146. löggjafarþing — 54. fundur
 4. apríl 2017.
Lánasjóður íslenskra námsmanna, 1. umræða.
stjfrv., 392. mál (lánshæfi aðfaranáms). — Þskj. 522.

[16:40]
mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem varðar lánshæfi aðfaranáms. Frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samráði við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Tilefni frumvarpsins er það að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Lánasjóður íslenskra námsmanna – Lánshæfi náms og þróun útlána frá því í júní 2011 kom fram að lánveitingar vegna aðfaranáms fara ekki aðeins í bága við 1. og 2 gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, heldur er einnig brotin jafnræðisregla gagnvart þeim sem leggja stund á framhaldsskólanám til stúdentsprófs. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði lagastoð undir námslán lánasjóðsins til nemenda vegna aðfaranáms hér á landi.

Aðfaranám og viðurkenning þess sem aðstoðarhæft nám hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna gefur ákveðnum hópi einstaklinga aukin tækifæri til að afla sér frekari menntunar. Eitt helsta sjónarmiðið að baki aðstoðarhæfi aðfaranáms er að samsetning nemendahóps í því námi er ólík því sem er í hefðbundnu námi á framhaldsskólastigi. Nemendur eru eldri og koma oftast nær til námsins úr atvinnulífinu. Aðfaranám er skipulagt af háskólum til eins árs og það ásamt starfsreynslu nemanda myndar brú til náms við viðkomandi háskóla. Slíkir nemendur eru yfirleitt virkir á vinnumarkaði og líklegir til að hafa fjárhagslegar skuldbindingar. Þess vegna má telja að umræddir nemendur eigi erfitt með að hætta vinnu og fara í nám sem ekki væri aðstoðarhæft.

Nemendur sem hefja aðfaranám þurfa því að hafa lokið umtalsverðu námi á framhaldsskólastigi eða fengið raunfærnimat sem samtals uppfyllir lágmarksskilyrði til inntöku í viðkomandi háskóla. Aðfaranám er ekki ígildi náms til stúdentsprófs og veitir því að öllu jöfnu ekki rétt til aðgengis að öðrum háskólum en þeim sem skipuleggja viðkomandi aðfaranám.

Það hefur verið eitt af meginhlutverkum Lánasjóðs íslenskra námsmanna að jafna aðgengi og möguleika til aukinnar menntunar óháð efnahag og er trygg lagastoð fyrir veitingu námsaðstoðar til aðfaranáms í samræmi við það hlutverk sjóðsins. Ekki verður nú frekar en verið hefur lagastoð fyrir aðfaranámi við erlenda háskóla, enda er lánshæfi aðfaranáms á Íslandi gert til að mæta ákveðinni þörf hér á landi. Þar sem um er að ræða eins konar undantekningu frá lánshæfi náms á framhaldsskólastigi var ákveðið að ganga ekki lengra en þörf krefur og lána því einungis til aðfaranáms til háskólanáms hér á landi. Gert er ráð fyrir að þeir nemendur sem stunda aðfaranám til háskólanáms erlendis fyrir gildistöku frumvarps þessa og notið hafa fyrirgreiðslu sjóðsins fái tækifæri til að ljúka því námi eftir þeirri framkvæmd sem verið hefur.

Vegna yfirstandandi endurskoðunar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þar sem framtíðarfyrirkomulag um lánshæfi aðafaranámsins verður ákveðið, þykir rétt að setja lagastoð undir lánshæfi aðfaranáms hér á landi, enda hefur Ríkisendurskoðun bent á að skortur sé á lagastoð og Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur gefið út að þeir muni ekki lána í aðfaranám nema með beinum tilmælum frá yfirvöldum.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[16:44]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að loks birtast hér aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að hleypa eldri nemendum inn í framhaldsskólana, sem lokað var á með ákvörðun án umræðu við afgreiðslu fjárlaga í tíð síðustu ríkisstjórnar. Að sama skapi fagna ég því ekki að sú leið sem er valin sé sú að opna á lánveitingar til þess hóps svo að hann geti sótt sér dýrt nám hjá einkaaðilum. Mér hefði þótt það eðlilegri leið og sanngjarnari og réttlátari til að tryggja öllum aðgengi að námi að opna einfaldlega hið opinbera framhaldsskólakerfi með því að fjármagna það þannig að það nái utan um þessa nemendur.

Í greinargerð með frumvarpinu stendur að erfitt sé að spá fyrir um þróun lánveitinga til aðfaranáms. Á síðasta námsári höfðu 240 nemendur leitað til lánasjóðsins eftir lánveitingu. Hvað ætli kosti að fjármagna opinbera kerfið þannig að það geti tekið á móti þeim fjölda? Ég mundi halda að það væri ekkert gríðarlegur kostnaður, sérstaklega þegar við horfum til þess að með því væri samneyslan að létta skuldabagga af þessu fólki sem, ég segi ekki á gamals aldri, eftir 25 ára aldur fer að sækja sér frekari menntun og á þá oft engra annarra kosta völ en að leita í einkaskólana sem hér fá, að tillögu ríkisstjórnarinnar, skotveiðileyfi á þennan hóp, leyfi til þess að lánasjóðurinn hjálpi þessu fólki að skuldsetja sig til að einkaskólar geti fóðrað vasana.

Ég vil spyrja ráðherrann hvort ekki hafi komið til skoðunar í ráðuneytinu að beina athyglinni frekar að hinu opinbera framhaldsskólakerfi, hvort orku okkar og peningum væri ekki betur varið þar.



[16:47]
mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er ástæða þessa sú að skjóta lagastoð undir þá framkvæmd sem hefur verið stunduð í lánasjóðnum án viðhlítandi lagastoðar, þ.e. að fjármagna og veita lán til aðfaranáms við háskóla fyrir þetta fólk. Það er engin nýbreytni í þessu önnur en sú að verið er að bregðast við tilmælum Ríkisendurskoðunar um að lánasjóðurinn megi lána og verði að gera það á grundvelli laga og lagastoðina hefur skort. Þetta hefur ekkert með reglugerðina frá árinu 2008, sem var endurskoðuð árið 2012, að gera sem varðar inntökuskilyrði í framhaldsskóla á Íslandi. Þetta tengist því máli ekki nokkurn skapaðan hlut.

Það sem hv. þingmaður vitnar hér til, varðandi það hvort þetta sé sá hópur sem ekki hafi fengið vist í framhaldsskólum landsins, þá tengist frumvarpið heldur ekki því og þeirri umræðu, því sem stundum hefur verið nefnt 25 ára reglan í umræðunni, hana er í raun hvergi að finna hér. Það er efni í aðra umræðu því að eini áskilnaðurinn þar sem eitthvað er að finna um 25 ára aldursmörk í regluverki ríkisins er í reglugerð frá árinu 2012 og er stafliður g þar sem 25 ára viðmiðið kemur fram.



[16:48]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Engin nýbreytni, segir ráðherrann. Nýbreytnin er sú, frá því að Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu sína árið 2011 og frá því að reglugerð um inntöku í framhaldsskóla var sett, að 2014 ákvað þáverandi hægri stjórn að hætta að borga með þessum nemendum. Ég veit að ráðherranum þykir óþægilegt að kalla þetta 25 ára reglu og segir að það sé ekkert í bókum ríkisins sem heiti 25 ára regla. Köllum það hvað sem við viljum. Reyndin er sú að framhaldsskólarnir hafa þurrkast upp af fólki yfir 25 ára aldri. Það er vegna ákvörðunar við afgreiðslu fjárlaga í tíð fyrri ríkisstjórnar sem hæstv. ráðherra sat í. Það er nýbreytnin og það er þess vegna sem þetta frumvarp talar inn í veruleika sem varð til 2014 á fjárlögum þess árs. Eðlilega tengjum við því þetta tvennt þó að ráðherranum þyki það óþægilegt.



[16:50]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aldrei hef ég kynnst því að hæstv. ráðherra þori ekki að koma upp í síðara andsvar sitt, jafnvel þó að um fullyrðingar hafi verið að ræða. Það sýnir kannski fram á að hæstv. ráðherra er sammála þeim fullyrðingum sem komu fram í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar.

Ég er svo sem sammála meginmarkmiðum frumvarpsins eins og hæstv. ráðherra reifaði þau áðan. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2011 að hér sé í raun verið að brjóta ákveðna jafnræðisreglu og lög um LÍN. En það sem kemur ekki fram í allri þessari greinargerð er hvaða áhrif þetta mun hafa á lánasafn námsmannanna sem taka þessi lán.

Eins og við sjáum hér eru samtals veitt lán 2015–2016 u.þ.b. 1 milljón á mann, miðað við þær tölur sem eru hér, að meðaltali að sjálfsögðu. Við sjáum því að sumir einstaklingar fá töluvert meira og sumir fá töluvert minna. Við sjáum að námsgjöld fyrir veturinn 2016–2017 í Keili – Háskólabrú fyrir fullt nám eru 457.500 kr. á ári. Þetta er töluverður peningur og ég spyr því hvaða áhrif þetta muni hafa á lánasafnið hjá einstaklingunum. Mun þetta ekki gera að verkum að fólk verður talsvert lengur að greiða af námslánunum sínum? Þá er spurningin hvort ekki væri þjóðhagslega hagkvæmara að gera þessu fólki almennilega kleift að sækja það nám sem því hentar í framhaldsskólum, en ekki eins og staðan er núna varðandi 25 ára regluna, sem hæstv. menntamálaráðherra virðist sammála um að sé til staðar.



[16:52]
mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé til að taka umræðu um þessa svokölluðu 25 ára reglu. (Gripið fram í.) Það er mál sem menn klára ekki í stuttum andsvörum, (Gripið fram í.) þetta er bara miklu stærra — virðulegi forseti, er hægt að fá hljóð til að svara fyrirspurn.

(Forseti (NicM): Forseti biður hv. þingmenn að hafa hljóð í salnum.)

Ég sé að þetta er töluvert viðkvæmt fyrir hv. þingmanni en ég býðst til að koma í sérstaka umræðu við hv. þingmann um þessa svokölluðu 25 ára reglu. Það eru engar hömlur á inntöku þessa aldurshóps í framhaldsskólana í dag, svo að ég svari fyrirspurn hv. þingmanns áðan. Þau tilmæli sem voru gefin í tengslum við fjárlög fyrir árið 2015 tengdust fyrst og fremst bóknámi. Það hafa aldrei verið nein skilyrði og reglugerðin sem hér er vitnað til frá árinu 2012 hefur ekkert með verknám að gera eða starfsnám.

Ég hef ekki upplýsingar um áhrif breytingarinnar eða lögfestingar á þessum úthlutunarreglum lánasjóðsins á lánasafn viðkomandi einstaklinga sem heyra þarna undir. Ég vil bara leggja áherslu á að með frumvarpinu er verið að búa til lagastoð undir verklag sem hefur verið tíðkað í mjög mörg ár hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og var talið nauðsynlegt að breyta þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út árið 2011. Mér finnst raunar mjög merkilegt að við þeim athugasemdum skuli ekki hafa verið brugðist fyrr, að skjóta lagastoð undir framkvæmd útlána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það er fyrst og fremst það sem þetta mál gengur út á.



[16:54]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta þykir mér undarlegt svar enda var hér sérstök umræða 8. mars um nákvæmlega þetta efni, sem sagt 25 ára regluna, þannig að þetta er greinilega eitthvað sem við þurfum að ræða frekar. Hins vegar svaraði hæstv. ráðherra einfaldlega ekki spurningu minni varðandi það hvaða áhrif þetta muni hafa á lántakendur. Það er það sem hefur verið gegnumgangandi í umræðunni um LÍN, bæði á síðasta kjörtímabili og þessu kjörtímabili, að þegar farið er í eitthvert samráð ...

Í lið 4 segir, með leyfi forseta:

„Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við Lánasjóð íslenskra námsmanna.“

Það er eins og Lánasjóður íslenskra námsmanna sé eina fyrirbærið sem kemur þessu frumvarpi við. Hvernig stendur á því? Af hverju er ekki haft samráð við háskólana, við stúdentafélögin, við framhaldsskólana og þar fram eftir götunum, út af því að þetta kemur þeim líka við.

Ég gagnrýni það alveg sérstaklega og hef óskað eftir svörum frá hæstv. ráðherra. Hvernig má það vera að samráð hafi ekki verið víðtækara? Ég geri mér grein fyrir því að þarna er bara verið að skjóta undir lagastoðum og þar fram eftir götunum, en við erum að tala um mjög sérhæfða námsbraut fyrir fólk sem er komið í mjög sérhæfðar aðstæður. Það er búið að ljúka töluvert mörgum einingum í framhaldsskólum, þetta er í raun vænlegasti kosturinn fyrir það þar sem óbeint er verið að skerða aðgang 25 ára og eldri að framhaldsskólunum, af því að fjárveitingarnar eru með þeim hætti, og það er bara staðreynd.

Ég verð að spyrja: Af hverju var ekki haft víðtækara samráð? Það er verið að beina námsmönnum á þessa braut, í aðfaranám, það er verið að auglýsa það. Það er verið að markaðssetja þetta nám og það kostar. Það kostar hálfa milljón á ári. Ég verð að spyrja: Hvar eru námsmennirnir? Hvar var samráðið við þá?



[16:56]
mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál og það að grípa þurfi til aðgerða hefur legið fyrir frá árinu 2011, þ.e. í fimm til sex ár. Þar var svo komið að stjórn LÍN taldi sér ekki lengur fært að veita þessi lán nema fyrir þeim væri lagastoð. Það kann vel að vera að ekki sé eftirspurn eftir þessum lánum, þá reynir ekkert á það. En ef til þess kemur þá segir stjórn LÍN við ráðuneytið að það sé algjört skilyrði fyrir því að lán til þessa náms verði veitt áfram að fyrir því séu lagafyrirmæli eða lagaheimildir. Af þeirri einu ástæðu er þetta mál hér borið fram. Þetta er ekkert flóknara en það. Grunnurinn að frumvarpinu liggur fyrst og fremst í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hefur legið fyrir allan þennan tíma og það eru engar duldar meiningar eða nein önnur ætlun á bak við þetta frumvarp en sú að styrkja heimildina fyrir því svo að stjórn lánasjóðsins hafi heimildir til að lána fé til þessa náms ef einhverjir nemendur eða stúdentar sækjast eftir því.



[16:58]
Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað hérna. Ég held að enginn efist um að tilgangur þessarar lagabreytingar sé af hinu góða og til þess að auka kosti ákveðins hóps sem er í námi. Ég fagna því að verið sé að ræða aukið frelsi til náms, í þessu tilfelli er frelsið falið í því að fólk sem hefur lokið umtalsverðu námi í framhaldsskóla getur lokið ígildi stúdentsprófs á einu ári í svokölluðu aðfaranámi, gjarnan kallað Háskólabrú, og fengið námslán til að ljúka slíku námi án tiltölulegra fjármálaáhyggna. Ég segi tiltölulegra af því að ég veit, og ég vona að flestir hér inni viti það líka, að framfærsluviðmið LÍN eru skammarleg, svo að ég orði það pent.

Í greinargerð með frumvarpinu segir um þetta, með leyfi forseta:

„… samsetning nemendahóps í því námi er ólík því sem er í hefðbundnu námi á framhaldsskólastigi.“

Það er ekki reynsla þess hv. þingmanns sem hér stendur, sem tók stúdentspróf í fjölbrautaskóla, þar sem breitt aldursbil, uppruni og staða nemenda var einmitt sterka hlið skólans. Þessi breiði hópur gerir það að verkum að sjóndeildarhringur allra sem þar stunda nám víkkar og gagnrýnin hugsun eykst. Fjölbreytni innan þessara hópa þroskar vitund og eykur umburðarlyndi. Það er einfaldlega ekki rétt að breitt aldursbil innan framhaldsskóla hafi neikvæð áhrif, líkt og gefið er í skyn í greinargerð frumvarpsins.

Enn fremur segir í greinargerð að þessi lagabreyting muni gefa ákveðnum hópi einstaklinga, og ég legg áherslu á ákveðnum hópi, aukin tækifæri. Hér eru nefnilega lykilorðin „ákveðnum hópi einstaklinga“. Mér verður óneitanlega hugsað til hins tíðrædda frelsis sem þessi ríkisstjórn virðist halda mikið upp á. Hvar er frelsið í því að gera framhaldsskólum ekki kleift að taka inn nemendur eldri en 25 ára? Hvar er frelsið í því að snúa upp á hendur fólks þannig að það hafi engan annan kost en að klára framhaldsskólanám í Háskólabrú, sem er ígildi stúdentsprófs en samt ekki.

Enn um ákveðinn hóp einstaklinga, með leyfi forseta, en í greinargerðinni stendur einnig:

„Nemendur sem hefja aðfaranám þurfa því að hafa lokið umtalsverðu námi á framhaldsskólastigi …“ — þ.e. til að geta talist gjaldgengir í hið fyrrnefnda.

Augsýnilega þyrfti það umtalsverða nám að hafa átt sér stað fyrir 25 ára aldur. Nú veit ég ekki með hæstv. menntamálaráðherra en ég sé fyrir mér ansi marga einstaklinga sem munu þarna lenda mitt á milli, einmitt sá hópur sem fellur ekki undir hinn útvalda og ákveðna hóp sem þessi lagabreyting miðar að.

Enn höldum við áfram:

„Að loknu aðaranámi mun einstaklingur hafa kost á því að stunda háskólanám við þann skóla sem aðfaranámi var lokið við. Að jafnaði er ekki í boði að stunda háskólanám við aðra skólastofnun.“

Það er að mínu mati helsti galli aðfaranáms eða Háskólabrúar af því að valið um háskólanám skerðist. Frelsi til að skipta um skoðun skerðist. Gert er ráð fyrir því að allir einstaklingar innan þessa ákveðna hóps muni alfarið hafa gert upp hug sinn og að ómögulegt sé að upp komi aðstæður sem reyndar koma mjög gjarnan upp í þroskaferli nemenda sem eru í háskóla, einmitt það að skipta um skoðun. Það er miklvægt að hafa það frelsi að skipta um skoðun. Ef slíkt kæmi upp er neminn í vandræðum. Mikið væri gott ef nemandinn hefði fengið tækifæri og frelsi til að ljúka námi sínu í framhaldsskóla og taka próf til stúdents sem væri gjaldgengt í alla háskóla. En það er víst einungis fyrir þá sem ganga hina beinu og réttu braut normsins.

Enn fremur um frelsi. Samkvæmt frumvarpinu verður lánveitingum til nemenda sem vilja taka aðfaranám í erlendum háskólum hætt. Það er nú allt frelsið sem þetta frumvarp boðar. Falskt frelsi sem hentar þessari ríkisstjórn og ákveðnum hópum sem þóknast henni, ekki öllum hópum, ekki fjölbreytileikanum og ekki öllum einstaklingum. Satt að segja hef ég illan bifur á þeim breytingum sem eiga sér stað í menntakerfinu okkar. Tilfinning mín er sú að verið sé að víkka vettvang einkavæðingar í menntakerfinu, líkt og hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir reifaði áðan.

Hverra hagsmunir eru það, virðulegi forseti? Hverra hagsmuna er raunverulega verið að gæta með því að setja reglugerð um að framhaldsskólar fái ekki greitt með nemendum í bóknámi eldri en 25 ára? Og svo er það lagabreyting sem eykur kosti ákveðinna hópa en skerðir frelsi heildarinnar til raunverulegs vals um menntun sína.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.