146. löggjafarþing — 54. fundur
 4. apríl 2017.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, 1. umræða.
stjfrv., 411. mál (hlutverk, framlag ríkissjóðs o.fl.). — Þskj. 542.

[17:27]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Tilgangur frumvarpsins er að breyta gildissviði laganna og framkvæmdasjóðsins þannig að framkvæmdir á vegum ríkisaðila falli utan laganna, enda er gert ráð fyrir að slíkar framkvæmdir verði fjármagnaðar á grundvelli laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Landsáætlunin er fjármögnuð beint úr ríkissjóði og eðlilegt að framkvæmdir á vegum ríkisins séu fjármagnaðar með þeim hætti fremur en að stofnanir ríkisins sæki um styrki í samkeppnissjóð líkt og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er.

Með þessum breytingum má ná fram bættri skipulagningu framkvæmda, betri forgangsröðun og markvissari heildarsýn um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum samkvæmt heildstæðri áætlun sem síður er mögulegt þegar ríkisaðilar þurfa að sækja um í framkvæmdasjóðinn. Markmiðið er þá sömuleiðis að auka skilvirkni sjóðsins.

Af þessum breytingum leiðir að það verða aðeins sveitarfélög og einkaaðilar sem munu sækja um styrki í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Gert er ráð fyrir því að stærri framkvæmdir sveitarfélaga sem kalla á umtalsverðar upphæðir muni verða fjármagnaðar og framkvæmdar á grundvelli landsáætlunar.

Samhliða er rýmkað fyrir umsóknir um styrki til einkaaðila þannig að nú muni þeir einnig geta sótt um styrki fyrir almennri uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum en samkvæmt gildandi lögum geta þeir aðeins sótt um vegna öryggisframkvæmda eða aðgerða í þágu náttúruverndar. Gert er ráð fyrir því að þessi breyting hafi jákvæð áhrif á landeigendur og aðra umsjónaraðila lands sem hingað til hefur reynst erfitt að sækja sér fjármagn til nauðsynlegrar innviðauppbyggingar á ferðamannastöðum í eigu einkaaðila.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ferðamannastaðir sem hljóta styrki úr framkvæmdasjóðnum skuli vera opnir gjaldfrjálsri umferð almennings. Með ákvæðinu er tryggt að aðilar geti ekki tekið aðgangsgjald inn á svæði sem styrkt hafa verið úr sjóðnum. Hins vegar munu aðilar geta tekið eðlilegt þjónustugjald til að standa straum af rekstri viðkomandi innviða, t.d. bílastæðagjald vegna viðhalds og rekstrarkostnaðar bílastæðis sem styrkt hefur verið. Hliðstætt ákvæði er í lögum um landsáætlun um uppbyggingu innviða.

Í gildandi starfsreglum stjórnar sjóðsins er gert ráð fyrir að aðilar þurfi að leggja fram 20% mótframlag og var krafan um mótframlag lækkuð á árinu 2016 úr 50% í 20%. Hafði það sýnt sig að mörg minni sveitarfélög áttu í erfiðleikum með að fjármagna mótframlagið. Við þessar breytingar á gildissviði sjóðsins verður það skoðað í framhaldinu hvert sé hæfilegt hlutfall mótframlagsins.

Aðrar breytingar frumvarpsins fela í sér fækkun stjórnarmanna sjóðsins úr fjórum í þrjá, en almennt fer betur á að fjöldi stjórnarmanna sé oddatala. Lagt er til að mörkun tekna sem nemur 3/5 hluta gistináttaskattsins falli brott. Þær tekjur hafa engan veginn staðið undir sjóðnum undanfarin ár og Alþingi hefur því þurft að leggja sjóðnum til meira fé á fjárlögum hvers árs. Með þessari breytingu verður sjóðurinn alfarið fjármagnaður með ákvörðun Alþingis á fjárlögum hverju sinni. Þá er lögð til breyting í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar um að skýrt skuli vera hvernig fjármagna eigi rekstur sjóðsins og er í frumvarpinu lagt til að reksturinn greiðist af fjárheimildum sjóðsins.

Þá er að lokum lögð til orðalagsbreyting á 2. mgr. 4. gr. laganna þannig að úthluta skuli úr sjóðnum að lágmarki einu sinni á ári. Í því felst að heimilt er að úthluta oftar ef þörf krefur.

Ég legg áherslu á að eftir sem áður verður það eitt af hlutverkum sjóðsins að stuðla að uppbyggingu sem er til þess fallin að fjölga viðkomustöðum ferðafólks sem eykur dreifingu ferðamanna um landið og dregur úr álagi á öðrum stöðum. Þetta hlutverk er mjög í anda þeirrar stefnu sem fram kemur í Vegvísi um ferðaþjónustu og styður vel við mörg markmið í þeirri stefnu. Sjóðurinn hefur ekki getað sinnt þessum þætti af miklum krafti til þessa, enda hefur áríðandi og aðkallandi uppbygging á fjölsóttustu stöðum verið framarlega á forgangslista og það með réttu. Þess er að vænta að með nýrri verkaskiptingu sem m.a. endurspeglast í þessu frumvarpi verði þetta hlutverk veigameira en áður í starfsemi sjóðsins. Það er eins og áður segir mjög í anda þeirrar stefnumörkunar sem unnið er eftir. Verði frumvarpið að lögum nú á vorþingi stendur vilji minn til þess að auglýst verði eftir umsóknum á grundvelli nýrra reglna áður en langt um líður, þ.e. mun fyrr en verið hefur. Sveitarfélög og einstaklingar hafa þá betra svigrúm til að vinna umsóknir sínar og það getur legið fyrir með góðum fyrirvara hvert styrkirnir fara til framkvæmdar á næsta ári.

Að umræðu lokinni legg ég til að málið gangi til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.



[17:32]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta yfirferð. Ég get ekki staðist mátið að þýfga hann um ákveðin svör, það kitlar egóið að geta verið með ráðherra hér á kantinum að svara spurningum sem manni detta í hug. Mig langar að spyrja í fyrra andsvari mínu aðeins út í fjármálin. Hæstv. ráðherra kom inn á það í máli sínu, eins og kemur fram í greinargerðinni, að þessir þrír fimmtu hlutar gistináttaskatts sem hingað til hafa runnið inn í sjóðinn muni ekki gera það heldur fari þetta inn á fjárlög og inn í fjármálaáætlun, í drög að henni. Það er gert ráð fyrir 776 millj. kr. á ári næstu fimm árin. Svo segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir því að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð svo að nokkru nemi.“

Ég hélt að þetta frumvarp, sem er að mörgu leyti gott og ég lýsi mig hrifinn af mörgu í efni þess, gengi út á það að staðir í opinberri myndu sjálfir fara inn á fjárlög, er það ekki? Þeir voru áður að keppa um akkúrat þessa summu hér inni en fari þá inn á fjárlögin, ekki satt? Við horfum þá í raun og veru á tvö kerfi fjárveitinga til uppbyggingar á ferðamannastöðum í staðinn fyrir eitt.

Þýðir það ekki í raun útgjaldaaukningu? Sem er vel, ég er ekki að kvarta yfir því ef það á að setja aukna fjármuni í þessi mál. Satt að segja varð ég fyrir hálfgerðum vonbrigðum þegar ég las þessa setningu í greinargerðinni um að breytingin myndi ekki hafa í för með sér aukin útgjöld. Kannski þá að sömu fjármunir fari til sjóðsins en svo fari til uppbyggingar ferðamannastaða í eigu hins opinbera á öðrum stað í fjármálakerfinu aðrar upphæðir. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort þetta þýði ekki vonandi (Forseti hringir.) að það verði auknir fjármunir í uppbygginguna.



[17:34]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta þýðir að við erum að leggja til að gefið verið í í uppbyggingu ferðamannastaða heilt yfir. Þessi breyting felur í sér að við erum að reyna að auka skilvirkni og koma í veg fyrir það flækjustig að stofnun á fjárlögum í einu ráðuneyti sé að sækja um í samkeppnissjóð sem er líka á fjárlögum í öðru ráðuneyti. Það er verið að útdeila þessum styrkjum heldur seint fyrir hvert sumar, svo er það bundið til eins árs í senn en ekki yfir árið.

Við erum með landsáætlun sem er þetta nýja fyrirbæri og er mjög gott plagg og mikil og góð vinna þar unnin. Það er mjög gott að það sé komin heildarsýn yfir uppbyggingarþörf á ferðamannastöðum yfir landið. Framkvæmdasjóðurinn er síðan samkeppnissjóður sem fær aðeins breytt hlutverk. Ríkissvæðin eru alveg tekin út og sett inn í umhverfisráðuneytið. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er þá fyrir sveitarfélög og einkaaðila og hlutverkið svolítið útvíkkað þannig að einkaaðilar t.d. fá styrk ekki eingöngu vegna þess að verkefnið snýr að öryggi eða náttúru heldur geta þeir líka fengið styrk til að stuðla að því markmiði stjórnvalda að dreifa ferðamönnum um landið, koma upp einhverjum seglum um landið eða hvað svo sem annað það er.

Við erum að setja fjármuni í landsáætlun og sömuleiðis aukna fjármuni í framkvæmdasjóðinn. Þetta saman þýðir töluvert aukna fjármuni í uppbyggingu ferðamannastaða.



[17:36]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig, það er gott að heyra að ég skildi það rétt af því að það segir í greinargerðinni, ég vona að ég sé ekki að fara út fyrir efni þessa frumvarps, með leyfi forseta:

„Ef frumvarpið verður að lögum þarf að fjármagna framkvæmdir á ferðamannastöðum í eigu eða umsjón ríkisins beint af fjárlögum.“

Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er sú upphæð komin inn í fjárlögin? Ég veit að það er á forræði hæstv. umhverfisráðherra eins og hæstv. ráðherra kom inn á, en af því að komið er inn á þetta í greinargerðinni væri dálítið gaman að sjá heildartöluna yfir það sem ætti að auka við uppbyggingu á ferðamannastöðum annars vegar í eigu hins opinbera og svo með því að halda þessari upphæð til sjóðsins næstu fimm ára sem eru 766 millj. kr. á ári. Ég hygg að sjóðurinn hafi oft átt í erfiðleikum með að koma út öllum fjármunum á hverju ári, er það ekki rétt? Það hefur reynst erfitt sökum þess að erfitt hefur verið að ráða fólk og komast í framkvæmdir. Það er gott að þetta sé komið á nokkuð fastara form, hygg ég.

Rétt í lokin langar mig að spyrja út í fækkun í stjórn úr fjórum í þrjá. Einhvern tímann var manni kennt í félagsfræði um að það ætti alltaf að vera oddatala í stjórn, þannig að það er kannski hið besta mál. En hér segir í frumvarpinu að nokkrir umsagnaraðilar hafi bent á að rétt væri að halda sama fjölda eða fjölga í fimm. Svo segir, með leyfi forseta:

„Rétt þykir hins vegar, í ljósi breytts hlutverks sjóðsins og gildissviðs laganna, að fækka stjórnarmönnum í þrjá …“

Mér sýnist það gerast að fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar missi annan af sínum tveimur fulltrúum, hann hafi bara einn. Hæstv. ráðherra gæti aðeins útskýrt hvernig það fer saman við það sem stendur í greinargerð í ljósi breytts hlutverks sjóðsins og gildissviðs laganna.



[17:38]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, við leggjum til í frumvarpinu að fækka stjórnarmönnum úr fjórum í þrjá. Það er eins og fram kemur heppilegra að hafa oddatölu. Að öðru leyti er þetta óbreytt, þ.e. það sé einn fulltrúi frá Samtökum ferðaþjónustunnar, einn frá sveitarfélögum og einn frá ráðuneytinu. — Nú man ég ekki hvað hv. þingmaður var að spyrja mig um áður. (KÓP: Heildartöluna með …) Já, einmitt. Við erum nefnilega búin að vera að kortleggja alla innviðauppbyggingu í þágu ferðamanna og ferðaþjónustunnar og þeirrar atvinnugreinar. Það er líka áhugavert að taka samgöngumál inn vegna þess að menn eru farnir að veita því meiri athygli og er sett inn í samgönguáætlun sérstaklega. Það eru ákveðnar framkvæmdir sem gagnast ferðaþjónustu og ferðamanninum sérstaklega.

Við erum að setja aukna fjármuni líka í landsáætlun. Það er náttúrlega nýtt fyrirbæri, það hefur í raun ekki verið til áður. Ég er viss um að það verður erfitt að setja alla þá fjármuni í landsáætlunina sem menn telja að vanti í hana. Það eru gífurlegar fjárhæðir ef maður tekur alla þá uppbyggingu sem þarf. Ég þekki ekki nákvæma tölu. Ef tekið er það sem er nú þegar undir þjóðgörðum og fleira þá kemur það inn í landsáætlunina. Svo verða settir auknir fjármunir þar inn.

Verkefnið er að tryggja fjármögnun landsáætlunar og svo fær Framkvæmdasjóður ferðamannastaða aukið fjármagn. Þannig að samanlagt er þetta meira, en ég er alveg viss um að það mun koma fram að áfram vanti fjármagn í landsáætlun.



[17:40]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér breytingar á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Ég þakka ráðherra fyrir innleggið og hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir innlegg hans sömuleiðis. Mér finnst þetta frumvarp í heild til bóta þegar ég lít yfir það. Það er mjög eðlilegt, eins og hæstv. ráðherra sagði, að ríkið sé ekki lengur umsóknaraðili í þennan ágæta sjóð. Þá komum við að landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarminja, þeim langa, langa titli. Þar er vissulega óljós fjármögnun þannig að ef þar vantar fé, eins og hæstv. ráðherra kom að, þarf vissulega að huga að því hvaðan á það að koma. Vegna þess að ef við erum búin að blanda saman, eins og ég skal koma að á eftir, gistináttagjaldinu sem rennur núna óbreytt til ríkisins þá er vandséð hvaða aðrir fjármunir eigi að koma þarna inn í landsáætlunarsjóðinn sem ríkið hefur aðgang að, hvort sem það er varðandi þjóðgarða eða aðra staði.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, fjármunirnir ganga til sveitarfélaga og einkaaðila, eins er það til bóta. Það eru sett ákveðin skilyrði sem eru þau að staðir sem hljóta styrk úr þessum sjóði eru opnir gjaldfrjálst, eins og kveðið er á um í lögum og reglugerðum, líkt og segir í textanum. Þó geta einkaaðilar innheimt gjald. Nú hefur það verið staðfest í lögfræðiáliti mjög nýlega að einkaaðilar, þá er tekið dæmi af Helgafelli á Snæfellsnesi, hafi leyfi til þess að gera það.

Í þessu felst ákveðinn vandi sem verður augljósari með hverju ári, sem ég vil kalla aðgengisvanda, sem felst í því að ferðamenn þurfa að komast í gegnum heimalönd á staði, geta verið einhverjir fallegir auðveldir staðir aðgengis en það geta líka verið fjallstindar sem eru æ vinsælli meðal útivistarfólks. Þá er það þannig að heimalönd girða svæðið á milli þjóðvega, segjum við, og viðkomandi fjalls. Við þurfum ekki að fara lengra en upp að Esju til að sjá það. Það er orðið mjög erfitt oft, ég hef sjálfur af því reynslu, að komast að uppgöngum á þessi fjöll, einfaldlega vegna þess að menn þurfa að fara í gegnum heimalönd. Það er að sjálfsögðu óheimilt í raun og veru og ekki vel séð, þetta eru ekki almenningar, þetta eru ræktarlönd jafnvel. Það hefur mjög lítið verið gert til þess að koma einhverri reglu á nákvæmlega. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að fara að skoða þann vanda. Það er einmitt hægt að nota að hluta til fjármuni úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til þess að tryggja aðgengi gegnum heimalönd. Það er oft ekkert annað en príla og girðing og lítill stígur og einhverjar vegmerkingar og annað slíkt sem þarf. Þetta þarf ekki að vera flókið. Sums staðar hafa reyndar heimamenn sjálfir eða eigendur komið einhverjum skikk á þetta, annaðhvort algjörlega á eigin kostnað eða reynt að sækja um það til Framkvæmdastjóðs ferðamannastaða, eins og í tilfelli Helgafells, fengið tvær neitanir og endað á því að fara að rukka 400 kr. á mann.

Þessi aðgengisvandi er mjög algengur erlendis, t.d. í Bretlandi og Skotlandi, Írlandi, jafnvel í Þýskalandi. Þetta er hluti sem höfum eiginlega látið dankast. Ég get nefnt mörg, mörg dæmi um t.d. fjöll í nágrenni Reykjavíkur sem eru mjög vinsæl þar sem þetta er orðið ákveðið vandamál, jafnvel þannig að menn hafa amast við umferð í gegnum heimalönd og eðlilega, en á því þarf að taka.

Varðandi fjáröflunarmálið með þær 776 milljónir á ári sem ganga úr gistináttagjaldi til ríkissjóðs þá er það vissulega gleðilegt, en flækjan varðandi landsáætlunina og fjármögnun hennar er enn til staðar að mínu mati.

Það er eitt í þessu varðandi gistináttagjaldið sem ég hef talað fyrir alla tíð eftir að ég komst á þing og það er það að gistináttagjaldið verði hlutfallstala af verði gistingar en ekki föst upphæð, 300 kr. eins og nú er. Það er mjög eðlilegt að gisting sem býður upp á einfalt rúm einhvers staðar úti í hlöðu sé ekki endilega að greiða sama gjald og lúxusgisting á sveitahóteli eða hóteli í bænum. Ég held að þetta sé sanngjörn krafa og myndi eflaust auka verulega tekjur hins opinbera í sjóði ferðamanna.

Það eru svo sem til aðrar leiðir. Við getum nefnt komugjöld eða brottfarargjöld, en það er efni í allt aðra umræðu. Hingað til hafa framlögin úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í raun og veru verið allt of lág. Þetta eru kannski 500–600 milljónir á ári. Fyrrum var 50% girðingin allt of há, síðan kom 20% girðingin. Ég tel að hún sé enn þá allt of há og að í raun eigi framlag sveitarfélags að vera í einhverju hlutfalli við stærð þess. Skeiða- og Gnúpverjahreppur á ekki endilega að leggja fram sömu prósentutölu og stórt sveitarfélag, við skulum segja Akureyrarbær eða eitthvað slíkt. Það þarf að endurskoða líka.

Hugleiðingar mínar eða ábendingar eru gerðar með góðum hug til þess að þetta frumvarp geti í meðförum hv. nefndar tekið breytingum eða á vegum hæstv. ráðherra sjálfs. Ég hef þar með lokið máli mínu.



[17:47]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar að bregðast örstutt við því sem hv. þingmaður kom inn á. Ég get alveg tekið undir það að nú er verkefnið að koma landsáætlun á fót. Þegar þetta fór fyrst af stað var náttúrupassinn þar við hliðina. Í rauninni átti náttúrupassinn þá að fjármagna landsáætlunina. Svo fór landsáætlunin, lögin með langa nafnið, í gegn en náttúrupassinn ekki. Þess vegna er verkefnið að tryggja fjármagn í áætlunin, af því að hún er er mjög vel unnin og skýr. Þar birtist heildarsýn sem er mjög gott að sé komin.

Það er rétt að það hefur reynst að hluta til erfitt að koma fjármagninu út, þ.e. sjóðurinn hefur fengið umsóknir langt umfram það fjármagn sem hefur fengist í hann. Þegar við höfum síðan úthlutað til ákveðinna verkefna hefur af ýmsum ástæðum ekki tekist að klára verkefnin. Þannig hafa fjármunir setið eftir í sjóðnum, sem er líka bagalegt.

Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á almannaréttinn. Það er auðvitað risastórt mál. Það er nánast sama um hvað maður er að ræða og hverju maður er að velta fyrir sér, maður staldrar alltaf við almannaréttinn á endanum. Það er ýmis vinna í gangi hvað hann varðar, en við þurfum að fara að ræða það af alvöru og taka einhverjar ákvarðanir í því.

Það er góð ábending sem hv. þingmaður kom með varðandi mögulegt hlutverk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um að ef vilji er hjá eiganda t.d. til að hleypa ferðamönnum í gegnum land sitt fái hann fjármagn til þess að byggja það upp þannig að ekki sé gengið á það um of eða það skemmt. Það er sömuleiðis áhugaverð ábending um að sveitarfélögin og mótframlagið séu í hlutfalli við stærð sveitarfélaganna.

Varðandi gjaldtöku á einkalönd hugsum við það þannig að með þessu breytta fyrirkomulagi í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða séu auknir fjármunir fyrir einkaaðila. Það ætti að draga úr líkum á því að eigendur hefji gjaldtöku þegar þeir eru mögulega að því gegn eigin vilja, ef þeir þannig séð telja sig neyðast til að rukka. Gjaldtökuumræðan er síðan annað og stórt mál. En ef landeigendur þurfa að byggja eitthvað upp til að hleypa ferðamönnum inn á svæði og vilja ekki endilega taka fyrir það gjald þá eru alla vega komnir meiri fjármunir í sjóðinn og hlutverk hans er þá meira fyrir einkaaðilana en verið hefur.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.