146. löggjafarþing — 56. fundur
 6. apríl 2017.
sala Seðlabankans á hlut sínum í Kaupþingi.

[10:47]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Seðlabanki Íslands seldi í haust um 6% hlut í Kaupþingi. Stuttu síðar, eða um tveimur mánuðum síðar, virtist sá hlutur hafa hækkað um fjóra til fimm milljarða. Það var rekið til þess að samkomulag var gert við Deutsche Bank þar sem þýski bankinn samþykkti að greiða um 50 milljarða til Kaupþings. Kaupendur að bréfum Seðlabankans munu hafa verið hinir sömu og nýlega hafa fest sér stóran hlut í bankanum. Þetta er rekið nokkuð skilmerkilega í viðskiptakálfi Fréttablaðsins 29. mars. Þar kemur einnig fram að Seðlabankinn segist ekki hafa haft upplýsingar um að viðræður Kaupþings og Deutsche Bank stæðu yfir og að slíkt samkomulag hefði verið í undirbúningi. Kaupþing vilji á hinn bóginn ekki staðfesta að slíkt samkomulag hafi legið fyrir í október eða skömmu áður en viðskiptin áttu sér stað.

Frú forseti. Við lestur fréttarinnar vaknar eðlilega sú spurning hvort Seðlabankinn hafi sett í samninginn um sölu á bréfunum svokallað leiðréttingarákvæði, þ.e. að ef hlutur Seðlabankans yrði verðmætari á síðari stigum nyti Seðlabankinn þess með einhverjum hætti.

Ég hygg að flestir séu minnugir sölu Landsbankans á hlut í Borgun hér um árið. Ekkert slíkt ákvæði var í sölusamningnum þá og ríkisbankinn varð af umtalsverðum fjárhæðum.

Mig langar til að spyrja gæslumann íslensks almennings í þessu máli, hæstv. forsætisráðherra, en undir hann heyrir Seðlabanki Íslands, hvort hann viti til þess að Seðlabankinn hafi sett leiðréttingarákvæði í samninginn og þá einnig hvort hann hyggst kanna það af hverju samkomulag Deutsche Bank og Kaupþings, sem líklega var tilbúið í október, barst svona seint. Því ef marka má frétt í Viðskiptablaðinu í gær kynnti Frank Brosens, stofnandi og eigandi Taconic Capital, á fjárfestingaráðstefnu í Chicago í lok október í fyrra að hann teldi rétt verð á bréfum Kaupþings í kringum 100, sem er umtalsvert hærra gengi en Seðlabankinn seldi. Spurningin er: Er nýtt Borgunarmál í uppsiglingu?



[10:50]
forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að láta koma fram að stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórnin, hefur ekki nein bein afskipti, enga beina aðkomu að þeim fjármálalegu gerningum sem Seðlabankinn stendur í og það á með sama hætti við um sölu á þeim eignarhlut sem þarna er verið að vísa til.

Varðandi áhrifin af viðskiptasamningum sem viðkomandi hlutafélag kann að hafa verið í þá verð ég bara að játa það að vegna þess sem ég hef nefnt er mér ekki kunnugt um það með hvaða hætti Seðlabankinn kann að hafa haft eða ekki haft einhverjar upplýsingar um þetta. Eina sem ég get sagt um þessi mál er að við erum að ræða um fyrirtæki sem eru óskráð, það er á hverjum tíma töluvert mikið áhorfsmál hvers virði hlutirnir eru. Hér er nefnt að sumir telji hlutina vera jafnvirði eigin fjár. Við sjáum nýlega kaupsamninga ganga út á það að fjármálafyrirtæki eins og á við Arion banka metin upp á 80% af eiginfjárvirði, sem eðlilega kallar fram spurninguna um það hvers vegna slík fyrirtæki eru ekki leyst upp ef innra virðið, sem sagt eiginfjárvirðið, er raunverulega yfir markaðsvirðinu. Það er engu að síður þannig að víða um lönd eru fjármálafyrirtæki að seljast töluvert undir bókfærðu virði eigna.

Eins og mönnum má vera ljóst hef ég ekki upplýsingar til þess að svara nákvæmlega þeim atriðum sem að mér er beint varðandi aðdragandann og fyrirvara sem Seðlabankinn kann að hafa gert. Við höfum að því enga aðkomu. En mér þykir hins vegar rétt ábending hjá hv. þingmanni að það er sjálfsagt að kalla eftir þessu og fá skýringar.



[10:52]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við gerum okkur auðvitað grein fyrir því að Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun, en það er hins vegar ekki eins og Seðlabanki Íslands sé ráðherra framandi. Seðlabankinn heyrði undir núverandi forsætisráðherra þegar hann sat í stóli fjármálaráðherra, hann hefur því haft yfir honum að segja í tæp fjögur ár, en eins og vitað er færði hann málefni Seðlabanka með sér í Stjórnarráðið.

Eins og málið blasir við hefur Seðlabanki Íslands tapað um 5 milljörðum kr. á því að selja bréfin í Kaupþingi. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Er ástæða til að ætla að svo sé um fleiri hluti sem Seðlabankinn hefur selt á undanförnum misserum og árum? Hefur einhver úttekt farið fram á því á vakt ráðherra? Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra í því og gleðst yfir þeirri yfirlýsingu að nauðsynlegt sé að fá skýr svör við þessu. Er leiðréttingarákvæði í samningnum? Horfumst við í augu við það að þetta kerfi, þessir aðilar, hafi enn og aftur leikið á íslenska aðila og látið okkur selja eignir á lægra verði (Forseti hringir.) en aðrir síðan versla með, vegna þess að þeir höfðu vitneskju um meira?



[10:53]
forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ein af þeim ráðstöfunum sem gripið var til hér á eftirhrunsárunum var að koma upp sérstöku eignarhaldsfélagi í Seðlabankanum til að annast eignaumsýslu vegna ýmissa veðeigna sem Seðlabankinn hafði þá tekið yfir eða höfðu fallið í hans skaut. Ef eitthvað er tel ég að reynslan hafi sýnt að það hafi verið skynsamleg ráðstöfun vegna þess að valkosturinn, að taka allar þessar eignir í fangið og koma þeim í einhvers konar hraðsöluferli, einhver hefði kallað það á þeim tíma brunasölu, var vissulega til staðar. En menn ákváðu að gefa sér tíma, koma á fót þessu félagi, ráða fólk, skipa sérstaka stjórn yfir félagið til þess að vanda sig við sölu og meðferð þessara eigna. Niðurstaðan hefur verið sú, ef horft er út frá efnahag Seðlabankans, að af þessari starfsemi hefur verið umtalsvert mikill afgangur á undanförnum árum.