146. löggjafarþing — 65. fundur
 15. maí 2017.
rýmkun reglna um hollustuhætti og matvæli.
fsp. HildS, 443. mál. — Þskj. 580.

[19:50]
Fyrirspyrjandi (Hildur Sverrisdóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar að segja frá því að ég kann mjög vel við kisur en hef verið hrædd við hunda síðan ég man eftir mér. Ég verð t.d. smá stressuð þegar ég er úti að ganga og mæti hundum í spássitúr með eigendum sínum, en yfirleitt er það svo að hundaeigendur stytta í taumnum þegar þeir sjá óttaslegið hik mitt. Og þannig á það að vera.

Það er þetta með að hafa aðeins færri reglur en stuðla að meiri tillitssemi sem mér finnst ákjósanlegt í samfélaginu. Ég ræddi þetta einnig fyrir nokkru síðan í umræðu hér í þingsal um rafrettur. Erum við hætt að gera ráð fyrir tillitssemi í samfélaginu í allri löggjöf og reglusetningu? Ég vona ekki. Ég er alla vega ekki tilbúin til að gefa tillitssemina upp á bátinn.

Mér finnst því sjálfsagt að hundar megi fara í göngutúr um götur borgarinnar svo lengi sem það er tekið tillit til þeirra sem óttast þá. Eins þykir mér sjálfsagt að hundar fái að stinga fæti, eða fjórum, inn á opinbera staði eins og kaffihús þótt ég viti og virði að margt fólk óttast dýr eða er með ofnæmi fyrir þeim.

En hvað gerum við þá? Hið auðvelda er vissulega að setja nógu stífar reglur sem taka enga sénsa á að þær geti mögulega orðið einhverjum til ama. En ég vona að við séum ekki sátt við að það verði alltaf auðvelda leiðin sem verður ofan á, að setja reglur sem einfaldlega banna í staðinn fyrir að reyna að takast á við blæbrigði mismunandi þarfa fólks. Hví í ósköpunum ætti okkur ekki að takast að setja reglur með frelsi, skynsemi og tillitssemi, allt í einum graut, að leiðarljósi?  

Með það fyrir augum talaði ég fyrir tillögu sem var samþykkt í borgarstjórn fyrir tveimur árum síðan sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Borgarstjórn samþykkir að beina þeim tilmælum til ríkisvaldsins að rýmka reglur um hollustuhætti og matvæli svo það sé hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig það kýs að haga reglum um á hvaða stöðum sé leyfilegt að hafa dýr, svo sem á kaffihúsum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum, samkomuhúsum o.s.frv. Það er réttlætismál að sveitarfélög hafi svigrúm gagnvart eigendum slíkra staða að leyfa dýrahald ef þeir óska.“

Þessi hvatning frá borgarstjórn Reykjavíkur til ríkisins hefur legið hjá umhverfisráðuneytinu síðan þá, eða fyrir tæpum tveimur árum síðan. Nú er ég því orðin mjög spennt að heyra frá nýjum ráðherra ráðuneytisins um hvað sé að frétta af þessu máli. Það er mín einlæga von að vel verði tekið í að ríkið láti af miðstýringu þessara reglna og treysti sveitarfélögum til að setja sér reglur um hvernig best sé mætt mismunandi þörfum og sjónarmiðum gagnvart blessuðum dýrunum í umhverfi okkar.



[19:53]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda mjög áhugaverða fyrirspurn um þetta mál. Fyrst ætla ég aðeins að rekja reglugerð um hollustuhætti, sem er auðvitað komin til ára sinna. Það er mjög mikilvægt að endurskoða mörg ákvæði hennar.

Minni háttar uppfærsla, þar sem tekin verða inn og breytt ákvæðum sem lítill ágreiningur er um, var kynnt á vef ráðuneytisins 24. mars sl. Ákvæði er varða staði sem heimilt er að hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn á eru m.a. rýmkuð örlítið og ákvarðanir því tengdar fluttar frá ráðuneyti til heilbrigðisnefnda. Stefnt er að því að setja þessa breytingarreglugerð í næsta mánuði.

Næsta skref hjá ráðuneytinu er svo að endurskoða heildstætt ákvæði um dýrahald á opinberum stöðum. Liggur fyrir að fylgiskjal III með reglugerðinni, sem fjallar um húsrými og lóðir sem ekki má hleypa gæludýrum inn á, verði þá tekið til endurskoðunar.

Erindi borgarstjórnar Reykjavíkur um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga um dýrahald á opinberum stöðum hefur verið til umfjöllunar í ráðuneytinu og hefur verið sent til umsagnar til Umhverfisstofnunar, Samtaka heilbrigðiseftirlitsráða á Íslandi, embættis landlæknis, Læknafélags Íslands og Astma- og ofnæmisfélags Íslands. Í erindinu er þeim tilmælum beint til ríkisvaldsins að rýmka reglur um hollustuhætti svo það sé hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig það kýs að haga reglum um á hvaða stöðum sé leyfilegt að hafa dýr, eins og fyrirspyrjandi fór í gegnum áðan.

Í reglugerð um hollustuhætti er fjallað um húsrými og lóðir sem ekki má hleypa hundum og köttum og öðrum gæludýrum inn á, en við verðum að skoða hvort hægt sé að taka einhverja staði út af þeim lista og rýmka enn frekar. Þá þarf að hafa í huga og skoða sérstaklega að gera greinarmun á því hvort viðkomandi þarf að vera á tilteknum stað, t.d. að sækja heilsugæslu eða vera í mötuneyti grunnskóla, eða hafi val um að fara t.d. á kaffihús, að gerður sé greinarmunur á þeim stöðum hvað varðar frelsi til þess að koma með dýr inn á.

Við þessa vinnu verður áfram haft samráð við haghafa. Ráðuneytið mun leggja áherslu á að ætíð verði tekið mið af velferð dýra sem og hagsmuna fólks, þar á meðal einstaklinga sem hafa ofnæmi fyrir gæludýrum. Ég vil segja það alveg hreinskilnislega að ég hef ekki tekið afstöðu til þess hvort það eigi að setja það í hendur einstakra sveitarfélaga hvar megi hafa gæludýr. Þó er það sem ég nefndi áðan ofarlega í huga hvað varðar muninn á stöðunum. Þetta hefur kannski með það að gera að sjálf er ég vön dýrum í sveit en ekki í borgum. En auðvitað skiptir máli að fara í gegnum þetta.

Fyrirspyrjandinn rakti það áðan, og ég er sammála henni í því, að við eigum ekki að vera að hafa reglur sem eru óþarfar. Ef reglur eru einhverjum til ama eigum við að skoða þær. Það er sannarlega þannig að þær reglur sem nú eru í gildi eru einhverjum til ama, það að mega ekki fara með hundinn sinn eða kött upp í strætó. Það er einhverjum til ama og þá eigum við að skoða það og erum að gera það.

Mig langar að nota tækifærið og nefna að Strætós bs. hefur sótt um undanþágu frá ákvæðum reglugerðar um hollustuhætti sem kveður á um að dýr mega ekki flytja í almennum farþegarýmum samgöngutækja. Strætó hefur sem sagt áhuga á því að standa að tilraunaverkefni til eins árs þar sem gæludýr yrðu leyfð í almennum strætisvögnum. Þetta erindi höfum við sent til umsagnar Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefndar höfuðborgarsvæðisins og höfum fengið einhverjar umsagnir inn. Við erum að vinna úr því erindi Strætó. Það er stefnt að því að afgreiða erindi þeirra í júní.



[19:58]
Fyrirspyrjandi (Hildur Sverrisdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir greinargóð svör og það sem ég túlka sem jákvæð viðbrögð við fyrirspurn minni. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er þetta með að við erum öll í eðli okkar dálítið sveitafólk sem finnst að dýrin eigi að vera í sveit og eigi ekkert erindi í borg, sem eimir enn þá af í umhverfi okkar, óðum að breytast. Umræða um þetta og krafa um að dýr verði eðlilegri partur af lífi fólks, borgarbrag o.s.frv. er að aukast. Það er ekki síst út af því sem þessi hugmynd kemur til. Það er aukaatriði hvernig nákvæmlega verður haldið á því hver hefur þetta boðvald, ákvörðunarvald, reglusetningarvald eða hvað það er. Aðalatriðið er að þessar reglur verði rýmkaðar, á hvers hendi sem það verður. Annað aðalatriði í því máli sem ráðherra kom inn á og ég tek hjartanlega undir er að auðvitað er himinn og haf á milli og algjörlega tvennt ólíkt að ræða um staði sem annars vegar er val að vera á og hins vegar einhvers konar þörf. Bara svo það sé sagt hér er auðvitað fullur skilningur á því að það er munur þarna á milli, en þess vegna er náttúrlega spennandi að sveitarfélögin fái þetta vald til sín því að þau eiga oft auðveldara með að setja einhvers konar kvóta eða hafa betri yfirsýn yfir samfélagið sem þau eru að vinna með. Ég held að það sé gott að hafa í huga.

Vegna þeirra staða sem þarf að vera á eða reglusetning á lengra í land, eins og t.d. með félagslegt húsnæði, þekkjum við t.d. í útlöndum að eldri borgarar sem hafa þurft að láta frá sér dýrin eru mjög glaðir að geta mætt á kisukaffihúsið og njóta kattanna þar, sem ég nefni sem dæmi.

Ég þakka kærlega fyrir.



[20:00]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að þótt ég sé það gamaldags að vera úr sveit og sjá dýrin fyrir mér þar á þann máta sem var rakið, sem er alveg rétt, þá skil ég samt vel þörf fólks og mikilvægi þess að fá að umgangast dýrin sín. Ég skil það mjög vel út af því að ég þekki það vel sjálf. Ef fólk býr í borg þarf það að geta leitt hundinn sinn þangað sem það sjálft er að fara. Við viljum stuðla að bíllausum lífsstíl og ýmsu og þá þarf það að vera hægt. Fyrir mörgum er væntumþykja þeirra til dýranna á pari við væntumþykju fólks til barnanna sinna. Þetta getur skipt fólk verulegu máli og við þurfum að taka tillit til þess.

En það eru skiptar skoðanir. Einhverjum gæti jafnvel fundist og finnst öryggi sínu ógnað, eins og fyrirspyrjandi rakti í byrjun máls síns, en þá er auðvitað langbest að vinna með það og sýna tillit. En tillitið má líka sýna á hinn veginn þegar við hin, sem erum vön því að dýr séu bara í sveit, gefum því rými að þau geti líka verið partur af lífi borgaranna á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Ég held að þetta mál sé allt á réttri leið en það þarf auðvitað umræðu. Það þarf alveg að ræða ofnæmi og almenningssamgöngur og slíkt, það er bara eðlilegt. En nákvæmlega þá umræðu erum við að taka.