146. löggjafarþing — 61. fundur
 2. maí 2017.
kosningar til sveitarstjórna, 1. umræða.
frv. KJak o.fl., 190. mál (kosningaaldur). — Þskj. 261.

[22:04]
Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998. Lýtur þetta frumvarp að einu ákvæði þeirra laga sem varðar kosningaaldur. Lagt er til að kosningarrétt við kosningar til sveitarstjórnar eigi hver sá íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 16 ára aldri þegar kosningin fer fram og á lögheimili í sveitarfélagi.

Í stuttu máli sagt er lagt til að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum að þessu sinni í 16 ár. Flutningsmenn að þessu máli, auk þeirrar sem hér stendur, eru hv. þingmenn Ásta Guðrún Helgadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Logi Einarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Pawel Bartoszek, Nichole Leigh Mosty, Smári McCarthy, Vilhjálmur Árnason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Teitur Björn Einarsson, Jóna Sólveig Elínardóttir, Björn Leví Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Viktor Orri Valgarðsson.

Frumvarp þetta byggir á frumvörpum sem áður hafa verið lögð fram sem þó gengu lengra. Áður hafa þingmál verið lögð fram um að lækka almennan kosningaaldur niður í 16 ára. Þar ber að nefna tvö mál þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem voru þingsályktunartillaga Hlyns Hallssonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur á 133. löggjafarþingi og svo frumvarp Árna Þórs Sigurðssonar á 141. löggjafarþingi. Þá lögðu þingmennirnir Árni Páll Árnason, Kristján L. Möller og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir auk mín fram frumvarp þessa efnis á 144. löggjafarþingi. Það varð ekki útrætt og því endurflutt af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, þ.e. mér, og Árna Páli Árnasyni á 145. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga.

Þessi fyrri mál hafa öll miðað að því að lækka kosningaaldur almennt úr 18 árum í 16 ár. Slík breyting krefst þess að gerðar séu breytingar á stjórnarskrá Íslands. Hér er í raun lagt til talsvert smærra skref með því að breyta kosningaaldri í kosningum til sveitarstjórna. Það krefst einungis einfaldrar lagabreytingar. Verði frumvarpið samþykkt leggja flutningsmenn áherslu á það eftir sem áður að stefnt sé að því að stíga frekari skref í sömu átt á næstu misserum, hvort sem það verður gert sem hluti af vinnu við endurskoðun stjórnarskrár og kosningalaga sem boðuð hefur verið á yfirstandandi kjörtímabili eða með sjálfstæðu þingmáli, en mikilvægt er að ná samstöðu um þær breytingar og helst fyrir næstu þingkosningar.

Af hverju er þetta mál lagt fram? Ég neita því ekki að ávallt þegar þessi mál ber á góma, þ.e. lækkun kosningaaldurs, verð ég vör við heilmikil viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð. Mörgum þykir óþarfi að vera að víkka kosningaaldurinn út með þessum hætti. Einnig berast iðulega þau viðbrögð eða þær athugasemdir að það sé mjög óheppilegt að hafa þetta ekki í fullu samræmi, þ.e. að það sé eitt sem gerist við 16 ára aldur og annað við 18 ára og hið þriðja við 20 ára og þetta sé allt mjög flókið, sem ég held raunar ekki að það sé. Ég held að mannshugurinn sé svo stórkostlegur að þetta sé ekkert sérstaklega flókið í fyrsta lagi. Í öðru lagi vil ég segja að það að lækka kosningaaldur úr 18 ára niður í 16 ára snýst ekki um að breyta 16 ára börnum í fullorðna. Það snýst um að þessi hópur barna eða ungmenna fái rödd til að hafa áhrif á það sem gerist í þeirra nærsamfélagi, sem er auðvitað sveitarstjórnirnar. Ég myndi segja að eiginlega þekki fáir þau mál betur á eigin skinni en einmitt sá aldurshópur sem nýlokið hefur skólagöngu í gegnum leikskóla og grunnskóla og þekkir mætavel frístundastarfið á vegum sveitarfélagsins. Þessir málaflokkar saman eru í raun og veru meginhluti af starfi sveitarfélaga þegar við skoðum efnahagsreikninginn og fjárhagstölurnar. Hví ekki að leyfa þeim hópi að fá rödd?

Við erum ekki að segja þessum hópi endilega að verða fullorðinn. Við erum aðeins að segja að við ætlum að hlusta á hann og gefa honum tækifæri til að hafa áhrif.

Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram í upphafi því að mér finnst stundum eins og fólk rugli því saman að það þurfi endilega að teljast vera fullorðinn einstaklingur til þess að taka þátt í stjórnmálum. Meginrökin fyrir því að þetta mál er lagt fram eru að því er ætlað að styðja við lýðræðislega þátttöku ungmenna, auka tækifæri þeirra til að hafa áhrif á samfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur. Ef frumvarpið verður að lögum munu aldursmörk kosningarréttar í sveitarstjórnarkosningum 2018 verða við 16 ára aldur í stað 18 ára sem þýðir að 9 þús. manns til viðbótar fá tækifæri til að hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanir sem varða líf þeirra og umhverfi, sem ekki njóta þeirra grundvallarréttinda að óbreyttum lögum. Þetta er umhugsunarefni í ljósi þess að dvínandi þátttaka ungs fólks í kosningum til löggjafarþinga og sveitarstjórna er víða staðreynd og veldur áhyggjum af framtíð lýðræðisins. Það er eitthvað sem ég held að allir hér inni deili áhyggjum af, þ.e. hvernig við getum virkjað ungt fólk til þátttöku í stjórnmálum, því að stjórnmálin eru undirstöðuvettvangur lýðræðislegs samfélags þar sem við tökum ákvarðanir, setjum samfélaginu leikreglur, höfum eftirlit með valdhöfum. Það skiptir máli að sem flestir taki þátt í því að hafa áhrif á hvernig sá vettvangur mótast.

Skoðum stöðuna á Íslandi. Kosningaaldri var síðast breytt hér 1984 þegar hann var lækkaður úr 20 árum í 18 ár, merkilegt hvað er stutt síðan. Það gerðist í samvinnu allra flokka á Alþingi. Ég vil nota tækifærið og fagna því sérstaklega að á þessu máli eru flutningsmenn úr sex flokkum af sjö á Alþingi. Ég vonast til þess að það geti orðið vísir að samstöðu um slíka lækkun.

Þá hafði fyrsta ríkið til að taka upp 18 ára kosningaaldur verið Tékkóslóvakía árið 1946 en 1970 urðu Bretland og Þýskaland fyrstu ríkin í Vestur-Evrópu til að lækka kosningaaldur í 18 ár.

Ég nefndi dvínandi þátttöku. Niðurstöður rannsókna benda til þess að kosningaþátttaka ungs fólks hafi minnkað allt frá því að íslenskar kosningarannsóknir hófust árið 1983. Niðurstöður Hagstofu Íslands eftir þrennar undangengnar kosningar, þ.e. sveitarstjórnarkosningar 2014, forsetakjör 2016 og alþingiskosningar 2016, staðfesta það sem kosningarannsóknin hafði dregið fram, þ.e. að kosningaþátttaka ungs fólks er minni en meðal eldri kjósenda. Þetta var sérstaklega skýrt í sveitarstjórnarkosningum 2014 þar sem kosningaþátttaka fólks undir þrítugu var 47,5% en meðalkjörsókn 66,5%. Þetta er alveg gríðarlegur munur á þátttöku þegar kemur að þessum kosningum. Meðal annars þess vegna var ráðist í mjög mikilvæga vitundarvakningu fyrir síðustu alþingiskosningar þar sem var ráðist í skuggakosningar í ýmsum framhaldsskólum, sem var alveg sérlega skemmtilegt verkefni og gaman að skoða muninn og líkindin milli niðurstaðna skuggakosninga og sjálfra þingkosninganna. Í aðdraganda þessara kosninga voru haldnir fundir í framhaldsskólum sem margir hverjir voru meðal skemmtilegustu funda sem haldnir voru í þeirri kosningabaráttu. Vonandi er þetta ein af ástæðum þess að kosningaþátttaka ungs fólks fór upp á við frá sveitarstjórnarkosningum 2014 í þingkosningum 2016. En þetta er allt skýrt hér í miklu línuriti á bls. 4.

Þetta skiptir að sjálfsögðu máli og er eitt af því sem við höfum rætt talsvert. Til að mynda við undirbúning þessa máls fór ég ásamt tveimur öðrum þingmönnum Vinstri grænna, þeim hv. þingmönnum Andrési Inga Jónssyni og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, og við hittum nokkra fulltrúa ungmennaráða til að heyra þeirra sýn, frá ólíkum ungmennaráðum, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema o.fl., á þessi mál. Þeirra sýn var sú að það skipti vissulega máli að ungt fólk fengi áhrif en líka að aukin áhersla væri lögð á lýðræðismenntun í skólum. Það hefur verið gert að miklu leyti frá því að ný námskrá var gefin út 2011 þar sem lýðræði og mannréttindi eru ein af sex grunnstoðum. Skólarnir hafa verið að útfæra þá stoð með ýmsum hætti. Það eru mjög áhugaverð verkefni víðast hvar í bæði leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum þar sem skólarnir fara mjög ólíkar leiðir í því að stuðla að aukinni vitund um lýðræðið og gera það ekki endilega með því að hafa kennslubækur á borðum um hvað lýðræði sé heldur að stuðla að lýðræðislegum vinnubrögðum. Það eru t.d. gríðarlega áhugaverð verkefni á leikskólastigi sem snúast um nákvæmlega það að ala börnin upp í lýðræðislegum vinnubrögðum, að taka umræður. Þótt viðfangsefnin séu ekki endilega hápólitísk á hverjum tíma skiptir það máli að venja sig á lýðræðisleg vinnubrögð. Það er líklega ástæðan fyrir því að yngsti sonur minn er stöðugt að biðja um fjölskyldufundi til að ræða ýmis mál og vill taka þar lýðræðislegar ákvarðanir þar sem börnin taka iðulega mjög skýra afstöðu gegn foreldrunum. En þetta hefst allt með rökræðunni. Við vitum kannski ekki hvar það endar.

En lýðræðismenntunarverkefni skipta máli. Ég vil nefna Grunnskólann á Ísafirði sem hefur fengið verðlaun fyrir verkefni á því sviði. Við höfum séð framhaldsskólana taka þetta t.d. í gegnum nemendafélög. Ég nefni Hornafjörð sem dæmi þar sem er verið að vinna í því að lýðræðisleg vinnubrögð séu líka höfð í heiðri í uppbyggingu félagsstarfs. Þá getum við líka spurt okkur hvort það fari ekki saman um leið og við stuðlum að auknum þroska og aukinni menntun á sviði lýðræðis að gefa þeim hópi tæki til þess að beita þeirri menntun, þeim þroska, til að hafa áhrif.

Ég vil nefna að þessi þróun, ef við tökum þetta skref, væri ekki séríslensk. Austurríki var fyrsta landið til að stíga það skref að lækka kosningaaldur í 16 ár í öllum kosningum árið 2007 og kjörgengisaldurinn í 18 ár nema í forsetakosningum þar sem hann er 35 ár. Skotland sté þetta skref í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sjálfstæði Skotlands sem var gríðarlega mikil þátttaka í, ekki aðeins út af lækkun kosningaaldurs. Hún þótti takast mjög vel með tilliti til lýðræðislegra sjónarmiða. Skoska þingið samþykkti svo með stórum meiri hluta árið 2015 að stíga skrefið til fulls og lækka kosningaaldur í þing- og sveitarstjórnarkosningum úr 18 ára í 16 ára.

Í greinargerðinni eru talin upp ýmis fleiri ríki sem hafa verið að stíga einhver skref, mjög mörg ríki hafa stigið það skref að byrja á sveitarstjórnarstiginu. Ég nefni Noreg þar sem þessu aldurstakmarki var komið á í tilraunaskyni á sínum tíma. Eistland og Malta hafa stigið það skref að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum og a.m.k. á Möltu er mikil umræða um hvort ekki sé rétt að lækka hann líka í þingkosningum. Kosningaaldur er 16 ár í sveitarstjórnarkosningum í tíu af þýsku sambandsríkjunum. Þar reið Niedersachsen á vaðið árið 1996. Síðan vil ég nefna að þing Evrópuráðsins hefur samþykkt ályktun þessa efnis, gerði það árið 2011, þar sem þingið beinir því til allra aðildarríkja sinna að fara yfir þetta og skoða slíka tilhögun.

Ég vil nefna það að þessar raddir heyrast líka frá unga fólkinu sjálfu. Ég nefndi ungmennaráðin áðan og Landssamband æskulýðsfélaga og fleiri sjónarmið. Þannig hefur ungmennaráð UMFÍ ályktað að rétt væri að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum niður í 16 ár. LÆ, sem er Landssamband æskulýðsfélaga, hefur ályktað með sama hætti. Eins og ég nefndi áðan áttum við fund við stjórn sambands æskulýðsfélaga, ungmennaráð UNICEF og ráðgjafarhóp umboðsmanns barna. Það sem mér fannst einmitt renna stoðum undir að þetta væri rétt skref var sú ábyrga umræða sem þeir fulltrúar áttu í við okkur þingmenn þar sem þeir sögðu: Þetta er gott og blessað en það þarf líka að sinna almennri umræðu um lýðræði í skólum. Það þarf að styrkja þann þátt í skólastarfinu. Þau virkilega settu þau mál á dagskrá að þetta geti verið jákvætt skref en það þurfi líka margt annað að fylgja.

Ég ætla svo sem ekki að halda mikið lengri ræðu um þessi mál en fagna því mjög að fá tækifæri til að mæla fyrir málinu, að svo breið samstaða hafi náðst um meðflutning á þessu máli og er afar spennt að sjá þegar málið fer svo væntanlega til hv. allsherjar- og menntamálanefndar hvaða viðbrögð það fær. Eitt af því sem sömu fulltrúar sem ég nefndi vísuðu í í umræðum sínum við okkur er að ungt fólk hefur líka mikinn áhuga á að koma meira að því að veita umsagnir til að mynda um mál sem eru lögð fyrir á þingi. Það er eitt af því sem við sem þingmenn ættum að velta fyrir okkur. Það eru oft sömu aðilarnir kallaðir til þegar veita á umsagnir um mál, hugsanlega af því að við störfum inni í einhverjum ákveðnum römmum og það liggur ekki augljóslega fyrir hvern á að kalla til. En ungt fólk hefur líka skoðanir á málum sem varða ekki sérstaklega ungt fólk. Það er mjög oft besta reynslan fyrir þingmenn sem er att út á forarsvaðið í aðdraganda kosninga að fara á fundi með ungu fólki og byrja að ræða þau mál sem þeir telja að unga fólkið vilji ræða en komast yfirleitt að því að það eru allt önnur mál sem unga fólkið vill ræða. Það er iðulega reynsla mín af því að mæta á fundi með ungu fólki að það hefur áhuga á einhverju allt öðru en ég held að það hafi áhuga á. Það segir kannski eitthvað um mig, en kannski segir það eitthvað um fleiri hv. þingmenn sem hér glotta mjög yfir þessu. Sum okkar eru auðvitað í betri tengslum við sitt innra barn, ég átta mig alveg á því.

En það sem skiptir máli er að við veltum því fyrir okkur hvaða skoðanir þetta unga fólk hefur. Ég get tekið sem dæmi umhverfismálin, loftslagsmálin, sem varða þetta unga fólk kannski miklu meira en okkur sem eldri erum og hvernig við tökum á því. Samgöngumálin, sem voru að hluta til til umræðu áðan, hvernig varða þau þetta unga fólk og framtíð þess og hvaða framtíðarsýn vill þetta unga fólk sjá í samgöngum? Er það kannski einhver allt önnur framtíð? Ungt fólk sem hefur komið að stefnumótun t.d. úti á landi á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga bendir á allt aðra þætti en þeir sem eldri eru. Það bendir á þætti sem eru því mikilvægir fyrir framtíðina. Mér er minnisstætt að hafa séð slíkar niðurstöður frá málþingi sem landshlutasamtök sveitarfélaga á Austurlandi héldu þar sem unga fólkið kom sérstaklega að og var með allt aðra sýn á það hvernig það vildi sjá landshlutann þróast og hvað skipti það máli í þróun þessa svæðis fram í tímann.

Það skiptir máli að við ræðum ekki aðeins kosningaaldurinn heldur líka hvernig við getum leitað til yngri hópa um stefnumótun, um pólitíska stefnu, og sinnum því hlutverki sem við eigum að sinna samkvæmt lögum og reglum með að standa vel að lýðræðismenntun í samfélaginu, ekki einungis með því að fræða fólk um hinar lýðræðislegu stofnanir samfélagsins, sem er auðvitað ekki vanþörf á, heldur líka um það hvernig eigi að vinna og starfa með lýðræðislegum hætti.

Ég tel að þetta geti verið mjög gott mál til þess að efla áhuga ungs fólk á kosningum og stjórnmálaþátttöku. Ég held að í því felist ákveðið tækifæri. Ég held að skrefið sé í raun og veru mjög varfærið, að miða við sveitarstjórnarkosningar. Þar með værum við ekki að ríða á vaðið, við værum að fylgja í fótspor ýmissa annarra Evrópuþjóða en um leið vera ansi framarlega á merinni í að stíga mjög marktæk og ákveðin skref til þess að efla þátttöku ungs fólks í þjóðfélagsmálum. Það er eins með þennan hóp og aðra að það eru ýmsir hópar sem gleymast. Ég man eftir því að afi minn var alltaf mjög ósáttur við að skoðanakannanir miðuðust við þá sem voru undir 75 ára aldri. Hann sagði: Þetta fólk veit ekki hvað okkur finnst sem erum eldri. En þetta er það sem við hljótum alltaf að vera að hugsa um, hvernig við getum gert þetta samfélag þannig að það taki utan um sem flesta hópa og tryggt að sem flestar raddir heyrist. Þetta gæti verið mjög gott skref í þá átt.

Frú forseti. Ég legg til að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Auðvitað er það von mín að þetta mál nái fram að ganga, ef ekki á þessu þingi þá snemma á því næsta. Það gæti verið frábært tækifæri í sveitarstjórnarkosningunum 2018.



[22:22]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka framsögumanni kærlega fyrir. Ég get að mestu tekið undir meginatriði þessa frumvarps, eða réttara sagt: Ég skrifa undir þau markmið sem menn eru að reyna að ná með þessu frumvarpi, að virkja ungt fólk, vekja áhuga þess á stjórnmálum, þjóðmálum, á umhverfi sínu o.s.frv. En svona til gamans: 16 ára er maður kominn með kosningarrétt til sveitarstjórna, 17 fær maður bílpróf, 18 fær maður sjálfræði og síðan kosningarrétt til Alþingis. Svo fær maður ekkert þegar maður er 19 en fær síðan að kaupa áfengi þegar maður verður tvítugur. Það er spurning hvað við getum gert þarna á nítjánda árinu.

En ég heyri að hv. framsögumaður er frekar varkár og telur að rétt sé að stíga þetta skref fyrst í sveitarstjórnum og sjá til hvernig til tekst og velta síðan fyrir sér alþingiskosningum. En ég er hins vegar ekki viss um að það sé alveg rétt. Látum það liggja á milli hluta. En mér finnst það fingurbrjótur að sá einstaklingur sem hefur atkvæðisrétt til sveitarstjórna sé ekki sjálfráða. Ég held að það sé þá að minnsta kosti vert að huga að því að breyta sjálfræðisaldrinum. Ég velti líka fyrir mér: Hafa hv. flutningsmenn ekki velt fyrir sér öðrum kosningarrétti? Sveitarfélög efna til íbúakosninga. Samkvæmt þessu frumvarpi, skilji ég það rétt, hafa 16 ára, eða þeir sem yngri eru en 18, ekki atkvæðisrétt í íbúakosningum eða í (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslum yfir höfuð. Það er eiginlega spurning hvort þetta frumvarp gangi nægilega langt.



[22:25]
Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann stendur vel undir viðurnefni sínu sem róttæklingur hér í þingsal, hann vill ganga lengra. Eins og ég rakti í upphafi máls míns hafa verið lögð fram frumvörp um að lækka þennan aldur almennt, en það kallar á breytingu á stjórnarskrá. Og okkur hefur nú reynst erfitt að ná fram breytingum á stjórnarskrá, meira að segja hvað varðar önnur mál sem við ræddum hér fyrr í kvöld. Þess vegna er það skref sem lagt er til varfærið.

Mér finnst hins vegar mjög góð ábending hjá hv. þingmanni hvað varðar íbúakosningar í sveitarfélögum sem gert er ráð fyrir í sveitarstjórnarkosningum. Þingnefndin gæti tekið það fyrir. Þá væri mjög eðlilegt að sá réttur fylgdi kosningarrétti í sveitarstjórnarkosningum, að taka þátt í íbúakosningum innan sveitarfélaga. Ég ímynda mér hins vegar að réttur til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu ætti að fylgja þingaldri. En það er samt sjálfstæð ákvörðun, samanber skoska dæmið sem ég nefndi áðan, þar sem ákveðið var að lækka kosningaaldur í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands og í framhaldinu tekin ákvörðun um að lækka kosningaaldur almennt til þings og sveitarstjórna.

Hv. þingmaður nefndi ósamræmið hér, sem ég kom einnig inn á. Það er reyndar svolítið leiðinlegt að ekkert gerist þegar maður verður nítján ára, ég er alveg sammála því. Það má nú finna upp á einhverju varðandi það. En sjálfræði eða ekki sjálfræði: Alþingi tók þá ákvörðun að samræma lögræðis- og sjálfræðisaldur á sínum tíma þannig að börn yrðu börn til átján ára aldurs. Mjög margt gott hefur fylgt þeirri ákvörðun, vil ég nú segja, þó að ég persónulega hafi verið mjög efins um það á sínum tíma þar sem ég var yngri þá. En ég hef séð það í skólastarfi í landinu að þetta hefur skipt miklu máli. Það er mjög margt gott sem komið hefur út úr því hvað varðar forvarnir og annað slíkt. Þess vegna spyr ég: Þarf þetta að fylgjast að? Þarf maður (Forseti hringir.) endilega að vera fullorðinn til að taka þátt í kosningum? Hefur maður ekki jafn mikilvæga rödd fyrir því?



[22:27]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ágæt og skýr svör. Ég er ekki alveg sannfærður. Það truflar mig að það sé rof á milli sjálfræðis annars vegar og kosningarréttar hins vegar. Mér finnst það að minnsta kosti vera efni sem allsherjar- og menntamálanefnd getur velt fyrir sér. Ég heyri líka að hv. framsögumaður tekur undir að það þurfi þá að skoða önnur ákvæði þegar kemur að íbúakosningum. Ég fagna því. Við getum síðan fundið eitthvað sameiginlega fyrir áramót fyrir hina nítján ára þannig að sá afmælisdagur líði nú ekki án þess að menn vinni sér inn einhver réttindi. Það er nú bara svona til að hafa það huggulegt og hafa samræmi í þessu, að það séu alltaf einhverjir áfangar þangað til maður verður tvítugur.

En að öllum gamni slepptu tek ég undir meginmarkmið þessa frumvarps. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, ekki síður fyrir kjörna fulltrúa, að geta átt samtal við yngra fólk. Ég tek undir með hv. framsögumanni sem sagði í ræðu sinni áðan að ungt fólk væri nefnilega oft betur að sér en maður sjálfur í ýmsum efnum og hefði kannski áhuga á málum sem kæmu manni á óvart, ekki þeim sem maður hélt að maður gæti skautað léttilega í kringum og væru frekar léttvæg. Það er ekki þannig. Þetta unga fólk er þannig að ég hygg að hægt sé að halda því fram að við Íslendingar höfum líklega aldrei átt jafn glæsilegt fólk og nú er í skólum landsins.



[22:29]
Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Kjörgengi í stjórn Byggðastofnunar er víst níu ár [Hlátur í þingsal.] þannig að maður þarf ekki að vera sjálfráða til að standa í því. En svona að öllu gamni slepptu þá geta 16 börn farið til læknis án þess að spyrja foreldra sína, svo dæmi sé tekið. Þá eru þau orðnir sjálfstæðir þjónustuþegar, þau þurfa ekki að spyrja mömmu og pabba til að leita sér lækninga. Þetta fer því ekki allt saman. En þetta er áhugaverð spurning og ég skil hvað hv. þingmaður er að fara með þessu, að honum finnist þetta þurfa að fara saman, sjálfræði og að taka þátt í kosningum. Ég er ekki sammála því. Ég tel að það geti verið eðlilegt fyrir lýðræðissamfélag að leita eftir skoðunum þeirra sem ekki eru enn komnir á sjálfræðisaldur vegna þess að okkur finnst skipta máli að þeirra rödd heyrist líka þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir. Mér finnst það vel geta orðið þó að ég átti mig alveg á rökunum fyrir hinu.

Og eins og ég sagði áðan í of löngu máli er svo margt jákvætt sem hefur fylgt því að færa sjálfræðisaldurinn upp í 18 ár að ég er ekki viss um að við myndum vilja fórna því. Ég held að við getum náð fram markmiðum um að auka þessa lýðræðisþátttöku án þess að breyta því en það er bara eðlilegt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari yfir það.

Síðan vil ég bara taka undir með hv. þingmanni; ef reyndin verður sú að þessu verði breytt mun það skila sér að treysta þessum hópi og hópurinn mun standa undir því trausti, ég er alveg viss um það. Ég held að aðalmálið til þess að vekja áhuga ungs fólks á stjórnmálum sé einmitt að það finni fyrir því í reynd að það hafi áhrif, að það hafi eitthvað að segja. Það er það sem ætlunin er að gera í skólastarfinu og verið er að gera víða þar, en það skiptir líka máli að fólk geti komið að raunverulegri pólitík. (Forseti hringir.) Ég man enn eftir því þegar ég kaus í fyrsta sinn hvað mér fannst það stór dagur í mínu lífi og hvað ég var búin að bíða lengi eftir þeim degi.



[22:32]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. flutningsmanni Katrínu Jakobsdóttur fyrir góða framsögu og í raun flutningsmönnum öllum fyrir mjög góða greinargerð með frumvarpinu.

Ég tek sérstaklega undir það sem kom fram í máli hv. þingmanns um umsagnir, þegar við hér á þingi vísum málum til umsagna. Ég er ein af þeim sem eru talsmenn barna á þingi. Við höfum rætt þetta svolítið í okkar ranni. Þar hafa einmitt komið ábendingar frá ungmennaráðunum sem við höfum verið að vinna með sem eru mjög öflug — mjög flottir og frambærilegir krakkar — um að þau myndu gjarnan vilja vera virkari þátttakendur í þessu starfi okkar.

Það var margt í ræðu framsögumannsins sem hljómaði sem konfekt í mín eyru. Hafandi starfað lengi á sveitarstjórnarstiginu tek ég undir að það er kannski einmitt í þeim málaflokkum sem ungmennin ættu að hafa mjög virka rödd. Þau þekkja þá þjónustuþætti mjög vel sem verið er að veita hjá sveitarfélögunum.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann þar sem það frumvarp hefur komið fram áður: Hefur það verið sent út til umsagnar? Hvað hefur þá staðið í vegi fyrir því að það hafi fengið áframhaldandi afgreiðslu? Lýtur það fyrst og fremst að stjórnarskrárbreytingunum? Hefur eitthvað af umsögnunum lotið að þessari spurningu hér, að færa niður kosningaaldurinn?



[22:33]
Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er ánægjulegt að heyra hennar sýn sem konu með reynslu af sveitarstjórnarmálum. Sveitarfélögin hafa mörg hver um margt staðið framarlega í því að leita eftir sjónarmiðum ungs fólks. Við þekkjum til dæmis fundi hér í Reykjavík þar sem borgarstjórn fundar með ungmennaráði. Vafalaust er það þannig víða í fleiri sveitarfélögum. Þaðan heyrum við oft raddir frá ungu fólki, í gegnum sveitarstjórnirnar. Ég held því að þetta geti verið gott skref.

En hv. þingmaður spyr hvað hafi tafið málið. Þetta er í fyrsta sinn sem mælt er fyrir málinu. Það er gert með þessum varfærnari hætti vegna þess að það er meira en að segja það að fá í gegn stjórnarskrárbreytingar nema búið sé að undirbyggja þær. Það var ástæðan fyrir því, í umræðum hér á milli manna, að ákveðið var að leggja þetta til með þessum hætti. Líka til að læra af reynslu annarra þjóða sem hafa stigið þessi skref í áföngum, ekki stigið skrefin í einu lagi heldur prófað þetta fyrst og séð hvaða reynsla gæfist af því. Þess vegna lagði ég svo ríka áherslu á það hér áðan í máli mínu að ég er mjög áhugasöm um að sjá hvaða umsagnir berast og hvernig þær verða því að sú hefur ekki orðið raunin. Þar af leiðandi hefur sú umræða kannski ekki farið fram sem hv. þm. Óli Björn Kárason vitnaði til um samræmi milli sjálfræðisaldurs og kosningaaldurs og annað slíkt. Ég held að við höfum einstakt tækifæri til að gera þetta, ég tala nú ekki um ef jafnvel næðist að skapa samstöðu fyrir kosningar 2018, þá væri það auðvitað sérlega ánægjulegt.



[22:35]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka þessi svör. Ég verð eiginlega að taka undir það, ég held að það væri mjög áhugavert að fá umsagnir um þetta ágæta frumvarp. Í ljósi þess að óðum styttist í sveitarstjórnarkosningar væri eiginlega betra að fá slíkar umsagnir og afgreiðslu um málið fyrr en seinna. Ég tel að kannski þurfi einhvern undirbúning og þótt skólarnir standi sig mjög vel í lýðræðisfræðslu hygg ég að þeir myndu nú taka þetta sérstaklega upp á sína arma og fjalla sérstaklega um það ef lækka ætti kosningaaldur til sveitarstjórna. Ég fagna því að hér sé verið að mæla fyrir þessu frumvarpi og hlakka til að sjá hvernig allsherjar- og menntamálanefnd tekst á við þetta verkefni og hvaða umsagnir munu berast. Ég treysti því þá að því verði meðal annars vísað til umsagnar hjá ungmennaráðum víða því að þau hafa svo sannarlega góða rödd og eru mjög virk víðast hvar.



[22:36]
Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það. Við höfum ágætistíma núna ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd ákveður að senda þetta mál strax til umsagnar þá berast þær að minnsta kosti eftir tvær vikur eða innan þeirra. Við höfum þá ágætistíma til að fara yfir þær.

Í þessum málum, eins og ég kom að áðan, er mjög mikilvægt að við náum að skapa sem breiðasta samstöðu á Alþingi til að breytingar af þessu tagi geti farið fram sem skyldi og svarað þeim spurningum sem vakna hjá hv. þingmönnum í kringum svona breytingu. Hún er auðvitað stór; þótt hún sé varfærin að mínu viti er hún samt stór.

Ég vonast til þess að við getum að minnsta kosti náð góðri umræðu á því þingi sem nú er. Ef það dregst getum við jafnvel náð að afgreiða málið ef vilji er fyrir því. Ég sé bara í þessu tækifæri til að efla þátttöku. Ég lít þannig á málið. Við heimsóknir í framhaldsskóla, til að mynda fyrir síðustu kosningar en líka á hvaða tíma sem er, finnur maður fyrir svo miklum pólitískum áhuga. Það voru gríðarleg vonbrigði að sjá þátttökuna í síðustu sveitarstjórnarkosningum hjá ungu fólki. Þá veltir maður fyrir sér: Hvernig getur farið saman þessi mikli pólitíski áhugi, sem maður finnur fyrir við heimsóknir í skóla, og svona dræm þátttaka? Þarna held ég að margt fari saman. Þarna skipta skólarnir máli eins og hv. þingmaður nefndi. Stjórnmálaflokkarnir skipta líka máli, hvernig þeir nálgast ungt fólk og hvaða aðferðum þeir beita til að virkja ungt fólk og koma því til áhrifa. Síðast en ekki síst held ég að það skipti máli fyrir ungt fólk að upplifa að því sé treyst.



[22:38]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Sem einn af flutningsmönnum þessa máls finnst mér mjög gaman að sjá það koma fyrir þing þar sem mælt er fyrir því. Þó myndi ég vilja leggja fram smábreytingartillögu til að ganga lengra, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á. Ég myndi vilja sjá að miðað yrði við þá sem yrðu 16 ára á árinu þannig að allur árgangurinn væri samtaka í að fá kosningarrétt.

Nú er ég mikill málsvari þess að reyna að útskýra hlutina á einfaldan hátt. Ég var áður starfsmaður í leikskóla. Ég hef stundum fengið það á tilfinninguna að ég myndi frekar vilja sjá fimm ára krakka hér inni en okkur. Í kjölfar þess hef ég mikið lesið það sem kallast á netinu Explain it like I´m five — útskýrið eins og ég sé fimm ára. Það er aðferðafræði sem við mættum tileinka okkur betur. Helsta gagnrýnin sem við höfum fengið, bæði á Alþingisvefinn og allt umhverfið hér, er sú að við séum einfaldlega ekki skiljanleg. Það er ekkert auðvelt að gera sig skiljanlegan fyrir fimm ára barni en þegar maður gerir það fær maður rosalega góða innsýn í það hvað er rétt. Það er það sem ég leita einna helst að, að ákveðnum siðferðislegum forsendum, að minni eigin sannfæringu. Ég met hana það gríðarlega mikils því að ég lærði hana í raun á ný eftir að ég starfaði á leikskóla. Þar lærði ég upp á nýtt hvernig það er að vera manneskja og það var mjög áhugaverð lífsreynsla.

En aftur að frumvarpinu. Ástæðan fyrir því að miða við 16 ára á árinu er sú, ólíkt því sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði um að sjálfræði og kosningarréttur ættu að fara saman, að spyrja má á móti hvort skattur og kosningarréttur ættu ekki að fara saman. Ég tek þó ekki þann pól í hæðina heldur vitna ég einfaldlega í þá vinnu sem við höfum lagt í menntakerfið okkar. Eins og hv. framsögumaður sagði eru lýðræði og mannréttindi einn af grunnþáttum menntunar. Hinir þættirnir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, jafnrétti og sköpun og síðast en ekki síst lýðræði og mannréttindi og það er mjög áhugavert hvernig þessir þættir spila saman.

Við leggjum upp í ákveðna vegferð við að mennta okkur í að verða þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Við setjum það þannig upp í aðalnámskrá grunnskóla, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.“

Þetta er gríðarlega mikilvægur punktur þar sem núverandi kosningaaldur, 18 ár — ákveðið gat er milli þess sem fólks klárar grunnmenntun þar til það fær kosningarrétt. Að meðaltali byrjar fólk að kjósa tvítugt af því að það er ekki orðið nógu gamalt, ekki alveg orðið átján ára, og kýs ekki fyrr en það er að verða 22 ára næst. Að meðaltali erum við þá í 20 ára aldri. Með þessari breytingu yrði meðalaldur nýrra kjósenda 18 ár.

Enn fremur segir í 2. gr. laga um grunnskóla, með leyfi forseta:

„Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.“

Það er mjög skýrt að það er vilji löggjafans að stuðla að lýðræðislegra samfélagi. Það gerum við með því að leyfa fólki að taka þátt í samfélaginu. Það er þátttakan sjálf sem stýrir áhuga fólks. Ég man sjálfur eftir því að það var ekki fyrr en kom að því að ég hafði tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegum kosningum að ég fór að pæla mikið meira í því hvað ég ætti að gera við þann rétt.

Það er dálítið merkilegt í þessu samhengi að aðalnámskráin setur upp ákveðin hæfniviðmið fyrir hverja námsgrein og fyrir grunnþættina. Þar er til dæmis lýsing á hæfni nemenda við lok grunnskóla, með leyfi forseta:

„Býr yfir hæfni til að vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu nær- og fjærsamfélagi“

Þetta er ekkert flóknara en það. Sá sem er að klára grunnskóla á að vera orðinn virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi. Af hverju þá ekki að leyfa þeim að taka þátt í samfélaginu? Málið þarf ekki að vera flóknara en það því að þátttakan sjálf er það sem stjórnar áhuganum.

Hér var rætt um umsagnir frá ungmennaráðum. Ég myndi vilja leggja til að grunnskólar og framhaldsskólar myndu hjálpa nemendum sínum við að senda inn umsagnir, fá persónulegar umsagnir frá þeim aðilum sem annars myndu fá kosningarrétt við þessa breytingu.

Ég legg einfaldlega til að frumvarpið verði samþykkt, klárað á þessu þingi, og að nemendum og ungmennum, sem eru tilbúin til að taka þátt í lýðræðislegu nær- og fjærsamfélagi, verði leyft að taka þátt á eigin forsendum.



[22:45]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Mér þykja nokkur tímamót að við ræðum þetta mál, ekki bara vegna þess að mál þessa efnis hafa verið lögð fram fimm sinnum á síðustu tíu árum, heldur líka vegna þess að þetta er eitt af þeim málum þar sem við erum með flutning úr öllu hinu pólitíska litrófi hér á þingi. Það gerist ekki daglega.

Við erum ekki endilega öll sammála um málið í þessum sal, en það er kannski eðlilegt þegar við tölum um kosningaréttinn, sem er væntanlega einn af þeim hlutum lýðræðisþátttökunnar sem skiljanlegast er að vera íhaldssamur gagnvart. Þess vegna virði ég alveg hv. þm. Óla Björn Kárason þegar hann setur nokkur spurningarmerki við málið. En af því að þingmaðurinn kallar eftir samræmi má ég til með að benda honum á eitt samræmi sem ég sé fyrir mér að við náum fram, verði þetta frumvarp að lögum. Stjórnmálaflokkar miða félagsaðild við 16 ár. Við treystum fólki til að taka þátt í innra starfi stjórnmála flokka við 16 ára aldur á sama tíma og við treystum því ekki til að taka hina endanlegu ákvörðun í kjörklefanum fyrr en það er 18 ára. Þarna er reyndar eitt örlítið ósamræmi, það er einn flokkur sem miðar við annan aldur, Sjálfstæðisflokkurinn, sem hleypir fólki inn 15 ára og er þar náttúrlega skrefi á undan okkur hinum.

Það er hægt að renna yfir listann um hvenær fólk má hvað og sjá alls konar hluti sem ekkert er samræmi í. Við megum taka próf á skellinöðru 15 ára þótt við megum ekki keyra fyrr en við erum 17, við fáum skattkort og förum að borga skatt 16 ára þótt við megum ekki kjósa þá sem ráðstafa því skattfé fyrr en tveimur árum síðar. Það er kannski bara eðlilegt í samfélagi fólks sem ekki er excel-skjöl heldur lífverur og hefur þess vegna myndað lífrænt samfélag.

Ég er einn af þeim sem eru nýir á þingi og tók fyrst þátt af alvöru í kosningabaráttu nú í haust. Ég náði nógu ofarlega á lista til að ég þætti þess virði að vera sendur á alvöruviðburði. Ég tek heils hugar undir með þeim sem nefnt hafa skuggakosningar framhaldsskólanna sem eitt af því kraftmesta og skemmtilegasta sem við tókum þátt í í kosningabaráttunni, þar sem við mættum ungu kjósendum, sem var samt bara hálfur hópurinn, hálfur hópurinn voru ungir kjósendur og hinn helmingurinn voru þeir tveir árgangar í framhaldsskólunum sem ekki hafa kosningarrétt. Þarna voru góðar umræður og beittar spurningar sem beint var að okkur frambjóðendum. Eitt af því sem ég lærði þarna, bara hvernig maður hagar sér sem frambjóðandi eftir að hafa fengið endurgjöf frá vini í salnum eftir einn af þessum fundum, var að á fyrsta fundinum talaði ég við unga fólkið í salnum um unga-fólks-mál, sem var náttúrlega alger feill, sem ég hef nú lært af. Þetta unga fólk hafði náttúrlega spurningar um allt í stjórnmálum. Þeim á að svara.

Þetta er fólk sem er ekkert endilega skilgreint út frá því hversu gamalt það er heldur hefur það ólíkar skoðanir og ólík áhugasvið. Og það á að hafa rödd sem við eigum að hlusta á. Við erum skuldbundin til þess samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem við höfum fullgilt, að taka tillit til sjónarmiða barna og ungmenna þegar við tökum ákvarðanir í þessum sal. Við gerum það ekki nógu oft. Við sendum mál ekki nógu oft til umsagnar ungmennaráða eða annarra félagasamtaka þar sem ungt fólk kemur saman. Nema þegar það snertir nákvæmlega unga-fólks-málin. Við sendum ekki breytingar á heilbrigðiskerfinu til umsagnar ungs fólks. Tökum dæmi. Ekki var kallað eftir sjónarmiðum ungs fólks varðandi styttingu framhaldsskólans á sínum tíma, sem þó hefði augljóslega mátt gera til að fá sjónarmið notenda þjónustunnar.

Það er nokkuð sem við sem þing þurfum að læra, alveg óháð því hvernig þetta mál endar, en við lærum það væntanlega miklu fyrr ef fyrstu tveir árgangar kjósenda eru jafnframt börn. Þá erum við ekki bara að tala um börn og ungmenni sem hluta af samfélaginu heldur bókstaflega hluta þeirra sem komu okkur hingað, hluta þeirra sem veittu okkur umboð sitt til að sitja á Alþingi. Og þó að það sé kannski ekki mest „glamúrös“ hugmyndin um lýðræðið að við hugsum meira um þá sem standa á bak við okkur, um þá sem greiddu okkur atkvæði í kosningum, held ég að það geti skipt máli hjá sumum. Ég held að það geti hjálpað okkur sem 63 manna málstofu að muna eftir þessu unga fólki, ekki bara þegar við mætum í framhaldsskólana til að ræða við það fyrir kosningar í skuggakosningum.

Komið hefur verið inn á það í fyrri ræðum að það þurfi eitthvað að gera til að auka þátttöku fólks, sérstaklega ungs fólks, í kosningum. Það er náttúrlega dálítið bagalegt að það hafi ekki verið fyrr en 2014 sem við fórum að mæla kosningaþátttöku eftir aldri. Við vitum því ekki nákvæmlega hver þróunin er. En við höfum vísbendingar um hana í íslensku kosningarannsókninni eins og komið hefur fram. Kúrfan tekur snögga dýfu undir þrítugu. Kosningaþátttaka fólks undir þrítugu er nokkuð mikið lægri en þeirra sem eldri eru. Við vitum náttúrlega ekki hver hún yrði hjá þeim sem eru á milli 16 og 18 ára. En mögulega yrði hún betri. Mögulega yrði kosningaþátttakan þar enn meiri en í hópunum þar rétt fyrir ofan því að við sjáum á kúrfunum sem komu út úr síðustu þremur kosningum að á árunum tveimur fyrir tvítugt er örlítið meiri þátttaka í kosningunum en árin þar strax á eftir. Mögulega heldur sú kúrfa áfram að hækka fram til 16 ára aldurs, því að við finnum alltaf þegar við hittum þetta unga fólk að það hefur brennandi áhuga á samfélagsmálum þótt það finni ekki hjá sér tenginguna við skipulögð stjórnmál. En það er verkefni okkar að vinna úr því.

Að lækka kosningaaldurinn er ekki eina rétta lausnin til að auka þátttöku í kosningum en getur verið hluti af lausninni vegna þess að í grunnskólum fer fram öflugt starf í lýðræðisfræðslu, ekki bara með sérskipulögðum tímum sem heita lýðræðisfræði, heldur með því að iðka lýðræði í skólastarfinu. Það eru mýmörg dæmi um hvað það hefur heppnast vel, alveg frá yngstu nemendum grunnskólanna.

Hér áðan var nefnt nemendaþing Grunnskólans á Ísafirði, sem fengið hefur verðlaun fyrir að virkja allan skalann innan skólans þar sem nemendurnir setjast niður og ræða málefni skólans með þjóðfundarsniði. Fleiri skólar eru með góða reynslu af sambærilegum þingum sem eru ýmist árvissir eða reglulegir viðburðir. Eftir stutta gúglun get ég nefnt Brekkuskóla, Salaskóla, Hlíðarskóla og Oddeyrarskóla, Kelduskóla, Bláskógaskóla, Áslandsskóla og Grunnskólann í Stykkishólmi, til viðbótar við Grunnskólann á Ísafirði sem nefndur var hér áðan. Og það að nemendur innan skólans setjist saman og ræði málefni skólans ásamt þeim fullorðnu sem þar starfa, ræði sig saman til niðurstöðu og sjái að á þá er hlustað, skiptir gríðarlegu máli að sögn þeirra sem taka þátt í þessu. Það er það sem lækkun kosningaaldursins sendir líka skilaboð um. Börn 16–18 ára eru ekki bara eitthvert fólk úti í bæ heldur er þetta fólk sem við hlustum á. Fjórða hvert ár hlustum við á atkvæði þess. Þess á milli hlustum við líka á það.

Ég held að stjórnmálin hafi gott af þessu. Ég held að lýðræðið í víðu samhengi hafi gott af þessari breytingu. Og ég held að í framhaldinu þurfum við að skoða alla hina angana af þessu, hvort við getum við lok þessa kjörtímabils breytt stjórnarskrá til að lækka kosningaaldurinn til Alþingis og forsetakosninga, hvort við ættum að skoða þjóðaratkvæðagreiðslur eða íbúakosningar sveitarfélaga, eins og nefnt var í umræðunni áðan. Við þurfum líka að huga að því hvaða sess lýðræðisfræðslan hefur innan skólakerfisins þannig að hún sé tryggð í öllum grunnskólum, sem var eitt af því sem fram kom í samtölum okkar nokkurra flutningsmannanna með ungmennum að væri stundum misbrestur á. Þó eru grunnskólarnir betur settir en framhaldsskólarnir sem eftir styttingu eru farnir að skera niður allar greinar og allt það sem ekki flokkast undir innsta kjarna skólastarfsins. Þá er sótt á lýðræðisfræðsluna eins og margt annað sem flokkast undir jaðar í skólakerfinu. Við þurfum að snúa þessu við í framhaldsskólakerfinu, styrkja lýðræðisfræðslustoðina í grunnskólakerfinu. Þannig gæti þetta haft þau áhrif að 16 ára ungmenni sem koma úr grunnskóla þar sem lýðræði innan skólans er virkt og þau fá þar að auki góða fræðslu um það stjórnmálakerfi sem þau eru að fara að taka þátt í sem kjósendur 16 ára að við náum á þeim tímapunkti þegar þau útskrifast úr grunnskóla að grípa þau á þessari bylgju þar sem þau eru nýkominn úr því sem er væntanlega dýpsta lýðræðisfræðsla skólagöngunnar. Þau verði strax virkir þátttakendur frekar en að þurfa að bíða í að minnsta kosti tvö ár eftir því að verða 18 ára. Þá munu þau, þessir 9.000 nýju kjósendur, hafa góð áhrif á stjórnmálaflokkana og samfélagið þegar þeir fara að hlusta.



[23:00]
Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég er einn þeirra sem flytja þetta mál. Ég ætla að leggja það á borðið að ég bar kannski ekki hitann og þungann af samningu þeirrar greinargerðar sem liggur fyrir. Hún var samin af öðru fólki en ég tek að sjálfsögðu undir það sem þar stendur, enda er þetta frumvarp sem við höfum lagt fram áður í einhverri mynd en hefur ekki hlotið framgöngu. Ég styð þetta mál vegna þess að ég styð þá réttinda- og ábyrgðaraukningu sem er verið að leggja til. Ég er sjálfur flutningsmaður ámóta máls sem útvíkkar beinan og óbeinan kosningarrétt til sveitarstjórna handa fólki sem ekki er með íslenskan ríkisborgararétt, útvíkkar þann rétt frá því sem nú er.

Ég styð þá þróun að efla vald og réttindi ungs fólks. Þróunin hefur raunar ekki verið öll á þá leið á undanförnum árum. Lítum á ýmis önnur mál, t.d. sjálfræðisaldur, sem var hærri fyrir nokkrum áratugum síðan. Sundfararaldur er einnig orðinn hærri en hann var fyrir nokkrum árum síðan, þ.e. börn þurfa að vera eldri þegar þau fara í sund. Það var reynt að hækka bílfrófsaldurinn upp í 18 ár, þótt það hafi ekki gengið eftir. Ýmis þróun hefur frekar verið í þá átt að minnka réttindi.

Það má hafa ýmsar skoðanir á þeim breytingum sem hafa verið gerðar, hvort sem talað er um tóbakskaupaaldur eða aldurinn sem menn mega fara í sund einir síns liðs, hvort þær séu góðar eða vondar. Það er án nokkurs vafa gott að vera barn á Íslandi og kannski betra en var einu sinni, en ég hef á tilfinningunni að börn og ungmenni ráði tíma sínum síður. Barn eða ung manneskja vaknar á daginn og hefur örlítið minni stjórn á því hvernig hún ætlar að haga degi sínum en var einu sinni. Það er m.a. út af þeim atriðum sem ég nefndi. Svo er það líka út af því að hlutir eins og skipulagt frístundastarf tekur mjög stóran hluta af degi barna og ungmenna.

Menn velta upp ýmsu ósamræmi þegar kemur að aldurstakmarki sem kann að skapast. Hér leggjum við t.d. til að frístundastyrkir ýmissa sveitarfélaga, sem oftast eru til 18 ára aldurs, verði lagðir í hendur þess fólks sem getur fengið frístundastyrki, þ.e. að taka einhverja ákvörðun um þá. Mér finnst það á einhvern hátt heillandi þróun. Mér finnst heillandi að það fólk sem hlutirnir varða, þótt ekki séu nema elstu tveir árgangarnir, geti haft eitthvað um það að segja hvort það vilji virkilega vera í öllu þessu frístundastarfi eða var þetta ákvörðun sem var tekin einungis til að létta á deginum fyrir foreldra eða? Svo hafa menn ólíkar skoðanir á því. Auðvitað hafa börn og ungmenni ólíkar skoðanir á öllum málum.

En þetta eru dæmi um mál sem væri gaman að fá skemmtilegri vídd á inn í umræðuna við það að þessi réttindaaukning komi hér inn.

Við höfum stundum í umræðunni talað um það þannig að með þessari breytingu munum við þurfa að hlusta betur á einhvern annan hóp. En auðvitað er eitt sem fylgir þessu sem er líka jákvætt skref og við getum ekki útilokað að verði raunin einhvern tíma: Fólk undir 18 ára aldri getur, ef ég skil þetta rétt, fengið beina kosningu til sveitarstjórna. Það væri heillandi og athyglisvert. Ég get nefnt að á þingi er yngsta manneskjan sem hefur tekið sæti 21 árs og 100 daga gömul. Það var hv. þm. Bjarni Halldór Janusson frá Viðreisn sem gerði það fyrir nokkrum dögum. Þarna er stórt gat, ef svo má að orði komast. Það er hópur, þrír árgangar í það minnsta, sem kýs okkur, er hluti af þeim samfélagslega sáttmála að veita einhverju fólki umboð til að ákveða hvað sé leyft og hvað bannað, sem hefur tekið ákvörðun um að hluti þessa fólks megi drekka áfengi og einhver hluti ekki. Fyrstu þrír árgangarnir af þeim hópi hafa aldrei átt fulltrúa á þingi. Ég myndi vilja að það breyttist, að það væri einhvern tíma einhver sem væri enn yngri og þetta met yrði fljótlega slegið. Mér fyndist það jákvæð þróun.

Með því að færa aldurinn neðar aukast líkurnar á því að það gerist. Menn hafa stundum velt fyrir sér hver sé ástæðan fyrir hinu og þessu, að þátttakan sé ekki meiri en raun ber vitni hjá yngra fólki. Hugsanlega skortir þau fleiri fyrirmyndir á svipuðum aldri og þau til að kjósa og hafa virkilega trú á að einhver sé talsmaður fyrir hugsjónir þeirra.

Ég bind ákveðnar vonir, rétt eins og aðrir hv. þingmenn, við að þetta geti haft ákveðnar jákvæðar breytingar fyrir pólitíkina, þótt eflaust muni líka koma á daginn að margir verða ekki endilega himinlifandi með þær breytingar, vegna þess að ef kominn er markhópur inn í allan menntaskólann fyrir stjórnmálaflokkana munu þeir þurfa, og eiga þá, að sækja inn í þann markhóp með boðskap sinn sem er pólitískur boðskapur. Það hafa stundum heyrst þau sjónarmið að menn hafi ekki endilega verið sáttir við það þegar menn hafa farið inn í skólastofnun með einhvers konar pólitískan boðskap. Ég er alls ekkert feiminn við það. Mér finnst pólitík alls ekki ljótur hlutur, ekki hlutur sem eigi að fela fyrir ungu fólki, hvort sem er flokkspólitík eða annars konar pólitík. En það gæti verið að einhverjum þætti svo þegar á reyndi.

Eins og ég segi, og ég ætla ekki að vera langorður að sinni, styð ég þetta frumvarp, enda er ég flutningsmaður þess. Ég er fulltrúi flutnings að öðru frumvarpi sem er ámóta því að það tekur á kjörgengi í sveitarstjórnarkosningum. Mér var bent á að vísa því til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og velti fyrir mér hvort það sé einhver ástæða fyrir því að menn fari með þetta hingað og þangað. Fari það til allsherjar- og menntamálanefndar mun ég taka því fagnandi að takast á við frumvarpið þar. Að öðru leyti hef ég lokið máli mínu.



[23:07]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég er ekki endilega að spyrja þingmanninn eða veita andsvar heldur aðallega að þakka honum fyrir að minna okkur á að þó að við höfum frá árinu 1984 haft 18 ár sem kosningaaldur, og þar með hafi 18 ára einstaklingar verið kjörgengir inn í þetta hús, gerðist það fyrst í síðustu viku að einhver náði að komast hingað inn 21 árs. Þarna eru þrjú ár sem við erum ekki að fullnýta. Þetta virðist vera eitthvað sem er innbyggt í öll þessi kerfi. Þrátt fyrir að við séum til dæmis með 35 ára mörk á að verða forseti er núverandi forseti sá yngsti í Íslandssögunni, 48 ára.

Ég hef engar stórar áhyggjur af að í sveitarstjórnum víða um land fyllist allt af 16 ára fulltrúum ef þessi lög ganga í gegn. En ég held að það verði í það minnsta áhugavert að toga meðalaldurinn hressilega niður. Það hefur oft verið þannig að ungmenni í sveitarstjórnum hafa leitt ákveðnar umræðubyltingar. Var það ekki Fönk-listinn á Ísafirði, sem var aðallega rekinn af fólki rétt um 18 ára, sem náði að breyta pólitísku landslagi þar til hins betra?

Ég þakka þingmanninum stuðning við málið og það að vera líkt og ég almennur fylgismaður þess að kosningarrétturinn eigi að vera eins opinn og hægt er.



[23:09]
Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þakkirnar. Það kann vel að vera að þó svo að við höfum okkar skoðanir eða spár um hvað muni gerast í kjölfarið er það það fallega við lýðræðið að við vitum það ekki. Kannski gerist það að einhvers konar fönk-listar spretta upp út um allt land. Kannski gæti það verið það sem þarf. Það var einhvern tímann þannig, og má að einhverju leyti bera það saman, að annar hópur fékk kosningarrétt, konur, og þá þurfti sérstakt framboð til að laga þá skekkju sem myndast hafði í þá veru. Ég mælist hvorki til þess né gegn því. Lýðræðið er svo fallegt, það mun hafa sinn gang. Ég vil bara gera eitthvað gott úr þessu, ef þetta frumvarp verður að veruleika, sem ég vona að verði.



[23:11]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka flutningsmanni þessa máls að hafa komið með það hingað inn. Ég held að þetta sé mjög þarft og gott mál sem við þurfum að ræða og fara vel yfir. Á því eru ýmsar hliðar og nokkur sjónarmið. Ég átti fund með ungum Framsóknarmönnum þar sem við ræddum málin og komumst á þann umræðugrundvöll að ég gat tekið undir sjónarmið þeirra. Þetta unga fólk er svo vel gert, kemur með rök með og á móti og veltir málunum fyrir sér eins og flest ungmenni gera. Helstu rökin sem hníga að því að styðja frumvarpið eru þau að þátttaka ungs fólks í kosningum hefur verið mjög dræm undanfarið. Ungt fólk hefur skoðanir á því samfélagi sem það býr í eins og aðrir. Þetta er tækifæri fyrir þau áhugasömu ungmenni til að kjósa og það gæti haft hvetjandi áhrif.

Ungmennin ljúka skólaskyldu við 16 ára aldur og teljast þá fullgildir þátttakendur í samfélaginu en fá þó ekki að hafa skoðun á því. Þarna er misræmi. Breyting á þessu hefur bæði í för með sér breytingar á kosningaaldri og kjörgengi. Það telja ungir Framsóknarmenn að mætti skoða betur, hvort kjörgengi ætti að haldast óbreytt. Við höfum dæmi úr forsetakosningum þar sem kjörgengi og kosningaaldur er ekki sá sami.

Mig langar að tíunda nokkra punkta. Helstu gallarnir, svo að við byrjum á þeim og eigum það góða eftir, eru að einstaklingur verður lögráða við 18 ára aldur. Þangað til ræður hann ekki yfir fé sínu eða öðru nema lög mæli fyrir á annan veg. Árið 1997 var lögræðisaldur færður upp í 18 ár úr 16 og þá helst með þeim rökum að ungmenni byggju flest í foreldrahúsum til tvítugs og nytu stuðnings foreldra sinna. Þá má velta því fyrir sér hvort ósamræmi sé þarna á milli eins og komið hefur fram í máli margra hér í kvöld, þ.e. að ósamræmi sé milli þess að einstaklingur sé lögráða en fái ekki að kjósa til sveitarstjórna. Er samfella í því?

Einhverjir halda því fram að þekking ungmenna á málaflokknum sé ekki nógu góð. Þá má segja að mikilvægt sé, verði frumvarpið að lögum, að gert verði átak í því. Það hefur vissulega verið gert, bæði með aukinni lýðræðisþátttöku og lýðræðiskennslu í skólum og ungmennaráðum í sveitarfélögum. En í raun eru þetta óskaplega lítil rök. Ekki er hægt að segja að þessi ákveðni hópur hafi minni þekkingu en hópurinn 18–20 ára, svo að dæmi sé tekið, og það sé endilega eitthvað betra. Ég sé ekki að það sé hugsanlegur galli á þessu.

Helstu kostirnir eru þó nokkuð margir og ég ætla að fá að tíunda þá hér. Það er líklegt að áhugi ungmenna á stjórnmálum aukist. Það er vel, það er gott. Við þurfum að virkja ungt fólk til þátttöku í samfélaginu. Við þurfum að opna leiðina betur og hafa meiri umræðu á miklu víðari grunni. Einn ræðumaður áðan talaði um að eldra fólki fyndist það sett til hliðar því að ekki væri tekið mark á því í skoðanakönnunum. Þarna erum við svo með annan hóp sem kemur þar á móti. Þetta er þá ekki þverskurðurinn af samfélaginu okkar og þeim breiða hópi sem tekur þátt í samfélaginu. Það er mikilvægt að við förum að grípa inn í þá þróun að fólk sé hætt að láta sjá sig á kjörstað. Við verðum að fá fleiri á kjörstað. Við verðum að virkja lýðræðið betur.

Sýnt er að þeir sem fást til að nýta kosningarréttinn ungir séu líklegir til að nýta hann áfram. Það er ótvíræður kostur. Þetta er þá tækifæri fyrir ungmenni til að móta líf og framtíð. Við sem eldri erum eigum ekki að segja þeim hvernig hlutirnir eigi að vera, við eigum að hlusta og fá þau til samtals við okkur. Ég held að það sé eðlilegur gangur. Það er eðlilegt í ljósi þess að skólaskyldu er lokið og ungmenni því meiri þátttakendur í samfélaginu. Ef ég lít út um land, þar sem ég kem utan af landi, eru mörg barnanna okkar flutt að heiman 15 ára og þurfa að sjá um sig sjálf. Sú er raunin hjá stórum hluta þjóðarinnar. Geta þau þá ekki alveg eins haft áhrif á og látið í ljósi pólitískar skoðanir, tekið þátt í pólitísku starfi eða greitt atkvæði? Þetta er líka eðlilegt í ljósi þess að ungmenni 16 ára og eldri greiða tekjuskatt, eru farin að leggja til samfélagsins með vinnu sinni. Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur lækkun kosningaaldurs líka gefið góða raun.

Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Ég hlakka til að sjá hvernig það fer í meðförum nefndarinnar og sjá umsagnir og vona að þetta mál fái góða skoðun og góða vinnu. Ég hlakka til að fylgjast með því.



[23:16]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls og langaði því rétt aðeins að taka til máls og styðja þetta og fagna, ekki síst þeirri jákvæðni sem mér hefur þótt gæta í garð málsins í máli margra hv. þingmanna. Sjálfur er ég jafnvel þeirrar skoðunar að það ætti að ganga svo langt að leyfa öllum að kjósa. Ég hef velt því mikið fyrir mér. Ég á afmæli seint á árinu og mér hefur alltaf þótt ósanngjarnt að miðað sé við afmælisdag og ég hafi þurft að horfa á eftir kollegum mínum, félögum og vinum, fara og gera eitthvað sem mátti gera þegar ákveðnum aldri hafði verið náð, sérstaklega þar sem ég var ári á undan í skóla, en ég kom aðallega upp til að segja ykkur að ég hefði verið ári á undan í skóla. Mér þótti þetta oft gríðarlega ósanngjarnt.

Ég held að það að taka þátt í samfélaginu, móta það hvernig við viljum sjá framtíðina, eigi ekki að einskorðast við 18 ára aldur. Ég er ekki einu sinni viss um að það eigi að eigi að einskorðast við 16 ára aldur en fagna því heils hugar að við séum að taka ákveðin skref í þá átt. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um rökin á bak við þetta. Greinargerðin sem fylgir frumvarpinu er mjög vel úr garði gerð og bent er á ótal dæmi þar sem þetta hefur verið gert með góðum árangri. Bent er á hvatningu margra alþjóðlegra stofnana, ungmennaráða og félaga og í raun þarf ekkert að velkjast í vafa um að þetta sé það rétta að gera. Við viljum vera eins og Niedersachsen í þýska sambandslýðveldinu, ég treysti því að hæstv. heilbrigðisráðherra og þýðverskur frændi minn, Óttarr Proppé, styðji við þetta mál með mér.



[23:19]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki jafn hrifinn af þessu frumvarpi og flutningsmaðurinn, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Ekki það að ég vilji ekki fela yngra fólki ábyrgð heldur finnst mér vera svo mikið stílbrot í frumvarpinu. Réttindi og ábyrgð fara svolítið saman. Hér er verið að lækka kosningaaldur en þetta sama fólk sem má kjósa og hafa áhrif má ekki bjóða sig fram. Það getur ekki orðið hluti af sveitarstjórn. Það er auðvitað bara stílbrot og mér finnst það ekki ganga upp.

Ég hef verið talsmaður þess og geti fallist á að leyfa fólki að kjósa 16 ára. En ég vil þá að ábyrgðin sé 16 ára, vegna þess að við teljum að í atkvæðisréttinum felist mikil ábyrgð. Ef 16 ára getur axlað þá ábyrgð tekur hann líka ábyrgð á lífi sínu. Þess vegna myndi ég sjálfur breyta þessu frumvarpi og hafa 16 ár, hafa kjörgengið til sveitarstjórna 16 ára og sjálfræðisaldur 16 ár. Menn hafa verið að rugla saman að fólk geti gert eitt og annað, fengið mótorhjóla- eða skellinöðrupróf og eitthvað svona 15 ára. En auðvitað fær barnið ekkert skellinöðrupróf ef forsjáraðilinn segir: Nei, þú færð það ekki. Skellinöðrupróf skiptir engu máli í þessu. Forsjáin er hjá foreldrunum. Barnið fer ekkert í skellinöðrupróf nema ef foreldrarnir leyfa. Barnið fer heldur ekki í sund nema ef foreldrarnir leyfa. Barnið gerir ekki þetta og hitt án leyfi foreldra.

Er hv. þingmaður ekki bara sammála því að við lögum kjörgengið (Forseti hringir.) og sjálfræðisaldurinn í leiðinni?



[23:21]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er sammála mörgu af því sem hann kom inn á. Ég hef t.d. aldrei skilið af hverju það þarf að hafa náð ákveðnum aldri til að mega bjóða sig fram til forseta Íslands, þannig að þeir sem geta kosið forseta eru ekki kjörgengir til forseta. Ég skil pælingar hv. þingmanns mjög vel og tek undir margt í þeim.

Hvað varðar sjálfræðisaldurinn verð ég að játa að ég treysti mér ekki alveg til að segja til um það. Ég hlusta á rök hv. þingmanns. Það er ýmislegt sem 16 ára unglingar geta gert, þótt þeir hafi ekki náð 18 ára aldri. Þeir eru sjálfstæðir notendur heilbrigðisþjónustunnar og ýmislegt, sem er kannski óþarfi að tiltaka hér. En ég hlusta á góð rök hv. þingmanns, tek undir sumt í þeim og annað þyrfti ég að fá að skoða betur.



[23:22]
Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að þakka fyrir ágæta umræðu um þetta mál, ágætar athugasemdir og spurningar sem komu fram. Í ljósi þess að margir hv. þingmenn sem tóku til máls eru meðal flutningsmanna málsins vil ég lýsa því yfir að mér fannst sérstaklega ánægjulegt að heyra hv. þm. Þórunni Egilsdóttur lýsa skoðun sinni á þessu máli. Þótt ljóst sé að ekki er alger einhugur í þingsal um þetta mál leyfi ég mér að vera bjartsýn á það að þingmenn muni taka það núna til umræðu. Það er ánægjulegt að við séum að ná að senda það til umsagnar og vonandi fæst tími til að ræða málið í nefnd þannig að það fái þinglega meðferð.

Það eru margir góðir punktar sem hafa komið fram. Ég tel að hluti af því að veita þessum nýja hópi þennan rétt, þessi réttindi, fari að sjálfsögðu saman við að veita honum aukna ábyrgð. Ég held að allt sem við höfum verið að gera hvað varðar aukna áherslu á menntun til lýðræðis og annað slíkt snúist um að undirbúa þennan aldurshóp til þess að taka aukna ábyrgð.

Ég lauk ræðu minni áðan á að segja að mér fyndist mikilvægt að treysta ungu fólki og ég held að þessi hópur sé mjög tilbúin til þess. Hins vegar tel ég að það sé mikilvægt að við ræðum hvað okkur finnst um samræmi í löggjöf og annað slíkt. Hér var ágætisathugasemd hjá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni sem benti á að allir stjórnmálaflokkar miða við 16 ára aldurstakmark, nema Sjálfstæðisflokkurinn sem miðar við 15 ára, til þátttöku í pólitísku starfi. Þá erum við væntanlega að veita þeim hópum, a.m.k. í minni stjórnmálahreyfingu, réttinn til að velja sér fulltrúa, t.d. í forvölum eða prófkjörum eða hvað það nú er. Viljum við þá ekki um leið veita þeim réttinn til að taka þátt í þeim endanlegu kosningum sem taka við?

En fyrst og fremst vil ég þakka umræðuna. Það hefur aðeins skapast umræða um nefndarvísun. Ég lagði til að málinu yrði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar en það er niðurstaðan að lokinni þeirri umræðu að ég legg til að málinu verði, eins og áðan, vísað til allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu og vonast til þess að við fáum það aftur á dagskrá á þessu þingi til 2. umr.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.