146. löggjafarþing — 54. fundur
 4. apríl 2017.
störf þingsins.

[13:31]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Fiskeldismál eru í deiglunni. Fréttir greindu frá málefninu í gær og umfjöllun heldur áfram. Matvælastofnun tengist umræðunni með aðkomu tveggja dýralækna fisksjúkdóma við starfsemi fiskeldisfyrirtækja, að þessi tengsl séu ekki með eðlilegum hætti og kvartað hefur verið til umboðsmanns Alþingis. Það er afleitt fyrir unga og umdeilda atvinnugrein. Matvælastofnun hefur á þessu sviði lögbundnar eftirlitsskyldur og kvörtunin gengur út á að dýralæknar fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun séu jafnframt milliliðir, söluaðilar lyfja til fiskeldisstöðva þar sem þeir eiga að gegna óháðu eftirlitshlutverki. Það eftirlit getur m.a. falist í umsögn um stækkunaráform, að heilbrigðisreglur séu virtar og að grípa til viðeigandi ráðstafana ef upp kemur smit í fiskeldisstöð.

Aðgerðirnar geta verið íþyngjandi, svo sem afturköllun rekstrarleyfis sem er alvarlegasta aðgerðin. Sé fiskeldisstöð kaupandi að bóluefni hjá sama aðila geta risið álitaefni um hæfi hans að mati umboðsmanns Alþingis, vegna fjárhagslegra hagsmuna sem hugsanlegir eru. Mögulegt sé að með vaxandi fiskeldi geti notkun bóluefnis aukist og hagsmunirnir geti því orðið verulegir. Í þessu tiltekna dæmi eru gefnar óljósar upplýsingar um hvernig þessum viðskiptum og hagsmunum er fyrir komið og það er slæmt.

Fiskeldisstöðvum sem eru að þróa starfsemi sína er það lífsspursmál að eins vel takist til og kostur er, ekki síst í ljósi þess hversu umdeild uppbyggingin er. Innan úr geiranum heyrast þær raddir að regluverkið sé losaralegt. Stjórnvöld þurfa með hraði að styrkja umgjörðina, óskýr umgjörð er uppskrift að óláni.

Íslendingar eiga að gera strangar og skýrar kröfur til eftirlits að öllu leyti, ekki síður en Norðmenn og Svíar, og fara faglega og varlega í uppbyggingu með klára sýn. Eðlilegt og alvöruafgjald er hluti af því. Brennt barn forðast eldinn. Við erum brennd af sleifarlagi í auðlindastjórnun. Á þessu sviði (Forseti hringir.) þarf Alþingi að taka af skarið.



[13:33]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Í störfum þingsins í dag óskaði ég eftir að eiga orðastað við hv. þm. Theodóru Sigurlaugu Þorsteinsdóttur og vil ég byrja á að þakka henni fyrir að verða við þeirri beiðni minni. Erindið varðar orðastað sem hv. þingmaður átti við samflokksmann minn, hv. Björn Leví Gunnarsson, þann 28. mars síðastliðinn. Í það skipti var hv. þingmaður beðinn um að upplýsa þingið um áherslur, eða skort á áherslum Bjartrar framtíðar í fjárlagalagfæringum í desember síðastliðnum, en hún svaraði því til, með leyfi forseta:

„Áskorunin og markmiðið var að ná fram sátt og sameiginlegri niðurstöðu í fjárlaganefndarvinnunni og með þær áherslur að breytingartillögurnar myndu ríma vel við liðna kosningabaráttu og að mínu mati tókst það.“

Ég spyr hv. þingmann hvernig hún geti haldið þessu fram vegna þess að enginn flokkur sem á fulltrúa á Alþingi gekk til kosninga án loforða um miklar umbætur og aukið fé til heilbrigðismála. Því er óskiljanlegt að Björt framtíð hafi mætt andstöðu við eigin loforð sem rímuðu vel við aðra flokka.

Í ræðu sinni sagði hv. þingmaður einnig, með leyfi forseta:

„Ég hef ekki trú á vinkilbeygjum. Sveitarfélögin gera það ekki. Það líður a.m.k. ár þar til það hefur raunveruleg áhrif á þau störf. Það er mín sýn og sú sýn mín rímar við markmið fjármálaáætlunar þar sem eru samtvinnaðar stefnumarkandi áætlanir og fjármálaáætlanir á skilvirkari hátt en áður.“

Ég átta mig ekki á því hvað hér er átt við, frú forseti. Kosið var að hausti. Fyrsta hlutverk þingsins var að vinna fjárlög. Skil ég hv. þingmann rétt að hún telji þingmenn ekki eiga að standa með kosningaloforðum sínum frá fyrsta degi hafi þau verið í andstöðu við meiri hluta fram að kosningum?

Að lokum sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Í upphafi var himinn og haf á milli flokka og mér leist ekki vel á að fara í gríðarlega mikla útgjaldaaukningu vegna þess að það er mín sýn að við eigum ekki að taka vinkilbeygju í hvert sinn sem ný ríkisstjórn tekur við. Það skapar ójafnvægi, uppsveiflu, hrun og ástand eins og við sjáum nú á Akranesi.“

Nú hef ég heyrt einkennilegar og allt aðrar hugmyndir um að fíkn almennings í flatskjái hafi keyrt landið í þrot árið 2008, en (Forseti hringir.) ég hef ekki áður heyrt að vel fjármagnað heilbrigðiskerfi geti valdið því að kvótahafi hljóti að segja upp fjölda starfsfólks í landvinnslu. Ég hefði áhuga á að fá (Forseti hringir.) nánari skýringu hjá hv. þingmanni á þessum anga stöðunnar á Akranesi.



[13:35]
Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta eru margar spurningar. Ég ætla að fá að nýta þessar tvær mínútur til þess að reyna að skýra mál mitt. Sú vinna sem fór fram í fjárlaganefnd fyrir jólin var samráð. Sjö flokkar komu saman til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu út frá þeim áherslum sem lagðar höfðu verið í kosningabaráttunni eins og ég tók fram í svari til hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Það sem gerðist síðan var að við komumst að sameiginlegri niðurstöðu. Það fylgdi því ábyrgð og það var sátt um það og var gert af heiðarleika að mínu mati, þess vegna var ég sátt við þær tillögur um útgjaldaaukningu til heilbrigðismála, svo það sé alveg á hreinu. Áherslur Bjartrar framtíðar komu þar skýrt fram.

Hvað varðar vinnulag þá stendur Björt framtíð líka fyrir nýtt verklag, ný vinnubrögð. Þegar ég tala um vinkilbeygjur við stjórnarskipti þá vil ég minnast á það að ég fagna því mjög að komin séu ný lög um opinber fjármál, svipuð og sveitarfélögin vinna eftir, þar sem við setjum okkur markmið, búum til mælikvarða og fylgjum þeim. Það er ekki farið eftir ákveðnum áherslum sérstakra þingmanna úr hverju kjördæmi fyrir sig heldur er farið eftir faglegum áherslum út frá forgangsröðun verkefna, út frá markmiðum sem menn setja sér og unnið eftir mælikvörðum. Ég fagna því mjög að unnið sé eftir slíku vinnulagi í dag og í framtíðinni.

Ég vona, þó að þetta hafi verið mjög sérstök sátt sem var niðurstaða fjárlaganefndar fyrir jólin, sem var söguleg, þá vona ég líka að þessi vinnubrögð séu söguleg á þann hátt að þetta verði aldrei gert aftur með þessum hætti.



[13:37]
Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Frú forseti. Ég þarf aðeins að skreppa úr húsi núna kl. 14, á eftir, af brýnni nauðsyn. Það eru mótmæli fyrir utan velferðarráðuneytið, það eru mótmæli af því að nú þegar er farið að bera á því að ríkisstjórnin sé að svíkja þau loforð og þau fyrirheit sem hún gaf um að bregðast við því neyðarástandi sem ríkir í málum fólks með geðraskanir á Íslandi.

Ég þekki það af eigin raun að búið er að marglofa fjölbreyttari og hagkvæmari úrræðum sem eiga að nýtast sem flestum. Nú fáum við það sem blauta tusku í andlitið að hæstv. heilbrigðisráðherra, Óttarr Proppé, ætlar að skaffa samtökunum Hugarafli, sem hafa unnið áralangt og gott starf — m.a. aðstoðað mig, ég veit ekki hvort ég stæði hér í dag ef þeirra nyti ekki við — rétt rúm mánaðarlaun þingmanns til að sinna sínum tæplega 200 skjólstæðingum út heilt ár. Ég er satt að segja brjálaður yfir þessu. Þau rétt skrimtu í gegnum síðasta ár með 8 milljónir, nú á að bjóða þeim 1,5 milljónir til að vinna sitt starf. Það þýðir bara að starfsemin leggst í raun og veru af.

Ég krefst þess að menn geri sér grein fyrir að þeir eru að leika sér með mannslíf hérna. Það eru engin önnur úrræði fyrir þetta fólk, það eru engin önnur úrræði sem eru ódýrari. Þetta er ódýrasta úrræðið sem við höfum, annars endar þetta fólk inni í heilbrigðiskerfinu, sem er margfalt dýrara. Ég krefst þess að við fáum í staðinn árslaun þingmanns, 13 milljónir, til að reka þetta úrræði í ár og helst eitthvað meira á næsta ári. Þetta er algjör svívirða, frú forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:39]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ætlun mín var að eiga hér orðastað við formann umhverfis- og samgöngunefndar en þar sem hún er stödd erlendis verð ég að eiga orðastað við sjálfan mig og er svo sem vanur því. Ekki hef ég þolinmæði til að bíða heimkomu hennar með erindið.

Mig langar að vekja máls á þeirri staðreynd að í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 sem við munum ræða hér, ég er að taka forskot á sæluna, er svívirðilega lítið um fjármuni í samgöngumál. Ég tala ekki um miðað við þá umræðu sem verið hefur undanfarið og svo alls ekki sé talað um þá umræðu sem var hér fyrir kosningar þegar samgönguáætlun var samþykkt. Árið 2017 eru settir um 33 milljarðar í þennan málaflokk. Það hækkar örlítið á næstu árum, lækkar reyndar á milli áranna 2020–2021 og endar í 40 milljörðum árið 2020. Þetta er um 7 milljarða hækkun og þá er ekki tekið tillit til verðlagsþróunar.

Í fjármálaáætluninni segir, með leyfi forseta:

„Sömuleiðis er mikil þörf fyrir uppbyggingu og þróun vegakerfisins til að auka öryggi og bregðast við aukinni umferð.“

Það verður ekki gert með þessum fjármunum. Svo segir líka í þessari áætlun, með leyfi forseta:

„Þá er leitast við að ná markmiðum um orkuskipti þannig að endurnýjanleg, innlend orka nýtist sem mest og með stuðningi við almenningssamgöngur á lofti, láði og legi, auk þess að auka fjölbreytni í vali ferðamáta innan þéttbýlis m.a. með sérreinum og þátttöku í stígagerð.“

Heldur einhver að öll þessi fínu markmið rúmist innan þessarar aukningar, svívirðilega litlu aukningar, sem á að fara í þennan málaflokk þegar þörfin fyrir umbætur er jafn rík og raun ber vitni?



[13:41]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Áður en ég kem að því sem ég ætla raunverulega að ræða um langar mig að vekja athygli á bláu hálstaui hv. þingmanna, hæstv. forseta og hæstv. ráðherra. Nú er hafin vitundarvakning um fjölbreytileika einhverfunnar og ég vona svo sannarlega að þetta átak gangi vel og er ánægð með að fá að taka þátt í því hér á hv. Alþingi.

Hæstv. forseti. Í síðustu viku vann velferðarnefnd að umsögn er varðar hið margumrædda áfengisfrumvarp. Nefndin fékk góða gesti á sinn fund, gesti sem starfa á sviði félags- og heilbrigðisvísinda; gesti sem allir vara við samþykkt frumvarpsins og telja að með samþykkt þess muni þeim góða árangri sem við höfum náð í forvörnum, þar með talið minnkandi unglingadrykkju og öðrum góðum árangri, stefnt í voða; gesti sem vara við samþykkt frumvarpsins og taka mark á rannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem telja að aukið aðgengi geti leitt til aukinnar neyslu og þar með haft slæm áhrif á líðan barna. Þessir gestir vöruðu einnig við samþykkt frumvarpsins þar sem þeir telja að frumvarpið gangi freklega á rétt barna og ungmenna til að vera laus við þrýsting frá áfengisiðnaðinum og auk þess bentu gestir á tengsl áfengis og krabbameins og bentu á ýmsa krabbameinssjúkdóma sem m.a. eiga orsakir sínar að rekja til aukinnar áfengisneyslu.

Ég vona að hv. þingmenn velferðarnefndar geti verið sammála um að afgreiða umsögn frá nefndinni í sameiningu og taka undir varnaðarorð þessara fagaðila. Ég er þó mjög hrædd um að svo verði ekki þar sem formaður velferðarnefndar, varaformaður velferðarnefndar og annar varaformaður velferðarnefndar eru öll á frumvarpi um aukið aðgengi að áfengi.



[13:43]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Fyrir ári síðan var opinberunin algjör. Krakkinn benti á nýju fötin keisrarans frá skraddaranum í Panama og allir sáu svindlið, hagsmunatengslin, aðstöðumuninn, ósvífnina og valdsmisbeitinguna. Fyrir sjö árum var opinberunin líka alger. Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið var skilað þann 12. apríl. Þar var samfélagið ógeðslegt, engar hugsjónir, bara tækifærismennska og valdabarátta, eins og var komist að orði þar. Fyrir nokkrum dögum var opinberunin aftur alger. Helmingaskipti og blekkingar, spilling á kostnað fólks í landinu, spilling sem leiddi til algers hruns bankakerfisins, hrun ógeðslegs samfélags sem pólitík tækifærismennsku og valdabaráttu bjó til.

Ég vil ekki búa í ógeðslegu samfélagi. Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem forsætisráðherra lýgur að þjóðinni. Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem tækifærismennska og valdabarátta ræður ríkjum. Ég vil ekki búa í samfélagi spillingar þar sem vinir og fjölskylda ráðamanna fá forréttindameðferð. Ég vil hins vegar búa á Íslandi með vinum og fjölskyldu, með Kirkjufellinu og Helgrindunum, Landamannalaugum, páskahretinu og einstaka eldgosi. Það er rosalega auðvelt að komast hjá því að búa í ógeðslegu samfélagi. Maður getur gert það með því að taka ábyrgð á sínu vali, með hverjum maður vinnur og hverjum maður gefur aðgang að völdum.

Ábyrgðin liggur hjá þér, hæstv. fjármála- og efnaahgsráðherra, og þér, hæstv. heilbrigðisráðherra. Áframhaldandi ógeðslegt samfélag er í boði ykkar. Sama hversu vel þið meinið, sama hversu göfugan tilgang þið hafið, sama hversu einlægir þið eruð í ykkar verkum þá hleyptuð þið lyginni aftur inn í samfélagið. Það gerðuð þið með yfirlögðu ráði eftir að lygin komst upp og gerið það á hverjum degi sem forsætisráðherra er Bjarni Benediktsson. Þið gerðuð það þrátt fyrir að krakkinn benti og sagði að keisarinn væri nakinn. Kannski er búið að benda svo oft á nakta keisarann að ykkur er orðið alveg sama. Kannski er krakkinn í sögunni (Forseti hringir.) bara sá hinn sami og var í sögunni Úlfur, úlfur. Ef svo er þá vona ég að ég sé ekki að skemma endinn á sögunni, (Forseti hringir.) en úlfurinn gleypti krakkann.



[13:46]
Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Frú forseti. Hv. þingkonur og -menn. Virðulegt landsfólk. Ég stend auðmjúk frammi fyrir ykkur í dag eins og flesta daga en um leið spyr kona sig: Hvað erum við að gera hér? Hvernig samfélagi viljum við búa í?

Þessi spurning er afar mikilvæg. Við höfum þau forréttindi að sinna hlutverki þingfólks í þjónustu almennings og eigum að spyrja okkur þessarar spurningar á degi hverjum: Hvað erum við að gera hér?

Við sem förum með valdið eigum að sýna fordæmi og skapa saman réttlátt og sanngjarnt samfélag þar sem ráðafólk áttar sig á siðferðilegri skyldu sinni gagnvart fólkinu í landinu. Hér eigum við að skapa samfélag þar sem hver og einn einstaklingur fær að blómstra á eigin forsendum. Við berum siðferðilega skyldu til að tryggja öllu fólki sem hér kýs að búa vissa grunnþjónustu, framúrskarandi heilbrigðisþjónustu, góðar samgöngur og fyrsta flokks menntakerfi, þar sem heilbrigðiskerfið virkar þegar fólk er veikt, óháð búsetu eða fjárhag, þar sem við þurfum ekki að óttast getuleysi heilbrigðisstarfsfólks sem er til orðið vegna fjárskorts, heilbrigðiskerfi sem við getum einfaldlega treyst. Okkur ber siðferðileg skylda til að tryggja samgöngukerfi sem er öruggt, þar sem raunverulegt val er um samgöngumáta sem stuðla að umhverfisvænum lífsstíl, samgöngukerfi þar sem fólk er ekki í hættu statt á ferð sinni um landið. Okkur ber siðferðileg skylda til að tryggja menntakerfi þar sem öll skólastig eru framúrskarandi og með þá þjónustu sem er nauðsynleg þannig að einstaklingar með misjafnar þarfir geta stundað nám á jafningjagrundvelli. Við þurfum að skapa menntakerfi sem tryggir öllu fólki jafnan aðgang að æðri menntun.

Þegar ríkisvaldið forgangsraðar fjármunum samfélagssjóða okkar er það siðferðileg ábyrgð þess að tryggja þessar grunnstoðir og velferð allra og því megum við ekki gleyma. Mér finnst þessi ríkisstjórn ekki gæta hagsmuna jaðarsettra hópa, fátækra og almennings í landinu. Þetta er ríkisstjórn ríka fólksins.



[13:48]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að taka undir orð hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur um Bláan apríl og eins að allir dagar ættu að vera dagar barna, burt séð frá því hvort við erum að tala um dag einhverfunnar, um áfengi í búðir eða hvað svo sem við erum að fjalla um.

Það er ástæða þess að ég ætlaði að eiga hér orðastað við hv. þm. Vilhjálm Árnason sem er staddur erlendis. Hann er lögreglumaður og þingmaður og hefur starfað í fjárlaganefnd og er nú í allsherjar- og menntamálanefnd. Mig langaði til að ræða við hann um stöðu lögreglunnar eftir að við höfum litið fjármálaáætlun augum.

Það kom nefnilega fram, og hefur verið í blöðum bæði í gær og í dag, að barnaníðingur fær ekki viðeigandi refsingu vegna þess að lögreglan hefur ekki haft tilskilin úrræði til að bregðast við. Það kemur fram, og er haft eftir yfirlögregluþjóni sem að málinu kom, að sá langi tími sem fór í rannsóknina skýrðist af gríðarlegu umfangi gagna en líka af því að tölvurannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu byggi við mannfæð. Fjöldi mála væri til rannsóknar en kerfið réði ekki við að fá jafn umfangsmikinn pakka og hér var um að ræða.

Að sjálfsögðu þykir yfirlögregluþjóni ekki gott að lögreglan hafi ekki þau úrræði sem til þarf til að takast á við slíkt. Ef eitthvað er þá hlýtur það að vera frumskylda okkar þingheims að sjá til þess að börnin okkar búi við öryggi, að við og börnin okkar þurfum ekki að óttast að barnaníðingar á hverjum tíma gangi lausir og að við þurfum að horfast í augu við það sem foreldrar að þeir nálgist börnin okkar og barnabörnin. (Forseti hringir.) Lögreglan hefur ekki mannafla til að takast á við þetta verkefni og hún hefur það ekki með nýrri ríkisfjármálaáætlun, þar sem fé til hennar er engan veginn nægjanlegt.



[13:51]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að ræða aðeins um virðingu þingsins undir þessum lið. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa yfir furðu minni yfir þeirri vanvirðingu sem hér var sýnd af hálfu ráðherra dómsmála gagnvart þinginu og þingmönnum í gær. Tveir þingmenn tóku til máls á þingfundi í gær og minntu á fyrirspurnir sínar til ráðherrans sem eru báðar næstum tveggja mánaða gamlar, en til upprifjunar þá ber ráðherrum að svara fyrirspurnum þingmanna innan 15 daga. Ráðherrann kom upp í pontu og gerði svo lítið úr fundarliðnum hér sem heitir fundarstjórn forseta að hún talaði um uppistand. Uppistand, frú forseti, og að þingmenn þyrftu nú að gjöra svo vel að virða dagskrána.

Frú forseti. Þetta viðhorf gagnvart þinginu hafði dómsmálaráðherra uppi í ræðustól Alþingis sama dag og á forsíðu Fréttablaðsins kemur fram að ráðherra dómsmála hefur ekki í hyggju að virða þingsályktun frá árinu 2012 sem hér var samþykkt samhljóða af öllu þinginu um að fara í rannsókn á einkavæðingu bankanna, nema eitthvað nýtt konkret komi fram.

Frú forseti. Það þarf með einhverjum hætti að koma fulltrúum framkvæmdarvaldsins í skilning um að þeim beri að virða löggjafarvaldið, virða þjóðþingið. Til upprifjunar fyrir dómsmálaráðherra sem ekki er hér í þingsal en ég treysti að sé að hlusta á og horfa á mig, sýnist hún vera að gera það hér í hliðarsal, þá situr hún í sínu embætti fyrir tilstuðlan þingræðisins. Ég vona að hæstv. ráðherra dómsmála sýni þinginu meiri virðingu en hún gerði í gær, en það er kannski óskhyggja að vonast eftir meiri virðingu frá hæstv. ráðherra dómsmála því hún virðir ekki einu sinni stjórnarsáttmála sinnar eigin ríkisstjórnar.

Það kom fram í dag í fjölmiðlum að hún ætlar ekki að bera virðingu fyrir þeirri klausu sem segir, með leyfi forseta:

„Lögð verður áhersla á framkvæmd aðgerðaáætlunar um bætta verkferla vegna kynferðisbrota (Forseti hringir.) og lagt til við Alþingi að stafrænt kynferðisofbeldi verði skilgreint í hegningarlögum.“

Hæstv. dómsmálaráðherra tjáði sig um þetta (Forseti hringir.) í dag og sagði að engin vinna stæði yfir innan hennar ráðuneytis (Forseti hringir.) til þess að virða þennan hluta stjórnarsáttmálans.



[13:53]
Forseti (Unnur Brá Konráðsdóttir):

Forseti verður að biðja hv. þingmenn um að virða þann tíma sem gefinn er hér til ræðuhalda.



[13:53]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að bregðast við sumum af þeim undarlegu ræðum sem hér hafa verið fluttar í þessari umræðu að öðru leyti en því að það er rétt að fram komi að hv. þingmenn Valgerður Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason sem hér voru nefnd og einstakir þingmenn ætluðu að eiga orðastað við í umræðunni í dag eru stödd á fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi á vegum þingsins. Þau verða hér á morgun, þannig að ekki er hægt að ásaka þau fyrir að vera fjarstödd í þessari umræðu, (Gripið fram í.) svo að það komi skýrt fram að það er skýringin á því. Ég hygg að það hafi legið fyrir að hv. þingmenn gætu verið hér til umræðu á morgun. En látum það nú vera.

Ég vildi hins vegar bregðast við því sem ég vil kalla talsverðan misskilning sem verið hefur á ferðinni í umræðu og birtist m.a. á forsíðu Fréttablaðsins í dag sem varðar hæfi þingmanna. Komið hefur fram að viðmælandi Fréttablaðsins, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, notaði ekki orðið „vanhæfi“ í samtalinu við blaðið, enda á það ekki við. Þingmenn verða almennt ekki vanhæfir til meðferðar mála hér í þinginu nema það varði fjárveitingar til þeirra sjálfra, eins og segir í stjórnarskránni. Raunar má geta þess í tengslum við það mál sem varð tilefni að frétt Fréttablaðsins að eðli starfa lögmanna er með þeim hætti að þeir vinna í þágu skjólstæðinga sinna að tilteknum málum, en lögmenn (Forseti hringir.) samkvæmt lögmannalögum og öllum reglum sem um þá gilda, verða (Forseti hringir.) ekki samsamaðir skjólstæðingum sínum í einstökum málum, hvað þá skjólstæðingum (Forseti hringir.) sínum í einstökum málum fyrir mörgum árum.



[13:56]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Í nýrri fjármálaáætlun 2018–2022, sem kynnt var fyrir helgi, kemur m.a. fram að allur þyrlukostur Landhelgisgæslunnar verði endurnýjaður á næstu árum. Hér er um að ræða fjárfestingu upp á 14 milljarða. Ég tel að hér sé um ákaflega jákvæðar fréttir að ræða. Þyrlukostur Landhelgisgæslunnar samanstendur í dag af þremur Aerospatiale Super Puma þyrlum sem komnar eru til ára sinna. Sú elsta, TF-LIF, er orðin þrítug og ég tel að þetta verði mikil bót fyrir öryggishagsmuni Íslands og þess svæðis sem Ísland og Landhelgisgæslan þjóna í Norður-Atlantshafi. Það svæði sem sinnt er af leitar- og björgunarþjónustu Landhelgisgæslunnar er 17 sinnum stærra en Ísland og því tel ég þetta ákaflega jákvætt skref.

Mig langaði bara að gleðjast með þingheimi yfir þessu þar sem sjaldan er fagnað einhverjum hlutum hér. Þetta er jákvætt og stórt mál. Ég man að fyrir 30 árum tók það heilan þingvetur að kaupa eina þyrlu. Nú erum við í þeirri stöðu að geta gert betur. Ég er því ákaflega ánægður, satt að segja, með að þetta sé komið fram. Áður en þessar fréttir bárust í tengslum við fjármálaáætlunina á föstudaginn hafði ég beðið um sérstaka umræðu í þinginu um Landhelgisgæsluna og endurnýjun þyrluflotans. Vonandi getur sú umræða farið fram í þinginu fljótlega eftir páska. En þetta eru gleðilegar fréttir og það er gott að geta fagnað einhverju einhvern tímann.



[13:58]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég set upp þverslaufu frá því að ég lék Össur Skarphéðinsson í menntaskólaleikriti fyrir nokkrum áratugum, en nú geri ég það af virðingu við fjölbreytileika einhverfunnar.

Nú eru liðnir fjórir dagar frá því að hæstv. fjármálaráðherra kynnti viðhafnarútgáfu að nýrri fjármálaáætlun og henni var varpað upp á litfögrum glærum og fylgt úr hlaði með loforðum um stórfellda uppbyggingu. Á fjórum dögum sem síðan hafa liðið hefur farfinn lekið af pappírnum og eftir stendur svart/hvít hægri stefna síðustu ríkisstjórnar. Á undanförnum dögum hefur verið dregin upp mynd af fjölmörgum ágreiningsmálum ríkisstjórnarflokkanna en það sem stendur eftir, þegar plaggið er skoðað, er að þessi ágreiningur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar virðist vera algjörlega til heimabrúks. Þau hafa bægslast um í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en niðurstaðan er sú að stefna Sjálfstæðisflokksins hefur algjörlega orðið ofan á. Þessi glíma hefur ekki tekið meira en 80 daga, frú forseti. Gunnar Nelson hefði sennilega orðið ánægður með svo snarpan bardaga.

Í gær steig rektor Háskóla Íslands fram í fréttum og sagði að fjármálastefna til næstu fimm ára ylli honum miklum vonbrigðum og hún samræmdist ekki þeim loforðum sem gefin hefðu verið í kosningabaráttunni í haust. Þá lýsir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Háskóla Íslands, því yfir að það stefni í algjört óefni við háskólann, ekki síst í íslenskukennslu sem er nú reyndar fag hæstv. menntamálaráðherra.

Frú forseti. Á næstu árum munum við takast á við stærstu samfélagsbreytingar sem riðið hafa yfir síðan í iðnbyltingunni á 19. öld. Það skiptir máli að menntun verði mikilvæg í lífi okkar til þess að við getum snúið þessari breytingu okkur í hag. Þar dugar engin skammsýni. Við getum ekki haldið áfram að leggja fram tæplega helmingi minna en aðrar Norðurlandaþjóðir til háskólanáms. Nú verður hæstv. menntamálaráðherra að koma sér upp úr djúpunum, setja hausinn yfir yfirborðið og líta á nákaldan veruleikann, eins og hann blasir við.



[14:00]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þm. Birgis Ármannssonar tel ég rétt að koma hér upp í ræðustól. Það er sannarlega rétt að þegar um er að ræða svo flókin úrlausnarefni sem hér eru í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem er úrvinnsla skýrslu um einkavæðingu á Búnaðarbankanum, ríður á að þingmenn í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gæti orða sinna og séu nákvæmir í orðavali. Það hef ég lagt mig fram um að vera og átti þess vegna í samtali við Fréttablaðið í gær og sagði í því viðtali að ég teldi betur fara á því að einhver annar en hv. þm. Brynjar Níelsson leiddi nákvæmlega þá vinnu vegna þess að hans tengsl væru óheppileg í ljósi viðfangsefnis nefndarinnar.

Ég lagði áherslu á að við hlytum öll að vera sammála um að ekki félli skuggi á störf stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við höfum reynt að vanda okkur í því hingað til og eigum að gera það hér eftir. Orðalagið sem er í fyrirsögn viðtalsins, þar sem orðið vanhæfi er notað, er orð sem ég hef ekki notað og mun ekki nota í þessu samhengi. Það á ekki við í þessu samhengi og ég vil geta þess í ræðustól Alþingis að það er ekki það orð sem ég myndi nota hér og ég hyggst ekki nota það. Ég vil líka geta þess að ég hef átt samtal við hv. þm. Brynjar Níelsson, sem ég hef miklar mætur á, og tel að hann valdi því vel að vera formaður nefndarinnar, en við erum sammála, og meiri hluti nefndarinnar er það, um að betur fari á því að annar þingmaður leiði nákvæmlega þessa vinnu. Niðurstaða nefndarinnar í morgun varð sú að hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson leiði vinnuna til lykta.