146. löggjafarþing — 72. fundur
 26. maí 2017.
um fundarstjórn.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:06]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem upp í fundarstjórn forseta til að gera alvarlegar athugasemdir við fjarveru hæstv. ráðherra í umræðunni um ríkisfjármálaáætlun. Reyndar á hæstv. fjármálaráðherra hrós skilið fyrir setuna hér undir afar spennandi umræðu hv. þingmanna um ríkisfjármálaáætlun en ég geri þó sérstakar athugasemdir við fjarveru hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra, en mikil gagnrýni hefur verið á þá málaflokka sem þeir bera ábyrgð á. Ég veit hins vegar að hæstv. heilbrigðisráðherra er ekki í þinginu þessa viku en honum sem öðrum ætti að vera kunnugt um að þessa viku yrði ríkisfjármálaáætlun til umræðu og ábendingar um það sem betur mætti fara til umræðu. Það er því afar vont að hæstv. ráðherrar mæti ekki og reyni að taka til greina þær athugasemdir sem hv. þingmenn leggja til í umræðunni um ríkisfjármálaáætlun og taki þau mikilvægu skilaboð sem fram koma í ræðustól hv. Alþingis til greina.



[11:07]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil taka undir ábendingar hv. þingmanns. Ég vil spyrja forseta hvort við getum í raun lokið umræðu um ríkisfjármálaáætlun í ljósi þess að heilbrigðismálin, sem stóð jú til að hafa í brennidepli þessarar ríkisstjórnar og í forgangi, eru í brennidepli af öðrum ástæðum en þeim að þau séu í forgangi. Við blasa mjög alvarlegar þrengingar í málaflokknum, sveltistefna í fjármálaáætlun og í raun er verið að þrengja að rekstri heilbrigðisþjónustunnar, þvert á fyrirheit fyrir kosningar og orðin tóm í stjórnarsáttmála. Nú hefur forysta Landspítala – háskólasjúkrahúss greinilega sagt of mikið að mati ríkisstjórnarflokkanna og upp hefur komið hugmynd um að setja þöggunarstjórn yfir spítalann.

Virðulegur forseti. Það er óásættanlegt nú þegar málaflokkurinn er í slíku uppnámi í umræðunni að heilbrigðisráðherra sé fjarverandi við umræðuna hér í heila viku. Ég spyr forseta: Er ekki rétt mat hjá mér að við getum tæpast lokið umræðu um ríkisfjármálaáætlun á meðan heilbrigðisráðherra er hér ekki til að taka þátt í umræðunni?



[11:08]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað því að hér er jú um stærsta mál ríkisstjórnarinnar að ræða sem á að marka stefnu hennar til næstu fimm ára. Vissulega tókst okkur að særa nokkra hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans til að taka þátt í umræðunni eftir að við bentum á það í ræðustól að þátttaka þeirra væri nánast engin. Þá komu nokkrir hv. þingmenn og ég kann þeim bestu þakkir fyrir að koma upp og reyna að eiga hér samtal, því að Alþingi á að snúast um samtal. Mér finnst það satt að segja svolítið kúnstugt, þótt hæstv. fjármálaráðherra hafi setið hér og fengið miklar þakkir fyrir að sitja undir umræðunni, að hann tekur samt ekki mikinn þátt í umræðunni, ég vona að hann hlusti þeim mun betur. Hann sér ekki ástæðu til að fara í andsvör við formenn stjórnarandstöðuflokkanna þegar þeir koma upp og gagnrýna áætlun hans. Raunar sá enginn hv. þingmaður stjórnarmeirihlutans ástæðu til þess.

Ég velti því fyrir mér við hvað hv. þingmenn og hæstv. ráðherra stjórnarmeirihlutans eru hræddir, því að þeir virðast skirrast við að taka þátt í umræðum um sitt stærsta mál. (Forseti hringir.) Kannski vegna þess að það er svo bullandi ósætti innan húss um sjálfa áætlunina að það afhjúpast í hvert (Forseti hringir.) sinn sem hér stígur í pontu þingmaður frá meiri hlutanum.



[11:10]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það var eiginlega sorglegt að fylgjast með hæstv. fjármálaráðherra sitja aleinn í þingsal, ekki bara einhverjar mínútur heldur jafnvel klukkustundum saman, þar sem hann fékk engan stuðning frá samherjum sínum í ríkisstjórninni. Forsætisráðherra er náttúrlega löngu týndur, það veit enginn hvar hann er, hann sést varla hérna.

Það sama gildir um heilbrigðisráðherra. Hæstv. heilbrigðisráðherra er eiginlega búinn að gefast upp á verkefninu, ætlar að fá einhverja stjórn svo að hann geti kannski komið úr felum.

Þetta er ekki hægt. Hér erum við að tala um fjármálaáætlunina sem snertir á öllum krikum samfélagsins. Við erum öll ágætlega undirbúin undir það að taka þátt í þeirri umræðu og ég ætla að fá að þakka formanni fjárlaganefndar og fjárlaganefnd fyrir að taka þó ákvörðun um það að vísa áætluninni inn í fagnefndirnar. Við erum búin að vera að vinna (Forseti hringir.) og við erum búin að fjalla um þetta mál og hér er einmitt vettvangurinn til þess að taka (Forseti hringir.) umræðuna um þetta mikilvæga plagg. Eða eru stjórnarliðar einfaldlega að segja að fjármálaáætlunin skipti engu máli?



[11:11]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil taka undir þetta. Ég sakna ráðherranna úr þessari umræðu, ekki bara fyrir hönd stjórnarandstöðunnar heldur líka fyrir hönd þingmanna stjórnarinnar því að það óvænta hefur gerst að nú er ekki þessi hefðbundni díalóg, samræða milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Nú eru ráðherrarnir í einu liði, stjórnarandstaðan í öðru og svo eru almennir þingmenn stjórnarinnar líka á móti ráðabruggi ríkisstjórnarinnar. Ég ætlast ekki til þess og býst ekki við því að tekið sé undir öll sjónarmið okkar. En hæstv. ráðherrar skulda a.m.k. samherjum sínum sem sitja sem óbreyttir þingmenn að svara ábendingum og falleinkunum sem eru gefnar í flestum meirihlutaálitum nefndanna.



[11:12]
Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég vildi taka undir með kollegum mínum. Það er stórfurðulegt að við séum að ræða fjármálaáætlun til næstu fimm ára og ráðherra taki ekki almennilega þátt í samræðunum, sérstaklega fyrir mig sem sit í velferðarnefnd, að heilbrigðisráðherra sé ekki til staðar. Það hefði verið ótrúlega hjálplegt og gott fyrir ferlið allt að geta komið upp og spurt hann út úr og fengið að heyra hvernig hann hugsar þetta, sérstaklega þar sem hefur verið gríðarlega mikil gagnrýni á hans hluta fjármálaáætlunar. Þetta eru síðustu metrar þingsins og skrýtið að hann skuli ekki vera hérna.



[11:13]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Umræða um fjármálaáætlun hefur nú staðið í tvo daga sem er ekkert skrýtið. Þetta er þriðji dagurinn, þetta er mikilvægasta stefnumótunarumræðan um fjárlögin. Það er verið að færa þungann af fjárlagaumræðunni frá hausti yfir á þennan tíma og tilgangurinn er að ræða stefnumótun, frú forseti, stefnumörkun löggjafarvaldsins. Tillaga kemur frá framkvæmdarvaldinu og það er síðan löggjafinn sem býr til rammann.

Ef það væri alveg skýrt að sú stefnumörkun sem framkvæmdarvaldið lagði hér fram væri ekki gagnrýnd nema af okkur í minni hlutanum að einhverju leyti, ef tilfellið væri ekki það að stjórnarmeirihlutinn, þingmenn í salnum, gagnrýndi harðlega eins og fram kemur í meirihlutaáliti fjárlaganefndar og öðrum nefndum það plagg sem hér var lagt til grundvallar, þyrftum við kannski ekki að taka samtal við ráðherra. (Forseti hringir.) En þegar það er grundvallarágreiningur milli óbreyttra þingmanna og framkvæmdarvaldsins, ráðherranna, hlýtur að vera æskilegt að þeir tækju þátt í þessari umræðu því það er of seint að gera það í haust.



[11:15]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hrósa þeim ráðherrum sem sitja hér í salnum því að þeir hafa samkvæmt lögum sömu viðveruskyldu og við hinir þingmennirnir. Frekar vil ég benda á hversu fáliðað er oftast í salnum í þessari umræðu um stærsta mál ríkisstjórnarinnar, sem ætti að vera uppskeruhátíð en er svo fjarri því að vera það, því að stjórnarliðar sýna engan skilning í öllum sínum umsögnum á því sem er sett fram í þeirri áætlun. Þeim finnst hún jafn léleg og okkur. Það er kannski þess vegna sem ráðherrarnir hafa ekki dug í sér til að standa hérna. Það er kannski þess vegna sem heilbrigðisráðherra er flúinn til Sviss, á hlutlaust svæði, til að þurfa ekki að útskýra fyrir félögum sínum af hverju hann ætli að skera niður í heilbrigðismálum. Hann gæti í leiðinni beðið fólkið hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni afsökunar á því hvernig látið er með ráðleggingar þeirra í áfengisfrumvarpinu, en hann nýtir kannski kvöldin í það. Og auðvitað mætir menntamálaráðherra ekki hingað til að útskýra af hverju hann fjórfaldar niðurskurð á framhaldsskólastigið. (Forseti hringir.) Hefur hann einhvern tíma útskýrt fyrir félögum sínum hvers vegna hann varð undir í slagnum í ríkisstjórninni um þá takmörkuðu fjármuni sem hæstv. fjármálaráðherra skammtar? Af hverju tapaði Kristján Þór Júlíusson í hungurleikum ríkisstjórnarinnar?



[11:16]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mér líður stundum eins og ég sé Tumi engispretta þessarar ríkisstjórnar. Ég sit á öxl hennar og minni hana á að fara eftir réttum og góðum siðum, ekki valta yfir Alþingi og sýna Alþingi smá virðingu. Það er allt í lagi. Sagan af Gosa er ágæt og ég skal taka þetta hlutverk að mér. En þetta er náttúrlega engan veginn hægt. Hvað finnst hæstv. heilbrigðisráðherra um nefndarálit hv. fjárlaganefndar? Ég hef ekki hugmynd um það. Ég hef ekki heyrt hann segja eitt einasta orð um það og alls ekki hér. Hvað finnst öðrum ráðherrum um það álit og þau orð sem koma frá hv. stjórnarliðum? Á að bregðast við þeim orðum? Við höfum ekki hugmynd um það. Ríkisstjórnin ætlar að keyra þetta mál í gegn án þess að hlusta á okkur í stjórnarandstöðunni, það er bara eins og venjan er, þeim finnst ekki mikið til málflutnings okkar koma og nenna yfirleitt ekki einu sinni að hlusta á hann, en þegar þeir hlusta ekki einu sinni á eigin stjórnarliða fer maður að velta fyrir sér til hvers sé verið að sitja í stjórnarmeirihluta.



[11:18]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hef ekki hugmynd um hvað hæstv. heilbrigðisráðherra er að gera í útlöndum. Ég veit bara að hann er í burtu alla vikuna. Ég vona auðvitað að hann sé ekki að gera neitt af sér, öfugt við hæstv. forsætisráðherra sem brá sér á NATO-fund og lofaði þá allt í einu auknum peningum til hermála frá Íslandi. Þá voru til peningar. En þeir eru ekki til í heilbrigðiskerfið. Það er ekki meira að hafa í það en hægt að gusa einhverju í NATO án samráðs við þing og þjóð. Báðir þessir ráðherrar, hæstv. forsætisráðherra sem verkstjóri ríkisstjórnarinnar og sérstaklega hæstv. heilbrigðisráðherra sem á svo mikið undir hér, ættu að sjálfsögðu að vera við umræðuna þannig að hægt væri að leggja fyrir þá spurningar og fá fram viðhorf þeirra, m.a. til nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar. Það er hárrétt hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannessyni að það er of seint að eiga þau orðaskipti við ráðherrana í haust. Þá eru fjárveitingar til málaflokkanna orðnar að hverju? Orðnar að sundurliðun (Forseti hringir.) í viðauka sem Alþingi getur ekki einu sinni flutt breytingartillögur við. Þessi umræða við ráðherrana þarf að fara fram núna.



[11:19]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð þeirra þingmanna sem hér hafa tekið til máls undir þessum lið. Ég sakna náttúrlega sérstaklega heilbrigðisráðherra í þessari umræðu og þess að hafa ekki tækifæri til að hitta hann þá daga sem ég sit á þingi núna þar sem hann er fjarverandi við þessa mikilvægu umræðu. En ég skil hins vegar vel að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og einnig byggðamálaráðherra haldi sig víðs fjarri. Eins og með þeirra málaflokka er farið í þessari fjármálaáætlun reyna þeir að vera fjarri ef ske kynni að fyrir þá yrðu lagðar spurningar um þau mál sem undir þá heyra, tala nú ekki um mennta- og menningarmál í kjördæmi ráðherra menntamála. Þar getum við bent á ýmsa hluti sem eru óskiljanlegir.



[11:20]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Það var ágæt tilhögun við fyrri umr. um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að þar var hægt að spyrja ráðherra út í áætlunina. Þá höfðum við haft knappan tíma til að kynna okkur málin en það var gott að geta átt þetta samtal við ráðherrana og mér finnst að Alþingi, og ég vil beina því til hæstv. forseta, ætti að skoða vinnubrögðin. Núna þegar allar fagnefndir þingsins hafa kafað ofan í málin er virkilega þörf á því að geta átt samtal við hæstv. ráðherra. Þess vegna er bagalegt hversu fjarri þeir hafa verið í umræðunni og sjálf myndi ég t.d. mjög gjarnan vilja geta rætt við hæstv. heilbrigðisráðherra um það hvað hann hefur að segja um þá tillögu að setja stjórn yfir Landspítalann.

Mér finnst að við þurfum að skoða þessi vinnubrögð því að þetta er stóra mál ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) sem verið er að ræða og þá verðum við að geta haft aðgang að ráðherrum til að ræða við þá.



[11:22]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að það sé nokkuð ljóst að málið er ekki tækt til afgreiðslu fyrr en allir hafa komið hingað inn og tekið þátt í umræðunum. Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar segir, með leyfi forseta:

„Þessi fjármálaáætlun ber þess merki að nýr meiri hluti hefur ekki haft nægan tíma til að undirbúa og útfæra fjármálaáætlun næstu ára. … Langt er í land til að hægt sé að segja að verklag og vinna við hina nýju umgjörð sé ásættanleg …

Ríkisstjórnin hefur því haft mjög stuttan tíma til að undirbúa málið og ber það þess nokkur merki, hvort sem horft er til hinnar eiginlegu fjármálaáætlunar eða markmiðssetningar einstakra málefnasviða.“

Síðan er farið yfir það lið fyrir lið og ríkisstjórnin hirt af stjórnarliðum. En þó að nefndin komist svo að þeirri merkilegu niðurstöðu á bls. 19 að hún geri ekki athugasemdir við þingsályktunartillöguna held ég að það byggist fyrst og fremst á hinni hefðbundnu þrælslund þingmanna í garð ráðherra og stjórnar og óttanum við (Forseti hringir.) að menn þurfi að fara í nýjar kosningar. Ég held að við ættum að gefa okkur tíma til að tala um þetta plagg öll saman hérna inni.



[11:23]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki annað en tekið undir þetta, ekki síst í ljósi þess að við erum í fyrsta sinn að brúka þetta fyrirkomulag, þ.e. lög um opinber fjármál og hvernig við framkvæmum þau. Það hefði verið þjóðráð að ráðherrar sætu hér fyrir svörum þótt ekki hefði verið gefinn til þess nema einhver tiltekinn tími. Ég held að eitt af því sem við þurfum að ræða í framhaldinu sé hvernig við ætlum að vinna þetta, hvort gefinn verði sérstakur tími með hverjum og einum ráðherra eða hvernig það nú verður.

Mér finnst meirihlutaþingmenn tala af léttúð um ríkisfjármálaáætlun eins og það verði ekkert mál í haust að breyta henni. Þetta sé bara áætlun, þetta séu ekki lög. Það er vissulega rétt, en við erum samt sem áður að tala um sama ramma fjármuna, það er ekki verið að auka fjármuni, þannig að stjórnarþingmenn þurfa líka að gera grein fyrir því sem þeir segja í meirihlutaáliti sínu og hvaða málaflokkur er aflögufær. Það hefur ekki komið fram. (Forseti hringir.) Þeir hafa ekki komið hér í andsvör við okkur til að segja: Þetta er ekkert mál, við getum reddað þessu, t.d. með framhaldsskólana með því að taka peninga hér, þá getum við sett þá þangað. En það hefur hvergi komið fram.



[11:24]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég verð bara að taka undir það sem hv. samþingmenn mínir hafa talað um hér, við getum ekki klárað þessa umræðu um ríkisfjármálaáætlun fyrr en hæstv. heilbrigðisráðherra lætur sjá sig í salnum og tekur þátt í umræðunni og það sama má segja um hæstv. menntamálaráðherra. Þetta segi ég vegna þess að ég á sæti í hv. velferðarnefnd Alþingis. Við efnislega vinnslu málsins þar var kallað eftir sundurliðun á fjármagni sem á að fara til málaflokksins, kallað eftir því hvernig ætti að uppfylla þau markmið sem sett eru fram í ríkisfjármálaáætlun, en þau gögn fengust ekki. Því er mjög mikilvægt að hæstv. heilbrigðisráðherra mæti hingað og svari mikilvægum spurningum nefndarmanna um hvernig eigi að uppfylla það sem kemur fram í ríkisfjármálaáætlun.



[11:25]
Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég vil bara benda á að hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra er næstur á mælendaskrá, þannig að vilji menn fá sýn ráðherra ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálin held ég að tíma okkar væri betur varið að hlusta á það sem hann hefur fram að færa en að sinna því sem við erum að gera núna. Ég verð líka að segja að þó að ég viti að það sé hefð fyrir því að finna að því að ráðherrar séu ekki viðstaddir, þá er augljóst í þessu tilfelli að heilbrigðisráðherra hefur fullkomlega lögmæt og réttmæt forföll þar sem hann er að hitta kollega sína á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ég held að við ættum ekki að leika okkur að því að finna að því þegar menn gera það. Ég hef þá draumsýn sjálfur að Ísland muni taka enn virkari þátt í alþjóðasamstarfi, t.d. með aðild að Evrópusambandinu, og verði það að veruleika verða fjarvistir sem þessar regla en ekki undantekning.



[11:26]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Vissulega er það svo að ráðherrar hafa skyldum að gegna hérlendis og erlendis. Ég man þá tíð í stjórnarsamstarfinu 2009–2013 að ráðherrar voru kallaðir heim frá útlöndum vegna þess að mikilvægt þótti að þeir væru hér við umræðu. Við erum að tala um afar mikilvæg mál, stærsta mál ríkisstjórnarinnar. Mér þætti í sjálfu sér ekkert óeðlilegt áður en við lykjum umræðunni á þingi að heilbrigðisráðherra kæmi til að svara þeim spurningum sem hefur verið velt upp. Ég vil líka halda til haga að það eru margir að ræða ríkisfjármálaáætlun, sem betur fer, vegna þess að þekking þingsins með breyttu vinnufyrirkomulagi er meiri en hefur verið áður. Það er af hinu góða. En ég vil t.d. geta rætt við hæstv. menntamálaráðherra um af hverju hann ákveður að þrengja svigrúm nemenda til fjölbreytts náms með því til að mynda að sjá til þess að Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað verði ekki lengur við lýði. Ætlar hann að gera slíkt hið sama við Hússtjórnarskólann í Reykjavík? Ætlum við að loka á þetta nám? Af hverju stendur heilbrigðisráðherra ekki í lappirnar gagnvart fækkun sjúkrabíla (Forseti hringir.) á Tröllaskaga? Eða gagnvart því að ekki er samið við sjúkraflutningamenn í Húnavatnssýslum? Þetta eru stór mál sem skipta samfélagið gríðarlega miklu máli. Af hverju vill hann ekki stuðla að félagslegu heilbrigðiskerfi sem var í Fréttablaðinu í gær fjallað um að væri miklu betra en það einkarekna? Við höfum engin svör.



[11:28]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Eins og þingmenn hafa tekið eftir hef ég fylgst með hinum athyglisverðu umræðum um fjármálaáætlunina. Þar hafa verið fluttar margar góðar ræður og engar slæmar. Þessi þingdagur í dag var hins vegar bara ákveðinn á miðvikudaginn var. Ég vildi upplýsa þingheim um að mér tókst ekki að breyta ákveðnum fundum sem ég þarf að fara á utan þingsalar og bið þingmenn að virða mér það til betri vegar að ég mun ekki getað verið við alla umræðuna í dag. En ég mun vera eins lengi og ég mögulega get því að mér finnst þetta áhugaverð umræða. Og eins og margir ágætir þingmenn hafa bent á er mikið gagn í að hlusta á það sem þingmenn hafa fram að færa.