146. löggjafarþing — 54. fundur
 4. apríl 2017.
íslenskur ríkisborgararéttur, 1. umræða.
stjfrv., 373. mál (ríkisfangsleysi). — Þskj. 502.

[14:03]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Um er að ræða breytingar sem fyrst og fremst varða þá sem eru ríkisfangslausir eða hafa komið hingað til lands á barnsaldri.

Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir ríkisfangsleysi með því að auðvelda þeim sem ekki hafa ríkisfang að öðlast ríkisborgararétt. Með frumvarpinu er einnig komið til móts við ungt fólk sem náð hefur hér fótfestu að öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Þá er lagt til að einfalda skráningu íslensks ríkisborgararéttar barns sem fæðist erlendis og á íslenskan föður og erlenda móður sem ekki eru í hjúskap og að lokum er með þessu frumvarpi lögð til breyting á málsmeðferð vegna skráningar íslensks ríkisborgararéttar ættleiddra barna þegar íslenskt kjörforeldri er búsett erlendis við ættleiðinguna.

Breytingarnar eru mismiklar þar sem í núgildandi lögum eru nú þegar nokkur ákvæði er varða börn og ríkisfangslausa. Hins vegar er frumvarpinu ætlað að tryggja lagastoð með hliðsjón af undirbúningi fullgildingar tveggja samninga Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi, annars vegar samning frá 1954 um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga og hins vegar samning frá 1961 um að draga úr ríkisfangsleysi.

Þá hefur við undirbúning frumvarpsins m.a. verið haft samráð við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem hóf herferð í lok árs 2014 sem ætlað er að standa í tíu ár með það að leiðarljósi að eyða algjörlega ríkisfangsleysi á heimsvísu.

Virðulegur forseti. Ég vil fara stuttlega yfir helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þær eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að barn öðlist íslenskt ríkisfang við fæðingu ef annað foreldri þess er íslenskur ríkisborgari, óháð því hvort barnið fæðist hér á landi eða erlendis og óháð því hvort foreldrar barnsins hafi gengið í hjúskap. Þá er einnig lögð til sú orðalagsbreyting að felld verði niður vísun til orðanna faðir og móðir og í staðinn notað orðið foreldri. Það orð mun þá einnig ná til konu sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarmaka. Þessi breyting varðar fyrst og fremst börn sem fædd eru erlendis og eiga íslenskan föður, sem ekki er í hjúskap með erlendri móður barns. Breytingin miðar að því að jafna rétt barna sem eiga íslenskt foreldri til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu. Hingað til hefur nefnilega þurft að óska eftir ríkisborgararétti fyrir barnið hjá Útlendingastofnun og greiða fyrir gjald en með breytingunni mun eingöngu þurfa að óska eftir skráningu barnsins hjá Þjóðskrá og fær barnið þá sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt eins og til dæmis tíðkast með börn sem fædd eru erlendis þegar foreldrar eru í hjúskap.

Í öðru lagi eru nokkur ákvæði um rétt barna til að öðlast íslenskt ríkisfang. Miða þau m.a. að því að lengja þann tíma sem ungt fólk hefur í dag til að óska eftir íslensku ríkisfangi. Önnur nýmæli varða heimild barna sem eru ríkisfangslaus eða hafa hlotið alþjóðlega vernd til að óska eftir íslensku ríkisfangi. Ákvæði um barn sem fæðist hér á landi og er ríkisfangslaust hefur verið í íslenskum lögum um langan tíma. Nú er lagt til að málsmeðferð verði einfölduð og unnt verði að óska eftir ríkisfangi fyrir barn í þessari stöðu allt til 21 árs aldurs í stað 18 ára.

Ákvæði um fæðingu barns um borð í íslensku skipi eða loftfari er nýmæli en sú breyting er í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna frá 1961 um að draga úr ríkisfangsleysi. Þá er lögð til lítils háttar breyting á möguleikum þeirra sem flust hafa hingað til lands ungir að árum en hafa náð 18 ára aldri til að óska eftir ríkisborgararétti með einfaldari hætti en með umsókn en heimildin er lengd til 21 árs aldurs í stað 20 ára. Enn fremur er krafa um búsetu þessara barna hér á landi stytt úr sjö árum í fimm ár. Þá eru lagðar til víðtækari heimildir en eru í núgildandi lögum fyrir ríkisfangslaust barn sem komið hefur hingað til lands ungt að árum eða barn sem hefur hlotið alþjóðlega vernd. Þannig er lagt til að í þeim tilvikum verði hægt að óska eftir ríkisborgararétti fyrir barn eftir þriggja ára búsetu hér á landi fram til 21 árs aldurs.

Í þriðja lagi er lagt til nýtt ákvæði um að fullorðnir einstaklingar sem eru ríkisfangslausir geti lagt fram umsókn um ríkisborgararétt eftir fimm ára búsetu hér á landi en almenna reglan er sjö ár. Er þetta til samræmis við ákvæði laganna um flóttamenn sem komið hafa hingað til lands og fullnægja skilgreiningu í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951 og um þá sem fengið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Að lokum er lögð til lítils háttar breyting á málsmeðferð þegar íslenskt kjörforeldri barns, sem búsett er erlendis og hefur ættleitt barn eftir reglum í sínu heimalandi, óskar eftir íslensku ríkisfangi fyrir barnið. Lagt er til að þau mál verði afgreidd hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem fer með ættleiðingarmál en ekki hjá Útlendingastofnun eins og er í dag.

Enn fremur er lagt til að barn sem ættleitt er áður en það verður 18 ára geti fengið íslenskan ríkisborgararétt við staðfestingu ættleiðingar í stað þess að miða við 12 ára aldur.

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem hér er mælt fyrir er hluti af þeim lagaúrbótum sem ráðast þarf í til þess að Ísland geti fullgilt þá samninga sem áður var getið um, samninga Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi. Með nýjum lögum um útlendinga sem öðluðust gildi 1. janúar síðastliðinn var samþykkt ný löggjöf um útlendinga sem einnig miðar að því að tryggja lagastoð vegna fullgildingar þessara samninga en með þessu frumvarpi er talið að lagagrundvelli til fullgildingar verði algjörlega náð.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.



[14:10]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við stöndum hér á vissum tímamótum því að það er ekki á hverjum degi sem við erum að reyna að fullgilda 60 ára gamla alþjóðasamninga. Margt virðist horfa til bóta í frumvarpinu, t.d. fagna ég því, eins og væntanlega hæstv. ráðherra, vegna þess að bæði erum við mikið áhugafólk um jafnrétti, að í stað orðanna faðir og móðir verði talað um foreldri og að hjúskapur sé ekki nauðsynlegt skilyrði samkvæmt lögum heldur nægi sambúð.

Mig langar samt að spyrja ráðherrann varðandi tæknifrjóvgunarhluta frumvarpsins. Þar er sett það skilyrði að tæknifrjóvgun erlendis hafi verið gerð samkvæmt heimild þar til bærra stjórnvalda eða dómstóla. Þannig háttar til að í ýmsum ríkjum er heimild fyrir staðgöngumæðrun. Ég velti því fyrir mér hvort þetta ákvæði gæti orðið nokkurs konar bakdyr fyrir staðgöngumæðrun inn í íslenskan rétt án þess að við tökum þá umræðu á réttum vettvangi.



[14:11]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisvangavelta og menn hafa auðvitað velt því fyrir sér. Ég hef reynt að ganga úr skugga um að svar liggi fyrir og mér skilst að það sé ekki hægt vegna þess að hér er eingöngu verið að fjalla um barn móður sem er tæknifrjóvgað í hjónabandi. Það breytir því ekki að eftir sem áður er staðgöngumæðrun óheimil samkvæmt íslenskum lögum. Þetta ákvæði á ekki að geta, getur ekki og er ekki hugsað til þess að mæta þeim áskorunum, sem svo sannarlega eru fyrir hendi í tilfelli staðgöngumæðrunar barna sem eru getin á erlendri grundu. Þetta ákvæði er ekki hugsað sem svar við þeim áskorunum. Ég tel hins vegar borðleggjandi að umræðu um það þurfi að taka á m.a. þessum vettvangi.



[14:13]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum svarið og fagna því að hún sé ekki með þessu að ætla staðgöngumæðrun að komast bakdyramegin inn í íslensk lög. Ég er samt ekki jafn bjartsýnn og ráðherrann varðandi það að þetta loki algjörlega fyrir það af því að lagaumhverfið í ríkjum þar sem staðgöngumæðrun er heimil er mjög ólíkt á milli landa. Sums staðar er það svo að par sem nýtir sér þjónustu staðgöngumóður er samkvæmt lögum þess ríkis skráð foreldrar barnsins. Sú sýn að þessi heimild sé bundin við móður barns í okkar augum getur orðið ansi óskýr þegar lagaumhverfi annarra ríkja er tekið inn í myndina. Þetta er greinilega eitthvað sem við þurfum að skoða rækilega í meðhöndlun nefndarinnar. Ég mun væntanlega (Forseti hringir.) banka upp á hjá ráðherranum með liðsinni í því máli.



[14:14]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til þess að skoða þetta mál sérstaklega og fjalla um það. Ég vek hins vegar athygli á því að það sem skiptir mestu máli hvað þetta ákvæði varðar er að þar er einmitt skilgreiningin á foreldri. Hér er verið að vísa til þess foreldris. Líka er gerður sá fyrirvari að Þjóðskrá Íslands er falið það hlutverk að meta gildi framlagðra gagna foreldris, m.a. hvort tæknifrjóvgun hafi verið gerð samkvæmt heimild þar til bærra stjórnvalda og dómstóla. Með tæknifrjóvgun er verið að tala um tæknifróvgun á því foreldri barnsins sem er í hjónabandi með hinu foreldrinu, ef ég get leyft mér að orða þetta svona klaufalega. En þessi mál geta auðvitað orðið flókin. Ég hvet nefndina til að fjalla sérstaklega um þetta.



[14:15]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst og fremst að koma hingað upp og fagna því að hæstv. ráðherra mæli fyrir þessu máli í dag. Þetta er mikil réttarbót fyrir mikinn fjölda fólks, líklega fleira en mörg okkar grunar og í mjög viðkvæmum og oft og tíðum erfiðum málum.

Mig langar að vera svolítið sjálfhverf og horfa fyrst á það, í þessu fyrra andsvari alla vega, sem lýtur að samkynja foreldrum þar sem tveir feður hafa átt erfitt með að uppfylla það að annars vegar ganga með barnið og hins vegar vera giftir konunni sem gekk með barnið. Þetta leysir heldur betur úr því.

Mig langar að spyrja í fyrsta lagi hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að slíkir foreldrar sem og aðrir sem hafa átt, og eiga, í vandræðum fyrir gildistöku þessara laga geti gengið sjálfkrafa inn í það þegar frumvarpið verður að lögum, hvort þeim dugi líka að sækja bara um ef þeir hafa fengið höfnun hingað til? Er það ekki réttur skilningur hjá mér svona í fyrstu umferð?



[14:16]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lagaskilin í málum sem þessum eru þannig að lögin taka gildi fyrir allar þær umsóknir sem lagðar eru fram eftir að lögin taka gildi og menn geta auðvitað sótt um ríkisborgararétt aftur hafi þeim á einhverjum fyrri stigum verið hafnað. Það er enginn fyrirvari á því að þeir geti sótt aftur um ríkisborgararétt.



[14:17]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið frá hæstv. dómsmálaráðherra. Þá er komið að annarri spurningu sem er eilítið stærri. Hún lýtur að því að í þessum lögum hér er orðið foreldri komið í stað föður og móður og með allri virðingu fyrir öllum heimsins feðrum og öllum heimsins mæðrum þá er það svolítið hjartans mál fyrir mig að í lögum sem lúta að hinum ýmsu málum sem varða réttarbætur fyrir fjölskyldur sé farið að huga að því að nota orðið foreldri eða forráðamaður frekar en að kyngera á þennan hátt. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra deili þeirri skoðun með mér úr því að inn á hennar borð koma mörg af þessum málum, frumvörpum og fyrirhuguðum lagabreytingum.



[14:17]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir að það er eðlilegt að nota orðið foreldri þegar það á við og jafnan þegar verið er að ræða málefni foreldra, þá hljóta menn að nota það hugtak sem menn nota um það. Ég ætla ekki að útiloka að það séu einhver mál sem varða eingöngu mæður, mér dettur helst í hug mæðravernd. Það eru reglur um mæðravernd. Ég held við hljótum að vilja halda okkur við hugtakið móðir þar, en þegar sleppir sérstaklega kyngreindum ákvæðum er alveg sjálfsagt að nota orðið foreldri.



[14:18]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að fylgja aðeins eftir spurningu frá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni um staðgöngumæðrun. Þar var sérstaklega verið að ræða það sem snýr að tæknifrjóvgun. Hins vegar má líka spyrja varðandi 4. gr. um ættleiðingar með erlendri ákvörðun sem íslensk stjórnvöld viðurkenna, hvort með sambærilegum hætti sé verið að opna fyrir það að fara fram hjá banni gegn staðgöngumæðrun sem Hæstiréttur var að staðfesta fyrir fimm dögum, þar sem kemur fram að bann útilokaði að kona sem elur barn geti afsalað sér náttúrulegri stöðu sinni sem móðir og kæmi í veg fyrir að kona væri beitt þrýstingi til að veita afnot af líkama sínum. Það er fyrsta spurningin. Ef ráðherrann gerði sér grein fyrir að þetta gæti verið að opna á það hver ástæðan er fyrir því að ekki var sérstaklega fjallað um það í framsöguræðunni og hvað það er sem nefndin ætti (Forseti hringir.) sérstaklega að huga að þegar kemur að því að fara yfir málið?

Síðan hvort ráðherra sé með upplýsingar um það (Forseti hringir.) hversu mörg tilvik það eru sem hafa komið upp sem þessi lög myndu ná yfir ef frumvarpið yrði að lögum.



[14:20]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara árétta það sem ég hef sagt að ekkert í þessu frumvarpi er sett fram með þeirri fyrirætlan á einhvern hátt að komast fram hjá þeim áskorunum sem blasa örlítið við í okkar samfélagi þessi dægrin og varða staðgöngumæðrun. Það er a.m.k. ekki tilgangur frumvarpsins og ekki markmið og á ekki heldur að vera neitt svigrúm fyrir það.

Hvað ættleiðingar varðar er tekið fram í greinargerð með 4. gr. sem varðar íslenskt ríkisfang barns sem ættleitt er af íslenskum ríkisborgara, þar er miðað við það að óska þurfi eftir staðfestingu á ættleiðingunni þannig hún hafi gildi á Íslandi líka og hafi þau réttaráhrif samkvæmt ættleiðingarlögum. Þetta er kannski eitt atriðið sem ég myndi beina til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að skoða sérstaklega með vísan til staðgöngumæðrunar (Forseti hringir.) hafi menn áhyggjur af því að þetta eitt og sér hafi (Forseti hringir.) áhrif á málefni barna sem getin eru við staðgöngumæðrun.



[14:21]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá fæ ég kannski að ítreka seinni hluta spurningar minnar sem snýr að því hversu algengt eða hversu mörg mál hafa komið upp sem ráðherra þekkir til sem myndu breyta málsmeðferðinni á þeim málum við það að þetta frumvarp yrði að lögum.



[14:21]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frumvarpið miðar aðallega að því að veita ríkisfangslausum börnum og fullorðnum ákveðna réttarvernd. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni er í núgildandi lögum ákvæði sem mætir því að nokkru leyti, en við höfum fengið ábendingar um að til þess að geta fullgilt nefnda alþjóðasamninga sem ætlað er að útrýma ríkisfangsleysi, þá þurfi að girða fyrir það eða veita lagastoð tilteknum réttindum. Þetta eru ekki mörg tilfelli sem koma hingað til lands, það eru ekki margir sem koma hingað til Íslands sem sannanlega eru ríkisfangslausir, en það eru þó tilvik sem við höfum uppi og mönnum hefur verið veittur ríkisborgararéttur. Það eru örfá tilvik sem Íslendingar hafa þurft að glíma við og varða ríkisfangsleysi.



[14:22]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna að við séum loks að fullgilda samninga sem voru undirritaðir 1954 og 1961. Mig langaði að spyrja sérstaklega um 2. gr. þessa frumvarps þar sem fram kemur að sá sem er fæddur hér á landi og hefur verið ríkisfangslaus frá fæðingu öðlast íslenskt ríkisfang með skriflegri tilkynningu til Útlendingastofnunar áður en hann nær 21 árs aldri. Tilkynning skal lögð fram af forsjármönnum hafi hann ekki náð 21 árs aldri og skal einstaklingurinn hafa dvalið samfellt hér á landi frá fæðingu og a.m.k. í þrjú ár þegar tilkynningin er lögð fram. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki séð tilefni til að fylgja frekar ákvæðum 1. gr. a samnings um vinnslu gegn ríkisfangsleysi þar sem fram kemur að einstaklingar geti hlotið ríkisfang við fæðingu hér á landi og hvers vegna sú leið var ekki valin, þ.e. hvaða sjónarmið voru gegn því.



[14:24]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, við vinnu á þessu frumvarpi var ekki hugað að því að breyta almennum reglum um ríkisborgararétt. Almennar reglur um ríkisborgararétt sem eru í gildi hér og víða í löndunum í kringum okkur eru þær að menn taki ríkisfang eftir ríkisfangi foreldris, ef þetta frumvarp nær fram að ganga, en ekki sjálfkrafa eftir fæðingarstað að því undanskildu þó að hér verði lagt til að börnum sem fæðast hér ríkisfangslaus verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Umræða almennt um veitingu ríkisborgararéttar á kannski heima utan við nákvæmlega þetta frumvarp og sjálfsagt að ræða það á öðrum vettvangi eða undir öðrum liðum en þessum. Ég tel sjálf reyndar fullt tilefni til þess. Ég hef vakið á því athygli að veitingu ríkisborgararéttar (Forseti hringir.) hvað framkvæmdina varðar mætti taka til endurskoðunar, en sú vinna og skoðun stóð utan við gerð þessa frumvarps.



[14:25]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Ég má til með að skýra aðeins betur hvað ég átti við. Ég er einungis að ræða um að veita börnum sem fæðast hér ríkisfangslaus ríkisborgararétt við fæðingu, þ.e. að það sé ekki almenn regla að fæðist börn hér sem hafa ríkisborgararétt annarra landa eða eiga foreldra með ríkisborgararétt frá öðrum löndum leiði það sjálfkrafa til ríkisfangsleysis, að þau fái sjálfkrafa ríkisborgararétt við að fæðast hér, en hins vegar að við tökum undir þau markmið sem er að finna í 1. gr. a samningsins í vinnu gegn ríkisfangsleysi um að börn sem fæðast ríkisfangslaus í löndum sem eru aðilar að þessum samningi hljóti ríkisfang við fæðingu í því landi.

Ég nefni þetta sérstaklega þar sem dæmi eru um að börn flóttamanna hafi fæðst hér á landi og að til hafi staðið a.m.k. að vísa þeim á brott þar sem þau hafa ekki talist geta fengið íslenskan ríkisborgararétt en ekki heldur getað sótt um ríkisborgararétt frá upprunalandinu, enda var staða þeirra flóttamaður. Því spyr ég hvort sé ekki tilefni til þess að taka á því í þessum lögum



[14:26]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vek athygli á 2. gr. frumvarpsins, en þar segir:

„Sá sem er fæddur hér á landi og hefur verið ríkisfangslaus frá fæðingu öðlast íslenskt ríkisfang með skriflegri tilkynningu …“

(ÞÆ: Innan þriggja ára?) Áður en hann nær 21 árs aldri. Með því tel ég að komið sé til móts við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám ríkisfangsleysis og veit ekki betur en það sé í ákveðnu samráði við t.d. alþjóðlega flóttamannastofnun. Ég á ekki von á öðru en þetta ákvæði, 2. gr., komi til móts við fyrirspurn hv. þingmanns.



[14:27]
Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Það er almennt mín skoðun að líta ætti á ríkisborgarétt sem rétt en ekki umbun og að um veitingu hans ættu að gilda rýmri reglur en ekki þrengri. Það er með þeim gleraugum sem ég hef lesið þetta frumvarp. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það að sinni en get þó getið þess að sá lestur og sú niðurstaða leiðir til þess að hér er í flestum ef ekki öllum tilfellum, ég get sagt í öllum tilfellum sem ég hef komið auga á, vera að rýmka þann rétt sem gefinn er og fækka þeim tilfellum og vonandi útrýma þar sem einstaklingur sem hefur einhver tengsl við Ísland verður ríkisfangslaus. Ég ætla ekki að fara nánar í einstaka greinar, það er á mörgum stöðum verið að rýmka þá fresti úr 18 ára til 21 árs, verið að rýmka fresti hvað varðar ættleiðingar úr 12 ára í 18 ára, verið að rýmka þá fresti sem þeir sem hafa búið á landinu samfellt geti hlotið úr 11 ára til 13 ára. Þetta held ég að séu allt jákvæðir hlutir. Ég styð því efni frumvarpsins þótt ég áskilji mér auðvitað rétt til þess að taka afstöðu til einstakra þátta sem kunna að koma fyrir í vinnslu nefndarinnar. Ég mun þó alltaf lesa þær breytingar og líta til þeirra með þeim gleraugum að við ættum að rýmka rétt til ríkisfangs og minnka líkur á ríkisfangsleysi frekar en hitt.



[14:29]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég má til með að endurtaka að ég fagna þessu frumvarpi, en má kannski til með að skýra aðeins þau orð sem ég lét falla í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan er varðar 2. gr. frumvarpsins. Það er vissulega svo að samningur um afnám ríkisfangsleysis gerir ráð fyrir tvenns konar leiðum til að standast kröfur þess samnings hvað varðar að veita ríkisfangslausum börnum ríkisfang. Þær leiðir eru annaðhvort a- eða b-leiðin, ef svo mætti að orði komast, sem finna má í fyrsta ákvæði samnings um afnám ríkisfangsleysis.

Fyrsta ákvæðið gengur út á það að ríkisfang yrði veitt við fæðingu samkvæmt lögum, það er finna í a-liðnum, og seinna ákvæðið er að finna í b-liðnum sem gerir stjórnvöldum kleift að setja reglur um tímafrest og um einhvers konar formreglur sem gildi við veitingu ríkisborgararéttar barna sem fæðast á yfirráðasvæðum aðildarríkjanna og hversu langur tími þarf að líða þar til slík börn geti fengið ríkisfang o.s.frv.

Álit mitt snýr að því að ef markmiðið og inntakið með sáttmálanum er skoðað og ef við veltum fyrir okkur hver tilgangur með þessum samningi sé þá er það að koma í veg fyrir ríkisfangsleysi og að koma í veg fyrir, sérstaklega í þessu tilfelli, að börn hljóti skaða af því að hafa ekki ríkisfang, en það getur reynst einstaklingum mjög skaðlegt að hafa ekki ríkisfang. Því tel ég fullt tilefni til að skoða hvort Ísland kjósi ekki frekar að rýmka tilkall barna sem fæðast hér ríkisfangslaus til þess að hljóta hér íslenskt ríkisfang fremur en að setja þær skorður að þrjú ár þurfi að líða frá því barnið fæðist þar til það getur fengið íslenskt ríkisfang, þ.e. þar til það getur tilkynnt um veru sína hér. Því að núverandi löggjöf hefur alla vega leitt það af sér að flóttamannafjölskyldum sem eignast börn hér á landi stafar ógn af því að vera vísað af landi brott þrátt fyrir að börn þeirra hafi fæðst hérlendis og þrátt fyrir að börnin geti ekki nálgast ríkisfang neins staðar annars staðar, sem setur þessar fjölskyldur oft í veruleg vandræði þegar kemur að því að þær ferðist á milli staða, sæki sér einhvers konar þjónustu, að þær fái einhvers konar pappíra. Því eins og við vitum samkvæmt flóttamannarétti er móttökuríkjum ekki heimilt að taka eða sækja um pappíra fyrir flóttamenn frá þeim ríkjum sem þeir eru að flýja frá, enda væri það andstætt ástæðum flóttans, þ.e. þá væri verið að vekja athygli stjórnvalda þess lands sem flóttamaðurinn kemur til á því hvar flóttamaðurinn er staddur í heiminum og hvað hann er að gera.

Af þeim sökum vil ég ítreka að mér þætti æskilegra að við myndum breyta þessu frumvarpi og vonandi tekur hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd undir það með mér í meðförum málsins í nefndinni að hægt væri að breyta þessu ákvæði sem svo að barn sem fæðist ríkisfangslaust eða ætla megi að verði ríkisfangslaust við fæðingu, eigi rétt á íslensku ríkisfangi við fæðingu frekar en að það þurfi að bíða í þrjú ár, því að eins og við vitum hefur Útlendingastofnun notast við ákveðið tæknilegt atriði um að vísa í það að þær kennitölur sem flóttamenn hafa fengið hér á landi séu ekki venjulegar kennitölur eins og við fáum hér, Íslendingar. Því sé ekkert því til fyrirstöðu að vísa ungabörnum og fjölskyldum þeirra frá Íslandi þrátt fyrir að börnin hafi fæðst á Íslandi.

Þetta þykir mér mjög leiðinleg framkvæmd og vissulega mögulega í andstöðu við bæði alþjóðlegan flóttamannarétt sem og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og eins 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lýtur að fjölskyldulífi og rétti til friðhelgi einkalífs. Því tel ég mjög mikilvægt að í meðförum nefndarinnar í þessu máli lítum við ekki einungis til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið í andsvörum hv. þingmanna við ræðu hæstv. ráðherra, heldur tökum við einnig alveg sérstaklega mið af þessu, að ef okkur er virkilega annt um að afnema ríkisfangsleysi og vinna gegn þeim skaða sem það getur valdið þeim einstaklingum sem fyrir því verða, þá gerum við gangskör að því að hafa hér ákvæði sem heimilar Þjóðskrá að veita ríkisfang barni sem fæðist hér á landi.



[14:34]
Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Mér fyndist það bara óviðeigandi ef ég myndi ekki taka þátt í þessari umræðu, manneskja sem hefur þurft að vinna og synda í þessu umhverfi til að fá ríkisborgararétt fyrir börnin mín og gera það hér og þar og alls staðar. Því fagna ég þessu frumvarpi.

Ég viðurkenni að það eru nokkur mál sem hafa komið inn til mín þar sem einmitt væntingar hinsegin foreldra sem eiga börn hafa lent svolítið á milli — hvernig er þetta orðað á íslensku? (Gripið fram í: Skips og bryggju.) Takk kærlega, hv. þingmaður, fyrir að bjarga mér þar. — Ég var sérstaklega glöð að sjá það og ég er sérstaklega glöð að heyra orð hæstv. dómsmálaráðherra að við munum halda áfram í þeirri vinnu að uppfæra okkur. Ég vildi bara í ljósi síðustu umræðu að minna okkur á orðin sem eru í stjórnarsáttmála okkar hvað varðar innflytjendur og útlendingamál. Ég veit að við erum að innleiða líka lög um innflytjendur sem við munum stöðugt hafa til endurskoðunar. Ég vildi bara koma upp og bergmála sjónarmið ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Í fjölmenningarsamfélagi felst mannauður og fjölbreytt reynsla sem er til þess fallin að auðga samskipti einstaklinga. Innflytjendum verði auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.“ — Hér erum við einmitt að gera það, frá fæðingu.

„Vandað verði til reglubundinnar móttöku kvótaflóttafólks og stefnt að því að taka á móti fleiri flóttamönnum. Eftir sem áður verði fjármagn tryggt til neyðaraðstoðar á vegum alþjóðlegra stofnana.

Styðja verður við innleiðingu nýrra útlendingalaga til þess að tryggja virkni þeirra gagnvart viðeigandi stofnunum og þjónustu. Hafa skal mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, samanber skyldur í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, og afgreiðslutími styttur án þess að það bitni á vandaðri málsmeðferð.“

Ég tel að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af að þetta muni ekki vera virt í þessu máli. Ég hef ekki meira að segja núna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.