146. löggjafarþing — 55. fundur
 5. apríl 2017.
störf þingsins.

[15:03]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Á næsta ári hækka lægstu laun upp í 300 þús. kr. á mánuði, kjarabætur sem náðust fram með talsverðu harðfylgi í síðustu kjaraviðræðum. Þeir sem þiggja örorkulaun fá á bilinu 250–280 þús. kr. á mánuði. Þær tekjur sem þeir hafa annars staðar frá, t.d. úr lífeyrissjóðum, skerða þau laun þannig að aldrei nást launin mikið upp fyrir 300 þús. kr. frægu.

Þegar við skoðum hin opinberu neysluviðmið velferðarráðuneytisins sést auðvitað svart á hvítu að fólk með börn til að mynda þarf meira en þessar 300 þús. kr. til að lifa af í samfélaginu. Heilbrigðisþjónusta hér kostar meira en í nágrannalöndum. Greiðsluþátttaka sjúklinga er meiri. Menntunin er ekki ókeypis, hvort sem við horfum á frístundastarfið, skólamáltíðirnar eða hvað það er. Við eigum í gríðarlegum húsnæðisvanda, leiguverð himinhátt, erfitt að komast inn á eignamarkað, þeir sem eiga í mestum vanda eru sérstaklega þeir sem eru einstæðingar eða einstæðir foreldrar.

Þetta er fólkið sem er fátækt. Sérstök umræða um fátækt fæst ekki tekin á dagskrá þingsins, sérstök umræða um fátækt nýtur ekki nægjanlegs forgangs í dagskrá þingsins. Þetta eru stórir hópar fólks sem ná aldrei endum saman og við, í ellefta ríkasta samfélagi heims, erum ekki með lausn á því hvernig við ætlum að leysa þetta viðfangsefni, hvernig við ætlum að tryggja það að hér í þessu ríka og góða landi geti allir lifað með reisn og fólk þurfi ekki að skammast sín. Ég sat á fundi í gærkvöldi með fólki sem er fátækt og það sagði: Það versta er skömmin yfir því að vera fátækur sem er ekki hlutskipti sem nokkur maður velur sér.

Frú forseti. Ég hefði viljað óska að þessi sérstaka umræða hefði komist á dagskrá. Þetta er (Forseti hringir.) svo sannarlega viðfangsefni sem Alþingi á að láta til sín taka því að þetta er skömm. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:05]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fagna því að forsvarsmenn HB Granda hafi farið í viðræður við bæjarstjórn Akraness og Faxaflóahafnir um framtíðaráform fyrirtækisins á Akranesi. Afar mikilvægt er að allir aðilar sem koma að þessum viðræðum séu í þeim af heilum hug og ekki sé um sýndarviðræður að ræða.

Hér er á ferðinni gríðarlegt hagsmunamál sem við verðum að finna lausn á svo eitt hundrað manns eigi ekki á hættu að missa vinnuna. Ef af því yrði gæti það haft áhrif á lífsviðurværi þessara einstaklinga, á útsvarstekjur bæjarins og þjónustu hans. Ef af yrði hefði aðgerð HB Granda margfeldisáhrif á bæjarfélagið Akranes.

Ef viðræður bæjarstjórnar Akraness og Faxaflóahafna við kvótahæsta fyrirtæki landsins skila ekki árangri tel ég blasa við að endurskoða þurfi það kvótakerfi sem við búum við í dag, skoða hvort hægt sé með skýrari hætti að tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum að nýta sér forkaupsrétt í þeim kvóta sem fyrir er svo ákvörðun sem þessi ógni ekki atvinnuöryggi fjölda einstaklinga og þar með í einhverjum tilvikum byggðafestu samfélaga.

Við viljum auðvitað að sjávarútvegsfyrirtæki skili hagnaði. Það hefur HB Grandi svo sannarlega gert. Það er mikilvægt upp á framþróun í greininni. En gerum okkur grein fyrir að frá árinu 2008 hefur HB Grandi hagnast um 40 milljarða. Ef svona stór og glæsileg fyrirtæki í sjávarútvegi vilja hafa sátt um greinina þurfa þau að vera tilbúin til að taka örlitlar dýfur þegar illa árar því að þau hafa fengið svigrúm í afar góðu árferði.

Það er samfélagslega ábyrgt af okkur hv. þingmönnum að skoða hvort líta þurfi til aðgerða eins og ég nefndi áðan. Því miður er mál HB Granda ekki það eina sem komið hefur upp en hér er um að ræða kvótahæsta fyrirtæki landsins sem ætlar hugsanlega að grípa til aðgerða og það er óásættanlegt.



[15:07]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hér er stutt bókagagnrýni. Út er komin fjármálaáætlun. Höfundur hennar er Benedikt Jóhannesson, hæstv. fjármálaráðherra. Bókin er 363 síður, snoturlega uppsett og í þokkalegu bandi. Innihaldið orkar meira tvímælis. Á bls. 12 segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld bera þá ábyrgð að velja milli skammtímahagsmuna og langtímahagsmuna, uppbyggingar og sparnaðar, skattlagningar og frelsis.“

Óljóst er þó hvaðan sú hugmynd kemur að skattlagning sé andstaða frelsis. Þvert á móti er skattgreiðsla besta fjárfesting flestra einstaklinga á ævinni. Hún tryggir þorra almennings áhyggjulítið og innihaldsríkt líf, en þó gæti sanngjarnari skattlagning tryggt öllum ókeypis skólagöngu, ódýrari heilbrigðisþjónustu, áhyggjulaust ævikvöld og margt annað. Án samneyslunnar væru við líka illa varin fyrir stórum áföllum sem henda okkur flest yfir ævina. Þá birtist í henni það fallegasta í lífinu, samkennd og samhjálp. Það er líka röng ályktun að uppbygging sé endilega andstaða sparnaðar. Raunar má leiða líkur að því að uppbygging á grotnandi innviðum, veiku heilbrigðiskerfi og vanfjármögnuðu skólakerfi leiði til mikils sparnaðar þegar fram í sækir. Það er hins vegar hárrétt hjá höfundi að skammtímasjónarmið eru andstaða langtímasjónarmiða. Það eru skammtímasjónarmið að sækja ekki meiri tekjur til þeirra sem nýta auðlindirnar og hinna sem eru mjög vel aflögufærir. Þá eru það hagstjórnarmistök að lækka virðisaukaskatt og auka einkaneyslu á þenslutímum. Þannig glatast 13 milljarðar úr ríkissjóði sem nýttust til að styrkja almannaþjónustu á brauðfótum og tryggja félagslegan stöðugleika.

Frú forseti. Þetta eru ákveðin vonbrigði því að höfundur hefur oft gefið út betur heppnaðar bækur og tímarit. Bókin endar illa. Hún er fráleitt uppskrift að meira frelsi fyrir almenning, boðar ekki nauðsynlega uppbyggingu og verður okkur dýrkeypt í framtíðinni. Loks byggir hún á skammtímasjónarmiðum.

Frú forseti. Ég gef bókinni eina stjörnu.



[15:10]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Fáein orð um háskólastigið. Það er oft gjá á milli orða og efnda í pólitík. Efling menntunar merkir ekki nauðhyggja í fjármálum. Því miður stefnir í fleiri ár kyrkings í þessum efnum ef stjórnin lifir. Ef maður kíkir í ógagnsæ ríkisfjármálin eins og þau koma fyrir í þessu plaggi okkar þá stendur þar að efla skuli gæði háskólastarfs. Þegar nánar er lesið er talað um gæðaráð og ný reiknilíkön, upplýsingakerfi og endurskoðun laga. Þar með er allt upptalið. Tugir námskeiða hafa fallið niður í Háskóla Íslands. Það er ekki ráðið í sumar prófessorsstöður sem losna. Þá spyr maður: Hvers konar gæðastarf er það?

Þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós að á öllu tímabilinu sem um ræðir eru innan við 3 milljarðar sem ganga til háskólastarfsins í heild. Í Háskóla Íslands er t.d. 15 milljóna aukning milli áranna 2019 og 2020 og niðurskurður upp á 21 milljón á milli áranna 2020 og 2021. Þetta heitir stöðnun á íslensku.

Þegar er svo tekið tillit til þess að Hús íslenskra fræða er inni í þeim tölum, eða a.m.k. áætlun sem þarna eru settar fram, þá kemur ómögulega fram hvað er til rekstursins sjálfs. Þegar rýnt er í það sem sagt er um þekkingarsetur og háskóla utan Reykjavíkur, sem eru ekki nefndir á nafn í þessu ágæta plaggi, þá er rætt um samvinnu, það er rætt um betri yfirsýn og annað slíkt, en það kemur ekki fram að það gangi raunverulega nokkrir viðbótarfjármunir til þessa starfs. Þannig að þegar upp er staðið er þetta sveltistefna sem við eigum eftir að takast á um í dag og á morgun. Við skulum vona að betri liðin vinni.



[15:12]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Umhverfis- og samgöngunefnd hélt í morgun opinn fund um málefni verksmiðju United Silicon í Helguvík. Ég vil enn einu sinni nota tækifærið til að þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir góð viðbrögð við þeirri beiðni minni að halda þennan fund. Á fundinum kom ýmislegt athyglisvert fram. Hæstv. umhverfisráðherra fór þar yfir hugmyndir sem hún hefur um hvernig hægt sé að nota græna hvata til að fá stóriðju til að menga minna. Það olli þó meiri vonbrigðum að í ljós kom að ekki hafði farið nein ítarleg skoðun fram innan ráðuneytis, hjá lögfræðingum þess, um hvort í ívilnunarsamningum við verksmiðjuna væru einhver úrræði til að grípa til aðgerða gagnvart verksmiðjunni nú þegar. Það sem vakti þó ekki síst athygli mína voru orð og ummæli forsvarsmanna bæjarfélagsins í Reykjanesbæ sem hvöttu okkur þingmenn til að skoða umhverfi þessara mála því að þegar ferlið væri einu sinni komið af stað, búin lóðaúthlutun í fortíðinni og það ferli komið af stað, hefðu bæjaryfirvöld enga aðkomu að því lengur um hvernig um þau mál færi, eftirlitsstofnanir sæju um eftirlit með starfsemi sem þar væri o.s.frv.

Ég held að við hv. þingmenn ættum að kynna okkur betur þau ummæli sem ég hef hér illa og lauslega sagt frá, ummæli sveitarstjórnarmanna í Reykjanesbæ. Það er augljóst að þetta er mál sem gæti komið til okkar kasta og við gerðum vel að taka rækilega til í þessu lagaumhverfi. Fulltrúi íbúasamtaka bæjarins var ósköp skýr, hann vill að verksmiðjunni sé lokað og frekari uppbygging eigi sér ekki stað. (Forseti hringir.)Við skulum ekki gleyma því að þó að þessi verksmiðja sé tekin til starfa er önnur að banka upp á (Forseti hringir.) og miðað við orð forsvarsmanna verksmiðjunnar getur tekið eitt til tvö ár að koma svona verksmiðju í það lag sem menn vilja hafa hana í.



[15:14]
Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Frú forseti. Ég lofa að hlaupa ekki úr húsi núna beint eftir þessa ræðu eins og ég gerði í gær. En það var nokkuð árangursríkur mótmælafundur sem við áttum fyrir utan velferðarráðuneytið. Við fengum að vísu ekki að hitta hæstv. ráðherra en aðstoðarmenn þeirra buðu okkur inn fyrir. Við vorum kannski 60–70 manns, hópur frá Hugarafli og tveir þingmenn. Við fengum þau svör að það ætti að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að halda þessu úrræði gangandi. Það var ekki hægt að lofa neinum fjármunum en samtalið er alla vega hafið og við fylgjum þessu eftir. Til að fylgja þessu eftir mun ég ítreka ósk mína um að eiga fund með hæstv. heilbrigðisráðherra til að ræða þessi mál í víðara samhengi. Ég mun líka óska eftir sérstökum umræðum núna strax eftir páska um geðheilbrigðismál og ekki síst aðkomu félagasamtaka að þeim.

Svo get ég greint frá því, frú forseti, ef þú ferð ekki með það mikið lengra, að vonandi í haust ætlum við að reyna að vera með stórt málþing þar sem við köllum saman fulltrúa fjölmargra samtaka, líknarsjóða og minningarsjóða og slíkra aðila sem brenna fyrir þessum málefnum og eru tilbúnir að starfa saman að því að hjálpa velferðarráðuneytinu og ríkisstjórninni að komast að þeim markmiðum sem þau hafa sett sér. Til þess þarf þarfagreiningu, það þarf að skýra nákvæmlega hvert hlutverk þessara samtaka á að vera ef þau eiga að fá opinbert fé. Ég fagna því að þetta samtal sé núna að eiga sér stað og leyfi mér að vera bjartsýnni en ég var í gær.



[15:16]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vek athygli á máli um keðjuábyrgð sem félagsmálaráðherra hefur kynnt í ríkisstjórninni. Við Vinstri græn höfum lagt fram þingsályktunartillögu sem lýtur að keðjuábyrgð, ábyrgð verktaka á undirverktökum. Í frumvarpi félagsmálaráðherra er eingöngu tekið á því að keðjuábyrgð nái til verklegra framkvæmda, erlendra undirverktaka og starfsmannaleigna. Það er ekki tekið á innlendum aðilum. Út af hverju? Þær umsagnir sem hafa komið um mál okkar Vinstri grænna um keðjuábyrgð lúta allar að því að setja lagaumgjörð um keðjuábyrgð, að það sé öflugasta vopnið til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð, jafnvel mansal, tryggja að undirverktakar greiði opinber gjöld, það séu ekki svartar launagreiðslur o.s.frv.

Eina neikvæða umsögnin um mál okkar Vinstri grænna var frá Samtökum atvinnulífsins. Þau töldu ekki rétt að lögbinda þetta, það væri hægt að mæta því öðruvísi. Það vekur athygli að núverandi hæstv. félagsmálaráðherra var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Ætli sé eitthvert frjálst flæði þar á milli? Ég bara spyr. Það er mjög umhugsunarvert að ganga ekki alla leið þar sem þeir aðilar vinnumarkaðarins sem hafa verið að undirbúa þetta frumvarp vilja gera það. ASÍ gagnrýnir harðlega að ekki sé gengið lengra. Hvað er verið að hlífa mönnum? Þarna væri hægt að taka virkilega á þessu vandamáli í íslensku samfélagi og hagkerfi, ná inn tekjum fyrir ríkið og koma í veg fyrir félagsleg undirboð á vinnumarkaði sem eru óásættanleg.



[15:18]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Við hv. stjórnarandstöðuþingmenn notum oft þennan lið, störf þingsins, til að kvarta yfir störfum þingsins. Mig langar til að bregða aðeins út af vananum og tala um það sem vel fór í þessari viku í störfum þingsins.

Mig langar sér í lagi að segja frá umræðu í hv. utanríkismálanefnd sem fór fram núna á þriðjudaginn þar sem við fengum loksins þá gesti sem minni hlutinn hafði beðið um fyrir þó nokkru síðan. Hv. formaður hafði með semingi samþykkt að eiga þessa umræðu með okkur. Umræðuefnið var þjóðernishyggja og þjóðernispopúlismi. Umræður sem áttu sér stað í nefndinni voru þess eðlis að þetta hefði að sjálfsögðu átt að vera opinn fundur svo fólk hefði getað fengið að heyra og sjá hvað fór fram. Þjóðernispopúlismi er nákvæmlega það sem er að skjóta rótum víðs vegar í Evrópu. Við sjáum svipuð „trend“ þegar kemur að Bandaríkjunum með tilkomu Donalds Trumps. Við sjáum svipaða hluti gerast í kjölfar Brexit.

Það að skilja hvað þjóðernispopúlismi er og hvaða stóru línur það eru í pólitíkinni sem eru að myndast er rosalega mikilvægt fyrir nefndastörfin. Mér finnst við hafa gert allt of lítið af því að sækja okkur sérfræðiþekkingu, tala við stjórnmálafræðinga og sagnfræðinga en ekki bara verkfræðinga og skipulagsfræðinga og lögfræðinga þegar við á. Við þurfum að skilja stóra samhengið. Nefndir okkar þurfa að líka að vera miðstöðvar þekkingar og menntunar. Við eigum að deila þeirri menntun og þekkingu með öðrum.

Að svo mæltu legg ég til að fundir fastanefndir Alþingis verði opnir.



[15:20]
Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Nú er ár liðið frá stórtíðindum í íslenskum stjórnmálum. Af því tilefni langar mig að vitna í ályktun sem stjórn Pírata á Norðausturlandi sendi frá sér sunnudagskvöldið 3. apríl 2016, með leyfi forseta:

„Kastljósþáttur dagsins sýnir fram á gífurlega spillingu íslenskra stjórnmálamanna, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Í ljós hefur komið að þeir sem talið hafa fólki trú um að þeir væru að vinna af heiðarleika og með hagsmuni almennings fyrir brjósti, hafa vísvitandi logið til um eigur sínar sem þeir földu í aflandsfélögum í erlendum gjaldmiðlum á sama tíma og þeir mærðu íslensku krónuna.

Almenningur hér á landi á annað og betra skilið. Nauðsynlegt er að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga þar sem fólk fær tækifæri til að láta siðspillta stjórnmálamenn taka pokann sinn og kjósa heiðarlegt fólk í þeirra stað. Að því loknu verða stjórnvöld og almenningur að taka á þessari meinsemd sem spillingin er.“

Nú er kosningum lokið, reyndar fyrir allnokkru. Endurnýjun á þingi var allnokkur og nú er komið að okkur sem hér erum að taka á þeirri meinsemd sem spillingin er. Gagnsæi er grundvöllur slíkrar baráttu. Í því samhengi langar mig að benda á að við Píratar höfum lagt fram tillögur um að hinar ýmsu skrár verði opnaðar og gerðar aðgengilegar almenningi að kostnaðarlausu; hlutafélagaskrá, ársreikningaskrá og svoleiðis lagað. Við viljum að reglum verði breytt á þann veg að hin svokallaða 10% regla verði afnumin þannig að allir eigendur bankanna og hluthafar í bönkunum neyðist til að koma fram í dagsljósið, sem er sérstaklega mikilvægt nú þegar sala á Arion banka stendur fyrir dyrum.

Við viljum að sala bankanna verði rannsökuð með svipuðum hætti og gert var með sölu Búnaðarbankans, auk þess sem við leggjum til að fjárfestingarleið Seðlabankans verði rannsökuð.

Frú forseti. Við þurfum að ræsta út.



[15:23]
Albert Guðmundsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mér mikill heiður að standa hér og ávarpa þingheim í fyrsta sinn. Það er mér sérstaklega ánægjulegt að taka sæti á þingi sem fulltrúi yngri kynslóðarinnar og sem yngsti sitjandi fulltrúi hv. þings í dag er ég þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt. Þótt ég tilheyri yngri kynslóðinni langar mig að tileinka mín fyrst orð í þessum ræðustól þeim sem eldri eru. Málefni aldraðra eru jú málefni okkar allra sem höfum von um að eldast hér á landi og hefur mér oft fundist vanta að þeir sem yngri eru láti í sér heyra varðandi þau mál.

Þær umbætur sem gerðar voru á almannatryggingakerfinu fyrir lok síðasta þings voru skref í rétta átt þar sem bótaflokkum var fækkað, grunnlífeyrir hækkaður og kerfið einfaldað ásamt auknum sveigjanleika við starfslok og hækkun lífeyristökualdurs. Sérstaklega mikilvægur liður í því kerfi er frítekjumark sem er stórt hagsmunamál. Það er mikilvægt að fólk geti bætt stöðu sína með atvinnutekjum eftir að lífeyristökualdri er náð án þess að þurfa að líða fyrir það með of mikilli skerðingu. Fagna ég því þeim áformum ríkisstjórnarinnar, sem koma fram í fyrirliggjandi fjármálaáætlun, um að hækka frítekjumarkið á umræddu tímabili.

Í samfélagi sem horfir fram á öra fjölgun aldraðra þurfum við að haga hvötum kerfisins þannig að fólk sem er um það fært sjái hag sinn í því að afla tekna. Þetta er ekki einungis fjárhagslega ábatasamt heldur einnig spurning um sjálfstæði einstaklinga og samfélagslega virkni þeirra. Á sama tíma og ég gleðst yfir fyrirætlunum stjórnvalda hvet ég til þess að gengið verði enn lengra með batnandi efnahag og tekjuskerðingar lækkaðar að fyrirmynd annarra Norðurlandaþjóða. Við þurfum að standa vel að málum þessa hóps. Það er skylda okkar að tryggja að þeir sem hafa skilað góðu dagsverki og greitt til samfélagsins alla ævi geti lifað áhyggjulaust ævikvöld og einnig að við hvetjum til virkni þeirra sem starfsgetu hafa og kjósa að halda áfram að vinna.

Ef við getum ekki tryggt það getum við ekki vænst þess að við byggjum hér samfélag þar sem komandi kynslóðir kjósa að eldast.

(Gripið fram í: Vel mælt.)



[15:25]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Í morgunútvarpinu í dag gat að heyra viðtal við Helgu Sif Friðjónsdóttir, doktor og sérfræðing í geðhjúkrun með áherslu á fíknisjúkdóma, en hún ræddi nauðsyn þess að setja á fót dagsetur fyrir fólk í vímuefnanotkun, en ekkert slíkt setur er starfandi hér á landi eftir að setri Hjálpræðishersins var lokað. Helga Sif vísaði í skýrslu á vegum starfshóps sem heilbrigðisráðherra skipaði til þess að skoða skaðsemi núverandi löggjafar á fólk sem notar vímuefni.

Skaðaminnkun er orð sem heyrist allt of sjaldan hér á þingi og vil ég því gera hana að umtalsefni mínu í störfunum í dag. Samkvæmt áðurnefndri skýrslu heilbrigðisráðherra er skaðaminnkun byggð á viðurkenningu þess að fjöldi fólks víða um heim heldur áfram að nota vímuefni þrátt fyrir jafnvel ýtrustu viðleitni í samfélaginu til að fyrirbyggja upphaf eða áframhaldandi notkun vímuefna. Því er þörf fyrir valkosti fyrir fólk er neytir vímuefna sem hjálpar því að lágmarka hættu á skaða af áframhaldandi notkun. Því er nauðsynlegt að upplýsingar um skaðaminnkun, skaðaminnkandi þjónustu og önnur inngrip, séu til staðar í samfélaginu til að hjálpa við að halda fólki sem notar vímuefni heilbrigðu og öruggu.

Frú forseti. Með hliðsjón af áherslum skýrslunnar og þessu áhugaverða viðtali í morgun vil ég vekja athygli á því að farsælt geti verið að setja á fót hér öruggt neyslurými, en með því er átt við stofur þar sem notendur geta neytt vímuefna á öruggan hátt undir eftirliti lækna án þess að hætta á handtöku. Aðgangur að öruggum neyslurýmum minnkar líkur á andláti af völdum ofskammta, bætir almenna heilsu vímuefnanotenda, bætir aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu, minnkar smittíðni smitsjúkdóma og minnkar glæpi til fjármögnunar vímuefnaneyslu. Alls eru nú samtals 88 örugg neyslurými í heiminum, í Danmörku, Noregi, Þýskalandi, Spáni, Portúgal, Sviss, Lúxemborg, Kanada og Ástralíu.

Með þessari ræðu vil ég hefja samtal um þetta viðurkennda skaðaminnkunarúrræði og lýsa yfir óþreyju minni gagnvart því að lítið hefur heyrst um að auka vægi skaðaminnkunar í íslenskri vímuefnastefnu frá því að skýrsla heilbrigðisráðherra kom út. Skaðaminnkun snýst um raunsæi, mannréttindi, mannvirðingu og heilsu fólks með fíknivanda. Ég hvet hv. þingmann (Forseti hringir.) til þess að kynna sér málið nánar og hæstv. heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra til að ýta á eftir nauðsynlegum lagabreytingum sem setja skaðaminnkun í forgang í stað þeirrar mannskemmandi og gagnslausu refsistefnu sem hefur verið í gildi hér á landi hingað til.



[15:28]
Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom í ræðu sinni áðan inn á að í umhverfis- og samgöngunefnd hefði verið haldinn opinn fundur í morgun um málefni United Silicon. Þar komu fulltrúar ráðuneytisins, ásamt hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, og Umhverfisstofnunar ásamt fulltrúum frá Reykjanesbæ.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, þetta var góður og gagnlegur fundur, upplýsandi, þar sem fram fóru málefnalegar umræður um aðdraganda þessarar starfsemi og þeirra mála sem hafa komið upp og svo hver staðan væri í dag. Það sem var kannski einstaklega ánægjulegt við þennan fund, ólíkt því sem hefur áður þekkst í þessari umræðu, er einmitt að hann var málefnalegur, menn voru lausir við stórar yfirlýsingar og héldu sig við staðreyndir máls og lög og reglur. Brýning mín til þingheims í þessu máli sem öðrum er að oftast er gáfulegra að sjá hvernig málið er vaxið áður en menn halda í þá vegferð að vera með stórar yfirlýsingar.

Í þessu máli snýst það um að skoða af hálfu þingnefndarinnar hvað hafi farið úrskeiðis, hvað væri mögulegt í framkvæmd laganna og eftirliti sem er mögulega ábótavant af hálfu framkvæmdarvaldsins og hvað þarf að laga. Það er sérstaklega mál þingsins. Hvað er í löggjöf okkar um þessi málefni sem þarfnast mögulegrar skoðunar?

Þetta eru allt mjög góð atriði. Það er líka sérstaklega áhugavert og gott að heyra að þingmenn Vinstri grænna eru tilbúnir að vera með í þeirri vegferð og ætla ekki að neita því að hlutur þeirra í þessu máli frá í ríkisstjórninni 2009–2013 er stór, m.a. sem snýr að Bakka og Helguvík. Ég fagna því að þeir séu með í þessari vegferð. (Gripið fram í.)



[15:30]
Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Frú forseti. Síðastliðinn föstudag lagði ég fram frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Lagabreytingin er þess efnis að í tilfellum andvana fæðingar munu báðir foreldrar barnsins fá greitt orlof óháð hjúskaparstöðu.

Í lögum um fæðingarorlof liggur fyrir að þegar foreldrar sem ekki eru skráðir í sambúð eiga barn þarf að liggja fyrir samningur um sameiginlega forsjá eða umgengni til þess að foreldrið sem ekki fæðir barnið fái fæðingarorlofsrétt sinn. Þegar barn er fætt andvana er eðli málsins samkvæmt ómögulegt að ganga frá slíkum samningi. Þá er ómögulegt fyrir foreldrið sem ekki fæðir barnið að fá tíma til að syrgja og jafna sig á því mikla áfalli sem barnsmissir er.

Er þetta réttlátt? Nei, þetta er ekki réttlátt. Hlutverk okkar hér á þessum vettvangi er m.a. að tryggja réttlæti og sanngirni fyrir fólkið í landinu. Hér eigum við að finna gloppurnar og vandamálin í lögum landsins og bæta úr fyrir hag heildarinnar.

Ég tel þessi lög í núverandi mynd ýta undir skaðlegar hugmyndir karlmennskuímyndar. Það er skaðlegt fyrir karla í heild sinni að gera lítið úr tilfinningum sínum, upplifun af missi og andlegri líðan. Nú hafa undanfarin misseri átt sér stað afar mikilvægar umræður í samfélaginu um slæm áhrif þess að gefa körlum ekki svigrúm til að finna fyrir eðlilegum og mannlegum tilfinningum. Það kemur niður á heilbrigði þeirra og ýtir undir skaðlegar hugmyndir um karla og karlmennsku.

Það er eindregin ósk mín að málið komist að á þessu þingi þannig að það dagi ekki uppi og þurfi að leggja fram öðru sinni. Þetta mál er hreinræktað jafnréttismál. Ég get ekki ímyndað mér að ríkisstjórn sem segist standa fyrir jafnrétti kynja muni ekki veita því brautargengi.



[15:32]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í morgun varð ég þess heiðurs aðnjótandi að stýra fundi sem bar heitið Raddir unga fólksins – er hlustað á skoðanir ungmenna? Þar var á ferðinni ungmennaráð Barnaheilla, umboðsmanns barna og UNICEF ásamt fulltrúa Ungmennafélags Íslands.

Ég velti fyrir mér í framhaldinu þegar verið er að tala um ungmennaráð að við erum með starfandi ungmennaráð hjá ýmsum félagasamtökum og við erum með starfandi ungmennaráð hjá sveitarfélögum. Nú hefur því verið velt upp í hópnum talsmenn barna hér á Alþingi, að stofna ungmennaráð Alþingis. Það er nokkuð sem við ætlum að taka fyrir og skoða og ég vona að við berum gæfu til að finna flöt á því að ungmenni hafi hér aðgang að ákvarðanatöku. Við erum að velta fyrir okkur: Geta ungir haft völd? Hvaða eiginleika þarf til að hafa völd í samfélaginu?

Það eru uppi staðalímyndir, bæði hjá okkur eldra fólkinu og líka unga fólkinu. Geta ungir t.d. aukið þekkingu eldra fólks í pólitík eða veldur aldurstengd valdauppbygging kerfisbundinni mismunun, t.d. ef við horfum til þess hvernig strúktúrinn er í skóla, á milli ungra nemenda og eldri nemenda?

Er það ekki okkar að veita upplýsingar, vera ráðgefandi og þiggja ráð og ábendingar með því að bjóða öðrum til viðræðna við okkur, t.d. á þingi, gefa þeim val um það að taka þátt? Lýðræðisfræðsla snýst ekki um að skipta upp í lið, börn og fullorðnir, heldur að allir séu tilbúnir að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi, hver á sínum forsendum. Kosningaþátttaka var eitt af því sem var rætt í morgun og hugnast öllum þeim sem tóku til máls að færa kosningaaldur niður í 16 ár. Því skora ég á þingheim að taka vel í tillögu okkar Vinstri grænna um það mál en við höfum lagt til að byrjað verði á því að 16 ára ungmenni fái að kjósa til sveitarstjórna vegna þess að það krefst ekki breytingar á stjórnarskrá. Með því getum við sýnt í verki að við viljum fá álit þeirra á málefnum sem skipta ekki bara þau máli heldur okkur öll.

Svo vil ég minna á að um helgina verður haldin ráðstefna ungmennaráðs UMFÍ þar sem umfjöllun verður um lýðræðið og það að ungt fólk er leiðtogar nútímans, ekki bara framtíðarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:34]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir vék heldur óvirðulega að mér, að mér fannst, lét að því liggja að ég væri hér í nafni einhverra annarra en sjálfs mín og minnar samvisku. Það þykir mér afskaplega leiðinlegt að hlýða á. Mér þætti reyndar afskaplega vænt um að við temdum okkur hér að fara í málefnið en ekki manninn. Málefnið er nefnilega gott, um keðjuábyrgð fyrirtækja, um baráttuna gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði og að tryggja að öll fyrirtæki starfi hér við jöfn samkeppnisskilyrði og að allir launþegar, sama hvar þeir starfa, búi við sambærilegan rétt. Þar er ég ákaflega stoltur af því að flytja þetta mál um útlenda starfsmenn, sem snýr sérstaklega að keðjuábyrgð.

Mér þykja það mikil tímamót að hér séu verkalýðshreyfing og atvinnurekendur að ná saman um það hvernig að þessu skuli staðið. Málið er vissulega ekki einfalt, það er að mörgu að hyggja, en þarna held ég að náðst hafi mjög farsæl lausn sem er þá lagt af stað með í tilraunaskyni í ákveðnum geirum og verður vonandi hægt að útfæra á fleiri atvinnugreinar eftir því sem fram líður og við fáum reynslu á þetta mál.

Ég fagna því vissulega að málið komi fram. Hv. þingmanni þykir málið kannski bera þess vott að það komi úr þessari átt og finnst það súrt, en það verða aðrir að eiga við sig. Mér þótti leitt að ýjað væri að því að ég væri að þessu á einhverjum annarlegum forsendum. Það þykir mér ekki fallegur málflutningur á þingi. (Gripið fram í.)