146. löggjafarþing — 68. fundur
 22. maí 2017.
lánshæfismatsfyrirtæki, 2. umræða.
stjfrv., 401. mál (EES-reglur). — Þskj. 532, nál. 812 og 844, breytingartillaga 813.

[18:42]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Hjaltested og Guðbjörgu Evu Baldursdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Dóru Sif Tynes lögmann, Hildi Jönu Júlíusdóttur og Rúnar Örn Olsen frá Fjármálaeftirlitinu og Ólaf Ásgeirsson frá Reitun ehf. Umsagnir bárust frá Fjármálaeftirlitinu, Reitun ehf. og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð (EB) nr. 1060/2009 um lánshæfismatsfyrirtæki verði færð í lög hérlendis. Í reglugerðinni eru ákvæði um starfsemi lánshæfismatsfyrirtækja, m.a. um hagsmunaárekstra, gagnsæi, skráningu og eftirlit, og notkun á lánshæfismötum. Í frumvarpinu eru einnig ákvæði varðandi framkvæmd reglugerðarinnar, svo sem um eftirlit, upplýsingagjöf og viðurlög við brotum.

Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar innan Evrópusambandsins ásamt eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja. Við upptöku reglugerðarinnar í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið var sú aðlögun gerð að fela Eftirlitsstofnun EFTA í megindráttum valdheimildir sem tilheyra Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni innan Evrópusambandsins. Þó er gert ráð fyrir að Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin eigi verulega aðkomu að ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA og annist m.a. að talsverðu leyti sérfræðilegan undirbúning þeirra. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á nauðsyn þess að Eftirlitsstofnun EFTA hafi burði til að taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli reglugerðarinnar en verði ekki með öllu háð sérþekkingu Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar eigi markmið tveggja stoða lausnarinnar, sem liggur til grundvallar upptöku evrópska eftirlitskerfisins á fjármálamarkaði í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, að nást.

Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að reglugerð (EB) nr. 1060/2009 með síðari breytingum fái lagagildi með aðlögunum samkvæmt ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í 2. mgr. sömu greinar er lagt til að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skuli jafnframt hafa lagagildi. Að mati meiri hlutans er nægjanlegt að reglugerðin með aðlögunum samkvæmt ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar fái lagagildi en óþarft að lögfesta ákvarðanirnar í heild sinni. Meiri hlutinn leggur því til að 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins falli brott en að vísun málsgreinarinnar til EES-viðbætis við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins færist í 1. mgr. greinarinnar.

Í 2. og 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um heimildir Eftirlitsstofnunar EFTA og Fjármálaeftirlitsins til að beita stjórnvaldssektum vegna brota á ákvæðum reglugerðarinnar. Meiri hlutinn leggur til að vísað verði til Fjármálaeftirlitsins í 4., 5. og 8. mgr. greinarinnar til að skýra að málsgreinarnar eigi aðeins við um sektir sem Fjármálaeftirlitið ákveður en ekki sektir sem Eftirlitsstofnun EFTA leggur á.

Í 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins segir að við ákvörðun stjórnvaldssekta skuli m.a. tekið tillit til allra atvika sem máli skipta. Meiri hlutinn leggur til að skammstöfunin „m.a.“ falli brott enda á við ákvörðun sektanna vart að taka tillit til annars en allra atvika sem máli skipta.

Í 6. mgr. 3. gr. frumvarpsins segir að séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skuli greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Meiri hlutinn leggur til að skýrt verði að dráttarvextir leggist ekki á stjórnvaldssektir fyrr en að liðnum mánuði frá því að viðkomandi var tilkynnt um sektarákvörðun.

Með orðunum „almennar rannsóknir og vettvangsskoðanir“ í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins er átt við þær ráðstafanir sem fjallað er um í 1. mgr. 23. gr. c og 23. gr. d reglugerðar (EB) nr. 1060/2009. Til skýringar leggur meiri hlutinn til að vísað verði til reglugerðarákvæðanna í frumvarpsákvæðinu.

Í 5. og 6. gr. frumvarpsins er fjallað um upplýsingagjöf til evrópskra eftirlitsstofnana og stofnana innan Evrópska efnahagssvæðisins. Með hliðsjón af ábendingum í umsögn Fjármálaeftirlitsins leggur meiri hlutinn til að fremur verði vísað til ákvæða nýsamþykktra laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði um efnið.

Að tillögu fjármála- og efnahagsráðuneytis leggur meiri hlutinn til að við 9. gr. frumvarpsins verði bætt heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til að setja reglur sem byggjast á tæknilegum eftirlitsstöðlum á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 1060/2009.

Reitun ehf. lagði til að gildistöku laganna yrði frestað í 12 mánuði eða að veitt yrði tímabundin undanþága frá lögunum. Reglugerð (EB) nr. 1060/2009 er frá 2009 og var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið 2012. Reglugerðir (ESB) nr. 513/2011 og 462/2013 eru frá 2011 og 2013 og voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið í september 2016. Aðdragandi frumvarpsins er því talsverður. Ísland er skuldbundið samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til að innleiða reglugerðina og er hún til þess fallin að bæta gæði lánshæfismata og treysta þannig fjármálamarkaði. Meiri hlutinn leggur því ekki til að gildistöku laganna verði breytt.

Aðrar breytingartillögur skýra sig sjálfar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Hér með vísa ég þessu máli til 3. umr.



[18:48]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður og framsögumaður meiri hluta, Lilja Alfreðsdóttir, fór ágætlega yfir efni þessa frumvarps þar sem er lagt til að reglugerð EB nr. 1060/2009 um lánshæfismatsfyrirtæki verði færð í íslensk lög. Eins og hefur verið farið yfir snýst þetta frumvarp um starfsemi lánshæfismatsfyrirtækja, eftirlit með þeim, upplýsingagjöf og viðurlög. Ég vil segja það að minni hluti er sammála meginmarkmiðum frumvarpsins sem, eins og önnur þau frumvörp sem tilheyra hinu viðurhlutamikla eftirlitskerfi með evrópskum fjármálamarkaði, snýst um að styrkja lagarammann um evrópskan fjármálamarkað og efla eftirlit með starfseminni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að reifa þau sjónarmið sem margoft hafa áður komið fram um gagnsemi eftirlitsins, hvort við teljum að það skili þeim tilætlaða árangri sem til er ætlast. Við erum sammála markmiðunum en þó tel ég ljóst að á næstu árum þurfi að meta alla þá auknu áherslu á lagaramma og regluverk sem innleidd hefur nú verið í evrópskan rétt og hvort við teljum að þetta skili þeim markmiðum sem til var ætlast eða hvort við teljum að þetta hafi eðlisáhrif á það hvernig fjármálastarfsemi er rekin á Evrópska efnahagssvæðinu, t.d. með tilkomu skuggabankastarfsemi og annarra slíkra þátta sem þarf að skoða.

Ég tel að þó mikið hafi verið innleitt nú þegar sjái ekkert fyrir endann á þessari umræðu.

Það sem þetta nefndarálit hins vegar snýst um eru ekki markmiðin, sem við erum sammála um, heldur að í þessu frumvarpi er eins og í öðrum þeim sem lúta að eftirlitskerfinu byggt á tveggja stoða lausn Evrópusambandsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA. Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin, ESMA, fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar innan ESB auk eftirlitsstofnana innan hvers þjóðríkis. Innan EFTA er það hins vegar Eftirlitsstofnun EFTA eða ESA sem fer með þetta hlutverk ásamt eftirlitsstofnunum hvers ríkis.

Aftur á móti liggur fyrir að ESMA mun að miklu leyti annast tæknilegan undirbúning allra ákvarðana þó að ESA sé hinn formlegi ákvörðunaraðili. Í nefndaráliti meiri hlutans kom fram sú áhersla að mikilvægt sé að fylgst sé með því að það sé ESA sem taki hinar formlegu ákvarðanir. Mér finnst hins vegar mikilvægt að benda á að frá því að EFTA-ríkin hófu innleiðingu á eftirlitskerfinu hefur ESA ráðið einn starfsmann til þess að standa undir því gríðarlega aukna hlutverki sem snýst um innleiðingu á regluverki á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem ESA á að vera í raun og veru mótstoðin við allar hinar nýju evrópsku eftirlitsstofnanir. Það er búið að ráða einn starfsmann sem bendir til þess að ESA verði háð evrópsku eftirlitsstofnununum um sérþekkingu.

Þetta er kannski fyrri punkturinn sem ég vil koma á framfæri. Síðari punkturinn sem minni hlutinn setur hér fram er að framsal valdheimilda sem á sér stað með öllum þeim gerðum sem nú er verið að innleiða í íslensk lög og lýtur að evrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði er verulegt. Ég þarf ekki að hafa um þetta mörg orð, enda margar ræður verið haldnar um að það leikur raunverulegur vafi á því að þetta framsal standist stjórnarskrá þar sem ekki er ákvæði um framsal valdheimilda á takmörkuðu sviði. Tekist var á um þetta síðastliðið haust þegar við ræddum þingsályktun sem er undirstaða allra þessara laga hér. Það á auðvitað við um þetta mál eins og þau hin.

Þetta eru því í raun og veru tvö atriði sem við viljum koma á framfæri, annars vegar þau álitamál sem varða stjórnarskrána og framsal valdheimilda, og hins vegar hvernig við teljum að þessi tveggja stoða lausn reynist í raun.

Því segjum við í minni hlutanum í lok álits okkar að mikilvægt sé að kanna hversu vel í stakk búin EFTA-ríkin eru til að tryggja sjálfstæða ákvarðanatöku innan ESA. Þetta er umræða sem þarf að fara fram innan EFTA-nefndarinnar, að fara yfir það hvort við teljum að ESA sé í raun og veru í stakk búin. Eins góð og ágæt stofnun það er og vel búin að mörgu leyti þá liggur fyrir að það er verið að færa gríðarlega mikilvægt nýtt hlutverk í hendur stofnunarinnar. Það kann að vera að EFTA-ríkin þurfi að leggja meira til hennar nú þegar þessar nýju áskoranir blasa við.

Frú forseti. Ég hef lokið málin mínu en vil þó segja að lokum að undir þetta álit skrifa Katrín Jakobsdóttir og Rósa Björn Brynjólfsdóttir, fulltrúar Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.



[18:53]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um að styrkja þurfi ESA til þess að það nái að halda sjálfstæði sínu er varðar ákvarðanatöku. Það þarf að vera nægileg sérfræðiþekking á öllu því breytta regluverki sem er verða núna að því er varðar fjármálakerfið, þannig að ég tek heils hugar undir þær athugasemdir sem fram koma í máli hv. þingmanns. Ég tel þó að tveggja stoða lausnin eins og hún var kynnt og samþykkt á síðasta þingi eigi að geta gengið upp. Hins vegar er það svo að EFTA-þingmannanefndin og þeir sem sinna EFTA-málefnum þurfa að vera vel vakandi fyrir þessari þróun og að vera í stakk búnir að styrkja ESA og fylgjast mjög vel með því að viðkomandi stofnanir geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir.

Virðulegi forseti. Ég tel að málið í heild sinni sé gott. Þarna er verið að styrkja regluverk og umgjörð er tengist lánshæfismatsfyrirtækjunum. Fyrir hið alþjóðlega fjármálaáfall skorti verulega á þar um. Áhrif þessara fyrirtækja hafa verið umtalsverð og þau hafa gert talsverð mistök í fortíðinni. Þá er ég ekki þar með að segja að það verði ekki svo í framtíðinni, en hins vegar tel ég að með þessu aukna regluverki sé komið meira aðhald að þeim. Ég tel að það verði fjármálakerfinu til heilla.



[18:55]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég fagna því að við séum sammála um að það er mikilvægt að tryggja að ESA hafi mannskap og fjármagn til að sinna þessu mikilvæga hlutverki sem búið er að fela því með tveggja stoða lausninni. Tveggja stoða lausnin var eina raunhæfa leiðin þegar farið var í þá vinnu að innleiða þá móðurgerð sem allt þetta evrópska eftirlitskerfi byggist á þó að það sé mín skoðun og minni hlutans þá á Alþingi að hún dygði samt ekki til til þess að standa undir því sem við teljum að segi í stjórnarskrá okkar hvað varðar framsal valdheimilda.

Hv. þingmaður talar um lánshæfismatsfyrirtækin. Það er hárrétt að þau eru nú að fara undir miklu snarpara eftirlit og ég tók það fram í máli mínu, við erum sammála um markmiðin með frumvarpinu.

Ég vil þó segja að við hljótum líka að velta því fyrir okkur að lánshæfismatsfyrirtækin eru gríðarlega valdamiklar stofnanir sem aldrei var ákveðið að fengju allt það vald sem þau hafa í raun tekið sér á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Þau hafa tekið sér mikið vald. Þau hafa haft lykilvald til að ákvarða í raun örlög þjóða og örlög fyrirtækja með úrskurðum sínum.

Það er eitt af því sem mér finnst mikilvægt að pólitíkusarnir ræði, það er rætt víða í Evrópu, þ.e. að við erum að innleiða hér eftirlitskerfi til að koma böndum á markað sem fór úr böndum eftir að hann hafði verið afregluvæddur og allt gefið frjálst af því að allt átti bara að ráða sér sjálft og markaðurinn átti að leysa málin sjálfur. Þess vegna nefndi ég að það væri líka mikilvægt að meta árangur af reglusetningunni, því að við þurfum auðvitað að velta því fyrir okkur hvaða raunverulegu áhrif þessi reglusetning mun hafa. Hvaða raunverulegu áhrif mun hún hafa? Hverju mun hún skipta t.d. fyrir valdastöðu lánshæfismatsfyrirtækjanna? Það er verkefni sem bíður okkar, stór og mikil umræða. En ég er (Forseti hringir.) bara að segja að við getum aldrei slakað á gagnvart því verkefni sem fjármálamarkaðurinn er eins og hann lítur út núna.



[18:58]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa tölu mína langa hér, enda reifaði framsögumaður nefndarálits minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar álit okkar prýðilega og fór yfir grundvallaratriði í þeirri yfirferð og einnig í andsvörum við hv. þm. Lilju Dögg Alfreðsdóttur.

Eins og fram hefur komið er þetta mál gott í heild sinni. Það er hluti af endurskoðun á fjármálakerfinu innan Evrópu eftir hrun þar sem regluverk og eftirlit hefur verið hert o.s.frv. Þá er einmitt svo brýnt að staldra aðeins við og velta því fyrir sér hvaða gildum við ætlum að koma að í leiðinni við þessa vinnu og hvers konar sjónarmiðum verið er að koma á framfæri við þessa innleiðingu á skýrara eftirliti og skýrara regluverki, sem er alltaf gott út af fyrir sig, sérstaklega eftir hamfarir eins og efnahagshrunið varð.

Ég velti því líka fyrir mér, eins og fram kemur í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar undir lokin, hversu oft gerðir eru fyrirvarar um framsal valdheimilda, hversu oft það gerist þegar við erum að innleiða hér fínar gerðir að við verðum ávallt að gæta þess hvort verið sé að framselja valdheimildir og hvort það framsal standist stjórnarskrá. Ég held að það sé þokkalegur samhljómur meðal þingmanna sem nú sitja á Alþingi um að við þurfum að fara í aðeins ítarlegri skoðun á þessu álitaefni sem oft kemur upp og ítrekað og haldnar hafa verið margar ræður um og skrifaðar skýrslur. Ég held að við þurfum að fara að velta því alvarlega fyrir okkur að fara svolítið, ef ég leyfi mér að sletta hér, „grundigt“ inn í þessar hugleiðingar og vinnu. Ég veit að það er gert á einhverjum sviðum innan þingsins.

Varðandi þær sjálfstæðu ákvarðanatökur sem eru innan ESA og það hversu vel í stakk búin EFTA-ríkin eru þá leyfi ég mér líka að nota þetta tækifæri til þess að hamra á því að Alþingi Íslendinga verði betur undirbúið til þess að fylgja eftir þeim málum á fyrri stigum þegar við innleiðum hér reglugerðir, sér í lagi um svona viðamikil mál er varða fjármálakerfi okkar. Ég held að við ættum að beina sjónum okkar og einbeita okkur að því að styrkja stjórnsýsluna og aðkomu þingsins að þessum málum á fyrri stigum, þannig að við hér innan þingsins séum betur undirbúin til að taka upplýstar ákvarðanir er lúta að innleiðingu gerða og standa vörð um þá pólitík sem hér er en verður kannski út undan á þeim hlaupum sem þingmenn eru oft á.

Eins og fram hefur komið í nefndaráliti minni hlutans teljum við málið gott í heild sinni. Það er hluti af stærri endurskoðun, en við setjum ákveðna varnagla við málið í heild sinni.