146. löggjafarþing — 61. fundur
 2. maí 2017.
Matvælastofnun, ein umræða.
skýrsla sjútv.- og landbrh., 370. mál. — Þskj. 499.

[14:45]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt var ráðuneytinu skilað skýrslu um Matvælastofnun, þá mikilvægu stofnun fyrir okkur Íslendinga. Ég taldi mjög brýnt að gera þetta að þingskjali til þess einmitt að taka málið upp á þingi. Ég tel mikilvægt fyrir samfélagið að við aukum skilning á hlutverki, markmiðum og tilgangi Matvælastofnunar. Ég tel ekki síst þingið verðugan stað til þess að hefja þá umræðu, fá málefnalega umræðu og upplýsingar í salnum til þess að reyna að ná samhljómi um það hvert við ætlum að fara með stofnunina. Við ætlum að fara með hana þannig að við ætlum að ýta undir hana, styðja hana, styrkja og læra af þeim mistökum og læra af fortíðinni sem oft og tíðum hefur verið svolítið skrykkjótt. Þá er ég ekki að tala bara um innan Matvælastofnunar, heldur er það líka ráðuneytið sjálft. Við sem störfum þar þurfum að átta okkur á því hvað við getum gert betur þar. Þetta er ekki eingöngu Matvælastofnun heldur líka framleiðendur, það eru ýmsir þeir sem eiga í samskiptum við Matvælastofnun sem þurfa að átta sig á hver tilgangur stofnunarinnar er.

Auðvitað þekkjum við þetta í kjölfar Brúneggjamálsins svokallaða sem var mjög fyrirferðarmikið í fjölmiðlum allt til loka ársins 2016. Þá var tveimur sérfræðingum, Bjarna Snæbirni Jónssyni stjórnunarráðgjafa og Ólafi Oddgeirssyni dýralækni, falið að gera úttekt á stofnuninni. Þeim var annars vegar falið að athuga stjórnun, innra starf og starfsumhverfi stofnunarinnar og hins vegar hvernig Matvælastofnun sinnti matvælaeftirliti og eftirliti með dýravelferð.

Í báðum tilfellunum var höfð hliðsjón af verklagi og starfsemi í svipuðum stofnunum í Evrópu eftir því sem kostur var. Ég veit að þingmenn hafa farið vel yfir það hvernig fyrirkomulaginu er háttað í Evrópu og ekki síst, myndi ég segja, er mikilvægt að horfa til Danmerkur og ekki síður Noregs.

Tilgangurinn með þessu verkefni og skýrslu var að yfirfara starfsemi stofnunarinnar og gera tillögur um úrbætur þar sem þess var talið þörf. Þeir skiluðu síðan skýrslunni í lok mars 2017 og höfum við beðið eftir því í þinginu að geta rætt þetta.

Auðvitað verður mikilvægi Matvælastofnunar við að tryggja öryggi neytenda og útflutningshagsmuna þjóðarinnar síst ofmetið. Skýrslan leiðir að mínu mati í ljós að stofnunin nær ekki að sinna öllum lögbundnum skyldum sínum sökum mikilla anna og álags hjá stjórnendum og starfsmönnum. Þörf er því á því að athuga hvort fjármögnun stofnunarinnar sé í samræmi við þau verkefni sem stofnuninni er falið að annast. Þetta er ég m.a. að skoða innan fjármálaáætlunar, hvernig ég get forgangsraðað því takmarkaða fjármagni sem maður hefur þó til umræða, hvernig við getum ýtt undir annars vegar Hafrannsóknastofnun og hins vegar Matvælastofnun.

Auk þess eru helstu niðurstöður skýrslunnar að innan stofnunarinnar sé ákveðinn stjórnunarvandi. Þörf sé á stefnumótun við hlutverk stofnunarinnar og matvælaeftirlit almennt og loks að ýmsir þættir í skipulagi matvælaeftirlits hér á landi skapi vandamálið, ég kem að því á eftir.

Í skýrslunni er einnig fjallað sérstaklega um Brúneggjamálið og þann lærdóm sem draga má af því máli. Við verðum að draga lærdóm af því máli. Niðurstöðurnar fela í sér grundvöll aðgerðaáætlunar sem verða að nauðsynlegum breytingum á starfsemi stofnunarinnar þannig að hún geti sem best þjónað mikilvægu hlutverki sínu.

Af því að hlutverk stofnunarinnar er svo mikilvægt lagði ég áherslu á að þessi skýrsla yrði að þingskjali og að hún yrði rædd hér. Það eru gríðarlega miklir hagsmunir til framtíðar fyrir okkur sem matvælaland, bæði á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarframleiðslu, undir því að eftirlitið hér sé skýrt, skilvirkt, það sé gegnsætt og ekki síst til hagsbóta fyrir neytendur um leið og sjónarmiða framleiðenda er gætt, en líka fyrir markaðsstarf, t.d. fyrir íslenska framleiðslu. Það er gríðarleg þróun varðandi markaðsstarf á erlendri grundu. Tækifæri þar fyrir okkur Íslendinga á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar eru mjög mikil en einungis ef við pössum okkur á að vinna heimavinnuna okkar. Þess vegna verður stofnun eins og Matvælastofnun að vera gert kleift að sinna hlutverki sínu og hlutverkið þarf að vera skýrt.

Eins og kemur skýrt fram í skýrslunni sjáum við að það eru ákveðnar aðgerðir sem þarf að fara í til að styrkja Matvælastofnun. Það þarf að samstilla áherslur stjórnvalda og Matvælastofnunar með því að ræða áherslur sem kunna að vera óljósar. Það þarf að gera stjórnendum stofnunarinnar kleift að skipuleggja þróun í innra starfi. Það þarf í rauninni að efla, bæta og styrkja mannauðsstjórnina innan stofnunarinnar. Við hjá ráðuneytinu þurfum að styðja stofnunina í þeim efnum.

Við hjá ráðuneytinu þurfum líka að líta í eigin barm. Það eru ákveðnar vísbendingar í skýrslunni sem ég tel að ráðuneytið verði að horfa mjög gagnrýnum augum á, vera svolítið í sjálfsgagnrýninni. Það er hægt að taka t.d. Brúneggjamálið. Það komu athugasemdir frá Matvælastofnun til Búnaðarsambandsins varðandi vistvænu landbúnaðarstarfsemina. Það var ekkert gert í því, ábendingum var beint til ráðuneytisins og ekkert gert. Þetta þurfum við að laga. Það er ekki aðeins verið að benda á Matvælastofnun, við sem tilheyrum ráðuneytinu þurfum einnig að skoða það sem betur má fara.

Ég sé að tíminn sem ég ætlaði mér í fyrri umferð er á þrotum. Viðbrögðin hjá okkur í ráðuneytinu voru strax, af því að skilaboðin voru mjög skýr, að styrkja mannauðsstjórnina, styrkja stofnunina, halda vel utan um hana og láta starfsfólk stofnunarinnar vita að við stæðum með henni. En við erum ekki gagnrýnislaus. Við notum skýrsluna til þess að byggja upp.

Hvað getum við hjá ráðuneytinu gert? Það er alveg skýrt að við þurfum að móta matvælastefnu á Íslandi. Það er ekki til matvælastefna hér á landi. Ég ætla í sumar, í síðasta lagi í haust, að setja saman formlegan hóp, matvælastefnuhóp sem hefur það hlutverk að setja niður matvælastefnu fyrir Ísland. Ég bregst þannig við ályktunum skýrsluhöfunda.

Hvað er annað? Það liggur alveg ljóst fyrir að eftirlitið er flókið. Eftirlitið er ekki endilega skilvirkt. Það er ekki eingöngu út af Matvælastofnun heldur m.a. út af heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, og ég er ekki að gagnrýna það eftirlit, þetta er flókið. Við sáum það í Brúneggjamálinu að eftirlitskerfið þjónaði t.d. ekki neytendum, það þjónaði neytendum alls ekki. Þá hljótum við sem teljumst til hins opinbera, ríki og sveitarfélög, að setjast niður og skoða og fara í aðgerðir sem miða að því að samræma eftirlit. Ég er búin að setjast niður með forystumönnum sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga, til að setja þetta í ákveðinn farveg. Ég veit að menn hafa í kjölfarið fundað með þeim auk samtaka heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. En að mínu viti er algjörlega ljóst að það kerfi sem við bjóðum upp á núna skilar sér ekki í þágu neytenda, hvað þá að það styðji við bændur og aðra til að tryggja örugga framleiðslu og eftirlit.

Mér finnst mikil ábyrgð fólgin í því ef við, ríki og sveitarfélög, náum að setjast niður og samræma eftirlitið. Erum við að tala um miðstýrða stofnun? Eitt af því sem við hugum að hlýtur að vera að hafa eina stofnun eins og Matvælastofnun á Suðurlandi og dreifa síðan útibúum vítt og breitt um landið til þess að reyna að einfalda eftirlit, gera það skilvirkara og einfaldara en það er í dag, ekkert ósvipað og ég gat um og er í Noregi og Danmörku.

Ríki og sveitarfélög geta ekki setið hjá með þessa skýrslu. Við þurfum að halda áfram að vinna eftir henni og það ætlum við okkur að gera. Ég kem að því á eftir hvað það er fleira sem ég tel mikilvægt að við gerum varðandi stofnunina, en í heild sinni er þetta dæmi um hvernig á að vinna hlutina. Forveri minn í starfi setti af stað þennan hóp vitandi það að það kæmi ekki endilega út einhver glansmynd. En við eigum að nýta þetta til að horfa til framtíðar, halda utan um stofnunina og tryggja skilvirkt eftirlit til þess að við getum sem matvælaframleiðsluland sótt fram til framtíðar með afurðir okkar á erlendum mörkuðum. Til þess að við getum gert það þurfum við að vera með allt okkar á hreinu.



[14:54]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta yfirferð um þetta mál og eins það að gefa okkur færi á að ræða þessa skýrslu í þingsal. Ég tek undir orð hæstv. ráðherra um að það sé mjög nauðsynlegt að gera. Áður en ég fer efnislega í þetta langar mig að minnast á tvennt. Annars vegar nokkur atriði sem hæstv. ráðherra kom inn á. Ég fagna því að fara eigi í úttekt á stöðunni, endurskoða og styrkja það kerfi sem við búum við. Ég hef pínulitla áhyggjur af orðalaginu „því takmarkaða fjármagni“ sem hæstv. ráðherra kom inn á varðandi það að styrkja annars vegar Matvælastofnun og hins vegar Hafra. Ég held að við séum löngu komin á það stig að þurfa að setja aukna fjármuni í þessi mál. Svo fagna ég því að það eigi að móta Matvælastofnun.

En hvað varðar samráð við sveitarfélögin um eftirlit langar mig að vekja sérstaka athygli á því að nú þegar liggur fyrir þinginu frumvarp um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem sveitarfélögin eru alls ekki sátt við þær breytingar á eftirliti sem gera á og mörg hver tala um að ákvörðun um mengandi starfsemi sé beinlínis tekin frá sveitarfélögunum og færð til ríkisins. Ég hvet því til að það samstarf sem farið verður í verði á jafnréttisgrunni og verði ekki til að veikja sveitarfélögin og næreftirlitið.

Hitt atriðið sem mig langaði að tæpa á áður en ég fer í efnisatriði skýrslunnar er, og ég vildi óska að hér væru fleiri hæstv. ráðherrar, fjármálaráðherra sem hefur fjármunina um að sýsla og ekki síst mennta- og menningarmálaráðherra, að ef eitthvert dæmi sýnir okkur hversu miklu máli sjálfstæðir og öflugir fjölmiðlar skipta í samfélaginu er það málið um Brúnegg: Aðhald fjölmiðla er gífurlega mikilvægt. Við fylgdumst með því hvernig Ríkisútvarpið sinnti því hlutverki gríðarlega vel, hélt ráðamönnum og kerfinu við efnið, hvar sem það var. Gott ef fréttamaðurinn Tryggvi Aðalbjörnsson fékk ekki verðlaun fyrir umfjöllun sína. Við eigum að halda því á lofti sem vel er gert og taka til okkar hvort við getum ekki gert betur til að styðja við fjölmiðla til að sinna aðhaldshlutverkinu gagnvart okkur.

Hvað varðar efni skýrslunnar er hún um margt góð. Hún fer yfir málin. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir ýmislegt sem þarf að taka til nánari skoðunar. Samstarf MAST, búnaðarsambanda, ráðuneytis. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir þetta. Ég get bara tekið undir orð hennar í þeim efnum. Það er nauðsynlegt að skýra betur á milli stjórnsýsluþátta, hver beri ábyrgð á hverju, til þess að eftirfylgnin verði sem skýrust.

Mikið af efni skýrslunnar fjallar um ástandið eins og það var áður en lagaumhverfinu var breytt. Það kemur glögglega fram hér í skýrslunni hvernig þær breytingar hafa orðið til bóta, til að skýra ýmislegt. Heilt yfir held ég að þetta snúist líka um ákveðið viðhorf í pólitíkinni. Ég hef komið að málum sem tengjast einhvers konar eftirliti frá því að ég sat í umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fyrir margt löngu, ætli það sé ekki að skríða í 20 ár síðan. Viðhorfið hefur æ síðan þá og örugglega áður skotið upp kollinum þar sem er talað um eftirlitsiðnaðinn, atvinnulífið, stjórnmálamenn á hægri væng stjórnmálanna, hafa talað opinbert eftirlit niður. Eins og það sé einhvers konar eftirlitsiðnaður, eitthvert skrímsli sem er íþyngjandi á hinn alltumlykjandi frjálsa markað. Við sjáum dæmi þess ítrekað að eftirlit er nauðsynlegt. Við þurfum að efla eftirlit og taka margt til mikillar skoðunar. Eitt af því er fjármögnun MAST, þ.e. þær upphæðir sem atvinnulífið sjálft rukkar fyrir. Það er sjálfsagt að gera eins og lagt er til í skýrslunni. En hitt er líka að við sem stjórnvöld og þau sem halda um fjármuni ríkisins fari eftir því sjónarmiði að öflugt og gott eftirlit í þágu neytenda er nauðsynlegt. Okkur ber að efla það eins og við getum.

Virðulegi forseti. Nú er klukkan mín farin að ganga upp en ekki niður og þar sem ég hafna línulegum tíma hef ég af þessu litlar áhyggjur.

(Forseti (SJS): Forseti vill vekja athygli á því að búið var að semja um skiptingu ræðutíma fyrir fram milli talsmanna flokka.)

Þá er ég farinn að ganga á tíma …

(Forseti (SJS): Þetta gerist þegar hv. þingmaður gengur á ræðutíma félaga síns.)

Þá þakka ég fyrir mig.



[15:00]
Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. „Neytendur blekktir enn og aftur. Hver ber ábyrgð?“ Svona hljóðar fyrirsögn uppkasts að grein sem skrifuð er á seinasta ári þegar eitt stærsta hneykslismál síðari tíma varðandi neytendavernd og dýravernd kom upp á yfirborðið. Þar átti ég við þær blekkingar sem íslenskir neytendur höfðu verið beittir árum saman við kaup á svokölluðum vistvænum eggjum þar sem dýravelferð var látin mæta afgangi, eins og sjónvarpsáhorfendur fengu að kynnast. Margir stukku til og gagnrýndu Matvælastofnun fyrir sleifarlag og linkind í samskiptum við Brúnegg ehf. og fyrir tregðu við að afhenda fjölmiðlum gögn sem sneru að þessu máli

Svo fór að lokum að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lét vinna allítarlega skýrslu sem birtist svo 27. mars sl. og er umfjöllunarefni okkar hér og nú.

Skýrsluhöfundar tala um tvenns konar áskoranir sem stofnunin stendur frammi fyrir. Í fyrsta lagi að hún nái ekki að sinna öllum lögbundnum skyldum sínum og að álag sé mikið, að langtímaveikindi séu tíð og merki um þreytu og kulnun sjáist meðal starfsfólks. Þessi liður er sérstaklega áhugaverður í ljósi þess að í umræðum um fjármálaáætlun sem þingmenn ræða þessa dagana má sjá að stofnunina skortir að eigin mati 140 milljónir til að hægt sé að fjölga starfsmönnum og taka á þessum vanda. Hin áskorunin sem nefnd er hér sérstaklega er sú að ekki hafi tekist að stilla saman strengi þannig að úr yrði samstillt heild og ímynd stofnunarinnar út á við væri ekki góð.

Í öðrum hluta skýrslunnar, „Úrbótatækifæri í innra starfi“, er farið yfir helstu atriði sem taka þarf til athugunar varðandi núverandi stöðu og starfsemi Matvælastofnunar. Þar segir undir liðnum „Stefna og áherslur“, með leyfi forseta:

„Eins og mál standa nú liggur ekki fyrir heildstæð stefna stjórnvalda um matvælaeftirlit í landinu (matvælastefna). Eftirlitið er unnið af tveimur aðilum, þ.e. MAST annars vegar og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga hins vegar. Með það í huga að HES skiptist í tíu sjálfstæða aðila, með framkvæmdastjóra á hverju svæði fyrir sig, má í raun segja að 11 aðilar sinni þessu eftirliti. Það hefur komið skýrt fram í athugunum höfunda að þetta fyrirkomulag er ýmsum vandkvæðum bundið og veldur óhagræði og ósamræmi í framkvæmd eftirlits. Við samanburð á matvælaeftirliti í nágrannalöndum Íslands kom fram að heildstæð matvælastefna er fyrirliggjandi auk þess að þróunin hefur verið í þá átt að færa matvælaeftirlit á eina hendi. Burt séð frá þessu kom fram að óljós stefna og framtíðarsýn á þessu sviði gerir erfiðara um vik að skilgreina umfang og árangur, sem aftur er grundvöllur þess að stilla saman væntingar stjórnvalda, eftirlitsþega og stofnunarinnar um hvað einkenni æskilegt matvælaeftirlit. Við leggjum til að ráðist verði í stefnumótun af þessu tagi með víðtæku samráði hagsmunaaðila, en bendum jafnframt á eftirtalin verkefni sem brýnt er að huga að nú þegar:

Hafa samráð við hagsmunaaðila við gerð frumvarps um MAST […]

Skipuleggja umræðu milli ráðuneytisins og MAST um hlutverk og áherslur í starfseminni sem verði leiðarljós stjórnenda við mótun og framkvæmd stefnu og markmiða. Í þessu verkefni felst að ræða samræmi og samspil milli MAST og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.

Skapa nauðsynlegt rými til þess að vinna með stefnumótun á einstökum sviðum með þátttöku helstu lykilstarfsmanna til þess að dreifa eignarhaldi og tryggja samstöðu um þau verkefni sem vinna þarf stefnunni til framdráttar. […]

Vinna markvisst með innleiðingu fyrirliggjandi gilda MAST þannig að um þau ríki skilningur og samstaða og verði starfsmönnum mikilvægt leiðarljós um áherslur og nálgun í starfsemi og þjónustu.

Styrkja vinnslu og miðlun upplýsinga um starfsemi, rekstur og árangur til þess að skapa samstöðu og ábyrgðartilfinningu gagnvart hlutverki og árangri stofnunarinnar.“

Ýmsar fleiri tillögur eru nefndar til úrbóta á bls. 40 og þar á eftir er talað um ýmislegt á borð við samstarf við ráðuneyti, stefnumótun, fjármögnun, skoðanatíðni, faggildingu Matvælastofnunar, en þar er sérstaklega verið að horfa á sérstakan ISO staðal. Fjallað er um skoðanastofur, verklagsreglur, um þvingunaraðgerðir, endurmenntun og viðhaldsmenntun, starfsleyfi dýralækna og svo mætti lengi telja.

Virðulegur forseti. Hverfum aftur til fortíðar og skoðum forsögu Matvælastofnunar. Það er ekki að ástæðulausu að sagnfræðingur stendur hér í pontu. Landbúnaðarstofnun, matvælasvið Umhverfisstofnunar og matvælasvið Fiskistofu voru sameinuð undir merkjum Matvælastofnunar árið 2008. Matvælastofnun heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og starfar samkvæmt lögum nr. 80/2005. Engin heildstæð löggjöf segir til um hlutverk hennar þó að hún hafi starfað í níu ár, heldur er vísað í 21 mismunandi lög og rúmlega 300 reglugerðir í tengslum við starfsemi hennar og verkefni. Verkefnum stofnunarinnar hefur fjölgað í áranna rás.

Á heimasíðu MAST kemur fram að hún sinni, með leyfi forseta:

„Stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur, í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla.“

Matvælastofnun hefur frá upphafi sætt harðri gagnrýni, ekki síst af hálfu aðila í búrekstri. Hafa fjölmiðlar oftsinnis fjallað um mál í því sambandi. Ríkisendurskoðun tók starfsemi Matvælastofnunar til gagngerrar skoðunar og skilaði ítarlegri skýrslu til Alþingis í nóvember 2013. Þar er atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu bent á að setja þurfi lagaramma um stofnunina þar sem skýrt sé kveðið á um hlutverk hennar, verkefni, stjórnun og fleira. Auk þess sem spurt er hvort matvælaeftirlit á Íslandi verði ekki skilvirkara, hagkvæmara og árangursríkara ef það verði sameinað á eina hendi. Herra forseti. Þetta hljómar nú allt saman voðalega svipað eins og í þeirri stóru skýrslu sem við erum að fjalla um núna. Þá benda skýrsluhöfundar á að fjármagn verði að fylgja þeim lögbundnu verkefnum sem MAST er ætlað að sinna auk þess sem ráðuneytið þurfi að skilgreina betur ábyrgðarmörk milli þess og stofnunarinnar.

Tveimur og hálfu ári síðar, nánar tiltekið í apríl 2016, skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu um eftirfylgni við málið. Þar kom í ljós að ráðuneytið hafði ekkert gert til að bregðast við ábendingunum. Einhvern tímann í febrúar, held ég það hafi verið, kvaddi ég mér hljóðs undir liðnum störf þingsins og gagnrýndi harðlega hversu lítið væri gert með skýrslu Ríkisendurskoðunar og tiltók þessa sérstaklega, þ.e. þá sem var frá 2013 og eftirfylgniskýrsluna frá 2016. Það þurfti nefnilega litla þúfu til að velta þessu þunga hlassi, það var þetta Brúneggjamál sem upp kom í nóvember á síðasta ári. Ekkert var gert með skýrslurnar fram að því. Það er mjög gagnrýnivert.

Virðulegur forseti. Þá er ég kominn að milljón dollara spurningunni: Hver ber ábyrgð? Auðvitað ber sá aðili sem níðist á skepnum ábyrgðina og enginn annar.

Mér sýnist þó að ráðuneytið hafi að einhverju leyti brugðist. Ef Alþingi hefði borið gæfu til að marka sér heildarstefnu í matvælaeftirliti og búa til heildstæða löggjöf um Matvælastofnun og verkefni hennar, t.d. með því að fara eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2013, þá værum við líklega ekki að ræða um þessa stofnun hér og nú.



[15:10]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég fagna því að við séum komin á þann stað að ræða um þá ágætu úttekt sem fylgir í skýrslu um starfsemi Matvælastofnunar. Mig langar að hverfa aftur til upphafsins, rétt eins og hv. þm. Einar Brynjólfsson gerði hér áðan, og rekja hvers vegna við erum komin á þann stað sem við stöndum á núna í umræðu um þá mikilvægu stofnun sem hér um ræðir. Við skulum byrja á því að átta okkur á því hversu gríðarlega mikilvæg stofnun Matvælastofnun er. Hún er raunverulega lykillinn okkar að mörkuðum. Hvorki meira né minna. Hún er forsenda þess að við getum boðið fram vöru, framleiðslu okkar, fyrst og fremst á sviði matvæla.

Forveri þessarar stofnunar, Landbúnaðarstofnun, var settur saman úr mörgum litlum stofnunum eins og tekið væri til í stofnanakerfi landbúnaðarráðuneytis þess tíma. Ég þykist þekkja ágætlega sögu þessarar stofnunar og aðdragandann að því að þegar Landbúnaðarstofnun var stofnuð og síðan þegar þeirri stofnun var aftur breytt með auknu hlutverki í Matvælastofnun. Raunverulega má segja einfaldlega með þeim orðum að við höfum kannski stöðugt verið að búa til stofnun og þegar við höfum náð einum áfanga var hann í raun löngu orðinn úreltur og við búin að bæta svo miklu á skrifborð þessarar stofnunar að aldrei vannst tími til að byggja upp og koma í fastan farveg hvaða vinnubrögðum við ætluðum að beita, til hvers við værum og hvernig við ætluðum að ná markmiðum okkar. Það finnst mér vera saga þessarar ágætu stofnunar í hnotskurn. Við höfum gengið vasklega fram í að sópa saman verkefnum, setja nýja löggjöf, búa til nýjar reglur og ætla síðan stofnuninni að fylgja þeim eftir. Þá sitjum við eftir með tvo meginpunkta sem þessi ágæta skýrsla rammar svo ágætlega inn: Matvælastofnun nær ekki að sinna öllum lögbundnum skyldum sínum og mikið álag og annir eru hjá stjórnendum og starfsmönnum; og í öðru lagi, stofnunin starfar ekki nægilega vel sem ein samstillt heild. Ímynd bæði meðal eftirlitsþega og í samfélaginu í heild er ekki nægilega góð. Þetta er verkefnið sem ágætir skýrsluhöfundar draga hérna fram með svo skilmerkilegum hætti að við verðum að ráðast í.

Rétt eins og ég sagði í upphafi: Matvælastofnun er einhver mesta grundvallarstofnun sem matvælaframleiðendur á Íslandi eiga. Lykillinn að markaðnum. Þá eru hagsmunir að baki starfsemi Matvælastofnunar gríðarlegir og fjölþættir. Tryggja þarf að farið sé að lögum og reglum um matvæli úr dýraríkinu og í sinni víðfeðmustu mynd, dýravelferð og aðbúnað matvælaframleiðslu, verndun lífríkis, einkum dýraríkis, með eftirliti með dýrasjúkdómum hvers konar, hvort sem er vegna innflutnings og útflutnings dýra og dýraafurða eða sjúkdóma sem geta breiðst út og haft áhrif á alidýr og villt dýr, almenn dýravernd sem lýtur að velferð og meðferð dýra, grundvöllur matvælaöryggis, t.d. með því að ekki berist smit eða eitrun í fólk úr matvælum og að almenn starfsemi á sviði matvælaframleiðslu á þessu sviði standist kröfur neytenda og aðrar opinberar kröfur. Matvælastofnun er útvörður milliríkjaviðskipta með lifandi dýr og matvæli, hvort sem er úr sjávarútvegi eða landbúnaði, og aðrar afurðir. Hún er grundvöllur þess að skapa aðgang að erlendum mörkuðum og vera trúverðugur eftirlitsaðili sem skapar traust á íslenskri matvælaframleiðslu og hefur víðtæk tengsl við sambærilega aðila, ekki einungis í EES löndum heldur um allan heim. Framkvæmd búvörusamninga þarf að vera hnökralaus og tryggja að útgreiðslur fylgi þeim reglum og opinberu viðmiðunum sem eru skilyrði þess að bændur njóti framlaga samkvæmt samningum.

Þegar við drögum það saman sjáum við hversu gríðarlega miklir hagsmunir eru að baki starfsemi Matvælastofnun og hversu óskaplega mikilvægt er að hún sé bæði skilvirk og hafi traust gagnvart starfsemi sinni. Matvælastofnun gegnir því grundvallarhlutverki í samfélaginu okkar.

Lagðar eru til margvíslegar tillögur til úrbóta í skýrslunni sem við ræðum hér. Má telja þær margar mjög skynsamlegar og eins umræðu eftir þeim tillögum sem lengi hefur verið beðið eftir. Þær tillögur snerta alla starfsemi stofnunarinnar og einnig ráðuneytið sem hún heyrir undir. Þær snerta einnig þingið í því skyni að það vantar skýrari heildarlög um stofnunina, rétt eins og hv. ræðumaður hér á undan, Einar Brynjólfsson, rakti svo ágætlega. Ég tek undir það með honum. Frumvarp þess efnis er reyndar í undirbúningi en hefur ekki komið fram.

Miklar breytingar hafa orðið á því regluverki sem stofnunin starfar eftir. Stærsta breytingin eru ný heildarlög um velferð dýra, tilsvarandi reglugerðir og verklagsreglur um álagningu sekta og fleira sem er sá verkfærakassi, ef orða má svo, sem var ekki að fullu tilbúinn fyrr en undir lok ársins 2015 þannig að ekki var hægt að segja að full virkni væri komin á. Ég held að það sé mikilvægt að við rifjum það upp, sérstaklega í ljósi þess að mögulega má segja að Brúneggjamálið hafi velt þessu þunga hlassi. Umræðan sem varð til þess að þessi skýrsla var smíðuð helgast fyrst og fremst af því að þeir verkferlar og sú löggjöf sem eru ramminn utan um eftirlit með velferð dýra og tilsvarandi verklagsreglur voru ekki tilbúin fyrr en seint á árinu 2015. Það skýrir kannski að einhverju leyti að það hræðilega mál kom upp að því leyti að ef við hefðum haft þær reglur og verklagsreglur tilbúnar fyrr hefðum við hugsanlega gengið snarpar fram í því máli.

Allt frá því að stofnunin tók til starfa fyrir bráðum áratug hafa mörg verkefni bæst við. Stundum hefur ekki verið hugsað til enda hvernig ætti að framkvæma mörg þeirra. Alþingi hefur veitt verulega fjármuni til starfseminnar. Þeir sem sæta eftirliti hennar greiða auk þess hundruð milljóna í eftirlitsgjöld eða nær hálfum milljarði króna af þeim 1.700 milljónum sem heildarumfang stofnunarinnar er.

Þarna eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir að baki, sem ég held að sé rétt að við gaumgæfum vandlega hvernig eru uppbyggðir við endurskoðun laga um Matvælastofnun og hvernig við byggjum upp slíka gjaldskrá sem stofnunin fjármagnar sig með. Ég get sagt frá þeirri reynslu að það var afskaplega ógagnsæ vinna og erfið að rýna áætlanir stofnunar sem átti að vera rökstuðningur fyrir gjaldskrá á hverjum tíma.

Ég lærði í öðru starfi sem ég tók við fyrir rúmum áratug síðan og fór að kynnast umræðum um landbúnað og matvælaframleiðslu í öðrum löndum, eins og t.d. Danmörku, sem er fyrst og fremst matvælaframleiðsluríki rétt eins og við Íslendingar að verulegu leyti, að sá harði heimur og það umhverfi sem umræður um dýravelferð og dýravelferðarmál eru í, sem komið var þar upp úr árunum 2000–2003, 2004, er að skella á okkur núna af fullum þunga hér heima. Við erum að fóta okkur í þeirri umræðu. Okkur finnst margt erfitt og margt þungt í henni. Mörgum bændum finnst erfitt að takast á við hana. En hún er hins vegar ákaflega mikilvæg, að við nálgumst hana með réttum tækjum og tólum. Í þessari skýrslu, sérstaklega þriðja hluta hennar, er mikið fjallað um dýravelferð og matvælaeftirlit. Þar eru að mínu mati rakið með afskaplega skilmerkilegum hætti hvernig einstaka þjóðir nálgast þetta mikilvæga starf.

Hæstv. ráðherra staldraði hér við lönd eins og Noreg og Danmörku. Ég get verið sammála henni um að við eigum að horfa til þeirra. Ég vek sérstaka athygli á að í skýrslunni er fjallað um matvælaeftirlit Danmerkur og þær fyrirhuguðu breytingar sem þar eru nú til umræðu um að útvista hluta af því eftirliti sem þar er. Talað er um að 25% af því eftirliti megi mögulega útvista. Umræðan um dýravelferð og matvælaframleiðslueftirlit er viðkvæm en hún er ákaflega nauðsynleg. Þess vegna held ég að í skýrslunni sé að finna margar góðar ábendingar um hvernig aðrar þjóðir haga slíku eftirliti sem við getum auðveldlega tileinkað okkur. Ég staðnæmist ekki einungis við það að við ættum eingöngu að horfa til Danmerkur eða Noregs í þeim efnum og bendi sérstaklega á Lettland í því tilfelli sem rakið er svo skilmerkilega, því að í grunninn má segja að við séum að fjalla hér um vandamál sem helgast öðrum þræði af því að við erum að yfirtaka og undirgangast umfangsmikið regluverk, fámenn þjóð sem hefur tiltölulega fáa til að standa undir regluverki sem á ágætlega við í milljónasamfélögum.

Eitt af hlutverkum Matvælastofnunar er dýralæknaþjónusta. Í kjölfar þeirrar stóru kerfisbreytingar sem varð hér fyrir nokkrum misserum síðan hefur dýralæknaþjónusta í langan tíma valdið nokkrum áhyggjum dýraeigenda. Ég held að sá þáttur og við undirbúning á honum — og ég skal viðurkenna að ég kannast við gagnrýni sem fram kom við þann undirbúning. Ég tók þátt í að gagnrýna þann undirbúning með þeim orðum að þar gættum við þess ekki að flétta dýralæknaþjónustuna saman við aðra starfsemi sem rekin er á sviði dýrahalds, eins og t.d. leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði. Ég vil beina því sérstaklega til hæstv. ráðherra að huga að því þegar hún fer að vinna úr þeim breytingartillögum sem reifaðar eru í þessari skýrslu.

Stofnunin þarf að vinna miklu meira með fólki. Þar á ég einkum við það sem fram kemur í skýrslunni, að stofnunin sé ekki nægilega samstillt og ímynd hennar ekki nógu góð. Það verður einfaldlega að laga það að eftirliti sé ekki sinnt með samræmdum hætti um land allt. Það er ósanngjarnt og veldur því eðlilega að orðspor stofnunarinnar skaðast. Síðan þarf að vinna skipulega með hagsmunaaðilum að úrbótum þar sem þeirra er þörf. Hagsmunaaðilar eiga auðvitað ekki að stýra eftirlitinu í sjálfu sér en það er vænlegra til árangurs að leita samstarfs við þá um framkvæmd þess og svara spurningum og aðstoða við að hafa hlutina í lagi. Flestir vilja hafa sitt á hreinu, ekki síst ef þeim er hjálpað til að komast þangað. Þess vegna legg ég líka áherslu á að stofnunin ræki leiðbeiningarhlutverk sitt og samstarf við hagsmunaaðila við þær breytingar sem óhjákvæmilegt er að ráðast í í kjölfarið á þessari ágætu samantekt sem við ræðum hér.



[15:21]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum í dag skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um Matvælastofnun. Tilgangur skýrslunnar var að fara yfir starfsemi MAST og gera tillögur um úrbætur þar sem þess er talið þörf.

Þegar kemur að eftirliti með framleiðslu og meðhöndlun matvæla er augljóst að hagsmunir eru víðtækir og fjölbreyttir. Undir það fellur allt frá vernd lífríkis Íslands og velferð dýra almennt auk matvælaöryggis svo tryggja megi hnökralaus viðskipti og aðgang að erlendum mörkuðum með matvæli. Starfsemi MAST er því hluti af afar mikilvægu samevrópsku eftirlitsstarfi með framleiðslu og meðhöndlun matvæla sem er grundvöllur þess að Ísland geti rækt skyldur sínar og þar með verið þátttakandi í sameiginlegum markaði EES.

Þegar starfsemi MAST hófst í núverandi mynd störfuðu 75 hjá stofnuninni en nú eru um 90 fastir starfsmenn. Aðeins hluti þessarar fjölgunar starfa er vegna þeirra verkefna sem tengjast eftirlitshlutverki MAST. Rík áhersla er á að skoða nánar hvort í hendur hafi haldist fjölgun sumpart til viðamikilla verkefna og nauðsynleg aðföng til að sinna þeim sem skyldi.

Ýmislegt bendir þó í þá átt að stofnuninni sé ætlað um of, eins og fram hefur komið hér í dag, sem kemur niður á vinnubrögðum, starfsanda og samskiptum út á við. Í skýrslunni má m.a. lesa eftirfarandi úr svokallaðri stöðugreiningu, með leyfi forseta:

„MAST nær ekki að sinna öllum lögbundnum skyldum sínum og mikið álag og annir eru hjá stjórnendum og starfsmönnum. Töluvert er um langtímaveikindi vegna álags og í starfseminni sjást víða merki þreytu og jafnvel kulnunar.

Stofnunin starfar ekki nægilega vel sem ein samstillt heild. Ímynd bæði meðal eftirlitsþega og í samfélaginu í heild er ekki nægilega góð.“

Fyrst sú sem hér stendur á að heita bóndi, með öðru, get ég staðfest að þótt samskipti við MAST séu alla jafna ágæt hef ég heyrt á bændum að þeir virðast í vissum tilfellum vantreysta stofnuninni. Sú staða er ekki góð, hvorki fyrir bændur né MAST.

Við lestur skýrslunnar getur maður ekki varist þeirri hugsun að innra skipulag stofnunarinnar sé hugsanlega ekki eins og best verður á kosið. Það getur ekki verið markmið með stofnun á vegum ríkisins að hún nái ekki að sinna þeim verkefnum sem henni er ætlað með viðunandi hætti og sé ekki í góðu sambandi við þá sem hún á að hafa eftirlit með og þjóna.

Hæstv. forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um ætlun hennar að koma af stað undirbúningi við matvælastefnu. En eins og staðan er nú liggur ekki fyrir heildstæð stefna stjórnvalda um matvælaeftirlit. Eftirlitið er á hendi tveggja aðila, MAST og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Ef haft er í huga að heilbrigðiseftirlitið skiptist í tíu sjálfstæða aðila með framkvæmdastjóra á hverju svæði má segja að í raun sinni ellefu aðilar eftirlitinu. Skýrsluhöfundar segja að athuganir þeirra hafi leitt í ljós að fyrirkomulagið sé ýmsum vandkvæðum bundið og valdi óhagræði og ósamræmi við framkvæmd eftirlits. Báðar stofnanirnar sinna líkum verkefnum þegar um matvælaeftirlit er að ræða með vel menntað starfsfólk sem hefur áþekka reynslu að baki. Eitthvað hefur borið á að skörun hafi orðið á milli MAST og heilbrigðiseftirlitsins og hefur komið til kasta ráðuneytisins að skera úr um hvor aðilinn beri ábyrgð á eftirlitinu. Þetta hefur óneitanlega valdið óánægju þeirra sem njóta þjónustunnar og hefur grafið undan trausti og tiltrú á kerfinu.

Úr þessu mætti hugsanlega bæta með því að setja heildstæða matvælastefnu eins og finna má í nágrannalöndunum og þá um leið að færa matvælaeftirlitið á eina hendi. Hagræðing og hagkvæmni hlýtur að vera sú krafa sem gerð verði til MAST og annarra stofnana sem sinna eftirliti. En úr þessari skýrslu má lesa að skortur á fjármagni og afli til framkvæmda hamli því að hún geti sinnt ætluðu hlutverki sínu. Ég velti því fyrir mér hvernig ríkisstjórnin ætlar að mæta þessu þegar gerð er 2% aðhaldskrafa.

Starfsemi MAST grundvallast á þekkingu starfsmanna hennar og þeirri reynslu sem þeir búa yfir. Fram kemur í skýrslunni að mannauðsmálum og samspili mannauðs og menningar sé of lítill gaumur gefinn en á sama tíma sé MAST mjög háð einstaklingum sem þar starfa, einkum sérfræðingum, og má illa við því að missa þá. Ég vil því leyfa mér að velta upp hvort ekki sé tímabært að ráða þangað mannauðsstjóra. Í raun kom það fram í máli hæstv. ráðherra að vinna verði lögð í að huga að mannauðsmálum því að hér erum við að tala um lykilstofnun sem skiptir okkur alveg gríðarlega miklu máli sem matvælaframleiðsluþjóð. Ég fagna því.



[15:26]
Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fram skuli vera komin skýrsla um úttekt á starfsemi Matvælastofnunar. Niðurstaðan hryggir mig reyndar eins og fleiri sem hafa talað hér. Þarna sé ég ekki betur en að ákveðið stefnuleysi, skortur á samhæfingu og eftirliti mjög marga aðila hafi gert að verkum að okkur hefur ekki tekist að mynda góða umgjörð um eftirlit með frumframleiðslu og vinnslu dýraafurða né heldur eftirlit með smásölu, veitingahúsum og mötuneytum. Eins og staðan er skiptist eftirlit með þessum aðilum niður á 11 aðila. Þess utan er framtíðarsýn í málaflokknum afar óljós og verður því mjög erfitt að skilgreina umfang og árangur eftirlitsins.

Þær fara fyrir lítið yfirlýsingarnar um besta og hreinasta kjöt í heimi og bestu landbúnaðarafurðirnar ef við getum ekki sannreynt þær með neinu móti. Ef okkur tekst ekki að gera eftirlit með frumframleiðslu og vinnslu dýraafurða trúverðugt er til lítils að berja sér á brjóst um ágæti afurðanna. Ýmis mál sem varða umrætt eftirlit hafa líka komið illa við neytendur á undanförnum misserum og ber þar helst að nefna Brúneggjamálið, eins og komið hefur fram, sem þó leiddi til þeirrar úttektar sem er til umfjöllunar, sem er gott. Skyldur ýmissa aðila á sviði dýravelferðar hafa einnig komið ítrekað upp og löngu orðið tímabært að við þeim atriðum sé brugðist.

Það vekur einnig athygli mína að sérstaklega er rætt um að eftirlit með frumframleiðslu og vinnslu dýraafurða hjá Matvælastofnun heyri undir fagráðuneyti. Það er rætt sérstaklega að ýmislegt mæli með því að skilja eftirlit frá ráðuneytinu, enda sé það ekki endilega eðlilegt að eftirlitið fari fram innan fagráðuneytisins, og hvort því sé betur fyrir komið þar sem neytendavernd fer alla jafna fram. Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðum um þetta mál og niðurstöðum þegar stefna í málaflokknum liggur fyrir.

Í skýrslunni kemur einnig fram að innan Matvælastofnunar sé mikilvægt að ráðast í endurskipulagningu á ýmsum verkferlum, samstarfi innan húss og utan, samskiptum og samráði við aðra hagsmunaaðila, svo eitthvað sé nefnt. Þá sé mannauðsmálum ábótavant. Það er mjög brýnt að mínu mati að huga sérstaklega að mannauðsmálum, enda byggir Matvælastofnun á mannauði og þekkingu hans. Súrt vinnuumhverfi með óskýrum boðleiðum og röngum áherslum án tengsla við hagsmunaaðila er ekki líklegt til árangurs.

Í skýrslunni kemur fram tillaga um að mótuð verði heildstæð stefna stjórnvalda í málaflokknum. Ég fagna því. Skýr stefna með mælanlegum markmiðum er fyrsta skrefið í átt að betri frammistöðu og bættri samkeppnisstöðu Íslands á sviði matvælaframleiðslu, dýravelferðar o.fl.

Ég vil hvetja til þess að draga að borðinu alla þá hagsmunaaðila sem málið varðar til að stefnumótun verði eins góð og frekast er unnt og taki örugglega til þeirra þátta sem máli skipta varðandi þau atriði sem ætlunin er að ná yfir. Þannig aukum við virði ýmissa landbúnaðarafurða, gerum betur þegar kemur að dýravelferð og tryggjum hámarksárangur.

Ég fagna áherslu hæstv. ráðherra þessa málaflokks í ræðunni á undan um stefnumótun og áform um að styðja þessa mikilvægu stofnun og bind vonir við að landið okkar verði ábyrgt og framsækið matvælaland í framtíðinni, eins og ég hef oft rætt. Við á Íslandi höfum öll tækifæri til þess, jafnvel betri og meiri tækifæri en önnur lönd.



[15:31]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu og umræðuna. Eftir málið sem upp kom í sambandi við fyrirtækið Brúnegg vöknuðu óneitanlega spurningar um hvort meira væri um slíkar blekkingar, hvort fleiri blekkingar væru á ferðinni og neytendur fengju ekki að sjá alla myndina hjá fleiri matvælafyrirtækjum. Við neytendur treystum á eftirlitið og styrk þess til að vernda okkur fyrir slíkum blekkingum og að dýravernd sé í hávegum höfð.

Fram kemur í niðurstöðukafla skýrslunnar að það sé skoðun höfunda að í framkvæmd málsins um Brúnegg af hálfu Matvælastofnunar hafi birst veikleikar í fyrirkomulagi við eftirlit á fyrirtækinu á nokkrum afmörkuðum sviðum sem mikilvægt sé að draga lærdóm af. Tekið er fram að verklagsreglur hafi verið óljósar og óvissa um eftirfylgni athugasemda sem voru gerðar ár eftir ár án þess að brugðist hafi verið við þeim á neinn hátt fyrr en mörgum árum síðar. Nauðsynlegt er að hæstv. ráðherra sem fer með þessi mál og hæstv. ráðherra neytendamála hafi samráð um aðgerðir til að færa málin til betri vegar.

Í skýrslunni kemur einnig fram að áhættumat og áhættukynning á landsvísu sé mikilvægur hornsteinn matvælaeftirlits og veiti eftirlitsaðila ákveðið aðhald. Á grundvelli áhættumats verði skýrara hvaða staðreyndarákvarðanir eru teknar í áhættustjórnun og stjórnendur geti síður valið hvaða sannleika þeir taka sem viðmið. Öll þau lönd sem skoðuð voru í Evrópu nota þetta kerfi að einhverju marki en Ísland hefur ekki innleitt kerfið í heild sinni. Formlegt áhættumat hefur aðeins verið framkvæmt í afmörkuðum málum en aðeins örsjaldan hefur áhættumat verið framkvæmt. Samkvæmt matvælalögum á að skipa áhættumatsnefnd sem vinni óháð áhættumat á vísindagrunni. Það er hins vegar ekki gert. Því verður að kippa í liðinn.

Það er grundvallaratriði að eftirlitsaðilar séu frjálsir í faglegri ákvarðanatöku. Á því byggist m.a. traustið til þeirra. Eftirlitsaðilar í matvælaiðnaði verða að vera faglega sjálfstæðir. Annað er óásættanlegt. Það verður að sjá til þess að eftirlitsaðilar á vettvangi hafi nægilegan stuðning til að fylgja eftir erfiðum málum.

Það er tekið fram í skýrslunni að í a.m.k. einu af viðmiðunarlöndunum séu starfsmenn látnir skrifa undir sérstaka yfirlýsingu um sjálfstæði og hagsmunatengsl. Á Íslandi skiptir slíkt máli þar sem nálægð er mikil á milli manna og ekki óalgengt að eftirlitsaðili og þeir sem eftirlit er haft með þekkist utan starfssviða. Litla kunningjasamfélagið á Íslandi býður upp á spillingargildrur ef formlegar leiðir eru ekki skilgreindar. Formlegir ferlar og góð stjórnsýsla eru enn mikilvægari í minni samfélögum þar sem allir þekkja alla.



[15:34]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Okkur Íslendingum þykir vænt um matvælaframleiðsluna okkar. Hugtakið „Ísland, best í heimi“ beintengir okkur mörg, ef ekki flest, við íslensk matvæli, framleidd við bestu aðstæður, frjáls, vel haldin dýr í okkar hreinu, dásamlegu náttúru, o.s.frv. Hér á Alþingi eiga sér líka reglulega stað sérstakar umræður um matvælaframleiðslu og matvælaöryggi og annað sem tengist þessari mikilvægu atvinnugrein sem er okkur svo hjartfólgin.

Búvörusamningurinn, sem var umdeildur af ákveðnum ástæðum, sýnir m.a. að við erum sem þjóð tilbúin að kosta miklu til við matvælaframleiðsluna okkar, enda eru tækifærin fjölmörg, bæði innan lands og utan.

Hvernig gerast þá atburðir eins og þeir sem áttu sér stað í undanfara þeirrar skýrslu sem er til umræðu, hið svokallaða Brúneggjamál? Ekki síður: Hvað er hægt að gera til að tryggja réttar, skynsamlegar og tímanlegar forvarnir og síðan viðbrögð af hálfu eftirlitsaðila og stjórnvalda? Hvernig er hægt að fullvissa neytendur um að þessi mál séu í lagi hjá okkur? Eða öllu heldur: Hvernig er hægt að standa við slík loforð? Við þurfum að spyrja okkur stórra spurninga í framhaldi af þessari skýrslu. Og við þurfum að hafa svör. Það er ekki tækt að Matvælastofnun nái ekki að sinna lögbundinni skyldu sinni vegna álags á stjórnendur og starfsmenn. Það er ekki í lagi að stefna stofnunarinnar og skipulag standi starfseminni fyrir þrifum, að ferlar séu ekki í lagi, né að stofnunin sé vanfjármögnuð þegar litið er til lögbundinna verkefna.

Það kemur jafnframt fram í skýrslunni að Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna starfi ekki nægilega vel saman og að fulltrúar tali í kross um hvaða lausnir þeir sjái fyrir sér. Þennan hnút þarf einfaldlega að leysa.

Eins og fram kemur í skýrslunni stefnir Danmörk að því að úthluta skoðunareftirliti til einkaaðila, m.a. til að ná að sinna verkefnunum. Við höfum þessa heimild einnig. Með leyfi forseta segir:

„Takmarkið í Danmörku er að úthluta um 25% skoðana fyrst um sinn. Þessi aðferð krefst stöðlunar og góðra skilgreininga og takmarkast við gagnaöflun. Slíkir aðilar hafa ekki heimild til að taka ákvarðanir á grundvelli skoðana. Einnig er það forgangskrafa að viðkomandi einkaaðili hafi faggildingu …“

Þá munu Danir hafa það þannig að hagsmunatengsl eru bönnuð, þ.e. skoðunaraðilar mega ekki eiga beinna hagsmuna að gæta til að tryggja faglegt sjálfstæði. Í stað þess að eftirlitsþeginn borgi eftirlitið borgar lögbært yfirvald verktakanum verkið, aftur til að tryggja hagsmunasjónarmið.

Það er alveg spurning, hæstv. ráðherra, hvort þetta sé ekki eitthvað sem er vert að skoða.

Síðan langar mig í lokin að vísa í atvinnugrein sem miklar væntingar eru bundnar við hér á landi og það er fiskeldið. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að stjórnsýsla vegna fiskeldis liggur hjá Matvælastofnun. Þar höfum við sannarlega ekki efni á að misstíga okkur. (Forseti hringir.)

Herra forseti og hæstv. ráðherra. Þessi skýrsla er gott innlegg í málefni sem við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir og tryggja eins vel og mögulegt er heilnæmi og gæði matvæla og heilbrigði og velferð dýra. Þar eigum við gríðarlegra og fjölbreyttra hagsmuna að gæta.



[15:37]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þarfa og nauðsynlega skýrslu sem er viðbragð við Brúneggjamálinu sem komst í hámæli með umfjöllun Kastljóss í lok síðasta árs. Það mál var sannarlega mikill áfellisdómur yfir eftirliti er lýtur að neytendavernd og dýravelferðarmálum. Málið var sömuleiðis áminning um nauðsynlegt eftirlitshlutverk fjölmiðla í samfélagi okkar og brýna þörf á að styrkja fjölmiðla enn frekar í sínu rannsóknar- og aðhaldshlutverki.

Í þessari ágætu skýrslu koma fram nokkur áhugaverð atriði. Þau atriði sem mér finnst áhugaverðust eru þau sem lúta að stöðu eftirlitsaðila innan stjórnkerfisins, upplýsingaskyldu stjórnvalda en ekki síður stöðu dýravelferðar á Íslandi. Allt þetta hörmulega Brúneggjamál er líka áfellisdómur yfir stöðu neytendamála og því miður um leið yfir eftirliti með matvælaframleiðslu í samfélagi okkar.

Verkefni Matvælastofnunar eru afar yfirgripsmikil, eins og fram kemur í þessari skýrslu, og hefur stofnunin til að mynda eftirlit með sex þúsund aðilum. Á síðustu fimm árum hefur verkefnum Matvælastofnunar fjölgað mjög og örar breytingar orðið á umfangi stofnunarinnar. Því má velta alvarlega fyrir sér fjármögnun stofnunarinnar og hvort ráðherra sjái fyrir sér að hún beiti sér fyrir raunverulegri aukningu fjármuna til þessarar mikilvægu stofnunar til að hlúa enn betur að þeim verkefnum sem lúta að dýraheilbrigði og eftirliti með dýrahaldi og dýravelferð og þeim verkefnum sem snúa að neytendavernd, fræðslu og upplýsingagjöf.

Skýrslan gefur líka skýrt til kynna að stjórnvöld þurfa að stíga niður með mun meira afgerandi hætti en hingað til í þessum málaflokkum, eins og fram kemur bæði í tillögum skýrsluhöfunda um bætt innra starf Matvælastofnunar og svo í umsögn Dýraverndarsambands Íslands, sem mig langar að tæpa örstutt á hér, og eru settar fram í þeim tilgangi að gera matvælaeftirlit og eftirlit með velferð dýra skilvirkara og hagkvæmara en nú er. Í því samhengi eru raktar þar tillögur til úrbóta, til að mynda þarf samstarf við ráðuneytið að styrkja stefnumótun um matvælaeftirlit, dýraheilbrigði, dýravernd og plöntuheilbrigði þarf að skýra mun betur en nú er. Verklagsreglur Matvælastofnunar um þvingunaraðgerðir eru óskýrar. Þær þarf að skýra mun meira. Og eins og fram kemur í ábendingum Dýraverndarsambands Íslands er talið brýnt að fjölga starfsfólki á Matvælastofnun sem tryggt er að vinni beint að velferð dýra þar sem sá mannafli sem fyrir hendi er nægi ekki til að tryggja lágmarksdýravelferð í landinu. Þetta rímar sömuleiðis við þær áherslur sem starfsfólk Matvælastofnunar lagði á mikilvægu endur- og viðhaldsmenntunar.

Þessu tengt þarf líka að bæta fræðslu, bæði til framleiðenda sjálfra og almennings, og auðvitað tryggja endur- og símenntun starfsfólks.

Að auki varðandi upplýsingastefnu finnst mér mjög áhugaverðar þær tillögur sem koma fram í máli Dýraverndarsambands Íslands, að sambandið telji að frumframleiðendur eigi ekki að njóta nafnleyndar verði þeir uppvísir að illri meðferð dýra, enda um atvinnustarfsemi að ræða í þágu neytenda og almannaheilla auk illrar meðferðar á dýrum sem njóta eiga verndar samkvæmt lögum. Þetta getur varla orðið skýrara og vonandi verður þar bætt úr.

Ég hvet hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að sýna í verki stuðning við dýravelferð til neytendamála og við virkara og styrkara eftirlit með matvælaframleiðslu með raunverulegum hætti. Ekki eingöngu með því að koma hlutum í farveg og undirbúning, þótt það sé gott og vel og ágætt svo langt sem það nær, heldur með raunverulegum aðgerðum. Eftirlit með matvælaframleiðslu og dýravelferð á ekki og þarf ekki að vera flókið en er nauðsynlegt ef við viljum koma Íslandi inn í nútímann í þessum málaflokkum og viljum standa við þau stóru orð og fullyrðingar að íslensk matvælaframleiðsla sé með því hreinasta sem um getur í heiminum. Þessi góða skýrsla og úttekt og tillögur í henni getur verið fyrsta skrefið í þeim efnum og hvet ég hæstv. ráðherra til dáða, til raunverulegra aðgerða.



[15:42]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir byrja á að þakka kærlega fyrir það flotta framtak að láta gera þessa úttekt. Fyrsta merkið er að horfast í augu við vandann og átta sig á honum. Það er ekki alltaf nóg að búa bara til nýjar stofnanir, fela þeim verkefni og treysta svo á að þannig virki þetta. Hér erum við með mjög mikilvægan málaflokk undir eins og margoft hefur komið fram í umræðunni í dag og honum verðum við að sinna vel. Ég held að allir séu sammála um það, ekki síst neytendur í landinu, að vilja hafa öflugt matvæla- og dýraeftirlit, eftirlit með dýraheilbrigði og öðru slíku, og líka þeir sem hljóta eftirlitið. Þeir vilja hafa það til staðar. Þeir geta hins vegar haft skoðun á því hvernig það er framkvæmt og hvernig það virkar best. Ég held að mikil vinna sé fram undan við að vinna úr niðurstöðum þessarar skýrslu og í þessum málaflokki í heild sinni. Þó að skýrslan hafi verið sett af stað út af ákveðnu máli eru mörg atriði sem hún kemur inn á sem sýna að málið er mjög fjölþætt, að það séu mörg atriði svo ekki er hægt að gera neitt af því vel því að fókusinn er svo dreifður.

Við þurfum að hugsa það og þess vegna langar mig að tala almennt um þetta hjá hinu opinbera og biðla til þeirra sem fara í þessa vinnu að horfa vítt á málið, ekki einangra sig bara við þennan málaflokk eða málefni þessa ráðuneytis. Þá getur vel verið rétt að skipta hluta verkefnanna upp og styrkja aðrar eftirlitseiningar hins opinbera eða færa þær meira út til skoðunarstöðva eins og er vitnað til í skýrslunni að sé gert í Danmörku. Þegar stofnun nær ekki að sinna hlutverki sínu vel endar öll vinnan hjá ráðuneytinu. Deilan verður alltaf um það hver ber ábyrgðina.

Ég þekki það skýrt úr mínum fyrri störfum sem lögreglumaður að þegar við fengum vandamál til að leysa úr fór oftast mesta vinnan í að hjálpa þolandanum við að ákveða hvort það væri hið opinbera og þá hver hjá hinu opinbera sem bæri ábyrgð á að finna lausn á málinu. Þarna finnst mér það eiga líka við. Þeir sem lúta þessu eftirliti þurfa að fá eftirlit frá Matvælastofnun, frá heilbrigðiseftirlitinu, Vinnueftirlitinu, byggingaryfirvöldum og slökkviliðinu, fjórum aðilum. Hver og einn rukkar sitt. Við ættum að geta samnýtt þessa aðila, þótt það sé á milli ráðuneyta og annarra opinberra aðila, til að nýta fjármunina betur og þeir gætu verið öflugir í eftirliti eins og aðrir eru öflugir í stefnumörkun, ákvarðanatöku og eftirfylgni.

Þá vil ég minna á að við erum með sýslumenn víða um landið sem og heilbrigðiseftirlit og ýmsar stöðvar sem var búið að lofa að styrkja. Það er svona sem við þurfum að skoða þegar við förum í þetta allt saman. Þar ofan á eru framleiðendurnir líka oft með sitt eigið eftirlit. Hvernig getur þetta spilað með afurðastöðvum og öðru slíku? Við þurfum að ákveða hvernig við ætlum að forgangsraða þessum verkefnum og aðskilja svolítið matvælastefnuna, eftirlitsþættina og mismunandi þætti, hvar þeir séu best komnir þannig að hægt sé að hafa sem öflugastan fókus á þeim markmiðum sem við viljum ná og hvernig við nýtum þá fjármuni og þá starfskrafta sem eru í þessu sem best, þvert á allar girðingar á milli opinberra aðila og eftirlitsstofnana.



[15:47]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kærlega fyrir skýrsluna og þeim sem hafa tekið þátt í umræðu um hana. Ég vil jafnframt fá að þakka ráðherranum sérstaklega fyrir hversu skýr hún var varðandi það að setja vinnu strax af stað í sumar um mótun matvælastefnu. Mér fannst við hæstv. ráðherra eiga mjög skemmtilega umræðu um þá möguleika sem eru í framleiðslu íslenskra matvæla. Hér kemur einmitt fram að ekki liggur fyrir heildstæð stefna stjórnvalda um þessar mikilvægu atvinnugreinar okkar. Við erum stór matvælaframleiðandi. Hér erum við að fjalla um Matvælastofnun sem er þá ekki aðeins með eftirlit með landbúnaði og dýrum á landi eins og þeir gætu haldið sem hafa ekki kynnt sér málin, heldur erum við að tala um eftirlit með allri matvælaframleiðslu í landinu og stjórnsýslunni hvað hana varðar.

Hér hefur töluvert verið rætt um að eftirlitið er unnið af tveimur aðilum, annars vegar MAST, Matvælastofnun, og hins vegar heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna. Það hefur leitt til ákveðinna vandkvæða sem ég held að sé einmitt mjög mikilvægt fyrir ráðherrann að skerpa betur á. Þessi skýrsla segir ekki endilega nákvæmlega til um hvernig best sé að gera þetta þannig að það hlýtur að vera hluti af þeirri vinnu sem ráðherrann fer núna í að móta sér stefnu hvað það varðar.

Þegar ég var félagsmálaráðherra í velferðarráðuneytinu var töluverð vinna unnin þar sem sneri að eftirliti og stjórnsýslu félagsþjónustu hjá sveitarfélögunum og hvernig hægt væri að tryggja að stofnun sem væri að sinna ákveðnum stjórnsýsluverkefnum hefði ekki að sama skapi eftirlit með þeim verkefnum sem hún væri að sinna, þ.e. hún væri að leiðbeina, í þessu tilviki sveitarstjórnarstiginu, og sinna ákveðnum verkefnum fyrir það en átti að sama skapi að hafa eftirlit með þessum verkefnum. Niðurstaðan úr þeirri vinnu var sú að leggja til að sett yrði á fót sérstök ráðuneytisstofnun sem er lagaákvæði í stjórnarráðslögunum þannig að ráðherrann þyrfti ekki að koma með lagafrumvarp inn í þingið heldur hefði möguleika á að koma á fót ráðuneytisstofnun sem myndi heyra undir ráðuneytið ef það þætti nauðsynlegt.

Í umræðunni um fjármálaáætlunina sat ég nokkra fundi fjárlaganefndar með landshlutasamtökum sveitarfélaganna. Maður heyrði alveg frá talsmönnum þeirra að þau höfðu áhyggjur af því að ætlunin væri að færa heilbrigðiseftirlitið frá sveitarfélögunum. Þá var bent á annað verkefni sem snýr að eftirliti með skammtímaleigu til ferðamanna, að ætlunin væri að ráða einn starfsmann á höfuðborgarsvæðinu sem ætti að fylgjast með hundruðum eða jafnvel þúsundum íbúða sem væru í útleigu. Hér erum við að tala um hundruð fyrirtækja sem eru að sinna þessum verkefnum og þess vegna er mjög mikilvægt að huga að því að það sé raunverulega verið að sinna þessu eins vel og hægt er.

Tíminn hleypur hérna frá manni en ég verð að nefna að það hafa orðið svo miklar lagabreytingar á þessu sviði á undanförnum árum sem endurspeglast mjög skýrt í þessari skýrslu, að menn hafa verið á fullu að ná utan um þá löggjöf sem við höfum innleitt. Stór hluti hefur komið í gegnum Evrópusambandið og það tekur á en ég held líka að það sé mjög mikilvægt að tryggja það, við erum öll hér sammála um það, að gæði íslenskra matvæla sé með (Forseti hringir.) sem bestum hætti. Þá þarf bæði stjórnsýslan og eftirlitið að virka.



[15:51]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í upphafi er rétt að þakka fyrir þessa skýrslu þó að tilefni hennar komi kannski ekki til af góðu. Það er ljóst að stofnunin gegnir mjög mikilvægu hlutverki fyrir land og þjóð og verður að tryggja að hún styðjist við góðan lagaramma og búi ekki síst við nægilega góð rekstrarskilyrði, m.a. til þess að sinna neytendavernd, matvælaeftirliti, dýraheilbrigði og dýravelferð. Þá er ónefnt mikilvægt hlutverk hennar sem verður vonandi enn mikilvægara eftir því sem tímar líða og það er að tryggja íslenskum matvælum aðgang að mörkuðum erlendis.

Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Eins og áður sagði er starfsemi MAST hluti af afar mikilvægu sam-evrópsku eftirlitsstarfi með framleiðslu og meðhöndlun matvæla, sem er grundvöllur þess að Ísland geti rækt skyldur sínar og þar með verið þátttakandi í sameiginlegum markaði EES. Það að MAST starfi á grundvelli Evrópulöggjafar og njóti trausts bæði hér á landi og erlendis er því gríðarlega mikilvægt.“

Það er því von mín að þessi skýrsla og umræður sem um hana verða séu lóð á þá vogarskál að Alþingi setji vandaða heildarlöggjöf og að í framhaldinu verði stofnuninni svo tryggt nægilegt fjármagn til að hún geti sinnt hlutverki sínu. Við Íslendingar höfum nefnilega nægilega oft, finnst mér, séð að lög og reglur eru einn handleggur en eftirfylgni svo allt annar.

Stjórnendur Matvælastofnunar segja að hún sé sterk faglega, að stjórnendur hafi mikla þekkingu en þá skorti hins vegar mannafla til að hægt sé að sinna öllum skyldum stofnunarinnar. Verkefni hennar eru að aukast og bara á síðustu árum hafa t.d. bæst við verkefni á sviði fiskeldis án þess að fylgt hafi fjármagn til að sinna þeim. Fiskeldið er í gríðarlegum vexti. Það kemur líka fram hjá forstöðumönnum stofnunarinnar að í rauninni er erfitt að hafa eftirfylgni með þeirri atvinnugrein vegna þess að ákvarðanir og úrskurðir stofnunar séu kærðar í sífellu þannig að þetta er flókið mál og það kostar peninga.

Skýrsluhöfundar fjalla líka um þetta nokkuð vel og segja fulla ástæðu til að skoða miklu betur hvort fjölgun starfsmanna úr 75 í 90 hafi haldist fyllilega í hendur við sívaxandi hlutverk sem henni er falið, m.a. þegar kemur að því að sinna að fullu lögbundnum verkefnum. Eins og áður sagði vinnur starfsfólkið undir miklu álagi og starfsemin virðist ekki heldur vera nógu samhæfð. Við getum einfaldlega ekki haldið svona áfram. Í dag eru nefnilega neytendur bæði innan lands og utan orðnir mjög kröfuharðir. Hvort sem þeir eru að velta fyrir sér dýravelferð eða uppgefnum framleiðsluferlum vöru út frá náttúruverndarsjónarmiðum eða af öðrum ástæðum er lágmarkskrafa að þeir geti gengið út frá því að varan sé sú sem hún er sögð vera, ekki falsvara sem stenst ekki væntingar og er ofan í kaupið kannski jafnvel dýrari fyrir vikið af því að hún er auglýst með tilteknum hætti.

Afleiðingar þess að svíkja neytendur og brjóta gegn dýrum eða rýra með öðrum hætti trúverðugleika íslenskrar matvælaframleiðslu þurfa að vera þannig að framleiðendum sé bæði ljós afleiðing þess að gera það og að þeir finni fyrir því.

Í umræðunni áðan sagði hv. þm. Haraldur Benediktsson, fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, að MAST væri lykill okkar að mörkuðum. Ég held að margt sé til í þeim orðum. Matvælaframleiðsla er okkur afar mikilvæg og í henni felast gríðarleg tækifæri þannig að við megum ekki láta undir höfuð (Forseti hringir.) leggjast að tryggja stofnuninni ákjósanleg starfsskilyrði.



[15:56]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka mjög góða og uppbyggilega umræðu en verð þó að segja vegna ákveðinna ummæla að ég fæ ekkert út úr því sem tiltölulega nýr ráðherra í þessum málaflokki að leita að sökudólgum í fortíðinni hjá forverum mínum í starfi. Miklu frekar skulum við horfa til framtíðar með skýrslunni og hvað við erum að gera núna í ráðuneytinu til að byggja upp það sem m.a. hv. þingmenn hafa komið inn á í ræðum sínum.

Matvælastefnan verður sett af stað á árinu. Einföldun eða samræming á eftirliti er gríðarlega mikilvæg. Sveitarfélögin geta ekki kyngt því að verið sé að taka frá þeim eftirlitið en það snýst ekki um það, þetta snýst um að byggja hér upp öflugt eftirlit, öfluga stofnun sem tryggir ákveðið öryggi fyrir neytendur, tryggir okkur aðgang að mörkuðum og að við séum einfaldlega trúverðug.

Nokkrir hafa nefnt hér að skoðunaraðilar og fagaðilar verði að vera óháðir. Ég er algjörlega sammála því. Þetta snertir trúverðugleika stofnunarinnar þannig að það er þýðingarmikið að þau skilaboð komist áleiðis.

Ég vil líka draga fram að í ráðuneytinu er þriggja manna verkefnisstjórn sem starfar í samvinnu við stjórnendur og starfsfólk MAST einmitt til að tryggja að ábendingunum verði fylgt eftir í skýrslunni. Varðandi heildarlöggjöf um starfsemi MAST mun sami hópur vinna að frumvarpi sem við náum vonandi að ræða hér strax í haust.

Ýmsir tala eftirlit niður en ég tel mikilvægt að menn átti sig á því að eftirlit er til að hjálpa. Það er til að hjálpa neytendum og skapa ákveðið öryggi á markaði til að tryggja þann aðgang að erlendum mörkuðum sem okkur hefur orðið tíðrætt um en þá þarf kerfið að vera þannig uppbyggt að það sé ekki flókið, heldur sé skilvirkt og einfalt og að það sé samræmi á milli stjórnsýsluaðila. Það er verið að kalla eftir skýrri umgjörð. Við ætlum að tryggja hana. Ég fer sjálf betur nestuð upp í ráðuneyti (Forseti hringir.) eftir þessa uppbyggilegu og góðu umræðu.