146. löggjafarþing — 59. fundur
 25. apríl 2017.
stefna og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021, fyrri umræða.
stjtill., 434. mál. — Þskj. 567.

[20:28]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021.

Tillagan byggir á vinnu starfshóps sem skipaður var árið 2015 og hafði það hlutverk að móta nýja stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Til grundvallar starfi hópsins var fyrirliggjandi stefna og framkvæmdaáætlun sem samþykkt var á Alþingi þann 11. júní 2012 og hafði verið framlengd þar til ný stefna og framkvæmdaáætlun tekur gildi. Unnið hefur verið stöðumat á grundvelli framkvæmdaáætlunarinnar 2012–2014 þar sem könnuð var staða verkefna hjá ábyrgðaraðilum verkefna hjá sveitarfélögum og stofnunum.

Sú stefna og framkvæmdaáætlun sem hér er kynnt byggir á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem var undirritaður hérlendis 2007 og samþykkt var að fullgilda á Alþingi í september 2016.

Í velferðarráðuneytinu hefur einnig verið unnið að mismunarlöggjöf með það að markmiði að uppfylla kröfur 5. gr. samningsins um jafnrétti og bann við mismunun og 27. gr. hans um aðgengi að vinnumarkaði.

Markmið mismunarlöggjafar eru þar að auki að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis og tilskipunar um jafna með ferð á vinnumarkaði. Frumvarp til laga hefur verið lagt fyrir Alþingi.

Einnig eru nú lögð fram á Alþingi frumvörp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og frumvarp til laga um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Við vinnu að nýrri stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks var leitast við að byggja vinnuna á gagnreyndri þekkingu og sett fram framtíðarsýn, markmið og skilgreindar aðgerðir með ábyrgðaraðila, samstarfsaðilum, tímaáætlun, kostnaði og mælanlegu markmiði. Við vinnuna var haft víðtækt samráð við samtök fatlaðs fólks, sveitarfélög, þjónustuaðila, stofnanir, sérfræðinga á málasviðinu og önnur ráðuneyti. Stefna í málefnum fatlaðs fólks tekur mið af tilteknum grunngildum svo sem einu samfélagi fyrir alla, jöfnun tækifærum og lífskjörum, algildri hönnun sem gagnast öllum og því að fatlað fólk skuli vera við stjórnvölinn í eigin lífi.

Stefna í málefnum fatlaðs fólks tekur einnig mið af því að fötlun er hugtak sem þróast og breytist og að fötlun verður til í samspili einstaklinga sem eru með skerðingar sem og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og virka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Því er áhersla lögð á að mikilvægt sé að fólk með fötlun geti lifað sjálfstæðu lífi með reisn, að mannréttindi séu virt og bann lagt við aðgreiningu og mismunum á grundvelli fötlunar.

Markmiðið er að íslenskt samfélag byggist á virðingu fyrir fjölbreytileika og viðurkenningu á því að fötlun sé hluti af mannlegum margbreytileika. Því þarf að bregðast við mismunun af fullri alvöru, m.a. með því að fara að alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur undirritað og gildandi löggjöf í því skyni.

Þingsályktunartillögunni er skipt í sjö málasvið í stafrófsröð sem eru: aðgengi, atvinna, heilsa, ímynd og fræðsla, menntun, sjálfstætt líf og þróun þjónustu. Innan hvers málasviðs eru tilgreindar fjórar til sjö aðgerðir, alls 37 talsins.

Aðgengi nær yfir aðgerðir sem miða að því að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra sem skal m.a. gert með því að bæta aðgengi fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi og að fatlað fólk hafi aðgang að upplýsingum um réttindi og þjónustu á því formi að allir geti skilið og tileinkað sér þær.

Atvinna nær yfir aðgerðir sem hafa að aðalmarkmiði að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks, en atvinnuþátttaka fatlaðs fólks dregur úr samfélagslegri einangrun, stuðlar að virkni, eykur skilning á fötlun, minnkar fordóma, styður sjálfstæði og sjálfræði fatlaðs fólks og dregur úr fátækt.

Heilsa snýst um að efla almennt heilbrigði fatlaðs fólk, en mikilvægt er að fatlað fólk, börn og fullorðnir, hafi gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem er í stakk búin til að veita einstaklingum með sérhæfðar þarfir vegna fötlunarþjónustu óháð fötlun.

Ímynd og fræðsla lýtur að mikilvægi viðhorfa til fatlaðs fólks í samfélaginu, en auka þarf þekkingu og skilning almennings á málefnum tengdum fötlun og stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Mikilvægt er að fatlaðir og samtök þeirra taki þátt í áætlanagerð um breytta ímynd og fræðslu.

Menntun lýtur að því að fatlað fólk hafi sama rétt til menntunar og aðrir. Byggja þarf upp fjölbreyttara nám sem hentar fötluðu fólki svo ekki megi missa sjónar á mikilvægi þess að nám sem þegar er til staðar sé aðgengilegt fötluðu fólki með því að ryðja aðgengishindrunum úr vegi.

Sjálfstætt líf byggir á því að fatlað fólk njóti mannréttinda og lífskjara til jafns við aðra. Fatlað fólk skal eiga þess kost að nýta borgaralegan rétt sinn, geta valið hvernig lífi þess er háttað og hafa fullan aðgang að menningu, tómstundum og afþreyingu. Áhersla verður lögð á að eyða hindrunum sem mæta einstaklingum í daglegu lífi, en mikilvægt er að fatlað fólk komi að stefnumótun og ákvörðunum í eigin málum.

Þróun þjónustu lýtur að því að þjónusta og stuðningur við fatlað fólk stuðli að jafnræði, sjálfræði og stuðningi til jafns við aðra. Þjónustan skal miða að því að auka sjálfstæði og lífsgæði og veitt í samráði við hinn fatlaða og fjölskyldu hans eða aðstandendur eftir aðstæðum.

Hæstv. forseti. Ég hef hér gert grein fyrir meginatriðum stefnu og framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021. Mikilvægt er að slíkri áætlun sé vel fylgt eftir til að fylgjast með árangri. Lagt er til að heildarumsjón með eftirfylgni og framkvæmd verði í höndum ráðherraskipaðs starfshóps í málefnum fatlaðs fólks. Um stefnu þessa og framkvæmdaáætlun verði víðtækt samráð haft við fatlað fólk og samtök þess, sveitarfélög, atvinnulíf, stofnanir og ráðuneyti um framkvæmd stefnunnar til að ná góðum árangri og að þekking og reynsla nýtist sem best.

Ég leyfi mér að leggja til að áætlunin verði að lokinni umræðu hér vísað til velferðarnefndar og til síðari umr.



[20:34]
Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í frumvarpið. Í II. lið þingsályktunartillögunnar er að finna sundurliðun á þeim verkefnum sem áætluninni er ætlað að ná til. Í mörgum tilvikum er tilgreindur kostnaður við hvern lið. En fjölmargir liðir eru þó þannig að kostnaðarmat á að fara fram seinna. Sem dæmi um kostnaðarmat sem þegar hefur farið fram má nefna að árið 2018 verða veittar 3 millj. kr. til verkefnis um starfsstöð fyrir auðlesinn texta, 5 millj. kr. á ári verða veittar til þjónustu við fötluð börn með sértækar þarfir í nærumhverfi þeirra og 2 millj. kr. verða veittar til fræðsluefnis vegna betri atvinnumöguleika fatlaðs fólks.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þær fjárhæðir sem ætlaðar eru til verkefna gefi raunhæfa mynd af þörfum þeirra verkefna sem rætt er um og hvort þessar upphæðir séu nægilegar.



[20:35]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að leitast hefur verið við að kostnaðarmeta öll verkefni sem þarna er gerð tillaga um, og tryggt um leið að fjármagn sé tiltækt til þeirra. Að sjálfsögðu. Já, ég reikna með því að þetta fjármagn eigi að dugi til. Að baki liggur mat á því hversu mikið talið er þurfa til þess að leysa verkefnin af hendi. Stutta svarið er: já.



[20:36]
Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði einnig til þess að benda á að Öryrkjabandalag Íslands gerði margvíslegar athugasemdir við vinnslu þingsályktunartillögunnar hjá velferðarráðuneytinu. Var m.a. bent á mikilvægi þess að náið samráð yrði haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og þá sérstaklega við hagsmunasamtök fatlaðra kvenna og barna þar sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður sérstaklega á um réttindi þessara hópa.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort við vinnslu þingsályktunartillögunnar í ráðuneytinu hafi verið tekið tillit til margvíslegrar gagnrýni Öryrkjabandalags Íslands sem og annarra samtaka og tillögur þeirra um úrbætur. Hvernig var samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks háttað?



[20:37]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að við vinnslu áætlunarinnar var haft samráð við fjölda aðila eins og eðlilegt er og tekið tillit til margra ábendinga sem þar komu við vinnslu, en ekki annarra eftir atvikum. Ég held að í heildina, bæði hvað varðar framkvæmdaáætlunina og þau frumvörp sem hér er verið að leggja fram um þá þjónustu við fatlaða um félagsþjónustu, þau mismununarfrumvörp sem hér eru lögð fram samtímis framkvæmdaáætlun, hafi einmitt verið haft mjög gott og mikið samráð við helstu hagsmunaaðila og unnið út frá þeirri grundvallaraðferðafræði að fatlaðir séu hafðir með í ráðum og hafi mikið um þennan málaflokk að segja.



[20:38]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessari þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þetta er mjög gott plagg. Síðan eigum við eftir að sjá hvort framkvæmdin nær að verða að þeim veruleika sem hér er lagt upp með. Ég tek undir með hv. þm. Halldóru Mogensen, ég hef líka áhyggjur af því að kostnaðaráætlun gangi ekki eftir í öllum þessum þáttum en við þurfum þá að taka á því þegar þar að kemur. Hér er t.d. talað um aðgengilegar upplýsingar, verkefni sem sveitarfélögin eiga að takast á við, táknmálstúlkun verði aðgengileg sem og punktaletur, textun og upplýsingar, bæði ritaðar og rafrænar. Þetta er auðvitað á ábyrgð ráðuneytisins en maður sér ekki fyrir sér að það geti alls staðar gengið stóráfallalaust nema fjármunir komi til með þessum verkefnum, miðað við a.m.k. það sem sveitarfélögin hafa sagt.

Ég ætla að drepa á nokkra liði í tillögunni. Þetta er náttúrlega heilmikið plagg. Fjölgun geðheilsuteyma finnst mér afar mikilvægt atriði og ég hef auðvitað séð árangur af slíku starfi, kannski ekki geðheilsuteyma en teyma fagfólks sem hafa komið saman og verið stuðningsaðili þeirra sem á þurfa að halda og tilheyra þeim flokki að vera fatlaður einstaklingur. Hér á að efla ráðgjöf geðsviðs Landspítala við þennan hóp og um allt land. Í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram á aðalfundi Landspítalans í gær þá hefur maður áhyggjur af því að þetta gæti orðið erfitt. Það eru lagðar til, ég man ekki hvað það var, 700 milljónir eða svo í BUGL, en ekkert sérstakt fé er markað í þetta, alla vega ekki það sem við höfum séð. Auðvitað á það eftir að koma betur í ljós þegar við sjáum þetta brotið niður. Varðandi það markmið að fatlað fólk hafi aðgang að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu vil ég segja að miðað við stöðuna í dag þá hefur hinn almenni borgari ekki aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og þess vegna spyr maður sig: Er hún eitthvað frekar til staðar og verður til staðar fyrir fatlað fólk? En áformin eru vissulega góð.

Mér finnst líka sérstaklega góður liður D.2, að auka skilning og þekkingu stjórnmálamanna á málefnum fatlaðs fólks. Hér er ábyrgðin reyndar falin Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ég held að við þurfum líka að taka hana til okkar á þingi, ekki bara sambandið, en ég held að þetta sé mjög mikilvægt vegna þess að eitt af því sem maður hefur kynnst í sveitarstjórn er mismikill skilningur og virðing fyrir stöðu fatlaðs fólks. Það sama má í raun segja um lögregluna, ákæruvaldið og dómskerfið. Það var einmitt góður fundur í allsherjar- og menntamálanefnd í fyrra þar sem komu til okkar norskir aðilar sem hafa haft með þetta að gera og eru mjög framarlega í þessu. Ég hef trú á því að þetta gæti verið gert í þeim anda og er kannski að einhverju leyti hafið á Suðurlandi.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á menntun. Úr þeim geira kem ég, sá um starfsbraut fyrir fatlað fólk. Í gær fengum við fréttir af því að það væri ekki hægt að halda úti diplómanámi í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun. Hér er lagt upp með að fatlað fólk eigi að hafa sömu tækifæri og aðrir til menntunar og þá finnst mér þessi frétt einhvern veginn ekki lofa góðu. Síðan var braut í háskólanum sem tók á móti fötluðu fólki, var lengi vel tilraunaverkefni. Það þarf auðvitað að auka fjölbreytnina eins og gert er ráð fyrir að verði gert á þessu ári og því næsta, sýnist mér. Þar kemur líka fram að þetta sé innan ramma, væntanlega ramma velferðarráðuneytisins, þó að samstarfsaðilarnir séu háskólarnir og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ég geri ráð fyrir að þarna sé átt við velferðarráðuneytið.

Ég tek undir að það vantar auðvitað mikið upp á að fjölbreytileiki sé nægur í námsframboði fyrir fatlað fólk. Eflaust líka á starfsbrautum í framhaldsskólunum, þar hugsa ég að staðan sé mjög mismunandi. Ég naut þess að vera í skóla sem var nýr. Við vorum að byggja upp starfið, þess vegna hafði maður tækifæri til þess að gera margt og það var mikill sköpunarkraftur, það gafst tækifæri á að byggja upp sérbraut um leið og maður var að búa nemendurna undir og hvetja þau til þátttöku í skólanum án aðgreiningar í því sem þau voru fær um að gera.

Hér er líka talað um aukna samþættingu og betri undirbúning við flutning milli skólastiga. Það hefur verið rætt að það sé kannski helst á milli grunnskóla og framhaldsskóla. Hér er lagt til að það verði einhvers konar málstjórar settir í hverju umdæmi, ef ég hef lesið rétt, sem eiga í raun að sjá til þess að slíku samtali verði komið á. Þetta hefur verið viðhaft í minni heimabyggð frá því að menntaskólinn þar varð að veruleika og ekki spurning að þetta skiptir gríðarlega miklu máli upp á öryggi og líðan og annað slíkt. Það er einmitt talað um hérna að það verði ekki rof á þjónustu við 18 ára aldurinn. Nú eru flestir framhaldsskólar þriggja ára framhaldsskólar. Það er hins vegar enn þá gert ráð fyrir því að þessir nemendur geti verið í fjögur ár, kjósi þeir það, þannig að þeir eru þá alla jafna orðnir tvítugir við lok náms. Það þarf samt að passa upp á nokkur atriði, það þarf að passa upp á þjónustuna, en það þarf líka að passa upp á einkalífið, þ.e. þá eru nemendur orðnir fullorðnir einstaklingar og þá rofnar samtalið við foreldra. Þar þekki ég til að orðið hefur misbrestur á varðandi trúnað við nemandann. Það þarf að gæta að því.

Hér er talað um húsnæðisþörf. Við þekkjum öll húsnæðisvandann sem við tölum um mjög reglubundið hér og var sérstök umræða í gær um hann. Sveitarfélögum er ætlað að gera áætlanir um húsnæðisúrræði til fjögurra ára til þess að vinna á biðlistum. Ég velti því fyrir mér og væri áhugavert að heyra hvað ráðherranum fyndist um jafna stöðu, af því að í hinum dreifðu byggðum eins og við þekkjum þá getur það auðvitað verið snúið að sveitarfélögin hafi bolmagn til þess að gera þetta. Við erum að tala mikið um samvinnu á milli svæða, milli stórra þjónustusvæða, en svo vill fólk auðvitað búa á sínu heimasvæði.

Ég er að verða búin með tímann. Mér finnst vanta tímasetningu varðandi það að skilgreina hámarksbiðtíma eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni. Mælanlega markmiðið er að það liggi fyrir viðmið um hlutfall barna á biðlista eftir greiningu. Mér finnst vanta að segja í rauninni að markmiðið sé eitthvert X en ekki að það sé bara í lausu lofti.

Ég gæti talað örugglega í annan eins tíma um þetta. Hér segir að þjónusta við fötluð börn með sértækar þarfir verði veitt í nærumhverfi þeirra. Það eigum við að gera alveg nákvæmlega eins og með önnur börn, Barnahús er t.d. að láta byggja húsnæði til að geta sinnt börnum og fjölskyldum nær þeim og auðvitað á að vera þannig líka gagnvart fötluðu fólki.

Eitt í restina, það er atvinnuþátttaka. Það er í rauninni eitt af því sem ég (Forseti hringir.) þyrfti að koma í aðra ræðu um, því mér finnst vanta úrræði fyrir fólk sem vill stunda (Forseti hringir.) vinnu, er alveg fært til þess, en viðhorf vinnustaða er bara ekki gott.



[20:48]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma í örstutta ræðu. Það fyrsta sem ég vil segja er að það litla sem ég hef náð að lesa af þessu viðamikla plaggi virðist vera mjög gott, þótt einhverjum spurningum sé ósvarað. Málinu hefur verið vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis og við sem þar eigum sæti munum fara vel í gegnum það.

Ég vil taka undir orð hv. þingmanna Halldóru Mogensen og Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur um að mjög mikilvægt sé að fjármagn fylgi þeim mikilvægu markmiðum og leiðum sem lagðar eru upp með í þingsályktunartillögunni um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árið 2017–2021.

Þetta er mjög viðamikið. Sá kafli sem ég náði að lesa mig töluvert í gegnum í greinargerðinni er G.1, að breytt verði verklagi vegna tilvísana frá skólaþjónustu til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Barna- og unglingageðdeildar Landspítala, BUGL, og Þroska- og hegðunarmiðstöðvar. Þarna er m.a. kveðið á um að skólaþjónusta sveitarfélaga bregðist strax við með snemmtækri íhlutun þegar grunur vaknar um frávik og þegar börn glíma við vanda sem kann að tengjast fötlun. Auðvitað er það oft svo að grunur leikur á um að vandamálið sé jafnvel stærra en það virðist vera. Stundum reynist það stærra en það sýnist, það er mjög misjafnt.

Það kemur fram í sama kafla að biðtími eftir greiningu geti verið allt að þrjú ár núna. Slíkur biðlisti veldur í raun stærri vandamálum síðar meir af því að ef barnið eða ungmennið fær ekki þá aðstoð sem það þarf á að halda þá vindur vandinn upp á sig. Ef börn fá ekki viðeigandi þjónustu meðan beðið er er mikilvægum tíma þar með kastað á glæ þegar hægt hefði verið að vinna með barnið. Oft er of seint að grípa inn í þegar á unglingsárin er komið og skaðinn skeður. Þarna er talað um snemmtæka íhlutun.

Sem grunnskólakennari og sem aðstandandi barns með fötlun verð ég að segja að snemmtæk íhlutun er það þegar við höfum áhrif á þroskaframvindu barna eins snemma og unnt er á lífsleiðinni. Það markmið að stytta biðlista og breyta verklagi, að bregðast við fyrr, að skóli, fagaðilar innan grunnskólasamfélagsins geti komið fyrr að með þekkingu sinni, notað þau tæki og tól sem til eru, skiptir gríðarlega miklu máli. Það kemur einmitt fram að gríðarlega góður árangur hafi náðst í tilraunaverkefni sem farið var í í Breiðholti. Hægt var að bregðast við erfiðleikum eða fráviki barna án þess að þau færu í gegnum allt ferlið.

Síðan er það G.2, að sett verði viðmið um biðtíma eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Maður veltir fyrir sér hver sá biðtími eigi að vera, hvort hér sé horft til sömu viðmiða og landlæknir hefur sett fram varðandi biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu. Það væri fróðlegt að fá svör við því, annaðhvort hjá hæstv. ráðherra á eftir eða í efnislegri vinnslu málsins í hv. velferðarnefnd Alþingis. Þau viðmið sem landlæknir hefur m.a. sett um aðgang að heilbrigðisþjónustu eru í fyrsta lagi að ef grunur vaknar um vanda verði hægt að fá samband við fagaðila samdægurs, viðtal við lækni innan fimm daga væri skref tvö. Númer þrjú væri skoðun hjá sérfræðingi innan 30 daga og fjögur meðferð hjá sérfræðingi innan 90 daga. Auðvitað vitum við að í mörgum tilfellum er viðmiðunartími eftir þjónustu í heilbrigðisþjónustu langt í frá þessi, en þetta er það sem unnið er að. Því væri fróðlegt að vita það hvort þetta væri það sem við stefnum að varðandi biðtíma hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Síðan er talað um í G.3, að þjónusta við fötluð börn með sértækar þarfir verði veitt í nærumhverfi þeirra, að þau geti fengið þjónustu nærri heimabyggð. Fagna ég því að litið sé til landsins alls.

Einnig vil ég aðeins koma inn á G.6, að fötluð börn og ungmenni eigi kost á sértækri frístundaþjónustu, að þau eigi rétt á lengdri viðveru og frístundaþjónustu. Mig langar að segja frá því að á Akranesi, í mínu byggðarlagi, er rekin afar góð frístundaþjónusta fyrir börn með fötlun. Ég tel að mjög gagnlegt væri að fá upplýsingar um það hvernig þau hafa unnið með börnunum og fjölskyldum þeirra því að þarna hefur náðst mjög góður árangur, börnunum líður vel og það skiptir gríðarlegu máli. Þetta er líklega svona víða um landið eða á mörgum stöðum, en ef fólk vill fá að sjá hvernig þetta er gert og það vel heitir frístundaheimilið Þorpið og er frístundaheimili fyrir börn með sérþarfir.

Mig langar líka að ræða aðeins húsnæði. Tíminn flýgur áfram, ég tek undir orð hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, tíminn er allt í einu að verða búinn, þetta er svo stuttur tími fyrir stórt mál. Það er mikilvægt að byggt sé nægt húsnæði og að þessir einstaklingar hafi möguleika á því að flytja að heiman og hafa aðstöðu sem er í takt við þarfir þeirra.

Ég verð að koma inn á atvinnulífið. Ég tel að ákveðið átak og viðhorfsbreytingu þurfi í atvinnulífinu, á atvinnumarkaði okkar Íslendinga. Við erum oft með einstaklinga sem vilja vinna og geta í flestum tilfellum unnið en vinnumarkaðurinn okkar er ekki, alla vega ef ég tala út frá þeim tilfellum sem ég veit um, nógu sveigjanlegur til þess að ráða einstaklingana til vinnu, því miður. Ég held að þetta mál muni taka tíma, en það er svo sannarlega þörf á viðhorfsbreytingu til þess að þetta markmið nái fram að ganga.

Mig langar að segja að lokum, á þeirri rétt rúmu mínútu sem ég á eftir, að sem aðstandandi barns með fötlun verður maður að lýsa ánægju með það ferli sem yfirfærslan færði okkur. Margir foreldrar óttuðust hvað tæki við. Óvissan var mikil, foreldrar vissu hvað þeir höfðu en ekki hvað þeir fengju. Í flestum þeim tilfellum sem ég þekki til hefur tilfærslan haft góð áhrif á þjónustu þessara einstaklinga. Þjónusta í nærumhverfinu, fólk þekkir jafnvel til einstaklingsins og þarfa hans, skiptir miklu máli í þeim efnum. Þetta sá ég jafnframt þegar ég starfaði sem grunnskólakennari á þessum tíma, þetta hafði gríðarlega góð áhrif í flestum tilvikum. Ég vona að við berum gæfu til að halda áfram í sömu átt og það verði nægt fjármagn sem fylgi með í framtíðinni svo að fagfólk geti raunverulega farið þangað sem það vill fara og veitt þá þjónustu sem það vill svo sannarlega veita og einstaklingarnir eiga rétt á.



[20:58]
Bjarni Halldór Janusson (V):

Frú forseti. Það er ótrúlega mikilvægt að efla þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Það er líklegast ein besta leiðin til að tryggja réttindi þeirra. Ég hef sjálfur starfað við félagslega liðveislu í fjögur, fimm ár og þekki til þess að það er ótrúlega mikilvægt að koma með öfluga félagslega þjónustu og það gerir heilmargt fyrir þennan hóp. Það er ein besta leiðin til slíks er með styrkveitingum og góðri hvatningu.

Það er tvennt sem mig langar að vekja athygli hér á sem ég er einstaklega ánægður með og vona að það verði áfram og verði fjármagn til fyrir. Það er annars vegar, með leyfi forseta:

„Í dag á fatlað fólk ekki rétt á styrkjum til endur- og símenntunar á fullorðinsárum eins og aðrir eiga í gegnum sjóði stéttarfélaga. Mikilvægt er að fatlað fólk eigi möguleika á að stunda nám á fullorðinsaldri. Koma þarf á starfs- og endurmenntunarsjóði sem gegni sama hlutverki og slíkir sjóðir hjá stéttarfélögum og lífeyrissjóðum og veiti styrki til fatlaðs fólks sem ekki á slík réttindi annars staðar. Búa þarf til samstarfsvettvang atvinnulífs, stéttarfélaga og fatlaðs fólks.“

Hins vegar, með leyfi forseta:

„Það myndi létta mjög á biðlistum eftir húsnæði ef mögulegt væri að fá styrki til breytinga á húsnæði vegna fötlunar. Til að svo megi verða þyrfti að fjármagna sjóð sem hægt væri að sækja í. Eðlilegast væri að slíkur sjóður væri samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga þar sem húsnæðisuppbygging er einnig samstarfsverkefni þessara aðila. Einnig væri eðlilegt að stéttarfélög og lífeyrissjóðir kæmu að slíku verkefni.“

Mig langaði aðallega að koma með innlegg og hve mikilvægur hluti þetta er áætluninni.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.