146. löggjafarþing — 62. fundur
 3. maí 2017.
sérstök umræða.

lyfjaneysla Íslendinga.

[15:41]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Íslendingar eru öflugir lyfjaneytendur. Hér á landi nota um 55% fólks lyfseðilsskyld lyf sem er fjórða hæsta hlutfall Evrópulanda sem tóku þátt í nýlegri evrópskri heilsufarskönnun.

Í skýrslu vinnuhóps ráðherra fyrir nokkrum árum birtust dæmi um að fólk notaði allt að 48 lyfseðilsskyld lyf á 12 mánaða tímabili. Íslendingar skera sig úr með afgerandi hætti varðandi lyfjanotkun í samanburði við nágrannalöndin. Við notum tvisvar til þrisvar sinnum meira en Norðurlandabúar af örvandi lyfjum, róandi, kvíðastillandi og svefnlyfjum ásamt verkjalyfjum. Notkunin er sú mesta innan OECD-landanna og fimm sinnum meiri en í Danmörku. Notkun sýklalyfja og magasárslyfja Íslendinga er sömuleiðis meiri en annars staðar á Norðurlöndunum. Fjöldi þeirra sem fær ávísað testósteróni hérlendis er margfaldur á við nágrannalöndin og hefur notkunin tvöfaldast á síðustu tíu árum. Notkun fullorðinna á lyfjum við ofvirkni og athyglisbresti, ADHD, hér á landi hefur fjórfaldast á tíu ára tímabili og er hvergi meiri í heiminum að því er fram kemur í nýlegri rannsókn.

Um 13% allra íslenskra drengja á aldrinum 10–14 ára taka einhvers konar ADHD-lyf. Það er margfalt meira en tíðkast annars staðar á Norðurlöndum, en Svíþjóð kemst næst Íslandi með 5% hlutfall. Þá er notkun þunglyndislyfja hvergi hærri meðal frændþjóðanna en hér og munar um 35–50%. Íslenskar stúlkur á aldrinum 15–24 ára taka ríflega fjórum sinnum meira af þunglyndislyfjum en jafnöldrur þeirra í Danmörku. Notendum þunglyndislyfja fjölgaði um 8.000 einstaklinga á Íslandi á milli áranna 2014 og 2016, þ.e. um tæp 22%.

Samkvæmt upplýsingum embættis landlæknis er eftirtektarvert að margir þeirra sem fá ávísað þunglyndislyfjum fá jafnframt örvandi lyf og er fjöldi þeirra sem er á slíkri samhliða lyfjameðferð alltaf að aukast.

Virðulegur forseti. Hvað er til ráða? Ég beini spurningunni jafnframt til hæstv. ráðherra. Hvað er til bragðs að taka? Er þá hamingjan sanna ekki hér eftir allt saman eins og kannanir sýna?

Tölurnar tala sínu máli. Staðreyndirnar liggja á borðinu. Við sláum öll met í lyfjaneyslu. Lyfjafræðingafélag Íslands telur að stórefla þurfi eftirlit með lyfjanotkun landsmanna. Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld þurfi að bæta aðgang Íslendinga að lyfjamörkuðum til að draga úr kostnaði ríkisins. Embætti landlæknis hefur fá svör. Magnús Jóhannsson, læknir hjá embættinu, sagði í viðtali fyrir skömmu að engin ein skýring væri augljós, þetta væri gömul saga. Það virðist ríkja einhvers konar lyfjakúltúr á Íslandi og hafi gert í áratugi, markaðssetningin hér sé svipuð og í nágrannalöndunum og aðgengið sömuleiðis.

Þá er það mat framkvæmdastjóra Geðhjálpar að mikil notkun kvíða- og þunglyndislyfja tengist lélegu aðgengi að geðheilbrigðiskerfinu og þeirri staðreynd að margir hafi ekki efni á sálfræðiþjónustu, en nú er viðleitni til að taka á þeim vanda. Fagfólk hjá embætti landlæknis hefur bent á ýmis atriði varðandi aðgengi að lyfjum og nefnt að á Íslandi megi allir læknar ávísa t.d. ADHD-lyfjum en annars staðar á Norðurlöndum hafi einungis sérfræðingar þær heimildir.

Landlæknisembættið telur mikla lyfjanotkun á Íslandi umhugsunarverða, ekki síst þunglyndislyfin, og telur að læknasamfélagið verði að koma með skýringar á þessum mun á Íslandi og öðrum þjóðum, hvort þunglyndi og kvíði sé t.d. algengara hér en annars staðar, hvort verið sé að ávísa þessum lyfjum óhóflega, hvort einhverjir fái lyfin sem ekki þurfa á þeim að halda eða hvort skortur sé á öðrum úrræðum við þunglyndi og kvíða en lyfjameðferð.

Tekur hæstv. ráðherra undir þessi viðhorf? Og telur hæstv. ráðherra ekki ríka ástæðu til að fjalla ítarlega um þessi málefni og leitast við að kryfja til mergjar hver sé hin raunverulega orsök þess að við skiljum okkur svo nöturlega frá öllum nágrannalöndunum í lyfjanotkun? Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að gerð verði rannsókn og úttekt á hvað valdi því að Ísland hampi þeim vafasama titli að eiga heimsmet í lyfjaneyslu?

Landlæknir, Birgir Jakobsson, hefur tjáð sig á þann veg að í sannleika sagt sé hreinlega ekki ljóst hvað valdi þessari miklu neyslu og að embættið hafi takmarkaða möguleika til að komast að því, aðeins sé hægt að leiða að því getum, hann telji fullvíst að Íslendingar séu ekki innréttaðir öðruvísi en aðrar þjóðir. Að hans mati er orsakirnar fremur að finna í íslensku heilbrigðiskerfi og kerfisbreyting í heilbrigðisþjónustunni ætti að vera forgangsverkefni.

Er hæstv. ráðherra sammála þessu og mun hann vinna í þá veru sem landlæknir leggur til?

Ekki má skilja við þessa umræðu án þess að undirstrika mikilvægi góðra lyfja. Rétt og skynsamleg notkun lyfja getur lækkað annan kostnað í heilbrigðiskerfinu með færri innlögnum á sjúkrahús, styttri legutíma og færri veikindadögum, stórbættum lífsgæðum og bjargað mannslífum. Röng notkun lyfja getur á hinn bóginn skapað hættu fyrir sjúkling og haft í för með sér sóun og mikinn kostnað.

Hið sama á við um of litla notkun lyfja. Umræðan um lyfjanotkun (Forseti hringir.) má ekki vera einhliða og neikvæð. Við stöndum hins vegar frammi fyrir þeim aðstæðum að ekki verður setið hjá aðgerðalaus — eða hvað?



[15:47]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa mikilvægu, sérstöku umræðu. Þetta er ekki ný saga, eins og hv. þingmaður minntist á í ræðu sinni. Íslendingar hafa um áratugaskeið skorið sig úr í samanburði við nágrannalöndin í notkun lyfja, sérstaklega í ákveðnum lyfjaflokkum. Það hafa margvíslegar aðgerðir verið gerðar í gegnum tíðina, ekki síst hin síðari ár, til að reyna að ná betur utan um þá stöðu.

Það eru mjög góðir og mikilvægir punktar sem hv. þingmaður kom með í ræðu sinni sem mig langar að reyna að svara. Ég vil taka undir marga þeirra en líka útskýra hvar við erum stödd.

Ég tek undir með umræðu bæði landlæknis og starfsmanna hans um að það geti verið erfitt að átta sig á því í tiltölulega litlu kerfi eins og því íslenska hver sé ástæða eða bakgrunnur lyfjanotkunar eða munarins, eins og við þekkjum í þunglyndislyfjum þar sem Íslendingar nota yfir 100% meiri lyf en Norðurlandaþjóðirnar. Það er engu að síður mjög mikilvægt að gera okkar besta til að reyna að komast að niðurstöðu.

Það er rétt að notkun á tauga- og geðlyfjum á Íslandi er mikil í samanburði við aðrar þjóðir. Margar ástæður geta verið fyrir því að Ísland er jafn hátt og raun ber vitni. Það geta verið ólíkar aðstæður fyrir hvern lyfjaflokk, t.d. þunglyndislyf, örvandi lyf, svefn- og róandi lyf, róandi og kvíðastillandi lyf, flogaveikilyf og verkjalyf. Af öðrum lyfjaflokkum þar sem Íslendingar skera sig úr með hærri notkun eru testósterónyf, ákveðin geðrofslyf, skjaldkirtilshormónalyf og hóstamixtúra með kódeini, ópíoðíðverkjalyf. Það er því á mörgum sviðum lyfjanotkunar sem Íslendingar skera sig úr.

Að mati landlæknis eru engar vísbendingar um að Íslendingar séu frábrugðnir öðrum þjóðum um sjúkdómabyrði sem gæti skýrt þennan mun. Þó svo að við höfum stundum heyrt kenningar um norðlæga stöðu landsins og mikið skammdegi á veturna eru í sjálfu sér engar rannsóknir sem benda til þess að það hafi raunveruleg merkjanleg áhrif í notkun á þunglyndislyfjum.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra telji að ástæða mikillar neyslu á fjölda lyfjaflokka sé hnignandi heilbrigðisþjónusta á Íslandi eða aðrar aðstæður. Því er auðvitað dálítið erfitt að svara játandi eða neitandi. Við höfum hreinlega ekki nógu miklar rannsóknir til þess. En við vitum að margt má betur fara í skipulagi og framkvæmd heilbrigðisþjónustunnar. Við höfum ekki mælingar sem staðfesta slíka fullyrðingu. Hins vegar má alveg velta fyrir sér, sérstaklega þegar við hugsum um geðlyf og þunglyndislyf, hvort það, sem er ljóst, að við höfum verið eftirbátar nágrannalandanna, og eftir því sem við viljum vera í geðheilbrigðisþjónustu, ýti frekar undir ávísun á lyfjum en hitt, manni þykir það alla vega ekki ólíklegt. En eins og ég segi höfum við engar staðfestingar á því.

Varðandi það hvort ég telji að skipulag heilbrigðiskerfisins ýti undir mikla lyfjaneyslu vil ég segja að maður verður að gera ráð fyrir því að læknar ávísi lyfjum samkvæmt sinni bestu læknisfræðilegu þekkingu. Það er rétt að geta þess að landlæknir, sem hefur það hlutverk að fylgjast með lyfjaávísunum og stuðla að skynsamlegri notkun lyfja í landinu, hefur haldið því fram að mikilvæg ástæða fyrir ofnotkun lyfja á Íslandi sé brotakennt heilbrigðiskerfi þar sem heilbrigðisstarfsmenn vinni ekki saman eða sinni sjúklingum á sama hátt og heilbrigðisstarfsmenn annarra þjóða. Landlæknir hefur einnig nefnt að aðrir samfélagslegir þættir eins og skólakerfið, þjónusta við aldraða og þá sem glíma við örorku séu ekki með sama fyrirkomulagi hér og hjá nágrannaþjóðum og það geti átt þátt í óhóflegri notkun lyfja.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum. Mér þykir það leitt. Rétt áður en ég sleppi orðinu og leyfi umræðunni að halda áfram, ég kem aftur í lokin, vil ég taka fram um nýjan lyfjagagnagrunn sem embætti landlæknis heldur utan um (Forseti hringir.) að eitt af stærstu hlutverkum hans er einmitt að auðvelda betra utanumhald og upplýsingagjöf um notkun á lyfjum sem hægt væri að nota í leiðbeiningarskyni til að reyna að hafa áhrif á notkun lyfja. (Forseti hringir.) Mér þykir fyrir því að ég er kominn fram yfir tímann. Ég verð að koma aftur að þessu í seinni ræðu minni.



[15:52]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða sem við eigum hér um lyfjamál en heilbrigðisþjónusta í nútímasamfélagi snýst, a.m.k. að hluta, annars vegar um góðan aðgang að lyfjum — og þar vil ég nefna sérstaklega og segja óháð efnahag þeirra sem á þeim þurfa að halda — sem geta komið í veg fyrir ótímabæran dauða eða haldið sjúkdómum niðri og aukið þannig lífsgæði og samfélagsþátttöku fólks með alvarlega sjúkdóma. Þetta aðgengi er mjög mikilvægt en því miður hefur Ísland verið að dragast aftur úr öðrum Norðurlandaþjóðum þegar kemur að innleiðingu á nýjum og dýrum lyfjum. Ég hef áhyggjur af því að við sjáum fram á að þetta muni ekki endilega batna í komandi framtíð með tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir næstu ár sem við höfum rætt hér. Hins vegar snýst lyfjaumræðan um að koma í veg fyrir ofnotkun eða misnotkun á lyfjum með því t.d. að hafa greiðan aðgang — og aftur vil ég segja óháð efnahag þeirra sem á þurfa að halda — að annars konar meðferð. Þar vil ég sérstaklega nefna sálfræðiþjónustu sem dæmi. Ég er viss um að læknar reyna eftir því sem þeir best geta að ávísa á bestu mögulegu meðferðina en þeir verða auðvitað að hafa félagslegar og fjárhagslegar aðstæður sjúklinga sinna í huga. Ef við höfum ekki önnur úrræði sem sjúklingar ráða við er hætta á því að vísað verði á lyf en ekki á önnur úrræði sem kosta einstaklinginn meira. (Forseti hringir.) Þetta verðum við alltaf að hafa í huga þegar við ræðum lyfjamálin og þegar við ræðum heilbrigðismálin í heild því að allir eiga að geta fengið bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og óháð þeim sjúkdómum sem þá hrjá.



[15:55]
Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að vekja athygli á mögulegu vandamáli sem er í uppsiglingu hvað varðar lyfjaneyslu. Eins og einhverjir kannski vita geisar nú mikill heróínfaraldur í Bandaríkjunum. Sá faraldur er m.a. rakinn til þess hversu margir þar í landi hafa misnotað morfínskyld verkjalyf, svokallaða ópíóða. Þar til nýlega var þeim nokkuð frjálslega ávísað af bandarískum læknum. Nú hefur heróín sem betur fer aldrei náð fótfestu á íslenskum fíkniefnamarkaði en það er vel þekkt að margir fíklar nota þess í stað mjög svipuð efni sem þeir nálgast í gegnum lyfseðla, lyfseðilsskylda ópíóða svo sem Contalgin, Oxycontin og Fentanyl.

Nýlegar rannsóknir sýna að neysla þessara sterku verkjalyfja hefur aukist töluvert á Íslandi síðustu ár á meðan neyslan dróst saman í grannríkjum okkar. Í skýrslu Lyfjastofnunar frá því í október í fyrra segir að neysla þessara lyfja hafi vaxið um 18% hér á landi sl. níu ár en t.d. dregist saman um 14% í Danmörku á sama tímabili. Inni í þessum tölum eru þó aðeins þau lyf sem eru fengin í gegnum apótek hér á landi en ekki þau sem er smyglað til landsins.

Mig langar því til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hans ráðuneyti hafi einhverjar sérstakar skýringar á þessari þróun, þ.e. ekki að við skerum okkur úr eins og alltaf heldur að þessi sérstaða okkar sé að aukast enn frekar, og hvort neysla sterkra verkjalyfja virðist vera að aukast í eðlilegu hlutfalli við það sem við þekkjum úr öðrum löndum.

Ég efast ekki um að þessar tölur geti átt sér eðlilegar skýringar en þær virðast við fyrstu sýn vera nokkurt áhyggjuefni miðað við þau lýðheilsuáhrif sem við vitum að aukin neysla þessara sterku lyfja getur haft í för með sér.



[15:57]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þeirri mikilvægu umræðu sem hér er í dag. Það er mikilvægt að við komumst eitthvað áfram með þetta mikilvæga verkefni.

Ég held að þótt við vitum ekki nákvæmlega skýringuna, þær eru væntanlega margar, sé þetta nokkuð stórt kerfisvandamál sem við þurfum að finna lausn á og fara aðrar leiðir. Við ræðum einnig að okkur vanti mikið fjármagn í aukin lyfjakaup varðandi aðra sjúkdóma, svo sem krabbamein. Hér er ekki lausnin að auka bara fjármögnun. Við þurfum að athuga hvað klikkar í kerfinu svo við nýtum þá fjármuni á réttan hátt sem við setjum í lyf.

Þá kemur upp sú spurning hvort þessi mikla lyfjanotkun sé efnahagslegt mál, þar sem mun ódýrara er fyrir þann sem þarf á þessum lyfjum að halda að fara til geðlæknis, sem notar frekar lyf, en til sálfræðings eða félagasamtaka eins og Hugarafls og annarra mikilvægra aðila í þriðja geiranum. Hvernig getum við gert auðveldara fyrir fólk að leita þangað í úrræði án lyfja, hjálpað fólki að fá fjölbreyttari úrræði? Þannig fáum við aukið fjármagn í önnur lyf.

Við höfum oft heyrt um þessa miklu lyfjanotkun, sem oft er talað um sem misnotkun. Lyfseðilsskyld lyf ganga kaupum og sölum á hinum svokallaða svarta markaði, undirmarkaði, undirheimunum. Þá getum við spurt okkur: Hversu mikla neyslu niðurgreiðum við með skatti Íslendinga? Við niðurgreiðum fíkn með því að hafa kerfið svona. Þarna þurfum við að finna leið til að auka virði fyrir notandann og minnka sóun í kerfinu.



[15:59]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir þessa nauðsynlegu og mikilvægu umræðu. Fyrst vil ég segja að það er mjög mikilvægt að unnin verði stefnumótun í heilbrigðismálum. Við verðum að skilgreina þjónustuna, hvernig eigi að veita hana, aðgengið að henni og hvaða þjónustu eigi að veita hvar. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að líta til forvarna innan heilbrigðiskerfisins, auka aðgengi að sálfræðingum og að þjónusta sálfræðinga verði einn af þeim þáttum sem eru í greiðsluþátttökukerfi sjúklinga til að fólk geti gert sér það mögulegt að sækja þessa þjónustu þegar þörf er á.

Á síðasta kjörtímabili var byrjað á því átaki að fjölga stöðugildum sálfræðinga innan heilsugæslunnar. Er það vel og verkefninu hefur verið hraðað. Auk þessa þarf að styrkja þá aðila sem vinna við t.d. atferlismeðferð, varðandi stuðning innan skólakerfisins, það að stytta biðlista eftir greiningum svo hægt sé að vinna með snemmtæka íhlutun og bregðast við fyrr en gert er í mörgum tilfellum í dag.

Það hefur einnig komið fram í umræðunni að nauðsynlegt sé að góð lyf séu til og fólk hafi aðgang að þeim bestu lyfjum sem eru á markaði í dag og eru til erlendis. Því langar mig að segja hér að þó að umræðan snúist um misnotkun lyfja er nauðsynlegt að við eigum lyf til að fólk geti lifað betra lífi þar sem við á, að við leitum eftir samstarfi við t.d. Norðurlöndin um lyfjaútboð og fáum þannig betri lyf á hagkvæmara verði, betri lyf en við erum í mörgum tilfellum að bjóða upp á í dag.



[16:01]
Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka málshefjanda fyrir að setja þetta efni á dagskrá þingsins í dag. Það er sannarlega mikilvægt að við fylgjumst mjög vel með og rannsökum þessa þróun, að við rannsökum ástæður hennar og mögulegar afleiðingar, svo ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni. Ef við teljum að teikn séu á lofti um að þetta sé óheillavænleg þróun þurfum við að vera undir það búin að grípa í taumana.

Svo ætla ég að leyfa mér að setja líka aðra spurningu fram til íhugunar, allt í lagi að velta upp öllum steinum í þessu, þ.e. hvort sú staðreynd að notkun þunglyndis- og geðlyfja hérlendis sé mikil þurfi eingöngu að vera neikvæð. Ég veit það ekki. Mér þykir þess virði að velta þeirri spurningu upp til umræðu. Samkvæmt „World Happiness Report“ sem gefin er út af Sameinuðu þjóðunum eru Íslendingar þriðja hamingjusamasta þjóð í heimi og fylgja þar fast á hæla Norðmönnum og Dönum. Í því samhengi má spyrja sig hvort það sé fylgni milli þessa, þ.e. á milli lyfjanotkunarinnar og aukinnar velsældar eða hamingju. Gæti verið að við værum að draga úr mögulegri misnotkun á öðrum miðlum, svo sem áfengi og vímuefnum? Hefur fylgni milli þessa verið rannsökuð?

Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra væri tilbúinn að deila með mér vangaveltum sínum um þetta.



[16:03]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Á síðu Hugarafls er frétt frá því í janúar sl. sem ber yfirskriftina „Íslensk ungmenni eru lyfjuð og líður illa“. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslenskar stúlkur á aldrinum 15 til 24 ára taka ríflega fjórum sinnum meira af þunglyndislyfjum en jafnaldrar þeirra í Danmörku. Sjálfsmorðstíðni drengja á aldrinum 10 til 19 ára er hvergi hærri á Norðurlöndum en á Íslandi. Enginn hópur tekur eins mikið af ADHD-lyfjum og íslenskir drengir á aldrinum 10 til 14 ára.

Allt þetta kemur fram í nýrri skýrslu Norrænu heilbrigðistölfræðinefndarinnar sem ber saman heilbrigðismál Norðurlanda.“

Ég vil, frú forseti, ítreka spurningu hv. þm. Guðjóns Brjánssonar til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað er til ráða?

Það er nauðsynlegt að greina hver tengslin eru á milli neyslu geðlyfja og þess að tímar hjá sálfræðingum eru mjög dýrir og hið sama má segja um tíma hjá geðlæknum. Ein klukkustund hjá geðlækni kostar nú 15.404 kr. í nýja greiðsluþátttökukerfinu. Eina niðurgreidda úrræðið fyrir ungmenni með geðrænan vanda er lyfjameðferð. Hitt er allt of dýrt og kanna þarf hvort skortur á úrræðum á geðheilbrigðissviði og kostnaður sem einstaklingar þurfa að bera í heilbrigðiskerfinu valdi því ekki að lyfjanotkun er svo mikil hér á landi sem raun ber vitni. Skortur á fjármagni og aðstöðu í geðheilbrigðiskerfinu hlýtur að spila þarna stórt hlutverk, eða er skýringin bara sú að á Íslandi ríki svokallaður lyfjakúltúr og hafi gert í áratugi eins og menn hafa nefnt í umræðunni um þessi mál, bæði í þingsal og utan hans? Ef svo er, hver er það þá sem viðheldur þeim kúltúr?



[16:06]
Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni og málshefjanda, Guðjóni S. Brjánssyni, fyrir frumkvæðið að umræðu um lyfjanotkun hér á landi og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir greinargóð svör. Mikil lyfjanotkun virðist eiga rætur að rekja til þess að uppbyggingu og skipulagi heilbrigðiskerfisins er ábótavant. Við því hefur þegar verið brugðist, m.a. með því að móta stefnu á sviði geðheilbrigðismála.

Mig langar að beina sjónum mínum sérstaklega að geðheilbrigðismálum. Í geðheilbrigðisáætlun er gert ráð fyrir að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslunni. Hluti þess er einnig að stytta biðtíma eftir þjónustu göngudeilda barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og innleiða verkefni sem ber yfirskriftina Tölum um börnin/Fjölskyldubrúin sem miðar að því að draga úr hættu á að geðheilsuvandi flytjist milli kynslóða.

Samspil heilsugæslunnar og almennings skiptir líka gríðarlega miklu máli. Að mínu mati er líklega mikilvægasta verkefni ríkis og sveitarfélaga að leggja áherslu á heilsueflingarsjónarmið, þekkingu og meðvitund einstaklinga um hreyfingu, mataræði og ýmsa kvilla í stað lyfja. Það er stóra verkefnið sem blasir við okkur öllum. Við þurfum að leggjast á eitt um að auka heilsulæsi almennings og þekkingu á alls kyns úrræðum sem standa til boða til að auka heilsu fólks og viðhalda heilbrigði.

Um þessar mundir stendur yfir vitundarvakning Pieta-samtakanna sem beita sér fyrir forvörnum gegn sjálfsvígum. Á hverju ári taka yfir 40 manns líf sitt. Það er meira en tvöfaldur sá fjöldi sem lætur lífið í umferðarslysum.

Af því að tími minn er búinn langar mig að hvetja fólk til að taka þátt í göngu Pieta-samtakanna aðfaranótt laugardags þar sem ganga á úr myrkri næturinnar inn í ljós morgunsins til að sýna stuðning við málstaðinn og taka þátt í þeirri hvatningu sem felst í því að við gerum betur á þessu sviði og hjálpum fólki að halda lífi.



[16:08]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er þörf umræða. Það má segja að á henni séu tvær hliðar sem hér eru ræddar. Annars vegar er það sú staðreynd að Íslendingar nota mjög mikið af lyfjum, sérstaklega vissum flokkum lyfja, og það er að sjálfsögðu umhugsunarefni og þarft viðfangsefni að fara yfir það í samhengi við stefnu í heilbrigðismálum almennt hvernig hægt er að stemma stigu við því og leggja frekar áherslu á önnur úrræði þar sem þau koma að gagni, svo sem á sviði þunglyndis og geðrænna vandamála og almennt heilsueflandi aðgerðir í kerfinu. Ég verð þó að segja að meiri áhyggjum veldur mér sú staðreynd að í öðrum tilvikum eru alls ekki í boði á Íslandi og ekki búið að innleiða lyf sem sannarlega geta skipt sköpum í baráttu við illvíga sjúkdóma og/eða stórbætt líðan manna á meðan þeirra nýtur við.

Staðan virðist vera sú, því miður, og þetta hefur maður verið að reyna að kafa aðeins ofan í líka í samhengi við fjármálaáætlun sem er til umfjöllunar, að Ísland er að dragast aftur úr eða meira aftur úr á nýjan leik, að því er virðist, þeim löndum sem við höfum reynt að bera okkur saman við og hengja okkur aftan í. Þar hafa gjarnan Norðurlandaþjóðirnar eða Bretland verið höfð til viðmiðunar, jafnvel hreinlega þannig að við reyndum að setja okkur takmark um að vera aldrei nema visst mörgum mánuðum á eftir að samþykkja inn ný lyf sem komin væru í gagnið annars staðar á Norðurlöndunum eða í Bretlandi. Nú er óvissa uppi í þeim efnum, jafnvel bara á yfirstandandi ári. Hún varpast að einhverju leyti inn í framtíðina í nýrri fjármálaáætlun.

Þetta er eitt það allra tilfinnanlegasta sem maður stendur frammi fyrir þegar sannarlega eru komin ný, en að vísu oft mjög dýr, lyf til sögunnar sem geta skipt sköpum, jafnvel fyrir fáeina einstaklinga sem verða fyrir því óláni að fá sjaldgæfa sjúkdóma. Um leið verður auðvitað að viðurkennast að kostnaðurinn getur verið mjög hár eins og lyfjabransinn er samansettur (Forseti hringir.) og þangað til verð lyfja fer að lækka eftir að þau hafa verið í notkun um skeið.

Ég held að ekki verði undan því vikist að fara vel yfir þessa þætti í tengslum við afgreiðslu fjármálaáætlunar.



[16:10]
Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Frú forseti. Mikil aukning hefur orðið á ávísunum þunglyndislyfja hér á landi á undanförnum árum, eða um 20% aukning á síðustu fimm árum samkvæmt nýlegri samantekt landlæknis. Þessi lyf geta verið lífsnauðsynlegur hluti af bata fyrir marga en þessi mikla aukning vekur athygli í ljósi þess að Íslendingar áttu fyrir heimsmet í notkun þunglyndislyfja. Þessi umtalaða sérstaða okkar er því að aukast frekar en hitt.

Þá er sérstakt áhyggjuefni að aukningin er hlutfallslega langmest hjá þeim yngstu. Á fjórum árum hefur neysla ungmenna 15–19 ára á þunglyndislyfjum aukist um 60%, á aðeins fjórum árum. Þetta er gríðarleg aukning. Hana má örugglega rekja að hluta til þess sem hefur verið rakið af öðrum hv. þingmönnum, hversu dýrt það er að sækja sér sálfræðiþjónustu hér á landi, en hún er ekki niðurgreidd eins og önnur nauðsynleg meðferð við alvarlegum sjúkdómum. Það er þrátt fyrir að læknar séu sammála um að þunglyndislyf ein og sér leysa engan alvarlegan geðrænan vanda. Samtalsmeðferð verður að fylgja með lyfjagjöfinni til að von sé um árangur.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé ekki sammála því að í ljósi þeirra talna sé nauðsynlegt að auka aðgengi að sálfræðimeðferð enn frekar, umfram það sem gert er ráð fyrir í annars ágætri geðheilbrigðisáætlun. Um leið vil ég einnig hvetja sem flesta til að taka þátt í Pieta-göngunni sem var nefnd áðan og vænti þess að einhver breyting verði á í þessum málaflokki, því fyrr, þeim mun betra.



[16:12]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða um lyfjanotkun hefur dálítið mikið beinst að geðlyfjum og svefnlyfjum og reyndar lyfjum sem unglingar þurfa á að halda vegna hegðunarvandamála, rítalín o.fl. En ég ætla þó að byrja á að segja að ég tel að lyf séu einhver merkasta uppfinning mannsandans og hafi bætt lífsgæði og dregið úr og útrýmt heilu sjúkdómunum. En það ber náttúrlega að fara rétt með alla hluti og eru lyf þar ekki undanskilin.

Ég vil t.d. nefna sjúkdóm eins og berkla. Það urðu alger umskipti um miðja síðustu öld í meðhöndlun berkla. Það hefur alla vega tekist að útrýma þeim á Vesturlöndum. Sömuleiðis var það um miðja síðustu öld að verulegar framfarir urðu í geðlyfjum. Þær gerbreyttu aðstöðu þeirra sem glímdu við geðsjúkdóma. Stofnanavist varð ekki hin eina lausn heldur var hægt að koma fjöldamörgum einstaklingum til starfa aftur.

Ég velti oft fyrir mér hvort mikil notkun þunglyndislyfja sé góð eða slæm. Það var nefnt áðan að Íslendingar væru með hamingjusömustu þjóðum. Kannski er þar samband á milli. En ég segi stundum líka við sjálfan mig: Er þjóðin nógu þreytt? Það er hægt að laga ýmsa sjúkdóma með því að taka á og verða þreyttur. Ég sef oft miklu betur þegar ég er þreyttur. Mér líður oft miklu betur þegar ég er þreyttur. Kannski er hægt að lækna ýmsa sjúkdóma með einföldum lausnum.

En virðulegi forseti, tími minn er þrotinn. Takk fyrir.



[16:14]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég ætlaði að segja ákveðna hluti en ég verð samt í tilefni af ræðu hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar að nefna það að t.d. ADHD er sjúkdómur, það er taugaröskun í framheila, það er ekki hegðunarvandi. Þunglyndi er efnaskiptasjúkdómur. Þeir sjúkdómar og raskanir hafa ekkert með útihlaup að gera, en að sjálfsögðu hjálpar heilbrigt líferni og allar forvarnir verulega þegar fólk tekst á við slíka sjúkdóma og raskanir.

Nokkrir hv. þingmenn hafa farið ágætlega yfir tölur og upplýsingar varðandi þetta. Margir sem hafa búið langdvölum erlendis hafa orðið varir við það þegar þeir koma til baka að streitan er að yfirkeyra okkur Íslendinga. Streita er bráðsmitandi. Hún smitar börnin okkar. Einhver sagði, mér fannst það nokkuð gott, að við ættum kannski að gera meira af því að hlusta á líkamann og anda að okkur lífinu. En það eitt og sér læknar ekki alvarlega sjúkdóma sem við erum að ræða um hér.

Aftur að því sem ég ætlaði að segja. Ég horfði á kvöldfréttir Stöðvar 2 í gær. Þar var viðtal við íslenskan sérfræðing sem starfar í Ósló. Hún nefndi að lyfjagrunnur landlæknis væri meingallaður og að hún hefði ítrekað bent á það. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist skoða það mál enn frekar og grípa til aðgerða. Þarna liggja ábendingar fyrir og ætti að vera hægt að skoða þær.

Ég vil taka undir það sem fleiri hafa sagt varðandi bætt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Það er mjög mikilvægt og að biðlistar í greiningar verði styttir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir enn frekari úrbótum (Forseti hringir.) á aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og einnig varðandi aðgerðir (Forseti hringir.) gagnvart því að stytta biðlista til greininga. Það væri áhugavert að heyra.



[16:17]
Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar í seinni ræðu minni að nýta tækifærið og bera upp aðra spurningu og beina til hæstv. ráðherra, en hún snýr kannski frekar að rannsókn á milli fylgni lyfjanotkunar og búsetu. Nú erum við ekki eina þjóðin sem býr við langvarandi myrkur og slæm veðurskilyrði, sem við tölum einmitt oft um að hafi áhrif á líðan okkar og jafnvel geðheilsu. Skammdegisþunglyndi er hugtak sem við þekkjum flest og við könnumst eflaust mörg við fólk sem telur þann leiða kvilla há sér svo að vikum og mánuðum skiptir, þ.e. ef við höfum ekki jafnvel fundið fyrir honum sjálf. Mig langar því að spyrja ráðherra hvort honum sé kunnugt um hvort rannsóknir hafi verið gerðar á fylgni milli búsetu á norðlægum slóðum, þar sem langir og strangir vetrarmánuðir geta haft áhrif á geðheilsu fólks og sálarheill, og síðan aukinni þunglyndis- eða kvíðalyfjanotkun.



[16:18]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna. Jóna Sólveig Elínardóttir varpaði því fram hvort notkun þunglyndislyfja væri neikvæð. Ég tel alls ekki svo vera því að eins og allir þegnar landsins vita geta lyf, þunglyndislyf, bætt lífsgæði og jafnvel gert kraftaverk og bjagað mannslífum. Varðandi aðra spurningu, um það hvort gerðar hafi verið rannsóknir á notkun slíkra lyfja, þá getur hæstv. ráðherra eflaust svarað því betur en ég. Ég veit þó að til eru norskar rannsóknir, þar sem Noregur er langur og mjór, og það er nákvæmlega enginn munur á milli landshluta. Skammdegisþunglyndismýtan stenst því sennilega ekki.

Mig langar að varpa fram þremur spurningum til hæstv. ráðherra í lokin. Í tíð ráðherra eftir ráðherra hefur verið rætt um samstarf við Norðurlönd um sameiginleg lyfjakaup. Lítið virðist hafa þokast en á orðum ráðherra fyrir nokkrum vikum mátti skilja, ef mig misminnir ekki, að einhverjar fréttir gætu verið á leiðinni. Er eitthvað að gerast í því að Norðurlöndin taki sig saman til að ná hagkvæmari lyfjainnkaupum, hæstv. ráðherra? Í aðdraganda kosninga fjallaði Björt framtíð um að hún myndi beita sér af einurð fyrir því að menn fengju öll þau bestu lyf til Íslands sem völ væri á. Verður það veruleikinn? Er búið að fjármagna þau fyrirheit hæstv. ráðherra?

Að lokum, og mig langar að biðja ráðherra hæstv. að byrja á þeirri spurningu og ég endurtek fyrri spurningu mína. Ég vil gjarnan heyra afstöðu ráðherra til þess að farið verði ofan í saumana á því, af fræðimönnum og fagfólki, hvernig á því stendur að Íslendingar neyta meiri lyfja en aðrir; sem sagt meira en aðrir heims um ból. Ég hef væntingar um greinargott svar. Mun ráðherra beita sér fyrir sérstakri rannsókn á þessu atriði sem er ekki lítið? Heilsa fólks getur verið í húfi svo að ekki sé minnst á þann gríðarlega kostnað og jafnvel sóun sem í þessu getur falist.



[16:20]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég ætla að tala hratt og reyna að svara. Ég mun ekki ná að svara öllum spurningum sem til mín hefur verið beint en mun reyna það. Við lokaspurningu hv. málshefjanda, um það hvort ég vilji beita mér fyrir því að þessi mál verði skoðuð, er stutta svarið já. Ég tel að það verði að skoða en embætti landlæknis hefur lykilhlutverki að gegna í því þó ekki síst lyfjagagnagrunnurinn sem læknar fengu fullan aðgang að 2016 og sjúkraskrárkerfi sem hafa verið samtengd til að auka möguleika á meiri samvinnu milli lækna á ólíkum starfsstöðum en líka til að fylgjast með notkun sjúklinga á lyfjum og koma í veg fyrir að menn séu með röng lyf eða neyti of margra lyfja. Þetta tengist spurningum og vangaveltum sem margir þingmenn hafa komið með í sambandi við geðheilbrigðisáætlun og aðgengi að sálfræðingum. Þá er svarið við ítrekaðri spurningu þar að við förum eftir geðheilbrigðisáætlun og okkur er að takast að vinna eftir henni hraðar en til stóð í áætluninni, til að mynda með hraðari fjölgun sálfræðinga á heilsugæslunni sem er lykilatriði í þessu samhengi. Ég vil líka minna á samvinnu menntamálaráðuneytisins, heilbrigðisráðherra, félagsmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga í sambandi við úttekt Evrópustofnunar á skóla án aðgreiningar sem eflaust mun líka hafa áhrif á útskrift lyfja í sambandi við ADHD og slíkt.

Á síðustu 15 sekúndunum vil ég taka það fram að ég hef, í samvinnu við fjármálaráðherra, verið að leggja mat á og undirbúa fjármögnun á innleiðingu nýrra dýrra lyfja sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2017. Ég geri ráð fyrir því (Forseti hringir.) að lyfjagreiðslunefnd taki ákvörðun um lyfjainnleiðingar á næsta fundi sínum. Gert er ráð fyrir því í fjármálaáætlun að töluvert verði aukið til lyfjaflokksins, m.a. til að tryggja slíka innleiðingu í framhaldinu.

Svo fer ég fram yfir tímann og hvet sömuleiðis fólk til þess að mæta í göngu Pieta gegn sjálfsvígum.