146. löggjafarþing — 54. fundur
 4. apríl 2017.
vátryggingasamstæður, 1. umræða.
stjfrv., 400. mál. — Þskj. 531.

[16:17]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um vátryggingasamstæður. Með frumvarpinu er lagt til að leidd verði í íslensk lög þau ákvæði um vátryggingasamstæður sem eru í tilskipun 2009/138/EB, svokallaðri Solvency II-tilskipun. Tilskipunin hefur verið tekin upp í EES-samninginn og meginhluti tilskipunarinnar var lögfestur hér á landi með lögum nr. 100/2016 sem samþykkt voru á Alþingi í september sl. ár. Meginmarkmið frumvarpsins er að vernda hagsmuni vátryggingataka og vátryggðra. Verði frumvarpið að lögum verða til staðar ítarlegar reglur um starfsumhverfi vátryggingasamstæðna. Frumvarpið hefur í för með sér að unnt verður að fá betri mynd af fjárhagsstöðu vátryggingasamstæðna þar sem megináherslan verður lögð á eftirlit með fjárhagsstöðunni.

Meginefni frumvarpsins eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er skilgreint hvenær um vátryggingasamstæðu er að ræða sem fellur undir eftirlit samkvæmt frumvarpinu.

Í öðru lagi eru ákvæði um gjaldþol vátryggingasamstæðu sem er metið fyrir samstæðuna í heild. Gjaldþolið skal meta árlega og getur verið gert með staðlaðri aðferð eða svokallaðri valkvæðri aðferð. Síðan eru ítarlegri ákvæði um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með mati á gjaldþoli vátryggingasamstæðu.

Í þriðja lagi eru ákvæði um eftirlit með samþjöppun áhættu innan vátryggingasamstæðu, viðskiptum innan samstæðunnar og stjórnkerfi hennar.

Í fjórða lagi er sérstakur kafli um eftirlit með vátryggingasamstæðum sem starfa í fleiri en einu aðildarríki. Þá skal eitt eftirlitsstjórnvald í þeim ríkjum sem samstæðan starfar í vera eftirlitsstjórnvald samstæðunnar. Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvaldið samhæfir það eftirlitsaðgerðir og hefur vald til ákvarðanatöku í vissum tilvikum. Til viðbótar mynda öll eftirlitsstjórnvöld sem hafa eftirlit með þeim vátryggingafélögum sem eru í vátryggingasamstæðunni samstarfshóp eftirlitsstjórnvalda. Samstarf eftirlitsstjórnvaldanna er mikilvægt svo samræmi sé í eftirliti og ákvörðunum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá eru ákvæði um skyldu til upplýsingaskipta milli eftirlitsstjórnvalda. Verði ágreiningur milli eftirlitsstjórnvalda er unnt að leita til Evrópsku vátrygginga- og lífeyriseftirlitsstofnunarinnar (EIOPA) og/eða Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eftir atvikum. Í frumvarpinu er þannig skapað lagaumhverfi fyrir starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins þegar vátryggingasamstæða starfar í fleiri ríkjum.

Í fimmta lagi eru ákvæði í frumvarpinu um að birta skuli opinberlega skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu vátryggingasamstæðu ásamt skýrslu um uppbyggingu hennar, stjórnkerfi og stjórnarhætti.

Í sjötta og síðasta lagi eru ákvæði um vátryggingasamstæður sem starfa einnig í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þeim tilvikum þarf að ákvarða hvort eftirlit þar sé jafngilt eftirliti í aðildarríkjum ef eftirlitsstjórnvald í því á að geta sinnt eftirliti.

Áhrif frumvarpsins á vátryggingafélög og vátryggingasamstæður hér á landi ættu ekki að verða mikil. Nú þegar starfa vátryggingafélög samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi og ber vátryggingafélögum í vátryggingasamstæðum að fara að þeim reglum. Öll vátryggingafélög hér á landi eru hluti af vátryggingasamstæðu, þ.e. almennu vátryggingafélögin eiga líftryggingafélag sem dótturfélag og frumvarpið er þar af leiðandi mikilvægt þótt þessar vátryggingasamstæður séu einfaldar.

Þetta frumvarp er viðbót við lagaumhverfi á vátryggingamarkaði, þ.e. lög nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, og frumvarpið byggir á sömu hugmyndafræði og þau lög. Lög um vátryggingastarfsemi gilda um hvert það vátryggingafélag sem er hluti af vátryggingasamstæðu.

Að lokum er vert að benda á að íslenska ríkinu bar að lögfesta ákvæði tilskipunar 2009/138/ESB fyrir 1. janúar 2016 og þar sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við það að tilskipunin hafi ekki verið innleidd í íslenskan rétt tel ég mikilvægt að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi.

Virðulegi forseti. Helstu áhrif frumvarpsins, verði það að lögum, eru að styrkja lagaumhverfi á vátryggingamarkaði þar sem sköpuð verður betri lagaumgjörð fyrir starfsemi vátryggingasamstæðna hér á landi. Af frumvarpinu leiðir að hægt verður að fá betri mynd af fjárhagsgrundvelli vátryggingasamstæðu við eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Frumvarpið er þannig til þess fallið að skapa meira traust á fjármálamarkaði. Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga til að styrkja lagaumgjörð og eftirlit á fjármálamarkaði hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.



[16:22]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða frumvarp sem er nýmæli í íslenski löggjöf því að hingað til hafa ekki verið sérstök lög til um vátryggingasamstæður. Það er vel ef verið er að styrkja lagaumhverfi vátryggingafélaga og starfsemi þeirra. En enn á ný er verið að auka og fjölga verkefnum sem leggjast eiga á herðar Fjármálaeftirlitsins. Því langar mig að vita, og þetta er kannski ítrekun á spurningu minni áðan varðandi annað frumvarp sem einmitt leggur meiri skyldur á herðar Fjármálaeftirlitsins, hvernig hæstv. fjármálaráðherra sér fyrir sér eflingu á bæði sjálfstæði og fjárráðum Fjármáaleftirlitsins til að anna þeim verkefnum sem er að finna í þessu frumvarpi sem og í frumvarpinu sem við vorum að ræða áðan.



[16:24]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Því er til að svara að Fjármálaeftirlitið er fjármagnað með gjöldum á eftirlitsskylda aðila. Á hverju ári kemur fram tillaga frá samráðsnefnd Fjármálaeftirlitsins og þessara aðila sem síðan er borin undir Alþingi og lögum samkvæmt og stjórnarskrá, tel ég reyndar vera, verður Alþingi að samþykkja allar fjárveitingar og allar álögur sem lagðar eru á. Ég veit hins vegar ekki til þess að til séu dæmi um að ekki hafi verið fallist á slíka tillögu. Ég á von á því að það verði framhald þar á. Ég hef hins vegar sagt og tel mjög mikilvægt, bæði í þessu tilviki og tilviki annarra eftirlita, að þau sjálf, starfsemi þeirra, séu tekin út reglulega t.d. af alþjóðlegum aðilum, þannig að við vitum að það sé sambærilegt við það sem gerist annars staðar. Ég hef einnig, eins og hv. þingmaður, tekið eftir gagnrýni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Ég held að nauðsynlegt sé að bregðast við því með samræðum við Fjármálaeftirlitið, vegna þess að það er hugsanlegt að verið sé að gagnrýna þætti sem ekki snúa beint að fjármögnun, en að því sem fjármögnun snýr er það atriði sem snýr beint að Alþingi. Ég held að fram til þessa hafi Alþingi sinnt því hlutverki býsna vel.



[16:26]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að heyra að hæstv. fjármálaráðherra hefur tekið eftir og lesið gagnrýni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi Fjármálaeftirlitið og sjálfstæði þess og umfang þegar kemur að því að sinna eftirlitinu sem því ber. Ástæðan fyrir því að ég minntist sérstaklega á fjármögnun til eftirlitsins er sú að það hefur verið einn af gagnrýnipunktunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en einnig spyr ég vegna þess að í samráðsráðherrahópi hæstv. fjármálaráðherra eru núverandi ráðherrar og fyrrverandi þingmenn sem töluðu mikið fyrir því að draga úr fjárveitingum til Fjármálaeftirlitsins á síðasta kjörtímabili. Því er ágætt að fá nánari útskýringar á því, vegna þess að mér heyrðist hæstv. fjármálaráðherra vera að ýja að því að hann vildi fara að skoða nánar hvort þyrfti með einhverjum hætti að koma inn í eflingu eftirlitsins og auk þess sem, eins og ég benti á, við höfum fjallað um tvö lagafrumvörp sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram bara í dag sem fela í sér að Fjármálaeftirlitið þarf að axla meiri skyldur og takast á við viðameiri verkefni en áður.

Ég mundi gjarnan vilja fá að heyra nánari útlistanir á hugmyndum hæstv. fjármálaráðherra um það hvernig hægt sé að styrkja Fjármálaeftirlitið. Með hvaða hætti hann sér hann það fyrir sér? Yrði það sérstök lagabreyting eða auknar fjárveitingar til eftirlitsins eða einhverjar leiðir til þess að auka skilvirkni eftirlitsins þegar kemur að hlutum á borð við fjármálakerfið, þar sem er svo brýnt að eftirlitið virki, sé ekki endilega stærra og umfangsmeira, heldur að það virki?



[16:28]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að ekki er ástæða til þess að vera í eftirliti eftirlitsins vegna heldur skiptir mjög miklu máli að Fjármálaeftirlitið sé með skilvirkt eftirlit eins og aðrar ríkisstofnanir. Ég held að þar sé mikilvægt að við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi, sem ég veit að Fjármálaeftirlitið gerir a.m.k. að miklu leyti en kannski ekki jafn miklu leyti og vert væri. Það truflar mig vissulega að alþjóðastofnanir geri athugasemdir við Fjármálaeftirlitið almennt. Ég held að við verðum öll saman, bæði Fjármálaeftirlitið sjálft og fjármálaráðuneytið, að svo miklu leyti sem það snýr að því, og svo Alþingi, að tryggja að gæði eftirlitsins séu þau að við getum treyst því eins og mögulegt er að Fjármálaeftirlitið geti rækt hlutverk sitt, sem er að stuðla að heiðarlegu og traustu fjármálaumhverfi. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja í því.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.