146. löggjafarþing — 70. fundur
 24. maí 2017.
mannréttindi og NPA-þjónusta.

[10:59]
Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Það er skilningur minn á hlutverki félags- og jafnréttismálaráðherra að honum beri að standa vörð um mannréttindi fólks í landinu. Mannréttindi samkvæmt skilgreiningu Mannréttindaskrifstofu Íslands færir einstaklingum jafnrétti og virðingu. Þau tryggja að allir hafi aðgang að grundvallarþörfum eins og fæðu og húsaskjóli. Hvar einstaklingur býr, hvar foreldrar hans eru, hvaða ríkisstjórn stjórnar í landi hans gildir einu þegar mannréttindi eiga í hlut, þau eru alltaf réttindi allra einstaklinga. Mannréttindi varðveita réttinn til þátttöku í samfélaginu, réttinn til að stunda vinnu og sjá fyrir sjálfum sér.

Ég hefði talið það liggja í augum uppi að þegar félags- og jafnréttismálaráðherra fer af stað í þá mikilvægu vegferð að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð, eða NPA, í íslensk lög yrði haft að leiðarljósi að réttindi eru allra, ekki aðeins hluta. Hvernig er hægt að réttlæta það að aðeins hluti þeirra sem fatlaðir eru hafi aðgang að NPA? Það er hægt að tala um kostnað, en er það raunverulega svo að hægt sé að takmarka réttindi fólks vegna þess að þau kosta of mikla peninga?

Í grunnstefnu Viðreisnar kemur fram, með leyfi forseta:

„Áhersla er lögð á jafna stöðu og jöfn réttindi allra einstaklinga óháð kynferði, trúarbrögðum, skoðunum, uppruna, kynþætti, litarhætti, kynhneigð og stöðu að öðru leyti.“

Þarna er ekki talað um jöfn réttindi takmarkaðs fjölda einstaklinga eftir fjármagni heldur allra einstaklinga.

Samkvæmt úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er umframábati til samfélagsins á innleiðingu NPA meiri en kostnaður sem hlýst af, en í úttektinni kemur fram, með leyfi forseta:

„Umframábati af NPA er að jafnaði 9–12 milljónir króna á ári, en umframkostnaður 3,5 milljónir. Þjóðfélagslegur ábati og kostnaður vegna skatta sem tengjast þjónustunni er að líkindum innan við eina milljón króna á hvern notanda. Könnunin veitir því skýra vísbendingu um það að ábati þeirra sem njóta þjónustunnar sé meiri en kostnaður samfélagsins vegna þjónustunnar.“

Ef þetta er raunin, hvers vegna ekki að opna bara fyrir þetta og leyfa öllum þeim sem þurfa á þjónustunni að halda að fá hana? Hver eru rökin fyrir því að setja kvóta á NPA?



[11:02]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen þessa mjög svo góðu fyrirspurn. Það er alveg rétt að hér erum við að tala um grundvallarmannréttindamál sem færir okkur vonandi fram á veginn í baráttunni fyrir bættum réttindum fatlaðra til framtíðar. Ég held að þetta sé stórt skref sem við erum að stíga með innleiðingu NPA í löggjöfina og með því að lögfesta hér samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli fram á veginn. Ég hef lagt á það áherslu að í þessum sporum erum við í raun og veru á byrjunarreit en ekki á lokareit. Við erum að þróa hér áfram ný úrræði.

Verið hefur í gangi tilraunaverkefni með NPA sem gefið hefur mjög góða raun og gefur sterkar vísbendingar um þann mikla og sterka ábata sem hlotist getur af þessu úrræði og þá miklu réttarbót sem það getur verið fyrir fatlaða einstaklinga. Þarna ber okkur hins vegar líka skylda að ráðstafa af ábyrgð þeim fjármunum sem ríkisvaldið hefur úr að spila á hverjum tíma og taka tillit til fjárhagsstöðu sveitarfélaga.

Þetta er ekki kvótasetning á NPA, heldur innleiðing hennar í áföngum á grundvelli þess mats, á þeirri þörf sem er á þessari þjónustu. Reynist sú þörf meiri er það að sjálfsögðu okkar ábyrgð og skylda að bregðast við því. En við töldum mikilvægt að halda af stað í þessa vegferð með þeim hætti sem þarna er lagt upp með þannig að það rúmaðist innan þess ramma sem okkur er settur í fjármagni, en að við værum engu að síður að stíga þessi mikilvægu skref af festu.

Það mun því ekki stranda á okkur. Reynist eftirspurnin meiri en sérfræðihópur áætlaði, sem skipaður var á sínum tíma til þess að meta þörf fyrir NPA, er það að sjálfsögðu okkar skylda að bregðast við og við munum rísa undir henni.



[11:04]
Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hefði talið að það að opna á NPA fyrir alla væri fjárfesting. Að fjárfesta í fólki er vafalaust sú besta fjárfesting sem hægt er að fara í. Hún skilar sér margfalt til baka og er grundvöllurinn að jafnara og farsælla samfélagi fyrir alla. Það á ekki einungis við notendastýrða persónulega aðstoð heldur einnig þegar kemur að málefnum öryrkja, aldraðra, barna, fjölskyldna, og svo má áfram telja.

Alls staðar í starfi mínu með þessari ríkisstjórn rekst ég á þá hugmyndafræði að fólk sem vantar aðstoð sé fjárhagslegur baggi á samfélaginu og er nálgunin þannig. Sér hæstv. ráðherra samborgara sína sem fjárhagslegan bagga á samfélaginu? Eða sér hann ónýttan möguleika á stórkostlegri grósku? Ef möguleiki er til staðar í huga ráðherra, ættum við þá ekki að fjárfesta í réttindum fólks og skapa þannig grundvöll fyrir fólk til að blómstra? Þá er ég ekki bara að tala um suma, heldur alla.



[11:05]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég sé að hv. þingmaður deilir áhuga mínum á þessum málaflokki. Ég mótmæli því að það standi skrifað einhvers staðar í stefnu þessarar ríkisstjórnar að líta beri á þetta fólk sem fjárhagslegan bagga á hinu opinbera eða að hindra eigi för þess eða framgang með einhverjum hætti. Þvert á móti leggjum við áherslu á það að fjárfesta í stórbættum virkniúrræðum, innleiða starfsgetumat, fjárfesta frekar í ýmiss konar geðaðstoð, sálfræðiaðstoð og öðru þess háttar til að ráðast að rótum vandans, sem er vaxandi örorka í landinu af ýmsum ástæðum. Við getum hæglega brugðist við því og gert miklu betur, fjárfest í bættum lífsgæðum og aukinni virkni þessara hópa. Þarna held ég að afar brýnt sé að vel takist til. Ég ítreka að stefna ríkisstjórnarinnar er í mjög góðu samræmi við þær áherslur sem hv. þingmaður taldi upp.