146. löggjafarþing — 67. fundur
 22. maí 2017.
frádráttarbær ferðakostnaður.
fsp. ELA, 159. mál. — Þskj. 226.

[11:13]
Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Síðustu ár og áratugi hafa þéttbýliskjarnar stækkað auk þess sem samgöngur hafa víða batnað. Samhliða því hafa miklar breytingar orðið á þróun byggða og atvinnusvæða. Fólk jafnt í skilgreindu þéttbýli sem dreifbýli hefur í síauknum mæli leitað í störf í nágrannabæjum og sveitarfélögum þannig að skilgreiningar og hugmyndir um atvinnusvæði hafa verið að breytast. Þessi þróun hefur leitt af sér sífellt stækkandi atvinnusvæði og lengri ferðir til og frá vinnu.

Þessi þróun er jákvæð og styrkir byggðir landsins en vandamál fylgja einnig stækkandi atvinnusvæðum og ferðum fólks langar leiðir í og úr vinnu. Nauðsynlegt er að unnið verði að því að auka vægi almenningssamgangna á hverju atvinnusvæði fyrir sig en þar er víða pottur brotinn. Ljóst er að á sumum atvinnusvæðum er engum almenningssamgöngum til að dreifa og um langan veg að fara í og úr vinnu.

Á undanförnum þingum hafa hv. þingmenn Framsóknarflokksins lagt fram tillögur til að koma til móts við ferðakostnað einstaklinga vegna ferða til og frá vinnu en málið hefur ekki náð fram að ganga. Ein meginástæðan fyrir því er að umrædd aðgerð er samkvæmt umsögnum ákveðinna aðila sögð flækja skattkerfið.

Vegna þessa virðist kerfið sem ætlað er að þjóna hagsmunum landsmanna þjóna kerfinu sjálfu.

Tillaga okkar hv. þingmanna Framsóknarflokksins kveður á um að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra undirbúi og leggi fram á Alþingi frumvarp til laga sem feli í sér heimild til hæstv. ráðherra til að útfæra og setja reglur um að þeim skattskyldu mönnum sem greiða þurfa háan kostnað vegna ferða til og frá vinnu, óháð ferðamáta, innan tiltekinna skilgreindra atvinnusvæða innan lands, verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Í framhaldinu útfæri hæstv. ráðherra og setji slíkar reglur.

Þetta mál var endurflutt á yfirstandandi þingi en náði ekki fram að ganga. Það er örlítil breyting að umrædd tillaga nær til fleiri samgöngumáta en bifreiða. Sú fyrirmynd er m.a. sótt til Danmerkur. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. samgöngu- og byggðamálaráðherra, því að hér er um að ræða byggðaaðgerð ef þetta næði fram að ganga, hvort hann sé hlynntur þeirri byggðaaðgerð sem ég ræddi hér að ofan.

Spurning mín til hæstv. byggðamálaráðherra er því: Er hann hlynntur þeirri byggðaaðgerð að kostnaður við ferðir til og frá vinnu verði frádráttarbær frá tekjum áður en til skattlagningar kemur? Þannig gætum við styrkt dreifð atvinnusvæði og ákveðna byggðafestu hér á landi, sem er afar mikilvægt.



[11:16]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég held að hér séum við að ræða mál sem getur skipt miklu máli í því að reka alvörubyggðaáætlun. Þær breytingar sem eiga sér stað á landsbyggðinni sérstaklega eru að mörgu leyti mjög miklar, allt að því dramatískar er hægt að segja, þar sem við horfum fram á að þær atvinnugreinar sem á undanförnum áratugum og jafnvel enn lengri tíma hafa stuðlað að sem mestri byggðafestu, grundvallargreinar eins og sjávarútvegur og landbúnaður, munu ekki gera það á næstu árum og áratugum. Því verður að horfa til fjölbreyttari atvinnutækifæra úti um allt land. Það getur þýtt að um verði að ræða meiri flutning á milli byggðarlaga á vinnuafli innan einhverra skilgreindra atvinnusvæða.

Þetta verður ein af þeim áherslum sem verður lögð í drögum að nýrri byggðaáætlun fyrir 2018–2024 sem snertir lækkun kostnaðar vegna daglegra ferða milli heimilis og vinnustaðar í dreifbýli, smærri þéttbýlisstaða. Vinnusóknarsvæði þar sem fólk getur sótt vinnu daglega frá heimili hafa stækkað með bættum samgöngum. Markmið slíkrar aðgerðar yrði að auðvelda fólki utan höfuðborgarsvæðisins að sækja vinnu til og frá heimili sínu.

Lagt er til í þeirri áætlun að settur verði á fót starfshópur sem falið verði að semja reglur um þá framkvæmd að þeir íbúar sem búa á styrkjasvæði ESA-kortsins fái hluta kostnaðar við ferðir til og frá vinnu endurgreiddan í gegnum skattkerfið. Við mótun nýrrar byggðaáætlunar voru m.a. haldnir fundir með samráðsvettvangi sóknaráætlana í hverjum landshluta. Þar kom fram mikil áhersla á samgöngur sem grundvallarforsendu fyrir atvinnu- og þjónustusókn landsmanna. Vegasamgöngur innan landshlutanna ráða mörkum vinnusóknarsvæða, svæða þar sem íbúar geta ferðast daglega milli heimilis og vinnustaðar, sem og þjónustusvæða, svæða þar sem íbúar geta sótt grunnþjónustu.

Í samgönguáætlun er sterkur samhljómur við áherslur fyrri byggðaáætlana og þær áherslur sem hafa komið fram á fundum um nýja byggðaáætlun. Almenningssamgöngur eru í raun ekki valkostur sem ferðamáti nema í stærsta þéttbýli og nágrenni þess. Endurgreiðsla í formi frádráttar frá skatti er fær leið til að koma til móts við óhjákvæmilegan ferðakostnað og styður búsetu í dreifbýli og smærra þéttbýli. Það eru mörg fordæmi um það eins og hv. þingmaður kom inn á.

Eitt meginatriða byggðaáætlunar er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu. Ég vitnaði áðan í byggðakort ESA og það er ágætt að reifa aðeins fyrir þá sem þekkja það ekki vel hvað það er. ESA-kortið er svokallað byggðakort, er samþykkt af Eftirlitsstofnun EFTA, og tilgreinir þau svæði Íslands þar sem veita má byggðaaðstoð. Þar gilda leiðbeiningarreglur ESA um byggðaaðstoð. Á þeim svæðum getur ESA einnig heimilað að Ísland veiti byggðaaðstoð. ESA-kortið skilgreinir í raun allt landið utan höfuðborgarsvæðisins sem eitt svæði í því samhengi. Þetta kemur einnig inn á svokölluð lög um ívilnun fyrir uppbyggingu atvinnutækifæra, nýfjárfestingar í atvinnulífi, hvort sem um er að ræða erlenda eða innlenda aðila. Þar er miðað við þetta byggðakort sem hefur verið samþykkt og er í raun og veru mjög víðtækt fyrir okkar stóra land.

Ég er að láta skoða í ráðuneytinu hvort tilefni sé til að við búum til okkar eigið byggðakort innan þessa byggðakorts ESA þar sem við horfum í raun með sterkari hætti til þeirra svæða sem einangraðri eru og þar sem atvinnuuppbygging er erfiðari. Ég held að það sé að mörgu leyti óraunhæft að bera saman stöðuna á t.d. Suðurnesjum og víða annars staðar á landinu og full ástæða sé til að skoða hvort við eigum að byggja hvata til þess að þau svæði sem eiga frekar undir högg að sækja fái ríkari aðstoð en önnur sem eru kannski nær höfuðborgarsvæðinu og ekki í eins mikilli þörf og raun ber vitni fyrir uppbyggingu í til að mynda atvinnulífinu.



[11:21]
Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgöngu- og byggðamálaráðherra fyrir mjög skýr svör. Ég fagna því að þetta sé ein af þeim aðgerðum sem lögð er áhersla á í þeirri byggðaáætlun sem mun koma fram. Hæstv. ráðherra talar um að þar sé m.a. horft á byggðakort ESA og að við munum jafnvel vinna að okkar eigin byggðakorti og með sterkari aðgerðum til þessara einangruðu svæða.

Mig langar samt að spyrja hæstv. byggðamálaráðherra um svæði í nágrenni höfuðborgarinnar, ég vil taka sem dæmi Akranes. Þar sækja um 2 þús. manns í 7 þús. manna byggðarlagi vinnu eða skóla til höfuðborgarsvæðisins. Undanfarin mörg ár, það eru að verða 20 ár, hafa þeir borgað veggjöld og það er óánægja með veggjöldin vegna þess að það koma engar mótvægisaðgerðir á móti. Kemur til greina hjá hæstv. byggðamálaráðherra að skoða hvort það sé möguleiki á einhverjum skattafslætti vegna kostnaðar við að komast til og frá vinnu í byggðarlögum í nágrenni höfuðborgarinnar, hvort hægt sé að koma með aðgerðir á móti veggjöldum og hvort það sé verið að skoða einhverja leið í þeim efnum? Annars vil ég þakka hæstv. byggðamálaráðherra fyrir svörin sem hann veitti í þessari umræðu.



[11:23]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að mjög mikilvægt sé að við horfum á þetta mál ekki kannski endilega með mjög sterkum nærsýnisgleraugum. Við þurfum að horfa á heildarsviðsmyndina í þessu, ég held að það sé mikilvægt. Ég skil stöðuna, t.d. á Akranesi. Á því svæði hefur reyndar átt sér stað á undanförnum árum gríðarlega mikil uppbygging í atvinnu. Þetta er það svæði þar sem vöxturinn hefur verið kannski hvað mestur hlutfallslega á landinu í fjölgun íbúa. Þeir hafa mjög sterkt atvinnusvæði á Grundartanga og víðar sem hefur skapað góð störf, traust og vel launuð störf. Mér finnst sjálfsagt að skoða þetta. Ég held að það hljóti að koma inn í þær hugmyndir sem við erum að láta skoða almennt gagnvart veggjöldum.

Nú er staðan þannig að búið verður að borga Hvalfjarðargöngin um mitt næsta ár. Reiknað er með að ríkið eða þjóðin fái þau þá til endanlegrar eignar. Þá þurfum við auðvitað að meta það og verið er að skoða, eins og fólk þekkir, að fara í frekari framkvæmdir tengdar gjaldtöku á fleiri en þeirri leið. Að öðrum kosti fyndist mér að hætta ætti gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum nema það sé þá merkt einhverjum sérstökum viðbótarframkvæmdum.

Ég held að við hljótum að skoða það síðan í öllum slíkum gjaldtökuhugmyndum að það sé einhver verulegur meiri ávinningur af þeim framkvæmdum fyrir þá sem ferðast reglulega um slík gjaldhlið, þannig að það verði sparnaður á ferðatíma, eldsneytiskostnaður sem vegur upp á móti a.m.k. þeim kostnaði sem fólk verður fyrir. Þar erum við að skoða margar útfærslur og leiðir sem koma út úr (Forseti hringir.) vinnu nefndarinnar í byrjun sumars. Við munum nota sumarið til þess að vinna með þær og sjá hvort við getum (Forseti hringir.) kynnt fyrir þinginu frekari tillögur.