146. löggjafarþing — 55. fundur
 5. apríl 2017.
fjármálaáætlun 2018–2022, frh. fyrri umræðu.
stjtill., 402. mál. — Þskj. 533.

[18:45]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára. Eftir umræðu undanfarinna daga, um fyrsta hlutann í þessum þríleik nýrra laga um opinber fjármál, er það líklega að æra óstöðugan að fara að vitna hér í lögin og það skipulag sem þau búa til utan um fjármál ríkisins. En ekki verður hjá því komist að byrja á því að hnykkja á því til hvers leikurinn er gerður og hvað er fram undan hvað varðar verkferlana.

Þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 er mikið skjal. Þar eru lagðar línur um markmið fyrir afkomu og efnahag hins opinbera í heild og fyrir opinbera aðila. Einnig eru gerðar áætlanir um þróun tekna og gjalda fyrir sömu aðila til næstu fimm ára.

Í áætluninni er gerð grein fyrir stefnumótun ráðuneyta fyrir bæði málefnasvið og málaflokka, og þjónar það því markmiði að Alþingi búi yfir sem greinarbestum upplýsingum þegar það fjallar um fjármálaáætlunina, sem er stefnumarkandi fyrir ríkisstarfsemina í heild til lengri tíma. Í því samhengi er mikilvægt að benda á að sett eru fram markmið, mælikvarðar og aðgerðir fyrir hvern og einn málaflokk sem tilheyrir málefnasviði.

Þetta nýja fyrirkomulag — sem við erum flest að takast á við í fyrsta sinn, og verður væntanlega í fyrsta sinn sem ferlið fer heilan hring, þ.e. að lögð sé fram fjármálastefna, og á grundvelli hennar fjármálaáætlun og loks fjárlög í haust á vegum sömu ríkisstjórnar og þings — er að þessu leyti tímamót.

Frú forseti. Enn er þetta ferli í mótun og slípun. Tímalínan í ferlinu er til dæmis ekki í fullu samræmi við hugsun laganna um opinber fjármál. Skýringuna þekkjum við auðvitað, það voru kosningarnar síðastliðið haust og núverandi ríkisstjórn tók ekki við völdum fyrr en 11. janúar á þessu ári. Lög um opinber fjármál gera hins vegar ráð fyrir að ríkisstjórnir taki að öðru jöfnu við að vori og í kjölfarið, að sumri eða snemma að hausti, sé lögð fram fjármálastefna, síðan komi voráætlunin fyrir 1. apríl og loks fjárlagafrumvarp að hausti sem byggir á þeim römmum útgjalda til málefnasviða sem voráætlunin, sem hér um ræðir, setur.

Það er von að okkur mörgum þyki nokkuð erfitt að fóta sig í þessu nýja kerfi og átta sig á því hvernig allir þessir nýju og mismunandi þættir vinna saman. Ég get alla vega upplýst að svo er um mig sjálfa. Þegar allt er dregið saman og hið nýja verklag verður að fullu komið til framkvæmda er það án vafa til þess fallið að bæta vinnubrögð og yfirsýn í störfum Alþingis þegar fjármál ríkisins eiga í hlut. En við erum ekki bara að tala um nýtt verklag hér í dag. Við erum að tala um pólitískar áherslur í ríkisfjármálum. Heilbrigðismál og velferðarmál voru í fyrirrúmi í málflutningi flestra, ef ekki allra, flokka í aðdraganda kosninganna síðastliðið haust. Sú áhersla skín í gegn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og við vinnu fjármálaáætlunarinnar er forgangsröðun ríkisfjármála í þágu þessara málaflokka greinileg.

Útgjöld til heilbrigðismála aukast mest, 22% að raungildi. Áherslan er á byggingu nýja Landspítalans sem nú loks stefnir í að verði lokið á næstu árum eftir langa og sársaukafulla bið bæði sjúklinga og starfsfólks. Meðal annarra þátta má nefna að dregið verður úr greiðsluþátttöku sjúklinga, aukin áhersla er lögð á geðheilbrigðismál með aukinni sálfræðiþjónustu, m.a. í skólum, og almennt bættu aðgengi að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu. Þá verður fjárfest í öldrunarþjónustu og biðlistar styttir.

Í velferðarmálum er líka um töluverða aukningu að ræða. Alls eru útgjöld til velferðarmála, annarra en heilbrigðismála, aukin að raungildi um 13% á tímabilinu, eða sem svarar 17 milljörðum króna. Þar má meðal annars nefna endurskoðun á örorkulífeyri, aukna fjárfestingu í starfsendurhæfingu og atvinnuúrræðum fyrir öryrkja, einnig innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð, endurskoðun frítekjumarks á atvinnutekjur aldraðra, hækkun fæðingarorlofstekna og aukinn sveigjanleika við starfslok aldraðra.

Við erum líka að tala um styrkingu meðferðarúrræða fyrir börn og unglinga, ákveðnar aðgerðir til að vinna á fátækt barna, tvöföldun móttöku kvótaflóttamanna og almennt betri móttöku þeirra sem koma hingað á eigin vegum og fá hæli. Síðast en ekki síst, markviss skref til að leysa húsnæðisvandann.

Við getum líka nefnt atriði í þessari áætlun sem lúta að auknum fjármunum til samgangna og löggæslu miðað við síðasta kjörtímabil. Þar má vissulega gera meira. En eins og hér hefur verið ítrekað er áherslan lögð á heilbrigðis- og velferðarmál í þessari áætlun.

Í menntamálin er verið að setja aukið fjármagn miðað við síðasta kjörtímabil. Hvað varðar framhaldsskólana er meðal annars gert ráð fyrir fjárhagslegu svigrúmi sem myndast við fyrirséða fækkun nemenda vegna styttingu námstíma til stúdentsprófs. Það er verið að efla háskólana þó þar séum við ekki enn að ná því sem gerist að jafnaði hjá OECD-ríkjum, þegar litið er til heildarframlags, þ.e. ríkisframlags og sértekna skólanna. Þar er nokkurt verk óunnið. Ég ímynda mér að fjármögnun háskólanna verði nokkuð rædd á næstu dögum og það er vel. Meðal þess sem má ræða þar af fullri alvöru eru sameining skóla og endurskoðun á reiknilíkani sem notað er. Í núverandi fyrirkomulagi er hvati til að fjölga nemendum, fækka námskeiðum, einfalda þau og stækka frekar en huga að gæðum og nýsköpun.

Stjórnvöld móta ekki stefnu um það námsframboð sem þau vilja sjá, og þá fjármagna, heldur láta skólunum eftir að spila frjálst úr því fjármagni sem þeir hafa til ráðstöfunar hverju sinni og þá samkvæmt nefndu reiknilíkani. Fyrir vikið er hætta á að dýrasta námið verði skorið niður, óháð þörf fyrir viðkomandi menntun fyrir samfélagið. Ég ítreka þá skoðun mína og ósk að menntamálin verði rædd á næstu dögum og vikum.

Frú forseti. Ég og fleiri hafa komið inn á það hér hversu óvanalegar þær aðstæður eru sem við búum við nú í tengslum við þessa vinnu, með tilliti til knapps tíma. Því til viðbótar er rétt að nefna að til framtíðar þarf að breyta starfsáætlun til að gefa meiri tíma fyrir umræður um ríkisfjármálin að vori í stað þess að þær verði nær eingöngu að hausti í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps.

Að lokum, frú forseti. Þessi áætlun endurspeglar áherslur okkar á að setja velferðina í algeran forgang í ríkisfjármálum. Með henni náum við að efla verulega heilbrigðiskerfið og félagslega þjónustu og skila á sama tíma áætlun til næstu fimm ára sem ætti að styðja við hagstjórnina á þenslutímum og stuðla þannig að vaxtalækkunum, sem er stærsta hagsmunamál heimila í landinu.



[18:52]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Hún nefndi bæði menntamál og NPA. Mig langar að spyrja hana aðeins út í það, í fyrsta lagi NPA og þann ágreining sem sveitarfélögin hafa gert. Það liggur a.m.k. fyrir að menn hafa ekki sömu skoðun á því hvað hlutirnir kosta og hvað þarf til. Það var þannig að ríkið greiddi 20%, það er komið upp í 25%, en sveitarfélögin segja að það hlutfall þurfi að vera í kringum 30%. Samkvæmt frumvarpinu kostar þetta 1.336 milljónir. Það þýðir að ef við komum ekki til móts við sveitarfélögin munar í kringum 270 millj. kr. Við fengum vissulega óundirritað plagg í hendur þar sem m.a. var talað um að fara ætti ofan í þau gráu svæði sem eru á milli ríkis og sveitarfélaga. Mér finnst það viðhorf sem birtist hér í fjármálaáætluninni kannski vera enn einn pósturinn sem er viðhaldið sem gráum. Það er ekki leyst úr þessu.

Það stendur á bls. 317, og vekur ákveðna athygli, að það sé fyrirséð að með bættri heilbrigðisþjónustu muni fjölga í hópi fatlaðs fólks og að í samræmi við hugmyndafræðina um NPA, þ.e. einstaklingsbundna þjónustu, muni þörf á þjónustu aukast. Þá veltir maður enn frekar fyrir sér hvort þetta nái endum saman ef við ætlum að lögfesta aðstoðina. Það hefur verið mikil krafa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að fjármunir verði að fylgja þeirri innleiðingu.



[18:55]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Þetta eru alveg rétt atriði sem hv. þingmaður bendir á. Mér vitandi er planið að fjölga þeim sem nýta sér þessa þjónustu ár frá ári samkvæmt til þess gerðu plani. Ég get ekki annað en tekið undir að þetta samkomulag er að mínu viti ekki alveg frágengið. Ég treysti mér ekki til að standa hér og álykta um það, ég get bara endurtekið það sem ég hef verið fullvissuð um, að frá þessu verði gengið og við þetta staðið. Varðandi nákvæma útfærslu þá er það eitt af þeim atriðum sem við munum hafa tækifæri annars vegar til á morgun að spyrja viðkomandi fagráðherra um og hins vegar að taka fyrir á fundum nefnda á næstunni.



[18:55]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er kannski það sem við verðum að horfast í augu við, ekki er gert ráð fyrir þessum fjármunum. Ef fólki sem á rétt á slíkri aðstoð fjölgar stækkar þetta bil væntanlega. Mér þykir það mikið áhyggjuefni og þess vegna spyr ég. Það er alveg rétt að við getum spurt fagráðherrann á morgun, en textinn er a.m.k. ekki skýrari en svo að hann gefur til kynna að ekki sé ráð fyrir þessu gert.

Hv. þingmaður kom líka inn á framhaldsskólann, skólamálin og háskólamálin. Við höfum aðeins rætt þau í dag. Ég verð að segja að það olli mér miklum vonbrigðum að sjá að uppsafnaður niðurskurður í framhaldsskólunum er 1.700 millj. kr. Þingmaðurinn kom inn á að það ætti að verða til svigrúm innan skólanna. Miðað við þessa áætlun fæ ég ekki séð hvernig það eigi að myndast. Aurarnir áttu að verða eftir, það átti ekki að skerða þá fjármuni sem skólarnir fengu miðað við fjárlögin eins og þetta var rætt þegar námið var stytt. Við vitum og höfum heyrt af framhaldsskólum sem eru ítrekað í mjög miklum vandræðum. Bæði er uppsöfnuð þörf á tækjakaupum og öðru slíku og þeir fjármunir sem hafa verið settir í það, t.d. það sem fjárlaganefnd setti fyrir jólin, voru bara upp í nös á ketti. Það var bara til að seðja sárasta hungrið hjá sumum. Við þurfum að kalla eftir því í fjárlaganefnd hvernig því fé var úthlutað. Við eigum eftir að fá að vita það.

Ég hef miklar áhyggjur af framhaldsskólunum, ekki síður en háskólunum sem segjast þurfa að skera niður námsbrautir. (Forseti hringir.) En ég spyr um loforðið vegna styttingarinnar, að þar sé svona mikill niðurskurður.



[18:58]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa spurningu og andsvar frá hv. þingmanni. Ég veit ekki hvort við horfum á þetta algerlega hvor frá sínu sjónarhorninu. Þegar ég rýni í tölurnar og legg jafnframt til grundvallar þá staðreynd að þriggja ára nám til stúdentsprófs fækkar eðlilega nemum þá er um að ræða aukningu á hvern nemanda miðað við þessar tölur. Í því liggur þessi bæting, ef svo má segja. Það er ekki verið að skerða fjárframlög, ekki fyrir þann nemendabasa sem er inni í skólunum. Það liggur fyrir og kemur skýrt fram í áætluninni líka að vonir standi til að þar muni skapast það svigrúm sem talið er að vanti inn í skólana. (Gripið fram í.) Það er þannig sem ég sé þetta. Þetta er hækkun á hvern nemanda.



[18:59]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði um heilbrigðis- og menntakerfið. Annars vegar var talað um uppbyggingu og kannski viðhald húsnæðis sem ákveðin aukafjárframlög í heilbrigðiskerfið. Þá langar mig að spyrja hversu miklu sé verið að bæta við í heilbrigðiskerfið ef við drögum frá þá uppbyggingu. Það væri held ég hjálplegt fyrir umræðuna að vita hversu mikið heilbrigðisþjónustan sjálf, utan þess stoðkerfis sem þarf í húsnæði og viðhald, kemur til með að fá.

Svo varðandi menntamálin. Jú, þetta er kannski aðeins meira en á síðasta kjörtímabili. Háskólinn fær 6,7% á öllu tímabilinu miðað við fjárlög 2017. Áætlun 2022 er 6,7% hærri en fjárlög 2017. Það er ekki mikil hækkun á fimm árum.

Þar kemur líka til, eins og hv. þingmaður kom inn á, rannsóknir og nýsköpun. Það er hækkun um 3,4% á fimm árum frá 2017. Mig langar að spyrja hvernig það sé hækkun til málaflokkanna þegar hagvaxtartölur eru á bilinu 14–19%, eftir því frá hvaða ári maður skoðar það.



[19:01]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mig langar áður en ég kem að raunaukningunni eða fyrri spurningunni að benda á — af því að mér finnst skautað hratt yfir það núna, að fjárfesting í nýjum spítala sem loksins er að verða veruleika sé ekki alvöru því að það sé búið að tala svo lengi um hann og/eða þá að af því að búið er að tala svo lengi um hann sé sú fjárfesting ekki alvörufjárfesting í heilbrigðiskerfinu — að meðan fjármununum er varið í það er þeim ekki varið í eitthvað annað. Þetta er sett í lykilforgang núna því að það má bara ekki bíða lengur.

En um spurninguna hver raunaukningin sé þá er á liðnum Sjúkrahúsþjónusta spítalinn tekinn og þegar hann er dreginn frá telst mér til, samkvæmt sérfræðingum í ráðuneytinu, að raunaukningin þess utan sé 15%.

Síðan hvað varðar seinni spurninguna, hvernig aukning um 3–4% … (Gripið fram í.) Já, fyrirgefðu. En þetta eru rauntölur, hagvaxtartölur. Þetta er aukning. Það liggur fyrir. Það er verið að leggja í þetta. Það má alltaf gera meira. Eins og ég talaði um áðan held ég að í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á heilbrigðismálin og velferðarmálin í ríkisfjármálaáætlun séu líkur á að menn vilji skoða menntamálin og ræða hvernig megi vinna sem best úr þeim málum. Ég hlakka til þeirrar umræðu. Hún mun vera þörf.



[19:02]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði einmitt um það sem er umfram þá aukningu sem er á vergri landsframleiðslu. Það meðaltal eykst. Framlög til háskólastigsins eru lægri en hagvöxturinn.

Hvað varðar sjúkrahúsþjónustuna er heildarhækkun til hennar árin 2017–2022 19,8%. Miðað við að þjónustan sé 15% þýðir það að uppbygging til spítalans er þau 4,8% sem eru þar á milli.

Ég leyfi mér að finnast þær tölur eilítið lágar fyrir uppbyggingu á spítalanum. Það væri ágætt að fá frekari upplýsingar um hvort það standist varðandi framlög til þjónustunnar sjálfrar utan viðhalds og uppbyggingar, sem er að sjálfsögðu nauðsynleg og hefur verið nauðsynleg lengi, það er þess vegna sem ég tek það aðeins út fyrir sviga, til að sjá þróunina á þjónustustiginu sjálfu. Ef það er 15% fylgir það landsframleiðslu og er gott. En það þýðir að uppbyggingin er aðeins 4,8% af þeirri tölu, sem mér finnst dálítið lágt.



[19:04]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Ég verð að játa að nú er kollegi minn úr hv. fjárlaganefnd búinn að koma mér í ákveðinn bobba því að ég ætlaði að vanda verulega vel til verka og vera með glóðheitar upplýsingar úr ráðuneytinu. Ég verð eiginlega að segja pass á nánari útreikninga. En ef ég má, með leyfi, hlakka ég til samstarfs og samtals við hv. þingmann um málið á komandi dögum.



[19:05]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil ræða stuttlega um að þegar ákveðið var að þessi umræða færi ekki fram á þriðjudegi heldur miðvikudegi og fimmtudegi ræddi ég við hæstv. forseta þingsins og sagði frá því að ég hefði lofað að lesa Passíusálm klukkan sex á þessum degi og spurði hvort það myndi ekki hafa áhrif á fundinn. Forseti sannfærði mig um að það myndi ekki valda vandræðum. Ég ítrekaði þetta við hæstv. 1. varaforseta hér áðan og hann sagði mér að allir hefðu skilning á þessu.

Nú er ég kominn aftur en vil þó vitna lítillega í sálminn sem ég las, þótt ég sé ekki að líkja mér við þann sem ort var um.

Eða hvar fyrir hirtist hann,

hirtingar til sem aldrei vann?

Ég ætla að fá, forseti, að enda á sálmi eftir Ólínu Andrésdóttur: (Forseti hringir.)

Ég trúi og til þín flý,

það traust minn styrkur er,

ég örugg aftur sný

og allur kvíði þverr.

(Gripið fram í: Amen.)



[19:06]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar er svik við kjósendur og almenning í landinu. Hún er svik við ungt fólk jafnt sem aldraða. Áætlunin er í engu samræmi við kosningaloforð. Viðreisn og Björt framtíð sem vildu mála sig upp þegar þeim fannst við eiga sem jafnaðarmenn í kosningabaráttunni hafa fallist á allar áherslur Sjálfstæðismanna. Hvar er uppbygginguna sem lofað var að finna í þessari áætlun? Hvar er hina skynsamlegu sveiflujöfnun að finna? Hvar er að finna aðgerðir sem stuðla eiga að efnahagslegum stöðugleika? Hvar eru aðgerðirnar sem eiga að stuðla að félagslegum stöðugleika og friði á vinnumarkaði? Svarið við öllum spurningunum er: Hvergi.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar skilar þar auðu enda stóð aldrei annað til á þeim bænum. Skattar eru meira að segja lækkaðir á tíma hagvaxtar og þenslu. Kannast einhver við það? Virðisaukaskattur var lækkaður á árinu 2007 úr 14% í 7%. Það voru hagstjórnarmistök í bullandi góðæri. Nú á að leika svipaðan leik með lækkun á almenna virðisaukaskattsþrepinu frá 1. janúar 2009.

Lagðar eru til auknar álögur á ferðamenn. Það er mikilvægt til að hægt sé að mæta kostnaði við komu þeirra og styrkja innviðauppbygginguna hér á landi eins og hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum er tíðrætt um. En sveitarfélögin mega ekki gleymast í umræðunni um innviðina. Þau hafa ekki notið góðs af auknum straumi ferðamanna samanborið við ríkissjóð í gegnum virðisaukaskattskerfið. Tryggja þarf að sveitarfélögin njóti góðs af hækkun virðisaukaskattsins. Stærsti útgjaldaliður sveitarfélaga er rekstur grunn- og leikskóla. Þar sjáum við fram á grafalvarlegan skort á kennurum; nú þegar ríkisstjórn eykur loks tekjur sínar af ferðamönnum og hefur enn meira svigrúm til að bregðast við heldur hún áfram að velta brýnum fjárhagsvanda fólks yfir á sveitarfélögin. Það eru kaldar kveðjur nýrrar ríkisstjórnar.

Þegar fjármálaáætlunin var kynnt voru stóru fyrirsagnirnar: 20% aukning til heilbrigðiskerfisins. Það gleymdist að segja frá því í leiðinni að stærsti hluti þeirrar aukningar er bygging nýs Landspítala. Ég fagna því auðvitað að byggja eigi nýjan spítala. En hverjum hefði dottið það í hug fyrir kosningar að samhliða loforði um byggingu spítalans ætti að skera niður þjónustu á sjúkrahúsunum á Akureyri og Landspítalanum? Sú viðbót sem ætluð er til spítalanna nægir ekki einu sinni til að mæta fjölgun sjúklinga, hvað þá að hún dugi til að vinna á biðlistum, nauðsynlegum tækjakaupum eða viðhaldi. Það þýðir niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Var því lofað fyrir kosningar?

Nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu verður tekið í notkun 1. maí. Breytingin felur í sér að sett er tæplega 70 þús. kr. þak á ári á greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir þjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa, sérgreinalækna, myndgreina, rannsókna og þjálfunar. Breytingin er að mestu fjármögnuð með tilfærslu á kostnað þeirra sem þurfa mikla heilbrigðisþjónustu til þeirra sem þurfa minni þjónustu. Það þýðir að fyrir allflesta sem þurfa tilfallandi þjónustu munu gjöldin hækka umtalsvert áður en þaki er náð.

Við samþykkt laganna gaf þáverandi heilbrigðisráðherra sem nú situr í hæstv. ríkisstjórn sem menntamálaráðherra loforð um að þakið fyrir almenna sjúklinga yrði lækkað í 50 þús. kr. og fjármagnað á fjárlögum fyrir árið 2017. Það er svikið.

Samfylkingin vill að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og talaði fyrir því fyrir kosningar að greiðsluþátttaka sjúklinga yrði lækkuð í áföngum. Þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar um fyrsta áfanga er nú í meðferð velferðarnefndar og gengur út á að heilsugæsla verði gjaldfrjáls, læknisþjónustan utan heilsugæslu fari ekki upp fyrir 35 þús. kr. á ári og greiðsluþátttaka aldraðra og öryrkja í tannlækningum verði lækkuð. Nú á að jafna greiðslubyrðina með því að færa þungann á þá sem sjaldan fara til læknis af langveikum sem hafa of lengi borið of þungar byrðar. Það að almennir sjúklingar greiði hærri gjöld getur leitt til þess að enn fleiri seinki því að fara til læknis með tilheyrandi kostnaði síðar meir. Það er enn dýrara fyrir samfélagið ef sjúklingar draga að leita sér lækninga og annarrar heilbrigðisþjónustu. Þeir sem hafa næg fjárráð þurfa ekki að hugsa sig um tvisvar. Það þurfa tekjulágir hins vegar að gera.

Byggja á fimm ný hjúkrunarheimili á tímabilinu sem skila munu 261 nýju hjúkrunarrými. Þessi áform voru í áætlun fyrri ríkisstjórnar og duga skammt. Núverandi ríkisstjórn skýtur vanda tengdum öldrun þjóðarinnar til lausnar fyrir þarnæstu ríkisstjórn og skilar engu til lausnar þess vanda sem fyrirsjáanlegur er á kjörtímabilinu. Fjölgunin sem áformuð er nemur einungis helmingi af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými fram til ársins 2020. Þessi fjölgun er því langt undir áætlaðri þörf á því tímabili sem áætlunin nær til. Auk þess er ekki að sjá þess merki í áætluninni að gera þurfi ráð fyrir viðbótarfjármagni til reksturs hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu á tímabilinu þrátt fyrir viðvarandi rekstrarvanda margra stofnana á þessu sviði. Ef fram fer sem horfir segja aðilar sig frá rekstri heimilanna. Skila honum í fang ríkisins vegna vanfjármögnunar. Þær aðgerðir eru nú ræddar í sveitarfélögum víðsvegar um land.

Til að mæta húsnæðisvanda sýnist mér að efna eigi loforð sem fyrri ríkisstjórn gaf við kjarasamninga en svo er ekki að sjá á tölunum í áætluninni að meira eigi að gera. Húsnæðisstuðningur lækkar strax á árinu 2019 og lækkar út tímabilið. Dregið er úr húsnæðisstuðningi í vaxtabótakerfinu og viðmiðunarfjárhæðum þar haldið föstum allt tímabilið sem þýðir að fækka mun í hópi þeirra sem fá vaxtabætur og draga enn frekar úr jöfnunarhlutverki kerfisins. Þetta kemur verst við fólk með lágar og meðaltekjur. Húsnæðisbótakerfið virðist eiga að veikja líka sem er afar slæmt fyrir leigjendur en í þeim hópi er helst að finna fólk, fullorðna og börn, sem líklegast er til að búa við efnislegan skort. Ekki batnar sú mynd þegar útgjöld til barnabóta er skoðuð. Barnabætur halda áfram að dragast saman að raungildi líkt og undanfarin ár. Fjölskyldum sem fá barnabætur fækkaði um tæplega 12 þúsund milli áranna 2013 og 2016 og mun samkvæmt fjármálaáætlun halda áfram að fækka á næstu árum. Útgjöld til barnabóta hafa dregist saman að raungildi undanfarin fjögur ár og ekki annað að sjá en að draga eigi enn frekar úr stuðningi við barnafjölskyldur.

Barneignum hefur fækkað á síðustu árum. Þessi staða, samhliða hraðri öldrun þjóðarinnar, hefur mikil áhrif á aldurssamsetninguna til framtíðar og skynsamleg langtímasýn í efnahagsmálum fæli í sér að nýta þau hagstjórnartæki sem geta haft jákvæð áhrif til framtíðar, svo sem hærri barnabætur sem fleiri fjölskyldur njóta, lengra fæðingarorlof og húsnæðiskerfi sem þjónar ungu fólki. Ekkert af þessu er að finna í fjármálastefnu eða áætlun ríkisstjórnarinnar. Þvert á móti eru kerfin sem gagnast best ungum barnafjölskyldum veikt.

Sömu sögu er að segja um menntakerfið. Samkvæmt mati háskólarektors er ekkert viðbótarframlag til reksturs háskóla fyrr en 2020 en sú viðbót mun ekki duga til að háskólastigið nái meðaltalsfjármögnun OECD.

Fjárhagslegan ávinning sem kemur fram í framhaldsskólakerfinu vegna styttingar námstímans á ekki að nýta til að bæta þjónustu við nemendur í framhaldsskóla með fjölbreyttara námsframboði, stoðþjónustu eða betra aðgengi að námi um allt land. Þessu var hins vegar lofað en er nú svikið.

Hækka á frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 25 þús. kr. á mánuði í 100 þús. kr. í áföngum á árunum 2018–2022. Hækkun frítekjumarks á atvinnutekjur nýtist eingöngu þeim lífeyrisþegum sem stunda atvinnu og hafa tekjur umfram 25 þús. kr. en það eru aðeins um 13% ellilífeyrisþega sem hafa yfirleitt atvinnutekjur. Samkvæmt áætluninni á að gera breytingar á lögum um örorkulífeyri almannatrygginga. Ekki er þó að sjá að gera eigi þær breytingar fyrr en á árunum 2019 og 2020 ef marka má viðbótarfjármagn sem áætlað er.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á starfsgetumat í stað örorkumats. Við undirbúning sérstakrar umræðu fyrr á þessu ári um kjör öryrkja kynnti ég mér tvær skýrslur um rannsóknir á afleiðingum starfsgetumats í Bretlandi. Önnur bar yfirskriftina: Ekki gera illt verra. Hin bar yfirskriftina: Hæfur til að starfa eða hæfur til að vera atvinnulaus? Báðar gefa rannsóknirnar afgerandi niðurstöður um slæm áhrif starfsgetumats á þá sem eru með skerta starfsgetu vegna geðrænna kvilla og langvarandi veikinda.

Hæstv. forsætisráðherra sagði kátur á dögunum að þegar ríkisstjórnin væri búin að lækka virðisaukaskattinn í 22,5% 1. janúar 2019 væri almenna þrepið hér orðið það lægsta á Norðurlöndunum. En áður en við segjum jibbí og húrra við þessu skulum við fá svör við því hvort þjónustustig velferðarþjónustunnar verður þá líka hér það lægsta á Norðurlöndunum. Nær væri að stefna að því að ná þeim góða félagslega jöfnuði sem einkennir Norðurlöndin, sem þar er greitt fyrir með stigvaxandi tekjuskatti og öflugu virðisaukaskattskerfi. Norðurlöndin eru einu samfélögin sem staðist hafa ágang frjálshyggjunnar, enda hafa jafnaðarmenn þar oftast verið við stjórnvölinn og hægri menn ekki gert breytingar á skattkerfi eða velferð þá sjaldan þeir hafa náð völdum. Við ættum að stefna þangað. Í átt að auknum jöfnuði og réttlæti. Fjármálastefna og fjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar fer með íslenskt samfélag í þveröfuga átt og svíkur fólkið í landinu sem bjóst við öðru eftir fagurgala í aðdraganda kosninga.



[19:16]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun til næstu fimm ára, bæði hugmyndir um tekjuöflun en líka fyrirhugaða skiptingu útgjalda milli málaflokka. Ég vil í upphafi segja að ég tel mikla þörf fyrir að tekjuöflunarkerfi ríkisins verði endurskoðað út frá þeim sjónarmiðum annars vegar að ríkissjóður — sem er til fyrir okkur, við erum ekki til fyrir hann — standi undir þeim samfélagslegu verkefnum sem við teljum að hann eigi að standa undir, en líka út frá þeim markmiðum að kerfið sé gagnsætt, skilvirkt og tryggi jöfnuð.

Ég tel ekki að þær breytingar sem boðaðar eru á skattkerfinu séu í þá átt. Ef við skoðum til að mynda hvernig ójöfnuður hefur þróast á Íslandi eins og í öðrum vestrænum samfélögum er staðreynd að ójöfnuður vex mest hvað varðar eignir, ekki tekjur. Ráðamenn hafa gjarnan talað um aukinn jöfnuð og horfa þá til teknanna. Raunar eru blikur á lofti varðandi það að sá aukni jöfnuður sem náðist á sínum tíma sé heldur að dvína. En þegar við lítum til eignanna er staðan sú að ríkustu 10% á Íslandi eiga 73% af öllum auðnum, ríkustu 20% eiga 90% af auðnum. Samt er ekki enn hafin nein umræða að ráði um hvort við teljum að það skattkerfi sem við höfum í dag stuðli að því að við getum náð fram jöfnuði þegar kemur að skiptingu auðs í samfélaginu.

Þá vitna ég til hugmynda um að skattleggja fjármagnið, auðinn, fjármagnstekjur í auknum mæli, og tryggja þannig betur grundvöll ríkissjóðs, en ná um leið fram markmiðum um aukinn jöfnuð. Ég vísa líka til þess sem hér hefur iðulega verið rætt í þessum sal, til auðlindagjalda, veiðigjalda, sem skipta verulegu máli til að tryggja þennan jöfnuð því að þar verða gríðarlegar tekjur til. En einnig snýst það um að almenningur fái sanngjarna rentu af sameiginlegum auðlindum.

Þær skattbreytingar sem hér eru boðaðar þjóna ekki þessu markmiði. Ég lýsi hins vegar ánægju með þá tillögu að lagt er til að hækka kolefnisgjaldið. Það tel ég mikilvægt skref í að koma á grænni sköttum. Ég hefði viljað sjá frekari breytingar í þá átt en lýsi ánægju með þá breytingu.

Ég varð auðvitað jafn hissa og ferðaþjónustan að sjá þá tillögu að hún verði færð í efra þrep virðisaukaskattskerfisins því að fyrir kosningar var ekki talað með þeim hætti til að mynda af Sjálfstæðisflokknum þar sem beinlínis stendur í kosningaáherslum þess flokks að skattlagning á greinina verði ekki aukin. Ég er því ekki hissa á að ferðaþjónustan sé hissa á að sjá þessa niðurstöðu.

Það eru margar fleiri leiðir til að styrkja tekjustofna ríkisins án þess að það bitni á almenningi í landinu. Í raun ættum við að horfa til þess hvernig við getum tryggt aukinn jöfnuð annars vegar með því að skattleggja fjármagnið og hins vegar að bæta kjör hinna verst settu, sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Ég gerði að umtalsefni í störfum þingsins fyrr í dag fólk sem er með 300 þús. kr., jafnvel 260 þús. kr. í heildarlaun og nær ekki endum saman. Það er sá hópur sem er á lægstu laununum, öryrkjar og aldraðir, sem við ættum að einbeita okkur að að bæta kjörin hjá og tryggja að geti náð endum saman í takt við þau útgefnu framfærsluviðmið sem stjórnvöld hafa sjálf birt á heimasíðu velferðarráðuneytisins.

Þetta eru stóru línurnar í því hvernig við högum ríkisfjármálum okkar, þ.e. hvar við sækjum tekjurnar og hvernig við skiptum gæðunum. Ég verð að segja að þær skattbreytingar sem hér eru lagðar til, fyrir utan kolefnisgjaldið, bera ekki endilega vott um mikla framsýni, þær bera ekki vott um þá sýn að við viljum tryggja aukinn jöfnuð í skattkerfinu. Þær bera ekki vott um neina raunverulega breytingarhugsun þegar kemur að því hvernig við öflum tekna fyrir sameiginleg verkefni okkar. Mér þykir það miður.

En það kemur kannski ekki á óvart ef við lítum á útgjaldaliðina. Þeir hafa fyrst og fremst verið til umræðu í dag, en eins og við sjáum og bent hefur verið á er sú aukning sem er boðuð í þessari fimm ára áætlun á mörgum sviðum orðum aukin.

Mér hefur orðið tíðrætt um málefni skólanna, menntamálin. Við eigum samþykkta stefnu Vísinda- og tækniráðs þar sem gert er ráð fyrir að framlög á nemendur á háskólastigi nái meðaltali OECD-ríkja 2016 og meðaltali Norðurlandanna 2020. Ég heyri hv. þingmann stjórnarliða koma hér upp og verja að það verði gert með því að fækka háskólanemum, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði fyrr í dag. Að fækka háskólanemum! Ég sé hv. þingmenn stjórnarliðsins koma hér upp eftir að stytting framhaldsskólans var innleidd, sem ég tel að gert hafi verið þvert á anda laga um framhaldsskóla sem gera einmitt ráð fyrir að framhaldsskólarnir hafi faglegt svigrúm til að bjóða upp á ólíkar brautir, faglegt frelsi. Það var yfirskrift þeirra laga sem gengu í gildi 2008, en síðan var ákveðið einhliða að stytta nám til stúdentsprófs í þrjú ár með þeim orðum að sá sparnaður sem hlytist af því nýttist til að styrkja skólana. En nei, hann nýtist ekki til þess því að boðaður er niðurskurður á framlögum til framhaldsskóla, með þeim rökum að nemendum sé að fækka. Þá á ekki að nýta það til að bæta stofnþjónustuna, efla gæðin, þann sparnað sem verður af að fækka nemendum, hvað sem okkur finnst um það. Þótt talsvert sé talað um geðheilbrigðismál í kaflanum um framhaldsskóla sé ég til að mynda ekki rætt um að gera eigi t.d. sálfræðiþjónustu eðlilegan hluta af starfi framhaldsskóla þannig að nemendur geti leitað eftir slíkri þjónustu. Hins vegar er talað mikið um að brottfall sé of mikið og ekki horft til þess að þær rannsóknir sem við eigum sýni að þar eru sálfélagslegar orsakir algengastar. Nei, boðaður er niðurskurður í menntamálum.

Hér hefur verið bent á að framlögin til sjúkrahúsþjónustu standi ekki undir fjölgun sjúklinga þegar frá er tekin bygging nýs Landspítala, sem við fögnum að sjálfsögðu og erum sammála um að er gríðarlega mikilvægt mál. En við megum ekki gleyma rekstri heilbrigðisþjónustunnar.

Ég gerði að umtalsefni fyrr í dag samþykkt þingsins um 100 ára afmæli fullveldisins, náttúruminjasafn sem þar samþykkt er að byggja eigi að upp en það finnst ekki í áætluninni, fyrir utan það að farið er mjög almennum orðum um að mikilvægt sé að vernda náttúruminjar. Þar er líka talað um stórátak í máltækni. Á að taka það af öðrum rannsóknum? Því að ekki sér þess stað í áætluninni nema við ætlum að taka það af öðrum rannsóknum, tökum það úr samkeppnissjóðum eða einhverju slíku.

Húsnæðismálin hafa verið gerð hér að umtalsefni. Viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta eiga að haldast óbreyttar. Verið er að ráðast í stórfelldar breytingar á húsnæðisstuðningskerfinu með ákvörðunum í gegnum fjárlög án þess að lögð hafi verið nein framtíðarsýn um hvernig nákvæmlega eigi að standa að stuðningi hins opinbera. Við eigum hér ákveðna framtíðarsýn þegar kemur að uppbyggingu leiguhúsnæðis í gegnum þau húsnæðisfrumvörp sem samþykkt voru á sínum tíma. En ítrekað, bæði á síðasta kjörtímabili og núna, hafa vaxtabætur verið skertar án þess að um farið hafi fram pólitísk umræða. Mér finnst það athugunarefni þegar við horfum á þann vanda sem er á húsnæðismarkaði í dag, framlög til húsnæðismála skerðast beinlínis.

Tíminn er stuttur. Ég verð að lokum að gera að umtalsefni hvernig nákvæmlega við ætlum að vinna þessa fjármálaáætlun. Nú er fyrirhugað að nefndir þingsins fái þessa áætlun til umsagnar. Nefndirnar hafa fengið vinsamleg tilmæli um að við þurfum að skoða sviðsmyndir, meta gæði mælikvarða, umsagnir okkar eiga að vera samræmdar í uppbyggingu og vissulega þurfi að koma með ábendingar um þau atriði sem ekki næst samstaða um.

Mér finnst þeir ekki skilja um hvað málið snýst sem skrifa þau tilmæli sem okkur voru að minnsta kosti send í efnahags- og viðskiptanefnd. Hér er verið að setja fram áætlun sem snýst um pólitíska grundvallarhugsun, hvernig við ætlum að afla tekna til að standa undir samfélagslegum verkefnum og hver þau samfélagslegu verkefni eigi að vera. Um það var kosið í haust. Hér stöndum við öll fyrir gríðarlega ólík sjónarmið. Og við fáum einhver undarleg tilmæli um að við eigum að skoða einhverja mælikvarða og sviðsmyndir og láta þess getið, líklega í neðanmálsgrein, ef við erum ekki sammála um þær pólitísku áherslur sem birtast í plagginu.

Frú forseti. Mér finnast vinnubrögðin í þessu máli heilt yfir ekki góð, allt frá því að fjármálastefnan kom hér inn og ekki var staðið nægilega vel að vinnunni í kringum það, til að mynda þegar kom að hlutverki efnahags- og viðskiptanefndar. Hér kemur fjármálaáætlun (Forseti hringir.) og við fáum einhver undarleg teknókratísk tilmæli um að skoða mælikvarða og sviðsmyndir. Ég held að fólk átti sig ekki á að hér er um að ræða hápólitískt plagg þar sem skilur á milli ólíkra flokka á Alþingi. Við erum að setja hér gríðarlega mikilvæg fordæmi og ég geri verulegar athugasemdir við þetta vinnulag Alþingis, frú forseti.



[19:27]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun næstu fimm ára. Eins frábært og það er að horfa fram á veginn gefur þetta okkur tækifæri til að skoða hvernig heimurinn verður í lok áætlunarinnar, hvernig árið 2022 lítur út.

Ef þjóðhagsspá stenst mun uppsafnaður hagvöxtur vera 19,4% frá því í ár, ef 2017 er talið með. Áætlunin sem sett er fram hér byggir mikið á þessum hagvexti en í stefnunni segir, með leyfi forseta:

„Verði vöxtur þjóðarútgjalda minni en spáin, sem hér liggur til grundvallar, segir til um er hætt við því að raunvöxtur tekna ríkisins verði einnig minni en ella og erfiðara gæti þá reynst að fylgja áformum eftir um batnandi afkomu ríkissjóðs.“

Þetta er algert lykilatriði í þessari fjármálaáætlun; hún segir það mjög skýrt og skilmerkilega og greinir þar frá sjálf.

Fjármálaáætlun byggir á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, sem er enn ósamþykkt, en í henni segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að útgjöld hins opinbera, að frátöldum vaxtagjöldum, vaxi sömuleiðis að miklu leyti í takt við nafnvöxt VLF …“.

Ef við kíkjum aðeins yfir þær tölur sem fjármálaáætlunin gefur okkur er munurinn á 2017 og 2022 12,1%. Ef fjárlögin yrðu eftir áætlun 2022 yrðu heildarframlög 12,1% hærri en í ár; vöxtur hins opinbera, útgjalda ríkisins: 12,1%. Verg landsframleiðsla er á sama tíma 19,4%. Samkvæmt fjármálastefnunni passar það ekki alveg saman.

Jöfn dreifing milli málefnasviða myndi þýða að öll málefnasvið yrðu bara hækkuð um 19,4% eða fylgdu vergri landsframleiðslu. En við röðum málum öðruvísi, við forgangsröðum. Þá er ágætt að fara yfir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Þar er mest lagt fram, fyrir utan almennan varasjóð og sérstakar fjárráðstafanir, til lyfja og lækningavara, eða hækkað um 53,8%. Einnig er vinnumarkaður og atvinnuleysi hækkað um 30%, örorka og málefni fatlaðs fólks um 26,5%, heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa 27,5%, sjúkrahúsþjónusta 19,8%, ferðaþjónusta 23,3% og nokkrir aðrir liðir. Það er áhugavert að þegar lagt er aukalega í nokkur málefnasvið er dregið úr í öðrum. Þar á meðal eru til dæmis rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar, sveitarfélög og byggðamál, landbúnaður, umhverfismál, framhaldsskólastig, háskólastig, málefni aldraðra og húsnæðisstuðningur. Öll þessi málefnasvið eru lækkuð með tilliti til hagvaxtar og sum meira að segja miðað við 2017, t.d. er húsnæðisstuðningur árið 2022 14% lægri en 2017.

Vandamálið er síðan að verðbólguspá jafnast á við spá um hagvöxt. Til að ná væntum útgjaldamarkmiðum þarf einhvers staðar að ná í pening umfram þann hagvöxt því að verðbólgan étur hagvöxtinn bara upp. Alla raunaukningu til málefnasviðanna verður að fjármagna með lækkun vaxta. Þeir duga skammt upp í þessa áætlun, ef svo fer fram sem horfir.

Ég vil skipta aðeins um gír og tala um eftirlitshlutverk þingsins með framkvæmd fjármála. Í lögum um opinber fjármál er kveðið á um að fjármálastefna skuli yfirfarin af fjármálaráði. En nú er það svo merkilegt að það níu blaðsíðna plagg sem fær sérstaka meðferð sérfræðinganefndar er fjármálastefnan, en fjármálaáætlunin, upp á rúmar 360 blaðsíður, fær ekki sérstaka meðhöndlun eins og fjármálaráði er gert með fjármálastefnuna. Helsti umsagnaraðili þingsins, sá sem hefur allar forsendur og upplýsingar, er sá aðili sem þingið á að hafa eftirlit með, þ.e. fjármálaráðuneytið. Það hefur allar upplýsingar um málið og matar þingið og eftirlitsstofnanir þess á upplýsingum sem þingið á síðan að nota til að hafa eftirlit með þeim framkvæmdaraðila. Það er mjög undarlegt.

En það sem er stórmerkilegt er að samkvæmt lögum um opinber fjármál á að útlista stefnu um skatta og eignir hins opinbera í fjármálastefnunni. Það eru nauðsynlegar upplýsingar fyrir fjármálaráð og umsögn þess. Þær upplýsingar er ekki að finna í fjármálastefnunni en birtast nú í fjármálaáætluninni. Það er aðeins of seint fyrir fjármálaráð og umsögn þess en samkvæmt lögum um opinber fjármál er umsögn fjármálaráðs algert lykilatriði í því gæðaeftirliti sem þingið á að sinna. Því var gefinn allt of stuttur tími og ónægar upplýsingar lágu fyrir. Miðað við það sem kemur fram í fjármálaáætlun vantaði ýmislegt í stefnuna, og svo umsögn fjármálaráðs. Þá get ég rétt ímyndað mér hvað ráðið hefði sagt um skattstefnuna miðað við til dæmis sjálfvirka sveiflujöfnun í hagkerfinu.

Nú var eitt helsta kosningamálið, nema kannski Sjálfstæðisflokksins, endurskipulagning í auðlindamálum, sérstaklega vegna auðsins í hafinu. En í þessari fjármálaáætlun er ekkert að finna um það kosningamál. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þá er fyrirhugaðri endurskoðun á gjaldtöku fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda hafsins ætlað að tryggja aukna sátt um stjórnkerfi sjávarútvegs.“

Sjálfstæðisflokkurinn vann. Allir aðrir töpuðu. Allir aðrir flokkar. Landsmenn.

Ekki er gert ráð fyrir kerfisbreytingum í meðferð á auðlindum hafsins í þessari fjármálaáætlun. Ekki er heldur gert ráð fyrir slíkum breytingum í fjármálastefnunni. Það er nákvæmlega ekkert sem segir að niðurstaðan verði aukin sátt. Við vitum öll hvað það orðalag þýðir í orðabók Sjálfstæðisflokksins. Viðreisn og Björt framtíð töpuðu. Allir aðrir töpuðu.

En hvað höfum við þá hér í höndunum? Við höfum fjármálaáætlun um lækkun skulda og lítið eitt annað; niðurgreiðslu skulda með arðgreiðslum úr bönkunum og áframhaldandi aðhald. Ég verð að spyrja mig hvort þeir flokkar sem leggja fram þessa áætlun hefðu treyst sér til að fara í kosningar með áætlunina. Í alvöru: Hvernig stendur þetta undir kosningaloforðum, eða, í tilfelli Bjartrar framtíðar, kosningaáherslum? Hvernig uppfyllir þetta orðin í stjórnarsáttmálanum? Er þessi stöðnun forgangsmál í heilbrigðisþjónustu? Er niðurskurður efling í menntakerfinu? Er stöðnun síðan aukinn kraftur í samgöngumálum? Þetta er eitthvert „Newspeak“ eða nýmæli, frú forseti.

Eins og kom fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar býr þessi áætlun í raun til það svigrúm sem þyrfti til að fara í uppbyggingu og er það heiðarleiki sem hefði verið vel þeginn fyrir kosningar. Möguleikinn sem við höfum í uppsveiflu í hagkerfinu er að auka tekjur, meira að segja án þess að hækka almenna skatta, til að ráðast í þessa nauðsynlegu uppbyggingu og jafnvel safna í sarpinn, t.d. með aðgerðum til að lækka vaxtakostnað. Raunveruleikinn er að stefnt er að skattalækkun í hagvexti. Umsagnaraðilar fjármálastefnunnar vöruðu við slíku. Í uppsveiflu á að hækka skatta og í niðursveiflu lækka þá. Það er hin svokallaða sjálfvirka sveiflujöfnun. Það getur nefnilega hæglega verið mun dýrara að tefja uppbyggingu eða viðhald en sparast með því að nota sömu upphæð í uppbyggingu innviða. Í einhverjum tilvikum er hægt að spara meira með því að byggja upp en með því að borga niður skuldir í einhverjum tilvikum. Erfiðar aðstæður í þekkingarsamfélaginu geta valdið spekileka sem getur tekið mörg ár að vinna upp aftur. Samgöngukerfi í niðurníðslu getur valdið miklum skaða, það getur mælst í mannslífum.

Og að lokum: Heilbrigðiskerfið, hið svokallaða forgangsmál ríkisstjórnarinnar, er byggt á baráttu Pírata og Samfylkingar og Vinstri grænna í fjárlagagerð í desember síðastliðinn. Sú barátta skilaði Landspítalanum og heilsugæslunni skuldlausum til núverandi ríkisstjórnar. Hið svokallaða forgangsmál er lítið annað en uppbygging sem var löngu búið að ákveða og skuldbinda og óbreytt ástand að auki.

Nú veit ég að hæstv. fjármálaráðherra er heiðarlegur maður. Mér þætti vænt um að fá að vita hvort þessi fjármálaáætlun stenst þær væntingar sem flokkur hans gerði sér fyrir kosningar. Ég hefði einnig áhuga á að heyra formann Bjartrar framtíðar útskýra hvernig þessi áætlun nær kosningaáherslum þess flokks. Ég fæ kannski að heyra það í framsögu hæstv. heilbrigðisráðherra á morgun.

En kæru Íslendingar. Næstu fimm árin verður óbreytt ástand eða niðurskurður í heilbrigðisþjónustu, menntamálum, samgöngumálum, velferðarmálum og svo mætti áfram telja. Ef við komumst í gegnum næstu fimm árin án þess að verða fyrir efnahagsniðursveiflu verðum við í ágætismálum. Spurningin er bara þessi: Var það það sem þú valdir með atkvæði þínu í október síðastliðnum?



[19:37]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og vil nefna nokkur atriði sem hann kom inn á. Hann benti m.a. réttilega á að húsnæðisliður lækkar á tímabilinu. Skýringin á því er sú að ríkið veitir sérstakt framlag, 3 milljarða króna, til uppbyggingar 2.300 íbúða í samvinnu við ASÍ. Við gerum það í ár og næsta ár og þeirri áætlun lýkur árið 2019. Það er skýringin á því. Ekki er neitt verið að draga úr á öðrum sviðum. Þessu verkefni lýkur bara.

Varðandi upplýsingar um skatta og eignir er rétt að upplýsa að þegar horft er á heildina yfir tímabilið er í raun og veru ekki um skattbreytingar að ræða en það er skattatilfærsla, eins og réttilega hefur verið bent á, þ.e. verið er að breikka hið almenna þrep og fækka undanþágum.

Ég held að sé afar mikilvægt að hafa í huga þá nefnd sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er nú að skipa um sátt í sjávarútvegi. Ég tel engar sérstakar líkur á því að ekki verði sátt um að breyta kerfinu þannig að það verði markaðskerfi í stað þess kerfis sem við höfum nú. Það er afar mikilvægt. Ég hygg að bæði flestir sem hér sitja á Alþingi og þeir sem starfa í greininni átti sig á því.

Ég vil að lokum geta þess að við hyggjumst líka auka skatttekjur með auknu eftirliti og baráttu við svarta hagkerfið, sem ég hef sett sem forgangsmál í mínu ráðuneyti.



[19:39]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það eru vissulega útskýringar á ýmsum breytingum þarna og þessi er vel þegin. Vera má að útskýringar séu á ýmsum öðrum tölum sem koma kannski betur fram í fjárlögunum þar sem við sjáum betur skiptinguna. Þetta er á málefnasviðsyfirliti svo erfitt er að sjá það flokkað hvar hvað kemur inn og af hverju.

Skatttekjur ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækka 2019–2022. Það er það sem ég vísa til með skattalækkun á tímabilinu.

Á síðasta kjörtímabili var reynt að ná sátt um stjórnarskrána. Ég held að það sé ekkert einfaldara mál í sáttameðferð en kvótakerfið. Ég er ekki bjartsýnn en það væri æðislegt ef það næðist. Það töluðu allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn á þeim nótum að gera ætti góðar breytingar á kvótakerfinu. Velflestir flokkar voru eftir kosningar líka sammála um að hægt væri að fara í breytingar á stjórnarskránni, en á síðasta kjörtímabili varð ekkert af neinni sátt aðallega vegna sérvisku eins flokks.



[19:41]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili nú ekki svartsýni hv. þingmanns. Ég held að ágætar líkur séu á að við getum náð sátt um ýmis mál hér í þinginu þótt ég geri mér fyllilega grein fyrir að þá þurfum við að breyta vinnubrögðum og kannski aðallega hugarfari okkar um ýmislegt og byrja störfin með það í huga að við ætlum að verða sammála í lokin og ekki útiloka fyrir fram að við getum náð málamiðlunum. Það er oftast þannig að ef menn ætla að ná sátt nær ekki annar fram öllu sínu heldur hafa báðir eitthvað til síns máls.

Ég er bjartsýnn á að sáttanefnd hæstv. sjávarútvegsráðherra muni bera nafn með rentu og að við munum sjá hér réttlátara kerfi sem bæði sjómenn, útvegsmenn og það sem skiptir mestu máli almenningur allur verði ánægður með.



[19:42]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki kalla þetta svartsýni. Ég vonast í alvörunni til að þetta virki og að það gerist eitthvað. Ég kalla þetta frekar raunsæi þar sem sagan segir okkur annað.

En núna er fullt af nýjum þingmönnum og kannski hefur það einhver áhrif. En ég held að við þurfum að skoða öll þessi mál á heildstæðan hátt og gera okkur grein fyrir að það er jú munur. Spurningin er bara sú hvort einn flokkur eigi að ráða meira en hinir, sér í lagi þegar viðkomandi flokkur er ekki með hreinan meiri hluta.



[19:44]
Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ein af stóru áskorunum fram undan er að Ísland sé samkeppnisfært samfélag og að hér séu næg tækifæri fyrir ungt fólk að koma undir sig fótunum og fjölbreytt starfsval sé í boði. Við viljum að hagkerfið okkar skapi vel launuð störf og velferðarsamfélagið dafni og vaxi. Menntunarstig þjóða ræður miklu um velsæld þeirra og tækifæri. Þjóðum sem leggja rækt við menntun og þekkingu farnast einna best til lengri tíma litið. Sjálfstraust og kjarkur til framfara eykst samhliða þekkingarsamfélaginu. Þess vegna viljum við að á Íslandi séu samkeppnisfærir háskólar sem búa framtíð landsins undir þær áskoranir sem fram undan eru og í leiðinni efli íslenskt samfélag.

Kynnt hefur verið fimm ára ríkisfjármálaáætlun og má segja að horfurnar séu að mörgu leyti bjartar fyrir íslenskt samfélag. Þjóðhagsspáin er góð, áframhaldandi hagvöxtur, hátt atvinnustig, skuldir ríkissjóðs lækka og afgangur á viðskiptajöfnuðinum. Að sumu leyti kjöraðstæður.

Ég spyr því: Hvernig stendur á því að ekki er verið að fjárfesta í framtíðinni, þ.e. háskólastiginu, eins og öll önnur samanburðarríkin í kringum okkur eru að gera? Samkvæmt áætluninni er sáralítil aukning í framlögum frá árinu 2019–2022. Ég á enn mjög bágt með að trúa að þetta sé menntastefna ríkisstjórnarinnar, sérstaklega í ljósi þess hversu vel árar í samfélaginu. Ég velti því fyrir mér þegar ég var að líta á þessar töflur hvort það væri hreinlega villa í töflunni fyrir háskólastigið. En svo komst ég að því að það er ekki raunin. Ef við lítum á raunvöxtinn á hverju ári er hann ekki nema 1,6%.

Ég veit að það getur verið mjög erfitt fyrir stjórnarliða að heyra þessa áætlun, sér í lagi þegar um er að ræða enga framtíðarsýn er varðar háskólastigið. Að sumu leyti má segja að um sé að ræða ákveðna afturför. Ég segi afturför vegna þess að í aðdraganda kosninganna var einhugur um að Ísland skyldi stefna að því að ná meðaltali OECD-ríkjanna á kjörtímabilinu hvað varðar fjárframlög á hvern háskólanema.

Ríkisfjármálaáætlunin er ekki í samræmi við fyrirheit kosninganna og er víðs fjarri stefnu Vísinda- og tækniráðs um að ná OECD-meðaltalinu og Norðurlandameðaltalinu árið 2020. Ljóst er að miðað við þessa áætlun og óbreyttan nemendafjölda á háskólastigi mun Ísland seint ná OECD-meðaltalinu, hvað þá Norðurlandameðaltalinu. Samkvæmt rektor Háskóla Íslands er eina leiðin til að ná þeim meðaltölum, miðað við áætlunina, að mikil fækkun nemenda verði á háskólastiginu. Er það það sem við viljum? Viljum við virkilega að til þess að við séum með þeim ríkjum og að getum borið okkur saman við sambærileg ríki þurfi að fækka nemendum á háskólastigi?

Að auki er Hús íslenskra fræða í áætluninni sem framlag til háskólanna. Umtalsverður hluti af þessari litlu aukningu fer til byggingar Húss íslenskra fræða fyrstu árin. Ekki er þannig gert ráð fyrir verulegri hækkun framlaga til háskólanna fyrr en eftir að húsið hefur verið reist árið 2020. Mér finnst um ákveðna blekkingu að ræða að hafa þessa fjárfestingu í Húsi íslenskra fræða með í þessari áætlun. Í raun og veru er þetta fjárfesting. Það blekkir okkur svolítið þegar við skoðum þessar tölur að hafa þessa fjárfestingu þarna með því að við eigum þá aðeins erfiðara með að gera okkur grein fyrir rekstrarframlögunum.

Ég ætla aðeins að koma að rektor Háskóla Íslands. Hann segir að fram undan sé niðurskurður. Framtíðarsýnin sem ríkisstjórnin bjóði upp á sé að fækka námsgreinum og námsleiðum. Þess vegna er rætt um aðför að rannsóknarháskólunum.

Annað þarf að skoða í þessu samhengi, hvort fimm ára ríkisfjármálaáætlunin sé í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, samgöngum, heilbrigðis- og menntakerfi og kraftmiklu og samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt.“

Hljómar allt vel og gefur góð fyrirheit. Einnig segir í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta:

„Styðja skal háskólana í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni um leið og samvinna og samhæfing íslenskra háskóla- og vísindastofnana verður aukin. Endurskoða þarf reiknilíkön skólakerfisins með tilliti til mismunandi kostnaðar og fjölbreytts nemendahóps.“

Þetta hljómar allt bara mjög vel. En maður er mjög hissa á að sjá þetta ekki í fimm ára ríkisfjármálaáætluninni. Ég spyr stjórnarliða: Hvernig getur verið svona mikið ósamræmi í stjórnarsáttmálanum og fimm ára ríkisfjármálaáætluninni? Það er í raun sorglegt að þurfa að benda á hversu litla framtíðarsýn ríkisstjórnin hefur í þessum málaflokki.

Á næstu misserum munum við sjá miklar framfarir er varða tölvutækni, gervigreind og vélmennavæðingu. Hlutfall slíkra starfa mun aukast og þau grundvallast á þekkingu og menntun. Ef ekki er fjárfest í háskólastiginu dregst Ísland aftur úr. Hvert ár skiptir hér miklu máli. Því er fimm ára ríkisfjármálaáætlunin reiðarslag fyrir háskóla og vísindasamfélag Íslands.

Virðulegi forseti. Eftir eitt mesta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar er háskólastiginu á Íslandi ekki sýnd sú vegsemd og virðing sem vera ber. Við erum ekki að undirbúa okkur fyrir framtíðina með þessu stefnuleysi. Við blasir undirfjármagnað háskólastig sem stenst engan samanburð þegar fram í sækir — það er enn tækifæri til að gera breytingar á ríkisfjármálaáætluninni og hvet ég alla sem að því geta komið til að stuðla að því að svo verði — háskólastig sem kemur illa út í öllum samanburði við lönd sem við viljum helst bera okkur saman við.



[19:52]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Í síðustu kosningum var hægri stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks felld með afgerandi hætti og það þrátt fyrir fordæmalausan uppgang í efnahagslífinu. Af hverju gerðist það? Jú, fólki rann m.a. til rifja að ekki var nógu vel hlúð að grunnstoðum á uppgangstímum. Gæðum var ekki nógu réttlátt skipt og ekki nógu vel hlúð að þeim sem lakast standa. Þrátt fyrir allar okkar auðlindir og ótal möguleika höfum við ekki nýtt tækifæri til að standa jafnfætis nágrönnum okkar á Norðurlöndum.

Eftir loforðaflaum fyrir kosningar biðu því margir spenntir eftir þessu plaggi en því miður, það er vonbrigði. Allt of lítil innspýting er í vanfjármagnað heilbrigðiskerfi og áfram verðum við hálfdrættingar á við Norðurlöndin þegar kemur að framlögum á hvern háskólanema. Þá mun lítið fé renna til samgöngumála og það lítið að innviðir munu áfram grotna niður. Það eru engin fyrirheit um að styrkja stöðu þeirra sem lakast standa en í dag étur síhækkandi húsnæðiskostnaður upp allan ávinning almennings af betra efnahagsástandi.

Ríkisstjórninni tekst meira að segja að gera vonda brauðmolakenningu enn verri. Brauðmolarnir munu nú falla af borði ungs fólks á fasteignamarkaði til stóreignafólks sem hagnast á sífellt hærra fasteignaverði. Ójöfnuður mun aukast á sama tíma og hver rannsóknin eftir aðra frá alþjóðastofnunum sýnir að aukinn jöfnuður leiðir til meiri hagvaxtar og meiri heildarhamingju.

Fjármálaráðherra talar einna mest um aðgerðir til að lækka gengið sem mun draga úr kaupmætti venjulegs fólks, allt í nafni stöðugleika. Hvert er svo framlag ríkisstjórnarinnar til stöðugleikans? Jú, skattalækkanir. Það er fráleit forgangsröðun að lækka virðisaukaskatt og hvetja til einkaneyslu á þenslutíma. Betra hefði verið að nýta þá 13 milljarða sem glatast úr ríkissjóði til að lækka tryggingagjald strax sem leggst þyngst á lítil og meðalstór fyrirtæki, þekkingargreinar sem byggja á hugviti. Þekkingin spyr nefnilega ekki um landamæri heldur um starfsumhverfi og stöðugleika. Þarna birtist því fráleit forgangsröðun.

Þá má ekki gleyma þeim afleitu aðstæðum sem slíkum fyrirtækjum er boðið upp á með sveiflandi örmynt. Sem minnir reyndar á helsta heimanmund ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar, rifrildi hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra fyrir opnum tjöldum um peninga og gjaldmiðlastefnu. Ekki er það nú til að auka trúverðugleika.

Ég hef áhyggjur af því að nú verði sömu mistökin og fyrir hrun endurtekin. Skattalækkanir á þenslutímum, einkavæðing banka á kjörtímabili í blindri trú á frjálshyggjuna án þess að stefnan sé skýr og að dregið verði úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Hvenær munu fréttir af skipbroti nýfrjálshyggjunnar berast upp í ráðuneyti?

Stórkostlegar yfirlýsingar stjórnarliðsins um að fram undan sé mikil uppbygging heilbrigðis- og velferðarkerfisins hafa á fyrstu dögum verið hraktar af stjórnarandstöðunni, forstöðumönnum og almenningi. Fólk lætur ekki hafa sig að fífli endalaust. Rektor Háskóla Íslands hefur stigið fram og sagt fjárframlög næstu ára valda miklum vonbrigðum og ekki samræmast loforðum sem gefin voru fyrir kosningar. Á næstu árum mætum við stærstu samfélagsbreytingum frá iðnbyltingu 19. aldar. Öflugt menntakerfi verður afgerandi um það hvort við Íslendingar getum tekist sómasamlega á við þær. Þessi skammsýni er því ekki í boði. Menntun er lykill að vel launuðum störfum og öflugu atvinnulífi og heilt yfir að farsælli framtíð fyrir Íslendinga.

Við verðum að hugsa lengra fram í tímann. Það felst enginn sparnaður í að ráðast ekki í uppbyggingu á brothættri almannaþjónustu eins og haldið er fram í áætluninni á bls. 12. Það birtist því miður engin framsýni í þessari áætlun. Hér birtist gamaldags hægri stefna sniðin að sérhagsmunum og hætt við að áfram verði því ákall frumframleiðslugreinanna um sértækan stuðning, inngrip í gengi, eins og hefur verið raunar alla 20. öldina.

Áttar hæstv. fjármálaráðherra sig ekki á þeirri gríðarlegu samfélagsbyltingu sem bíður handan hornsins? Í fyrsta lagi þurfum við meiri pening í menntakerfið þannig að það geti greitt okkur leið inn í framtíðina. Í öðru lagi þurfum við meira fjármagn til heilbrigðismála sem gerir okkur fært að sækja nauðsynlega þjónustu óháð efnahag. Í þriðja lagi þurfum við fé til vegamála til að takast á við sívaxandi umferð, auka öryggi og jafnvel forða innviðum frá því að drabbast niður. Og í fjórða lagi þurfum við stórátak til að tryggja félagslegan stöðugleika og mæta þeim sem minnst bera úr býtum í samfélaginu. Það er hinn raunverulegi sparnaður, hæstv. ráðherra, en krefst um leið uppbyggingar.

Við heyrum sífellt sögur af allt of miklum skerðingum í almannatryggingakerfinu. Öryrkjar og eldri borgarar mega ekki hafa tekjur án þess að bætur skerðist. Gert er ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki í samræmi við prósentuhækkanir á almennum vinnumarkaði en það þýðir með öðrum orðum að bætur munu hækka minna en lágmarkslaun og staða lífeyrisþega versnar.

Það þarf einfaldlega að setja meira fjármagn í almannatryggingar. Allir flokkar tala á hátíðisdögum um að börn eigi ekki að líða fyrir fjárhagsstöðu foreldra sinna. Samt búa yfir sex þúsund börn við skort á Íslandi. Engir viðbótarfjármunir eru þó veittir í útgreiðslu barnabóta. Engin áform eru um að lengja fæðingarorlof til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Barnafjölskyldur eru skildar eftir.

Ungt fólk er að festast í fátæktargildru. Þenslan á húsnæðismarkaði veldur miklum vandræðum sem þarf að bregðast við með afgerandi hætti. Ríkið þarf að koma strax að uppbyggingu á félagslegum úrræðum. Ekkert er fjallað um húsnæðismál í stjórnarsáttmála. Það var því kaldhæðnislegt að eitt af fyrstu verkum hæstv. félagsmálaráðherra hafi verið að lýsa yfir neyðarástandi á húsnæðismarkaði og stofna nefnd um málið. Við í Samfylkingunni höfum bent á ófremdarástand á húsnæðismarkaði í fjögur ár en því miður við litlar undirtektir. Því biðum við spennt eftir fjármálaáætluninni. En hvað birtist okkur þar? Framlög í liðinn húsnæðisstuðning fara úr rúmum 14 milljörðum árið 2017 og enda árið 2022 í 12 milljörðum. Þau lækka um 2 milljarða. Viðbrögðin við neyðarástandinu eru 15% lækkun á húsnæðisstuðningi.

Frú forseti. Fyrir kosningar voru allir flokkar sammála um algera nauðsyn þess að styrkja opinbera heilbrigðiskerfið. Yfir 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun þess efnis að framlög til heilbrigðismála yrðu 11% af landsframleiðslu. Framlögin verða 7,85% af landsframleiðslu í lok tímabilsins eða 0,85% prósentustiga hækkun. Hér birtist ekki mikil virðing fyrir nokkurra mánaða gömlu kosningaloforði.

Sé horft til skemmri tíma blasir jafnvel við enn dekkri mynd. Framlög til reksturs sjúkrahúsþjónustu árið 2018 verða aðeins 0,41% hærri en í ár. Það dugar ekki til að halda í við áætlaða þjónustuaukningu vegna fjölgunar landsmanna og ferðamanna. Hvað þá til að takast á við kostnað sem fylgir sífellt hækkandi aldri þjóðarinnar. Líklega þarf að skera niður í starfsemi Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri á næsta ári.

Ekki er hægt að ljúka umfjöllun um fjármálaáætlunina án þess að tala um áhrif hennar á efnahagslífið í heild, ekki síst útgjaldareglu ríkisstjórnarinnar. Með útgjaldareglunni virðist allt traust vera lagt á sífellt bólgnara hagkerfi. Verði héraðsbrestur með magrari árum lendir ríkisstjórnin í spennitreyju með bara einn hlut í vopnabúrinu, niðurskurðarhnífinn. Að festa útgjöld ríkisins sem 41,5% af landsframleiðslu þegar þessi ríka krafa er um að útgjöld aukist er stórhættulegt. Svigrúm til að auka útgjöld er of lítið og gefur ríkinu takmarkað svigrúm til að halda efnahagslífinu gangandi ef um hægist.

Við upplifum methagvöxt í hinum vestræna heimi. Hann vill ríkisstjórnin nýta í þágu þeirra sem best standa. Allir flokkar, líka flokkarnir í ríkisstjórn, skulda landsmönnum að standa við stóru orðin sem féllu fyrir kosningar. Ríkisstjórn sem hvílir á veikum meiri hluta, nýtur lítils stuðnings samkvæmt skoðanakönnunum og logar í innbyrðis deilum um flest mál hefði betur leitað sátta við stjórnarandstöðuna við útfærslu á þessari fjármálaáætlun.

Frú forseti. Ísland er í sóknarfærum til að nýta einstakt árferði. Það er til komið vegna vel heppnaðrar úrvinnslu efnahagsmála í kjölfar hrunsins, makrílgöngu og stóraukinna heimsókna ferðamanna. Allt þetta hefur lagt grunninn að þeirri velgengni sem við búum við í dag. Við eigum að geta byggt upp farsælt, friðsælt samfélag sem er eftirsóknarvert að lifa í. Því miður virðist ríkisstjórnin ekki hafa framsýni eða kjark til að stefna þangað. Það er sorglegt.



[20:01]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að nýta þetta andsvar til að þakka fyrir allt það skjall sem fram kom í ræðu hv. þingmanns, heldur til að þakka þingmönnum almennt fyrir afar málefnalega umræðu. Mér finnst hafa tekist vel til. Mér finnst sem forsætisnefnd og forystumenn þingflokka hafi komist að góðri niðurstöðu um hvernig umræða af þessu tagi geti farið fram. Mér fannst mikið gagn af að heyra ræður hv. þingmanna. Mér fundust þær málefnalegar og var afar gagnlegt fyrir mig að sitja hér og hlusta á þær. Ég segi enn og aftur: Ég hlakka til þess að hv. fjárlaganefnd vinni að málinu áfram og veit að það verður gert í náinni samvinnu við fjármálaráðuneytið og fjármálaráðherra.



[20:02]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þá nota tækifærið líka til að þakka fjármálaráðherra fyrir að hafa staðið vaktina hér og tekið þátt í umræðum. Það er virkilega mikilsvert. Mér finnst þó miður að fleiri stjórnarliðar sjái sér ekki fært að fylgjast með umræðunum. Kannski sýnir það að þeir trúa því að við séum komin á slíka sjálfstýringu í ríkisfjármálunum að ekkert sé hægt að gera. Ekki er það nú gott. Ég held að við ættum að nota þetta tækifæri til að takast aðeins á um hlutina. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er víðsýnn, skynsamur og glöggur maður. Hver veit nema skoðanaskipti á morgun leiði til þess að við getum hnikað stefnunni nær því að um hana verði almenn sátt.

En takk fyrir.



[20:03]Útbýting: