146. löggjafarþing — 58. fundur
 24. apríl 2017.
húsnæðismál.

[16:02]
Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fram kemur í máli fjármála- og efnahagsráðherra á Facebook-síðu hans að stjórnvöld séu að vinna með bæjarfélögum við að auka framboð á húsnæði. Einnig kom fram að Garðabær er að skipuleggja 1.200–1.500 manna íbúabyggð og segir ráðherrann að það sé gott mál og hann vilji halda íbúðaverði niðri.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. félags- og jafnréttisráðherra að þrennu, en húsnæðismálin falla undir hann. Í fyrsta lagi: Má vænta þess að ríkisvaldið haldi áfram að auka framboð til sveitarfélaga á hagstæðu verði til að halda íbúðaverði niðri? Í öðru lagi: Ef svo er, með hvaða sveitarfélögum eru stjórnvöld að vinna? Er von á því að Reykjavíkurborg geti til að mynda keypt Keldnaholt á svipuðu verði og Vífilsstaðalandið ef áhugi er á því? Í þriðja lagi virðist salan á Vífilsstaðalandinu að mati fjármála- og efnahagsráðherra vera á hagstæðu verði; ráðherrann gerir ráð fyrir að ábatinn skili sér svo til þeirra sem kaupa fasteign á þessu svæði. Því spyr ég húsnæðismálaráðherrann hvort hann viti til þess að kvaðir hafi verið settar á sveitarfélagið til að þessi hagstæðu kaup skili sér til íbúa á svæðinu.



[16:03]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég ætla að vona að röddin endist þetta. Ég þakka þingmanni þessa fyrirspurn, þótt ég velti fyrir mér hvort hún hefði jafnvel átt að fara til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. En það er annað mál.

Spurt er: Má vænta þess að ríkið haldi áfram að selja lóðir á hagstæðu verði? Nú hefur reyndar ekkert verið kveðið upp úr um það hversu mikil kjarakaup þetta eru. Auðvitað er klárt að ríkið á hlutdeild í væntu lóðaverði á þessu landi þegar það hefur verið skipulagt og byggt. Ríkissjóður mun væntanlega hafa af því umtalsverðar tekjur. Hvort þetta fyrirkomulag verði einhvers konar líkan að frekari sölu á ríkiseignum eða lóðum er ekki mitt að segja til um. Hins vegar er alveg ljóst að ríkið getur komið þarna talsvert inn til að létta á þeim mikla skorti sem er á fasteignamarkaði í dag með því að leggja til jarðir sem eru í eigu ríkissjóðs á höfuðborgarsvæðinu, jarðir sem auðvelt er að skipuleggja og þétta byggð í kringum. Það held ég að sé vafalítið afar mikilvægt enda vitum við að hátt lóðaverð ýtir undir háan byggingarkostnað og aukið framboð af lóðum á hagstæðu verði getur skipt miklu máli í að halda byggingarkostnaði og eignaverði niðri. Ég held því að það sé afar brýnt að ríkið losi um þær eignir sem það getur í þessum tilgangi, þó svo að ríkið eigi alltaf að gæta þess líka að sækja hagstætt og gott verð fyrir ríkissjóð til að nýta til niðurgreiðslu á skuldum.

Til að svara þeirri fyrirspurn er alveg ljóst að ég vænti þess að það verði ein af þeim tillögum sem við munum leggja til, að áfram verði unnið að því að losa jarðeignir ríkissjóðs í þeim sveitarfélögum þar sem það er mögulegt og það á auðvitað helst við hér á höfuðborgarsvæðinu.



[16:06]
Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau sýna svart á hvítu að það er ekki mikil stefnumótun sem liggur að baki þessari sölu á jörðinni á Vífilsstöðum. Ástæða þess að ég nefni að þetta sé á hagstæðu verði er að ég er hreinlega að vitna í fésbókarsíðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég er ekki sjálf að leggja nokkurt mat á slíkt.

Það er afskaplega mikilvægt að stefnumótun eigi sér stað varðandi svona stóran málaflokk. Þetta snýr að væntingum á markaði og áætlanagerð sveitarfélaga og heimila. Ég óska eftir frekari svörum og geri líka kröfu til hæstv. ráðherra um að hann sé búinn að skipuleggja þetta og hafi og geti veitt þinginu skýr svör um þennan mikilvæga málaflokk.

Ég spyr kannski líka: Var hann kannski fullfljótur á sér, þegar hann var að breyta starfstitli sínum á sínum tíma og taka út heitið húsnæðismálaráðherra, að sleppa því í sínum starfstitli?



[16:07]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Jú, frú forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að stefnumótun í þessum málaflokki hefur verið ábótavant af hálfu stjórnvalda um langt skeið. Sú staða sem við horfum á á húsnæðismarkaði í dag gerði boð á undan sér. Spá mátti fyrir um hana með um það bil aldarfjórðungsfyrirvara. Það kemur ekkert á óvart að stærstu árgangar um árabil eru að koma inn á húsnæðismarkað. Því miður vorum við algerlega óviðbúin því að taka við þeim. Það horfir fyrst til ábyrgðar sveitarfélaga í þeim efnum en (Gripið fram í.) það er auðvitað ástæða þess að við erum að taka undir með sveitarfélögunum og koma skikki á, gera áætlun um langtímastefnu í þessum efnum, til að taka á þeim skortvanda sem nú er en líka til að koma í veg fyrir að hann endurtaki sig með því að nægjanlegur fyrirsjáanleiki sé í framboði á lóðum á hverjum tíma, fjögur til fimm ár fram í tímann. Það er auðvitað gríðarlega mikilvæg búbót fyrir þennan markað. Vonandi tekst okkur að ná vel utan um það nú á næstu vikum.