146. löggjafarþing — 70. fundur
 24. maí 2017.
styrking krónunnar og aðgerðir Seðlabanka.

[10:45]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ráðherra lýsti um helgina áhyggjum sínum vegna styrkingar krónunnar. Það þarf að sjálfsögðu ekki að koma svo ýkja á óvart. Tekjur fyrirtækja í útflutningi hrynja, en að sama skapi eru aðföng að utan ódýrari og það kemur auðvitað neytendum til góða. Staðan er því súrsæt. Seðlabankinn sendi frá sér tilkynningu í fyrri viku þar sem segir, með leyfi forseta:

„Umfangsmikil gjaldeyriskaup bankans á undanförnum árum hafa leitt til mikillar stækkunar forðans sem gerir það að verkum að ekki er þörf fyrir þessi reglulegu kaup um þessar mundir. Þeim verður því hætt frá og með næstu viku.“

Fyrir leikmann virðist þessi ráðstöfun harla sérstök. Hafi verið ástæða til að sporna við of háu gengi krónunnar með reglubundnum kaupum á gjaldeyri virðist þörfin ærin nú. Í morgun berast svo fréttir af því að erlendir aðilar séu byrjaðir að fjárfesta í ríkisskuldabréfum á ný en þau kaup stöðvuðust alfarið þegar Seðlabankinn virkjaði sérstakt fjárstreymistæki í júní 2016 eftir að við höfðum samþykkt það hér á þinginu. Segir í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag að heimildir séu fyrir því að erlendir fjárfestingarsjóðir hafi fjárfest fyrir nokkra milljarða til viðbótar í ríkisskuldabréfum það sem af er þessum mánuði.

Í ljósi þess hversu gríðarlega krónan hefur styrkst langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála Seðlabankanum um að nú sé rétti tíminn til að hætta reglulegum kaupum á gjaldeyri.

Í öðru lagi langar mig að spyrja ráðherra hvort hann telji að gengið muni hætta að styrkjast ef Seðlabankinn dregur úr kaupum á gjaldeyri.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja ráðherra hvort hann telji að vaxtamunarviðskipti hafi átt drjúgan þátt í að efnahagslífið á Íslandi fór á hliðina haustið 2008 og hvort hann telji ástæðu til að grípa til aðgerða til að sporna við þessum viðskiptum sem nú eru aftur hafin.



[10:47]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég heyri að hann deilir áhyggjum mínum og fjölmargra annarra af þessari miklu styrkingu gengis krónunnar. Þetta er eins og hv. þingmaður segir réttilega, súrsætt. Neytendur fagna því auðvitað þegar vörur frá útlöndum verða ódýrari, en það getur komið í bakið á okkur þegar að því kemur að fyrirtækjunum sjálfum er ógnað ef menn missa vinnuna. Sumir eru með laun sem tengjast beinlínis erlendum gjaldeyri, t.d. sjómenn.

Ég er ekki viss um að þessi aðgerð sé sú besta en ég ræð þessu hins vegar ekki. Eins og hv. þingmaður veit hefur Seðlabankinn þarna mikið frelsi, bæði við ákvörðun vaxta og í þessum inngripum. Ég hafði nú ekki heyrt af þessum kaupum á skuldabréfum en þar er tæki sem felst í bindingu á gjaldeyri sem samþykkt var á síðasta þingi og hefur reynst vel. Ég hafði hins vegar heyrt af því að erlendir aðilar væru farnir að kaupa svolítið af hlutabréfum. Það er farið að aukast.

Ég get svarað hv. þingmanni alveg ótvírætt að ég tel að vaxtamunarviðskiptin sem tíðkuðust fyrir hrunið árið 2008 hafi leitt okkur í mikla ógæfu. Þar erum við alveg örugglega sammála.



[10:49]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er ljóst bæði af þessu svari og svörum við fyrri fyrirspurnum að ráðherra þorir ekki að svara mjög skýrt. Hin róttæka lausn sem hann ræddi í fyrra andsvari er augljóslega myntráð. Um það er engin samstaða í ríkisstjórninni. Ríkisstjórnarsamstarfið er í uppnámi.

Mig langar að bæta við einni spurningu. Menn hafa rætt það, einkum í flokki ráðherra, að rétt sé að tengja gengi íslensku krónunnar við myntkörfu eða erlendan gjaldmiðil, sem virðist vera tillaga hæstv. ráðherra. Telur hæstv. ráðherra ekki að með því að láta krónuna styrkjast von úr viti og grafa þannig undan útflutningsatvinnugreinunum muni réttar aðstæður skapast til að binda gengi krónunnar við erlenda mynt eða myntkörfu? Mun athafnaleysi og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og hugsanlega Seðlabankans (Forseti hringir.) ekki óhjákvæmilega leiða til þeirrar niðurstöðu? Getur ráðherra svarað því skýrt hvaða tillögur eru á leiðinni?



[10:51]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, hugmyndin um myntráð eða aðra fasttengingu krónunnar við annaðhvort ákveðna erlenda mynt eða myntkörfu er ekki stefna nema eins flokks. Viðreisn hefur boðað þá stefnu. Hins vegar varð ég var við það í haust að margir hv. þingmenn sem ég ræddi við eftir kosningar höfðu áhuga á því að kynnast þessu betur. Ég vona að starf þessarar nefndar muni leiða til þess að meiri áhugi vakni á því. En ég get hins vegar svarað því alveg ótvírætt sem hv. þingmaður spyr um, að þeim mun lengur sem krónan heldur áfram að styrkjast, þeim mun erfiðara verður ástandið fyrir útflutningsatvinnuvegina. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því, ég hafði áhyggjur af því í kosningabaráttunni, eftir kosningar (Forseti hringir.) og þær áhyggjur hafa ekki minnkað.