146. löggjafarþing — 50. fundur
 29. mars 2017.
störf þingsins.

[15:04]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta þennan lið, störf þingsins, til að eiga orðastað við hv. þm. Teit Björn Einarsson vegna orða sem hann lét falla undir sama lið í gær. Hv. þingmaður kom inn á stöðuna í sjávarútveginum í máli sínu og hvort ekki væri raunverulegur kostur ef menn vildu almennt treysta stöðu þess atvinnuvegar að lækka veiðigjöldin. Hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði því jafnharðan í fjölmiðlum í gær. En mig langar að spyrja hv. þm. Teit Björn Einarsson nánar út í orð hans.

Frá árslokum 2008 til ársloka 2015 jókst eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja um yfir 300 milljarða kr. Arðurinn var 54,3 milljarðar til eigenda á sama tímabili. Hagnaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja árið 2015 var 70 milljarðar kr. Hreinn hagnaður var 45,4 milljarðar kr.

Aðgerðir síðustu ríkisstjórnar, sem lét verða eitt sitt fyrsta verk á sumarþingi árið 2013 að lækka álögur á sjávarútveginn, skertu tekjur ríkissjóðs um 11–13 milljarða kr. á ári í þau rúmu þrjú ár sem ríkisstjórnin sat, sem eru þá 33–39 milljarðar kr., sem ég er viss um að hv. þm. Teitur Björn Einarsson hefði alveg verið til í að hafa núna þegar hann ræðir við kjósendur sína í kjördæminu, t.d. um vegagerð.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hversu mikið telur hann að eigi að lækka veiðigjöldin? Ef hann vill tengja veiðigjöldin gengisþróun, telur hann þá að eigi að hækka veiðigjöldin ef staða í gengis- og gjaldmiðlamálum skánar? Ég sé að hv. þingmanni er mjög skemmt á geiflum hans hér og ég hlakka til að hlusta á hann.



[15:06]
Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að koma upp undir liðnum um störf þingsins og gera grein fyrir því sem ég nefndi í gær. Ég heyri ekki á máli hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés að hann deili með mér áhyggjum af slæmri stöðu í atvinnulífinu víðs vegar um landið, að hann hafi áhyggjur af starfsöryggi starfsfólks hundruðum saman ef ekki þúsundum í landinu, að hann hafi áhyggjur af því að það sé að koma los í byggðafestu víðs vegar í landinu, en þetta voru þau atriði sem ég nefndi í gær. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu máli og ég velti því upp. Að sjálfsögðu er veiðigjald skattur eins og hver önnur gjöld, eins og tryggingagjöld. Þegar rekstrarskilyrðin eru svona, þegar þessi ógn stendur fyrir framan okkur á þennan hátt er sjálfsagt að við ræðum það, en ég heyri alveg á máli hv. þingmanns hver skoðun hans í þessu er.

Ég ætla að leyfa mér að taka saman í örstuttu máli rök sem hafa komið fram í umræðunni á undanförnum árum sem gjalda varhuga við því að innheimta of há veiðigjöld. Þau eru eitthvað á þessa leið: Þetta er sérstakur skattur á sjávarútveginn, dregur úr samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðamörkuðum, leiðir til samþjöppunar í sjávarútvegi, fækkar einyrkjum, dregur úr getu sjávarútvegs til að lækka skuldir sínar, dregur úr getu sjávarútvegs til að fjárfesta í tækniframförum og nýsköpun og leiðir til verri afkomu í sjávarútvegi.

Ég tók reyndar ekki þennan rökstuðning saman, það gerði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fyrir 20 árum á ráðstefnu á Akureyri. Þetta voru rök hans þá. Hann kann að hafa skipt um skoðun, það má vel vera, en þau rök standa, þau voru rétt og eru enn þá rétt. Það sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kallaði barnaskap í gær kalla ég dauðans alvörumál.



[15:08]
Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég bað um að fá að eiga orðastað við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, hann féllst á það og ég þakka honum kærlega fyrir. Í umræðum undir liðnum um fundarstjórn forseta í gær snerti þingmaðurinn á þekktu stefi í málflutningi sínum. Hann vísaði í atkvæðamagn bak við meiri hluta og minni hluta og sagði:

„Það er ekki lýðræðislegt umboð sem stjórnarmeirihlutinn er með, hann er með lagalegt umboð samkvæmt kosningalögum …“

Því er ég ósammála og mér finnst málflutningurinn varasamur. Það fóru fram kosningar, fólk gat boðið sig fram, atkvæði voru talin, niðurstöður voru reiknaðar út í samræmi við fyrirframákveðnar reglur og úrslit voru birt. Samkvæmt þeim úrslitum fara 63 einstaklingar með vald til að setja lög og ákveða hver fari með framkvæmdarvald í landinu. Þetta er lýðræðisleg niðurstaða. Hér inni erum við öll jafn rétthá, óháð því atkvæðamagni sem að baki okkur býr.

Mér finnst skiljanlegt að stjórnarandstöðuþingmaður vilji stjórnina frá en eitt er að vilja það vegna þess að hún er slæm og annað er að ýja að því að þessir 32 þingmenn hafi minni rétt eða umboð til að mynda meiri hluta um lög eða velja framkvæmdarvald en einhverjir aðrir 32 þingmenn. Mér finnst það vega að fyrirframákveðnum leikreglum sem við höfum sett okkur í þinginu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hann einlægur í þessari skoðun sinni? Ef hann myndi einhvern tímann lenda í því að vera í meiri hluta sem ekki hefði meiri hluta kjósenda á bak við sig, myndi hann biðja um að atkvæðagreiðslan yrði endurtekin og víxla á atkvæði sínu til að „raunverulegur“ meiri hluti næði fram að ganga?



[15:10]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka tækifærið til að ræða þetta og einfalda svarið er: Já. Svo einfalt, það er ekki flóknara en það. Ég myndi ekki vilja vera í stjórn þar sem ekki væri meiri hluti kjósenda á bak við þann stjórnarmeirihluta. Svo við förum aðeins yfir það: Núverandi staða er þannig að Sjálfstæðisflokkurinn er með 21 þingmann en hlutfallslega ætti hann að vera með 18 þingmenn, miðað við einfalda deilingu. VG er með tíu og ætti að vera með tíu. Píratar eru með tíu, ættu að vera með níu. Framsóknarflokkurinn er með átta en ætti að vera með sjö. Viðreisn er með sjö, ætti að vera með sjö. Björt framtíð er með fjóra en ætti að vera með fimm. Samfylkingin er með þrjá, ætti að vera með fjóra. Flokkur fólksins er ekki með neinn, ætti að vera með tvo. Dögun er ekki með neinn, ætti að vera með einn.

Þetta þýðir í rauninni að núverandi stjórn ætti að vera með 30 þingmenn, núverandi stjórnarandstaða 30 og þeir sem eru utan þings með þrjá.

Nú er það svo að núverandi meiri hluti er með 88.434 atkvæði á bak við sig. Núverandi stjórnarandstaða er með 90.299 atkvæði á bak við sig. Það er nákvæmlega eins og við værum í fótboltaleik og liðið sem skoraði færri mörk myndi vinna. Það er það sem ég kalla ekki mjög lýðræðislegt og ekki mjög íþróttamannslegt. Ég skil ekki að fólk hafi siðferðilega getað kvittað undir það að fara í meirihlutasamstarf ekki með lýðræðislegan meiri hluta á bak við þá ákvörðun. Ég skil það ekki. Ég hef áhyggjur af því siðferði, satt best að segja. Ég sé að sumir glotta, ég skil ekki af hverju. Mér finnst það ekkert fyndið, mér finnst það dauðans alvara eins og var talað um hér áðan.

Já, þetta er niðurstaða samkvæmt þeim lögum sem við höfum, en ég er líka að gera þetta sérstaklega til þess að benda á að lögin eru gölluð, þau eiga ekki að geta leitt til þessarar niðurstöðu. Það er það einfalt. Ég vil ekki vera í stjórnarmeirihluta þar sem ekki er stuðningur meiri hluta kjósenda.



[15:12]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í stefnu HB Granda segir, með leyfi forseta:

„HB Grandi leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð enda hefur það ætíð verið metnaður fyrirtækisins að öll starfsemi þess endurspegli ábyrgð gagnvart auðlindum sjávar og samfélaginu.“

Já, þetta eru fögur orð sem kvótahæsta fyrirtæki landsins setur fram í stefnu sinni. Að sjálfsögðu eiga fyrirtæki sem hafa nýtingarrétt yfir auðlindum þjóðarinnar að sýna samfélagslega ábyrgð í verkefnum sínum.

Fram hefur komið í fréttum að HB Grandi hafi í hyggju að hætta allri botnfisksvinnslu á Akranesi. Vegna þessa eiga um 100 manns á hættu að missa vinnuna. Ef af verður mun það hafa gríðarleg áhrif á bæjarfélagið Akranes, þá einstaklinga sem aðgerðin nær til, á útsvarstekjur bæjarins og á þjónustu hans. Ef af þessu verður getur það haft gríðarleg margfeldisáhrif.

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort núverandi fyrirkomulag kvótakerfisins virki sem skyldi þegar við sjáum að kvótahæsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins þarf að grípa til hagræðingaraðgerða, fyrirtæki sem hefur hagnast um 40 milljarða frá hruni. Árið 2016 hagnaðist það um 3,5 milljarða og fyrirhugaðar eru arðgreiðslur vegna ársins 2016 upp á 1,8 milljarða.

Skagamenn eru verulega slegnir vegna þessara ákvarðana. Ég bið forsvarsmenn HB Granda að sýna þá samfélagslegu ábyrgð sem fram kemur í stefnu þeirra, fresta þessum aðgerðum, eiga viðræður við bæjarstjórn Akraness, Faxaflóahafnir og aðra hlutaðeigandi aðila og vinna að lausn á þessum málum.

Ég ætla síðan í lok ræðu minnar að fagna máli sem kom fram í fréttum í gær. Ég ætla að hrósa Vegagerðinni fyrir ákvörðun sína að ætla að sækja um framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar um Vestfjarðaveg nr. 60. Loksins eru hagsmunir samfélagsins settir í forgang. Mikilvægt er að hv. þingheimur, (Forseti hringir.) og þá sérstaklega samfélagið á Vestfjörðum, fái upplýsingar um hver tímalína þessa ferlis verður og einnig um áætlun hæstv. samgönguráðherra um fjármögnun á þessu mikilvæga samgönguverkefni. Stórt hrós til Vegagerðarinnar fyrir ákvörðunina.



[15:15]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða um mengun. Kannski væri réttast að ræða þá um samfélagsmengunina sem afhjúpast í nýju bankaskýrslunni, en mál mitt snýst reyndar um annað. Í dag eru 70 ár liðin frá upphafi eins lengsta Heklugoss sögunnar. Hekla gamla hefur losað mikið af náttúrugösum út í umhverfið og sum eru miður holl. Það minnir okkur á losun af öðru tagi, hrákísilver United Silicon í Helguvík. Það hefur ekki verið til friðs og ekki nóg með það, hv. þm. Ásmundur Friðriksson fór yfir kjaramál ýmissa starfsmanna í umræðunni í gær. Það virðist pottur brotinn þar líka, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Mengun er magnþrungið orð og vekur ávallt neikvæð hughrif. Ég vil til að auðvelda störf þingsins fara yfir hvað um er að ræða hjá United Silicon. Samkvæmt losunar- og starfsheimildum losar fyrirtækið 130 þús. tonn árlega af kolefnisígildum með einum ofni af tveimur, þ.e. aðallega gróðurhúsagas sem við m.a. öndum frá okkur. Til viðbótar koma 1.700 tonn af eldfjallagasinu brennisteinsdíoxíði, álíka og fertugasti hluti þess sem losnar frá háhitavirkjunum, og um 2 þús. tonn af niturgösum, þessum brúnu sem liggja yfir Reykjavík á kyrrum degi. Losunin nemur um fimmta hluta losunar fiskiskipaflotans. Gert var ráð fyrir um 70 tonnum af ryki árlega sem getur verið bergmylsna eða ryk úr hráefninu eða kola- og koxryk, en rykhreinsibúnaður virðist ekki virka sem skyldi. Lífrænn reykur á ekki að fara yfir 250 kílógrömm á ári. Það hefur ekki gengið eftir. Snefilefni, öll heilsuspillandi, haldast innan viðurkenndra marka og hefur Umhverfisstofnun mælt að það gildir ekki um eitt þeirra, arsen, og vantar enn skýringar á ástæðunni og jafnframt skiljanlegar skýringar á öðrum losunarvanda fyrirtækisins.

Ég mun ekki leggja neinn dóm á þessa starfsemi í bili en lýsi miklum áhyggjum af augljóslega ófullnægjandi tökum fyrirtækisins á innkeyrsluferlinu. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd mun ná fundi með ýmsum (Forseti hringir.) aðilum máls á næstu viku. Ég hvet þingheim til að vera á tánum í málinu og halda stærðargráðu þessarar loftmengunar til haga.



[15:17]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hrokinn og yfirgangur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er að verða óþolandi. Grein sem fær aðgang að takmörkuðum auðlindum fyrir lágt gjald en býr samt við meiri fyrirsjáanleika en flestar aðrar atvinnugreinar heldur bæði einstökum byggðarlögum í heljargreipum og almenningi í landinu. Sjávarútvegsfyrirtæki geta svipt heilu bæina lífsafkomu og hafa nú auk þess í óbeinum hótunum við stjórnvöld: Fellið gengið, seilist ofan í vasa almennings svo við siglum áfram lygnan sjó. Ef það verður ekki gert látum við okkur bara hverfa með aflann og látum vinna hann erlendis.

Þetta eru þakkirnar fyrir nýtingarrétt á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Hagnaður sjávarútvegsins frá 2008–2014 var 242 milljarðar kr. Eigendurnir hafa greitt sér stjarnfræðilegan arð og margir hreiðrað um sig á fjármálamarkaði, tryggingafélögum, orkuiðnaði, dagblöðum og nú síðast á rándýrum húsaleigumarkaði. Sem sagt allt í kringum borðið.

Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða segir, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Sem sagt, stuðla að sjálfbærri þróun sjávarútvegsins. Sjálfbærni er að mæta þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Sjálfbærni byggir á þremur stoðum, efnahagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum. Hvað gerist nú, frú forseti, ef þú tekur stól sem hvílir á þremur fótum og sagar einn af? Hann fellur. Það er heldur ekki hægt að tala um sjálfbærar fiskveiðar þegar samfélagsstoðin er svo veik og í sumum tilfellum hoggin af.

Málflutningur forsvarsmanna SFS er skýr birtingarmynd átaka milli auðræðis og virks lýðræðis í landinu. Þann slag verður almenningur að vinna.



[15:19]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sem kynnt var í morgun er afdráttarlaus um það svið sem rannsókninni var ætlað að taka til. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Við sölu íslenska ríkisins á 45,8% hlut Búnaðarbanka Íslands hf. til hins svonefnda S-hóps, þ.e. Eglu hf. og fleiri aðila, í janúar 2003 voru íslensk stjórnvöld og um leið íslenskur almenningur blekkt um þátt þýska bankans Hauck & Aufhäuser í þeim kaupum.“

Þetta eru stór orð. En reyndar hafa margir getið sér þessa til en ekki sannreynt fyrr en nú.

Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason hefur gert athuganir sem hann taldi að sýndu að um blekkingar væri að ræða. Því var í engu sinnt heldur voru athuganirnar gerðar tortryggilegar. Spurningum Ögmundar Jónassonar um þátttöku þýska bankans í Búnaðarbankanum frá febrúar 2006 var svarað af Fjármálaeftirlitinu þá á þann veg að miðað við þær upplýsingar sem stofnunin hefði aflað sér væri ekkert sem benti til annars en að þýski bankinn hefði verið hluthafi í Eglu hf. í samræmi við veittar upplýsingar í tengslum við sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf., svo dæmi séu tekin.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna var fjallað um einkavæðinguna. Þar kemur fram að S-hópnum hafi verið sagt frá því í ágúst 2002 að við val á kaupanda bankans yrði gefinn plús fyrir erlenda peninga. Meintur erlendur hluthafi er kynntur til sögunnar. Samkvæmt nýju rannsóknarskýrslunni komst S-hópurinn upp með að gefa óljósar upplýsingar um erlenda eigandann og athuganir sem gerðar voru á honum voru óformlegar.

Niðurstöður skýrslunnar kalla augljóslega á frekari rannsóknir á einkavæðingu bankanna. Alþingi samþykkti slíka tillögu haustið 2012. Þeirri samþykkt þarf að fylgja eftir. Sagan má aldrei endurtaka sig.



[15:22]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra var í viðtali á Útvarpi Sögu á mánudaginn var og gerði þar lítið úr vernd minnihlutahópa í almennum hegningarlögum. Í viðtalinu lagði dómsmálaráðherra nánast að jöfnu annars vegar almenna vernd ærunnar og hins vegar bann við hatursáróðri. Þótt ráðherra hljóti að vita betur tók hún undir með þáttarstjórnandanum sem furðaði sig á því að minnihlutahópar ættu skilið sérstaka vernd gegn hatursáróðri umfram aðra almenna borgara.

Dómsmálaráðherra ýjaði jafnvel að því að rétt væri að bæta við upptalningu minnihlutahópa í ákvæði almennra hegningarlaga um hatursáróður og gera stjórnmálamenn að sérstökum minnihlutahópi ásamt þeim sem verða fyrir aðkasti á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar.

Hingað til hefur viðhorfið verið að stjórnmálamenn þurfi einmitt að þola hvassari gagnrýni en aðrir stöðu sinnar vegna. En gott og vel. Það sem öllu verra er hins vegar er að dómsmálaráðherra tjáði sig frekar frjálslega um dómsmál sem nú er rekið fyrir dómstólum gegn útvarpsmanni á Útvarpi Sögu þar sem ráðherrann var í viðtali. Var dómsmálaráðherra þar að leggja dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur línurnar um hvernig túlka beri löggjöfina í yfirstandandi dómsmáli? Maður spyr sig.

Frú forseti. Réttarríki er algjör undirstaða raunverulegs lýðræðis og virkrar mannréttindaverndar. Sjálfstæði dómstóla er svo aftur grundvöllur réttarríkisins. Dómsmálaráðherra er höfuðið á dómsvaldinu í landinu og valdið sem í því felst er gríðarlega vandmeðfarið. Öllum hlýtur því að vera ljóst hve óviðeigandi og í raun hættulegt réttarríkinu það er þegar dómsmálaráðherra ræðir af fullkominni léttúð efnislega dómsmál sem rekin eru fyrir íslenskum dómstólum og hafa ekki enn verið til lykta leidd.



[15:24]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Okkur hefur orðið tíðrætt í þinginu um kostnað fólks vegna heilbrigðisþjónustunnar. Nú á dögunum var í Fréttatímanum frétt af manni sem var að fara í blóðtöku og hafði gert það á heilsugæslustöðinni á Sólvangi fram til þessa en var svo tilkynnt þegar hann mætti þangað að nú væru þeir hættir að sinna slíku. Hann greiddi í kringum 1.200 kr. fyrir þessa þjónustu alla jafna en síðan þetta var hefur hann þurft að fara á Læknasetrið og greiða 9.000 kr. fyrir sama viðvik. Samkvæmt samtali við svæðisstjóra heilsugæslustöðvarinnar á Sólvangi staðfestir hún að þessari þjónustu hefur verið hætt vegna þess að hún sé of kostnaðarsöm fyrir heilsugæsluna, hún væri að borga með þessu.

Það vantar ekki viljann til að sinna verkinu en hins vegar vantar peninga til að sinna því. Hún klykkir út með því að stjórnvöld séu að skoða þetta. Þess vegna hef ég óskað eftir því að eiga orðastað við þingmann og vonandi fær hún einhverjar góðar fregnir því að eins og við þekkjum hefur heilsugæslunni gengið almennt treglega að sinna þjónustu við mjög marga sjúklinga, sérstaklega á Reykjavíkursvæðinu, og fólk fer í ríkum mæli út á einkastofurnar og borga miklu meiri fjármuni fyrir það. Það kemur fram á Vísindavefnum þar sem verið er að ræða þessi mál að stjórnvöld hafi ekki fylgt skýrri og heildstæðri stefnu um að halda niðri útgjöldum sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu mörg undanfarin ár og útgjöldin hafi aukist þegar til lengri tíma er litið þó að þau hafi sveiflast frá árabili til árabils. Breytingar hafa líka verið óskipulagðar og ófyrirséðar í kerfinu.

Við þekkjum að það er annmarki á því að þótt búið sé að setja þak á kostnað vegna sjúklinga og heimsókna þeirra til lækna er mjög margt sem er ekki þar undir enn þá, t.d. sálfræðiþjónusta og tannlæknaþjónusta.

Mig langar að spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann hvort hún telji að þetta sé ásættanlegt og hvort ríkisstjórn hennar, sem hún styður, komi til með að kippa þessu í liðinn þannig að fólk sem þarf að fara í svona blóðtöku þurfi ekki að borga eins mikið.



[15:26]
Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að vekja athygli á þessari frétt. Mér kemur þetta satt best að segja á óvart og er vont að heyra. Ég hef engar upplýsingar um þetta tiltekna mál aðrar en þær sem hv. þingmaður nefnir hér. Þetta mál hefur ekki komið sérstaklega til skoðunar hjá velferðarnefndinni en það er greinilega ástæða til að fá upplýsingar um það og þá skýringar ef svona er í pottinn búið, að fá viðeigandi viðbrögð.

Mig langar að nota tækifærið og ræða hér aðra frétt sem vakti athygli mína í gær sem var á þá leið að psoriasis-sjúklingar sem eðli máls samkvæmt þurfa að leita ítrekaðra ljósameðferða í fjölmörg skipti í senn þurfa að greiða fyrir hvert eitt skipti. Ef svo er lítur það út fyrir að vera þveröfugt við tilgang greiðsluþakskerfisins um að þeir sem þurfa ítrekaðar meðferðir eiga að greiða hlutfallslega minna en ekki meira.

Auðvitað er það svo að þegar verið er að koma á fót stóru og flóknu kerfi til batnaðar þá koma upp hnökrar. Þess vegna er mikilvægt að við séum öll hér á tánum til að skoða og eftir atvikum bregðast við ef ástæða þykir svo að í rauninni vinni ekki angar kerfisins gegn tilgangi þess.

Forseti. Það er hlutverk okkar hér að fá upplýsingar um slíka hnökra og bregðast við. Ég mun því leita upplýsinga um þessi mál og taka upp við hæstv. heilbrigðisráðherra og er sannfærð um að hann mun bregðast við fljótt og vel þar sem öflug heilsugæsla sem fyrsti viðkomustaður og sanngjarnt greiðsluþátttökukerfi með greiðsluþaki eru mikilvægir þættir í áherslum ríkisstjórnarinnar í að efla heilbrigðiskerfið. Ég þakka kærlega fyrir fyrirspurnina.



[15:28]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hversu miklu erum við tilbúin til að fórna til að halda í úreltar hugmyndir um nauðsyn starfa? Þegar við erum komin á þann tímapunkt að fyrirtæki sjá hagræðingu í því að flytja starfsemina eða, eins og útlit er fyrir í nánustu framtíð, jafnvel sjálfvirknivæða starfsemina, hvaða tól höfum við í höndunum til að halda í þessi dýrmætu störf? Við getum lækkað skattbyrðar á fyrirtækin eða lækkað laun starfsmanna, boðið fleiri ívilnanir, grátbeðið um að fá að halda þessum störfum á grundvelli samfélagsábyrgðar. Þetta gæti haldið vélinni gangandi í einhvern tíma. En hvað gerist svo þegar tækniframfarir leiða af sér skilvirkari og ódýrari sjálfvirknivæðingu eða ódýrara vinnuafl finnst annars staðar? Hversu lengi höldum við þessu leikriti gangandi með upphrópunum um samfélagslega ábyrgð stórfyrirtækja sem hafa það eina markmið að hámarka hagnað?

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja sem hafa það eitt að markmiði að græða er vitaskuld engin og hefur aldrei verið það. Það er blekking ein og barnaskapur að trúa slíku tali á tímum þegar allir vita að ársfjórðungsuppgjör og skammtímaafkoma hluthafa er það sem ræður för. Við þurfum að leggja áherslu á að tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum en ekki ríghalda í láglaunastörf sem fæstir myndu hafa áhuga á að vinna ef þeir hefðu valfrelsið sem felst í auknum efnahagslegum réttindum. Við þurfum að fara að skoða það alvarlega að aftengja vinnu og laun. Það að eiga ofan í okkur og á eru grundvallarmannréttindi sem okkur ber með réttlátri dreifingu auðlinda í sameiginlegri eigu allra Íslendinga að tryggja hverjum einasta borgara landsins óháð vinnu. Það þarf svo að vera val hvers og eins hvert vinnuframlag hans til samfélagsins verður. Launin fyrir þá vinnu verða þá viðbót. Það á enginn að neyðast til að vinna til að fá að lifa. Þá hugmyndafræði þarf að endurhugsa. Eins og staðan er núna er samfélagið og lagaumhverfið hannað til að þjóna hagsmunum fyrirtækja sem hafa það eina markmið að hámarka hagnað í nafni frjáls markaðar, ekki þarf nema að líta til United Silicon til að sjá nýjasta dæmið um rangláta forgangsröðun.

Forseti. Hinn raunverulegi frjálsi markaður felst í því að valdefla borgara landsins til að hafa val, óháð efnahag, raunverulegt frelsi. Þannig réttum við markaðinn og einföldum öll kerfin okkar, með því að skapa traustan grunn til að byggja samfélagið á.



[15:30]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef verið talsmaður kvótakerfisins þrátt fyrir alla galla þess og auðvitað kosti. Það kom mér á óvart þegar ég heyrði talsmann Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi tala í gær um að greinin ætlaði að flytja vinnsluna úr landi. Ég velti fyrir mér hvort greinarnar snúi baki við þeim gæðum fiskvinnslunnar sem fylgja því að nota ferska vatnið okkar og hreinleika íslenskrar náttúru sem hefur verið eitt af aðalsmerkjum útflutningsgreinarinnar.

Og er talsmaðurinn búinn að gleyma hruninu þegar gengið féll um tugi prósenta árið 2007, þegar tekjur útgerðarinnar margfölduðust og hagnaður greinarinnar fór í sögulegar hæðir? Á sama tíma hrundi kaupmáttur fólksins í landinu, á sama tíma hækkuðu skuldir fiskverkafólksins upp í rjáfur. Samt mættu allir í vinnu í fiskvinnslufyrirtækjunum og stóðu sína plikt. Í dag, þegar við erum að fást við tímabundið vandamál sem stafar af mikilli velgengni í landinu, kemur talsmaður sjávarútvegsfyrirtækja og hótar því að fara með vinnsluna úr landi, flytja út fiskinn óunninn og vinna hann í útlöndum. Það er nóg af fólki sem vill vinna þennan fisk hérna heima og veiða hann hér.

Þing og þjóð lætur ekki hóta sér svona. Enginn hótar okkur því að fara með fiskinn til útlanda. Það kemur ekki til greina. Ég trúi því ekki að stór hluti þeirra sem hafa kvótann í höndum taki undir þessi orð. Ég svara þessu fólki bara á sjómannamáli, að þeir sem vilja fara með vinnsluna til útlanda (Forseti hringir.) fari bara til andskotans.



[15:33]
Forseti (Unnur Brá Konráðsdóttir):

Forseti verður að biðja hv. þingmenn að gæta orða sinna.



[15:33]
Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka að hluta til undir með hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, en ég vil þó kannski láta nægja að þeir fari þá til útlanda bara kvótalausir.

Mér ofbýður það hreðjatak sem útgerðarmenn hafa á íslensku samfélagi nú og áður. Saga kvótakerfisins er saga af uppgangi kvótagreifanna og saga af hnignun byggðarlaganna. Óttinn grípur um sig með reglulegu millibili. Hvaða útgerðarmaður skyldi verða næstur til að selja kvótann burt úr byggðarlaginu og kippa stoðunum undan atvinnulífinu?

Smá upprifjun: Man einhver eftir hinum fleygu orðum, „Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði“? Man einhver eftir útgerðarmanninum sem fékk viðurnefnið „vinalausi“? Man einhver eftir því hvernig fór fyrir útgerðinni í Hrísey, á Flateyri, í Grímsey, á Húsavík, Djúpavogi, Raufarhöfn, Þorlákshöfn? Og hugsanlega Akranesi næstu daga? Man einhver eftir útgerðarkonunni sem ásamt félögum sínum lætur sig ekki muna um nokkur hundruð milljóna tap á áróðursriti sínu? Hvar skyldi ávinningurinn liggja af því að gefa út slíkt blað? Man einhver eftir því þegar útgerðarmenn létu sigla öllum íslenska fiskiskipaflotanum til hafnar í Reykjavík í júní til að mótmæla því að þeir þyrftu að greiða sanngjarnan skerf til þjóðarinnar fyrir afnot af auðlindum hafsins, sérstakt veiðigjald? Man einhver eftir útgerðarmanninum sem hótaði að leggja niður eitt bæjarfélag eða svo ef slíkum veiðigjöldum yrði komið á? Man einhver eftir sjómönnum sem róa upp á lægri hlut en ella meðan verið er að borga nýsmíðað skip?

Svona mætti lengi telja en það þjónar engum tilgangi. Kvótakerfið er vont fyrir almenning í landinu því að arðurinn skilar sér ekki nema að litlu leyti í ríkissjóð.



[15:35]
Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í gær birti sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lokayfirlýsingu eftir heimsókn sína til Íslands á dögunum. Margt áhugavert er að finna þar. Tvennt vekur þó sérstaka athygli og tengist fyrirhugaðri bankasölu og er kannski sérstaklega viðeigandi í dag að vekja máls á þessu í ljósi niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á Búnaðarbankanum.

Í fyrsta lagi er kallað eftir stefnu sem tryggir að bankarnir verði í höndum traustra eigenda og nefnt að gæði nýrri eigenda eigi að hafa forgang umfram hraða viðskiptanna og verð. Þarna er vakin athygli á langtímahagsmunum bankakerfisins og kallað eftir heildarstefnumótun er varðar framtíðarskipan bankakerfisins. Þessa sýn vantar algjörlega hjá stjórnvöldum og þess vegna hefur lítið heyrst frá þeim eftir að nýleg sala á hlut í Arion banka varð að veruleika. Í öðru lagi er nefnt að þetta muni reyna á Fjármálaeftirlitið og þeir hvattir til að í mati á nýjum eigendum verði það ítarlegt, nákvæmt og sanngjarnt.

Staðreyndin er sú að íslensk stjórnvöld vita ekki hverjir eru endanlegir fjárfestar að þessum 30% hlut í Arion banka. Samt voru íslensk stjórnvöld og ráðamenn tilbúin að fagna þessari þróun. Fjármálaeftirlitið gat t.d. ekki svarað því hvort Goldman Sachs væri endanlegur fjárfestir að sínum hlut. Fjármálaeftirlitið er að vinna í því að veita okkur svör í efnahags- og viðskiptanefnd hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Það þarf að byggja upp traust á næsta áfanga er varðar endurreisn fjármálakerfisins. Stjórnvöld hafa þar ríkum skyldum að gegna. Ég hvet stjórnvöld til að fara í heildarstefnumótun er varðar framtíðarskipan bankakerfisins og fara í verkið af meiri festu en gert hefur verið hingað til.