146. löggjafarþing — 52. fundur
 3. apríl 2017.
umhverfisáhrif og sjálfbærni byggingariðnaðar.
fsp. EyH, 279. mál. — Þskj. 389.

[16:21]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um umhverfisáhrif og sjálfbærni byggingariðnaðarins og spyr ráðherrann hvernig hún telji að gera megi byggingariðnað hér á landi vistvænni og sjálfbærari. Ég tel rétt að spyrja ráðherrann um þetta, ég vil gjarnan að ráðherrann nálgist þau verkefni sem snúa að skipulags- og mannvirkjagerð í ráðuneytinu af krafti. Það eru mjög mikilvæg verkefni sem snúa að byggingariðnaðinum og ég veit að ráðherrann hefur verið mjög áhugasamur um umhverfisáhrif og sjálfbærni. Það er talið að kolefnisspor byggingariðnaðarins sé gífurlegt og á heimsvísu hefur verið kastað fram tölum um að byggingariðnaðurinn sé ábyrgur fyrir um 30% af losun gróðurhúsalofttegunda og noti um 40% af framleiddri orku í heiminum. Ég hef hins vegar rekist á stefnumörkun breskra stjórnvalda þar sem þau fjalla um byggingariðnaðinn í Bretlandi og þau tala jafnvel um hærra hlutfall þegar kemur að kolefnissporinu þar í landi og líka notkun á t.d. vatni sem virðist vera mjög mikil, svo ég tali ekki um úrgangsefni sem verða eftir til urðunar.

Fyrir stuttu var haldið málþing þar sem fjallað var um loftslagsmál og sjálfbærni í byggingariðnaði. Ég renndi í gegnum, til undirbúnings þessari umræðu og fyrirspurninni, ræðu hæstv. ráðherra en mér fannst mjög lítið koma fram í henni um það hvernig hún sér fyrir sér að hægt sé að gera íslenskan byggingariðnað sjálfbærari, umhverfisvænni. Það kom fram að Framkvæmdasýslan hefur verið ákveðinn frumkvöðull hér á landi varðandi það að leggja áherslu á vistvæn sjónarmið en mun minna hins vegar var um það hvað byggingariðnaðurinn sjálfur hefur verið að gera. Þó að ég hafi í undirbúningi fyrir þessa umræðu rekist á önnur málþing, ég held að það elsta hafi verið frá 2002, þar sem talað var um sömu þætti, og maður sér líka að þetta er stór hluti af vinnu annarra landa í kringum okkur, þá virðist sem mun minna hafi verið hugað að þessu hér á landi. Ég hef mikinn áhuga á að heyra frá ráðherranum hvað hún sér fyrir sér að gert verði hvað þetta varðar, hvernig við getum lagt minni áherslu á skammsýni, hraða og græðgi þegar kemur að byggingum, hvernig við getum hugað að sjálfbærnisjónarmiðunum en líka hvers konar aðstæður við búum við hér og hvaða þættir það eru sem við þurfum ekki í sama mæli að huga að eins og hugsanlega vatnsnotkunin, eins og víðast hvar annars staðar.



[16:24]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og tek undir með hv. fyrirspyrjanda. Það er ýmislegt enn ógert og þegar við ræðum, eins og er nú dálítið í tísku eða mikið rætt, um byggingarreglugerð og byggingarhraða og vöntun á húsnæði þá held ég að við verðum að muna líka að hér þarf að vera eitthvert jafnvægi á hraðanum og svo gæðunum því að við ætlum að hafa byggingarnar endingargóðar, þannig að byggt sé til framtíðar. Ég tel ýmsar leiðir færar til að gera byggingariðnaðinn hérlendis vistvænni og sjálfbærari. Þó er ekki nóg að breyta lögum og reglugerðum til þess, húsbyggjendur verða líka að upplifa að vistvænar og sjálfbærar byggingar séu það sem koma skal, ekki bara opinberar byggingar heldur allt húsnæði. Í dag eru það svo til eingöngu opinberar byggingar sem eru byggðar samkvæmt vistvænum stöðlum og vottaðar sem slíkar. Þarf því að miðla meiri fræðslu til byggingariðnaðarins og það var einmitt gert á umræddu málþingi sem hv. þingmaður vísar hér til og ég opnaði. Það þarf meiri fræðslu um gildi þess að byggja vistvænt umfram hefðbundið, t.d. hvernig hægt er að lágmarka kolefnisspor og draga úr auðlindasóun á byggingarferlinu og yfir líftíma byggingarinnar með því að hafa sjálfbærnimarkið alltaf í forgrunni.

Það þarf einnig að skoða hvort ekki sé orðið tímabært að útfæra sérstakt íslenskt umhverfisvottunarkerfi fyrir byggingar á Íslandi í stað þess að nota erlend vottunarkerfi sem falla misvel að okkar aðstæðum. Ég veit til þess að mikið er horft til breska kerfisins en við erum með aðra þætti sem þarf að huga að en orkunotkun t.d., sem er mikið áhersluatriði þar.

Ef ég tæpi aðeins á regluverkinu sem ætlað er að beina að byggingariðnaðinum, beina honum í grænni átt, er þar fyrst að nefna að öll mannvirkjagerð skal uppfylla skilyrði laga nr. 160/2010, um mannvirki, og reglugerðir sem eru settar samkvæmt þeim. Það er mikilvægt að vanda til hönnunar, efnisvals og frágangs með endingu mannvirkjanna í huga. Með auknum gæðum eykst ending og notagildi mannvirkja og þar með er dregið almennt úr þörf á endurgerð og viðhaldi sem hefur neikvæð umhverfisáhrif. Samkvæmt ákvæðum kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um efnisval og úrgang, skal eftir því sem aðstæður leyfa velja endurunnið og endurnýtanlegt byggingarefni og úrgangi skal haldið í lágmarki. Einnig er mælst til þess að gerð sé lífsferilsgreining vegna nýrra mannvirkja, viðbygginga, endurgerðar mannvirkja og meiri háttar viðhalds.

Það þótti víst ekki rétt á sínum tíma þegar unnið var að reglugerðinni að gera fortakslausa kröfu um gerð lífsferilsgreiningar. Þess í stað er um tilmæli að ræða sem voru sett með það í huga að opinberir aðilar yrðu meðal þeirra fyrstu sem gerðu kröfu um lífsferilsgreiningu við framkvæmdir á sínum vegum. Þannig yrði til hagnýt þekking hjá ráðgjöfum sem gera mætti kröfu til síðar við almennar framkvæmdir. Á þann hátt væri ekki verið að auka kostnað hins almenna framkvæmdaraðila.

Þá eru ákvæði 15. hluta byggingarreglugerðar sem fjalla um mengun frá mannvirkjum og meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs almennt til þess fallin að stuðla að vistvænum og sjálfbærum byggingariðnaði í landinu. Það er líka mikilvægt að leggja áherslu á menntun og faglega þekkingu þeirra aðila sem starfa innan iðnaðarins, þá sérstaklega hönnuða og iðnmeistara. Þeir þurfa að kunna góð skil á fjölbreyttum ábata vistvænna bygginga umfram hefðbundnar og beina byggingargerðunum hratt og örugglega í þá áttina. Vönduð vistvæn hönnun, efnisval og frágangur eykur ekki eingöngu endingu mannvirkja heldur leggur undirstöðu að grænni og loftslagsvænni framþróun í byggingaraðferðum.



[16:29]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Einfalda og mikilvægasta svarið við þessu er auðvitað að við búum minna og skipuleggjum þannig að við búum þéttar og nær hvert öðru. Í dag býr hver Íslendingur í 64 fermetrum á meðan Finninn býr í 34. En við þurfum líka að leita leiða til að auka framlögin, m.a. með léttum og stöðluðum byggingareiningum, og auka hraðann, en ég vara við áformum um að gefa eftir gæðakröfur í byggingum eins og Norðmenn eru að gera núna með svokallaðri TEK17 reglugerð. NAL, norska arkitektafélagið hefur varað við þessu og spurt: Á hverjum bitnar þetta? Og hverjir ná ávinningnum?

Ég tek undir að það þarf að aðlaga vottun að íslenskum aðstæðum og loks er ekki nóg að vera með fræðslu fyrir byggingariðnaðinn, það þarf að kenna fólki að umgangast byggingarnar sínar. Í dag fáum við ekki að setjast undir stýri nema læra á bíl. Þegar kemur að okkar stærstu fjárfestingu skiptir heilmiklu máli hvernig við umgöngumst byggingar, bara upp á hvernig þær fara með okkur og líf okkar.



[16:30]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Það er mikilvægt mál sem hér er undir, vistvænni byggingar en við eigum að venjast. Þar er efnisvalið ákaflega mikilvægt. Það er einu sinni þannig að á móti hverju tonni af steinsteypu sem er búin til og notuð þá losum við eitt tonn af koltvíoxíði, gróðurhúsagasi. Ég held því að mjög mikilvægt sé að efnisval, meiri nýting á tré og jafnvel innlendu trén, nú væntum við þess að skógar stækki smám saman, komi inn í þetta. Vélanotkunin sjálf, þ.e. að reyna að minnka útblástur vélanotkunar í byggingariðnaði, það er hægt að gera með ýmsu móti, metani, íblöndu metanóls o.s.frv. og síðan en ekki síst sjálft viðhaldið. Það hefur verið þannig með Íslendinga að ég fullyrði að þeir hafi ekki sinnt viðhaldi bygginga sinna mjög vel. Það ákaflega vistvænt að gera það með góðum skikk. Allt þetta eru ábendingar til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um hluti sem gætu gengið inn í endurskoðaða byggingareglugerð með skýrari vistvænum markmiðum.



[16:31]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða sem á sér hér stað um fyrirspurn um það hvernig gera megi byggingariðnað á Íslandi vistvænni og sjálfbærari. Það er greinilegt af því sem kom fram í svari ráðherra að þó svo að ýmislegt sé í lögum þá þarf að gera betur. Það er mjög brýnt að ráðast til verka því að þetta er stór partur af því hvernig við ætlum að ná tökum á losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég var ánægð með að hæstv. ráðherra skyldi líka tala um það að byggingarnar þyrftu að endast, vegna þess að það held ég að muni skipta gríðarlega miklu máli varðandi sjálfbærnina inn í framtíðina. Ég ætla að leyfa mér að vísa í fjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar þar sem kemur fram að það er markmið að fleiri einstaklingar sem eru 80 ára og eldri geti búið í eigin húsnæði, stefnt er að 85% árið 2022. Það þarf aldeilis að sjá til þess að þar verði aðgengilegar íbúðir. Það þarf að byggja þannig í dag, til þess að það markmið geti náðst.



[16:33]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir umræðuna og svör ráðherrans. Það sem ég tek með mér út úr þessari umræðu er að það er spurning að við endurskilgreinum á Íslandi hvað við eigum við með gæði. Hér hefur oft komið fram í umræðunni að við teljum að gæði felist í því að hafa sem flesta fermetra á einstakling, að við notum sem dýrust efni og helst aðflutt, langt að komin, til þess að sýna gæðin hjá okkur og hversu mikla peninga við höfum til að setja í húsnæðið okkar.

Ég tek líka undir með ráðherranum um það sem hún segir varðandi mikilvæga fræðslu. Ég held að það sé einkar mikilvægt að undirstofnanir hennar og hún sjálf beiti sér fyrir aukinni fræðslu þegar kemur að byggingariðnaðinum sjálfum og, eins og kom líka fram, hversu mikilvægt það er að við sem búum í íbúðunum kunnum meira að fara með húsnæði okkar og gerum kröfur.

Þó að það heyri ekki undir ráðherrann vil ég hvetja hana eindregið til að skoða, eins og hún hefur svo sem tjáð sig um, mögulega skattalega hvata til þess að hugsanlega, eins og við höfum séð, breyta gjaldtöku á umhverfisvænni bíla, hvort það væri hægt að endurskoða virðisaukann á vistvænar byggingarvörur, hvort mætti skoða lægri gjaldtöku hjá sveitarfélögum á húsnæði sem er vistvottað og að lánveitendur hugi að því hvernig þeir meta þá sem ætla að leggja áherslu á umhverfismál þegar kemur að byggingum.

Við byggjum fyrst og fremst úr steypu á Íslandi og það er löngu kominn tími á að við reynum að auka fjölbreytnina hvað það varðar. Hér hefur verið talað um að búa minna, að við stöðlum, ég tek svo sannarlega undir það, að við tökum upp nýja verkferla og endurnýtum í meira mæli og að við förum alls ekki í 2007 þar sem (Forseti hringir.) menn fleygðu út heilu eldhúsinnréttingunum sem voru mjög fínar til síns brúks.



[16:35]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið mjög fróðleg og jákvæð. Ég held að við séum meira og minna sammála. Ég tók sérstaklega með mér úr umræðunni það sem nefnt var um viðhald bygginga. Ég velti fyrir mér þegar ég sit hér, af því að það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að ég hef sérstakan áhuga á því, hvernig við getum notað græna hvata til þess að liðka fyrir grænni hegðun, ef svo má segja, eða ýta undir hana. Ég held að það sé almennt þannig að við erum ekkert nógu góð í því að halda við byggingum og förum í að rífa þær þegar það er orðið um seinan jafnvel, fólki finnst ekki borga sig að endurgera heldur er húsnæðið rifið. Það gengur ekki upp. Það „meikar engan sens“, ef ég má sletta.

Ég velti fyrir mér einhverjum svoleiðis hvötum inn í regluverk. Það er eitthvað sem ég er að hugsa upphátt. Ég tek líka undir það sem kom fram hjá hv. þm. og arkitekt, Loga Einarssyni, að gæðin felast í því að rými nýtist vel, ekki endilega í því að byggja stærra og eiginlega alls ekki, þá þarf maður bara að taka meira til. Gæðin eru í haganlega hönnuðu rými. Það er oft jafnvel betra að rýmið sé minna, ég tala af reynslu. Ég tek með mér þær fjölmörgu góðu ábendingar sem hafa komið fram í umræðunni og þakka fyrir hana.