146. löggjafarþing — 67. fundur
 22. maí 2017.
sérstök umræða.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[10:34]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum loks að ræða Brexit hér í þingsal, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og áhrif þess á framtíðarsamband Íslands og Bretlands, enda hef ég óskað eftir þeirri umræðu frá því í janúar sl.

Okkur er öllum ljóst að útganga Breta úr Evrópusambandinu eru ein allra stærstu tíðindi í alþjóðastjórnmálum síðustu misserin. Nú, næstum ári síðar, er rétt að fá að vita hvað íslensk stjórnvöld hafa gert í því að leggja grunn að framtíðarsamskiptum við Breta í framhaldi af útgöngu þeirra úr ESB. Til að árétta það er ég fyllilega meðvituð um að engir samningar eru komnir af stað enda staðfesti hæstv. utanríkisráðherra það í þingsal þann 4. maí sl.

Brexit er eitt af allra mikilvægustu viðfangsefnum í íslensku utanríkisstefnunni um þessar mundir og það staðfestir stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar. Þar segir um utanríkismál, með leyfi forseta:

„Sérstakan gaum þarf að gefa mögulegri úrsögn Bretlands úr sambandinu.“

Í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkisstefnu Íslands er áréttað að Brexit sé eitt af helstu verkefnum okkar næstu árin. Þá er rétt að fá að vita nánar um það hér í þingsal hver sýn og stefna ríkisstjórnarinnar er varðandi Brexit og hvað Ísland hefur gert á því tæpa ári sem liðið er frá því að Bretar kusu að ganga úr Evrópusambandinu.

Hvað hafa íslensk stjórnvöld gert varðandi þessi samskipti? Við hverja hefur verið talað innan bresku stjórnsýslunnar? Hverjir hafa séð um þau samskipti að hálfu Íslands? Hefur mikilvægi málsins alls verið lyft á forsætisráðherraplan? Hafa forsætisráðherrar landanna beggja hist vegna Brexit? Ekki eftir því sem ég hef séð og engar áætlanir þar um.

Ef stefnan er að ná sérsamningi við Bretland, hvaða málefni vill íslenska ríkisstjórnin þá leggja áherslu á? Þann 6. mars sl. sagði hæstv. utanríkisráðherra orðrétt hér í þinginu, með leyfi forseta:

„Það liggur alveg fyrir að Íslendingar starfa með öðrum EFTA-ríkjum að því sem snýr að útgöngu Breta úr ESB.“

Er það markmið íslensku ríkisstjórnarinnar að einbeita sér að tvíhliða fríverslunarsamningi við Bretland eða marghliða samningi gegnum EFTA eða í samvinnu við önnur lönd á borð við Norðurlöndin? Ef markmiðið er að gera marghliða samning í gegnum EFTA, hvaða samskipti hafa átt sér stað? Og á hvaða hagsmuni ætlar íslenska ríkisstjórnin að leggja áherslu?

Við hljótum öll að vera sammála um að það er gríðarlega mikilvægt að standa vörð um hagsmuni okkar í sjávarútvegi þegar viðræður eru í gangi við Breta enda er Bretland eitt mikilvægasta viðskiptaland okkar fyrir sjávarafurðir.

Í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkisstefnu Íslands er lögð áhersla á það að meginmarkmið Íslands sé að gæta að aðgangi íslenskra fyrirtækja að breskum mörkuðum og væntingar viðraðar um enn betri aðgang að þeim eftir Brexit en áður.

Virðulegi forseti. Þetta hefur mér þótt veruleg bjartsýni og því er illa svarað á hverju þessi mikla bjartsýni er byggð. Því miður verð ég að segja að allt er varðar Brexit, sérstaklega í skýrslu ráðherrans um utanríkismál, er almennt orðað og frekar loðið. Ég hef ákveðinn skilning á því enda eiga Bretar sjálfir fullt í fangi með að halda utan um þennan nýja veruleika sinn í Evrópusamstarfinu og öll breska stjórnsýslan er nánast undirlögð undir Brexit og undirbúning hinnar formlegu útgöngu.

Ég vil líka halda því til haga að við leggjum áherslu á aðra hluti en fisk og sjávarútveg í samræðum okkar við Breta eins og hver framtíðarsamskiptin eigi að vera á sviði menntunarmöguleika, menningarsamskipta, ferðaþjónustu og flugsamgangna og atvinnuréttinda Íslendinga í Bretlandi og réttinda íslenskra námsmanna í Bretlandi.

Að mínu mati verður líka að koma fram hver framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er, bæði í tengslum við Brexit og óháð því, á hagsmunagæslu okkar og samskipti við Evrópusambandið. Ætlum við til að mynda að feta í fótspor Dana og styrkja aðra markaði ef leiðirnar til Bretlands skyldu þrengjast? Hefur verið mörkuð stefna um það og tekin ákvörðun um það af hæstv. ráðherra? Áhugavert væri að vita hvort sú vinna hefur farið fram.

Ég hlakka til þess að heyra nánar um sýn, áherslu og stefnu hæstv. ráðherra þegar kemur að Brexit og samskiptum Íslendinga við Breta þar að lútandi; hver sú sýn og stefna er. Ég vil að lokum leggja áherslu á nauðsyn þess að þingið sé reglulega upplýst um framvinduna í hvers kyns viðræðum eða samskiptum við Breta um framtíðarskipulagið og samvinnuna.



[10:39]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu brýna máli, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Ég tek það fram í upphafi ræðu minnar að Brexit er forgangsmál í utanríkisráðuneytinu og raunar víðar í stjórnkerfinu. Hér er um afar stórt, víðfeðmt og þýðingarmikið hagsmunamál að ræða

Í okkar huga munu næstu misseri snúast um skýrt markmið: Að tryggja sambærileg eða betri viðskiptakjör við Bretland eftir Brexit en þau sem við njótum á grundvelli evrópskra samninga. Hið sama á við um réttindi íslenskra ríkisborgara í Bretlandi. Við Íslendingar ráðum auðvitað ekki för í þessu efni. Við ráðum ekki því hvernig viðskilnaði Breta við Evrópusambandið verður háttað, en við getum haft áhrif. Einmitt þess vegna hef ég síðustu mánuði lagt allt kapp á að eiga viðræður við þá aðila sem að þessum málum koma. Ég hef rætt þessi mál við utanríkisráðherra allra EFTA-ríkjanna. Ég hef átt fundi við utanríkismálastjóra ESB, Federica Mogherini, og Brexit-stjóra ESB, Michel Barnier, auk þess sem ég hef rætt þessi mál ítarlega við utanríkisráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel. Þá átti ég fyrir skemmstu fundi með utanríkisráðherra Breta, Boris Johnson, sem og þeim ráðherrum sem sjá um Brexit-málin þar, þeim David Jones og Greg Hands. Skilaboð ríkisstjórnar Íslands á öllum þessum fundum hafa verið skýr: Við hvetjum til þess að Evrópusambandið og Bretland nái góðum samningum sín á milli þar sem áfram verður byggt á fríverslun og samstarfi á sem flestum sviðum. Það er öllum í hag, ekki síst aðildarríkjum Evrópusambandsins sem eiga mjög mikið undir útflutningi Bretlands. Það verður enginn sigurvegari ef það verða viðskiptaþvinganir eða hindranir á milli landa í Evrópu. Það verða einungis taparar.

Auðvitað blasa við margvísleg úrlausnarefni. Það er engum vafa undirorpið að um er að ræða miklar áskoranir í ákveðnum efnum en í þessari stöðu felast líka tækifæri. Þau verða ekki nýtt með því að sitja og bíða þess sem verða vill. Innan stjórnsýslunnar hefur á síðustu mánuðum verið unnið hörðum höndum að því að kortleggja hagsmuni okkar með tilliti til útgöngu Breta. Þótt enn sé það tiltölulega skammt á veg komið í ferlinu er líklegt að niðurstaða samninga Breta og ESB verði fríverslunarsamningur af nýrri kynslóð slíkra samninga. Það er ekki loku fyrir það skotið að EES-samningurinn verði með einhverjum hætti sniðmát að samskiptum Breta og ESB.

Allt of snemmt er þó að spá um það. Hitt er skýrt að íslensk stjórnvöld hafa lagt fram nokkrar sviðsmyndir. Í fyrsta lagi að Ísland og Bretar semji sín á milli um djúpan og víðfeðman efnahags- og samstarfssamning sem undirstriki náin tengsl okkar á öllum sviðum. Þá er einnig vissulega möguleiki á því að EFTA-ríkin geri slíkan samning við Breta í sameiningu. Þriðja leiðin væri að samningur EES/EFTA-ríkjanna tæki mið af samningi ESB og Breta. Hugsanleg aðild Breta að EFTA er að sjálfsögðu einnig fær leið og er þá aðild þeirra og aðkoma að fríverslunarneti EFTA raunhæf leið. Öðru máli kann að gegna um EES og er mikilvægt að greina þar skýrt á milli, þ.e. á milli EFTA og EES.

Aðaláherslan er að koma í veg fyrir röskun viðskipta og halda áunnum réttindum borgara og fyrirtækja. Gerðum EES-samningi hefur þannig verið skipt upp milli einstakra ráðuneyta og þau beðin um að gera grein fyrir mikilvægi þeirra og hvernig unnt væri að sinna hagsmunum með tvíhliða samkomulagi. Þeirri rýni er nú að ljúka og þegar lokagreining liggur fyrir munum við eiga samráð um það við atvinnulífið og að sjálfsögðu hv. utanríkismálanefnd.

Ég vil undirstrika hversu mikilvægt það er að aðilar atvinnulífsins standi þétt með stjórnvöldum í þessu mikilvæga máli.

Hvað tiltekna hagsmuni varðar, án þess að hægt sé að fara í tæmandi umfjöllun, tel ég að Ísland og Bretland eigi ríka samleið. Það væri í beggja þágu að aflétta tollum. Vonir mínar standa til þess að hægt verði að koma í veg fyrir aukna tollheimtu og jafnvel liðka fyrir markaðsaðgangi. Einnig verður að teljast líklegt að markaðsaðgangur iðnvarnings haldist óbreyttur enda þurfa Bretar að reiða sig á innflutning slíkra vara til framleiðslu á eigin útflutningsvörum.

Þó svo að aðgangur okkar að Evrópumarkaði fyrir sjávarafurðir sé greiður eru fullir tollar innheimtir, t.d. á vissar afurðir af laxi, makríl, síld, humri og hörpudiski. Enn fremur njóta ýmsar aðrar afurðir sem skipta okkur máli einungis takmarkaðra tollaívilnana. Mér finnst eðlilegt að stefna að fullri fríverslun með fisk í framtíðarviðskiptum við Bretland.

Bretar njóta nú þegar fulls tollfrelsis fyrir iðnvarning og sjávarafurðir. Langflestar landbúnaðarafurðir eru á engum eða óverulegum tollum, en viðskiptahindranir eru einkum þegar kemur að kjöti og mjólkurafurðum. Þá er mikilvægt að okkar öflugu þjónustufyrirtæki geti áfram stundað starfsemi sína í Bretlandi og því verður mikilvægt að semja um áframhaldandi viðskiptafrelsi fyrir þjónustu og tryggja tengd réttindi út frá þeim ramma sem við höfum í dag. Loftferðafrelsi vegna millilandaflugs er eitt þeirra atriða sem þarf að vera í algerum forgangi.

Annað mikilvægt mál eru réttindi íslenskra borgara í Bretlandi. Þeir eru vel á þriðja þúsund talsins. Það er að sjálfsögðu forgangsmál að það verði þannig áfram.

Ég vil líka upplýsa þingið um að ráðamenn ESB hyggjast upplýsa og eiga samráð við EES/EFTA-ríkin með reglubundnum hætti um framvindu samninga ESB og Bretlands. Það má líka nefna í þessu sambandi að bæði Michel Barnier og Boris Johnson hafa lýst yfir áhuga á að koma hingað til lands til samráðsfunda um þessi mál.

Ég vil að endingu ítreka þakkir til málshefjanda fyrir að sýna þessu mikilvæga máli áhuga. Fyrirhugaður er fundur í utanríkismálanefnd þar sem ég mun gera ítarlega grein fyrir stöðu málsins og fara sérstaklega yfir einstaka þætti þess. Það er vilji minn að eiga náið og gott samráð við þingið um þetta (Forseti hringir.) mjög svo mikilvæga hagsmunamál okkar Íslendinga.



[10:44]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Bretland mun ýmist ná nýjum fríverslunarsamningi við Evrópusambandið, og þá líklega að mörgu leyti byggðum á sama grunni og CEDA, eða það mun ekki ná því, og þá mun það falla undir WTO-reglur. Það er óljóst hvaða réttindaskerðingar munu eiga sér stað, en ljóst er að þrátt fyrir góðan vilja verða þær einhverjar. Bretar hyggjast ekki ætla að vera áfram á innri markaðnum. Þetta mun líklega þýða verulega skerðingu á getu Íslendinga til að starfa, sækja sér þjónustu og veita þjónustu í landinu. Þá mun þetta hafa skaðleg áhrif á Bretland til að mynda vegna brotthvarfs erlendra fyrirtækja frá Bretlandi, eins og kemur m.a. fram í bréfi japanska utanríkisráðuneytisins til bresku ríkisstjórnarinnar frá október 2016.

Þetta brotthvarf gæti leitt af sér atvinnumissi hjá allt að milljón manns í Bretlandi á komandi árum, sama hætta gæti átt við um endurupptöku á landamæradeilum á Norður-Írlandi, deilum á Gíbraltar og sjálfstæðistilburðum Skotlands. Því er ljóst að efnahagslegur, pólitískur og félagslegur stöðugleiki í Bretlandi er í stórhættu.

Það getur haft margvísleg áhrif á stöðu Íslands, bæði vegna aukins álags á okkar félagslega kerfi vegna efnahagslegra flóttamanna frá Bretlandi, eitthvað sem við gátum varla látið okkur detta í hug fyrir nokkrum árum, glötuð viðskiptatækifæri, enda Bretland eitt okkar aðalviðskiptalanda. Kannski er ég að draga upp of dökka mynd, en það er engin leið til þess að vita fyrir fram, en nýlegir atburðir í Bretlandi og þá í breskum stjórnmálum hafa gefið mjög lítið tilefni til að ganga út frá bjartri mynd að sinni.

Við verðum að nýta þann tíma sem okkur gefst fram að endanlegri útgöngu Bretlands úr ESB til þess að undirbúa okkar viðbrögð með það fyrir augum að tryggja efnahagslega hagsmuni Íslands, tryggja stöðu þeirra bresku ríkisborgara sem búa á Íslandi í dag og eru í rauninni að lifa í óvissu um framtíð sína og draga sömuleiðis sem mest úr þeim skaða sem mun augljóslega verða til vegna þessara afglapa breskra íhaldsmanna.



[10:46]
Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka frummælanda, hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur, fyrir að hefja umræður um þetta mikilvæga mál í dag. Ég er hrædd um að ef hún hefði beint spurningum til mín hefði hún fengið dálítið önnur svör en þau sem hæstv. ráðherra veitti henni, en það er kannski ekki að furða, enda erum við hæstv. ráðherra ekki í sama flokki. Hæstv. ráðherra er í flokki sem talar fyrir áframhaldandi aukaaðild að Evrópusambandinu í gegnum EES en ég er í Viðreisn sem er galopin fyrir því að kanna og kynna fyrir landsmönnum þá kosti sem fylgja fullri aðild að ESB, og leyfa þjóðinni síðan sjálfri að velja hvað hún vill gera í þeim efnum.

Mér skildist á hæstv. ráðherra í umræðunum í þinginu um skýrslu ráðherra fyrir skemmstu að samningaviðræður væru ekki hafnar við Breta um helstu hagsmunamál Íslands. Við höfum verið upplýst í þinginu um að greiningarvinna sé hafin og tæpti hæstv. ráðherra á því áðan hvernig best væri að standa að þeim viðræðum, ef ég hef skilið hann rétt. Ég fagna því að sjálfsögðu að ráðherra ætli að halda áfram að eiga þetta góða samstarf og samráð við utanríkismálanefnd og að hann ætli sé að kynna þá greiningarvinnu sem stendur yfir um áhrif Brexit á Ísland og íslenska hagsmuni.

Mig langar að nýta tækifærið hér í dag og spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða væntingar hefur ráðherra um samning við Breta eftir Brexit? Hvaða væntingar hefur hann um það sem við getum náð umfram það sem við höfum nú í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið?



[10:48]
Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir að vekja máls á þessu stóra utanríkismáli okkar og einnig hæstv. utanríkisráðherra fyrir innlegg hans. Það er alveg ljóst að þetta er eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar er varðar utanríkismál og við höfum farið yfir það í þingsal. Eins og utanríkisráðherra nefndi eru einkum þrjár sviðsmyndir sem við þurfum að vinna að. Í fyrsta lagi er það einhliða samningur á milli þessar tveggja ríkja, í öðru lagi hugsanlega tvíhliða samningur við EFTA-ríkin og svo í þriðja lagi að EES-ríkin kæmu inn í útgöngusamning.

Mig langar að spyrja utanríkisráðherra í framhaldi af því hvort búið sé að ganga frá efnahagsgreiningu til að meta hvaða sviðsmynd kemur best út fyrir bæði þessi ríki og sér í lagi þjóðarbúið okkar. Í öðru lagi hvort ráðuneytin hafi farið yfir EES-samninginn og forgangsraðað þar. Það kann að vera að það verði talsverð óvissa vegna þessa máls á milli Bretlands og Evrópusambandsins en þá þurfum við að vera tilbúin jafnvel með einhvern tímabundinn samning. Mig langar að spyrja utanríkisráðherra hvað það varðar.

Virðulegur forseti. Hér mætti þingmaður Viðreisnar í pontu og hún þurfti að árétta það að hún væri þingmaður Viðreisnar. Mér finnst það með algjörum ólíkindum að formaður utanríkismálanefndar komi hér í pontu og geri hreinlega lítið úr stefnu utanríkisráðherra þjóðarinnar hvað þennan málaflokk varðar. Væri ekki miklu heiðarlegra af Viðreisn að segja sig frá þessu ríkisstjórnarsamstarfi?

Mér finnst þetta óboðlegt, virðulegur forseti.



[10:50]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Eðlilega hefur þessi umræða mest snúist um hvernig skuli haga samningum við Breta eftir Brexit, sóknarfæri og veikleika. Það skiptir máli að okkur takist vel upp þar og við verjum hagsmuni okkar við breyttar aðstæður. Mig langar að viðra aðrar hliðar málsins. Ef maður tekur nú enn eina hallærislegu líkinguna úr íþróttaheiminum þá má segja að knattspyrnumarkmenn séu tvenns konar: Það eru þeir sem standa á marklínunni og bíða þess sem verða vill og verja svo af bestu getu. Þetta eru þægilegir andstæðingar fyrir miðherja. Oft eru þeir þó uppáhald áhorfenda, fá á sig mörg skot og geta stundum varist ævintýralega. Svo eru til markmenn sem eru virkari þátttakendur í leiknum, spila framar og grípa fyrr inn í aðstæður. Auðvitað er hætta á einstaka gönuhlaupi en ef vel er spilað má forða mörgum skotum á markið. Við Íslendingar þurfum einfaldlega að fara að taka meðvitaða ákvörðun um hvernig við ætlum að haga utanríkismálum okkar, koma okkur í aðstöðu til að vera virkir þátttakendur, eða ætlum við kannski að spila aftar og bregðast bara alltaf við því sem gerist jafnóðum?

Niðurstaða Brexit-kosninganna var líka þannig að ungt fólk og sérstaklega konur kusu áfram að vera í ESB. Það er leiðinlegt að hugsa til þess að unga fólkið missi af þeim tækifærum sem opin alþjóðasamskipti veita og átakanlegt að eldra fólkið og þá ekki síst eldri karlar, sem hingað til hafa verið forréttindahópur í samfélaginu, skuli mögulega hindra það. Það er öruggt, herra forseti, að áhersla á beint lýðræði mun aukast stórkostlega í framtíðinni. Þetta ætti því að brýna okkur til að virkja enn frekar ungt fólk og sérstaklega konur til að láta til sín taka í þjóðmálum og gefa þeim sannarlega vettvang til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.



[10:52]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim sem hafa sagt að þetta er gríðarlega mikilvæg umræða sem við eigum hér um Brexit, þ.e. hvaða áhrif útganga Breta úr Evrópusambandinu hefur og stöðu Íslands í því.

Mig langar að fagna því sérstaklega sem hæstv. utanríkisráðherra sagði og hefur raunar sagt áður um að hann vilji eiga gott samtal og upplýsa hv. utanríkismálanefnd sem og Alþingi um það sem hér er að gerast. Ég held að það sé afar mikilvægt að því verði haldið áfram og að það verði.

Það sem truflar mig svolítið í þessari umræðu allri og er kannski að einhverju leyti óumflýjanlegt er að það er svo mikið af orðum, það er svo margt sagt, en maður veit í rauninni ekki alveg hvað býr að baki eða hvað verður. Það er auðvitað gott og mikilvægt að gera sem bestan samning fyrir Ísland, en ég held að það sé engu að síður á sama tíma mjög mikilvægt að við séum meðvituð um hina dökku sviðsmynd sem hv. þm. Smári McCarthy dró hér upp áðan og hvernig efnahagsstaðan í Bretlandi getur orðið, að við séum alltaf með báða fætur á jörðinni hvað það varðar. Þetta getur orðið efnahagslega mjög erfitt fyrir Breta og þar með líka okkur Íslendinga vegna þess að viðskipti okkar við Bretland eru svo mikil og svo mikilvæg. Þetta verðum við alltaf að hafa í huga.

Að lokum langar mig að taka undir það sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði að það sé mikilvægt að leggja áhersluna á fleira en fisk og kannski jafnvel fleira en viðskipti, því þetta snýst um samskipti þjóðanna á öðrum sviðum.

Svo vil ég að lokum biðja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra aðeins að útskýra orð sín um fríverslunarsamning af nýrri kynslóð slíkra (Forseti hringir.) samninga við ESB. Hvað þýða þau orð?



[10:54]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þakkir til málshefjanda í þessari umræðu fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Við erum auðvitað í þeirri stöðu að vera ekki beinir gerendur í úrsögn Breta úr Evrópusambandinu og höfum ekki áhrif á það með beinum hætti hvernig Bretar og Evrópusambandið semja um þau mál. Það sem fyrir okkur liggur er hins vegar að gæta íslenskra hagsmuna sem eru verulegir, eins og margir ræðumenn hér hafa komið að, enda er Bretland mikilvægasta viðskiptaland okkar ef tekin eru einstök lönd. Samskiptin eru miklu víðtækari en nemur viðskiptunum, þannig að huga þarf að fleiri þáttum og alveg gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að við séum vel á verði og gætum hagsmuna okkar þegar línur fara að skýrast.

Eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur rakið hafa þegar verið stigin mikilvæg skref til þess að undirbúa, getum við sagt, íslenska stjórnkerfið og íslensku utanríkisþjónustuna undir þetta verkefni. Því ber að fagna. Því ber jafnframt að fagna að áfram verði haldið á þeirri braut. Það skiptir máli að við nýtum þá möguleika sem við höfum, bæði á framkvæmdarvaldsstiginu, en ég nefni það líka að það skiptir máli á þingmannavettvangi að við komum sjónarmiðum á framfæri.

Ég verð að segja fyrir mig að samkvæmt minni reynslu af samskiptum við breska stjórnmálamenn á undanförnum misserum hef ég ekki orðið var við annað en mikinn skilning og áhuga á því að finna farsæla lausn á samskiptum Íslands og Bretlands eftir að þessi breyting tekur gildi.



[10:57]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu, sem nálgast má út frá mörgum sjónarhornum. Eitt þeirra er hvaða lærdóm við á Íslandi getum dregið af Brexit og þýðingu þessarar afdrifaríku þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lýðræðið, þá sér í lagi beint lýðræði. Ef það er eitthvað sem Brexit hefur sýnt okkur hér á Fróni er það hversu hörmulegar afleiðingar það getur haft að rækta ekki lýðræðið og undirstöður þess í samfélaginu.

Fyrst og fremst vísa ég til lýðræðisvitundar og lýðræðisþátttöku í samfélaginu. Brexit sýndi fram á að ungt fólk tók síður þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu sem hafði þó stórkostlegar afleiðingar á framtíð þess. Sömuleiðis sýndi þessi afdrifaríka atkvæðagreiðsla okkur að val kjósenda byggðist að miklu leyti á vanþekkingu, sem lýsti sér meðal annars í því að Bretar slógu einna helst inn leitarorðin „Hvað er Evrópusambandið?“ á leitarvélinni Google að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslunni um útgöngu þjóðarinnar úr sambandinu.

Þá má einnig nefna að aðdragandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar einkenndist af megnri útlendingaandúð þar sem ítrekað var gefið til kynna að Brexit fæli í sér getu Breta til að vísa úr landi þeim innflytjendum sem gert hafa Bretland að heimalandi sínu.

Ef það er tekið saman eru þetta þættir sem ættu að vera okkur víti til varnaðar. Okkur þykir vænt um lýðræðið og við getum tekið höndum saman og rennt sterkari stoðum undir lýðræði okkar, lýðræðisþátttöku og -vitund. Við getum eflt lýðræðisfræðslu í grunnskólum, menntaskólum og háskólum, eflt lýðræðisvitund í samfélaginu öllu með markvissri fræðslu og samráði og fundum víða um landið. Við getum einsett okkur að efla lýðræðisþátttöku ungs fólks sérstaklega, því að rétt eins og í Bretlandi fer þátttaka ungs fólks á Íslandi í kosningum minnkandi. Það hlýtur að vera okkur öllum áhyggjuefni sem bregðast verður við með markvissum hætti.

Loks get ég ekki látið hjá líða að minnast á nýju stjórnarskrána okkar sem samþykkt var með þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 að skyldi leggja grunn að nýju og betra lýðræði hér á landi. Kjósendur í Bretlandi kusu margir gegn eigin hagsmunum þar sem þeim þóttu þeir vera afskiptir og töldu að atkvæði þeirra hefðu ekki áhrif á samfélagið sem þeir byggju í. Ef við höldum áfram að virða vilja þjóðarinnar að vettugi er ekki loku fyrir það skotið að við munum sjálf upplifa hnignun lýðræðis á Íslandi með ófyrirséðum afleiðingum.

Látum okkur lærdóm (Forseti hringir.) Breta að kenningu verða. Vinnum að lýðræðinu, ræktum það með okkur og virðum vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Lýðræðið á það skilið.



[10:59]
Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Herra forseti. Það er kannski rétt að árétta í ræðustól Alþingis að það skiptir máli að ólíkum sjónarmiðum ólíkra flokka með ólíka sýn sé haldið á lofti í þingsal. Til þess erum við kjörin og aðeins þannig virkar lýðræðið. Að sjálfsögðu virði ég hæstv. utanríkisráðherra og utanríkisstefnu landsins og hún er mjög vel sett fram í stjórnarsáttmála. En hún á ekki að hamla málfrelsi og skoðanafrelsi þingmanna sé það sett fram á málefnalegan hátt.

Mig langar í seinni ræðu minni að koma aðeins inn á þær áskoranir sem felast í Brexit sem komið er inn á í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál sem kynnt var á þinginu fyrir skemmstu. Þar er rætt um þá staðreynd að EFTA-ríkin eru ósamstiga hvað varðar Brexit og samningaviðræður við Breta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að hægt verði að finna sameiginlegan flöt með öðrum EFTA-ríkjum í samningaviðræðum við Breta, þótt ekki væri nema um aðgreinda eða sértæka þætti, og ef svo er hvaða þættir það kynnu að vera. Einnig er í skýrslunni komið inn á áskoranir þegar kemur að því að semja um flugsamgöngur, sem er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur. Mig langar að inna ráðherra eftir því hvort greiningarvinna hafi leitt í ljós vísbendingar um að við náum að tryggja sambærilega samninga og við höfum nú.

Varðandi þá íslensku ríkisborgara sem búa eða nema í Bretlandi eða hafa áhuga á því í framtíðinni, og ég myndi telja að það verði áskorun að tryggja þá hagsmuni: Hefur einhver vinna farið fram sem snýr að því að byrja að tryggja þá hagsmuni? Eru einhverjar vísbendingar sem ráðherra getur upplýst okkur um um það hvernig þær viðræður munu fara?

Makríllinn er annað stórt hagsmunamál fyrir okkur. Í skýrslunni segir beinlínis að ekki sé víst að fjölgun samningsaðila muni einfalda viðræðurnar sem fram til þessa hafi reynst flóknar. Þarna er aukið flækjustig, því er ekki að neita, fyrir Ísland. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sér fyrir sér að unnið verði úr þeirri áskorun. Þarna eru miklir hagsmunir (Forseti hringir.) og mig langar að spyrja ráðherra hvort hann sjái fyrir sér að í þessu felist tækifæri (Forseti hringir.) umfram það sem við höfum nú í gegnum samningana við Evrópusambandið.



[11:02]
Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi umræða sýni hversu mikilvægt er að þingheimur sé mjög vel inni í þessum málaflokki vegna þess að það eru svo margir snertifletir. Ég fagna líka því innleggi sem kemur frá mörgum þingmönnum, þetta snýr ekki einungis að viðskiptum heldur líka að menntamálum og aukinni samvinnu og þeirri samvinnu sem þessi ríki eiga í. Þess vegna er svo afskaplega mikilvægt að við séum vel búin undir þennan málaflokk.

Ég ætla aðeins að koma inn á það sem formaður utanríkismálanefndar nefndi. Að sjálfsögðu er málfrelsi hér. Auðvitað eigum við að skiptast á skoðunum. En hins vegar er það nú svo að ef maður kynnir einhverja stefnu í aðdraganda kosninga, til að mynda þann áhuga og vilja að ganga í Evrópusambandið, ef engin af þeim markmiðum nást í því samkomulagi sem viðkomandi flokkur gerir, kallast það (Gripið fram í.) á einfaldri (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) … virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Það er rosaleg viðkvæmni hérna. Þingmenn Viðreisnar koma hingað og leyfa ekki viðkomandi þingmanni að klára mál sitt. Það sýnir að maður snertir við einhverjum afskaplega viðkvæmum bletti. Það er auðvitað ekki nógu gott fyrir hv. þingmenn Viðreisnar. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Get ég fengið að klára mál mitt? (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti hvetur þingmenn til að gefa ræðumanni gott hljóð.)

Það sem er líklega svolítið sárt er að þetta kallast á einfaldri íslensku kosningasvik. Kosningasvik. (Gripið fram í: Hættu nú alveg.) Ja hérna.

Nema hvað. Aðalatriðið er að Ísland sé undir Brexit vel búið. Við þurfum að einblína á það. Ég verð að segja að mér líkar vel að heyra hvernig utanríkisráðherra miðlar upplýsingum til þingsins um framgang málsins. Við þurfum að standa sameinuð varðandi þennan stóra málaflokk og ekki missa okkur í einhver smáatriði hvað þetta varðar.



[11:04]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu hefur valdið óróleika í samfélögum álfunnar. Úrsögnin var umdeild heima fyrir, Skotar og Norður-Írar andvígir og úrsögnin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu með litlum mun. Margir telja að fylgismenn úrsagnar hafi greitt atkvæði á hæpnum forsendum, sem fórnarlömb einhliða málatilbúnaðar, að orðræðan hafi verið með svipuðu lagi og andstæðingar umræðunnar hér um fulla og formlega aðild Íslands að samfélagi Evrópuþjóða beita; sleggjudómum, stóryrðum, fordómum og yfirborðskenndum hræðsluáróðri. Gleymum því ekki að engin ein aðgerð á vettvangi stjórnmálanna á síðari tímum hefur skilað almenningi á Íslandi jafn mikilli velsæld, framförum og kjarabótum og aðildin fyrir 25 árum. Þótt blikur séu á lofti nú er það í aðra röndina grátbroslegt, eða eigum við að segja glettni örlaganna, að áhyggjur og alvöruþrunginn málflutningur þeirra sem voru rammir andstæðingar þessarar aðildar snýst nú um það hvernig við getum best varið okkar dýrmæta ávinning þegar eitt af grónum aðildarríkjum segir skilið við þetta þjóðhættulega samstarf sem það þótti vera á sinni tíð. Þessi afstaða er bara jákvæð. Góð fyrir venjulegt fólk á Íslandi.

Það er ekki auðvelt, virðulegi forseti, að skilja ástæður Breta fyrir úrsögn, sem eru þó kannski í bland þær að þeir hafa í gegnum tíðina hagað sér eins og fíll í glervörubúð í samskiptum við eigin þegna í eigin landi, m.a. samveldislöndunum og öðrum nátengdum löndum, og hafa ekki enn náð tökum á að eiga eðlileg milliríkjasamskipti á jafningjagrunni. En niðurstaðan er þessi og við sem trúum á að frjáls og opin samskipti á milli þjóða skili okkur aukinni hagsæld eins og sannast hefur hörmum Brexit. Tengsl okkar við Bretland eru mjög sterk og hagsmunirnir verulegir, bæði viðskiptalegir og menningarlegir. Því er eðlilegt og brýnt að við stöndum vaktina og grandskoðum hvernig við getum sem best viðhaldið góðum tengslum þrátt fyrir að Bretar hafi farið svona að ráði sínu.



[11:07]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og þingmönnum fyrir góða þátttöku og áhugaverðar umræður og góð innlegg inn í víðfeðma og mikilvæga umræðu sem Brexit er fyrir okkur Íslendinga. Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra stefni að djúpum og víðfeðmum efnahagssamningum og að hann stefni að fullri fríverslun með fisk í samskiptum við Breta. Það er mjög áhugavert og merk tíðindi. Það er líka afar nauðsynlegt að heyra það frá hæstv. ráðherra að ráðamenn ESB ætli að upplýsa okkur um samskipti ESB og Breta í viðræðum sínum. En ég vil líka halda því til haga að Ísland er með sjálfstæða utanríkisstefnu og þarf að standa vörð um sjálfstraust sitt þegar kemur að því að halda sjónarmiðum okkar og hagsmunum á lofti.

Eins og einhver nefndi áðan þurfa efndir að fylgja orðum, kné verður að fylgja kviði, og ég hef því miður ekki séð neina eyrnamerkta fjármuni til hagsmunagæslu okkar þegar kemur að samskiptum við Breta eftir útgöngu þeirra og í tengslum við útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. Þess vegna myndi gjarnan vilja heyra það frá hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sjái fyrir sér að veita meiri fjármuni til þessara hagsmunagæslu og þá hvernig.

Síðan árétta ég það sem ég kom inn á í ræðu minni og fleiri hafa talað um, þar á meðal hv. þm. Birgir Ármannsson, að þingið sé ávallt upplýst reglulega um framvindu mála þegar kemur að Brexit og framtíðarsamskiptum okkar við Bretland. Þetta er ekki í eina skiptið sem við munum ræða þetta viðamikla mál hér því að eins og umræðurnar hafa sýnt og sannað snerta þær á mjög viðamiklum málaflokkum, ekki bara efnahagssamskiptunum heldur líka öðrum samskiptum, sem ég efa ekki að hæstv. ráðherra muni halda til haga og ég hvet hann til þess.



[11:09]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og öðrum þingmönnum þátttökuna í þessum umræðum. Svör við mörgum af þeim fyrirspurnum sem komu fram rakti ég í upphafserindi mínu, það hefur bara farið fram hjá einhverjum hv. þingmönnum.

Út af þessari umræðu vil ég segja að það var svolítið sérstakt að heyra í sumum þingmönnum því að hvað sem okkur finnst um Brexit til eða frá þá gengu þær svartsýnisspár um Brexit sem voru uppi fyrir kosningarnar ekki eftir. Það var sérstök umræða í breskum þjóðmálum um það hvernig framganga sérfræðinga var og sumir hafa beðist afsökunar á því hverju þeir spáðu vegna þess að það gekk ekki eftir. Ég veit ekki til þess verið að sé að spá nokkurs staðar annars staðar hvað varðar Breta eins og þingmenn gera hér í þingsal.

Aðalatriðið er þetta: Við byrjuðum að undirbúa þetta í tíð síðustu ríkisstjórnar undir forystu þáverandi utanríkisráðherra Lilju Alfreðsdóttur. Við höfum haldið því áfram, ekki aðeins í utanríkisþjónustunni heldur í öllu stjórnkerfinu. Við höfum sömuleiðis sótt á alla þá aðila, talað við alla þá aðila sem að málinu koma, eins og ég rakti sérstaklega. Viðhorf þeirra hafa verið mjög jákvæð. Viðhorf Breta hafa verið mjög jákvæð þegar kemur að þeim samskiptum. Við getum ekki kvartað undan þeim samskiptum eða viðhorfum.

Af því að menn tala um einstaka hluti þá setjum við markið hátt. Við erum ekki mætt þarna til að vera í vörn, við ætlum að fara í sókn. Við ætlum að reyna að fá meiri aðgang og betri samskipti. Hver niðurstaðan verður verður að koma í ljós. Við munum gera okkar besta, það er alveg á hreinu.

Sama með Evrópusambandið. Við getum ekki kvartað yfir þeim viðhorfum sem við höfum fengið þar í samskiptum okkar eða hjá EFTA-ríkjunum, en það á eftir að vinna úr þeim hlutum.

Hv. þingmaður spurði, sem mér fannst áhugavert, hvort við ætluðum að styrkja aðra markaði. Mér finnst þetta vera kjarnamál, alveg sama hvað gerist varðandi fríverslunina við Breta, við þurfum að sinna því betur. Þess vegna erum við m.a. í þessu mati okkar á utanríkisþjónustunni og höfum lagt á það áherslu varðandi þá framtíðarfríverslunarsamninga sem verða gerðir í kjölfar útgöngu Breta að við og EFTA-ríkin getum notið góðs af þeim. En aðalatriðið er þetta: (Forseti hringir.) Við getum nýtt þá fríverslunarsamninga sem við erum með núna betur. Við þyrftum að ræða það sérstaklega, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) í þessum þingsal. Að því stefnum við.