146. löggjafarþing — 61. fundur
 2. maí 2017.
stefna í vímuefnamálum.

[13:39]
Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Þann 16. maí 2014 samþykkti Alþingi þingsályktun Pírata þess efnis að stefna í vímuefnamálum yrði endurskoðuð á grundvelli lausnamiðaðra og mannúðlegra úrræða á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins til aðstoðar og verndar neytendum og félagslegum réttindum neytenda, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Nú hefur starfshópur, sem skipaður var af fyrrverandi heilbrigðisráðherra, skilað skýrslu með niðurstöðum og tillögum að úrbótum.

Í skýrslunni kemur fram, með leyfi forseta:

„… að vandi þeirra sem háðir eru ólöglegum vímuefnum er heilbrigðisvandi, og hann er í senn mikill og bráður. Að sama skapi verður ekki horft fram hjá því að bannstefna sem slík er að ýmsu leyti skaðleg þar sem hún eykur á jaðarsetningu neytenda vímuefna og útskúfun þeirra frá samfélaginu. Slíkar aðstæður draga úr áhrifamætti úrræða sem ætluð eru til verndar heilsu neytenda, svo sem skaðaminnkunar og annarrar heilbrigðisþjónustu sem krefst óskoraðs trausts milli þjónustuaðila og skjólstæðings.“

Mér skilst að ráðherra hafi kynnt sér skýrsluna og því langar mig að spyrja eftirfarandi spurninga:

Hefur ráðherra í hyggju að hrinda í framkvæmd þeim 12 tillögum sem lagðar eru til í skýrslu fyrrverandi heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu? Ef svo er: Hefur ráðherra einhverja áætlun um hvernig þeim verði komið í framkvæmd, í hvaða röð og innan hvaða tímaramma?



[13:41]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er mjög mikilvæg fyrirspurn vegna þess að skýrslan, og sú vinna sem liggur að baki henni, var tímabær. Það eru mörg nýmæli í skýrslunni og ábendingunum sem okkur er ljúft og skylt að fylgja eftir. Til að svara beint fyrirspurn hv. þingmanns, um hvort ég hyggist hrinda í framkvæmd þeim 12 ábendingum sem eru í skýrslunni, þá er þetta í skoðun. Ég hef, eins og hv. þingmaður segir réttilega, kynnt mér efni skýrslunnar og það er í bígerð að vinna betur úr henni. En sú vinna er ekki komin svo langt að ég sé búinn að forgangsraða eða gera það endanlega upp við mig í hvaða röð við ætlum að skoða ábendingarnar. Það er mjög mikilvægt að í skýrslunni er mikið horft til skaðaminnkunar og skaðaminnkunarúrræða og það er hugmyndafræði sem við höfum tekið upp í auknum mæli í heilbrigðisþjónustu. Ég get sérstaklega nefnt verkefnið Frú Ragnheiður, sem er samvinnuverkefni Rauða krossins og heilbrigðisráðuneytisins, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en það hefur lyft grettistaki í því að auka heilbrigðisþjónustu til útigangsmanna og þeirra sem eru hvað mest utan kerfis. Skaðaminnkunarhugsunin, sem gegnsýrir skýrsluna og tillögurnar, er svo sannarlega ofarlega í mínum huga og ég vona að ég geti fljótlega gefið „rapport“ um það hvernig sú vinna fer af stað.



[13:43]
Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég þakka svörin og það gleður mig að heyra að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur áhuga á að hrinda einhverjum af þessum tillögum í framkvæmd. Það er mikið til til bóta sem stungið er upp á þarna. En mig langar að spyrja áfram hvort ráðherra sé andvígur einhverjum tillagnanna sem koma fram í skýrslunni. Ég spyr einnig hvort ráðherra finnist tillögurnar hafa gengið nógu langt og þá sérstaklega með tilliti til þess að í niðurstöðum starfshópsins kemur fram að afnema eigi fangelsisrefsingu fyrir vörslu á neyslusköttum en áfram eigi að beita refsingu í formi sekta. Ég spyr hvort heilbrigðisráðherra sé sammála þeirri niðurstöðu. Eða er eitthvað sem ráðherra myndi vilja gera betur?



[13:44]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Það er stórt spurt. Ég held að í stuttu máli sé hægt að segja að sá sem hér stendur sé ekki andvígur tillögum hópsins. Hins vegar vil ég að þær séu skoðaðar betur og dýpra og kannski sérstaklega þegar kemur að heilbrigðisþjónustunni, að velt sé við hverjum steini, skulum við segja, að við myndum okkur ekki afstöðu eða tökum ákvarðanir án þess að vera búin að fara dýpra ofan í sumar spurningarnar.

Í sambandi við refsistefnuna hef ég almennt og við í Bjartri framtíð verið höll undir skaðaminnkandi hugsun þegar kemur að refsingum og sagt að við eigum að reyna að þróa okkur frá refsistefnu til (Forseti hringir.) uppbyggingar fyrir fólk. Það á ekki aðeins við um fangelsisdóma heldur geta sektardómar og sakaskrár líka haft mjög neikvæð áhrif á einstaklinga.