146. löggjafarþing — 51. fundur
 30. mars 2017.
skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[11:02]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af þeirri umræðu sem fór fram hér á undan í fyrirspurnum til ráðherra tel ég rétt að byrja á því að fara aðeins yfir þingsályktunartillöguna um rannsókn á erlendri þátttöku á kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands. Sú rannsókn var falin einum manni og til þess ætlast að hann myndi draga saman og búa til birtingarupplýsingar um málsatvik og aðkomu einstakra aðila að þátttöku þýska bankans í kaupunum með tilliti til þeirra upplýsinga sem kaupendur veittu íslenska ríkinu sem seljanda og stofnunum þess. Síðan var til þess ætlast á grundvelli niðurstöðu rannsóknarinnar og að lokinni yfirferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að nefndin myndi leggja mat á hvort hún gerði tillögu að frekari rannókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbanka og Búnaðarbanka Íslands, samanber ályktun frá 7. nóvember 2012. Þetta er í þingsályktunartillögunni og þá vinnu verður farið í.

Ég hef sjálfur lýst þeirri skoðun minni áður, og það er eftir samtal við marga sérfræðinga, og m.a. við umboðsmann Alþingis sem kom fyrir nefndina, að ekki sé tilefni til frekari rannsóknir á einkavæðingu þessara banka, og vel að merkja hafa farið fram rannsóknir áður, nema nýjar upplýsingar komi fram, hvort sem er í kringum þá rannsókn sem nú er nýlokið eða önnur gögn, að þá fari rannsókn fram um einstök tilvik eða einstök atriði í stað þess að við önum út í mikla rannsókn og kostnaðarsama án þess að vita raunverulega hvert við erum að fara og hvert hún muni leiða okkur. Ég vil byrja á því að taka þetta fram.

Í umræðu um svona mál, þegar rannsóknarnefndir og rannsóknarniðurstöður koma fram, vil ég nota tækifærið til að fara yfir hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, tala almennt um hlutverk hennar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. þingskapa Alþingis skal stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taka skýrslur rannsóknarnefnda til umfjöllunar, gefa þinginu álit sitt um þær og gera tillögur um frekari aðgerðir þingsins. Þetta mun nefndin auðvitað gera. Enn fremur segir í athugasemdum við frumvarpið, sem varðar lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, en þar er þessu hlutverki lýst nánar:

„Mikilvægt er að hafa í huga að niðurstöður rannsóknarnefndar eru ekki bindandi og því er nauðsynlegt að unnið sé úr þeim með skilvirkum hætti. Skýrslubeiðandi þarf með öðrum orðum að leggja sjálfstætt mat á niðurstöður nefndarinnar“ — þ.e. rannsókarnefndarinnar — „og taka ákvörðun um framhaldið sem getur eftir atvikum falið í sér lagabreytingar og gagnrýni á vinnubrögð í stjórnsýslunni og eftir atvikum ráðherra, svo dæmi séu tekin.“

Þetta er hlutverkið. Nú hefur nefndin fengið þessa skýrslu til umfjöllunar. Nefndarmenn eru að kynna sér efni hennar. Nefndin fundaði í morgun til að ræða sín á milli um framhaldið, hvernig best sé að hátta málsmeðferð, og fara yfir þetta skilgreinda hlutverk. Það er auðvitað mikilvægt að við áttum okkur á því hvert hlutverk og starf okkar er.

Í þessu máli er rannsóknarnefndin eða nefndarmaðurinn að draga fram upplýsingar, afla gagna og draga fram upplýsingar. Nefndin dregur sínar ályktanir en við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni verðum líka að draga okkar eigin sjálfstæðu ályktanir af þeim atvikum og gögnum sem um ræðir.

Það sem skiptir okkur mestu máli er að fara yfir aðkomu stjórnvalda við sölu bankans á sínum tíma. Hvaða skilyrði voru sett af hálfu stjórnvalda? Hvernig var þingsályktunartillagan? Til hvers var ætlast? Skipti þetta máli? Hvaða lög og reglur giltu á þeim tíma? Fylgdu stofnanir ríkisins því öllu saman eftir? Hvert var hlutverk þeirra í þessu ferli öllu saman? Hversu mikið umboð hafði einkavæðingarnefndin? Hvaða skilyrði setti hún o.s.frv.? Á grundvelli þessa þurfum við að komast að einhverri niðurstöðu. Við þurfum að vinna þetta faglega og með tilliti til hlutverks okkar.

Ég ætla ekki að hafa skoðun á innihaldinu núna. Ég ætla ekki að hafa skoðun á því hvort stjórnlagaráð hafi verið blekkt. Ég ætla ekki að hafa skoðun á því núna hvort stjórnvöld hafi staðið sig illa. Ég vil fara vandlega yfir þessi atriði, staðreyndir og gögn, og ég vil taka afstöðu til málsins þegar það hefur verið gert.

Ég skora á alla að fara vandlega yfir þessa skýrslu og hafa líka þolinmæði og leyfa stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að sinna hlutverki sínu við að fara yfir gögnin og koma með álit sitt og tillögur til þingsins í málinu.



[11:10]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Hver skýlir sér bak við grímu lundans? Skýrslan sem við ræðum hér vekur svo sannarlega upp spurningar um margt sem sneri að einkavæðingunni árið 2003. Ekki er nokkur vafi á því að margir voru blekktir og m.a. margir sem ekki höfðu ástæðu til annars en að ætla að þeim væri sagt satt um kaupendur. En spurningar vakna um þátt eftirlitsstofnana og aðkomu þeirra að eðlilegu eftirliti með kaupum sem skiptu framtíð Íslands jafn miklu máli og einkavæðing tveggja ríkisbanka á sama tíma. Endalok þessara banka fimm árum síðar urðu til þess að íslenska þjóðin fór í gegnum meiri hörmungar af mannavöldum en dæmi eru til um á lýðveldistímanum. Þrátt fyrir að rökstuddur grunur væri um annað og oftar en einu sinni settur fram af hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni, sem þá var „bara aðjúnkt“ eins og svo smekklega var að orði komist, upplýstu hvorki Ríkisendurskoðun né Fjármálaeftirlitið málið. Ekki verður séð af gögnum að þessar stofnanir hafi gert alvarlega tilraun til að ganga úr skugga um að ekki væri um blekkingarleik að ræða. Fyrir þingmenn og þjóð er mikilvægt að vita svarið við spurningunni: Getum við treyst eftirlitsmönnunum? Hver hefur eftirlit með eftirlitinu?

Úr bréfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var í lok heimsóknar sjóðsins til Íslands nú í vikunni vil ég leyfa mér að lesa, með leyfi forseta:

„Afar mikilvægt er að marka stefnu sem tryggir að bankarnir verði í höndum traustra eigenda. Sýna þarf þolinmæði við einkavæðingu ríkisbankanna tveggja, með áherslu á að finna íhaldssama kaupendur sem sýnt hafa langtímahollustu við Ísland. Í öllu falli ættu gæði nýrra eigenda að hafa forgang umfram hraða viðskiptanna eða verð. Nýleg kaup á eina einkarekna bankanum meðal þeirra stærstu mun reyna á FME. Frá sjónarhóli fjármálastöðugleika og hlutleysis er nauðsynlegt að framkvæmt verði ítarlegt, nákvæmt og sanngjarnt „fit-and-proper“ hæfismat“.

Rifjum upp söguna varðandi annan banka sem einkavæddur var á sama tíma og Búnaðarbankinn. Þann 3. febrúar 2003 tók FME ákvörðun um hæfi Samson eignarhaldsfélags við að eignast hlut í Landsbankanum. Þar sagði m.a., með leyfi forseta:

„Í bréfum Fjármálaeftirlitsins til Samson og viðræðum við forsvarsmenn þess hefur verið lögð á það rík áhersla að tryggt verði að eignarhlutur þeirra í bankanum, ef af verður, skapi þeim ekki stöðu eða ávinning annan en þann sem felst í ávinningi almennra hluthafa af heilbrigðum og arðsömum rekstri bankans. Þannig muni félagið, eigendur þess, tengdir aðilar eða kjörnir fulltrúar í bankaráði ekki njóta aðstöðu í bankanum, svo sem viðskiptakjara, íhlutunar í viðskiptalegar ákvarðanir er varða þá sjálfa, tengd félög eða samkeppnisaðila, eða upplýsinga um viðskipti núverandi eða tilvonandi samkeppnisfyrirtækja.“

Var þetta ákvæði virt í rekstri Landsbankans á sínum tíma? Eða var ákvörðun Fjármálaeftirlitsins orðin tóm? Ég held lestrinum áfram:

„Meðal atriða sem Fjármálaeftirlitið lagði til er að reglum bankaráðs verði breytt á þann hátt að tryggt verði að upplýsingagjöf til bankaráðsmanna fari aðeins fram í gegnum bankaráð, að starfsmönnum verði óheimilt að veita bankaráðsmönnum upplýsingar um viðskiptamenn bankans, að vanhæfisreglur í bankaráði verði styrktar og að upplýsingagjöf til bankaráðs um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila verði víðtækari og taki ótvírætt til einstaklinga og fyrirtækja í nánum tengslum við bankaráðsmenn.“

Ég spyr: Voru þessi ákvæði virt meðan bankaráðsformaðurinn var með skrifstofu á milli bankastjóranna tveggja?

Fjármálaeftirlitið taldi reyndar að þeir Björgólfsfeðgar væru óskyldir aðilar þvert á það sem Íslendingabók segir. Langt var til þess seilst að þurfa ekki að uppfylla skilyrði framangreindrar ákvörðunar.

En nú eru breyttir tímar, eða hvað? Við stöndum aftur frammi fyrir því að erlendir aðilar vilja kaupa íslenskan banka. Hverjir standa á bak við þessa sjóði? Slóðin liggur til aflandseyja sem fram að hruni voru okkur flestum framandi eða óþekktar. Eru þessir sjóðir raunverulegir eigendur? Þeir segjast vera það, en þeir þurfa að leggja spilin á borðið.

Virðulegi forseti. Síðastliðinn föstudag skrifaði ég Fjármálaeftirlitinu bréf með 11 spurningum sem lutu að eignarhaldi á þeim sjóðum eða fyrirtækjum sem höfðu keypt hluti í Arion banka. Í ljósi sögunnar þarf eignarhaldið að vera sannreynt með öllum ráðum. Ég vænti þess að FME svari svo fljótt sem auðið er. Ef ekki koma fram óyggjandi sannanir um það hverjir eru raunverulegir eigendur verður traust á bankakerfinu ekki endurvakið. Fyrir okkur sem samfélag er það líka grundvallaratriði að við getum treyst eftirlitsmönnunum, Fjármálaeftirlitinu og Ríkisendurskoðun.

Frú forseti. Við verðum að vita hver er bak við grímu lundans.



[11:16]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku Aufhäuser-bankans í einkavæðingu Búnaðarbankans hf. árið 2003. Hér er varpað ljósi á einn hluta málsins, enn er eftir að fara yfir einkavæðinguna í heild. Hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson segir í gær að það sé óþarfi. Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sagði áðan, og raunar í fjölmiðlum líka, að það þurfi að koma eitthvað nýtt fram til þess að vekja slíka rannsókn.

Eitthvað nýtt er komið fram. Núna liggja fyrir nýjar upplýsingar, þær eru komnar fram, þær eru hér. Þær eru þessi skýrsla hér, þær eru skýrslan um blekkingarnar. Það er fullnægjandi til þess að hefjast handa við rannsókn í samræmi við samþykkt Alþingis frá því í nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Enda liggur nú fyrir, eftir fyrirspurnatímann í dag, og eru stærstu tíðindin í umræðunni hér að það er meiri hluti á Alþingi með því að taka til við rannsókn á á einkavæðingu bankanna í heild í samræmi við umrædda þingsályktun.

Næstu skref eru því að taka til starfa í samræmi við þann vilja þótt formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi talað gegn því. Því ber að fagna.

Virðulegur forseti. Sú óheillaför sem hófst með einkavæðingu bankakerfisins, helmingaskiptum þáverandi ríkisstjórnarflokka og þeirri niðurstöðu að almenningur tapaði, samfélagið tapaði og endaði með sögulegu efnahagshruni og kreppu á Íslandi tekur á sig sífellt skýrari mynd. Almannahagsmunum var varpað fyrir róða og algjört sinnuleysi virðist hafa verið fyrir hendi. Pólitísk nauðhyggja um að allt skyldi einkavæða, leyndarhyggja og klíkupólitík leiddu til þess sem hér er til umfjöllunar. Blekkingum var sannarlega beitt með skipulegum hætti og fjármunum var stolið frá almenningi. Það liggur fyrir. Margt hefur gerst síðan en enn þá er ekki öllum spurningum svarað. Hver átti að gæta almannahagsmunanna í þessu ferli? Var það Fjármálaeftirlitið? Var það Ríkisendurskoðun? Voru það ráðherrarnir í ríkisstjórninni? Þeim sem var falið að gæta hagsmuna samfélagsins, heildarinnar? Það liggur a.m.k. fyrir að þetta ferli brást, að framkvæmdanefnd um einkavæðingu sem starfaði í sterku umboði ríkisstjórnarinnar á þessum tíma mistókst verkefnið.

Fyrir réttu ári voru Panama-skjölin í hámæli, tengsl við aflandsfélög, leyndarhyggja og peningagræðgi höfðu ráðið för hjá fjölda fólks og fyrirtækja. Jafnvel forystumenn í ríkisstjórninni reyndust hafa geymt fé í skattaskjólum og niðurstaðan varð sú að hún hrökklaðist frá og við gengum til kosninga fyrr en ella. Nú höfum við hér nýja ríkisstjórn þar sem forsætisráðherrann er einn þessara forystumanna sem voru í Panama-skjölunum. Þessi forsætisráðherra sagði í gær að ekki þyrfti að kanna neitt frekar og ekki einkavæðinguna í heild. Kunnugleg stef, leyndarhyggja, passað upp á sína. Hver gætir almannahagsmunanna núna?

Það hlýtur að vera fortakslaus krafa af hendi Alþingis að nú verði ráðist í þessa heildarendurskoðun í þágu samfélagsins í heild. Feluleiknum verður að linna.

Virðulegi forseti. Í þessari rannsóknarskýrslu kemur fram að það var skýrt markmið að gera leynilega samninga til að leyna eignarhaldinu á kaupendum Búnaðarbankans á sínum tíma og að vísvitandi blekkingum var beitt í því skyni. Fyrir liggur að verulegir fjármunir voru þar með dregnir af almenningi og að einstaklingar stórefnuðust af þeirri fléttu sem í skýrslunni er lýst. Skýrslan vekur spurningar um það hverjir vissu hvað og verður að teljast í hæsta máta ólíklegt að fleiri í S-hópnum hafi ekki vitað hvers kyns var og þar með einhverjir ráðamenn. Það sem liggur fyrir núna og liggur fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er að við þurfum að hafa öll tól og tæki til að skýrt sé hverjir eigi í hlut á hverjum tíma. Það þarf að vera hægt að knýja bankana til að segja til um aðkomu við einstaka gerninga um eignarhald og annað því um líkt.

Í skýrslunni hefur því verið lýst skilmerkilega hvað gerðist og þar með skapaður skýr grundvöllur fyrir okkar störf, okkar störf á Alþingi, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, það er okkar að ákveða næstu skref, fara í saumana á málinu og gera tillögur til Alþingis.

Hv. þm. Brynjar Níelsson fór yfir greinargerð frumvarps til laga um rannsóknarnefndir þar sem segir að mikilvægt sé að gæta að því að skýrslubeiðandi, þ.e. Alþingi, þurfi að leggja sjálfstætt mat á afurð rannsóknarnefndar hverju sinni. Þannig að næstu skref eru að draga lærdómana en ekki síður að spyrja pólitískra spurninga um almannahagsmuni, um það hverjir gættu þeirra þá en ekki síður hverjir gæta almannahagsmuna núna. Er um að ræða gagnsæi núna, er um að ræða traust á viðskiptalífinu núna? Er ásættanlegt að um sé að ræða samspil leyndar, valda, viðskipta og stjórnmála yfir höfuð? Það leiddi okkur út í ógöngur þá og hætt er við að slíkt endurtaki sig ef um slíkt samspil er að ræða við stjórn landsins á hvaða tímum sem er.



[11:21]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Næstu skref í þessu máli koma fram í þeirri þingsályktun sem var samþykkt á síðasta ári og bjó til þá rannsóknarnefnd sem var að skila skýrslunni sem við erum að ræða. Þau eru í raun tvíþætt, og þar kemur að hlutverki stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þ.e. annars vegar að ákveða hvort halda eigi áfram og fara í þá heildstæðu rannsókn sem við erum búin að vera að tala um, heildstæða rannsókn á einkavæðingu Landsbanka Íslands — nú man ég ekki alla bankana en ég á við þessa þrjá viðskiptabanka sem voru á sínum tíma og voru seldir 2002.

Hvernig myndi slík heildarendurskoðun líta út? Það kemur fram í þingsályktuninni sem var samþykkt 2012. Nú segir hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson að við þurfum það ekki, það liggi svo mikið af gögnum fyrir. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á bara að fara í gegnum þau gögn öllsömul. Það mun taka mikinn tíma. Við gætum kallað til sérfræðinga o.s.frv. til að aðstoða okkur við þá vinnu og munum þurfa að gera það. En hvað gerist ef við skipum rannsóknarnefnd um heildarrannsókn á einkavæðingu þessara þriggja banka? Ef þetta liggur allt hvort eð er fyrir er lítið starf fyrir þá rannsóknarnefnd. Þá er þetta bara „copy/paste“ úr öllum þeim skýrslum og rannsóknum sem farið hafa fram. Þá er það ekki mikill kostnaður, en hæstv. forsætisráðherra bar fyrir sig kostnað í þessu máli, það kostar svo mikið, það er búið að leggja svo mikinn pening í þessar rannsóknir. Lýðræði kostar, eftirlit kostar. En það kostar miklu meira að vera ekki með eftirlitið og lýðræðið. Miklu, miklu, miklu meira.

Mér finnst einboðið að við fylgjum þingsályktuninni frá 2012 og förum í þessa heildarendurskoðun, sér í lagi vegna tilgangsins með henni. Hver var hann? Tilgangurinn með henni stendur í greinargerðinni:

Að veita heildstætt yfirlit um þá stefnumörkun, ákvarðanatöku og framkvæmd sem réð för við sölu hlutabréfa í bönkunum þremur …

Svo hvað? Þetta er mikilvægt.

… svo draga megi lærdóm af ferlinu við mótun stefnu um hvernig best verði staðið að sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum í framtíðinni.

Þetta er „basic“. Nú vantar mig þýðingu til að fylgja þingsköpum alveg. (Gripið fram í.) Þetta er grundvallaratriði. Nákvæmlega. Ég skil ekki hvað menn eru að þráast við. Hæstv. fjármálaráðherra Benedikt Jóhannesson var afgerandi í því að þetta þyrfti að gera. Ég geri því ekki ráð fyrir öðru en að þingflokkur Viðreisnar sé sammála í því máli og hafi rætt það sín á milli og þá er meiri hluti fyrir því í þinginu.

Svo er annað áhugavert sem við vorum að ræða, þ.e. hvort við getum ekki hent í eina skoðanakönnun, Gallup, það kostar um 150 þús. kr., til að fá það á borðið hvort landsmenn eru ekki líka hlynntir því að fá þessar upplýsingar. Við getum tekið okkur saman, þeir þingflokkar sem hafa áhuga á að láta þetta gerast, og fengið afgerandi niðurstöðu. Vilja landsmenn ekki fá rannsókn á því hvernig einkavæðingarferlið var þannig að við förum ekki að gera sömu mistök í þessu ferli, þannig að við getum lært af því og gert þetta vel, haft þetta gegnsætt, haft þetta opið án tortryggni, hafið yfir gagnrýni og fengið gott verð og góða eigendur fyrir þessa banka? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:25]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það var afar sérstakt og vont að sjá niðurstöðu rannsóknarskýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í gær þar sem skýrt er að mati þeirra sem skýrsluna unnu að einn kaupenda að Búnaðarbankanum á sínum tíma hafi með samstarfsmönnum sínum blekkt alla, stjórnvöld, almenning, eftirlitsaðila og jafnvel samstarfsaðila að kaupunum einnig. Það er með ólíkindum að horfa á hvað menn gengu langt til þess. Menn hafa velt þeirri spurningu upp hvort það hafi verið einhver sérstakur tilgangur með því að þurfa að leyna þessu eignarhaldi, hvort það eitt og sér hafi haft áhrif, en í ljósi þess hversu langt menn gengu í því að tryggja að það væri hlýtur það að hafa verið fyrir einhverja aðila. Við sjáum enn á ný að með því að nýta sér aflandsfélög í þeim eina tilgangi að leyna raunverulegu eignarhaldi erum við í þessum heimi okkar að kljást við aðila sem erfitt er að kljást við. Við sjáum í þessari skýrslu að sá erlendi aðili, franski bankinn Société Générale, sem upphaflega var talinn líklegastur til að vera að koma að kaupunum virðist hafa verið aðalmennirnir í því að útbúa þessa fléttu. Það kom fram í svörum við spurningum mínum við rannsóknarnefndina í gær.

Það kemur í ljós að annar banki, þýskur banki, telur það vera nægilega virðingu við sig að fá 1 milljón evra fyrir að taka þátt í slíkri fléttu. Með öðrum orðum sýnir þetta okkur heim sem við þekkjum ekki eða illa, heim sem við myndum vilja að væri ekki til eða væri í það minnsta eitthvað öðruvísi. En kannski er það mikilvægasta að við verðum að viðurkenna að svona var þetta og er sennilega enn í hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Þá kemur að stóru spurningunni, hvernig við sem gæslumenn almannahagsmuna getum upplýst og komið í veg fyrir að svona lagað gerist aftur, annars vegar með lögum og reglum, að tryggja að eftirlitsaðilar hafi tæki til þess að fylgja því eftir, og einnig það sem kemur líka fram í skýrslunni og í svari nefndarmanna við spurningu minni um fagaðilana, þá sem gjarnan er talað um að við stjórnmálamenn eigum að treysta á. Við eigum ekki að hlusta á okkar eigið brjóstvit heldur eigum við að kalla til óháða sérfræðinga sem segja okkur hvernig hlutirnir eru, í þessu tilviki stór þekktur, alþjóðlegur banki, HSBC. Það er ekkert í gögnum sem rannsóknarnefndin gat aflað sér sem benti til þess að þessir aðilar hefðu haft vitneskju um þetta, í það minnsta gáfu þeir ekki íslenskum stjórnvöldum og eftirlitsaðilum neinar vísbendingar um að þarna væri pottur brotinn.

Og þá er spurningin hvar við erum stödd. Hvernig eigum við að koma í veg fyrir slíka hluti? Það er augljóst að við þurfum að velta fyrir okkur og nota til þess okkar eigið brjóstvit að svona hlutir geta gerst. Nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mætt í sína reglubundnu heimsókn og gefið út skýrslu þar sem hann tekur undir gagnrýni, m.a. okkar Framsóknarmanna, á það ferli sem hefur verið við sölu á hlut í Arion banka. Það er vissulega ekki ríkið sem er að selja heldur eru þeir eigendur að bankanum að einhverju leyti að selja sjálfum sér. Enn og aftur dúkkar upp viðurkenndur alþjóðlegur banki, Goldman Sachs, sem sagður er vera hluti af kaupunum, væntanlega til að auka við trúverðugleikann á kaupunum, en í þeim spurningum sem við höfum lagt hér fyrir, m.a. í efnahags- og viðskiptanefnd, hefur Fjármálaeftirlitið ekki getað svarað því hvort hann sé raunverulegur eigandi eða hvort það sé í þessu tilviki ekkert ósvipað ferli og var hér fyrir 15 árum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur líka bent á það sem við höfum gagnrýnt, að það sé mjög óheppilegt og óæskilegt að vogunarsjóðir, sem eru kvikir fjárfestar sem eru ekki að hugsa um langtímastarfsemi, séu raunverulegir eigendur að fjármálakerfinu, að mikilvægum kerfislægum stofnunum á fjármálasviði á Íslandi. Ég held að allt þetta verði til þess að við þurfum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í efnahags- og viðskiptanefnd og eftir atvikum í öðrum nefndum þingsins og hérna í þingsal að gæta þess sérstaklega hvort sá laga- og reglugrunnur sem var hér fyrir 15 árum sé nægilega breyttur til að hægt sé að taka á þessu máli inn í framtíðina til að við getum raunverulega tryggt það með einhverri vissu að svona gerist ekki. Það er augljóst að innan þessa fjármálakerfis svífast menn einskis þar sem í þessu máli er verið að tala um tvo alþjóðlega banka sem væntanlega vilja gjarnan koma fram sem traustir aðilar á sínu svæði.

Það er líka spurning þar sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt fram drög að eigandastefnu þar sem aðalatriðið er að það skuli selja eignir ríkisins í hinum bönkunum, þ.e. Landsbankanum og Íslandsbanka, og tengsl þeirrar sölu við fjármálastefnu næstu fimm ára og fjármálaáætlun. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra sagt að það þurfi að vanda sig og rétt sé að fara varlega. Það hefur reynst erfitt að fá inn raunverulegan erlendan banka í íslenskt fjármálakerfi. Ef við þurfum að vera mjög þolinmóð þurfum við kannski að velta þeirri spurningu upp: Hvernig ætlum við að sjá þetta fjármálakerfi? Þurfum við ekki áður en við förum í þá sölu að búa til það kerfi hér á landi, hvernig kerfið á að vera, aðskilja viðskipta- og fjárfestingarhluta ef það er skynsamlegasta niðurstaðan eftir skoðun og aðra þætti, hversu stórt bankakerfið eigi að vera? Hverjir eru hæfir sem eigendur í bankakerfi á Íslandi?

Mikilvægast af öllu er að upplýsa það sem gerst hefur en draga lærdóm af því svo að við getum með einhverjum hætti tryggt að það gerist ekki aftur.



[11:32]
Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í gær og í dag og í þessari umræðu um einkavæðingu Búnaðarbankans erum við að verða vitni að stórkostlegri blekkingu og svindli á íslensku samfélagi í heild sinni. Ég verð að segja fyrir mig persónulega fyrir mitt leyti, hafandi verið í málaferlum við íslenska banka í nokkur ár og hingað til haft rétt fyrir mér í öllum atriðum, kemur mér þetta ekki mikið á óvart. Ég velti því alltaf reglulega fyrir mér hver hvatinn er á bak við blekkingu og svindl sem drífur fólk áfram, þennan einlæga ásetning að blekkja. Eftir að hafa lesið mig hratt í gegnum skýrslu rannsóknarnefndar um einkavæðingu Búnaðarbankans velti ég fyrir mér hvort okkur sé viðbjargandi.

Til að gera langa sögu stutta og til að lýsa mínum skilningi þá leiðir þessi lestur í ljós þá ömurlegu stöðu að þeir sem trúað var fyrir því að selja bankana breyttu leikreglum eftir að lagt var af stað. Þeir sættu sig við hálfkveðna vísu erlendra ráðgjafa. Þeir gengu ekki á eftir frekari upplýsingum. Þeir gáfu viðbótarfresti ofan á viðbótarfresti og bera svo enga ábyrgð á neinu þegar upp er staðið.

Mig langar, virðulegi forseti, að gera þessi vinnubrögð að umtalsefni hér, þau vinnubrögð sem íslenskir embættismenn í einkavæðingarnefnd og íslenskir stjórnmálamenn viðhöfðu eru vinnubrögð sem aftur og aftur hafa komið okkur á óvart, aftur og aftur hafa komið okkur í ógöngur. Ég veit raunar ekki hvort um er að ræða vanhæfni eða spillingu. Það virðist í þessu tilfelli ekkert benda til þess að menn hafi vitað að einn eigenda hafi fengið þýskan banka til að leppa fyrir sig kaupin á stórum hlut í Búnaðarbankanum. En það er vegna þess að engum datt í hug að spyrja réttu spurninganna eða vegna þess að menn ákváðu að snúa blinda auganu að því sem þarna átti sér stað.

Við þekkjum það úr lögfræðinni að fyrir dómi snýst aðferðafræðin um það sem hægt er að sanna, ekki endilega sannleikann sjálfan, því hann er ekki alltaf aðgengilegur. Hvað ef menn vilja ekki segja satt og rétt frá og bera við minnisleysi eins og gerðist í skýrslutöku þessarar rannsóknarnefndar? Hvað ef upplýsingar um hið sanna liggja ekki fyrir? Ef sönnunargögnin eru ekki fyrir hendi þá snúast mál ekki um sannleikann heldur það sem hægt er að sanna. Hvort það er það sem blasir við okkur hér, virðulegi forseti, veit ég ekki.

Í skýrslunni kemur fram að einkavæðingarnefnd hafi beinlínis breytt leikreglum eftir á. Svo virðist sem S-hópurinn sem keypti Búnaðarbankann hafi fengið að skrifa leikreglurnar sjálfur eftir á. Þannig blasir þetta við mér. Það gerði hann með því að kynna þá hugmynd að fá franskan banka til að vera kjölfestufjárfesti með sér í gegnum íslenska hlutafélagið Eglu. Svo virðist reyndar að aðkoma þessa franska banka hafi ekki verið annað en einleikur eins eða tveggja starfsmanna hans þar sem a.m.k. annar þeirra hætti störfum hjá bankanum í miðjum leik, stofnaði ráðgjafarfyrirtæki og fór að leita að öðrum fjárfesti til þess að koma inn í hið íslenska hlutafélag.

Einkavæðingarnefnd eða íslensk stjórnvöld höfðu ekki skrifað inn í matsferlið að erlend aðkoma að kaupunum skilaði bjóðendum sérstöku vægi. Svo gerist það einhvers staðar á fundi að aðkoma hins franska banka er kynnt og eftir það verður kúvending af hálfu einkavæðingarnefndar sem leggur upp frá því ofuráherslu á að stór fjárfesting erlendrar fjármálastofnunar sé ein af grundvallarforsendunum. Hver tók þá ákvörðun og á hvaða forsendum?

Ég minnist þess að á þessum tíma var talsvert fjaðrafok yfir því að einn fulltrúi í einkavæðingarnefnd sagði sig úr nefndinni. Skýringar nefndarmannsins voru þær að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum. Þessi tiltekni nefndarmaður treysti sér ekki til þess að taka þátt í þessum störfum á þeim forsendum sem lagt var upp með og sagði skipta sköpum fyrir einkavæðingarnefndina að unnið væri eftir skýrum reglum og með hlutlægum og gagnsæjum hætti.

Nú fimmtán árum síðar erum við enn að glíma við sambærileg mál sem tengjast vinnubrögðum þeirra sem við treystum til stórra verka. Það er einhvern veginn eins og það stingi sér niður alvarleg siðferðisvilla þegar bankar eru annars vegar í þessu samfélagi. Borgunarmálið er dæmi um svona vinnubrögð þar sem annaðhvort er um að ræða stórkostlega vanhæfni þeirra sem eiga að standa vaktina fyrir okkur eða alvarlega spillingu sem ekki hefur tekist að sanna.

Hvað ætlum við að gera við þær upplýsingar núna árið 2017 sem blasa hér við þegar við erum að undirbúa okkur undir það að selja mögulegan hlut í Landsbankanum aftur, selja Íslandsbanka og þann hlut sem ríkið á í Arion banka? Það sem lesa má um í þessari skýrslu má ekki endurtaka sig. Við verðum að setja skýrar leikreglur, búa til gagnsætt ferli og fylgja því. Að öðrum kosti verðum við hér að fimmtán árum liðnum að ræða nákvæmlega sömu stöðu.

Það tók menn fimm ár að koma okkur á hausinn með fimmta stærsta gjaldþrot heimssögunnar og holskeflu af málaferlum í kjölfarið vegna lögbrota sem framin voru innan bankans og holskeflu málaferla sem stór hluti þjóðarinnar þurfti að standa í til að sækja eigur sínar til baka. Það má ekki gerast aftur.

Nýverið bárust fregnir af sölu í hlut í Arion banka. Svo virðist sem þær leikreglur sem við höfum sett okkur nái ekki nógu vel utan um það sem þar gerðist. Erlendir vogunarsjóðir sem skáka í skjóli leyndar og enginn veit raunverulega hverjir eru eiga nú orðið hlut í bankanum. Ég spyr mig, virðulegi forseti, hvort við getum ekki gert betur á þeim vettvangi. Getum við skrifað reglurnar þannig að við getum alltaf í öllum tilvikum krafist þess að vita hverjir eiga alla hluti í samfélagslega mikilvægum stofnunum eins og bönkum?

Sópum því ekki undir teppi að svikin felast ekki síður í vinnubrögðum þeirra sem við treystum og treyst var fyrir mikilvægum verkefnum, að sjá til þess að leikurinn færi vel fram, og fóru ekki vel með það traust. Ég vil taka það fram og ég tek það sem dæmi að það sem gerðist líka í Borgunarmálinu. Ætli sé í raun og veru einhver munur á Borgunarmálinu og Búnaðarbankamálinu? Mögulega verður ekki hægt að sanna það.

Virðulegi forseti. Ég spyr að lokum hvort við getum ekki sameiginlega gert betur? Ég mun leggja mitt af mörkum við að tryggja að svo verði. Ég hef engan áhuga á að alþingismenn standi hér eftir fimmtán ár og ræði nákvæmlega sömu hluti og við gerum í dag.



[11:40]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Á blaðamannafundi í gærmorgun lýsti Gylfi Magnússon því yfir að fléttan sem notuð var til að blekkja stjórnvöld hafi verið of ævintýraleg til að hún hefði þótt trúverðug í reyfara og hefði líklega verið hafnað af útgefendum fyrir vikið. Það er rétt að í skýrslunni birtist óvenjumikil siðblinda og gróðafíkn sem leiddi á endanum til skelfilegra atburða, ekki þó fyrir aðalleikarana sjálfa, nýir eigendur bankans léku sér nefnilega eins og óvitar að eldspýtum sem leiddi loks til falls viðskiptabanka á fáum árum. Afleiðing þess fyrir heimili og almenning er öllum kunnug en verður ekki sagt frá því nógu oft. Krónan hrundi, verðbólga fór úr böndum, atvinnuleysi mældist í tveggja stafa tölu. Ísland lagðist inn á gjörgæsludeild AGS og landið var í höftum þangað til í síðustu viku. Margir Íslendingar eiga enn um sárt að binda og velferðarkerfi landsins er enn veikara fyrir vikið. Það er því ansi kaldhæðnislegt að skýrslan skuli opinberuð nánast á sama tíma og höftum er aflétt og bankasalan fer aftur af stað. Bling. Hringnum er lokað. Viljum við nokkuð fara aðra leið í þessari hringekju? Ég held ekki.

Það er því ekki skrýtið þó að það hafi hríslast um mann nettur aumingjahrollur þegar forsætisráðherra fagnaði barnslega sölu Arion banka til vogunarsjóða nýlega. Nú fer hann með löndum þegar um er að ræða frekari rannsókn á einkavæðingu bankanna upp úr aldamótum. Hann virðist ætla að halda áfram að hundsa þingsályktun þess efnis, sem þingmenn Samfylkingar, VG og Hreyfingarinnar samþykktu árið 2012. Þó er gott að vita að hv. fjármálaráðherra hafi kveðið skýrt upp úr með það að slíkt eigi að rannsaka, en það sýnir hvað þeir frændur eru ósamstiga um margt.

Þetta mál minnir okkur rækilega á það sem hefur verið margítrekað úr þessum ræðustól síðustu vikur við misjafnar undirtektir. Við verðum tafarlaust að ráðast í og ljúka vandaðri vinnu á því hvernig fjármálakerfi við viljum byggja upp til framtíðar og hverjir geta talist heppilegir eigendur banka. Þessu þarf að ljúka áður en bankarnir tveir sem ríkið á verða seldir.

Raunar birtist í fyrirhugaðri bankasölu athyglisvert ósamræmi milli stjórnarliða. Á meðan hæstv. fjármálaráðherra fullyrðir að ekkert liggi á að selja bankana segir hv. formaður fjárlaganefndar í umræðu um fjármálastefnu að það verði gert á þessu kjörtímabili. Þessi hringlandaháttur skapar ekki traust á leiðinni fram undan, sýnir hve ósamstiga ríkisstjórnin er og hve illa hún heldur í raun á þessu máli.

Herra forseti. Það verður tafarlaust að ráðast í rækilega rannsókn á einkavæðingarferlinu fyrir hrun og líka tengslum viðskiptamanna við stjórnarflokka þess tíma, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þrálátur orðrómur er nefnilega um að helmingaskiptaflokkarnir hafi deilt bönkunum á milli sín rétt eins og grunur lék á að aðkoma Hauck & Aufhäuser hafi verið málamyndagjörningur og spyrjið hv. þm. Vilhjálm Bjarnason um það.

Skýrslan sem var kynnt í gær dregur upp spurningar um sinnuleysi stjórnvalda, stofnana og endurskoðenda í einkavæðingarferlinu og eftirmálum þess. Þeim verður að svara. Enn er aftur minnst á það að það er undarlegt að hæstv. forsætisráðherra telji að ekki þurfi að rannsaka málið frekar.

Herra forseti. Nú stendur yfir vika sem er helguð fjármálalæsi ungs fólks um allan heim. Hún stendur til 2. apríl, þegar nemendur úr Háteigsskóla aðstoða Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra við að hringja inn opnun markaða í Kauphöllinni. Þetta verður eflaust fallegt og einstaklega myndrænt slútt á þessari viku. Ég ætla þó að skora á ríkisstjórnina að veita ríflegt fjármagn til siðfræðikennslu allra barna í grunn- og framhaldsskólum því að ég er sannfærður um að slíkt er ekki síður líklegt til að koma borgurum og bankamönnum framtíðarinnar að gagni og stuðla að betra siðferði og heilbrigðara fjármálaumhverfi.



[11:44]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla með leyfi forseta að lesa úr bók sem ég fann og hefst nú lesturinn:

„Ég heyri sagt að þú hafir keypt banka, Jón Hreggviðsson, sagði Arnas Arnæus. Er það rétt? Jón Hreggviðsson hófst við í sæti sínu og ansaði: Hef ég keypt banka eða hef ég ekki keypt banka. Hver hefur keypt banka og hver hefur ekki keypt banka? Hvenær kaupir maður banka og hvenær kaupir maður ekki banka? Fari í helvíti sem ég keypti banka. Og þó?“

Jón Hreggviðsson var aldrei viss um hvort hann hefði keypt banka eða ekki keypt banka og það eru engar vísbendingar um að Jón Hreggviðsson hafi keypt banka. Þetta er alveg sama staðan og Hauck & Aufhäuser er í í dag. Hauck & Aufhäuser keypti ekki banka árið 2003.

Í gær og í dag hefur ýmissa spurninga verið spurt. Það er rétt að halda áfram að spyrja, en það er líka rétt að horfa til baka og rifja upp nokkra atburði.

Það gerist 16. janúar árið 2003 að þessi tiltekni banki, Búnaðarbanki, er seldur með fréttatilkynningum. Þar er það skráð vel og rækilega að þessi þýski banki, Hauck & Aufhäuser, er kaupandi. Það birtist fréttatilkynning bæði frá svokölluðum S-hóp og bankanum sjálfum sérstaklega, þar sem væntanlegur stjórnarmaður í Búnaðarbankanum, Peter Gatti, lýsir því hvursu góð fjárfesting þetta er. Því er jafnframt lýst í þessari fréttatilkynningu hvar bankinn starfi, hann sé m.a. með starfsemi í Sviss og Lúxemborg.

Einkavæðingarnefnd hafði skamman tíma til þess að samþykkja þennan banka, ekki nema nóttina, en það er t.d. einfalt að spyrja: Hvaða starfsemi var þessi banki með í Sviss og Lúxemborg? Samkvæmt skýrslum bankans fyrir 2003 þá voru það nokkur þúsund evrur, þannig að þessi fréttatilkynning ýkir um gæði þessa banka. Ég segi ósköp einfaldlega að einkavæðingarnefnd virðist hafa haft það „mission“, þann tilgang, að selja Búnaðarbanka erlendum banka. Það er í sjálfu sér gott og gilti að tengja íslenskt fjármálakerfi alþjóðlegum bönkum ef rétt er gert. En þar var ekki spurt spurninga. Næsti aðili sem á að spyrja er náttúrlega Fjármálaeftirlitið. Menn hafa spurt hér margoft: Var regluverkið í lagi þá eða núna? Ég segi ósköp einfaldlega: Regluverkið var í lagi á þeim tíma. Sá sem hér stendur starfaði í bankaeftirliti Seðlabankans árið 1995 og 1996. Á þeim árum var verið að innleiða svokallaða CAD-hugsun, Capital Adequacy Directive, þar sem farið er í eiginfjárútreikning á bönkum.

Sú aðferðafræði sem ég beitti og hugsaði árið 2005, 2006 svaraði þeim spurningum sem við erum allt í einu að fá svar við núna, að þessi erlendi banki keypti ekki. Þarna bregst Fjármálaeftirlitið. Síðan á miðju ári 2003 þegar Búnaðarbanki og Kaupþing sameinast þá bregðast endurskoðendur vegna þess að þarna er 100 milljón dollara lán inni. Hver er skuldari að því og hvað er undirliggjandi veð? Egla er skuldari, undirliggjandi veð eru hlutabréf í Kaupþingi.

Þetta 100 milljón dollara lán virðist mér samkvæmt öllum upplýsingum aldrei hafa verið greitt heldur hafa þeir sem um véluðu vélað út aðra tæpa 100 milljón dollara út úr kerfinu. Þarna eru horfnir 200 milljón dollarar út úr bankakerfinu. Það eru einhverjar fjárhæðir, menn geta reiknað það út í dag. Gengið er nú svo misjafnt, það getur vel verið að þetta sé meira eða minna í dag en í gær, það skiptir ekki máli.

En horfum þá til annarra stærða.

Þessar fréttatilkynningar eru ótvíræðir gerningar í markaðsmisnotkun. Að hverju beinist markaðsmisnotkunin? Hún beinist í rauninni ekki að félaginu, hún beinist að heilu samfélagi. Þá erum við hér með úttekt á fjárfestingu lífeyrissjóða í fjórum bindum, ég er aðeins með eitt hér. Mér virðast lífeyrissjóðir hafa tapað á Kaupþingi og tengdum fyrirtækjum sem nemur u.þ.b. 150 milljörðum. Hafi ríkið fengið sitt fyrir bankann þá hefur samfélagið tapað í eftirlaunum hjá lífeyrissjóðum. Þannig að tjónið er í heilu samfélagi.

Síðan gerist það að Ríkisendurskoðun kemur að þessu máli árið 2006. Hún hefur engan áhuga á því. Hún hefur fyrst og fremst áhuga á því að niðurlægja þann borgara sem kvartar. Það er óþarfi að ræða þá pappíra sem frá Ríkisendurskoðun koma, það er kannski ástæða til þess að ræða við Ríkisendurskoðun í dag eða fyrrverandi ríkisendurskoðanda sem að því máli stóð.

En hvað ber að gera núna? Við stöndum núna andspænis mikilli skýrslu og ýmsum gögnum. Nefndin sem um þetta mál fjallaði var mjög afmörkuð, leitaði svara við þeirri spurningu hvernig að þessu var staðið og komst í ákveðin gögn sem leystu úr miklu. Við höfum horft hér á það sem heitir á sænsku „företagstömning“, ég hef kallað þetta á íslensku fyrirtækjatæmingu, þ.e. þegar fyrirtæki er tæmt, strippað. Og hvað á að gera þá? Hverjir nutu þess að bankinn var strippaður? Þarna koma tveir til greina, sem tóku á móti þessum tæpu 100 milljörðum, það er fyrirtæki tengt aðalgeranda málsins og svo er annað, Dekhill, sem enginn veit hver er ávinningshafi að. Væntanlega hafa ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri getu til þess að afla þessara upplýsinga. Það verður fróðlegt að fá það fram.

Spyrjum um fyrningu í þessu máli. Sagt er að þetta mál sé fyrnt. Hvenær byrjar fyrningarfrestur? Ég tel nú að fyrningarfestur hefjist þegar menn hafa viðhlítandi gögn í höndum en ekki þegar glæpur er framinn. Þetta er samfelldur glæpur. Í mínum huga er þetta samfelldur glæpur frá 16. janúar árið 2003 til 29. mars 2017. Þá er þetta loksins upplýst. Þá vita allir. En ef menn vilja rannsaka það þá tel ég nauðsynlegt að rannsaka það hvernig skuldaskilum tiltekinna einstaklinga var háttað við viðkomandi banka, t.d. eins og í Landsbankanum. Aðaleigandi þar. Þar hef ég undir höndum gögn þar sem endurskoðendur falsa upplýsingar við gerð ársreiknings og sömuleiðis skuldauppgjör þess einstaklings sem um er fjallað í þessari skýrslu og vélaði um einkavæðingu Búnaðarbankans.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[11:53]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Skýrslan sem birt var í gær felur í sér þungan áfellisdóm. Hún er afdráttarlaus í meginniðurstöðum sínum: Íslensk stjórnvöld, og um leið íslenskur almenningur, voru blekkt. Rannsóknarnefnd Alþingis telur hafið yfir allan vafa að Hauck & Aufhäuser var ekki raunverulegur fjárfestir í þessum viðskiptum, því hafi farið fjarri og hafi í reynd aldrei staðið til. Í tengslum við kaupin hafi verið gerðir baksamningar með leynd með þríhliða samvinnu fulltrúa Hauck & Aufhäuser, starfsmanna Kaupþings hf. og dótturfélags þess, Kaupthing Bank Luxembourg og manna sem komu að því verki af hálfu og í þágu Ólafs Ólafssonar, þáverandi forstjóra Samskipa, stjórnarmanns í Keri hf. og helsta forsvarsmanns S-hópsins.

Samhliða þessum baksamningum var búið svo um hnúta að aflandsfélagið Welling & Partners, sem Ólafur Ólafsson var raunverulegur eigandi að, nyti alls hugsanlegs fjárhagslegs ávinnings af þeim hlutum en ekki málamyndaeigandinn, Hauck & Aufhäuser. Rannsóknarnefndin telur að gögn sýni svo ekki verði um villst að Ólafur Ólafsson hafi ekki aðeins verið upplýstur um þessa baksamninga og aðrar ráðstafanir þeim tengdum, heldur hafi hann frá upphafi átt að njóta og notið í reynd fjárhagslegs ávinnings af þeim. Fram kemur í skýrslunni að samanlagður hagnaður aflandsfélags Ólafs Ólafssonar, Welling & Partners, hafi numið að lágmarki 102 milljónum dollara. Rannsóknarnefndin bendir á að áhrif hinna leynilegu baksamninga hafi verið þau að það hafi verið víðs fjarri að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur fjárfestir í bankanum, beint eða óbeint. Það sé þvert á það sem haldið var fram, bæði gagnvart stjórnvöldum og fjölmiðlum. Fram kemur að ekkert í gögnum rannsóknarnefndar bendi til þess að nefndarmenn í framkvæmdanefnd um einkavæðingu, starfsmenn nefndarinnar, ráðherrar sem sátu í ráðherranefnd um einkavæðingu eða raunar nokkur annar fulltrúi eða starfsmaður íslenskra stjórnvalda og stofnana hafi á nokkru stigi haft vitneskju um hver aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupunum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum hafi verið í reynd. Þá bendi ekkert til þess að neinn þessara aðila hafi haft hugmynd um að fjárhagslegur ávinningur af viðskiptunum hafi frá upphafi verið áskilinn og í reynd á endanum runnið til aflandsfélags í eigu Ólafs Ólafssonar og síðar aflandsfélagsins Dekhill Advisors Ltd.

Rannsóknarnefndin segir í lok skýrslu sinnar, með leyfi forseta, „[að] ekki verði um villst að íslensk stjórnvöld hafi á sínum tíma verið blekkt um aðkomu Hauck & Aufhäuser að þeirri einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. sem lokið var með kaupsamningi 16. janúar 2003. Á sama hátt varpar skýrsla þessi að mati nefndarinnar skýru og ótvíræðu ljósi á hverjir stóðu að þeirri blekkingu, komu henni fram og héldu svo við æ síðan, ýmist með því að leyna vitneskju sinni um raunverulega aðkomu Hauck & Aufhäuser eða halda öðru fram gegn betri vitund.“

Herra forseti. Allt er þetta með hinum mestu ólíkindum. Hér er hulunni lyft af blekkingarvef sem spunninn var með óprúttnum hætti. Fyrstu viðbrögð eru auðvitað reiði og hneykslan. Hvernig gat þetta eiginlega gerst? Hvaða aðstæður voru fyrir hendi sem gerðu þetta mögulegt? Hvar var eftirlitið? Hverjir voru ferlarnir sem unnið var eftir? Hvaða þátt áttu stjórnmálamenn þessara tíma í því að skapa það andrúmsloft að gera þetta mögulegt? Það er óhjákvæmilegt að líta til þess að hér hafa pólitísk öfl tengst viðskiptalífinu sterkum böndum, beint og óbeint. Við lestur skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008, sem skilað var 2010, eru skýrar vísbendingar um að pólitísk afskipti og hin gamla óskráða helmingaskiptaregla hafi svifið þarna yfir vötnum. Var það e.t.v. ástæða þess hve stjórnvöld virðast hafa verið værukær og lagt litla áherslu á að komast til botns í málum og nánast treyst í blindni á orð kaupenda og ráðgjafa sinna, ferlið og þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar kaupunum voru mjög á reiki og tóku breytingum í sölu- og matsferlinu?

Herra forseti. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mun fara gaumgæfilega yfir skýrsluna. Af henni verður að draga lærdóm. Þessi saga má ekki endurtaka sig. Tengsl stjórnmálaflokka og fjármálaafla er hættuleg blanda. Það verður að vera hafið yfir allan vafa að hlutlæg vinnubrögð ráði för, það þarf gagnsæi, opin ferli og sterkar eftirlitsstofnanir. Fyrir því viljum við hjá Viðreisn beita okkur af fullum þunga. Ég vil aldrei þurfa að lesa skýrslu af þessu tagi aftur.



[11:59]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa góðu skýrslu sem rannsóknarnefnd skilar um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans. Það er í raun og veru merkilegt að lesa þessa atburðarás alla saman og það sem kemur fram frá því í byrjun þegar S-hópurinn og Ólafur Ólafsson flagga því að þau hafi erlendan fjárfesti í sigtinu og fram kemur í fundargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu að fremur væri gefinn plús fyrir erlenda peninga, sem þar af leiðandi gaf þessum hópi forskot í að verða sá aðili sem fengi að kaupa bankann. Síðan er þar rakið hvernig þessi erlendi fjárfestir skipti alltaf máli, virðist vera, í öllu þessu ferli og fram kemur í skýrslunni að einkaviðræður við S-hópinn yrðu ákveðnar til tiltekins takmarkaðs tíma og að framkvæmdanefndin yrði treg til að framlengja einkaviðræður ef hún teldi Société Générale eða annan alþjóðlegan fjárfesti ólíklegan til að eiga umtalsverðan hlut í eignarhaldsfélagi um tilboðið og hvernig hópurinn ákveður síðan þegar í ljós kemur að Société Générale ætlar sér ekki að verða fjárfestir heldur eingöngu gegna ráðgjafarhlutverki og finnur fyrir S-hópinn þennan þýska sveitabanka, svo vitnað sé til góðra manna, Hauck & Aufhäuser, til þess að verða málamyndaaðili í öllum þessum gjörningi sem síðar skilaði ómældum persónulegum hagnaði til þeirra aðila sem þarna sátu við borðið.

Þarna var blekkingum beitt og það kemur svo skýrt fram hér. Það er mikilvægt fyrir okkur sem hér stöndum nú að það liggur fyrir af opinberum gögnum að ítrekað hafi komið fram efasemdir í fjölmiðlum og opinberri umræðu um það hvort aðkoma Hauck & Aufhäuser hafi verið með þeim hætti sem gefið var til kynna. Slík umræða kom fram á vettvangi Alþingis í fyrirspurnum þáverandi þingmanna stjórnarandstöðunnar, Lúðvíks Bergvinssonar og Ögmundar Jónassonar. Þetta kom fram í athugasemdum Vilhjálms Bjarnasonar, núverandi þingmanns. Enn fremur kemur fram í skýrslunni að þær athugasemdir voru afgreiddar af eftirlitsstofnunum eins og ekkert hefði í skorist. Þess vegna er svo mikilvæg að við tökum þessi mál öll til gagngerrar skoðunar, því að það dugir ekki að vitna til þess að margar rannsóknir hafi farið fram þegar í ljós kemur að þær voru ekki fullnægjandi, að eftirlitsstofnanirnar luku ekki því verki sem þeim var falið heldur voru athugasemdirnar afgreiddar sem hjóm eitt. Nú kemur í ljós að allt var þetta málamyndagjörningur, blekkingum var beitt í því skyni fyrir tiltekna aðila að hagnast á því þegar almannaeigur voru seldar.

Það eru staðreyndir málsins sem fyrir okkur liggja, herra forseti. Þessi skýrsla kallar annars vegar á að rannsókn á öllu einkavæðingarferlinu verði lokið, eins og við ræddum í óundirbúnum fyrirspurnartíma áðan, en hún kallar líka á það að við skoðum mjög vel hvernig við ætlum að byggja hér upp fjármálakerfi til framtíðar, því að fjármálakerfið er órjúfanlegur hluti þessa samfélags. Við getum ekki boðið upp á það, Alþingi Íslendinga, að samfélagið verði áfram gegnsýrt af tortryggni og grunsemdum gagnvart því kerfi sem á í raun að vera þjónustuaðili fyrir almenning og atvinnulíf í landinu. Það gengur ekki. Þannig verður það hins vegar ef við ljúkum þessum málum ekki með eðlilegri rannsókn og um leið förum yfir stöðuna núna, hvernig lög og reglur eru, hvernig þeim hefur verið breytt og hvort það er fullnægjandi og hvort þeim er fylgt eftir með nægjanlegum hætti.

Eða ætlum við að sætta okkur við að eignarhald íslenskra fjármálafyrirtækja verði á aflandssvæðum? Er það eitthvað sem er hægt að bjóða íslensku samfélagi upp á þegar við lesum um afleiðingar þess fyrir nokkrum árum? Þetta er verkefnið, að gera upp þessa fortíð, loka þessum málum með einhverjum hætti og sýna þannig að samfélagið geti haldið áfram og skilið við þessi mál, að við ætlum ekki að láta þetta gerast aftur.

Þess vegna er það ekki í boði að ráðist verði í frekari einkavæðingu á bankakerfinu fyrr en þessari rannsókn hefur verið lokið og við erum fullviss um að lög og regluverk, eftirlitsstofnanir og stjórnvöld geti staðið vaktina þegar kemur að því að ákveða framtíð fjármálakerfisins. Þetta er verkefnið sem fyrir okkur liggur. Annað er ekki boðlegt fyrir íslenskt samfélag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[12:05]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Við erum með þessa fínu skýrslu hérna sem varpar ljósi á það sem ég myndi kalla einn stærsta glæp aldarinnar fram til þessa. Hún sýnir einbeittan brotavilja, vítavert skeytingarleysi stjórnvalda, undirstrikar það algera siðferðishrun sem einkavæðing bankanna var. Og hún stendur sem skær viðvörun um hvernig mun fara ef við önum áfram á sömu braut á ný eins og núverandi ríkisstjórn hefur lagt línurnar varðandi sölu bankanna enn á ný.

Það er áhugavert að heyra hvernig frásagnirnar af þessu hafa verið. Margt áhugavert kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar, sem á miklar þakkir skildar fyrir að hafa vakið athygli á því máli sem var þessari skýrslu til grundvallar á sínum tíma, en ég er hjartanlega ósammála honum þegar hann segir að regluverkið hafi verið í lagi á þeim tíma. Ef það hefði verið í lagi á þeim tíma hefði þetta kannski ekki gerst. Það má minnast á að í þessu samhengi er þetta mynstur, nákvæmlega þetta ferli, hvernig þessi einkavæðing átti sér stað, ekki einsdæmi sem átti sér bara stað hérna á Íslandi. Það hafa nákvæmlega sams konar einkavæðingarferli með nákvæmlega sams konar feluleikjum og blekkingum átt sér stað í mörgum öðrum löndum. Ég gæti þulið upp nokkur dæmi en læt það ógert. Ljóst er að regluverkið er ekki bara ónýtt hér á Íslandi heldur víðast í heiminum.

Eftir þessa skýrslu, sem ég er að vísu ekki búinn að klára að lesa enn þá en kominn langt á leið, liggur ein mikilvæg spurning og hún er: Hver er eða var eigandi að Dekhill Advisors Limited, fyrirtæki sem er skráð á Bresku Jómfrúreyjunum, alræmdu skattaskjóli? Við verðum að gera okkur grein fyrir að blekkingar af því tagi sem um ræðir eru ekki mögulegar nema vegna þess að engin leið er til að vita hver sannleikurinn er. Það er aðeins ein leið til að tryggja að svona lagað geti ekki gerst aftur, það er að tryggja gagnsæi á eignarhaldi á fyrirtækjum. Það að eiga fyrirtæki er ekki einkamál nokkurs manns. Það er samkomulag við samfélagið um að fá ákveðnar takmarkanir á ábyrgð í skiptum fyrir uppbyggilega og heiðarlega þátttöku í hagkerfinu. Gagnsæi í eignarhaldi kemur ekki bara stjórnvöldum við. Aðhald gegn því að eignarhaldi sé ekki misbeitt gegn samfélaginu kemur ekki síst frá samfélaginu sjálfu, m.a. fjölmiðlum og ýmsum öðrum aðilum.

Píratar hafa lagt fram frumvarp sem tryggir að allir eigendur banka eigi að sæta þessum gagnsæisreglum, það séu ekki bara þeir sem eiga meira en 10%. Þá er ekki hægt að skýla sér á bakvið 9,99% eins og einhverjir eru nú að reyna að gera. Jafnt á að gilda um alla sem á annað borð hafa möguleika á að kaupa banka. Píratar hafa einnig lagt fram frumvarp sem tryggir öllum jafnt aðgengi að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá. Öllum. Óháð efnahag og aðstæðum. Að allir komist í þessi gögn. Þetta eru alger grundvallaratriði, en þetta er ekki nóg. Auðvald heimsins hefur um áratugaskeið byggt upp stórspillt net fyrirtækja á heimsvísu sem í skjóli alþjóðlegrar samvinnu um að leyfa óvinum samfélagsins að fela eignir og stinga undan — þetta er orðið til. Rúmlega 14% af heildarauði heimsins hefur flotið í gegnum skattaskjól og þannig nýst fjárglæframönnum eins og Ólafi Ólafssyni sem veigra sér ekki við að skapa aðstæður þar sem heilu löndin geta farið á hausinn.

Ísland þarf í alvöru núna að fara að nýta þetta tækifæri til að skilja að það er ekki og verður aldrei nóg að horfa upp á heiminn brenna og skrifa svo bara skýrslu um það. Við eigum að nota þennan lærdóm til að fara í heilagt stríð gegn skattaskjólum og leyndarhyggju í fjármálakerfinu. Við eigum að byrja á því að opna fyrirtækjaskrá, algerlega upp á gátt, ásamt hluthafaskrá og ársreikningaskrá. Við eigum að setja þungt árlegt leyndargjald á þau fyrirtæki hvers eignarhaldskeðjur enda ekki í nafngreinanlegum einstaklingum sem eru sannarlega til. Og við eigum að skylda samdægurs þinglýsingu og skráningu á sölusamningum á hlutum í fyrirtækjum að viðlagðri ógildingu samnings. Þetta, allt þetta, ásamt þrýstingi okkar á önnur lönd að gera það sama, væru rétt viðbrögð við þessari skýrslu og hefðu verið rétt viðbrögð við upprunalegri rannsóknarskýrslu Alþingis frá 2010.

Það sem við eigum alls ekki að gera er að rjúka í taumlausa vanhugsaða einkavæðingu á bönkunum aftur. Við eigum ekki að mata djöful nýfrjálshyggjunnar með andfélagslegum stefnurekstri í ríkisfjármálum og ekki að una við að leyfa manni að sitja sem forsætisráðherra Íslands sem hefur beinlínis haft hag af umræddri leyndarhyggju og dirfist svo segja að það þurfi ekki að rannsaka neitt fleira.

Staðan er einfaldlega þannig að við höfum enn á ný fengið skýrslu sem sýnir að glæpsamlegir atburðir áttu sér stað í byrjun þessarar aldar. Þessir glæpsamlegu atburðir munu gerast aftur og aftur og aftur þar til við tökum á þessu með almennilega skýru regluverki sem hleypir ekki neinu rugli í gegn.



[12:11]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að þegar maður hélt að fátt gæti komið manni á óvart í samskiptum peningamanna við umhverfi sitt dúkkuðu upp stórfelld svik í kringum sölu á Búnaðarbankanum. Það er ónotalegt til þess að vita að til séu menn sem skuli finna sér sérstaka þægð í því að hafa rangt við. Ekki þar fyrir, mannskepnan hefur alltaf haft lag á að reyna að bjarga sér en fyrr má nú vera að blekkja stjórnvöld, kjörna fulltrúa og almenning, allt til þess að geta skarað eld að eigin köku. Að sjálfsögðu má hafa um þetta framferði mörg orð og ekki öll falleg.

Hæstv. forseti. Ég hygg að við verðum þrátt fyrir allt að reyna að draga lærdóm af því sem gerst hefur og vanda betur til verka í framtíðinni. Staðan á íslenskum bankamarkaði nú er ekki ósvipuð og hún var fyrir einkavæðingu. Bankakerfið er að miklu leyti í höndum ríkisins. Núverandi stjórnarflokkar telja mikilvægt að losa um þetta eignarhald og kemur það fram í drögum að eigandastefnu, sem birtist á vef fjármálaráðuneytisins, að stefnt skuli að sölu á öllu hlutafé í þremur fjármálafyrirtækjum og stórum hluta í því fjórða, Landsbankanum.

Þegar skýrsla sú sem gerð var opinber í gær og nýleg sala á stórum hlut í Arion banka er höfð í huga er ekki alveg laust við að grunur vakni um að sagan gæti endurtekið sig.

Hæstv. forseti. Það er hlutverk okkar hér á Alþingi að standa vörð um hagsmuni almennings. Það kann að vera að á köflum þyki sumum okkur ekki hafa tekist allt of vel upp. Skýrslan frá í gær rennir stoðum undir þá skoðun. Á hitt verður þó að líta að yfirvöld þess tíma studdust við það sem kallað er óháðir sérfræðingar og menn báru fullt traust til. Það leysir þó ekki stjórnvöld undan ábyrgð á því sem gerðist. Sú óþægilega niðurstaða sem eftir situr er að í heimi peningamanna virðist fáu og fáum treystandi. Þeir virðast hafa þá sýn á heiminn að þeirra veröld sé óháð þeirri sem almenningur lifir, allt sé heimilt, allt sé falt, bara passa upp á ekkert komi fram í dagsljósið sem óþægilegt kann að þykja. Þá reynir á að yfirvöld standi í lappirnar og ekki bara þá heldur alltaf.

Nú þegar þessi skýrsla liggur fyrir ætti það að vera núverandi stjórnvöldum og Alþingi áminning um hvar ábyrgðin á almannahagsmunum liggur. Hún liggur ekki hjá þeim sem vilja kaupa banka, hún liggur hjá stjórnmálamönnum. Hún liggur hjá þeim sem þjóðin hefur kosið til að gæta hagsmuna sinna.

Hæstv. forseti. Það er illt til þess að vita að traust virðist vera af skornum skammti. Skýrsla um svik og blekkingar bætir ekki úr skák. Sala á verðmætum í eigu almennings er vandmeðfarin. Við stöndum í sambærilegum sporum nú og við gerðum fyrir einkavæðingu. Stjórnvöldum ber að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Stjórnvöldum ber að grennslast fyrir um það hverjir eru raunverulegir eigendur mikilvægra stofnana í samfélagi okkar.

Hæstv. forseti. Því miður virtist það lýsandi fyrir andvaraleysi sem ríkir í ranni núverandi ríkisstjórnar að hæstv. forsætisráðherra virtist sérlega kátur á dögunum með kaup erlendra aðila á nær 30% hlut í Arion banka. Þó veit hann ekki, frekar en aðrir, hverjir nýir eigendur eru nákvæmlega né hver framtíðarstefna þeirra er. Þetta hljómar óþægilega kunnuglega. Það er full ástæða til að ljúka rannsókn á einkavæðingu bankanna.



[12:15]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það eru stór orð að segja þjóðin að hafi verið blekkt þegar Búnaðarbankinn var seldur. Einkavæðing bankanna og vöxtur þeirra í kjölfarið var rót hrunsins og við erum enn að glíma við slæmar afleiðingar þess. Margir hafa getið sér til um einmitt það að um blekkingar hafi verið að ræða en ekki sannreynt fyrr en nú. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason gerði athuganir á sínum tíma á reikningum þýska bankans og benti á að ekkert væri þar að finna um að bankinn hafi verið raunverulegur kaupandi Búnaðarbankans. Vilhjálmur hélt því fram að um blekkingar væri að ræða. En viðbrögðin þá voru þau að athuganir hans voru gerðar tortryggilegar. Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar kölluðu oft eftir athugunum á stjórnsýsluháttum þegar bankarnir voru einkavæddir og efuðust um gæði þeirra. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hafði ásamt fleiri stjórnarandstöðuþingmönnum efasemdir um raunverulega þátttöku þýska bankans í kaupunum og spurði þáverandi viðskiptaráðherra um það. Ögmundur fékk skriflegt svar í febrúar 2006 frá Fjármálaeftirlitinu á þann veg að stofnunin teldi að ekkert benti til annars en að þýski bankinn hefði verið hluthafi í Eglu hf. Efasemdum og grun um blekkingar og slæma stjórnsýslu í aðdraganda einkavæðingarinnar og í kjölfar hennar var ýtt ákveðið til hliðar, m.a. af ráðherrum, Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitinu. Í því ljósi er niðurstaða rannsóknarinnar sérstaklega sláandi um að eignarhald þýska bankans á hlutum í Eglu hf. og þar með í Búnaðarbankanum hafi aðeins verið að nafninu til og til málamynda og yfirvarp fyrir endanleg yfirráð, áhættu og ávinning annarra aðila.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna kemur fram að S-hópnum hafi verið greint frá því í ágúst 2002 að við val á kaupanda Búnaðarbankans yrði gefinn plús fyrir erlenda peninga, eins og það var orðað. Erlendur hluthafi í Eglu hf. er kynntur til sögunnar stuttu síðar og S-hópurinn komst upp með að gefa óljósar upplýsingar um erlenda eigandann og athuganir sem voru gerðar voru óformlegar. Hvers vegna voru blekkingarnar mögulegar? Hvers vegna var ekki gengið harðar eftir upplýsingum um aðkomu og fjármögnun þýska bankans sem öllum var ljóst af umræðum í fjölmiðlum og við ráðamenn að skipti miklu máli við mat á kaupendum? Hvernig gat þetta gerst?

Alþingi samþykkti haustið 2012 þingsályktun sem flutt var af þingmönnum Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Hreyfingarinnar undir forystu Skúla Helgasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um að ráðast í rannsókn á einkavæðingu allra bankanna þriggja. Þeirri samþykkt hefur ekki verið fylgt eftir en á auðvitað að gera og á að hefja þá rannsókn eins fljótt og auðið er, því að sagan má ekki endurtaka sig.



[12:18]
Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Það er vont að vera plataður og það eru vonbrigði að komast að því að leynd hafi verið um vissa þætti í því máli sem um ræðir. Það er vont, ekki síst því að það grefur undan því trausti sem nauðsynlegt er öllu kerfinu sem er grunnurinn að samfélaginu og fjármálakerfinu þá ekki síst, fjármálakerfi sem þrátt fyrir margt sem betur má fara er nauðsynlegt fyrir hagsæld landsins og almannahag.

Ef mistök eru gerð eru þau dýrmæt tækifæri til að læra. Það á einnig við ef í ljós kemur að mistök hafi verið gerð í þessu máli, ekki endilega til að taka U-beygju úr kerfi sem í grunninn er mikilvægt samfélaginu heldur til að reyna að leita jafnvægis þess sem mistökin kenna okkur. Þrátt fyrir að í því samhengi sé nauðsynlegt að líta yfir farinn veg ætti fyrst og fremst að láta mistökin verða steinana til að varast á leiðinni fram á við.

Stjórnendum fyrirtækja er sett það markmið að hámarka hag hluthafa. Okkur hér er sett það markmið að hámarka hag fólksins í landinu. Til þess stend ég hér og segi því, alveg eins og stjórnandi í fyrirtæki myndi segja, að af þessu skal læra svo að nauðsynlegt traust skapist til að halda úti kerfi til að búa eins vel í haginn fyrir almenning og mögulegt er. Þegar t.d. verður farið í að losa um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum höfum við traustan og gegnsæjan lagagrundvöll til að byggja á til að um þá skynsamlegu gjörninga ríki sem mest sátt.

Á þessu stigi málsins er brýnt að halda til haga að þrátt fyrir að þessi leyndarangi málsins liggi að því er virðist ljós fyrir eru aðrir þættir málsins um kröfur, áhrif og afleiðingar enn ekki að fullu skýrir. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur það hlutverk að taka skýrslur rannsóknarnefnda til umfjöllunar og gefa Alþingi skýrslu. Við nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum því það hlutverk að fara yfir aðkomu stjórnvalda við þessa sölu, hverjar kröfurnar voru, innan hvaða regluramma o.s.frv. Sú vinna er eftir. Sem nefndarmaður í þeirri nefnd tek ég að lokum undir með formanni nefndarinnar, hv. þm. Brynjari Níelssyni, að til að virða það hlutverk hef ég engar frekar skoðanir að sinni um þetta mál þar til sú vinna hefur átt sér stað.

Að því sögðu þarf enginn að velkjast í vafa um að það er fullur vilji, skilningur og stuðningur við þá nauðsynlegu vegferð að gera þetta mál svo úr garði að hægt sé að læra, laga og leiða áfram til að skapa hér nauðsynlegt traust.



[12:22]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessari skýrslu og það gleður mig að hún er vönduð, skýr, vel rökstudd og niðurstöðurnar afdráttarlausar. Alþingi getur vel við unað þá ákvörðun sína að hafa sett þetta mál af stað hér á síðastliðnu vori. Niðurstöðurnar eru auðvitað með endemum hvað varðar þær svívirðilegu blekkingar, það baktjaldamakk og þá grímulausu græðgi, mér liggur við að segja samviskulausu græðgi, sem birtist í atferli manna sem þarna eiga í hlut. Það má segja að hér sameinist og birtist allt það versta sem nýfrjálshyggjugræðgiskapítalisminn, sem Ísland varð að bráð, hefur í för með sér. Allar svívirðilegustu hliðarnar á því andrúmslofti, hugarfari og innræti sem menn bjuggu yfir og hegðuðu sér samkvæmt á þeim tíma.

Það sem eftir situr er hins vegar margt, þó að niðurstöðurnar séu skýrar hvað varðar þennan afmarkaða þátt. Eftir stendur að svara þeirri spurningu: Hverju sætir að aðkoma hins erlenda banka var aldrei könnuð með trúverðugum hætti, jafn mikið og lagt var upp úr henni? Hverju sætir að framkvæmdanefnd um einkavæðingu lét bjóða sér óljósar staðfestingar og nafnlausar tilkynningar um að í vændum væri einhver erlendur virtur fjárfestir? Hverju sætir að Fjármálaeftirlitið sannreyndi aldrei að um væri að ræða hæfan eiganda að stórum ráðandi eignarhlut í banka? Hverju sætir að seljandinn sjálfur, ríkið, ráðherra fyrir hönd ríkisins, sannreyndu þetta ekki heldur?

Mikið var upp úr þessu lagt og ósvífnin kristallast kannski í því að kaupendurnir hömpuðu sérstaklega þeim jákvæðu fréttum að nú væri, eins og þeir sögðu, traustur erlendur banki að taka þátt í að fjárfesta í íslenskri fjármálastofnun, sem hlyti að teljast mikil tíðindi. Með leyfi forseta, vitna ég í skýrsluna á bls. 39:

„Búnaðarbankinn kemur til með að njóta þekkingar, reynslu og viðskiptasambanda þýska bankans …“

Og ekki sé síður mikilvægt að „með eignarhaldi þýska bankans í Búnaðarbankanum skapast tengsl sem íslensk fyrirtæki geta notfært sér til að styrkja starfsemi sína og sókn á erlendum mörkuðum“.

Hvað varð nú úr þessu öllu saman? Nei, bankinn var aldrei þarna. Hann lánaði nafn sitt fyrir ríflega þóknun og er allt saman svívirðilegt hvernig sem á það er litið.

Minnumst þess að það var fleira gagnrýnt í þessu ferli en bara þessi afmarkaði þáttur sem nú hefur verið leiddur í ljós. Allt frá byrjun stóðu stjórnvöld illa að þessum málum. Á tíunda áratugnum er byrjað á því að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög. Þá er sagt í þessum sölum: Þetta er bara formbreyting. Í næstu umferð er byrjað að selja úr ríkisbönkunum og sagt: Nei, bara að minnka eignarhlut ríkisins. Ráðandi hlutur áfram í höndum ríkisins. Þannig er það.

Í þriðja lagi eru hér áralangar umræður um mikilvægi þess að tryggja dreifða eignaraðild í bönkunum. Þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, lýsti sig eindreginn stuðningsmann þess. Við fluttum hér frumvarp, ræðumaður og fleiri, um að setja ætti þak á hámarkseignarhlut í bönkum, 8% eða svo. Stjórnvöld töluðu þannig að þau væru þessu hlynnt og þetta ætti að skoða. Svo er allt í einu, þegar það hentar af pólitískum ástæðum, blaðinu snúið við. Þá er orðið svo mikilvægt að fá kjölfestufjárfesti að bankanum, einn stóran, ráðandi aðila sem beri aðalábyrgð á bankanum. Þá er það orðið aðalatriðið. Svo kemur mantran um að það sé svo mikilvægt að fá erlendan aðila að bankanum eða a.m.k. erlent fjármagn inn í landið til að borga fyrir kaupin.

Allt er þetta svikið. Allt er þetta í skötulíki.

Þarf ekki að rannsaka sölu Landsbankans? Var okkur ekki líka sagt að það væru að koma erlendir peningar til að kaupa hann? En hvað leiddi skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis í ljós? Það var allt saman froða. Þeir tóku lán hver hjá öðrum, einkavæddu bankarnir, til að borga hlutinn og sum þeirra lána voru aldrei greidd. Allt saman brást þetta.

Það þarf tafarlaust að hrinda í framkvæmd samþykkt Alþingis frá 2012 (Forseti hringir.) um almennilega rannsókn á þessu öllu saman og stjórnvöld eiga að setja á ís öll áform um frekari einkavæðingu á meðan. (Forseti hringir.) Ekki ofbjóða almenningi á Íslandi (Forseti hringir.) ofan í það sem hér er komið á blað.



[12:27]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Déjà-vu. Banki kaupir banka sem kaupir banka og slóðin liggur á gamalkunnar slóðir. Bresku Jómfrúreyjarnar í Tortólufélag glæpasamtakanna Mossack Fonseca og loks í fangið á gamalkunnum lykilleikara hrunsins forðum. Brotin, ef einhver voru á tímum villta vesturs íslensks fjármálamarkaðar, sem hafði verið afregluvæddur à la nýfrjálshyggjufræða hins sanna villta vesturs, eru fyrnd. Uppsetning nefndarinnar sem samanstóð af einum manni gerði henni ókleift að álykta um saknæmt athæfi, hvort sem um ræðir embættisafglöp Valgerðar Sverrisdóttur og Geirs H. Haardes eða annarra sem brugðust hlutverki sínu sem varðmenn verðmæta almennings. Það liggur ekki heldur fyrir hvort gegndarlaust siðleysi sem lýst er í skýrslunni hafi verið ólöglegt á þeim tíma sem lundamakkið átti sér stað.

Hv. þm. Brynjar Níelsson vill ekki ræða um innihald þessarar skýrslu og biður þingmenn að bíða stilltir áður en við tjáum okkur um þær blekkingar sem stjórnvöld eru sögð hafa orðið fyrir af hálfu lunda og Ólafs og annarra sniðugra karla með tékka. Við stöndum hér og ræðum af fullkomnu þekkingarleysi um þessa skýrslu sem við fengum í hendur í gær en það er meðvituð ákvörðun, m.a. hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Brynjars Níelssonar, sem hafði heimild samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir Alþingis til að taka skýrsluna fyrst til meðferðar í sinni nefnd áður en hún yrði tekin til umræðu á þingi.

Blekkingum var beitt eða svo segir skýrslan. Já, ginnkeypt, gráðug stjórnvöld sem seldu þjóðareign í hendur loddara og þjófa spáðu ekkert of mikið í hver væri þar á bak við eða hvort allt væri með felldu. Mikil er ábyrgð þeirra sem afsala sér þjóðareignum í hendur þeirra sem ekkert siðferði hafa, sem geyma sjóði sína í skattaskjólum hulin leyndarhjúpi. En við megum ekki ræða ábyrgð þeirra hér því að við höfum engan tíma fengið til að skilja hversu langt botnlaus vanhæfnin nær. Við eigum heldur ekkert að ræða loforðið sem Alþingi gaf þjóðinni árið 2012 um að rannsaka einkavæðingu bankanna í heild sinni til að vita, loksins, hversu langt botnlaus vanhæfnin og spillingin nær.

Herra forseti. Ef ekki nú, þá hvenær? Ef ekki við, þá hverjir? Ekki hæstv. forsætisráðherra, svo mikið er víst. Ekki hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hefur ítrekað gagnrýnt dóma Hæstaréttar gegn títtnefndum Ólafi Ólafssyni í AlThani málinu, en hyggst nú fjalla um sama kauða og fléttu hans í sinni nefnd. En við getum gert það, herra forseti, við sem sitjum hér getum séð til þess að Alþingi standi við gefin loforð og rannsaki til hlítar hvaða glæpir voru fleiri framdir við einkavæðingu bankanna. Við erum að gera það aftur núna og til þess eru vítin að varast þau.

Það er déjà-vu, herra forseti, nú er banki að nota banka til að kaupa banka og slóðin liggur í skattaskjól hulin leyndarhjúpi. Við fljótum sofandi að feigðarósi og ráðamenn hér sussa á okkur sem viljum komast að hinu sanna um það siðleysi sem eflaust grasseraði við einkavæðingu á bönkum þjóðarinnar.

Það er déjà-vu á sinnuleysi ráðamanna gagnvart því sem skiptir þjóðina raunverulegu máli, sannleika, heiðarleika og réttlæti. Það er déjà-vu um þann tíma sem ég stóð á Austurvelli í búsáhaldabyltingunni forðum og hrópaði með öðrum reiðum Íslendingum, með leyfi forseta: Helvítis fokking fokk.



[12:31]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það ríkir engin þórðargleði í landinu nú þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hefur verið gerð opinber. Miklu fremur hryggð og dapurleiki vegna þess að grunurinn var staðfestur. Auðtrúa, hrekklaus þjóð var blekkt. Það gerðu harðsvíraðir svindlarar, viljandi og einbeittir.

Við höfum alist upp og búið við fágæt lífsgæði á Íslandi, traust í samskiptum manna, óformlegir samningar, heiðursmannasamkomulag og stuttar boðleiðir hafa verið aðalsmerki landans. Við höfum lengi haldið í heiðri að orð skuli standa. Það á ekki við um þessa snaggaralegu, velsnyrtu menn í vönduðum fötum sem buðu af sér sæmilegan þokka, boðnir og búnir.

Það var ekki endilega greið leið að ná þeirri niðurstöðu að grandskoða þetta ferli. Úrtöluraddirnar voru æði margar, kannski meira úr einni átt en annarri. Skýrslan varpar sínu ljósi á ástæður þess. Þökk fyrir hana.

Sá sem farið hefur í fylkingarbrjósti upplýstra efasemdarmanna, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, hefur greint frá því sjálfur að hann mætti tortryggni á sinni eyðimerkurgöngu, áhugaleysi og jafnvel spotti á æðstu stöðum. Þá hefur einnig mátt á honum skilja að það sé mjög sérkennilegt og ótrúlegt hve einbeittur vilji sumra ráðamanna á þessum tíma var að trúa einni útgáfu sannleikans sem borinn var á borð af meintum fjármálasnillingum og talsmönnum þeirra. Þar var fagmennskan fyrir borð borin.

Fólkið í landinu sem berst í bökkum daglega í amstri sínu er agndofa, ekki endilega reitt lengur, jafnvel meira sorgmætt, því að margir upplifa að hugtakið drengskapur, sem flestum okkar er innrætt að hafa í hávegum, hafi verið saurgað. Það skilur eftir ör. Drengskapur og heiðarleiki eru dýrmæt gildi í fari hvers manns. Það hafa þeir glæframenn sem hér eiga í hlut sannarlega ekki sýnt. Við trúðum því jafnvel á tímabili að þetta væru máttarstólpar samfélagsins en reyndust ótíndir skúrkar og eru nú ærulausir menn. En þeir eru ekki af baki dottnir.

Nú ríður á að endurtaka ekki sömu mistökin en hundakúnstum er beitt. Öllum þeim brögðum sem til eru í bókinni. Ný bankasala má ekki ganga fram fyrr en ljóst er hver raunverulegur kaupandi er. Það er krafan. Hversu mörg þurfa axarsköftin að vera? Margir segja einmitt að úr því sem komið er sé ekkert að gera, við verðum bara að læra af þessu. Hvað getum við lært? Er hægt að treysta nokkrum manni í viðskiptum?

Við megum aldrei falla í þá gryfju að treysta ekki fólki. Við eigum að ástunda heiðarleg samskipti öllum stundum, ekki síst hér á þingi þar sem traust á í vök að verjast. En því miður er ýmislegt sem bendir til að ekki séu öll kurl komin til grafar í þessu og tengdum málum. Við skulum vona að við upplifum aldrei aftur þá niðurlægingartíma sem glysárin fyrir hrun báru með sér. (Forseti hringir.) Þegar sást hér varla til sólar um miðjan dag fyrir einkaþotum og einkaþyrlum sveimandi yfir völlunum með eintóma snillinga um borð. Heimsfrægir poppsöngvarar komu hér og sungu í prívatpartíum fáein lög. Við heyrum tregafulla tóna Eltons Johns deyja út í fjarska. Umhugsunarvert í ljósi framvindunnar. Með leyfi forseta:

„Goodbye, yellow brick road.“



[12:35]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Þótt þetta sé falleg tilvitnun minnir forseti á að íslenska er þingmálið.