146. löggjafarþing — 53. fundur
 3. apríl 2017.
loftslagsmál, 1. umræða.
stjfrv., 356. mál (losun lofttegunda, EES-reglur). — Þskj. 483.

[20:01]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál. Frumvarpið felur annars vegar í sér innleiðingu reglugerðar frá ESB um vöktun, skýrslugjöf og sannprófun á losun koldíoxíðs frá sjóflutningum. Hins vegar er lagt til í frumvarpinu að gildistími ákvæðis V til bráðabirgða við lögin verði framlengdur um eitt ár, en ákvæðið varðar gildissvið viðskiptakerfis um losunarheimildir í flugi.

Reglugerð ESB um vöktun á losun koldíoxíðs frá sjóflutningum hefur í för með sér að frá og með 1. janúar 2018 verður hafin vöktun á losun frá farþega- og flutningaskipum sem eru yfir 5.000 brúttótonn. Áhrif reglugerðarinnar verða lítil á Íslandi því að engin skip sem eru yfir 5.000 brúttótonn er nú að finna í íslenskum skipaflota.

Hæstv. forseti. Í frumvarpinu er lagt til að V. ákvæði til bráðabirgða verði framlengt um eitt ár og muni því einnig vera í gildi árið 2017. Í ákvæðinu er kveðið á um þrengt gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir hvað varðar flugstarfsemi. Upphaflega gilti viðskiptakerfið bæði um flug innan Evrópska efnahagssvæðisins og um flug til og frá því. Gildissvið viðskiptakerfisins í flugi hefur hins vegar verið takmarkað við flug innan Evrópska efnahagssvæðisins frá árinu 2013 vegna þess að vonast var til að hægt yrði að ná samkomulagi um hnattrænar aðgerðir til að draga úr losun frá flugi innan vébanda Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Stofnunin hefur náð niðurstöðu í málinu og ályktað árið 2016 að frá og með árinu 2021 tæki gildi hnattrænt samkomulag um vöktun á losun frá flugi. Í kjölfarið ákvað Evrópusambandið að rétt væri að takmarka áfram gildissvið viðskiptakerfisins vegna flugstarfsemi við flug innan Evrópska efnahagssvæðisins til 2021.

Reglugerð Evrópusambandsins þess efnis liggur fyrir í drögum en gert er ráð fyrir að hún verði samþykkt af hálfu Evrópusambandsins fyrir lok árs 2017. Samkvæmt íslenskum lögum rann ákvæði V til bráðabirgða við lög um loftslagsmál út um síðustu áramót sem þýðir að gildissvið viðskiptakerfisins nú miðast við allt flug, einnig flug utan EES-svæðisins. Af þeim ástæðum þarf að framlengja ákvæði V til bráðabirgða og kveða á um þrengt gildissvið viðskiptakerfisins og að úthlutun losunarheimilda fari fram eigi síðar en 30. apríl 2017.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni 1. umr.



[20:04]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra ágæta yfirferð í þessu máli. Kannski kemur það skýrast fram í greinargerðinni hversu lítið mál þetta er, ég veit reyndar ekki hvort ég á að segja það, eða a.m.k. hversu lítil áhrif það hefur. Hér segir, með leyfi forseta:

„Áhrif reglugerðar ESB verða ekki mikil á Íslandi þar sem gildissvið reglugerðarinnar nær aðeins til farþega- og flutningaskipa sem eru 5.000 brúttótonn og stærri en eins og fyrr segir sigla engin slík skip undir íslenskum fána.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, því að augljóslega er verið að innleiða reglugerð í tengslum við EES-samninginn, hvort hann telji að hér sé nóg að gert. Í greinargerðinni segir að það hafi ekki síst verið til þess að ekki væru of miklar álögur á skipafélög að miða við þessa stærð. Þetta hefur augljóslega engin áhrif hér og ég veit ekki hvort þetta mun verða nýtt á einhvern hátt í starfi okkar þegar kemur að loftslagsmálum og þeim ágætu markmiðum sem við höfum aðeins komið inn á. En hér segir, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um að láta reglugerðina einungis gilda um skip sem eru stærri en 5.000 brúttótonn var tekin til þess að minnka stjórnsýslubyrði á skipafyrirtæki.“

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að í framhaldinu sé þörf á því að skoða hvort einhverjar innanlandsreglugerðir yrðu settar, hvernig sem stjórnsýslunni yrði háttað um þær, sem tækju líka til annarra skipa.



[20:06]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningu hv. þingmanns. Hann spyr hvort nóg sé að gert og rekur það réttilega að hér er annars vegar um að ræða breytingu hvaða varðar flutningaskip yfir 5.000 brúttótonnum, en engin slík íslensk skip eru til. En auðvitað koma farþegaskip til landsins sem eru svo stór. Svo er reyndar líka ákvæði um að framlengja ákveðnar reglur eða gildissvið viðskiptakerfis um flug. Varðandi spurningu hv. þingmanns er það mín skoðun að við eigum að skoða það vel með íslenska skipaflotann og þá fiskiskipin líka — og það er í skoðun innan ráðuneytisins hjá mér — hvernig við minnkum losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútveginum og þá auðvitað fiskiskipunum okkar. Það verður einn þáttur í aðgerðaáætlun stjórnvalda varðandi loftslagsmál. Sjávarútvegurinn hefur staðið sig mjög vel fram að þessu en þó hefur hægt dálítið á. Viðleitnin er enn til staðar en það hefur hægt á grænni þróun þar. En fólk í þeim geira hefur sýnt að það er viljugt og við þurfum að ýta við aftur. Það er verkefni næstu daga og mánaða.



[20:08]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég vil segja að ég hafi valið rangt orð þegar ég talaði um lítið mál því að vissulega, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, tekur þetta á fleiri þáttum en einungis þeim sem ég kom inn á, ég var kannski aðeins of mikið við hugann við þann þátt. Í greinargerð frumvarpsins segir einnig frá vöktunar-, vottunar- og skýrslukerfi til að vinna að markmiðum ESB. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrsta skref í áttina að því að láta markmið ESB um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda einnig ná yfir losun frá sjóflutningum er að innleiða traust vöktunar-, vottunar- og skýrslukerfi vegna losunar koldíoxíðs frá sjóflutningum. Gert er ráð fyrir að síðar meir verði hægt að verðleggja þá losun.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í þetta. Þýðir það að hér eru engin skip skráð af þessari stærð að við munum ekki koma okkur upp þessu kerfi? Það eru samt náttúrlega farþegaskip sem leggja að höfn hér, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Eða þýðir þetta að við munum koma upp stjórnsýslukerfi sem síðan verður hægt að nýtast við muni einhverjar svipaðar tilskipanir ná til annarra skipa, eins og hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á og gott að heyra að vinna er þegar hafin þar við?

Svo kom hæstv. ráðherra inn á að flugið er allt undanskilið, sem er pínulítið vandræðalegt almennt í loftslagsmálum heimsins. Þá er ég alls ekkert að horfa á Ísland, en það er spurning hvað er að frétta af þeim málum. Ég ætlast ekki til að ráðherra svari mér í löngu máli um það, ég vildi bara aðeins koma inn á það. Það er alltaf tekið út fyrir svigann.

Mig langaði að spyrja beint út í þetta vöktunar-, vottunar- og skýrslukerfi. Verður því komið upp sem verður svo hægt að nýtast við?



[20:10]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Ég vil segja um vöktunarkerfin og vottunarkerfin varðandi skipin að ég tel þeim málum vera ágætlega farið þar sem svo vill til að við Íslendingar erum ekki einu sinni með svona skip, nema þau sem sigla um í lögsögu okkar. Þetta eru farþegaskip og að mér skilst líka gámaflutningaskip sem fara á milli landa. En það er einmitt málið, þau fara á milli hafa og heimshluta. Ég tel fljótt á litið að betra sé að hafa það í einhverju alþjóðlegu samhengi en að við séum sérstaklega að setja upp sérvöktunarkerfi hvað það varðar á Íslandi. Ég held að því sé ágætlega farið á þennan veg, að við gerum þetta í samstarfi við önnur ríki og í alþjóðlegu samhengi. Nei, það eru ekki áætlanir um að gera þetta sérstaklega fyrir Ísland af þeim ástæðum sem ég hef rakið.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.