146. löggjafarþing — 54. fundur
 4. apríl 2017.
vegabréf, 1. umræða.
stjfrv., 405. mál (samningar um framleiðslu vegabréfa). — Þskj. 536.

[14:46]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vegabréf, nr. 136/1998. Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting að Þjóðskrá Íslands verði veitt heimild til að gera samninga um vegabréf og framleiðslukerfi fyrir vegabréf til allt að tíu ára.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, er ríkisaðilum í A-hluta heimilt með samþykki ráðherra að semja um framkvæmdir, rekstur eða önnur afmörkuð verkefni til lengri tíma en eins árs en þó ekki lengur en í fimm ár. Í 2. mgr. 40 gr. sömu laga er heimilt að fengnu samþykki Alþingis að semja um framkvæmdir, rekstur eða önnur afmörkuð verkefni til lengri tíma en fimm ára. Með samþykki Alþingis er þá að sjálfsögðu verið að vísa til lagaheimildar.

Þjóðskrá Íslands hefur um nokkurt skeið undirbúið útboð vegna innkaupa á vegabréfum og endurnýjunar framleiðslukerfis fyrir vegabréf. Núverandi kerfi er í eigu Þjóðskrár Íslands og er komið til ára sinna. Það er mat Þjóðskrár Íslands, sem ráðuneytið hefur fallist á, að mun hagkvæmara sé að semja um leigu á nýju kerfi til að minnsta kosti átta ára, að undangengnu útboði að sjálfsögðu, frekar en að breyta gamla kerfinu.

Ráðuneytið og Þjóðskrá Íslands eru sammála um að sú leið hafi minnstan kostnað í för með sér, tryggi góða þjónustu, takmarki áhættu við framleiðsluna og uppfylli um leið öll öryggisskilyrði.

Rétt er að taka fram að mjög miklar kröfur eru gerðar til framleiðslu vegabréfa og íslenska ríkið þarf að hafa greiðan aðgang að vegabréfum til útgáfu sem uppfylla ströngustu skilyrði sem gerð eru á alþjóðavettvangi. Íslensk vegabréf eru verðmæt í ljósi þess að þau veita handhöfum þeirra ekki eingöngu aðild að Íslandi heldur að öllu Schengen-svæðinu svo dæmi sé nefnt. Því þarf að vera mjög erfitt að falsa vegabréfin og þau þurfa að uppfylla öryggiskröfur sem sýnt þykir að muni aukast með árunum.

Ýmsir þættir hafa áhrif á það að hagkvæmara er að semja til átta ára en fimm ára. Þar má t.d. nefna að undirbúningur útboðs tekur um tvö ár og samningskostnaður er mikill. Ef samið yrði til fimm ára yrði að fara að huga að nýju útboði eftir þrjú ár í stað sex ára ef samið yrði til átta ára. Þannig yrði samningskostnaður fyrir íslenska ríkið lægri ef samið yrði til átta ára en fimm ára. Þá er gert ráð fyrir að átta ára samningstími leiði auk þess til hagstæðari samninga og aukins öryggis í aðföngum fyrir íslenska ríkið, þ.e. vegabréfunum sjálfum.

Með frumvarpinu er því lagt til að Alþingi samþykki heimild til handa Þjóðskrá Íslands til að gera samning um þessi vegabréfakerfi til allt að tíu ára. Þar sem líklegast þykir að sömu aðstæður verði fyrir hendi að afloknu samningstímabili er lagt til að samþykkið verði viðvarandi en ekki til bráðabirgða en sett þak á samningstímann, sem sagt tíu ár. Rétt er að geta þess að nú þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að fjármagna samning til átta ára.

Virðulegi forseti. Ég hef reifað helstu atriði frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.



[14:50]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að vegabréf eru afskaplega mikilvæg gögn, ekki bara vegna þess að alþjóðleg glæpasamtök kaupi þau dýru verði heldur líka vegna þess að þetta eru einu persónuskilríkin sem hið opinbera gefur út hér á landi, alla vega þar til frumvarp hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés og fleiri þingmanna um persónuskilríki á vegum hins opinbera verður samþykkt. Látum það liggja á milli hluta. Þess vegna skiptir miklu máli að vandað sé til verka og ég verð að viðurkenna að það fara alltaf viðvörunarbjöllur í gang hjá mér þegar við förum að tala um útvistun verkefna hins opinbera. Hér er verið að tala um að útvista framleiðslu á þessum grunngögnum sem eru einstök hjá íslenska ríkinu. Útvistun verkefna hins opinbera reynist ekki alltaf vera sá happafengur fyrir ríkiskassann sem af er látið þegar lagt er af stað.

Hér er talað um umfangsmiklar fjárfestingar og ráðherra nefndi að nú þegar hefðu verið gerðar ráðstafanir til að fjármagna þetta útboð til átta ára. En það kemur hvergi fram í texta frumvarpsins hver áætlaður kostnaður við innkaup á kerfi í eigu ríkisins væri og ekki heldur hver mögulegur rekstrarkostnaður á leiðinni sem hér er lögð til, útvistun útgáfu vegabréfa, væri. Þetta eru tölur sem ég tel eiginlega nauðsynlegt að við höfum í höndunum ef við eigum að taka upplýsta ákvörðun um það hvort hér sé um mál að ræða sem sé til hagsbóta fyrir ríkissjóð eða ekki, þó að við skoðum bara þann þrönga vinkil á það.



[14:52]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski dálítil einföldun á þessu máli að telja að verði þetta frumvarp að lögum, eða breytt framkvæmd á útgáfu vegabréfa, sé það útvistun á verkefnum. Það er ekki þannig. Það hafa auðvitað verið samningar við fyrirtæki sem gefa út vegabréf og í dag eru það örfá fyrirtæki í heiminum sem hafa sérhæft sig í útgáfu vegabréfa. Eitt þeirra hefur verið okkur á Íslandi innan handar með útgáfu vegabréfa. Þótt kerfið hafi verið til staðar hér á landi, þ.e. prentunin og fleira hér innan lands og útgáfan sjálf í kerfi sem Þjóðskrá hefur átt, þá liggur fyrir að kerfið sjálft þyrfti að taka verulegum tæknilegum breytingum, uppfærslu, ef það ætti að standast tímans tönn. Því hefur það verið metið þannig að heppilegra sé að leigja slíkt útgáfukerfi, en ekki eiga það, af einhverju af þeim örfáu fyrirtækjum á alþjóðavísu sem hafa sérhæft sig í gerð slíkra kerfa. Þetta mál lýtur því bara að mögulegri breytingu á framkvæmd á fyrirkomulagi eða eignarhaldi kerfisins sem slíks. Verkefnið verður eftir sem áður hjá annaðhvort Þjóðskrá eða sýslumönnum. Menn leita nú til sýslumanna um útgáfu vegabréfa en það hefur verið Þjóðskrá sem hefur gefið vegabréfin út.

Ég vil því árétta að það er ekki breyting hvað þetta varðar. Þetta er bara spurning um hvort Þjóðskrá eigi að eiga kerfið eða leigja það.



[14:55]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum svarið þó að ég hafi reyndar ekki heyrt tölurnar sem ég spurði um. Ég spyr þá bara um þær aftur þegar málið kemur til meðferðar í nefndinni til að hafa þessi mál alveg á hreinu. Í dag er kerfið hér á landi, það kom fram í máli ráðherra. Þetta skiptir, að ég tel, máli að tvennu leyti. Annars vegar upp á þjóðaröryggi, við erum að tala hér um grunnpappíra hins íslenska ríkis sem ýmis rök eru fyrir að séu framleiddir hér innan lands. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort áhættan af því að flytja þetta úr landi hafi verið metin.

Hins vegar spyr ég líka hvort útboð á öllu EES-svæðinu gæti leitt til þess að afgreiðsluhraði vegabréfa gæti lengst frá því sem nú er þannig að þjónusta við borgarana skerðist.



[14:56]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er um það að ræða að framleiðslan á vegabréfunum fari úr landi. Hún verður eftir sem áður hjá Þjóðskrá eða annarri opinberri stofnun eftir atvikum, en framleiðslan verður hér. Spurningin er bara um hvort menn vilji kaupa slíkt kerfi. Frá mínum bæjardyrum séð væri það svo sem ekkert óeðlilegt að ríkið legði áherslu á að eiga slík tæki. Ég hef t.d. þá skoðun að ríkið eigi að eiga tilteknar fasteignir sem hýsa grundvallarstoðir þjóðfélagsins fremur en að leigja, í mörgum tilvikum að minnsta kosti. Hér hefur það hins vegar verið metið þannig að kostnaður við að uppfæra þetta kerfi eða kaupa nýtt væri svo miklu meiri en við að leigja það að ekki er talið stætt á öðru en að reyna það til þrautar. Fjárhæðin liggur hins vegar ekki fyrir vegna þess að um útboð yrði að ræða. Það fé sem við höfum kannski reiknað með að fari í þetta — við ætlum ekki að gefa það upp áður en útboðið fer fram, en við vonumst til þess að við fáum hagstætt tilboð eftir þetta útboð og að sem lægst fjárhæð fari í þetta mikilvæga mál.



[14:57]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að halda áfram á sömu nótum og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson og ræða um kostnaðarmat og ástæður þess að nú er verið að standa í þessari breytingu. Ég heyri þau rök hæstv. ráðherra að það sé talið hagstæðara fyrir ríkissjóð, að því er ætla mætti, að þetta fari fram svona, en ég spyr mig hvort hv. allsherjar- og menntamálanefnd verði veittur aðgangur að þessu kostnaðarmati til að hún geti lagt mat á það sjálf hvort hún telji þetta rétt mat hjá ráðuneytinu og hjá Þjóðskrá og þá mögulega undir einhvers konar trúnaði til að trufla ekki umrætt útboð. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra myndi íhuga slíka upplýsingagjöf til þess að hv. þingmenn í allsherjar- og menntamálanefnd geti tekið upplýsta afstöðu gagnvart frumvarpinu og skynsemi þess fyrir fjárhag ríkisins.



[14:59]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að leggja hv. allsherjar- og menntamálanefnd línurnar um hvað hún eigi að spyrja um og hvað ekki. Ég hvet nefndina auðvitað til að fjalla um kostnaðarhliðina. Það er aðalatriði frumvarpsins, kostnaðarhliðin. Það er því ástæðulaust annað en að ræða það sérstaklega. Ekki er ástæða til annars en að veita hv. nefnd nánari upplýsingar um kosti og galla þess í fjárhagslegu tilliti, þ.e. kosti og galla þess að leigja eða kaupa kerfi. Það kann að vera að fyrir liggi tölur sem hægt er að fullyrða út frá hver kostnaður af nýju kerfi er. Kaup á svona kerfi, eða leiga, eru ekki gerð nema að undangenginni töluverðri vinnu og það segir mér að eitthvað er flókið í þessu. Fullyrt er við mig að það taki tvö ár að undirbúa útboð í þessum málum, geti gert það, og að undirbúa samninga um leigu á slíku kerfi. Ef menn ætluðu að kaupa það þyrfti líka að leggja töluverðan kostnað í þarfagreiningu og þar fram eftir götunum. En ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd eindregið til að ræða þetta mál. Þetta er aðalmálið í frumvarpinu.



[15:00]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og mun leggja það til við allsherjar- og menntamálanefnd að hún kynni sér málið í þaula og þá sérstaklega með tilliti til kostnaðargreiningar. Hæstv. ráðherra talar um að þessi lagabreyting muni ekki hafa áhrif á það þjónustustig sem íslenskum ríkisborgurum býðst þegar kemur að vegabréfagerð. En nú spyr ég hvort hæstv. ráðherra sé meðvituð um hvort núverandi fyrirkomulag, með þessu úrelta tæki sem við notumst við núna, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, hafi í för með sér að útgáfa vegabréfa muni úreldast áður en til þessa útboðs kemur. Eða eru einhverjar áhyggjur uppi um að úrelding á þessum tækjabúnaði geti valdið því að þjónustustig við Íslendinga verði lakara eða að vegabréfin okkar verði á einhvern hátt verr á vegi stödd en önnur vegabréf sem njóta betri búnaðar?



[15:01]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held ég treysti mér til að fullyrða að óbreytt kerfi við útgáfu vegabréfa mun ekki uppfylla öryggiskröfur eftir einhver ár. Gerðar eru tilteknar kröfur til vegabréfa, útlits og tæknilegra lausna en vegabréf eru að miklu leyti orðin rafræn. Kerfið sem við eigum í dag ræður ekki við þá útgáfu. Svo kvarta menn gjarnan yfir afgreiðslutíma og ég hef væntingar um að með nýju kerfi væri kannski hægt að stytta enn frekar afgreiðslutíma vegabréfa. Endurnýjun á þessum búnaði lýtur sömu lögmálum og annar tæknilegur tölvubúnaður, það þarf að uppfæra hann. Menn þurfa að bíta í það súra epli að þurfa að uppfæra kerfið eða kaupa sér alfarið nýtt.



[15:02]
Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að spyrja á svipaða leið og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson varðandi þetta fyrirkomulag.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Þjóðskrá Íslands er heimilt að gera samninga um vegabréf og framleiðslukerfi fyrir vegabréf til allt að tíu ára.“

Enn fremur segir í greinargerð, með leyfi forseta:

„… útboð vegna innkaupa á vegabréfum og endurnýjunar framleiðslukerfis fyrir vegabréf.“ — Og svo er farið að tala um leigu á búnaði samhliða þessu útboði.

Mig langar að fá það algjörlega á hreint: Er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að ef útboðið fer á þann veg að besta tilboðið verður um að vegabréf verði framleidd erlendis verði það ekki heimilað, að það sé alveg skýrt að vegabréf verði alltaf framleidd á Íslandi? Þetta er mikið þjóðaröryggismál hjá okkur, svo ekki sé talað um þjónustustigið. Í því samhengi vitum við að svarti markaðurinn fyrir vegabréf er mjög umfangsmikill. Dönsk vegabréf hafa t.d. verið að seljast á svörtum markaði fyrir allt að 4.000 dollara og bandarísk fyrir um 2.000 dollara, spænsk fyrir 1.850 dollara, þetta eru tölur sem ég fann til í fréttaflutningi af þessu. Öryggisþættirnir og allt þetta — þetta verður allt saman að uppfylla helstu nútímaskilyrði, ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra í því, en við verðum að skoða áhættugreininguna gagnvart þeim möguleika að þetta yrði framleitt erlendis ef þetta lagaákvæði gæti skilist á þann veg. Auðvitað viljum við passa upp á öryggið í þessu máli.



[15:04]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil árétta að í núgildandi lögum um vegabréf, nr. 136/1998, kemur fram í 4. mgr. 2. gr. að Þjóðskrá Íslands geti falið öðrum að annast einstök verkefni við framleiðslu og skráningu upplýsinga í vegabréfabók. Það er líka skemmtilegt að minnast á það að í 5. mgr. kemur fram að vegabréf er eign íslenska ríkisins, svo að því sé haldið til haga. Heimildin hefur því verið til staðar og verður eftir sem áður til staðar fyrir Þjóðskrá Íslands að fela öðrum ákveðin hlutverk við útgáfu vegabréfa. Þetta frumvarp lýtur ekki að neinni formbreytingu hvað það varðar. Hér er einungis verið að fá heimild Alþingis til að gera samning til lengri tíma en fimm ára, rétt eins og menn gera til dæmis í fjárlögum, en þar er lagaheimild fyrir ríkið til að gera húsaleigusamninga til lengri tíma en fimm ára.

Það er almenna reglan í íslenskum lögum hvað varðar fjármál ríkisins að stofnanir ríkisins og einstök embætti hafa ekki heimild til að gera samninga til lengri tíma en fimm ára og það á við um hvað sem er. Ekki má gera húsaleigusamning til lengri tíma en fimm ára nema með lagaheimild. Þegar kemur að húsaleigusamningum, ég tek það bara sem dæmi, er algengt að sú lagaheimild sé sett fram í fjárlögum. Hér er hins vegar verið að leggja til að í stað þess að hafa slíka heimild í fjárlögum hvert einasta ár sé það afmarkað í lögum, af því að við búum svo vel að við höfum lög um útgáfu vegabréfa fari best á því að hafa þessa heimild viðvarandi í þeim lögum þannig að hægt sé að bregðast við og fá hagkvæmustu samninga, hvort sem menn ætla að kaupa eða leigja kerfið. Ég vek athygli á því að jafnvel þótt menn ætluðu að kaupa kerfi gætu menn viljað semja um að fá að borga það á lengri tíma en fimm eða sex árum og þá þyrfti líka lagaheimildir til þess.



[15:07]
Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vissi satt að segja ekki af því að þessi heimild væri til staðar í núgildandi lögum og finnst það dálítið áhugavert. Þó svo að sú leið hafi ekki verið farin að úthýsa verkefninu til annarra landa vakna alltaf spurningar um öryggismál við útgáfu skjala af þessari tegund. Eins og ég rakti áðan eru efnahagslegir hvatar til þess að standa í svartamarkaðsútgáfu á vegabréfum með einum eða öðrum hætti töluvert miklir. Ég er algjörlega sammála að öðru leyti, þetta frumvarp er þá hið besta mál. En við ættum kannski að nýta tækifærið, fyrst þessi umræða er komin upp núna, til að reyna að skerpa á reglum um útgáfu vegabréfa til framtíðar. Það er lítil eftirspurn eftir notuðum vegabréfaútgáfuvélum sem eru orðnar úreltar, þannig að ég skil vel af hverju leigunálgunin er sennilega skynsamlegri fyrir ríkissjóð.



[15:08]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get í sjálfu sér alveg haft samúð með því sjónarmiði að menn vilji tryggja grundvallarstoðir ríkisins, hvort sem það eru fasteignir, kerfi til að sinna grundvallarþjónustu eða annað, tryggja að það sé eign íslenska ríkisins og að starfsemin fari fram hér á landi. Þegar kemur að afskaplega sérhæfðum markaði eins og útgáfu vegabréfa eða myntslætti, svo að ég taki dæmi sem er svolítið tengt, þá er það bara þannig að það eru ekki nema örfá fyrirtæki í heiminum sem hafa sérhæft sig á því sviði og við höfum leitað til. Þetta eru fyrirtæki sem sæta gríðarlega miklu gæðaeftirliti og gerðar eru gríðarlega miklar öryggiskröfur til og ég tel að því leyti að hagsmuna íslenska ríkisins og íslenskra ríkisborgara ætti að vera gætt með viðskiptum við þá aðila.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.