146. löggjafarþing — 54. fundur
 4. apríl 2017.
umgengni um nytjastofna sjávar og Fiskistofa, 1. umræða.
stjfrv., 412. mál (eftirlit með vigtunarleyfishöfum). — Þskj. 544.

[17:04]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum um Fiskistofu, þ.e. eftirlit með vigtunarleyfishöfum. Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en með því er lagt til að lögfestar verði reglur um aukið eftirlit með vigtunarleyfishöfum. Rétt aflaskráning er ásamt ábyrgri fiskveiðistjórn mikilvægasta stoðin í fiskveiðistjórnarkerfinu. Löndun afla fram hjá vigt eða röng vigtun er eitt alvarlegasta brot sem um er að ræða að mínu mati í kerfinu. Einstakar útgerðir og fiskiskip hafa takmarkaðar aflaheimildir og ræðst það af skráningu í aflaskráningarkerfi Fiskistofu hversu mikið er dregið af aflamarki skips eftir tegundum við hverja löndun. Þá eru niðurstöður skráningarinnar einnig notaðar sem grunnur í vísindalega ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna eins og hún heitir fullu nafni núna, og því mikið í húfi að afli sé rétt skráður. Þetta snýst líka um traust á kerfinu þannig að allir sem koma að því, sjómenn, útgerðarmenn, fiskvinnslufólk og aðrir, viti um hvað málið snýst þegar afla er landað. Traust vottunarfyrirtækja á íslensku fiskveiðistjórnarkerfi þarf að vera skýrt.

Samkvæmt núgildandi reglum er heimilt að ljúka vigtun á hafnarvog með 3% ísfrádrætti ef ís er í aflanum. Niðurstaðan er síðan skráð í aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Hafi viðkomandi fiskvinnsla eða fiskmarkaður hins vegar endurvigtunarleyfi skal vigta afla á hafnarvog með ís og síðan má flytja aflann til endurvigtunar, eins og við vitum, í húsnæði fiskvinnslu eða í húsnæði fiskmarkaðar sem fengið hefur leyfi til endurvigtunar afla. Við endurvigtun er ísinn skilinn frá afla og þyngd fisksins fundin. Vigtunarleyfishafarnir eru 121, þeir eru 102 með endurvigtunarleyfi, 16 með heimavigtunarleyfi og þrjú vigtunarleyfi eru hjá sjálfstæðum aðilum sem hafa heimild til að annast vigtun á afla við löndun í umboði og á ábyrgð viðkomandi hafnaryfirvalda. Leyfishafar eru fiskvinnslur og fiskmarkaðir. Um 45% af heildarafla eru endurvigtuð á hverju fiskveiðiári.

Fiskistofa hefur staðfest að í einhverjum tilvikum komi í ljós lægra íshlutfall þegar staðið er yfir endurvigtun en þegar ekkert opinbert eftirlit er viðhaft. Þannig er fyllilega rökstuddur grunur um að aflamagn sé í þessum tilvikum skráð minna en það síðan raunverulega er. Nauðsynlegt er því að styrkja heimildir Fiskistofu til að hafa virkara eftirlit með vigtunarleyfishöfum þegar rökstuddur grunur er um ranga skráningu íshlutfalls.

Markmið frumvarpsins er að tryggja betri og nákvæmari skráningu í aflaskráningarkerfi Fiskistofu með því að styrkja heimildir Fiskistofu til að hafa eftirlit með vigtunarleyfishöfum þegar þessi rökstuddi grunur um ranga skráningu á íshlutfalli í afla skips er til staðar.

Til að ná fram því markmiði er því lagt til að Fiskistofa skuli auka eftirlit sitt hjá vigtunarleyfishafa ef í ljós kemur við eftirlit að verulegt frávik er á íshlutfalli í afla skips í viðkomandi fisktegund miðað við meðaltal íshlutfalls skipsins í fyrri löndunum. Komi til aukins eftirlits Fiskistofu ber vigtunarleyfishafinn þann kostnað sem af þessu hlýst. Þannig mun aukið eftirlit eingöngu verða hjá þeim sem eru með veruleg frávik í íshlutfalli og munu þeir bera kostnað þess eftirlits. Þeir sem hafa hlutina í lagi, sem eru langflestir, þurfa því ekki að óttast þessar aðgerðir og þetta eftirlit. Slík regla hefur engu að síður varnaðaráhrif og eykur þannig á vandvirkni við vigtun og skráningu sjávarafla. Ég vil ítreka að hér er mikið í húfi, trúverðugleiki íslensks fiskveiðistjórnarkerfis, þannig að við vitum hvað raunverulega kemur að landi þannig að m.a. Hafró geti sett fram sína ráðgjöf með allan grunn á hreinu.

Hið aukna eftirlit felst einnig í því að Fiskistofa notar upplýsingar um fyrri landanir sem skráðar eru þegar opinbert eftirlit er ekki viðhaft. Er þetta nýmæli og verður að teljast mikilvægt skref í að auka traust á endurvigtun.

Einnig er lagt til að ef ítrekað kemur í ljós verulegt frávik á íshlutfalli í afla skips í tiltekinni fisktegund miðað við meðaltal íshlutfalls skips í fyrri löndunum skal Fiskistofa afturkalla vigtunarleyfið í allt að eitt ár. Afturköllun á vigtunarleyfi er eðlileg aðgerð í ljósi þess trausts sem stjórnvöld veita vigtunarleyfishöfum og mikilvægis réttrar aflaskráningar.

Að lokum er lagt til að bætt verði við lið í gjaldskrárheimild í 5. gr. laga um Fiskistofu til þess að heimild Fiskistofu til gjaldtöku vegna aukins eftirlits verði algjörlega ótvíræð. Í ljósi þess hversu mikilvægu hlutverki í fiskveiðistjórnarkerfinu vigtunarleyfi gegna og hafa og þess trausts sem stjórnvöld sýna er nauðsynlegt að unnt sé að hafa skilvirkt eftirlit með þeim aðilum sem rökstuddur grunur er á að séu að skrá meira íshlutfall í afla en í rauninni er.

Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirra sem fylgir með frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni frumvarpsins í heild sinni.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.



[17:10]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta yfirferð. Mig langar að spyrja nánar út í tvö atriði hér. Í 2. gr. kemur fram að ef ítrekað eru veruleg frávik á íshlutfalli í afla skips sem landar hjá vigtunarleyfishafa skal Fiskistofa afturkalla vigtunarleyfið. Það kemur ekki fram í greinargerðinni hvað átt er við með verulegu fráviki í íshlutfalli og mér finnst pínulítið loðið hvað þetta þýðir, hvað þurfi í raun að gera til að missa vigtunarleyfið. Mig langaði líka að spyrja nánar út í það hvað gerist ef menn eru einu sinni búnir að missa vigtunarleyfið. Er eitthvert ferli sem hægt er að fara í gegnum ef menn bæta sig til að fá leyfið aftur?

Mér sýnist hæstv. ráðherra tímabundinn og ætla að skjóta hinni spurningunni minni inn. Þá þarf ég kannski ekkert að fara í annað andsvar. Mig langar að spyrja aðeins um kostnað við þetta, almennt við Fiskistofu, málefni hennar hafa verið töluvert í umræðu núna og hæstv. ráðherra hefur talað um að hún telji að flutningur Fiskistofu hafi ekki verið til góðs. Hér er talað um árlegan áætlaðan kostnað vegna upplýsingakerfis og sérfræðings um 6 millj. kr. og 1,2 millj. kr. stofnkostnað. Ég held að það sé ekki allt of rúmt um fjárhaginn hjá Fiskistofu og miðað við þær aðstæður sem stofnunin er í akkúrat núna, verandi á tveimur á stöðum, þá finnst mér þetta dálítið ódýrir sérfræðingar. Ef hann á að rúmast innan útgjaldarammans málefnasviðsins, eins og segir í fjármálaáætluninni og við hljótum að ræða það þegar kemur að henni, telur ráðherra að almennt þurfi meiri kostnað? Hún þarf ekki að svara mér varðandi þá tölu sem ég þuldi upp.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er þetta mjög mikilvægur málaflokkur og orðsporið er undir. Telur hún að almennt þurfi að veita meiri fjármuni til Fiskistofu?



[17:13]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil undirstrika að þetta eru að vissu leyti íþyngjandi aðgerðir þannig að menn verða að gæta meðalhófs. Engu að síður, eins og hv. þingmaður kom inn á í lokin, er svo mikið undir. Trúverðugleiki fiskveiðistjórnarkerfisins okkar er undir og þá verða allir aðilar sem eru innan kerfisins að bera sig rétt að og skila réttum upplýsingum, til að við getum byggt áfram á því sem er lykillinn í okkar kerfi og er stolt okkar út á við, þ.e. sjálfbær nýting byggð á grunni vísindalegrar ráðgjafar. Þess vegna skiptir þetta svo miklu máli og það eru ítrekaðar vísbendingar til staðar. Ég er almennt ekki hrifin af mjög íþyngjandi eftirliti og þetta er að hluta til íþyngjandi. Af hverju er það? Af því að Fiskistofa hefur trekk í trekk fengið mjög sterkar vísbendingar um að ákveðnar útgerðir, þeir sem landa, fari ekki nákvæmlega eftir þeim lögum og reglum sem við höfum sett. Þess vegna þurfum við að styrkja eftirlitið. Ég vil líka undirstrika að sjómenn hafa ítrekað bent á þetta, það kom upp í sjómannaverkfallinu. Þetta er bara upp á að tryggja trúverðugleika, að verið sé að gera þetta rétt.

Kostnaðurinn, svo að ég fari aðeins út í hann, er náttúrlega greiddur af þeim sem sinna eftirlitinu, þ.e. af þeim sem eru undir eftirliti. Þeir munu greiða kostnaðinn sem af þessu hlýst og ég held að það verði til þess að menn vandi sig. Þetta leiðir til vandaðri vinnubragða við löndun afla. Varðandi fjármuni til Fiskistofu — hv. þingmaður er aðeins að kveikja í mér — þá verð ég hér á fimmtudaginn kl. 17.00 og þá mun ég fara yfir fjármuni til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, bæði til Fiskistofu og Matvælastofnunar en ekki síst til Hafrannsóknastofnunar, sem er grundvallarrannsóknastofnun okkar innan fiskveiðistjórnarkerfisins, byggir upp þann grunn sem við höfum gert sterkan og þar verðum við að vanda okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)



[17:15]
Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef lítinn skilning á ætlun löggjafans í þessum efnum. Hér segir í greinargerð að alvarlegasta brotið í kerfinu sé röng skráning afla eða undanskot. Tekið er síðan fram að útilokað sé að hafa eftirlit með allri endurvigtun og jafnframt að þetta byggist allt á trausti.

Forseti. Þetta traust er löngu horfið og hjákátlegt að ætla að byggja upp með tveimur starfsmönnum og hugsanlega, mögulega einhverjum aðgerðum þeirra. Samkvæmt greinargerð hefur Fiskistofa staðfest að í vissum tilvikum komi í ljós að lægra íshlutfall er til staðar yfir endurvigtun en síðan þegar ekkert eftirlit er haft er rökstuddur grunur um að aflamagn sé skráð minna en það raunverulega er. Lögin eins og þau standa núna gera ráð fyrir því að fiskvinnslur og fiskmarkaðir hafi leyfi til að endurvigta afla, aðilar sem hafa beina hagsmuni af því að skráning sé ekki til fyrirmyndar.

Virðulegi forseti. Við höfum allt sem við þurfum til að taka á þessu vandamáli með auknu rafrænu eftirliti og með lagasetningu. Ef við festum í lög 3% ísprósentu bindum við samhliða enda á endurvigtunarleyfi fiskvinnslu og fiskmarkaða. Meira þarf ekki til. Með því leysir frjáls markaður vandamálið sem er til staðar og það er óvefengjanlegt með rökstuddum grun. Með því að há ísprósenta sé til staðar í afla fram yfir þau lögbundnu 3% sem ég tala fyrir missir þessi aðili viðskipti vegna þess að enginn sem ætlar sér fiskvinnslu er til í að borga 300 kr. fyrir kíló af ís.

Jafnframt hefur enginn sem stundar fiskvinnslu áhuga á því að fá fisk sem er ókældur þannig að sá sem veiðir fiskinn hefur bæði hagsmuni af því að ísa hann nægilega mikið og nægilega lítið samtímis. Síðan er hægt að ísa fiskinn að vild fyrir flutning og aðra þætti virðiskeðjunnar. Ef raunverulegur áhugi er á því að binda enda á framhjálandanir ættum við að staðla kör, fara fram á að þau séu merkt með örflögum og þau vigtuð með reglubundnum hætti og raunvigt skráð á örflöguna. Rafræn vöktun á hafnarvigt er síðan um að draga vigt karanna frá heildarþyngd fisks.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir á hafnarvog er að það er mikil skekkja í mælingum í vigt íláta þar sem vigt íláta er sirkuð út. Þetta er eitthvað sem er tæknivæðingunni auðvelt viðfangsefni og þar sem við getum fylgst með vöru og framleiðslu alla leið til neytenda, allt ferðalagið, hljótum við að geta beitt sömu tækni við þetta viðfangsefni.

Í 3. lið greinargerðarinnar, meginefni frumvarpsins, stendur að efni frumvarpsins sé eftirlit með vigtunarleyfishöfum. Jafnframt er talið að ekki sé hægt að hafa eftirlitið fullnægjandi, m.a. vegna kostnaðar.

Í 5. lið greinargerðarinnar er talað um að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, sem er samruni Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka fiskvinnslustöðva, hafi talið að með frumvarpinu værum við að færa Fiskistofu of mikið vald á hendur á meðan Landssamband smábátaeigenda og síðan samtök sjómanna töldu málið til mikilla bóta.

Virðulegi forseti. Ég tel engin rök fyrir því að halda kerfinu eins og það er í dag. Ég tel að lausn fælist í því að fastsetja ísprósentu til þriggja ára og fjarlægja endurvigtunarleyfin um sömu hríð. Við getum fengið út nokkuð raunsanna mynd af endurvigtuninni. Með því að mæla útfluttan fisk samhliða og síðan það sem við tökum úr sjó getum við með nokkurri vissu séð hve mikil áhrif þetta hefur á undanskot með vísan til þess að þessi tölulegu gögn liggja fyrir til margra ára aftur í tímann. Í frumvarpinu eins og það er uppsett í dag ætlar löggjafinn með eftirliti í mýflugumynd að stöðva vandamál sem grefur undan trúverðugleika fiskveiðistjórnarkerfisins. Ég spyr því miðað við uppsett frumvarp, eins og það er í dag: Væri ekki hægur leikur, fyrst eftirlitið er af skornum skammti, fyrir alla aðila máls að hugsanlega auka við undanskotin vitandi það að aðeins 1,6% þeirra væru undir eftirliti á hverjum tíma?



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.