146. löggjafarþing — 48. fundur
 27. mars 2017.
vegarlagning um Teigsskóg.
fsp. ELA, 182. mál. — Þskj. 253.

[19:07]
Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það hefur nú ýmislegt komið fram sem varðar þetta mál frá því að fyrirspurn um vegarlagningu um Teigsskóg var lögð fram. Frá því að fyrirspurnin var lögð fram hefur m.a. komið í ljós að það fjármagn sem eyrnamerkt hefur verið til margra ára til vegaframkvæmda í Gufudalssveit er ekki lengur til staðar þrátt fyrir að sú framkvæmd hafi verið inni í þeirri samgönguáætlun sem kom frá fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra. Og einhverra hluta vegna stóð ég, sem þingmaður, í þeirri trú að framgangur þeirra verkefna sem lagt var upp með af hálfu hæstv. ráðherra á þeim tíma væri tryggður. Við þekkjum síðan öll þá umræðu að samgönguáætlun eins og hún kom frá hv. Alþingi hafi ekki verið fjármögnuð nema að hluta, en við hljótum öll að muna eftir samþykkt fjárlaga þar sem fram kom að það væri verkefni nýrrar ríkisstjórnar að bæta við þá málaflokka sem forgangsraða ætti til.

Nú hefur hæstv. samgönguráðherra fundið 1.200 milljónir til að bregðast við því sem upp á vantaði og þar eru 200 milljónir ætlaðar í verkefnið um Teigsskóg. Ég hef verið að þrýsta á framgang þessa máls, þ.e. vegalagningu um Teigsskóg, verkefni sem ekki hefur gengið neitt í allt of mörg ár. Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum eru vægast sagt orðnir langþreyttir á stöðunni. Þess vegna spurði ég fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra hvort hægt væri að áfangaskipta verkefninu. Í umræðu við hæstv. þáverandi innanríkisráðherra kom fram að hægt væri að skoða þann möguleika þegar ný matsskýrsla kæmi fram. Þá væri jafnvel hægt að áfangaskipta verkefninu og byrja á þeim hluta leiðarinnar sem sátt ríkir um, þ.e. að gefa von um að eitthvað fari að gerast í þessum málum og byrja nú þegar á að þvera Gufufjörð og Djúpafjörð og losna sem fyrst við Ódrjúgsháls. Síðan þegar niðurstaðan fengist í þetta margra ára deilumál yrði vegagerð í Þorskafirði boðin út og vonandi yrði hægt að gera það sem allra fyrst.

Nú er matsskýrslan komin fram og á morgun, alla vega samkvæmt fréttum, mun Skipulagsstofnun skila áliti sínu um málið. Vonandi fara línurnar þá að skýrast í málinu.

Núverandi hæstv. samgönguráðherra hefur talað á þann veg að forgangsraðað verði til þessara framkvæmda um leið og niðurstaða fæst í málið. En við erum bara með 200 milljónir núna á áætluninni til þess að vinna að þessu verkefni og við komumst nú ekki langt með það. Þar sem núna er farið að glitta verulega í endamarkið, að Skipulagsstofnun skili af sér, langar mig að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann viti eitthvað um málið, hvort hann geti upplýst okkur hér og nú hvort einhver von sé um að niðurstaða og sátt fáist.

Í ræðu minni hef ég rætt efni 1. og 4. spurningar fyrirspurnarinnar og spyr að lokum:

Hvenær telur hæstv. ráðherra að hægt verði að hefja umræddar framkvæmdir við Vestfjarðaveg ef niðurstöðurnar verða jákvæðar?

Verði niðurstöður matsferlis neikvæðar, kemur þá til greina að skipta verkefninu upp, eins og ég ræddi hér að framan?



[19:10]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Lengi hefur verið beðið eftir vegargerð þarna fyrir vestan. Hún er orðin brýnni en nokkru sinni fyrr í ljósi öflugrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu þar sem miklir þungaflutningar fara um með þær afurðir sem þar eru framleiddar. Matsskýrsla milli Bjarkalundar og Skálaness í endanlegum búningi var formlega móttekin af Skipulagsstofnun 27. febrúar 2017 og eins og fram kom hjá hv. þingmanni er reiknað með því að Skipulagsstofnun skili af sér áliti á morgun. Þótt niðurstaða Skipulagsstofnunar verði jákvæð fyrir svokallaða Teigsskógsleið er á þessu stigi erfitt að segja til um hvenær hægt verður að hefja framkvæmdir. Þegar niðurstaða Skipulagsstofnunar liggur fyrir eru næstu skref að sækja um framkvæmdarleyfi til Reykhólahrepps og hefja formlegar samningaumleitanir við landeigendur. Hugsanlegt er að veiting þess verði kærð. Fari svo er óljóst um framhaldið. Hversu langan tíma tekur að semja við landeigendur er einnig erfitt að segja til um. Vegagerðin telur sig síðan þurfa einn til þrjá mánuði til að hafa útboðsgögn tilbúin.

Það er spurt, verði niðurstöður matsskýrslunnar neikvæðar, hvort til greina komi að skipta verkinu upp. Í matsskýrslu, sem nú liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun, er gert ráð fyrir fimm mismunandi valkostum. Vegagerðin leggur til sem fyrsta valkost leið ÞH, eða svokallaða Teigsskógsleið. Verði sú leið einhverra hluta vegna ekki fær þarf að taka ákvörðun um næsta valkost. Alls er óvíst hver sá valkostur verður, en umrædd þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar fellur eingöngu að þremur af þessum fimm leiðum.

Eins og fram kom samþykkti ríkisstjórnin síðastliðinn föstudag aukafjárveitingu til vegframkvæmda upp að 1.200 millj. kr. á árinu. Heildarkostnaður við veginn um Gufudalssveit eða Teigsskóg er áætlaður um 6 milljarðar kr. Við reiknum með því að á árinu 2017 fáist framkvæmdarleyfi og að hafnar verði framkvæmdir fyrir 200 millj. kr. þannig að hægt verði að bjóða út fyrsta verkþáttinn, skapa aðstöðu fyrir verktaka og gera skarð í gegnum Teigsskóg og aka með fyllingarefni út í firðina.

Varðandi frekari fjármögnun munum við líta til afgreiðslu fjárlaga og nýrrar samgönguáætlunar sem við reiknum með að leggja fram á Alþingi í lok þessa árs eða í byrjun þess næsta.

Það er alveg ljóst að hér er um að ræða eitt af forgangsmálum í samgöngukerfi okkar. Ég hef sagt að við munum leita allra leiða til að hraða framkvæmdum og við gerum okkur grein fyrir mikilvægi þeirra fyrir íbúa þarna og ekki síður þann aukna þrýsting sem myndast vegna mikillar uppbyggingar í atvinnulífinu. Hitt er svo annað mál að verkefnin eru víða og þau eru mjög stór. Við þekkjum öll þá sorglegu sögu, þ.e. afleiðingar þess að við höfum ekki ráðist í frekari framkvæmdir hér í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, en þau tíðu slys sem við höfum orðið vitni að eru dæmi um það. Þess vegna erum við að láta skoða í ráðuneytinu hvort við gætum mögulega tekið þessar fjárfreku framkvæmdir út fyrir sviga með því að leita annarra leiða við fjármögnun þeirra, en í heildina má reikna með að þetta séu verkefni sem geti numið allt að 100 milljörðum kr. og jafnvel meira. Það kemur í ljós í þeirri vinnu sem er í gangi núna, við að ná utan um þetta, en fyrsti áfangi hennar liggur fyrir á vordögum.

Þá eigum við eftir öll hin verkefnin, virðulegur forseti, sem eru út um hinar dreifðu byggðir og reyndar hér á höfuðborgarsvæðinu líka. Til að nefna dæmi er áætlað að fullnaðarfrágangur við veginn um Skógarströnd, sem er nánast algjörlega óboðlegur, kosti um 6 milljarða kr., Teigsskógur, eins og áður hefur komið fram, er 6 milljarðar. Við erum að byggja Dýrafjarðargöng, þangað fara 3,5 milljarðar á ári næstu árin. Reikna má með því að vegur yfir Dynjandisheiði, sem er eiginlega hluti af Dýrafjarðargöngum, kosti 3 til 4 milljarða, ég ætla að skjóta á það. Síðan eigum við eftir Dettifossveg, sem er mikill þrýstingur á. Hann er um 1,5 milljarðar. Síðan eigum við eftir Hornafjarðarfljótið sem er um 4 milljarðar. Svo eigum við eftir Berufjarðarbotninn sem er rúmur milljarður. Nú hef ég bara talið upp örfá dæmi.

Virðulegur forseti. Þetta er fyrir utan mjög brýna þörf, sérstaklega hér í kringum ferðamannastaði á Suðurlandi, þar sem vegakerfið er algjörlega kolsprungið. Það er því ekki að tilefnislausu að ég hef farið fram á það að við leitum með opnum huga annarra leiða til að fara í þessi brýnu verkefni. Við vitum að þrátt fyrir að við höfum aukið útgjöld ríkissjóðs í metupphæðum á milli áranna 2016 og 2017, eða um rúmlega 50 milljarða, (Forseti hringir.) þá treysti þingið sér ekki, áður en þessi ríkisstjórn kom til starfa, til að setja í vegamálin nema sem nam 4,6 milljörðum. Við vitum (Forseti hringir.) að áfram verður mikill þrýstingur á fjármagn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og velferðarkerfið, þannig að það er í mörg horn að líta.



[19:16]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er vissulega í mörg horn að líta. En þetta svæði hefur þá sérstöðu að um er að ræða einu leiðina að íbúabyggð, sem liggur um þessa holóttu vegi sem sáust í fréttum sjónvarpsins um daginn. Það er ekki orðið boðlegt að íbúar þarna þurfi endalaust að bíða eftir því að fá þessar lágmarkssamgöngubætur inn á sitt svæði. Hæstv. ráðherra nefndi mikla atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Sem betur fer er byggð að eflast á sunnanverðum Vestfjörðum. Þess vegna verður framlag ríkisins, til þess að boðlegir vegir liggi inn á þetta svæði en ekki niðurgrafnir malarvegir, að vera í takt við þá atvinnuuppbyggingu og þær miklu gjaldeyristekjur sem svæðið skilar. Það er ekki hægt að láta þetta þvælast áfram í kerfinu gagnvart landeigendum. Það er ekki boðlegt. Það verður að áfangaskipta þessu og leggja fram hærri fjárhæð en 200 milljónir (Forseti hringir.) sem dugar einhverja 2 km. Við værum ansi mörg ár að þessu ef við ættum að mjatla þessu þannig inn. Það þarf miklu meira en það inn á þetta svæði (Forseti hringir.) sem hefur setið eftir og hefur mikla sérstöðu.



[19:17]
Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir skýr svör. Ég spyr: Hvernig er hægt að tala um að það eigi að forgangsraða til þessara mála þegar fjármagn var skorið niður í 200 milljónir, úr 1.200? Ég bara skil ekki hvernig það fer saman. Það er rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að verkefnin eru víða og þau eru mjög stór. Það er jafnframt rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að það er mjög brýnt að fara í þessar framkvæmdir, því að þarna fáum við stöðugt fréttir af því að fyrirtæki, sem eru í miklum og örum vexti á svæðinu, eigi í erfiðleikum með að fá aðföng fyrir sinn rekstur og koma verðmætum til útflutnings hér á suðvesturhorninu. Það er mjög alvarleg staða.

Ég hef áhyggjur af því hversu langan tíma það gæti tekið að fá þetta framkvæmdaleyfi. Ég veit að ég er ekki ein um að hafa áhyggjur af því að enn eigi eftir að fara í samninga við landeigendur. Ég veit að það er gremja gagnvart því á sunnanverðum Vestfjörðum að svo virðist vera að örfáir aðilar hafi getað stoppað þetta verkefni til fjölda ára. Höfum við ekki einhverja leið til að ýta þessu verkefni hraðar áfram? Við getum ekki látið enn eitt árið líða þar sem fólk situr og bíður niðurstöðu.

Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra aftur: Getur hann með einhverju móti stutt það að einhverjar úrbætur hefjist þarna í sumar og við áfangaskiptum verkefnum og tökum ákvörðun um hvaða leið við ætlum að fara?



[19:19]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það hafa lengi staðið deilur um þetta vegstæði og það er dálítið sérstakt að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir skuli koma hér og í raun skrifa það á minn reikning að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum þurfi endalaust að bíða. Henni er (Gripið fram í.) vonandi vel kunnugt um það að m.a. í hennar flokki hefur verið mjög mikil andstaða hjá ákveðnum þingmönnum við það vegstæði sem Vegagerðin hefur lagt til að valið verði. Mikill ágreiningur er búinn að vera um málið, sem hefur tafið það eins og raun ber vitni. En það sér vonandi fyrir endann á því (LRM: Vonir eru bundnar við þig, Jón.) og þá munum við fara af stað og höfum þegar tekið frá fjármagn til þess. Ég tek algjörlega undir það með hv. þm. Lilju Rafneyju að það gengur ekki að mjatla því inn á mörgum árum. Ég er algjörlega sammála henni í því. Það er bæði óhagkvæmt og ekki boðlegt. Við þurfum því að leita lausna á því og fara með myndarlegum hætti í þetta verk eins og svo mörg önnur. En það er vandasamt að forgangsraða og okkur hendir það, sem er ósköp eðlilegt, að horfa hvert með sínum nærsýnisgleraugum á öll þessi verkefni eftir því hvaðan við komum af landinu. Ég hef mikinn skilning á því þegar íbúar austur á landi eða á Reykjanesi segja: Röðin er komin að okkur. Þetta er klárlega eitt af algjörum forgangsmálum í vegagerðarmálum.

Ég get svarað hv. þm. Elsu Láru með því að við munum gera það. En hún spyr: Af hverju segist þið vera að forgangsraða í þessi mál þegar ekki kemur meira fé en raun ber vitni? Það var Alþingi sem ákvað það áður en þessi ríkisstjórn kom til starfa hvað lagt yrði til vegamála. Það á að verja 5,8 milljörðum, 5.800 milljónum meira til vegamála (Forseti hringir.) á þessu ári en á síðasta ári. Það eru miklir peningar. Það eru 23–24 milljarðar á einu kjörtímabili, ef saman er talið. Þannig að það mun mikið vera hægt að gera við það fé. En betur má ef duga skal. (Forseti hringir.) Það er bara einfaldlega þannig. Nú fær þingið það verkefni að forgangsraða bæði við (Forseti hringir.) fjárlagagerðina í haust og eins við ramma fjárlaga núna. (Forseti hringir.) Við skulum hjálpast að við að ýta þessu máli áfram.