146. löggjafarþing — 63. fundur
 4. maí 2017.
ójöfnuður í samfélaginu.

[11:46]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Í nýlegum félagsvísi á vegum velferðarráðuneytisins kemur fram að ójöfnuður er að aukast í samfélaginu, bæði þegar horft er á Gini-stuðul og hlutfall fólks undir lágtekjumörkum. Árið 2015 voru 10% fólks undir lágtekjumörkum, 7,9% ári áður. Nú er sama hlutfall undir lágtekjumörkum og þegar verst lét í bankahruninu. Ástandið er að versna eins og margoft var varað við í tíð síðustu ríkisstjórnar. Nú ætlar ríkisstjórn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar að feta sömu hægri stefnu.

Ágóði uppsveiflunnar mun renna í ríkari mæli til þeirra sem best standa. Árið 2015 jók ríkasta 1% fólks landsins eignir sínar um 50 milljarða og á um 20% af öllum eignum landsmanna.

Engar skattbreytingar hafa verið boðaðar til að vinna gegn aukinni misskiptingu. Áfram er stefnt að auknum ójöfnuði. Samfylkingin og fleiri flokkar hafa talað fyrir því að skilvirkasta og sanngjarnasta leiðin sé að beita skattkerfinu. Við höfum lagt til þrepaskiptan tekjuskatt, hátekjuskatt, auðlegðarskatt, stigvaxandi fjármagnstekjuskatt og að sóttar verði meiri tekjur af auðlindunum. Ráðherra hefur áður í fyrirspurn neitað þessum leiðum. Þvert á móti hefur ríkisstjórnin flatt út skattkerfið og talað mikið um einföldun þess. Varla einföldun fyrir líf tekjulægstu hópanna sem glíma margir við erfiða stöðu á húsnæðismarkaði. Ráðherra segir meira að segja í nýrri fjármálaáætlun að skattar séu andstæða frelsis í nýrri fjármálaáætlun. Ég tel hins vegar að réttlát skattheimta tryggi þorra almennings heilmikið frelsi, svo ekki sé minnst á öryggi.

Nú er spurning hvort ráðherra ætlar að horfa aðgerðarlaus á ójöfnuð aukast beint fyrir framan nefið á sér. Og þar sem hann vill ekki þiggja góð ráð frá mér í skattamálum spyr ég: Hvaða önnur tromp hefur hæstv. ráðherra uppi í erminni til þess að stemma stigu við þessum ófögnuði, ef hann vill gera það á annað borð?



[11:48]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég verð að játa að þær tölur sem hann kynnir hér hef ég ekki séð. Hins vegar þekki ég mætavel að tölur Hagstofunnar hafa sýnt að ójöfnuður í launum hér á landi er með minnsta móti í Evrópu. Það er vissulega ástæða til að hugsa um hvað sé eðlilegur ójöfnuður. Sumir halda því fram að það eigi að vera fullkominn jöfnuður. Ég er ekki í þeim hópi. Það kann að vera að hv. þingmaður sé það. Ég tel að menn eigi að njóta þess að þeir séu með framtak, t.d. til að útvega sér meiri menntun. Ég held að það sé ein meinsemdin t.d. í launakerfum hér á landi, og hefur verið kvartað undan af háskólamenntuðum mönnum, að ekki sé tekið nægilega mikið tillit til menntunar. Ég get t.d. nefnt þar hjúkrunarfræðinga, kennara, stéttir sem eru með mjög langa menntun að baki en njóta þess ekki í launum að eigin mati. Ég held að margir geti tekið undir það mat.

Ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður meinar þegar hann segir að ég hafi flatt út skattkerfið. Ég veit ekki til þess að sérstakar tillögur hafi komið frá mér um breytingar á skattkerfinu, nema breytingar á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu. Ef ég man rétt studdi Samfylkingin þær breytingar. Og ég hef komið með hugmyndir um ákveðna græna skatta sem ég veit ekki hvort þingmaðurinn er mikið á móti.



[11:50]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Tölurnar eru á vef velferðarráðuneytisins. Hæstv. ráðherra felldi niður milliþrep í skattkerfinu.

Hvað er eðlilegur ójöfnuður? Ég talaði um að hann væri að aukast. Það er að minnsta kosti ekki ásættanlegt þegar þeim fjölgi sem eru undir lágtekjumörkum. Við sjáum að húsnæðismarkaðurinn er að verða eitt kaos, öngstræti. Gríðarlegur vandi steðjar að, bæði fyrir fólk sem ekki kemst í eigið húsnæði og þá sem eru á leigumarkaði. Allar vísbendingar sýna að fólk á leigumarkaði og börn þess eru í miklu meiri áhættu að glíma við fátækt.

Vegna þessa tilkynnti ríkisstjórnin 24. febrúar að skipaður hefði verið hópur til að bregðast við þessu neyðarástandi á íslenskum húsnæðismarkaði. Hann átti að skila niðurstöðu innan mánaðar. Síðan eru liðnir tveir og hálfur mánuður. Hvað er að frétta, hæstv. fjármálaráðherra Alþingis?



[11:52]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Hv. þingmaður ræðir um húsnæðismálin. Það er ánægjulegt að fá að tala um þau. Ríkisstjórnin hefur lagt þar til 1,5 milljarða, til viðbótar við það sem samþykkt var í fjárlögum við uppbyggingu íbúða með ASÍ. Við höfum viljað stuðla að auknu lóðaframboði og höfum við viljað bæta ástandið þar með ýmsum ráðum sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur kynnt. (Gripið fram í.)

En ég vil hins vegar benda hv. þingmanni á að þessum lögum var breytt áður en núverandi hæstv. ríkisstjórn tók til starfa. Það var í fjárlagafrumvarpi sem var samþykkt hér í desember.