146. löggjafarþing — 72. fundur
 26. maí 2017.
störf þingsins.

[10:31]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar á þessum degi að tala um störf þingsins síðustu daga. Þau bera keim af þeim lokadegi sem væntanlega er að renna upp og er í nánd. Ég hef gert athugasemd við það áður í þessum stól að mér fyndist betri bragur á því að við myndum semja um málaskrá og þinglok í staðinn fyrir þær hefðbundnu löngu umræður sem fara fram í þinginu núna. Þær hafa að vísu verið góðar en ég held að það sé mikilvægt að við reynum sameiginlega að semja um þinglokin, gera þetta með þeirri reisn sem þinginu ber.

Ég er ekki að kenna einum eða neinum um það að staðan sé svona en ég held að við öll þurfum að taka það til okkar að finna sameiginlegar niðurstöður í þinglok. (SJS: Taktu bara forystu í málinu.) Mig langar líka … (Gripið fram í.) (SJS: Taktu forystu í málinu.) — Já, ég skal gera það. Þá væri örugglega búið að klára þingið.

Ég vil líka segja um umræðuna í samfélaginu undanfarna daga um að setja stjórn yfir Landspítalann að það kemur á óvart hvað stjórnendur spítalans eru viðkvæmir fyrir henni. Sjálfur var ég á sínum tíma í stjórn sjúkrahússins í Vestmannaeyjum í ein átta ár, en stjórnir yfir sjúkrahúsunum á landsbyggðinni voru settar af árið 2000. Ég er algjörlega sannfærður um að það hafi verið mikil afturför fyrir sjúkrahúsin þegar þessar heimastjórnir voru settar af. Ég held að fyrirtæki sem velta u.þ.b. 60 milljörðum með 5.000 starfsmenn, 4.000 stöðugildi, þurfi virkilega að hafa stjórn. Ekki það að ég vantreysti þeim sem stjórna spítalanum núna heldur er það bara eðlilegt að fulltrúar eigendanna, kjörnir aðilar komi að fyrirtækinu til að hjálpa … (BjG: Faglega sýn …) — Faglega sýn? (BjG: Alls staðar …) Algjörlega, já. Við erum bara sammála um það, (Forseti hringir.) þannig að ég legg til að þeirri umræðu verði haldið áfram.



[10:34]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þann 17. maí sl. urðu umfangsmiklar rafmagnstruflanir og rafmagnsleysi á öllu Austur- og Suðausturlandi á svæðinu frá Vopnafirði suður á Kirkjubæjarklaustur. Rafmagnsleysið varði í tvær til þrjár klukkustundir. Það var rakið til kerleka í álverinu á Grundartanga hinum megin á landinu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rafmagnsleysi á Austurlandi má rekja til bilana í öðrum landshlutum. Rafmagnsleysi af þessu tagi hefur ekki orðið á höfuðborgarsvæðinu í meira en 25 ár, enda er dreifingarkerfið þar sterkt sem betur fer. Til allrar lukku þekkir því stærsti hluti landsmanna ekki af eigin reynslu það gífurlega tjón sem fylgir svona truflunum.

Truflunin sem hér um ræðir var að morgni dags, atvinnulífið var í fullum gangi og tjónið er margþætt. Það verður truflun á allri framleiðslu og þjónustu. Þar fyrir utan verður tjón á dýrum búnaði og vinnustundir tapast. Beint tjón er mikið og óbeinn kostnaður ekki síður, m.a. við að koma framleiðsluferlum í gang og tölvukerfum af stað í fjósum, mjólkurstöðvum, bræðslum, frystihúsum, heilbrigðisþjónustu, verslun, ferðaþjónustunni þegar allir eru að tékka út að morgni, í álveri, skólum o.s.frv. Tjónið er ekki aðeins talið í krónum heldur fylgir líka mikil orkusóun og sóun á umhverfisgæðum.

Þessi staða ætti auðvitað ekki að koma upp á árinu 2017 nema þá við afleit veðurskilyrði eða náttúruhamfarir sem við ráðum ekki við. Það er alls ekki svo að þetta geti einungis gerst á Austurlandi, þetta getur gerst víða á landinu. Ég hef því óskað eftir því við hv. umhverfis- og samgöngunefnd að málið verði tekið til sérstakrar umfjöllunar í nefndinni og þá verði m.a. skoðað hvort einhver hafi það hlutverk að meta það heildartjón sem hlýst af svona truflunum og hvaða vinna (Forseti hringir.) sé í gangi á vegum stjórnvalda til að auka öryggi við dreifingu raforku.



[10:36]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Þar sem líður að þinglokum og ekki eru nema þrír þingfundadagar eftir af starfsáætlun fækkar þeim dögum sem mögulegt verður að bregðast við fyrirspurnum þingmanna. Mig langar því að spyrja forseta hvort ekki væri ástæða fyrir okkur að skoða þessi samskipti þings og framkvæmdarvalds, af því að mér sýnist við snögga yfirferð á þeim rúmlega 100 fyrirspurnum sem lagðar hafa verið fram að aðeins tíu hafi verið svarað innan þeirra 15 virku daga sem samkvæmt lögum um þingsköp á að virða. Það eru tímamörk sem eru sett samkvæmt lögum. Þetta er ekki bara einhver vinnuregla sem er brotin.

Sömu lög segja að takist ráðherra ekki að svara fyrirspurn innan þessa frests skuli hann gera skriflega grein fyrir því. Af þeirri reynslu sem ég hef af mínum fyrirspurnum er það svona „fiftí-fiftí“ á að giska. Þar að auki á hann að útskýra hver ástæða fyrir töfinni er og hvenær vænta megi svars til Alþingis, sem gerist nálega aldrei. Ég hef alveg samúð með ráðuneytum þegar þau ná ekki að uppfylla tímaákvæðin en þau hljóta alla vega að geta lagað þessi samskipti þannig að við vitum hvenær svörin sem tefjast svo skila sér.

Svo vekur þetta náttúrlega spurningar um það hvort stundum séu svörin óþægileg. Sumar spurningarnar eru þannig. Það tók eina 13 mánuði að særa fram skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum og hún tafðist meira að segja fram yfir kosningar af því að þar var óþægilegur sannleikur.

Er eitthvað á þessum lista jafn óþægilegt? Er t.d. óþægilegt fyrir mennta- og menningarmálaráðherra að svara fyrirspurn um starfsmannahald RÚV, fyrirspurn sem er núna komin á þrefaldan frest? Er eitthvað þar sem ráðherra vill ekki að líti dagsins ljós (Forseti hringir.) á þessum tímapunkti?



[10:38]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni það sem ég kýs að kalla ógeðfellda aðför stjórnarliða að Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi. Í ljós kemur að stjórnarliðar hafa bak við tjöldin verið að kokka með sér hugmyndir um að setja einhvers konar pólitíska stjórn eða yfirfrakka á stjórnendur Landspítalans. Það er greinilegt að nýjum valdhöfum líkar ekki að Landspítalinn – háskólasjúkrahús og stjórnendur hans hafa gert það sem þeim ber; þeir hafa upplýst þing og þjóð um hina raunverulegu stöðu Landspítalans. Það fellur ekki vel í kramið hjá nýjum valdhöfum sem þó hafa flestum meira talað um fagleg vinnubrögð, gagnsæi og annað í þeim dúr. Það á að setja þöggunarnefnd yfir stjórnendur Landspítalans og þeir eiga að hætta að koma og kynna sín mál hér fyrir fjárveitingavaldinu o.s.frv. Það er það sem fram hefur komið í þessum ræðuhöldum.

Haft er eftir hæstv. fjármálaráðherra að öll alvörufyrirtæki hafi stjórn, öll alvörufyrirtæki. Það er undarlegt viðhorf. Er Landspítalinn bara eitthvert hf. úti í bæ, bara fyrirtæki? Nei, Landspítalinn er móðurstöð í íslenska heilbrigðiskerfinu og Landspítalinn er háskólasjúkrahús, hann er akademísk stofnun. Á líka að setja pólitíska stjórn yfir akademískt frelsi Landspítalans – háskólasjúkrahúss? Hvert eru menn hér að fara?

Það er alveg með endemum að félagsmálaráðherra og formaður velferðarnefndar skuli vera í fararbroddi fyrir þessari atlögu að Landspítalanum, standa í þrætum við stjórnendur Landspítalans, reyna að vefengja upplýsingar sem þeir hafa sett fram og fara svo auðvitað mjög halloka í því, því að Landspítalinn hefur rekið hvert orð ofan í hæstv. félagsmálaráðherra.

Eitt væri það ef Alþingi kysi að setja á nýjan leik samstarfsnefnd eða svipaða nefnd og var fyrir stjórnarnefnd Ríkisspítala á sínum tíma sem var blönduð nefnd fulltrúa allra flokka og faglegra stjórnenda Landspítalans með aðild starfsmanna og læknaráðs og yfirstjórnar spítalans en hér er það ekki á dagskrá. Nei, hér á að setja eiginlega stjórn (Forseti hringir.) sem tekur völdin af hinum ráðnu, faglegu stjórnendum og þaggar niður í þeim. Það verður ekki.



[10:41]
Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Í Reykjanesbæ býr listamaðurinn Hallmundur Kristinsson. Hann er ekki bara prýðilegur myndlistarmaður og liðtækur í tónlist heldur líka vel ritfær. Hann skrifar ágætan skáldskap sem ég ætla að fara með hér og hljómar svo, með leyfi forseta:

„Svo háttar til að þrír hv. þingmenn hafa beðið um að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns og verður því ræðutími styttur niður í eina mínútu. Fyrstur tekur til máls hv. 10. þm. Norðausturkjördæmis vestra, Guðmundur Jón Guðmundsson.

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Stefaníu Stefánsdóttur fyrir frábæra ræðu. Hún minntist á það í ræðu sinni að ríkisstjórnin væri komin út á hálan ís í stjórn sinni á landinu. Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það að ríkisstjórnin sé eiginlega búin að skíta upp á bak.

Þá svarar andsvari hv. 13. þm. Reykjavíkurkjördæmis austur, Stefanía Stefánsdóttir.

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Jóni Guðmundssyni fyrir fyrirspurnina. Nú vil ég reyna að svara spurningu hans eftir bestu getu á þeim stutta tíma sem mér er markaður í þessu svari mínu. Já, ég er sammála þingmanninum um það að segja megi að ríkisstjórnin sé búin að skíta upp á bak og segja megi raunar að hún sé með allt niður um sig. Ég sé nú að tími minn er að verða búinn og verður því þetta svar að nægja.“

Ég sé að þingmönnum hér í sal er skemmt og ekki að ástæðulausu, þetta er hvort tveggja í senn skemmtileg lesning en líka sorgleg. Svona er komið fyrir Alþingi Íslendinga. Hér skortir nefnilega á að hér eigi sér stað eðlilegt samtal milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu og ég held að við verðum að bæta úr þessu ásamt mörgu öðru.



[10:43]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil bregðast örlítið við ummælum sem hér hafa fallið vegna hugmyndar sem hefur verið nefnd varðandi einhvers konar stjórn yfir Landspítala – háskólasjúkrahús. Ég var að rifja það upp í huganum að fyrir tveimur áratugum eða svo, kannski aðeins lengur, þá var rekin hér af ríkisstjórn, sem ég studdi og tel að hafi gert margt gott, stefna sem gekk út á það að draga úr stjórnum opinberra stofnana sem voru ef segja má almenna reglan hér á árum áður en eru fátíðari í dag. Þetta var samkvæmt ákveðinni hugmyndafræði um nýskipan í ríkisrekstri og meðal þeirra stjórna sem lögð var niður á þeim tíma einhvern tímann á 10. áratugnum var stjórnarnefnd Ríkisspítalanna. Ég held að menn þurfi nú ekki að fara á taugum þótt menn velti fyrir sér hvort ástæða sé til þess að hverfa með einhverjum hætti frá þeirri stefnu sem þá var ríkjandi. Ég held að stjórnir yfir opinberar stofnanir geti verið gagnlegar og orðið til þess að styrkja þær. Ég held að það verði að meta í hverju tilviki fyrir sig og held að við getum ekki útilokað umræður um það, sérstaklega þegar um er að ræða jafn stóra stofnun sem gegnir þýðingarmiklu hlutverki eins og Landspítala –– háskólasjúkrahús. (Gripið fram í: … skoðun?) Þess vegna fagna ég þeirri umræðu sem hér hefur verið hafin um þau mál og vonast til þess að við getum þróað hana áfram með það að markmiði að efla þessa stofnun og styrkja hana.



[10:45]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú í lok þingsins er ég að reyna að meta hvernig nýju þingi hefur gengið. Þá horfi ég helst til þeirra nýju vinnubragða sem lofað var, en sama hvað ég reyni get ég ekki séð hvað er öðruvísi en áður, fyrir utan eitt; þátttaka hæstv. fjármálaráðherra í umræðum um mál hans á þingi. Meira svoleiðis, takk.

Annað er sagan endalausa. Kjörtímabilið byrjar á launahækkunum og lygi. Lífeyrisréttindi eru tekin af fólki af því að það hentar bókhaldslega, sjómönnum er hótað lagasetningu á verkfall, einmitt þegar verkfallið fer að geta skipt máli fyrir peningaöflin, forsætisráðherra brýtur jafnréttislög og afsakar sig með því að falsa söguna. (Gripið fram í.) Milljarðamistök þurfti að laga út af mistökum vegna flýtimeðferðar mála þingsins undir lok síðasta kjörtímabils.

Nú erum við aftur í þinglokavinnu og aftur er verið að reyna að troða ókláruðum eða gölluðum frumvörpum í gegnum þingið. Frumvarp um jafnlaunavottun er ekki tilbúið, ályktun um fjármálaáætlun er ekki tilbúin og aukinni ríkisábyrgð upp á 4,7 milljarða á að troða í gegnum þingið þó að vitað sé að afskrifa þurfi hluta lánsins.

Ríkisstjórnin ætlar að taka aukalán, ríkisstjórnin sem ætlar að lækka skuldir ætlar að taka aukalán fyrir Vaðlaheiðargöng og svo mun þurfa að afskrifa hluta lánsins. Kostnaðurinn fellur á ríkissjóð og þar með alla landsmenn. Vel gert.

Heiðarlegri leið til að klára þessi göng væri annaðhvort að selja þau bara eins og átti að gera eða taka göngin yfir, eins og er óhjákvæmilegt, og setja þau þá bara á fjárlög. En það má ekki, það tekur af fjármagni kjördæmisins í önnur verkefni. Afleiðingin er að það verða engin ný kjördæmapotsverkefni, það myndi koma í veg fyrir pólitík eins og venjulega. Heiðarlegri vinnubrögð eru að gera faglegar áætlanir í samvinnu við hlutaðeigandi og standa við þær.

Flokkar nýrra vinnubragða, áframhaldandi afgreiðsla ókláraðra frumvarpa og áframhaldandi kjördæmapot — var það hugmynd ykkar um ný vinnubrögð?



[10:47]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Í ljósi þess hversu stutt er eftir af þessu þingi þykir mér orðið fullvíst að ég fái ekki að mæla fyrir þingsályktunartillögu sem ég ásamt öðrum hv. þingmönnum höfum lagt fram um heildarendurskoðun lögræðislaga, sem er þó brýn þörf á að gera. Því vildi ég nota þetta tækifæri í störfum þingsins til þess að hvetja hæstv. dómsmálaráðherra til þess að hefja formlega vinnu þrátt fyrir að Alþingi hafi ekki gefið henni fyrirskipanir þar um. Það er brýnt, frú forseti, að fjarlægja lagalega mismunun úr lögræðislögum sem heimila frelsissviptingu á þeim grunni einum að einstaklingur þjáist mögulega af geðsjúkdómi. Það er brýnt að hefja formlega vinnu við heildarendurskoðun á þeim lögum. Það er brýnt að vinna að úrbótum í réttarvernd ósakhæfra brotamanna og það er mjög brýnt að standa við gefin loforð um fullgildingu OPCAT, sem krefst sjálfstæðra eftirlitsstofnana með málefnum frelsissviptra sem og sjálfstærðrar mannréttindastofnunar sem lengi hefur verið talað um.

Einnig vil ég hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að setja reglugerð varðandi beitingu þvingaðrar meðferðar og þvingaðrar lyfjameðferðar sem enn vantar í lögræðislögin en heilbrigðisráðherra hefur heimild til að gera án samþykktar þingsins. Það tel ég vera brýna réttarbót sem heilbrigðisráðherra getur unnið að í sumar þótt þing sé ekki að störfum. Ég tel það nauðsynlegt, frú forseti. Það verður að setja í forgang lagabreytingar og reglugerðir sem vernda betur réttindi þessa minnihlutahóps í samfélagi okkar. Það verður að setja í forgang lagabreytingar í lögum um fóstureyðingar sem vega að kynfrelsi fatlaðra kvenna.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra, til að setja þessi mál í forgang, og víkja af þeirri stefnu sem mér sýnist vera með rafrettufrumvarpi og sterafrumvarpi og stoppi á frestun réttaráhrifa. Þar er frekar verið að skerða málsmeðferðarréttindi einstaklinga en að bæta þau. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að bæta réttarvernd þessa hóps (Forseti hringir.) því að ef mannréttindavernd er látin bíða þá eru það venjulega minnihlutahópar sem líða fyrir það, eins og við vitum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[10:50]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í kvöld taka uppsagnir sjúkraflutningamanna við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi gildi ef samningar takast ekki um bætt kjör þeirra sem eru í hlutastörfum. Ef af þessu verður er komin upp mjög alvarleg staða í heilbrigðisþjónustu á starfssvæði heilbrigðisstofnunarinnar. Byggðaráð Blönduósbæjar hefur skorað á velferðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið að ljúka gerð kjarasamninga við þessa aðila og að samningar verði í samræmi við þá skuldbindingu og ábyrgð sem í starfinu felst. Einnig er skorað á framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands að samræma launakjör hlutastarfandi sjúkraflutningamanna innan starfssvæðis heilbrigðisstofnunarinnar en sjúkraflutningamenn á Blönduósi telja sig ekki hafa setið við sama borð og aðrir sjúkraflutningamenn innan heilbrigðisstofnunarinnar.

Einnig bendir byggðaráðið á að hlutastarfandi sjúkraflutningamenn á starfssvæði heilbrigðisstofnunar eru 23 talsins en þeir eru á Blönduósi, Dalvík, Raufarhöfn og Þórshöfn og hluti sjúkraflutningamanna á Húsavík. Jafnframt kemur fram að hluti af kröfum hlutastarfandi sjúkraflutningamanna á Blönduósi er að þeir telja að ósamræmi sé á milli launa hlutastarfandi sjúkraflutningamanna innan starfssvæðis heilbrigðisstofnunarinnar.

Ég tek undir áskorun byggðaráðs Blönduósbæjar og hvet hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem situr hér í salnum núna og hæstv. velferðarráðherra að ganga til verksins og ná viðunandi samningum við þá sjúkraflutningamenn sem hér um ræðir. Það er afar mikilvægt að þessir samningar takist, hér er um að ræða öryggi sjúklinga og þeirra sem búa á starfssvæðinu sem þessar uppsagnir sjúkraflutningamannanna munu ná til ef af verður.

Það er staðreynd að heilbrigðisþjónusta hefur dregist saman víða á landsbyggðinni á undanförnum árum og í mörgum tilfellum þurfa íbúar að reiða sig á þjónustu sjúkraflutningamanna og það er með öllu ólíðandi að staða sem þessi komi upp. Ég ætla því að nota tækifærið hér í störfum þingsins enn og aftur og minna á mikilvægi þess að forgangsmál okkar Framsóknarmanna um heilbrigðisáætlun nái fram að ganga. Við verðum að skilgreina hvaða þjónusta skuli vera í boði á heilbrigðisstofnunum víða um landið og vinna í samræmi við það. Þessi (Forseti hringir.) tillaga bíður eingöngu atkvæðagreiðslu hér í þinginu og öll umræða um málið hefur nú þegar farið fram þannig að ég hvet til þess að málið fari að koma til atkvæðagreiðslu.



[10:52]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Til að gæta allrar sanngirni er ekkert óeðlilegt við það þótt þrír flokkar, eins og stjórnarflokkarnir, sem virtust vera ólíkir fyrir kosningar, geri málamiðlanir til að mynda stjórn. Það vakti þó athygli að einn flokkurinn fékk öll mál sín í gegn en hinir tveir beygðu sig fullkomlega í duftið. Gerðu með sér stjórnarsáttmála þar sem sársaukamörk þeirra birtust. Þótt þau hafi verið mishá þá trúði maður satt að segja að verkefnalista stjórnarinnar til 2020 myndi verða fylgt eftir. Tveimur mánuðum síðar birtist svo ríkisfjármálaáætlun til 2022, tveimur árum lengra inn í framtíðina en stjórnarsáttmálinn. Þá hefði maður nú ætlað að fyrrnefnda plaggið innihéldi öll markmið þess síðarnefnda og gott betur. En svo er ekki, frú forseti.

Strax í stjórnarsáttmálanum var byrjað að hlaupa frá kosningaloforðum, ekki síst Viðreisn og Björt framtíð. Þann 31. mars var svo ljóst að flokkarnir treystu sér ekki einu sinni til að standa við almennan, óskýran og loðmollulegan texta stjórnarsáttmálans, það rataði ekki allt þangað inn. Til að bíta höfuðið af skömminni gera þingmenn stjórnarinnar uppreisn, treysta sér ekki til að fjármagna fjármálaáætlunina, gefa henni falleinkunn, en ætla samt að samþykkja hana, líklega í trausti þess að þjóðin sætti sig við þrjú svikin loforð á einu ári og ráðið er að setja pólitíska „agenta“ yfir Landspítalann.

Hæstv. fjármálaráðherra. Hvað yrði það kallað ef foreldri í janúarmánuði lofaði barni sínu reiðhjóli, tveimur mánuðum síðar kæmi í ljós að það átti eiginlega við ís og þegar komið væri í sjoppuna þá meinti það eiginlega karamellu? Það væru kölluð svik, hæstv. fjármálaráðherra.



[10:54]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að ræða fréttir sem komið hafa um að tillögur ráðherranefndar um húsnæðismál séu væntanlegar og verði vonandi kynntar núna á næstu dögum. Í fréttinni kom fram að eitt af því sem væri til skoðunar væri að ganga til samninga við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu varðandi lóðir. Ég fagna því að það standi til, því að fyrir liggur beiðni frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík og Kópavogi um að kaupa lóðir til þess að byggja á. Í því sambandi hafa eftirfarandi staðir verið nefndir: Keldur, Keldnaholt, Landhelgisgæslureiturinn og lóðin í kringum Veðurstofu Íslands. Nefnt hefur verið að Kópavogsbær kaupi land á Vatnsendahæð og jafnframt hefur verið nefndur reitur í kringum Sjómannaskólann, Borgarspítalann og svo á Suðurgötu/Hringbraut.

Ég vil líka hvetja ríkisstjórnina til að skoða hvort möguleiki sé á að setjast aftur niður með sveitarfélögum varðandi Vífilsstaðalandið og Skerjafjörðinn til þess að tryggja að þessar lóðir verði raunverulega nýttar til þess að byggja á íbúðarhúsnæði. Að þar verði ekki bara horft til þess að fá sem hæst markaðsverð heldur hafi einstaklingar tækifæri, ekki bara stórir verktakar, heldur líka einstaklingar, til þess að byggja.

Í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur talað um sjálfa sig sem jafnréttisríkisstjórn vænti ég þess að fjármálaráðherra og fleiri ætli að mæta á EM í sumar í Hollandi, þar sem kvennalandslið okkar mun eflaust standa sig jafn vel og það hefur gert í undanförnum keppnum. Þar mætti um leið skoða sérstaklega sveitarfélag sem heitir Almere Poort sem hefur einmitt staðið sig mjög vel í því að tryggja fjölbreytni og mikið framboð af lóðum og stuðlað að því að einstaklingar eða litlir verktakar geti í auknum mæli byggt íbúðarhúsnæði á fjölbreyttan máta. Ég (Forseti hringir.) efast ekki um að jafnréttismálaráðherrann hefði sjálfur áhuga á að mæta þangað, því að mér skilst að hann hafi nú þó nokkra reynslu af því að byggja sjálfur.



[10:56]
Sigurður Páll Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Komið er út úr atvinnuveganefnd frumvarp um umgengni nytjastofna sjávar, eða þang- og þarafrumvarpið, þó ekki í breiðri sátt, því miður. Þessu frumvarpi var í lok síðasta kjörtímabils ýtt út af borðinu á elleftu stundu. Meginverkefni frumvarpsins er að Hafrannsóknastofnun verði falið að stunda rannsóknir á sjávargróðri og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um nýtingu, þ.e. öflun þangs og þara verði felld undir eftirlit samkvæmt fiskveiðistjórnarlöggjöfinni. Móttaka þangs til vinnslu frá afmörkuðum svæðum verði háð leyfi og lagt verið veiðigjald á landaðan afla þangs og þara. Að auki verði metinn endurvöxtur eftir nýtingu og hversu mikið sé unnt að taka af þessum tegundum í fjörðum í heild og eftir svæðum þannig að nýtingin sé sjálfbær.

Við kynningu á drögunum að frumvarpinu kom fram sú gagnrýni að ekki væru sett fram nein meginsjónarmið er lytu að vernd líffræðilegrar fjölbreytni sjálfbærrar nýtingar. Áþekk sjónarmið voru sett fram frá öðrum aðila þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að meta áhrif þangsláttar á vistkerfið í heild, m.a. á krabbadýr, botndýr, fugla, fiska, spendýr o.fl. Þá komu fram áhyggjur um hvaða áhrif þangsláttur hefði á vöxt grásleppuseiða og annarra seiðategunda.

Auvitað skal taka undir mikilvægi þess að gæta að áhrifum nýtingar á vistkerfið. Frumvarpið felur ekki í sér neina rýmkun á heimildum einstaklinga og lögaðila til að hefja starfsemi á þessu sviði. Hér er um að ræða rótgróna atvinnustarfsemi til síðustu 40 ára sem fram að þessu hefur verið talin í góðri sátt við náttúruna. Eins verður að skoða þetta frumvarp í ljósi þessi að engar reglur eru um þessa nýtingu í dag. Með frumvarpinu eru gefin skýr skilaboð um að eftirlit þurfi að fara fram með nýtingunni samtímis því að rannsóknir verði efldar og sett hámarksviðmiðun á einstökum svæðum.



[10:59]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Bændablaðið getur stundum verið fagurlega grænt í augum okkar sem berjumst fyrir sjálfbærum náttúrunytjum. Ég las þar samantekt á ræðu hæstv. umhverfisráðherra, Bjartar Ólafsdóttur, á fræðslustefnu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, og svo hlýddi ég á svipaða jákvæða umhverfisræðu á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands á miðvikudaginn var. Á sama fundi kom fram að stofnunin hefur þolað samdrátt í tekjum vegna síminnkandi framlaga ríkisins sl. fjögur ár þrátt fyrir aukin verkefni. Þar kom líka fram að stöðugildum hefur fækkað jafnt og þétt í allnokkur ár. Þetta er stofnunin sem á að vakta framvindu í náttúru Íslands. Þegar háleit orð umhverfisráðherra og þessi raunveruleiki eru borin saman sést glöggt hve illa fjármálastefna ríkisstjórnarinnar rímar við yfirlýsingarnar.

Þetta dæmi sýnir í hnotskurn að þrjú ár með 1,6 milljarða framlagi samtals til umhverfismála og tvö ár með 300 millj. kr. niðurskurði gera stefnu stjórnarinnar í þessum efnum að hálfgerðu umhverfisslysi, þ.e. ef fram fer sem horfir. Og hvað gerum við í þessu máli málanna — þetta er samviskuspurning, hv. þingmenn — til fimm ára?

Svo að lokum í anda samræðnanna ætla ég að skora á hv. stjórnarþingmenn sem hér eru inni og helst fleiri að veita mér andsvör í umræðum um ríkisfjármálin á eftir og jafnvel í næstu viku ef áfram heldur sem horfir, því að þótt mér þyki mjög vænt um stjórnarandstöðuþingmenn væri mikil tilbreyting í að sjá eða heyra aðra í andsvörum í þessu mikilvæga máli sem er ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.



[11:01]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að tala um stöðu og áform ríkisstjórnarinnar, hver þau eru og hver ekki, og vitna í fundargerð þjóðaröryggisráðs sem var birt á dögunum þar sem eitt og annað kemur fram sem styður við það sem við höfum verið að segja, Vinstri græn og fleiri stjórnarandstæðingar, í pontu um m.a. ríkisfjármálaáætlun. Þar kemur nefnilega fram, haft eftir forsætisráðherra, sem sagði á fundinum að aukning ríkisútgjalda á þessu ári væri langt umfram það sem mætti reikna með til lengri tíma og langt umfram það sem hægt væri að standa undir til lengri tíma. Það kom líka fram hjá honum að lög um opinber fjármál væru farin að hafa mikil áhrif. Í stað þess að ráðstafanir í tekjumálum ríkisins kæmu fram í nóvember til afgreiðslu fyrir árslok kæmu þær nú fram að vori og tækju til margra ára. Það væri því mikilvægt að fjármálaáætlun kæmi ætíð fram á vori eins og lögbundið er og um hana næðist góð umræða.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að áherslan í ríkisfjármálaáætlun sé á niðurgreiðslu skulda, aðhald í rekstri og skynsamlega stjórnun fjárfestinga ríkisins. Þetta er það sem við höfum búið við og séð birtast í ríkisfjármálaáætluninni.

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram um m.a. skattamál að hlutverk skattkerfisins sem tekjuöflunartækis fyrir sameiginleg útgjöld eigi að styrkja. Hvernig? Með því að styðja við peningastefnunefnd? Nei, það á ekki að gera það heldur með því að lækka skatta. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn eða meiri hlutinn sagt að hann ætli ekki að styðja við hækkun skatta á ferðaþjónustuna en það hefur hvergi komið fram að hann neiti að styðja lækkun virðisaukaskattsþrepsins, þ.e. úr 24% í 22,5%. (Forseti hringir.) Hér erum við enn og aftur að veikja tekjustofna ríkisins en ekki styrkja til þess að standa undir þeirri samneyslu sem lofað var fyrir kosningar af öllum flokkum, að styrkja innviði samfélagsins.



[11:03]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ríkisstjórnin sem nú situr er með eins manns meiri hluta og minni hluta atkvæða á bak við sig. Maður skyldi ætla að sú staða gerði hæstv. ríkisstjórn mjög meðvitaða um að hún þarf að vanda sig og hlusta í verkum sínum. Því verð ég að segja að það hefur komið mér á óvart eftir allt sem sagt hefur verið um breiða skírskotun og samtal og samráð, að við fáum í raun og veru ekki skýrt fram frá ríkisstjórninni hvert hún hyggst stefna í heilbrigðismálum hvað varðar rekstrarform heilbrigðiskerfisins. Það hefur verið erfitt að fá skýra sýn frá hæstv. ríkisstjórn. Hins vegar er stöðugt vitnað til þess að í stjórnarsáttmála sé talað um fjölbreytt rekstrarform í hinu og þessu.

Mig langar að benda hæstv. ríkisstjórn á að samkvæmt nýrri rannsókn aðhyllast Íslendingar að yfirgnæfandi meiri hluta félagslega rekið heilbrigðiskerfi, þ.e. heilbrigðiskerfi sem ekki er aðeins fjármagnað og skipulagt af hinu opinbera heldur líka þar sem hið opinbera á og rekur helstu rekstrareiningar. Félagslega rekið heilbrigðiskerfi, sem samkvæmt rannsóknum kemur best út hvað varðar aðgengi að þjónustu, með lægstan hlutfallslegan kostnað, og kemur best út hvað varðar lýðheilsu. Því ætti hæstv. ríkisstjórn að hlusta. Ríkisstjórnin ætti að hlusta eftir þeim rannsóknum sem sýna hvaða heilbrigðiskerfi virkar best. Hún ætti að hlusta eftir því að tæp 92% Íslendinga vilja meira fé inn í heilbrigðiskerfið, 86% vilja að sjúkrahús séu rekin af hinu opinbera og tæp 80% vilja að heilsugæslan sé rekin af hinu opinbera. Meiri hluti stuðningsmanna allra flokka tekur undir þessi sjónarmið.

Hæstv. ríkisstjórnir eiga auðvitað alltaf að hlusta. En hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki efni á að hlusta ekki.