146. löggjafarþing — 65. fundur
 15. maí 2017.
leit að týndum börnum.
fsp. EyH, 468. mál. — Þskj. 646.

[19:08]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra um samstarfsverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og velferðarráðuneytisins um leit að týndum börnum sem komið var á í nóvember 2014. Í ritgerðinni „Týndu börnin í fjölmiðlum: Áhættuþættir unglinga sem strjúka að heiman“, eftir Unni Kristínu Sigurgeirsdóttur og Bryndísi Hall frá 2014, kom fram að heimilisaðstæður, vímuefnaneysla og upplifun í skóla væru helstu áhrifaþættirnir í því að börn strykju að heiman. Sú áhættuhegðun sem algengust væri hjá börnunum sem týnast væri vímuefnaneysla og hegðunar- og geðrænir erfiðleikar, en listinn væri hins vegar engan veginn tæmandi. Það væri oft þannig að börn sem strykju að heiman hefðu verið vistuð á stofnunum vegna áhættuhegðunar og væru mjög oft ósátt við að vera vistuð og vildu ekki fara í meðferð heldur vera í því umhverfi sem neyslan býður upp á.

Það sem ég myndi vilja spyrja um er um árangurinn af þessu tilraunaverkefni. Eins og ég fór í gegnum erum við að fjalla hér um börn sem eiga mjög erfitt, búa oft jafnvel við erfiðar aðstæður, eru í neyslu, eiga í erfiðleikum í skóla. Í bréfi félagasamtakanna Olnbogabörnin til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var hvatt þess til að verkefninu yrði haldið áfram. Þar kom fram að verkefnið væri mjög brýnt og að þau teldu að það hefði skilað umtalsverðum árangri. Það hefði náðst að stytta viðbragðstíma lögreglunnar til muna þegar tilkynnt væri um týnd ungmenni, það þyrfti síður að lýsa eftir þeim í fjölmiðlum, þau fyndust fyrr og væru því skemur í aðstæðum sem væru þeim hættulegar, ekki hvað síst með fullorðnum, hættulegum einstaklingum.

Það vakti líka athygli mína að samtökin bentu á að þau teldu að verkefnið hefði líka leitt til ákveðinnar viðhorfsbreytingar innan lögreglunnar hvað varðaði börn og ungmenni með áhættuhegðun og að foreldrar, forsjáraðilar og börnin sjálf bæru aukið traust til lögreglunnar og fyndu að vel væri tekið á stöðu þeirra og vanda. Það væri litið alvarlegum augum að verið væri að hýsa börn og ungmenni undir lögaldri í leyfisleysi.

Í nýbirtri afbrotatölfræði lögreglunnar frá því í mars 2017 kemur fram að lögreglan hafi aldrei fengið fleiri beiðnir um leit að týndum ungmennum frá því að verkefnið hófst, í nóvember 2014. Alls bárust 32 beiðnir um leit, samanborið við 19 beiðnir í febrúar. Aukningin var þá á ári 53% en bárust að meðaltali tvö ár á undan.

Ég hef mikinn áhuga á að heyra frá ráðherranum hvernig hann metur reynsluna af þessum tilraunaverkefni og hver séu áform hans og þá lögreglunnar, og þá væntanlega barnaverndaryfirvalda líka sem heyra undir hæstv. ráðherra, um framtíð þessa verkefnis.



[19:11]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessa umræðu. Ég held að við getum öll verið sammála um alvarleika og mikilvægi þessa máls. Það er ánægjulegt frá að greina að í stuttu máli má segja að reynslan af þessu tilraunaverkefni hafi verið ákaflega góð. Samtöl mín við yfirmenn lögreglu á höfuðborgarsvæðinu benda ekki til annars en að því verði haldið áfram af sama metnaði og einkennt hefur verkefnið undangengin ár.

Þetta verkefni var styrkt í tvö ár, 2015 og 2016, um 10 milljónir hvort ár, af velferðarráðuneytinu, er núna fjármagnað af fjárhagsáætlun lögreglumembættisins. Í upplýsingum frá lögreglu kemur fram að þrjú ungmenni munu hafa látist í þessum strokuhópi árið 2014 en frá því að verkefnið var sett á laggirnar hafi ekkert ungmenni látist sem leitað hefur verið að með þessum hætti.

Einn starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur helgað sig algerlega verkefninu og vinnur það m.a. með MST-meðferðaraðilum meðan verið er að styrkja þjónustukerfið í kringum viðkomandi ungling. Það hefur m.a. leitt af sér að í stað þess að áður fór, ef ég man rétt, um helmingur barna sem leitað var að með þessum hætti inn á meðferðarheimili eins og Stuðla er það um eða innan við þriðjungur í dag eftir að verkefnið hófst.

Ekki er aðeins um það að ræða að viðbragðstíminn hafi styst, börnin finnist miklu fyrr en áður, heldur virðast úrræðin í kringum börnin einnig mun betri og styrkari en áður.

Olnbogabörn, sem hv. þingmaður vísaði til í fyrirspurn sinni, hafa lýst eindreginni ánægju með verkefnið og telja það hafa skilað umtalsverðum ávinningi. Barnavernd Reykjavíkur telur verkefnið sömuleiðis afskaplega gott og leggur áherslu á að gott samráð sé milli aðila í málefnum barnanna. Nú er svo komið að viðbragðstími lögreglu er að ég held um 20 mínútur að meðaltali frá því að Barnavernd sendir leitarbeiðni þar til málið hefur verið skráð, lýsing á barni kölluð út og það skráð eftirlýst í kerfum lögreglu. Eins og áður sagði er síðan sérstakur starfsmaður embættisins sem hefur helgað sig þeim málum og beitir sér þá fyrir skjótri leit.

Hvað varðar greiningu á fjölda barna var leitað að rúmlega 80 börnum á hvoru ári um sig, 2015 og 2016, eða alls 163. Þar af voru um 60 börn sem leitað var að í fyrsta skipti á hvoru ári, stúlkur voru aðeins fleiri en strákar. Það sem af er árinu 2017, talið til og með apríl, hefur verið leitað að 42 börnum og ungmennum en þar af var 21 barn sem leitað var að í fyrsta skipti, strákar voru 25 og stúlkur 17. Um 89% hópsins eru börn á aldrinum 14–17 ára en yngstu tvö börnin sem leitað var að á tímabilinu voru 11 ára.

Leitarbeiðnirnar berast allan sólarhringinn en flestar berast upp úr miðnætti. Sá tími sem börn voru týnd var nokkuð misjafn, allt frá einni klukkustund upp í 13 daga, það tímabil sem lengst var. Meðaltalið er um 31 klst., þ.e. að jafnaði er börnunum náð út úr þessum aðstæðum á rétt rúmum sólarhring. 10% leitarbeiðna eiga við um börn utan höfuðborgarsvæðisins en sem fyrr sagði hefur verkefnið verið fest í sessi hjá lögreglunni í Reykjavík og gerir embættið ráð fyrir að halda því áfram. Kostnaður er nú um 20 millj. kr. á ári en fjármagnið vegna ársins 2017 er tekið af rekstrarkostnaði lögreglu.



[19:16]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og ráðherra fyrir þessi svör. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og óhuggulegt til þess að hugsa hversu há prósenta af þessum börnum sem leitað er að er undir lögaldri, tæplega 90%. Það er gríðarlega hátt hlutfall. Af þessu börnum eru í kringum tveir þriðju stelpur og meðalaldurinn er um 15 ár. Ef við erum að leita að 15–18 börnum á mánuði, undir 18 ára, eins og árið 2015, og svo kom ráðherra með nýrri tölur, er það gríðarlegur fjöldi. Það er mikilvægt að efla þetta starf. Dýrustu leitirnar í hverjum einasta mánuði kosta 450–500 þúsund. Kostnaðurinn hleðst fljótt upp. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af því, miðað við fjármagnið sem lögreglan kallar eftir og ráðherra minnist á, að þetta eigi að fjármagna með fé lögreglunnar sem er allt of þröngur stakkur skorinn. (Forseti hringir.) Þetta málefni gæti þurft að láta undan eins og svo mörg önnur, þótt ég geri nú ráð fyrir að lögreglan bregðist fyrr við þessu en mörgu öðru.



[19:17]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum kærlega fyrir greinargóð svör varðandi verkefnið um leit að týndum börnum. Það er ánægjulegt að heyra að árangurinn af því tilraunaverkefni sé góður og þetta sé orðið fastur hluti af starfsemi og fjárhag lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hins vegar er spurning hvort hægt sé að útvíkka þetta og horfa til þess hvort þörf sé á sambærilegum úrræðum hjá lögreglunni annars staðar á landinu í leit að týndum börnum. Eins og ráðherra fór í gegnum, og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir talaði um það sama, er mikilvægt að finna börnin sem allra fyrst, að þau séu ekki í aðstæðum sem ógna öryggi þeirra. Ráðherrann nefndi hversu alvarlegt þetta getur verið og var þegar við vorum ekki með þessi úrræði og hver tíðni barna var sem létust.

Eins og ráðherrann sagði kostaði velferðarráðuneytið þetta tilraunaverkefni til helmings á móti lögreglunni, 10 milljónir. Það væri áhugavert að heyra frá ráðherranum hvernig hann sér fyrir sér að ráðstafa þeim fjármunum, hvort ætlunin sé að nýta þá fjármuni inn í ný verkefni, sem koma vonandi í aðgerðaáætluninni gegn ofbeldi. Er ætlunin að efla enn frekar MST-teymið og tryggja að það sinni verkefnum sínum hringinn í kringum landið eða fara þeir fjármunir í önnur verkefni sem ráðherrann telur mikilvæg svo að við getum stutt betur við viðkvæmustu einstaklinga okkar?



[19:19]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir þessa góðu og mikilvægu umræðu. Það skiptir gríðarmiklu máli að þetta úrræði verði áfram fastur liður í starfsemi lögreglunnar, og vonandi um allt land, ekki einungis hér á höfuðborgarsvæðinu, þó svo að eðli málsins samkvæmt sé umfangið auðvitað mest hér. Reynslan af þessu hefur sýnt og raunar reynslan af öðrum samstarfsverkefnum lögreglu og barnaverndaryfirvalda, til dæmis þegar kemur að heimilisofbeldi, hversu mikilvægt er að þetta samstarf sé öflugt og gott öllum stundum og hversu mikill ávinningur getur orðið af slíku samstarfi. Það hefur sýnt sig vel í báðum þessum tilvikum, varðandi leit að týndum börnum en ekki síður þegar kemur að hagsmunum barnanna í heimilisofbeldi. Þetta samstarf getur skilað gríðarlega miklum og mikilvægum ávinningi.

Hv. þm. Eygló Harðardóttur spyr út í þær fjárhæðir sem varið var til þessa verkefnis á árunum 2015–2016. Það er sjálfsögðu til skoðunar hvernig við getum stutt betur við þessa samstarfsfleti fram á veginn. Auðvitað er eðlilegt að þetta verði með tíð og tíma fastur hluti af starfsemi lögreglunnar og þar með fjármagnað af föstum framlögum til embættisins. En við eigum, sér í lagi í tengslum við fyrirhugaða aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn ofbeldi, að horfa til þess hvernig hægt er að draga lærdóm af þessum tveimur verkefnum sem hér hafa verið nefnd og hvernig við getum þróað t.d. samstarf lögreglunnar og barnaverndaryfirvalda og annarra hagsmunaaðila enn frekar.

En ég þakka enn og aftur ákaflega áhugaverða og gagnlega umræðu.