146. löggjafarþing — 73. fundur
 29. maí 2017.
um fundarstjórn.

samkomulag um þinglok.

[10:35]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Í samkomulagi um þinglok nú um helgina, sem vonandi hefur náðst, varð sátt um að málefni fatlaðra og félagsþjónusta sveitarfélaga myndu bíða haust og njóta þar sérstaks forgangs í meðhöndlun þingsins. Það er ekkert launungarmál að niðurstaðan olli mér talsverðum vonbrigðum því að ég taldi mikilvægt að málið kæmist tímanlega fram til undirbúnings, bæði fyrir sveitarfélög og ríki í aðlögun. En með þessa niðurstöðu treysti ég því hins vegar að myndast geti góð samstaða á þingi í haust um að ljúka málinu tímanlega. Það er mjög brýnt að sveitarfélögin fái ráðrúm til þess að undirbúa innleiðingu þessara mikilvægu breytinga og ekki síður að skjólstæðingar, þeir sem njóta eiga þessarar þjónustu, fái góðan fyrirvara gagnvart því.

Ég treysti því að samkomulag náist í haust, að það haldi og að málið nái hratt og vel fram að ganga.



[10:36]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hingað upp og útskýra orð sín í fjölmiðlum sem auðvitað komu mér og öðrum hv. þingmönnum mjög á óvart í ljósi þess að hér er ekki um niðurstöðu samninga að ræða. Staðan er einfaldlega sú að umrædd mál, sem þverpólitísk samstaða er um að verði kláruð, komu seint fram og krefjast aukinnar vinnu. Sá var sameiginlegur skilningur allra formanna, allra stjórnmálaflokka sem sátu hér á fundi á laugardaginn, þannig að ekki er verið að semja mál út af borðinu, hér er verið að horfast í augu við raunveruleikann sem er sá að Alþingi þarf að vanda sig við löggjöf. Það ætti hæstv. ráðherra auðvitað að vera sáttur og ánægður með, sérstaklega í ljósi þess að allir formenn allra flokka lýstu því að þeir væru reiðubúnir að gefa þessu máli sérstaka vigt í haust og ljúka þeirri vinnu eins hratt og unnt væri. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[10:38]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þekki ekki til þess að nokkur í þessum sal sé á móti því að ljúka þessum verkefnum. En allir vilja gera það vel. Á fundi formanna á laugardag voru menn sammála um að þessi mál þyrftu meiri og betri skoðun núna yfir sumartímann, m.a. í ráðuneytinu, áður en hægt væri að afgreiða þau. Það lögðu allir á það áherslu að þeir vildu koma þessum málum vel fyrir, allir flokkar á Alþingi. Þess vegna kom mér gersamlega í opna skjöldu yfirlýsing ráðherrans í Fréttablaðinu í morgun og okkur öllum sem á þeim fundi vorum.

Ég legg nú til, frú forseti, þegar ríkisstjórnin fundar með forseta að ríkisstjórnin öll sé upplýst um hvað þar fari fram svo svona uppákomur verði ekki. Ég hefði kosið að ráðherrann hefði beðið okkur afsökunar á því að segja að hér hefðu verið einhverjir samningar sem (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan hefði komið í veg fyrir. Staðreyndin er sú að málið þarf aðeins meiri vinnu, sérstaklega hitt málið sem tengist NPA, þ.e. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem er algerlega óunnið, engir gestir komnir fyrir þingið. Málin komu einfaldlega of seint fram. En við munum að sjálfsögðu vanda okkur og vonandi verður vinna ráðuneytisins í sumar skýr og góð þannig að hægt verði að klára þessi mál fljótt og vel í haust.



[10:39]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Mér finnst yfirlýsing hæstv. ráðherra áðan vera ómerkilegur kattarþvottur. Hann kemur í viðtal í morgun og gefur í skyn að stjórnarandstaðan sé að bregða fæti fyrir stjórnina í þessu máli. (Gripið fram í.) Staðreyndin er sú að það er ágreiningslaust í velferðarnefnd að vinna þarf málið betur. Nú væri hæstv. ráðherra maður að meiru ef hann færi fram, hringdi í fréttastofu RÚV og fréttastofu Stöðvar 2, og óskaði eftir að fá að koma í viðtal og leiðrétta þetta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hann er búinn að setja okkur í þá stöðu núna að við þurfum að fara að verja okkur, bera af okkur sakir. Þetta er ómerkilegt pólitískt trix. Mér finnst að ráðherra hljóti að vilja vera meiri maður en þetta.



[10:40]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ábyrgðin er alfarið hjá hæstv. ráðherra Þorsteini Víglundssyni fyrir að skila málinu of seint inn og fyrir að skila of mörgum málum of seint. Hafa ber að í huga að þessi ráðherra lagði ofurkapp á jafnlaunavottun, sem er í raun og veru ekki tilbúið heldur því að það vantar greiðslumat á áhrifum þess. Samt mun það fara hér í gegn.

Það er ekki hægt að stofna lífi fólks í voða út af hroðvirknislegum vinnubrögðum ráðherra. Það er með ólíkindum að ráðherrann skuli segja þetta þrátt fyrir það samkomulag og samstöðu sem var meðal allra sem funduðu hér um helgina, um að við vildum gera þetta vel, að það yrði hluti af yfirlýsingu um þinglok að þetta væri algert forgangsmál í haust, af því við vildum gera þetta vel í samstarfi við þá sem þurfa að nýta sér þessa þjónustu.

Ég krefst þess, ef ekki hér á allt að fara í uppnám, að hæstv. ráðherra leiðrétti þennan misskilning og biðjist afsökunar, bæði í þingsal og fari í fjölmiðla og leiðrétti þetta þar líka. (HKF: Hvernig er hann að stefna fólki í voða?)