Mig langar samt til þess að heyra hvaða sýn ráðherra hefur á nokkur atriði:

Hefur ráðherra í hyggju að veita landshlutasamtökum einkaleyfi almenningssamgangna? (Forseti hringir.)

Er ráðherra sammála því að tryggja þurfi að arðbærar leiðir séu hluti af leiðakerfum almenningssamgangna á vegum sveitarfélaga?

Hyggst ráðherra beita sér fyrir að gerður verði skýrari greinarmunur á almenningssamgöngum og farþegaflutningum í atvinnuskyni?



[18:40]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér mál sem hefur valdið dálitlum deilum og misjafnar skoðanir hafa verið uppi um.

Hér er spurt hvort ráðherra ætli að beita sér fyrir úrbótum á lagaumhverfi almenningssamgangna. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns er núna til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Þar er gerður skýr greinarmunur á reglubundnum farþegaflutningum, þ.e. almenningssamgöngum, og öðrum farþegaflutningum í atvinnuskyni. Þá er í frumvarpinu kveðið á um hvaða skilyrði heimilt er að veita einkaleyfi til að skipuleggja almenningssamgöngur um auknar eftirlitsheimildir með farþegaflutningagreininni og um viðurlög við því að aka í reglubundnum farþegaflutningum á þeim svæðum eða leiðum þar sem einkaleyfi hafa verið veitt. Þessar auknu eftirlitsheimildir og viðurlög fela í sér talsverðar úrbætur á lagaumhverfi almenningssamgangna. Það eru svo sem engar frekari aðgerðir fyrirhugaðar af okkar hálfu. Hér er um að ræða beina innleiðingu á Evrópureglum. Þetta mál var unnið í góðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Við teljum að þetta muni tryggja þessi sérleyfi í almenningssamgöngum.

Það er spurt líka hvort ráðherra hafi í hyggju að veita landshlutasamtökum einkaleyfi almenningssamgangna. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001, hefur Vegagerðin heimild til að veita sveitarfélögum, byggðasamlögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga einkaleyfi til að skipuleggja og sjá um almenningssamgöngur með bifreiðum á tilteknu svæði og á tilteknum leiðum. Landshlutasamtökum sveitarfélaga hefur verið veitt einkaleyfi í samræmi við 7. gr. gildandi laga að undanskildum Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í 7. gr. frumvarps til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, sem er núna til umfjöllunar hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd, eru sömu heimildir fyrir og eru í þessum efnum.

Einnig er spurt hvort gerður verði skýrari greinarmunur á almenningssamgöngum og farþegaflutningum í atvinnuskyni. Því er til að svara sem hefur komið fram í máli mínu, virðulegur forseti, að talið er af ráðuneytinu, eftir því sem ég best veit, vera um það sátt með Samtökum íslenskra sveitarfélaga, sú útlistun sem er í umræddu lagafrumvarpi. Ég vænti þess að það eigi að geta hlotið afgreiðslu núna á vordögum og muni tryggja þessa hagsmuni sveitarfélaganna sem eru mjög mikilvægir. Því ætti að linna ákveðinni óvissu sem að okkar mati hefur verið um þessi mál.



[18:44]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka ég umræðuna, ég er að verða þakklátasti maður þessa Alþingis, alltaf að koma hér upp í pontu að þakka fyrir, og svör hæstv. ráðherra.

Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kom inn á að í hv. umhverfisnefnd væri lagafrumvarp um almenningssamgöngur. Það er ekki alls kostar rétt. Eins og hæstv. ráðherra benti á er það lagafrumvarp um fólksflutninga annars vegar og farmflutninga hins vegar. Ég held að það sé akkúrat það sem við eigum að gera núna á næstunni, að setja sérstök lög um almenningssamgöngur. Margir þeirra umsagnaraðila sem skiluðu umsögnum við það frumvarp sem við erum að fjalla um í nefndinni tiltóku það sérstaklega. Almenningssamgöngur eru það sérhæft fyrirbæri sem um gilda það sérstakar aðstæður að ég hvet hæstv. ráðherra til að setja sérstök (Forseti hringir.) lög þar um. Ef hæstv. ráðherra sér sér það ekki fært vegna einhverra ástæðna, anna eða einhvers annars, þá tel ég að hæstv. umhverfis- og samgöngunefnd (Forseti hringir.) eigi að stíga (Forseti hringir.) skref í þeim efnum.



[18:45]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka einnig fyrir þessa umræðu, hv. þingmanni fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn og svo ráðherra. Ég á líka sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þar sem við erum einmitt að fjalla um umrætt frumvarp sem tekur á þessu. Ég held að búið sé að liggja lengi yfir frumvarpinu, bæði í ráðuneytinu og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég vonast til þess að við séum þarna með gott tæki í höndunum til að tryggja þetta hvað einkaréttinn varðar og þá réttaróvissu sem hefur verið uppi þar. Þá er líka mikilvægt að til séu ákveðin stjórnsýslutæki til að bregðast við ef talið er að verið sé að keyra ofan í einkaréttinn.

En ég ætla líka að fá að taka undir með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé hvað það varðar að líklegt er að á næstunni þyrftum við að fara í að gera sérstakt frumvarp um almenningssamgöngur. Þá er ég kannski líka að vísa til ákveðinna tæknibreytinga og nýjunga sem verða hérna vonandi á næstunni, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu hvað borgarlínu varðar og annað. Þá vil ég líka koma því á framfæri að við þurfum kannski að taka af einhvern vafa um hver beri ábyrgð á almenningssamgöngum og hver greiði fyrir þær.



[18:46]
Fyrirspyrjandi (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er alltaf gaman að fara í svona munnlega fyrirspurn vegna þess að það er svo gaman að fá sjónarmið fleiri þingmanna. Ég þakka fyrir innlegg hv. þingmanna Kolbeins Óttarssonar Proppés og Bryndísar Haraldsdóttur. Þar kemur einmitt fram að mögulega er þörf á sérstöku frumvarpi um almenningssamgöngur og ég vona að hæstv. ráðherra taki það til greina og til frekari skoðunar.

Það frumvarp sem um ræðir, sem er til umfjöllunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, hefur verið unnið í ágætu samkomulagi við sveitarfélögin en engu að síður hafa þó nokkrar umsagnir borist með gagnrýnum punktum varðandi það sem betur mætti fara. Mig langar til að nefna hér tvö atriði úr umsögn Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi: Annars vegar bendir sambandið á að bæta þurfi við heimild Samgöngustofu til að leggja stjórnvaldssektir á aðila ef brotið er gegn einkarétti. Það verði að vera skýr viðurlög sem hafi áþreifanlegar afleiðingar fyrir fólk ef brotið er gegn einkaréttinum. Annað sem kemur fram, sem er ákveðinn galli sem skýra þarf nánar, varðar svokallaða hringmiða. Það hafði ég til dæmis ekki hugsað út í, þ.e. þegar fólk kaupir sér hringmiða, sem er þá ferðalag með nokkrum viðkomustöðum, þarf að takmarka hvernig hringurinn er skilgreindur. Annars er einkaleyfi lítils virði og býður í raun upp á misnotkun ef þetta liggur ekki skýrt fyrir. Menn geta því farið fram hjá kerfinu með þessum hringmiðum. Ég vil að við skoðum það.

Ég náði því ekki alveg hjá hæstv. ráðherra, og bið hann um að svara því hvort hann er sammála því að tryggja þurfi að arðbærar leiðir séu hluti af leiðakerfi almenningssamgangna á vegum sveitarfélaga. Ég náði því ekki alveg í svari ráðherra hér áðan.



[18:49]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns þá gengur málið út á að hægt sé að veita einkaleyfi til að skipuleggja almenningssamgöngur. Það á auðvitað við eitthvert heildstætt kerfi og þar með þær leiðir sem eru fjölfarnari, ef við getum orðað það þannig. Það er alveg ljóst að sumar leiðir munu bera sig og viðurlög eiga að vera við því ef einkaaðilar taka upp á þeirri iðju að pikka upp farþega á þessum leiðum og rýra þar með gildi heildarkerfisins. Við teljum okkur vera að komast fyrir það.

Ég fagna þeirri umræðu sem er um almenningssamgöngur. Ég tek þeirri hugmynd vel ef talin er ástæða til að skoða sérstaka löggjöf um almenningssamgöngur. Það er rétt hjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur að breytingar eru í farvatninu sem eru kannski stærri, ef þær ganga eftir, en við höfum áður séð, sem tengjast þessari svokölluðu borgarlínu. Þó að það sé á byrjunarstigi þarf að huga að því.

Ef einhverjir hnökrar eru á þessu máli, eitthvað sem betur má fara, og koma fram í meðförum nefndarinnar er okkur í lófa lagið að reyna að bæta málin. Til þess er hin þinglega meðferð. Ég fagna því og óska þá eftir samstarfi við hv. þingmenn í nefndinni um þær breytingar. Það er mikilvægt að heildarsýn sé til og við förum ekki gegn þeirri alþjóðalöggjöf sem við erum að hluta til bundin af í þessum efnum.