146. löggjafarþing — 61. fundur
 2. maí 2017.
ívilnanir til nýfjárfestinga.

[14:00]
Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Í síðustu viku átti ég hér ágætt samtal við hæstv. ráðherra iðnaðar um United Silicon í Reykjanesbæ. Ég hef núna svipað erindi, þ.e. það tengist United Silicon og reyndar líka PCC á Bakka ef út í það er farið.

Í lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi segir í 5. gr., um skilyrði fyrir veitingu ívilnana, með leyfi forseta:

„Við mat á því hvort veita eigi ívilnun til nýfjárfestingar samkvæmt lögum þessum skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:“

Þar stendur undir i-lið:

„að um nýfjárfestingu sé að ræða og að tæki og búnaður sem kemur til vegna hennar sé nýr eða nýlegur og uppfylli skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir“.

L-liður, með leyfi forseta:

„að starfsemi félags sem nýtur ívilnunar sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli og starfsemin brjóti ekki í bága við almennt velsæmi“.

Því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum sýnist að verksmiðja United Silicon í Reykjanesbæ muni geta uppfyllt þessi ákvæði laganna sem ég las upp.



[14:02]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem þar kemur fram varðandi 5. gr. Við undirbúning verkefnisins staðhæfði United Silicon að félagið legði áherslu á að nota bestu fáanlegu tækni til að lágmarka loftmengun, jarðvegsmengun og vatnsmengun og stunda rekstur í samræmi við umhverfisrekstrarleyfið sem gefið yrði út til félagsins, sem svo var gert.

Hins vegar er það Umhverfisstofnun sem veitir verksmiðjunni starfsleyfi og Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að félagið starfi innan ramma þessa og ramma almennra laga á sviði umhverfismála, samanber einnig heilbrigðisnefnd sveitarfélagsins. Umhverfisstofnun er sú stofnun sem hefur heimildir til að grípa til ráðstafana og viðurlaga ef það er ekki gert.

Fjárfestingarsamningurinn kemur í rauninni ekki inn á þetta eða veitir neina afslætti varðandi þessar kröfur eða viðurlög. Ef viðvörunum eða sektum er ekki sinnt þá er það væntanlega Umhverfisstofnun sem tekur ákvörðun um næstu skref. Þar af leiðandi er það hvorki ég sem ráðherra né ráðuneytið sem kemur inn á það með beinum hætti heldur er það Umhverfisstofnun.



[14:03]
Einar Brynjólfsson (P):

Ég þakka hæstv. ráðherra greinargott svar. Ég geri mér ósköp vel grein fyrir því að það er Umhverfisstofnunar að sjá til þess að þeir hlutir, sem hér bar á góma sérstaklega, séu í lagi. Það hindraði nú ekki hæstv. umhverfisráðherra í því að koma fram með mjög eindregna skoðun á starfsemi United Silicon, sá ágæti ráðherra fékk reyndar svolítið bágt fyrir.

Ég vil í framhaldi af þessu í seinni spurningu minni spyrja ráðherrann hvort hann og ráðuneytið muni sérstaklega styðja Umhverfisstofnun og/eða hafa eftirlit með því að Umhverfisstofnun standi í lappirnar þegar kemur að því að verksmiðja PCC á Bakka við Skjálfandaflóa hefji starfsemi sína.



[14:05]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég held að ég geti bara sagt að það sé alveg skýrt í mínum huga og hjá ráðuneytinu að þau fyrirtæki sem eru að fara að taka til starfa og munu taka til starfa verða að fylgja þeim reglum sem öllum fyrirtækjum ber að gera. Ég vil ekki ætla það að önnur fyrirtæki muni ekki uppfylla þær kröfur sem þeim ber að gera. Varðandi það hvort ég veiti Umhverfisstofnun sérstakan stuðning, móralskan, formlegan eða hvað, þá finnst mér það þurfa að vera skýrt og það blasir við og ég get alltaf tekið undir að þau fyrirtæki sem eru í rekstri með einhvers konar starfsemi skulu uppfylla þær kröfur sem er að finna, hvort sem er í lögum, samningum eða öðru. Ég ítreka að þessir rammasamningar og fjárfestingarsamningar veita enga afslætti af kröfunum heldur afslætti af gjöldunum þannig að það sé alveg skýrt.