146. löggjafarþing — 60. fundur
 26. apríl 2017.
Klíníkin og áherslumál Bjartrar framtíðar.

[15:01]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er með tvær spurningar sem ég vil beina til hæstv. ráðherra. Svo vel vill til að saman fer í einum og sama manninum ráðherra heilbrigðismála og formaður Bjartrar framtíðar.

Fyrri spurningin snýr að áformum einkasjúkrahússins Klíníkurinnar og þeirri umræðu sem aftur er kviknuð vegna ólíkrar lagatúlkunar landlæknisembættis annars vegar og ráðuneytisins hins vegar, sem er bagalegt og þarf að útkljá. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur það nokkru breytt um það sem hæstv. ráðherra gaf út hér á dögunum, að ráðuneytið muni ekki heimila Sjúkratryggingum að gera samning við einkasjúkrahúsið um kaup á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, þ.e. ekki gera samning um að þar verði sett á fót legudeild til allt að fimm daga og farið út í sérhæfðar skurðaðgerðir? Það er mjög mikilvægt að fá þetta á hreint. Er þetta mál að leka einhvern veginn niður eða var eitthvað annað á bak við það en sagt var hér skýrt á dögunum?

Seinni spurningin snýr að þeirri útreið sem ég fæ ekki betur séð en þeir málaflokkar sem Björt framtíð fer með í ríkisstjórn fái í fjármálaáætlun. Því miður er það svo að þegar rýnt er betur í tölur um fjárveitingar samkvæmt áætlun til heilbrigðismála eru þær að uppistöðu til hvað aukningu varðar beint í stofnkostnað byggingar nýs Landspítala og önnur sérgreind verkefni. Þegar það er frá dregið stendur eftir væntanlega niðurskurður upp á milljarða í rekstur.

Svipaða sögu má segja af umhverfisráðuneytinu sem Björt framtíð fer einnig með í ríkisstjórn. Þar er til að mynda um að ræða algerlega ófjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Menn finna þar engar krónur til að planta fleiri trjám og binda meira kolefni eða hraða orkuskiptum í samgöngum eða annað.

Seinni spurningin er því: Ætlar Björt framtíð (Forseti hringir.) að láta bjóða sér þetta? Ætlar hún að láta handjárna sig inni í þessari nýfrjálshyggjufjármálaáætlun til næstu fimm ára?



[15:03]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnirnar. Það er nokkuð auðvelt að svara því: Nei, það hefur ekki orðið nein breyting á þeirri ákvörðun minni, því sem ég sagði hér í ræðustól Alþingis fyrir einhverjum vikum, að ekki stæði til að fela Sjúkratryggingum Íslands að gera sérstakan samning við Klíníkina. Hv. þingmaður gerir að umræðuefni ágreining eða mismunandi lagatúlkun ráðuneytisins annars vegar og landlæknis hins vegar. Það er skýrt gagnvart ráðuneytinu að ráðuneytið starfar samkvæmt lögum. Það er hlutverk mitt sem ráðherra og heilbrigðisráðuneytisins að starfa eftir lögum og eftir bestu getu og eftir túlkun okkar á lögum. Sérfræðingar ráðuneytisins túlka það sem svo að eftir breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu árið 2007, þar sem tekin var út af hv. Alþingi krafa um að ráðherra eða ráðuneyti veitti sérstakt starfsleyfi fyrir sjúkrastofnunum, þá sé ekki gert ráð fyrir því að veitt sé sérstakt starfsleyfi.

Mér þykir það bagalegt. Það er ekki í takt við það hvernig ég vil sjá íslenska heilbrigðisþjónustu þróast eða halda áfram. Ég er því að undirbúa það að setja af stað vinnu í ráðuneytinu til að skoða hvort við þurfum að beita okkur fyrir því að lögum verði breytt eða þau skýrð þegar að þessu kemur. Ég ítreka að það er hlutverk ráðuneytis míns að fara að lögum. Við getum ekki starfað öðruvísi. Lagatúlkun ráðuneytisins er ekki pólitísk heldur er hún túlkun á lögum eins og við sjáum best að þau standi.

Ég verð að koma að seinni hluta spurningarinnar í seinna svari.



[15:05]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég get nú hjálpað hæstv. ráðherra og formanni Bjartrar framtíðar með seinna svarið. Það væri mjög skynsamlegt að hafa það bara stutt og segja: Nei, Björt framtíð ætlar ekki að láta bjóða sér þá útreið sem hennar málaflokkar eiga að sæta í þessari ríkisfjármálaáætlun.

Varðandi lög um heilbrigðisþjónustu held ég að það eigi einfaldlega að ganga skýrt frá því í lögunum þannig að enginn ágreiningur sé um það, þ.e. hvaða starfsemi eigi að vera leyfisskyld og hvaða starfsemi við viljum hafa leyfisskylda áfram. Mér finnst það ótrúlegt ef svo er komið að menn geti hugsað sér að á gráu lagasvæði gætu einkarekin sjúkrahús bara sprottið upp í landinu. Látum það vera að sjálfstætt starfandi sérfræðingar þurfi ekki starfsleyfi fyrir hverri starfsstöð sinni, en að sá möguleiki sé þar með opinn lagalega að eitt stórt einkasjúkrahús, jafnvel sérhæfð sérgreinasjúkrahús, geti sprottið upp sisvona án nokkurs leyfis frá stjórnvöldum er fráleitt. Þess vegna á að taka af skarið um það í lögum.



[15:06]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég og hv. þingmaður erum sammála um að taka eigi á slíku í lögum. Það er Alþingi sem setur lög en ekki ráðherra. Það er þess vegna sem ég er að setja af stað vinnu til að skoða hvort tilefni sé til að mælast til þess að lögum verði breytt. Hv. þingmaður var hér á Alþingi árið 2007 þegar þessi breyting var gerð en ekki sá sem hér stendur. Ég er ekki alveg viss um hver hugsunin var þegar sú breyting var gerð en mér er sagt að það hafi alla vega verið ljóst að fram að því hafi þessu ákvæði um að veita sérstakt starfsleyfi aldrei verið beitt. En við vitum að þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og umhverfi hennar er hún að breytast hröðum skrefum og er full ástæða til að endurskoða svona hluti mjög reglulega. Ég er sammála hv. þingmanni um það.

Varðandi seinni spurninguna, hvort Björt framtíð ætli að styðja við og standa við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar: Björt framtíð er hluti af þessari ríkisstjórn. Við styðjum aðgerðir þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Við erum þátttakendur í ríkisstjórn til að taka ábyrgð í íslensku samfélagi. Ég tel þvert á móti að veruleg aukning til alla vega málaflokks míns, heilbrigðismála, og uppbygging á nýjum Landspítala, ég veit ekki hversu mörgum áratugum á eftir fyrstu hugmyndum, séu mjög mikilvægt innlegg í málaflokkinn.