146. löggjafarþing — 63. fundur
 4. maí 2017.
um fundarstjórn.

verklag við fjámálaáætlun.

[12:00]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég kem upp undir liðnum fundarstjórn forseta til að ræða fjármálaáætlun og umsagnir um hana. Mér hefur borist til eyrna að mismunandi verklag sé viðhaft innan nefnda og að upplýsingagjöf til þingmanna frá nefndasviði um hvenær og hvernig eigi að skila umsögnum sé mismunandi. Ég brýni því virðulegan forseta að koma einhverju samræmi þar á. Það gengur ekki að ein nefnd fái þau skilaboð að hún eigi að skila á föstudagskvöldi meðan önnur nefnd fær þau skilaboð að hún þurfi ekki að skila fyrr en á mánudegi. Það sama á við um formið og því um líkt. Þetta er mjög óþægilegt og veldur því að við hv. þingmenn eru ekki alveg jafn örugg í okkar starfi. Ég brýni því forseta í þessum efnum, að þetta verði lagað hið fyrsta svo við getum alla vega verið með samræmdar umsagnir að forminu til (Forseti hringir.) sem og þegar kemur að því hvenær á að skila þeim.



[12:01]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil taka undir með þingflokksformanni Pírata. Það er mjög óþægilegt að hafa ekki skýrar verklagsreglur. Við þingmenn, í það minnsta þingmenn minni hlutans, erum mjög uggandi yfir fjármálaáætluninni og skorti á upplýsingum sem við upplifum að sé viðurkennt verklag á Alþingi. Það er óþolandi að við séum hér að fara inn í einhvern ramma sem mjög erfitt er að breyta án þess að hafa viðhlítandi upplýsingar til að geta tekið upplýsta ákvörðun.

Því óska ég eftir að forseti fundi með formönnum nefnda og það komi mjög skýr skilaboð um hvenær beri að skila sérálitunum og hvernig standa eigi að þessari vinnu þannig að það verði — ja, það verða alveg örugglega hnökrar, en forseti getur komist hjá ónauðsynlegum hnökrum með því að koma hér á skýru verklagi.