146. löggjafarþing — 52. fundur
 3. apríl 2017.
stefna um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
fsp. KÓP, 227. mál. — Þskj. 318.

[17:08]
Fyrirspyrjandi (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að eiga orðastað við mig um þessi mál. Við höfum aðeins komið inn á þetta í umræðum hér áður tengdum öðrum málum. Ég hygg að í grunninn séum við hæstv. ráðherra nokkuð sammála í þessum efnum. En það er ágætt að geta rætt þessi mál.

Staðreyndin er sú að samkvæmt raforkulögum ber ráðherra að leggja á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ég kannaði þessi mál á þingfundaskrifstofu. Staðreyndin er sú að slík stefna hefur aldrei verið lögð fram. Nú dettur mér ekki í hug að þýfga núverandi hæstv. ráðherra, nýtekinn við, um þá stefnu hér og nú þegar forverar hennar hafa ekki lagt slíka stefnu fram, en mér finnst sú staðreynd allrar athygli verð að þetta hafi aldrei verið gert. Ég hygg að þegar að raforkumálum kemur hafi skort á stefnu stjórnvalda almennt, er ég þá ekki að benda á neinn einstakan flokk öðrum fremur í því. Það tíðkast í nágrannalöndum okkar að stjórnvöld, þingið, setji sér einfaldlega stefnu um raforkumál, hvar eigi að leggja línur, hvernig eigi að haga þeim málum.

Mér finnst staðan eins og hún er í dag eiginlega ótæk, að fyrirtæki í eigu orkufyrirtækjanna sé í raun og veru sett í forsvar til að taka einhvern slag um línulagnir í hvert og eitt einasta skipti. Mér finnst þetta eigi að vera pólitísk stefna sem við tökumst á um. Ég veit að kerfisáætlun kemur hingað inn og ég veit að það er til stefna um jarðstrengi, en það er ekki alveg sami hluturinn og pólitísk stefna.

Seinni hluti fyrirspurnar minnar snýr svo að orkunýtingaráætlun sem ég held að sé nokkuð mikilvægt að setja. Ég kannast ekki við að við eigum slíka. Við horfum allt of mikið á það afl sem mögulegt er að ná og virkja úr þeim kostum sem við eigum. Það er ekki orkunýtingaráætlun. Það er orkuframleiðsluáætlun. Síðan höfum við kannski fundið einhvers konar framleiðslustarfsemi til að nýta það afl í. Þá kemur það sem fyrri hlutinn snýr að sem er að flytja orkuna frá A til B. Ég held að okkur skorti mjög heildstæða stefnu í þessum málum þar sem við horfum á þetta alveg frá A til Ö. Hvernig ætlum við að nýta þá orku sem mögulegt er að framleiða? Í hvað ætlum við að nota hana? (Forseti hringir.) Hvernig ætlum við að koma henni á staðinn? Þá getum við farið að velta því fyrir okkur hvort við séum tilbúin að virkja hana.



[17:11]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn og fyrir að vekja athygli á málefnum flutningskerfis raforku. Það er held ég alveg rétt hjá hv. þingmanni og mér heyrist á öllu að við séum að því leyti sammála að vel sé hægt að vinna með það samtal og ræða þessi mál þannig að gagn sé að.

Varðandi fyrri spurninguna þá er á vegum ráðuneytisins unnið að gerð tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Sú vinna er í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á raforkulögum í júní 2015 þar sem samkvæmt breytingartillögum frá meiri hluta atvinnuveganefndar Alþingis var ákvæði bætt við raforkulögin þess efnis að ráðherra skuli, eins og hv. þingmaður kom inn á, leggja á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Í ákvæði til bráðabirgða við umrædd breytingalög kom fram að slík tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku skyldi fyrst lögð fyrir Alþingi eigi síðar en 15. október 2016. Eins og við munum var á þeim tíma undirbúningur fyrir kosningar og m.a. vegna þeirra reyndist ekki unnt að ná því að leggja slíka tillögu til þingsályktunar fram innan þess tímaramma sem lögin vissulega gera ráð fyrir. En nú er sem sagt unnið að gerð tillögunnar. Ráðgert er að drög að henni verði lögð fram til kynningar og í opið samráðsferli á heimasíðu ráðuneytisins á næstu vikum, vonandi í síðasta lagi í lok apríl.

Eins og fram kemur í fyrrnefndu nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar frá mars 2015 þá er miðað við að hluti stefnunnar verði meginreglur og viðmið varðandi jarðstrengi eða loftlínur, en einnig önnur atriði sem lúta með almennum hætti að flutningskerfi raforku og hvernig standa skuli að uppbyggingu þess til lengri tíma. Ég er sammála hv. þingmanni um það að mikilvægt er að pólitíkin, bæði framkvæmdarvald og þingið, leggi línur í þessu en láti þetta ekki allt liggja hjá Landsneti.

Í samræmi við þetta mun því tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku að hluta byggja á þeirri þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2015 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Því til viðbótar mun hún einnig fela í sér aðrar stefnumótandi áherslur um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ég tel mikilvægt að vel takist til við þessa stefnumótun og við vöndum til verka. Með slíkri þingsályktunartillögu getur Alþingi lagt fram ákveðnar áherslur og meginreglur sem taka ber mið af við uppbyggingu flutningskerfis og við gerð kerfisáætlunar. Mikilvægt er að Alþingi hafi með þessum hætti aðkomu að framtíðarsýn innan þessa málaflokks.

Sú áskorun sem blasir við okkur er að reyna að ná fram eins mikilli sátt og unnt er um þá mikilvægu innviði sem felast í flutningskerfi raforku. Í því skyni horfum við jafnt til efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra sjónarmiða. Sáttin til lengri tíma felst í eðlilegu jafnvægi milli þessara þriggja stoða sjálfbærrar þróunar.

Við höfum því ákveðið tækifæri núna til þess að taka ábyrga og upplýsta umræðu um mikilvægi þessara innviða og vinna að stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins. Opið samráð og samvinna skipta hér sköpum. Ég mun hafa það að leiðarljósi í þessari vinnu.

Drög að þingsályktunartillögunni verða sem áður segir lögð fram til kynningar og umsagnar á næstu vikum. Í framhaldi af því verður farið vel yfir þær ábendingar og athugasemdir sem berast og tekið tillit til þeirra. Í kjölfar þess verður þingsályktunartillaga um stefnu uppbyggingar flutningskerfis raforku lögð fyrir Alþingi.

Til að svara fyrri hluta spurningarinnar beint þá tel ég raunhæft að þingsályktunartillagan verði að loknu hinu opna samráðsferli lögð fram á Alþingi annaðhvort í lok yfirstandandi vorþings sem er nú kannski hæpið eða í byrjun komandi haustþings. Miðað við allt myndi ég nú ætla að það yrði fremur í haust.

Varðandi orkunýtingaráætlun sem hv. þingmaður kom inn þá er því fyrst til að svara að við erum auðvitað þegar með ákveðna orkunýtingaráætlun í gegnum rammaáætlun samanber heiti hennar, tillaga um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Upphaflegt markmið um rammaáætlun var að hún væri að jöfnu verndaráætlun og orkunýtingaráætlun. Því megum við ekki gleyma í umræðunni um rammaáætlun.

Varðandi orkunýtingarstefnu sem spurt er um þá er svarið við því að slík opinber stefna er ekki til. Ég tel ýmis rök vera fyrir því að unnið verði að formlegri orkustefnu fyrir Íslands, hef ég það til skoðunar í ráðuneytinu. Slíkri stefnu væri ætlað að setja fram ákveðna langtímasýn í orkumálum okkar Íslendinga og hvaða áherslur við ætlum að hafa þar að leiðarljósi.

Ég tel að almennt ríki samstaða um þau meginsjónarmið sem myndu koma fram í slíkri orkustefnu, almennar áherslur okkar í orkumálum er aukið (Forseti hringir.) hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa o.s.frv.

Ég er ekki alveg búin hérna, ég ætla að fá að koma betur inn á orkustefnu ef einhver er búinn að biðja um orðið, sem ég held að sé.



[17:17]
Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir fyrirspurnina. Það er nú fróðlegt að heyra að íslenskum lögum sé ekki fylgt, sérstaklega þegar það er framkvæmdarvaldið sjálft sem er uppvíst að því. Samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, er ráðherra ætlað að leggja fram þingsályktunartillögu til fjögurra ára hvernig uppbyggingu raforkuflutningskerfis Íslands skal háttað. Hér höfum við beinlínis lög sem ganga út á það að auka gagnsæi og skipulag og jafnframt minnka fúsk, en þeim hefur aldrei verið beitt. Hugnast hæstv. ráðherra nálgun stjórnvalda að láta lagagreinina eins og vind um eyru þjóta? Ætlar ráðherrann þá að leggja fram áætlun um uppbyggingu raforkuflutningskerfisins á þessu ári?



[17:18]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Það er mikilvægt að við sem vélum um orkumálin tölum sama tungumál og verkferlið sé eðlilegt. Það er eitthvað til sem heitir raforkuþörf sem þarf auðvitað að skilgreina. Síðan er búið til eitthvað sem heitir raforkuframleiðsluáætlun eða raforkuvirkjunaráætlun, það er rammaáætlunin, það er ekki orkunýtingaráætlun, því orkunýting snýst auðvitað um að nota það sem framleitt er í einhverjum stigum. Við getum talað um orkuskipti sem þurfa mörg hundruð megavött. Við getum talað um orkuspá til 2050 þar sem við þurfum 500–600 megavött og við getum rætt um orkufreka notendur sem er óþekkt stærð, en þar gætu farið hundruð megavatta líka. Það er þetta sem okkur vantar núna, þ.e. orkunýtingaráætlun þar sem farið er í saumana á þessu og búin til einhver framtíðarsýn. Síðan byggjum við orkuflutningsáætlun á þessu. Það er þetta verkferli (Forseti hringir.) sem ég tel mjög mikilvægt að við séum að tala saman um með sömu hugtökum.



[17:19]
Fyrirspyrjandi (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum sem tóku þátt í þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Bitte nú, segi ég bara, að það sé að koma fram langþráð áætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku. En aðeins hvað varðar seinni spurninguna sem hæstv. ráðherra fór yfir þá fór hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson ágætlega yfir þessar skilgreiningar á hugtökum. Það er akkúrat það sem ég kom inn á, það sem ég horfi á sem orkunýtingarstefnu er ekki það hvar við getum virkjað orku, hvar við getum framleitt orku. Þar höfum við sett okkur einhvers konar áætlun í rammaáætlun sem heitir því miður þessu villandi nafni um vernd og orkunýtingu landsvæða. Það finnst mér bera keim af gamaldags hugsunarfræði þegar kemur að þessum málum, að í raun og veru sé fallvatn eða jarðvarmi sem ekki sé virkjaður ónýttur, það sé orka sem er ónýtt og í raun og veru sé í lagi bara að virkja óháð því hvað eigi svo að gera við orkuna, það sé seinni tíma úrlausnarefni.

Við höfum rætt í þingsal á þeim örfáu mánuðum sem liðnir eru af þessu kjörtímabili um loftslagsmarkmiðin og skýrslu í loftslagsmálum. Við höfum rætt um orkuskipti í samgöngum. Rammann hefur borið hér á góma og fleiri og fleiri mál sem öll tengjast þessu stóra máli. Það er það sem ég hef verið að kalla eftir í máli mínu og myndi óska eftir að ráðherra kæmi örlítið inn á í lokaorðum sínum, þ.e. þessi stefna eins og kemur fram í seinni hluta spurningar minnar sem ég veit að ráðherra var bara ekki komin nógu langt til að svara með, þ.e. áform um hve stórum hluta orkunnar skuli varið (Forseti hringir.) til orkuskipta í samgöngum, til heimila, til lítilla og meðalstórra notenda og til stórnotenda o.s.frv. Hér mætti bæta við grænum atvinnuháttum og fleiru slíku.



[17:21]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að svara spurningu hv. þm. Gunnars I. Guðmundssonar, ég mun leggja slíka áætlun fram í haust.

Ég tek undir með hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni og Kolbeini Óttarssyni Proppé um að þetta er alveg rétt, þessa stefnu vantar. Í rauninni get ég líka tekið undir það að hún er í rauninni forsenda fyrir því að við vinnum síðan rammann. Það er pínu öfugsnúið með alla þessa orku og tímann sem fer í rammann og vera ekki með orkustefnu, af hverju þurfum við orkuna og í hvað ætlum við að nýta hana. Þessi almenna áhersla okkar í orkumálum er auðvitað aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa, áframhald orkuskipta, sjálfbær nýting orkuauðlinda, orkuöryggi heimila og fyrirtækja og nýsköpun í orkumálum, líkt og hv. þingmaður kom inn á, aukið afhendingaröryggi, raforka á landsbyggðinni o.s.frv. Í slíkri orkustefnu væri enn fremur unnt að koma fram með áherslur um sjálfa orkunýtinguna eins og hv. þingmaður spyr hér að.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á orkuskipti í samgöngum líkt og hv. þingmaður kom einnig inn á. Til að mæta því þarf að tryggja að næg raforka og fullnægjandi flutnings- og dreifikerfi sé til staðar á landsvísu, t.d. til að taka á móti aukinni rafbílavæðingu. Inn á það atriði mun sérstaklega verða komið í framangreindri tillögu til þingsályktunar um þessa stefnu. Það sama á við um áherslur er lúta að orkuöryggi fyrir heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki.

Ég ætla að segja líka í lokin að það er alveg rétt sem komið var inn á varðandi heiti laganna um rammann, það er í rauninni eilítið misvísandi, því sú vinna er ekki orkunýtingaráætlun. Það vantar orkustefnu og svo er ramminn þar við hliðina á, þ.e. hvar við ætlum að finna eða virkja þá orku sem okkur vantar. En þá þurfum við að vita hvaða orku okkur vantar.