146. löggjafarþing — 54. fundur
 4. apríl 2017.
skattar, tollar og gjöld, 1. umræða.
stjfrv., 385. mál (samsköttun félaga, takmörkun á frádrætti vaxtagjalda, leigutekjur o.fl.). — Þskj. 515.

[15:10]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld. Þau er lögð fram öll saman samkvæmt hefð.

1. Leiðréttingar á ákvæðum laga um tekjuskatt og laga um tryggingagjald. Vísun til sjómannaafsláttar verði felld brott í lögum um tekjuskatt í ljósi þess að sjómannaafsláttur var felldur niður frá og með 1. janúar 2014. Þá er í lögum um tekjuskatt að finna vísun til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ákvæðin fjalla um frádrátt vegna iðgjalda launþega og fólks sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem greidd eru til lífeyrissjóða, viðskiptabanka, sparisjóða og verðbréfafyrirtækja og líftryggingafélaga. Lagt er til að tilvísanirnar taki einnig til útibúa erlendra aðila hér á landi.

Að auki er í lögum um tryggingagjald kveðið á um að tekjur af almennu tryggingagjaldi, umfram það hlutfall sem renna skal til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða, renni til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga. Lögð er til sú leiðrétting að við upptalninguna í lögunum verði bætt tölulið sem mælir fyrir um það hlutfall sem Fæðingarorlofssjóður skal fá í sinn hlut af gjaldstofninum. Það sem umfram er rennur þá til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga eins og hingað til. Einnig er lagt til að leiðrétt verði tilvísun til brottfallinna laga.

2. Samsköttun félaga. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæði tekjuskattslaga um samsköttun í kjölfar álits ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, frá 7. apríl 2016, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að íslenskar reglur um samsköttun félaga brytu í bága við EES-samninginn, um staðfesturétt og frjálst flæði fjármagns, með því að leyfa aðeins hérlendum félögum með ótakmarkaða skattskyldu að sækja um og fá heimild til samsköttunar. Samsköttun verði einnig leyfð með hlutafélögum heimilisföstum í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, ásamt föstum starfsstöðvum félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samsköttunin er háð skilyrðum sem m.a. eru að danskri fyrirmynd. Með samsköttun félaga yfir landamæri eykst til muna þörf fyrir einfaldara regluverk. Því er lagt til að ákvæði um tapsfrádrátt verði breytt til einföldunar þar sem mikil brögð hafa verið að því að nýting eldra taps sé með röngum hætti.

3. Takmörkun á frádrætti vaxtagjalda. Breyting á ákvæði tekjuskattslaga fjallar um takmörkun á frádrætti vaxtagjalda. Reglan var lögfest með lögum um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl. og var ætlað að koma í veg fyrir að fjölþjóðlegar fyrirtækjasamstæður gætu dregið úr skattgreiðslum sínum með því að fjármagna félag í einu ríki með láni frá félagi innan samstæðu sem er í öðru ríki ef skatthlutfall þar er lægra. Í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar á frumvarpi því sem varð að áðurnefndum lögum var gerð sú breyting að ákvæðið ætti ekki við í því tilviki að lánveitandi bæri ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Í áliti nefndarinnar kom fram að vandamál sem tengjast þunnri eiginfjármögnun væru eðli málsins samkvæmt hverfandi þegar bæði lántaki og lánveitandi væru skattskyldir hérlendis því að fjárhæð til frádráttar hjá lántaka kæmi þá til skattlagningar hjá lánveitanda. Lagt er til að undantekning þessi verði felld brott þar sem líkur eru á að hún gangi gegn EES-rétti.

4. Útleiga íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis og annars húsnæðis. Þann 1. janúar 2017 voru gerðar breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Einstaklingum var heimilað að starfrækja heimagistingu og leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign gegn skráningu hjá sýslumanni. Í lögunum eru skilyrði að fjöldi útleigðra daga í báðum eignum samanlagt skuli ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignanna skuli ekki nema hærri fjárhæð en kveðið er á um í lögum um virðisaukaskatt, þ.e. 2 millj. kr. á ári.

Í skattframkvæmd hafa komið upp álitamál um hvenær tekjur af sölu einstaklinga á gistingu í formi heimagistingar teljist til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi sem skattlögð er eins og aðrar tekjur einstaklinga af atvinnurekstri, eða hvenær tekjur af slíkri sölu eru skilgreindar sem fjármagnstekjur einstaklinga utan rekstrar. Skýr greinarmunur verði gerður á skattalegri meðferð leigutekna eftir því hvort um er að ræða:

a) útleigu til varanlegrar búsetu leigutaka,

b) heimagistingu samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og

c) aðra útleigu á íbúðarhúsnæði í atvinnuskyni eða sjálfstæðri starfsemi.

Ef um varanlega búsetu leigutaka í íbúðarhúsnæði er að ræða og sérgreindar húseignir eiganda íbúðarhúsnæðis eru ekki fleiri en tvær skuli ávallt gengið út frá því að ekki sé um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi að ræða samkvæmt lögum um tekjuskatt. Skal þá skattleggja umræddar tekjur sem fjármagnstekjur utan rekstrar.

Tekjur vegna heimagistingar eins og hún er skilgreind í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald bera í dag eftir atvikum 20% fjármagnstekjuskatt, þ.e. tekjur af heimagistingu sem ekki er stunduð í atvinnurekstri, eða eru skattlagðar sem tekjur einstaklings af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Kveðið er skýrt á um að tekjur einstaklinga af útleigu í formi heimagistingar teljist ekki til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi ef einstaklingur hefur fengið leyfi fyrir heimagistingu samkvæmt lögunum hjá sýslumanni og uppfylli að öðru leyti þau skilyrði sem gilda um heimagistingu samkvæmt þeim lögum sem og reglugerð þar um. Af því leiðir að með breytingunni verður kveðið skýrt á um að tekjur vegna heimagistingar teljist til fjármagnstekna einstaklinga utan rekstrar og beri 20% fjármagnstekjuskatt, án nokkurs frádráttar frá leigutekjum.

Ef leiga einstaklings á íbúðarhúsnæði telst hvorki vera leiga til varanlegrar búsetu leigutaka né fellur í flokk heimagistingar skal útleigan teljast til hefðbundins atvinnurekstrar og bera skatt samkvæmt því.

5. Undanþága og endurgreiðsla virðisaukaskatts á grundvelli alþjóðasamninga o.fl. Ísland hefur skuldbundið sig á grundvelli ýmissa alþjóðasamninga og tvíhliða samninga til að veita skattundanþágur og undanþágur frá greiðslu aðflutningsgjalda og óbeinna skatta. Þá hefur Ísland jafnframt skuldbundið sig til að veita erlendum liðsafla og borgaralegum deildum slíkra liðsafla samsvarandi undanþágur. Eftir brottför varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli var lögum breytt og heimildin afnumin.

Lagt er til að skýrar verði kveðið á um að alþjóðastofnanir og aðrir hlutaðeigandi aðilar sem flytja til landsins vörur á grundvelli alþjóðasamninga eða eftir atvikum tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að skuli undanþegnar sköttum og aðflutningsgjöldum við innflutning. Þá er lagt til að kveðið verði á um að erlendur liðsafli og borgaralegar deildir hans skuli vera undanþegnar greiðslu skatta og aðflutningsgjalda við innflutning. Jafnframt er brugðist við því að ekki er nú til staðar í lögum heimild til endurgreiðslu skatta og gjalda vegna kaupa þessara aðila á vörum og þjónustu hér á landi.

6. Saknæmi verknaðar við veitingu rangra eða villandi upplýsinga við innflutning eða vanrækslu upplýsingagjafar. Saknæmi brota gegn ákvæðum tollalaga er bundið við að þau hafi verið framin af ásetningi eða gáleysi, nema annað sé tekið fram. Brot gegn ákvæðum 172. gr. tollalaga, sem fjalla um refsiábyrgð og refsingar vegna rangra eða villandi upplýsinga vegna innflutnings vöru, varða hins vegar ekki refsingu nema þau hafi verið framin af ásetningi eða að lágmarki stórfelldu gáleysi. Eru því gerðar strangari kröfur þegar um brot gegn fyrrgreindri grein tollalaga er að ræða en varðandi brot gegn ákvæðum tollalaga almennt. Reynsla tollyfirvalda hefur sýnt að nær ómögulegt er að sýna fram á ásetning eða stórfellt gáleysi brotamanns. Í allnokkrum málum hafa meintir brotamenn verið sýknaðir af broti þrátt fyrir að upplýst hafi verið og jafnvel viðurkennt að réttar upplýsingar hafi ekki verið veittar.

7. Brottfall ákvæðis í tollalögum vegna takmörkunar á útflæði gjaldeyris. Þann 12. mars sl. setti Seðlabanki Íslands nýjar reglur um gjaldeyrismál. Bann í tollalögum við skráningu viðskiptaverðs í íslenskum krónum er þar með orðið marklaust.

8. Grindarbílar. Vörugjald af grindarbílum verði samræmt og það nemi 13%. Árið 2010 var skattalegri meðhöndlun grindarbíla breytt, en niðurstaðan hefur hins vegar komið nokkuð afkáralega út í framkvæmd. Þannig hafa ökutæki sem flutt hafa verið inn ýmist borið 0%, 13% eða upp í 65% vörugjald, allt eftir því hvernig þau líta út við innflutning. Í ljósi niðurstaðna tveggja úrskurða yfirskattanefndar þurfa tollyfirvöld að leggja vandasamt heildarmat á útbúnað slíkra bifreiða við innflutning. Matið er nær óvinnandi í framkvæmd og fer gegn sjónarmiðum um einfalda skattframkvæmd.

9. Leiðréttingar á viðauka XIX við lög um úrvinnslugjald. Að lokum eru lagðar til leiðréttingar á viðauka XIX við lög um úrvinnslugjald. Vegna mistaka féllu niður nokkur tollskrárnúmer sem gera átti grein fyrir í viðaukanum auk þess sem gjöld reyndust ekki nægilega há í nokkrum tilvikum.

Virðulegi forseti. Tillögur frumvarpsins eru af margvíslegum toga og munu ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs samanlagt verði frumvarpið óbreytt að lögum. Áhrif einstakra tillagna eru þó nokkuð mismunandi og er fjallað um það í greinargerð. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.



[15:21]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld. Mig fýsir að fá upplýsingar um nokkur atriði í frumvarpinu. Það fyrsta er hvers vegna ekkert kostnaðarmat fylgir frumvarpinu, sem mér finnst alltaf mikil synd þegar verið er að gera breytingar á frumvarpi er varðar tekjur ríkissjóðs. Ég myndi gjarnan vilja fá að heyra af hverju þetta vantar í frumvarpið. Eins myndi ég gjarnan vilja fá að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra. Eitt af meginefnum frumvarpsins er að hér er lögð til undanþága og endurgreiðsla virðisaukaskatts og annarra skatta og gjalda á grundvelli alþjóðasamninga, tvíhliða samninga eða sérstakra laga þar um. Eftir því sem mér sýnist er það a.m.k. á þremur stöðum í frumvarpinu; breyting á lögum um gistináttaskatt, breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki og breyting á lögum um virðisaukaskatt, þar sem gerðar eru breytingar er varða innflutning á vörum erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þar með talið Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar, herliðs Bandaríkjanna og annarra aðila, einnig varðandi gistináttaskatt og endurgreiðslu á tóbaksgjaldi. Vegna þeirra breytinga sem við sjáum í alþjóðastjórnmálum, og sérfræðingar á því sviði hafa einmitt verið að ræða það og rita að fókuspunkturinn í hernaðaræfingum Atlantshafsbandalagsins muni færast á Norður-Atlantshafið og við þar með þó að engar upplýsingar komi frá utanríkisráðuneytinu þar um, er við því að búast að hér muni umfang hernaðaræfinga verða meira, fleiri muni koma hingað til að gista. Ég velti fyrir mér varðandi þessar æfingar hver ástæðan sé, vegna þess að þetta frumvarp er m.a. samið í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Ég myndi gjarnan vilja fá að vita og fá skýringar frá hæstv. fjármálaráðherra um þau atriði frumvarpsins.



[15:23]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Svarið við fyrri spurningunni um hvers vegna ekki sé kostnaðarmat er að í frumvarpinu er talið að felist nánast engar verulegar kostnaðarbreytingar fyrir ríkissjóð. Það er í raun og veru kostnaðarmatið, að það séu hverfandi breytingar á tekjum og gjöldum ríkissjóðs við þessar breytingar. Þótt þær séu allnokkrar eru þær flestar tæknilegs eðlis og ekki gert ráð fyrir að í þeim felist verulegur kostnaður fyrir ríkissjóð.

Hvað varðar seinni spurninguna, um breytingar á grundvelli alþjóðasamninga, er kannski fyrst og fremst verið að vísa til samninga þar sem gert er ráð fyrir að við séum að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Dæmi um þetta eru að hér hefur verið lið til alþjóðlegra æfinga, t.d. í flugi og annað, þau hafa verið hérna um stuttan tíma og einungis tímabundið þannig að verið er að gera þessar breytingar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga. Það er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að von sé á neitt fleirum hingað eða færri, heldur er einungis verið að gera þessa breytingu miðað við þær skuldbindingar sem við höfum gengist undir.



[15:25]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þrátt fyrir að þær breytingar sem um ræðir í frumvarpinu feli ekki í sér verulegar tekjubreytingar fyrir ríkissjóð hefði ég samt sem áður viljað sjá einhvers konar kostnaðarmat á þeim. Ég tel að það sé alltaf til bóta fyrir okkur þegar við leggjum mat á frumvörp til laga sem snúast um skatta, tolla og gjöld.

Varðandi seinni liðinn myndi ég gjarnan vilja fá að heyra nánari útskýringu frá hæstv. fjármálaráðherra. Höfum við þá ekki hingað til uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar okkar eða hefur eitthvað nýtt gerst varðandi alþjóðlegar skuldbindingar okkar sem veldur því að við tökum inn slíkar breytingar er varða grundvöll alþjóðasamninga og tvíhliða samninga, m.a. vegna erlends liðsafla og borgaralegra deilda Atlantshafsbandalagsins, eða eru forsendurnar breyttar? Við því myndi ég gjarnan vilja fá skýrari svör frá hæstv. fjármálaráðherra.



[15:26]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er góður siður að hafa kostnaðarmat og segja þá að kostnaðurinn sé enginn eða hverfandi ef svo er. Mér finnst þetta ábending sem ég mun reyna að taka tillit til við þau frumvörp sem ég legg fram.

Varðandi hitt atriðið verð ég að játa að ég veit ekki nákvæmlega hvernig þetta hefur verið útfært í raun. Það er kannski ekki eins og borgaraleg lið hafi verið hér á hverjum degi en ég geri ráð fyrir að komið hafi fram ábending um að við stæðum ekki við samninga sem við höfum undirritað. Þarna er verið að bæta úr því. Væntanlega hefur ekki þurft að gera það meðan herlið Bandaríkjamanna var hérna til ársins 2006 en svo voru þau lög felld brott þannig að ekkert ákvæði af því tagi hefur verið í íslenskum lögum síðan. Þannig skil ég þessa breytingu.



[15:28]
Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að fara mjög svipaða leið og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir varðandi spurningar um kostnaðarmat, ekki bara vegna þess að það vantar kostnaðarmatið heldur vegna þess að það er mótsögn í kafla 7 um mat á áhrifum. Það stendur, með leyfi forseta:

„Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs …“

En síðar segir að gera megi ráð fyrir 20–350 millj. kr. endurgreiðslum vörugjalda vegna fyrri álagningar, sem mér þykir frekar breitt bil. Það væri hægt að líta þannig á að ef bilið væri 20–35 milljónir eða 200–350 milljónir væri það innan eðlilegra marka, en þetta er mjög breitt bil. Svo eru nokkrar aðrar áætlanir, m.a. um 40 milljónir vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Samanlagt sé ég að þetta hljóðar upp á allt að 7 kr. af hverjum 10 þús. sem koma í ríkissjóð á hverju ári. Mér þykir það heldur há tala.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvaða hlutfall af þeim tekjum sem koma í ríkissjóð þarf að koma til sögunnar í frumvarpi til þess að frumvarpið teljist þess eðlis að það hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs?

Ég spyr vegna þess að mig langar til það að eiga þær tölur til svo að ég geti í framtíðinni skilið hvernig hæstv. fjármálaráðherra sér allar þær breytingar sem gætu haft áhrif á afkomu ríkisins.



[15:30]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að hér sé hv. þingmaður að vísa til pallbílanna. (Gripið fram í.) Já, en þetta er ákvæðið um pallbílana, tel ég. Því er til að svara að fallið hefur úrskurður um þessa bíla þannig að endurgreiðslurnar eru ekki vegna laganna heldur vegna úrskurðar yfirskattanefndar sem telur að ákvæðin eins og þau hafa verið túlkuð af tollyfirvöldum séu svo óljós að lögð hafi verið of há gjöld á þá sem hér hafa verið að flytja inn slíka bíla eða kaupa þá. Þetta er því ekki afleiðing af frumvarpinu heldur er frumvarpið til þess að bregðast við þeim úrskurðum sem fallið hafa. Ég er sammála því að það er ófært að lög séu svo óskýr að þeir sem eiga að framkvæma þau verði að gera handahófskennt mat. Ég tek undir það með hv. þingmanni að mjög fróðlegt væri að vita hvað talan „verulegur“ eða „umtalsverður“ þýðir. Í gær fengum við skilgreiningu á hvað „dropi í hafið“ þýðir, þannig að það eru ýmis hugtök sem eru skýrð í þingsal og verður gaman að eiga það síðar meir.



[15:31]
Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessi svör en þó langar mig að fá við þeirri spurningu hvert hæstv. fjármálaráðherra þykir hlutfallið vera. Er það 7 af 10 þús.? Er það 1 af 1 þús.? Er það 2 af 1 þús.? Er það 3 af 1 þús.? Er það kannski 5 af hverju hundraði? Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem þurfum að fara með svona mál til úrvinnslu í efnahags- og viðskiptanefnd að við vitum hvað telst verulegt og hvað óverulegt í huga hæstv. fjármálaráðherra.

Ég get í rauninni ekki haft spurninguna skýrari. Í ljósi skorts á greiningu á áhrifum frumvarpsins í eðlilegu töfluformi verðum við að geta ímyndað okkur hvort þetta mun hugsanlega verða í samfellu með öðrum frumvörpum sem gætu haft áhrif á tekjustreymi ríkissjóðs, sem myndu þá samanlagt hafa veruleg eða óverulega áhrif eftir því hver þessi tala er. Er þetta 7 af 10 þús. eða einhver önnur tala?



[15:33]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þingmann svo að honum finnst það óljóst ef talað er um verulegt eða óverulegt og ég get tekið undir það með honum. Ég reyni að forðast slíkar tilvísanir sjálfur eins og ég mögulega get, einmitt vegna þess að það sem einum þykir umtalsvert þykir öðrum ekki frásagnarvert, það sem einum þykir verulegt þykir öðrum ekki neitt o.s.frv. Orðalag af þessu tagi er ekki heppilegt í lagafrumvörpum eða greinargerðum. Ég tek ábendingu hv. þingmanns mjög vel.



[15:34]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þrátt fyrir að ég hafi farið út í þennan eina lið frumvarpsins í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra er ýmislegt annað sem kemur til í frumvarpinu sem er þess virði að ræða. Sumt af því kom fram í máli hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur áðan. En fyrsta atriðið er kannski það að mjög athugavert er að gerð sé undantekning á virðisaukaskatti og gistináttagjaldi fyrir ýmsa aðila, sem ég veit ekki til að sé nein raunveruleg góð ástæða fyrir, fyrir utan það að það stendur í samningum, að þeir fái undanþágu, m.a. herlið Bandaríkjanna. Orðalagið er kannski líka svolítið sláandi. Talað er annars vegar um erlendan liðsafla og hins vegar herlið Bandaríkjanna. Hvers vegna telst þetta tvennt ekki vera það sama?

Í einhverjum skilningi erum við að tala um herafla af einhverju tagi sem tengist samstarfi okkar í Atlantshafsbandalaginu og kannski öðrum borgaralegum deildum, en mér þykir orðalagið mjög varhugavert. Svo er það einnig varhugavert að við séum yfir höfuð að gefa svona undanþágur á virðisaukaskatti annars vegar og svo gistináttagjaldi og öðru í samningum vegna þess að það þýðir, eins og kom fram í máli hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, að þarna erum við hreinlega farin að greiða með þessum herliðum þegar þau hafa viðdvöl hér. Ég man eftir einu tilteknu tilfelli þegar ég átti ferð um Leifsstöð og sá þar herdeild slóvenska hersins sofandi undir stigapalli. Ég veit ekki alveg hvaða erindi hún átti, en ég á ekki von á því að hún hafi borgað gistináttagjald.

Svo maður haldi aðeins áfram með þetta er sagt í greinargerðinni um meginefni frumvarpsins, að ekki sé um efnisbreytingar að ræða varðandi nokkrar leiðréttingar á lögum um tekjuskatt og lögum um tryggingagjald.

Í nánari yfirferð þykir mér þetta einhvern veginn ekki alveg vera nógu skýrt hvað nákvæmlega er ekki verið að breyta efnislega. Yfirferðin í því gæti verið skýrari og ég vona að þetta verði tekið upp hjá nefndinni.

Það er svona eitt og annað, en í rauninni er það kannski fyrst og fremst þetta varðandi alþjóðastofnanirnar sem kemur til. Og, jú, það er reyndar þar sem talað er um, afsakið hægaganginn, herra forseti, ég var í rauninni að merkja hér við í frumvarpinu í flýti. En í kafla 4.6 í greinargerð frumvarpsins er talað um eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í allnokkrum málum hafa meintir brotamenn verið sýknaðir af broti gegn ákvæðum 172. gr. tollalaga þrátt fyrir að upplýst hafi verið og jafnvel viðurkennt að réttar upplýsingar hafi ekki verið veittar.“

Mælt er fyrir því að refsiheimildin verði útvíkkuð og talað um hreint gáleysi frekar en stórfellt gáleysi. Ég velti fyrir mér hvort það að útvíkka refsiheimildir sé endilega sú nálgun sem er best að taka. Refsigleði hefur ekki endilega skilað okkur góðu samfélagi og kannski er hægt að nálgast þetta með öðru móti. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki staður þar sem við gætum kannski skoðað sektir eða eitthvað þess háttar frekar en að vera með einhverjar eiginlegar refsingar.

Það er líka áhugavert í kafla 4.9 að talað er um úrvinnslugjaldið. Nú var ég í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem hæstv. fjármálaráðherra var formaður þegar við fórum í gegnum þetta. Sá hamagangur sem átti sér stað þar var kannski hluti af tilefninu til þess að við lentum í því að gera þau mistök sem rædd eru hér. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvaða tollskrárnúmer það eru sem um ræðir, en ljóst er að þetta er góð áminning um það að við þurfum að vanda mjög vel til verka þegar við erum að vinna hlutina og fara kannski frekar hægar yfir en að gera svona mistök eins og hafa ítrekað komið upp í ýmsum málum núna í vor.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta nema bara til að benda aftur á að mjög mikilvægt er að við höfum raunverulegan skilning á því hvað telst vera teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs og hvað telst ekki vera teljandi áhrif. Nú spurði ég hæstv. fjármálaráðherra tvívegis að því hvað hann teldi vera teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, hvar nákvæmlega þau mörg lægju. Í þessu frumvarpi er talað um allt að 7 kr. af hverjum 10.000 kr. sem koma í ríkissjóð, eða 0,07% af heildartekjum ríkissjóðs. Mér finnst alveg full ástæða til þess að við förum að sjá töluvert betur vandaðri greiningar á kostnaðarþáttum við fjárlög heldur en hér er.

Þetta er flókið frumvarp. Ekki endilega vegna einstakra efnisatriða heldur vegna þess að þetta tekur til svo rosalega margra mismunandi þátta. Það væri áhugavert að skilja betur hvers vegna þetta gátu ekki verið nokkur aðskilin frumvörp sem tækju til sérstakra efnisþátta hvert fyrir sig. Í ljósi strúktúrsins minnir þetta kannski helst á fjárlagabandorm. Það er kannski ekki hefði fyrir því að taka slíkt fyrir að vori. En mun það verða svo að við sjáum á næstu árum að slegnir verði fram einhverjir langir bandormar með alls konar hinum og þessum ákvæðum sem taka til alls, frá tollareglum til refsiákvæða? Það er spurning sem ég vona að við fáum svar við.



[15:41]
Forseti (Jón Þór Ólafsson):

Forseti afsakar vinnubrögð þingmannsins góðfúslega.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.