146. löggjafarþing — 59. fundur
 25. apríl 2017.
störf þingsins.

[13:32]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það eru í raun sögulegar blekkingar að halda því fram að verið sé að efla heilbrigðismál í nýrri ríkisfjármálaáætlun sem nú liggur fyrir þinginu. Raunar eru þessar blekkingar bæði ósvífnar og óásættanlegar. Í fyrsta lagi er ekki gerður greinarmunur á útgjöldum sem fara í rekstur og fjárfestingar. Í áætluninni er öllu blandað saman og niðurskurður í rekstri falinn í fjárfestingum. Talað er um 45 milljarða aukningu í heilbrigðisþjónustu þótt yfir 90% fari í húsbyggingar og innan við 10% upphæðarinnar í rekstur. Framsetning af þessu tagi er beinlínis gerð í blekkingaskyni. Raunar er þetta líka gert í áætluninni þar sem fráleit frammistaða í menntamálum er falin í Húsi íslenskra fræða sem er þörf framkvæmd og löngu tímabær en sannarlega ekki rekstur.

Hins vegar er það talnaleikurinn allur þar sem 45 milljarðar verða 5,2 í mínus þegar betur er að gáð. Á næstu fimm árum á samkvæmt ríkisfjármálaáætlun að verja 45 milljörðum til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu á Íslandi og af því guma ráðherrar og segja aukninguna aldrei hafa verið meiri. María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, rakti þessa tölu upp í smáatriðum á ársfundi Landspítalans í gær og í sjónvarpsfréttum RÚV. Staðan er þessi: 35,6 milljarðar fara í fjárfestingar vegna byggingar nýs Landspítala. Þegar afgangurinn er svo skoðaður kemur á daginn að miðað við sérverkefni þegar ákveðin, mannfjölgun og aðra þætti er niðurstaðan í raun niðurskurður upp á 5,2 milljarða í þjónustuna sjálfa. Hvar á að taka það? Úr rekstri spítalanna, Landspítalans, úr öðrum heilbrigðisverkefnum eða hvað? Þannig er ekki um að ræða aukningu heldur niðurskurð. Talnaleikur sem í raun miðar að því að pakka alvarlegum niðurskurði inn í hús.

Loks eru það átökin um einkavæðinguna samkvæmt skilningi heilbrigðisráðherra sem ætlaði að setja heilbrigðismál í forgang en er nú búinn að galopna á hvers kyns einkarekstur á sjúkrahúsum með óheftan aðgang að ríkissjóði. Þrátt fyrir alvarlegar athugasemdir landlæknis og þrátt fyrir orð ráðherra sjálfs á Alþingi 23. mars, eftir að hann var þráspurður, eru að verða hér straumhvörf í heilbrigðismálum á Íslandi. Niðurstaðan er þessi: (Forseti hringir.) Niðurskurður, einkavæðing og blekkingar. Ég spyr, virðulegur forseti: Var kosið um þetta? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:34]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í störfum þingsins þann 5. apríl síðastliðinn fagnaði ég því að forsvarsmenn HB Granda hefðu farið í viðræður við bæjarstjórn Akraness og Faxaflóahafnir um framtíðaráform fyrirtækisins á Akranesi. Ég ræddi mikilvægi þess að allir aðilar tækju þátt í þessum viðræðum af heilum hug því að um væri að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir starfsmenn HB Granda á Akranesi og bæjarfélagið Akranes. Í störfum þingsins ræddi ég jafnframt um að ef þessar viðræður bæjarstjórnar Akraness og Faxaflóahafna við kvótahæsta fyrirtæki landsins, þ.e. HB Granda, skiluðu ekki árangri blasti við að endurskoða þyrfti það kvótakerfi sem við búum við í dag. Skoða þyrfti hvort hægt væri með skýrari hætti að tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum að nýta sér forkaupsrétt í þeim kvóta sem fyrir er svo ákvörðun sem þessi ógnaði ekki atvinnuöryggi fjölda einstaklinga.

Í fréttum þann 20. apríl sl. tók hv. þm. Páll Magnússon, sem jafnframt er formaður hv. atvinnuveganefndar Alþingis, í svipaðan streng og sagði nauðsynlegt að breyta lögum um stjórn fiskveiða til að tryggja þá byggðafestu sem gert er ráð fyrir í lögunum. Hátt í 100 manns missa vinnuna ef HB Grandi hættir landvinnslu á Akranesi.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson, sem er 1. þm. Norðvesturkjördæmis, tók undir þessi orð hv. þm. Páls Magnússonar og sagði að lög um stjórn fiskveiða væru til skoðunar innan stjórnkerfisins í ljósi þess að hátt í eitt hundrað manns missi vinnuna ef HB Grandi hætti landvinnslu á Akranesi. Það yrði grundvallarbreyting ef HB Grandi flytti starfsemi frá Akranesi til Reykjavíkur.

Mig langar að nýta þetta tækifæri og fagna orðum þessara hv. þingmanna. Ég vona svo sannarlega að fleiri hv. þingmenn hér geti tekið undir orð okkar.



[13:36]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Vart þarf að rifja það upp í þessum sal að búið er að tilkynna sölu á svokölluðu Vífilsstaðalandi í Garðabæ. Fjármálaráðherra stóð fyrir því. Hann ber því við að heimild til þess sé í fjárlögum, sem er rétt. En í fjárlögum er að finna ýmsar aðrar heimildir til handa ríkisvaldinu, svo sem eins og að selja hlut í bönkunum sem ríkið heldur á um þessar mundir. Þá er þar einnig að finna heimildir til að selja jarðir sem eru í eigu ríkisins, en kvartað hefur verið yfir því að nánast ómögulegt sé að kaupa ríkisjarðir og nýta nú um stundir, enda er engin stefna til. Sem betur fer er fjöldi ungs fólks tilbúinn til að leggja matvælaframleiðslu fyrir sig og stunda landbúnað, byggja upp samfélagið og vera þar bústólpar. En því miður hefur þróunin verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð. Það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu.

Ríkissjóður á um 450 jarðir. Stór hluti þeirra er nýttur til landbúnaðar. Samkvæmt 12. gr. ábúðarlaga ber ábúanda að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð og stunda þar landbúnað nema annað hafi verið samþykkt. Í þessu felast mikil tækifæri til að styrkja byggðir og styðja íslenskan landbúnað sem býr yfir mikilli þekkingu á verðmætum sem felast m.a. í heilbrigðum bústofni og þekkingu bænda á landinu.

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því að á dagskrá þingsins í dag er tillaga til þingsályktunar um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Að henni stendur allur þingflokkur Framsóknarflokksins. Við teljum málið aðkallandi því að ekki verður lengur við það unað að jarðir fari í eyði og verðmæti sem felast í ræktuðu landi fari í órækt.

Hæstv. forseti. Við köllum eftir stefnu í þessum málaflokki, ekki hentistefnu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:38]
Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Frú forseti. Í dag höldum við hátíðlegan dag umhverfisins og minnumst þá Sveins Pálssonar sem var einn fyrsti Íslendingurinn til þess að vekja athygli á mikilvægi þess að vernda náttúruna og ganga ekki um of á gæði hennar. Þetta var fyrir 200 árum síðan. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum sem samþykkt var á Alþingi í mars á síðasta ári þá átti þann 1. janúar sl. að liggja fyrir tillaga til þingsályktunar um stefnumarkandi áætlun til 12 ára. Auk þessa átti ráðherra að leggja fram og birta opinberlega áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannaleiðum, ferðamannastöðum og ferðamannasvæðum sem gilti út þetta ár, en ekkert bólar á þeim áætlunum. Það liggja þó fyrir drög sem birt voru í október á síðasta ári af þeirri áætlun sem átti að taka sérstaklega til ársins í ár. Í þeim kemur fram, með leyfi forseta:

„Aukning landvörslu og umsjónar er mikilvæg í ljósi þess hversu innviðauppbyggingu er víða ábótavant og þeirrar staðreyndar að langan tíma mun taka að byggja upp.“

Í skriflegu svari umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn minni um þessi mál kemur fram að hann hyggist beita sér fyrir því að landvarsla verði efld í takt við fjölgun ferðamanna þegar á þessu ári. Jafnframt segir í svari ráðherra, með leyfi forseta:

„Enn liggur ekki fyrir hvert umfang frekari aukningar geti orðið.“

Þetta var í byrjun mars. Nú er farið að halla í maí og þriðjungur ársins sem tímabundna áætlunin átti að ná til er liðinn. Það liggur fyrir að um 80% þeirra ríflega 2 milljóna ferðamanna sem eru væntanlegir til landsins í ár koma hingað sérstaklega vegna náttúrunnar. Hana er mikilvægt að vernda og tryggja að við göngum ekki um of á gæði hennar. Það er enn brýnna nú en fyrir 200 árum þegar Sveinn Pálsson var uppi. Landverðir gegna þar lykilhlutverki.

Frú forseti. Þessi dráttur á áætlunargerð er óásættanlegur og brýnt að umfang frekari aukningar til landvörslu skýrist hið fyrsta.



[13:40]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hver er auðlindastefna Íslands? Hver er umhverfisstefna þessarar ríkisstjórnar? Hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að nú verði ekki lengur stuðlað að því að hér taki mengandi stóriðja til starfa, þangað eigi væntanlega ekki að selja rafmagn. Ágreiningur virðist vera milli hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra um skilgreiningu á því hvaða starfsemi falli undir mengandi stóriðju. Alla vega stendur á svari frá hæstv. iðnaðarráðherra sem fékk fyrir rúmum mánuði spurningar frá mér um skilgreininguna. Það er nauðsynlegt að fá skýr svör við því um hvaða starfsemi er verið að ræða þegar hæstv. ráðherrar tjá sig um mengandi stóriðju. Er fiskeldi í opnum sjókvíum talin mengandi stóriðja?

Umræðan um fiskeldi í opnum sjókvíum undanfarið hefur ekki einungis snúið að skipulags- og atvinnumálum, sem betur fer, heldur ekki síður að umhverfismálum og hvaða áhætta sé tekin við að veita leyfi fyrir fiskeldi í opnum sjókvíum. Hvernig er leyfunum úthlutað til að nýta þessa auðlind? Hvaða gjald rennur í sameiginlega sjóði landsmanna? Hver er stefnan? Frá upphafi olíuvinnslunnar hafa Norðmenn gætt þess vandlega að arðurinn af olíuauðlindinni renni í fjárfestingarsjóð þjóðarinnar. Í fyrradag var sagt frá því í fréttum Stöðvar 2 sem kallað var eitt stærsta orkuverkefni Íslands, um rannsóknir og leit að jarðhita við strendur landsins. Þeir sem leita orkunnar fá síðan, ef hún finnst, forgang á nýtingarleyfi til raforkuframleiðslu. Munu þeir greiða skatt af auðlindarentunni að norskri fyrirmynd?

Þann 9. mars sl. óskaði ég eftir svörum frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um hverjar yrðu tekjur ríkissjóðs ef raforkufyrirtæki greiddu skatt af auðlindarentu til ríkissjóðs að norskri fyrirmynd. Engin svör hafa borist þótt liðnar séu rúmar sex vikur frá því að spurningin var lögð fram.

Hver er auðlindastefnan, frú forseti? Er hún kannski bara: (Forseti hringir.) fyrstur kemur, fyrstur fær?



[13:43]
Ómar Ásbjörn Óskarsson (V):

Frú forseti. Þar sem ég er ættaður frá Færeyjum hefur mér alltaf þótt vænt um þau sérstöku samskipti sem Ísland og Færeyjar hafa átt í gegnum árin. Ég held að toppnum hafi verið náði síðasta sumar þegar miðbær Þórshafnar fylltist alltaf þegar Ísland var að keppa á EM og fagnaðarlætin voru engu síðri en fagnaðarlætin hér heima.

En það er önnur þjóð sem hugsar álíka hlýtt til okkar og Færeyingar og það eru Grænlendingar. Ég fékk tækifæri til að búa á Grænlandi í nokkra mánuði og var ávallt mjög vel tekið sem Íslendingi. En hvernig geta samskipti okkar við Grænlendinga orðið álíka hlý og samskipti okkar við Færeyinga? Einn af lykilþáttum í því eru aukin viðskipti. Ég vil nota tækifærið og hrósa fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Lilju Alfreðsdóttur, fyrir að leggja aukna áherslu á viðskipti við Grænland í utanríkisráðherratíð sinni. Viðskipti eru mikilvægur þáttur í auknu sjálfstæði þjóða, eins og við Íslendingar kynntust vel þegar við færðum viðskipti okkar í meira mæli frá Dönum eftir fyrra stríð. Við erum alls ekki stórþjóð en aftur á móti er sá samningur sem Royal Arctic og Eimskip gerðu á síðasta ári risastórt og mikilvægt stökk fyrir Grænland en einnig fyrir Ísland. Bæði löndin munu byggja flutningaskip sem verða þau stærstu í sögu þjóðanna beggja. Til að undirstrika þá mikilvægu viðskiptahagsmuni sem eru að myndast ætla Grænlendingar að opna sendistofu hér á næstu mánuðum. Ég fagna því.

Eimskip og félög eins og KALAK og Hrókurinn hafa verið í forystu fyrir bætt samskipti á milli landanna og nú er kominn tími á að pólitíkin taki við. Við eigum að hvetja til fleiri funda á milli æðstu ráðamanna. Við eigum að hvetja til aukins vægis Grænlands innan Norðurlandaráðs. Við eigum að auka möguleika á að flytja inn afurðir eins og hreindýrakjöt og sauðnautakjöt. Við eigum að hvetja til fleiri vináttuleikja í íþróttum og við eigum jafnframt að styrkja þau góðu verk sem KALAK og Hrókurinn vinna með því að virkja almennilega Grænlandssjóð, sem hefur samkvæmt heimildum ekki greitt neina sérstaka styrki síðan 2009. Ég treysti hæstv. utanríkisráðherra fyllilega til að fylgja þessum málum eftir.



[13:45]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla líka aðeins að fjalla um dag umhverfisins sem er í dag og vekja athygli á átaki Landverndar, Hreinsum Ísland, sem hefst í dag og lýkur 7. maí, eða öllu heldur stendur átakið yfir þann tíma og lýkur náttúrlega aldrei. Áherslan núna er á plastmengun í hafi og þar er auðvitað verið að kalla eftir því að sem flestir komi að því að hreinsa strendurnar okkar. Hægt er að skipuleggja eigin strandhreinsun með því að fara inn á vefinn hreinsumisland.is og fá þar góð ráð. Þessu átaki verður hleypt af stokkunum við ströndina við Sjálandsskóla í Garðabæ í dag þar sem nemendur Sjálandsskóla ætla að vekja athygli á plastmenguninni, m.a. með því að fara út á sjó á kajökum og ætla að draga plastskrímsli í sjónum að landi.

Niðurstöður nýrra rannsókna benda til þess að það sé miklu meira magn af plasti í höfunum en við höfum nokkru sinni gert okkur grein fyrir og telja vísindamenn að það sé verulega vanmetið um allt að 80%. Lavers, sem er með þessa rannsókn, segir að út frá ströndum Ástralíu bendi allt til þess að um 75% af öllu rusli á ströndum landsins sé plast. Af þessu tilefni held ég að við Íslendingar þurfum að velta fyrir okkur hvort við viljum taka frumkvæði og feta í fótspor t.d. Frakka og banna mikið af einnota plasti.

Í dag hefst líka sýning í grasagarðinum þar sem 70 nemendur í 5. bekk Laugarnesskóla standa fyrir sýningu á listrænum afrakstri þriggja daga rannsóknarsmiðju sem þeir áttu í samvinnu við listgreinakennara í Listaháskóla Íslands þar sem ætlunin er að vekja athygli á þeim áhrifum sem hver og einn getur haft og hefur á umhverfi sitt og náttúru. Ég held að sem flestir ættu að líta við þar og sjá hvernig börnin okkar sjá umhverfið og hvernig þau sjá færi á því að hreinsa það og gera það betra.



[13:47]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil ræða réttindi launafólks. Baráttudagur verkafólks, launafólks í landinu er fram undan, 1. maí. Ég hvet alla til að taka þátt í kröfugöngum vítt og breitt um landið. Það veitir ekki af með þessa hægri ríkisstjórn hér við völd að brýna járnin. Það er boðað í nýrri fjármálaáætlun að skerða grunnréttindi verkafólks með því að stytta atvinnuleysisbótatímabilið í tvö ár. Án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna er þetta boðað.

Þetta er ein af grunnstoðum þess sem launafólk í landinu hefur áunnið sér með langri baráttu, að hafa rétt á því að fara á atvinnuleysisbætur — eða laun, myndi ég kalla það — þegar atvinnuleysi er. Það er búið að skerða þau réttindi. Árið 2006 voru þau skert, fóru úr fimm árum í þrjú ár. 2014 fóru þau úr þrem árum í tvö og hálft. Nú er boðað að stytta tímabilið í tvö ár.

Atvinnuleysi er ekkert grín. Það er enginn atvinnulaus að gamni sínu. Ég hvet eindregið til þess að allar vinnumarkaðsaðgerðir séu gerðar með jákvæðum og uppbyggilegum hætti eins og var gert eftir hrun af vinstri stjórninni, að auðvelda fólki á atvinnuleysisbótum að fara í nám í framhaldsskólunum. Hvað gera núverandi ríkisstjórn og sú sem var áður? Þær hamla því að fólk geti farið í framhaldsskóla 25 ára. Það er ekki jákvætt skref. En við getum ekki beint atvinnulausu fólki inn á framfærslustyrki sveitarfélaga sem er allt annar handleggur og tekur ekki mið af því að launafólk er búið að ávinna sér þessi réttindi. Það er alveg lágmark og skýr krafa (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin og ríkisvaldið hverju sinni hafi samráð við launþegahreyfinguna, enda féll dómur hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, (Forseti hringir.) VR sótti mál gegn ríkinu og vannst það mál. (Forseti hringir.) Menn höfðu ekki leyfi til að (Forseti hringir.) til að framkvæma þetta eins og var gert. (Forseti hringir.)

Frú forseti.

(Forseti (UBK): Forseti verður að biðja hv. þingmenn að virða tímamörk. Þegar hv. þingmenn eru komnir 20 sekúndur yfir tveggja mínútna ræðutíma þykir forseta nóg um.)



[13:50]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Við lifum á þenslutímum. Ekki bara þannig að þeir séu uppi akkúrat núna heldur er það beinlínis þannig að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að þeir haldi áfram. Öll fjármálaáætlun hennar byggir á því að hér verði áframhaldandi þensla og hagvöxtur. Slíkum aðstæðum fylgja framkvæmdir. Það er alveg augljóst að það mun aukast, ef eitthvað er, að hingað til lands komi fólk að vinna að alls kyns verkefnum sem eru í bígerð og jafnvel hafin.

Við þær aðstæður er ákaflega mikilvægt að öll vinnumarkaðsmál séu í góðum farvegi. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra skuli sitja hér og hlusta á mig, ég veit að honum finnst fátt skemmtilegra en að hlusta á mig, því að ég held að við þurfum alveg sérstaklega að vera á verði núna þegar að þessum málum kemur. Það þarf að gæta að réttindum verkafólks í hvívetna.

Ég sé þess ekki stað í áætlanagerð ríkisstjórnarinnar að það eigi sérstaklega að efla þá starfsemi sem að þessu lýtur. Að Vinnueftirlitið eigi að fara í almennilegt samstarf við verkalýðshreyfinguna og setja eigi fjármuni sem þarf til þess til að hafa öll þessi mál á hreinu. Þessi mál geta verið afskaplega ljót við ákveðnar aðstæður, það geta fylgt mansalsmál. En almennt séð þarf allt að vera uppi á borðum þegar að þessu kemur. Þegar það er vöxtur í málaflokki eins og er núna þurfa þær stofnanir sem að honum koma að vaxa með. Ríkisstjórnin virðist ekki ætla sér að taka á því með því að setja aukna fjármuni í málaflokkinn. Við þurfum ekki að leita langt aftur í söguna til að sjá sprengju í þessum málum (Forseti hringir.) þar sem við höfum því miður allt of lítið fylgst með og þannig brotið á réttindum þeirra sem síst ætti að gera. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Þetta voru bara tíu sekúndur.

(Forseti (UBK): Ræðutíminn er tvær mínútur.)



[13:52]
Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Hér síðar í dag fjöllum við um þingsályktunartillögu frá þingflokki Pírata þar sem lagt er til að rannsökuð verði sérstaklega svokölluð fjárfestingarleið Seðlabankans. Það er ágætt. Ég var einn þeirra sem gagnrýndu fjárfestingarleiðina á sínum tíma á grundvelli þess að verið væri að brjóta jafnræðisreglu, en það er annað sem Píratar telja ástæðu til að rannsaka. Það vekur hins vegar athygli að í gær féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Samherja gegn Seðlabanka Íslands. Dómurinn var óvenjuskýr, afdráttarlaus, um það að stjórnsýsla Seðlabankans hefði ekki verið með þeim hætti sem við gerum kröfu um að beitt sé hjá stofnunum og embættismönnum ríkisins. Á síðasta ári hóf stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins rannsókn eða umfjöllun um stjórnsýslu gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Þeirri vinnu lauk ekki af ýmsum ástæðum. Ég hygg að ýmislegt hafi komið fram á undanförnum mánuðum og vikum, nú síðast í gær með afgerandi dómi héraðsdóms, og því sé ástæða fyrir eftirlitsnefnd að hefja þetta starf að nýju og kanna með hvaða hætti stjórnsýslu í Seðlabankanum, þegar kemur að gjaldeyriseftirlitinu, hefur verið háttað á undanförnum árum og hvort þær brotalamir sem birtast í þessum dómi séu með þeim hætti að Alþingi þurfi að grípa til ráðstafana.



[13:55]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir það sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði áðan og átti að vera megininntak ræðu minnar. Óréttlæti er óþolandi hvernig sem það birtist og gegn hverjum sem það birtist. Sá dómur héraðsdóms í gær sem var minnst á varðandi Seðlabankann í máli Samherja er mjög skýr. Við munum sum aðdraganda þessa máls, hvað manni brá við þær fréttir og hvernig þær voru meðhöndlaðar á sínum tíma. Þær vöktu auðvitað með manni óhug sem leiddi langt út fyrir landsteinana og skaðaði þetta stóra og öfluga fyrirtæki mjög alvarlega. Það hefur komið ítrekað fram á mörgum stigum þessa máls að ekki virtist vera fótur fyrir neinu af því sem þar var sagt. Það er mjög alvarlegt að slíkt geti gerst.

Virðulegi forseti. Það eru fleiri einstaklingar sem eiga í stríði við fjármálafyrirtæki á Íslandi, telja að brotið hafi verið á sér en eiga erfitt með að sækja rétt sinn. Á undanförnum árum hafa margir leitað til mín með margs konar mál og ég verð að segja eins og er að svo virðist sem fjöldi Íslendinga hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð í kerfinu og það er hvergi hægt að leita ráða til að sjá hvort þeir hafi verið beitt órétti. Þeim er bent á lögsókn, en einstaklingar fara ekki í málaferli við banka í áratugi. Það mun kosta þá miklu meira en viðkomandi skuld.

Ég held að Alþingi hafi skipað verkefnishóp af minna tilefni en slíku.



[13:57]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hundrað dagar eru mikill áfangi og vil ég óska ríkisstjórninni til hamingju með þann tíma, þó svo að margir líti á þetta samstarf sem ástlaust hjónaband. En hundrað dagar eru ekkert sérstaklega langur tími. Þó fékk þessi ríkisstjórn það í vöggugjöf að hafa gríðarlega lítið traust landsmanna á bak við sig. Það traust hefur ekki aukist. Ég vil því spyrja ríkisstjórnarþingmenn hvað þeir telji að þeir þurfi að gera til að skapa traust á störfum sínum.

Maður sér mikla bresti í ríkisstjórnarsamstarfinu. Þeir brestir hafa m.a. komið fram í yfirlýsingum frá þingmönnum stjórnarliða um að þeir styðji ekki lykilmál ríkisstjórnarinnar. Þó hefur þessi ríkisstjórn ekki gert neitt til að fá minni hlutann til liðs við sig. Ekkert. Ef við tækjum t.d. fjármálaáætlunina og ynnum hana á þverpólitískari hátt væru miklu meiri líkur á að slík áætlun lifði á milli kjörtímabila. En hér er allt unnið til eins dags. Það sem vel var gert áður er tekið og rifið í sundur.

Það er ekki góð byrjun á mikilvægum verkefnum þegar hveitibrauðsdögunum lýkur að hafa engan farveg til að tryggja stuðning og samstöðu minni hlutans við mikilvæg verk sem hér þarf að vinna.



[13:59]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er áhugamaður um siðareglur ráðherra. Í gær sendi ég fyrirspurn til forsætisráðherra vegna meðhöndlunar hans á skattaskjólsskýrslunni með tilliti til siðareglna ráðherra. Ég hlakka til að heyra svör ráðherra við þeim spurningum.

Í þetta skiptið vil ég hins vegar beina athygli minni að öðrum ráðherra sem ég tel hafa brotið siðareglur ráðherra, heilbrigðisráðherra. Þann 19. apríl sl. sendi embætti landlæknis frá sér tilkynningu til að leiðrétta misskilning sem embættið sá á túlkun laga. Landlæknir staðfesti að Klíníkin uppfyllti faglegar lágmarkskröfur um sérhæfða sjúkrahúsþjónustu sem þarf samkvæmt lögum til að heilbrigðisráðherra geti veitt starfsleyfi til slíkrar þjónustu. Tilkynning landlæknis kom í kjölfar ummæla heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þingi þar sem ráðherra sagði að það væri ekki hans að veita starfsleyfi heldur landlæknis.

Hér eru tveir aðilar ekki sammála, landlæknir og ráðherra. Af hverju er það brot á siðareglum ráðherra? Jú, í grein 6 a í siðareglum ráðherra segir nefnilega, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal upplýsa almenning og fjölmiðla með reglulegum og skipulegum hætti um störf ráðuneytis síns. Leiðrétta ber eins fljótt og auðið er rangar upplýsingar eða misskilning sem upp kann að koma varðandi störf ráðherra.“

Ef það sem landlæknir segir er rétt er liðinn rúmur mánuður síðan ráðherra sagði Alþingi ósatt og um vika síðan landlæknir leiðrétti þann misskilning. Mér þykir „eins fljótt og auðið er“ teygjanlegra orðaval en „strax“ en vika ætti auðveldlega að duga fyrir ráðherra til að leiðrétta þennan misskilning, hvað þá mánuður.

Næstu skref málsins eru að komast að því hvort þetta hafi verið misskilningur hjá ráðherra eða afvegaleiðing — og þar af leiðandi lygi.



[14:01]
Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið minnst á að nú eru rúmlega 100 dagar liðnir frá því að þessi stjórn tók til starfa. Af því tilefni langar mig til þess að hafa nokkur orð um þá vanvirðingu sem mér þykir ráðherrar hafa sýnt þingi og þjóð og byrja á því að vitna í 49. gr. þingskapalaga Alþingis. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi, þingnefndir og einstakir alþingismenn hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins. Eftirlitshlutverk Alþingis snýr að ráðherrum sem bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum …“

Þessum eftirlitsstörfum höfum við þingmenn í þessum sal oft og tíðum átt afskaplega erfitt með að sinna. Ég vil nefna eitt dæmi um slíkt. Í byrjun janúar móaðist hæstv. ráðherra, Bjarni Benediktsson, sem þá var fjármála- og efnahagsráðherra, við að koma á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að ræða skýrslu um aflandseignir. Í lok mars afboðaði hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sig á þingfund án nokkurra skýringa. Þessi fjarvera var þá sérstaklega bagaleg í ljósi þeirra aðstæðna sem þá voru uppi. Þá bárust hver stórtíðindin á fætur öðrum af verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ.

Núna síðast lýsi ég eftir heilbrigðisráðherra. Hann virðist vera horfinn þrátt fyrir endurskinsfatnað. Hann er óínáanlegur. Fjölmiðlar, fjórða valdið, ná ekki á honum taki til að krefja hann sagna. Það er óþolandi. Það væri líka ágætt ef hann léti sjá sig í þingsal.



[14:03]
Bjarni Halldór Janusson (V):

Frú forseti. Í gær ræddum við fyrirspurn um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Ég tek fram að þörfin er ekki síður mikilvæg í háskólum landsins, sérstaklega í opinberum háskólum. Ég hyggst á næstunni leggja fram þingsályktunartillögu ásamt öðrum hv. þingmönnum um sálfræðiþjónustu í opinberum háskólum. Það mál er einstaklega mikilvægt fyrir háskólanema, ungt fólk.

Við Háskóla Íslands er hálft stöðugildi sálfræðings fyrir 12.500 nemendur. Til samanburðar miða samtök bandarískra skólasálfræðinga við að 500–700 nemendur séu á bak við hvern skólasálfræðing, en sé ætlunin að veita ekki einungis ráðgjöf heldur einnig meðferð mega ekki vera fleiri en 1.000 nemendur þar á bak við.

33% fólks telja sig ekki hafa efni á geðheilbrigðisþjónustu. Það er sérstaklega algengt hjá ungu og tekjulágu fólki.

Svo ég nefni dæmi er eðlilegur fjöldi meðferðartíma við kvíða og þunglyndi u.þ.b. 15 tímar, sem kosta um 220 þús. krónur. Til samanburðar, svo sú tala sé sett í samhengi, er það um 30% af þeirri upphæð sem LÍN lánar hverjum einstaklingi að hámarki til framfærslu í leiguhúsnæði. Það er því alveg ljóst að ómögulegt er fyrir ungt og tekjulágt fólk að framfleyta sjálfu sér og leita sér eðlilegrar aðstoðar.

Svo veltir fólk því fyrir sér hvers vegna áhuginn sé ekki til staðar hjá ungu fólki. Ég tel frekar að áhuginn sé til staðar en að ungt fólk kalli eftir að eitthvað verði gert í þessum málum. Ef við pælum í fjármögnun er einn stærsti hluti örorkubóta greiddur út vegna geðrænna veikinda. 46 þús. einstaklingar leysa út þunglyndislyf á ári hverju og eru þau að mestu niðurgreidd. Það er ekki svo að skilja að þunglyndislyf geti ekki gert gagn, en við þurfum líka að veita þjónustu á fyrstu stigum málsins. (Forseti hringir.)

Ég legg til að þessi ágæti þingheimur og hv. þingmenn hér inni taki þetta mál til umræðu á næstunni.