146. löggjafarþing — 73. fundur
 29. maí 2017.
byggðaáætlun.
fsp. ÞórE, 131. mál. — Þskj. 190.

[10:42]
Fyrirspyrjandi (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka ráðherra fyrir að eiga hér orðastað við mig um það mikilvæga mál sem byggðamál eru. Nú eru ýmis teikn á lofti um að vegið sé að innviðum landsbyggðarinnar. Gagnrýni hefur komið fram á fjármálaáætlun þess efnis að þar skorti framtíðarsýn fyrir málaflokk sveitarstjórna og byggðamál, auk þess sem framtíðarsýn skorti fyrir málaflokkinn í heild.

Mig langar að gera að umtalsefni það mikilvæga framfaraspor sem stigið var í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir voru samþykkt. Vandséð er þegar ferðamenn streyma til landsins sem aldrei fyrr að byggðamálin ættu að vera einkamál landsbyggðarinnar. Því er það fagnaðarefni að þau eru það ekki lengur, heldur koma þessi mál okkur öllum við. Nú er það lögfest að ríki, sveitarfélög og höfuðborgin skuli í sameiningu vinna að mótun byggðastefnu og sóknaráætlunar. Er það mikil breyting frá því sem áður var.

Lögin formfesta nýtt vinnulag við gerð sóknaráætlana og tengja saman byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Ég er sannfærð um að það muni stuðla að markvissari aðgerðum í byggðamálum og enn betri árangri.

Hæstv. forseti. Mig langar að minnast á þær jákvæðu aðgerðir sem ríkisstjórnin hrinti af stað á síðasta kjörtímabili. Það voru aðgerðir sem áttu að jafna búsetuskilyrði og raforkukostnað til húshitunar. Þessar aðgerðir hafa mikla þýðingu fyrir landsbyggðina í heild sinni og eru mikið réttlætismál. Ég fagna því, því að nú að þessi mál eru orðin að veruleika og áfram á dagskrá.

Gott er til þess að vita að átakið Ísland ljóstengt er áfram í fullum gangi því að það er í raun grunnur að byggðafestu og möguleikum fólks til uppbyggingar og skapar raunhæfa möguleika á því sem kallað hefur verið störf án staðsetningar.

Mér leikur forvitni á að vita hvort þetta mikilvæga verkefni sé ekki örugglega fast í sessi til frambúðar.

Verkefnið Brothættar byggðir er líka dæmi um jákvætt skref sem tekið var árið 2012 að frumkvæði Byggðastofnunar með það í huga að leita lausna á bráðum vanda vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi undanfarinna ára. Fjárveiting var veitt til verkefnisins árið 2013. Markmiðið var m.a. að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríki, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög, brottflutta íbúa og aðra. Er ætlunin að halda áfram með það verkefni?

Ég er sannfærð um að lögin munu stuðla að markvissari aðgerðum í byggðamálum en það er ljóst að nægilegu fjármagni þarf að verja til málaflokksins svo árangur náist.

Fréttir hafa borist af fyrirhuguðum lokunum skóla á landsbyggðinni og áhyggjum forsvarsmanna af rekstri ýmissa stofnana, sem er mjög bagalegt. En ég held að ég og ráðherra getum verið sammála um að fleiri leiðir eru til sjálfsbjargar hér á suðvesturhorninu en bjóðast víða á landsbyggðinni. Á síðasta kjörtímabili lét þáverandi ráðherra byggðamála, Gunnar Bragi Sveinsson, Byggðastofnun skoða hvernig beita mætti skattkerfinu til að styrkja byggðir landsins. Slíkt fyrirkomulag þekkist meðal annars í Noregi og Svíþjóð og eru ýmsir útfærslumöguleikar í því sambandi. Sú tillaga að nota skattkerfið var í drögum að nýrri byggðaáætlun sem var, eftir því sem ég kemst næst, svo gott sem tilbúin í janúar.

Ég spyr því: Hvenær er von á nýrri byggðaáætlun til þingsins og hvaða hug ber ráðherra til þess að nota skattkerfið til að styrkja hinar dreifðu byggðir í landinu?



[10:46]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og umræðu um hana. Þetta er mikilvægt mál. Á 143. löggjafarþingi 2013–2014 þann 20. desember lagði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir 2014–2017. Var hún samþykkt 12. maí 2014. Þingsályktuninni fylgdi aðgerðir í 43 liðum til að ná fram meginmarkmiðum áætlunarinnar.

Unnið er núna að aðgerðum gildandi byggðaáætlunar sem mun renna sitt skeið í árslok. Byggðastofnun fékk í mars 2016 umboð til að vinna að gerð næstu byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024. Sú áætlun er unnin eftir nýju verklagi sem samþykkt var með lögum nr. 69/2015, um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Nýtt verklag fól í sér að ábyrgð á byggðaþróun var færð á fleiri hendur. Byggðaáætlun er eftir sem áður unnin í umboði ráðherra af Byggðastofnun en nú í samvinnu við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Byggðaáætlunin kemur inn á verksvið margra ráðuneyta og hefur aðkoma allra ráðuneyta verið tryggð strax á vinnslustigi áætlunarinnar. Við gerð byggðaáætlunar er auk þess haft samráð við sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og aðra haghafa eftir þörfum.

Meginmarkmið áætlunarinnar er nú lögfest og miðar að því að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um allt land. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Hér er verið að skerpa áherslur eldri byggðaáætlana og tryggja að meginþungi sé á þau byggðarlög sem verst standa hverju sinni.

Höfuðborgarsvæðinu var jafnframt bætt við áhrifasvið byggðaáætlunar, enda er það mikilvægur hlekkur byggðaþróunar og samkeppnishæfni landsins. Byggðaáætlun tekur því nú til landsins alls. Sóknaráætlanir og byggðaáætlun eru tengdar að því leyti að sóknaráætlanir skulu framvegis taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar og ná yfir sama gildistímabil og byggðaáætlun.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður hafði hér orð á, það er mjög mikilvægt að við jöfnum búsetuskilyrði í landinu. Að mínu mati eru þrjú atriði sem þar standa upp úr. Í fyrsta lagi vil ég segja að ég er ekki sammála hv. þingmanni um að ekki sé tryggt fé til byggðamála. Framlag til byggðamála var aukið á þessu ári um 25% og í ríkisfjármálaáætlun er þetta framlag látið halda sér. Það hefur því verið umtalsverð aukin áhersla lögð á þennan þátt mála. Þá verðum við að nefna Ísland ljóstengt sem er verkefni sem var farið af stað með á síðasta kjörtímabili sem mun auðvitað, eins og hv. þingmaður sagði, gerbreyta búsetuskilyrðum víða um land. Það er markmiðið að ljúka því árið 2020, 2021. Þá verða nánast öll heimili á Íslandi tengd ljósleiðara. Það er auðvitað ekki sjálfsagt í svona stóru landi hjá svo fámennri þjóð. Ég sat í morgun með aðilum úr norrænni pólitík, þar á meðal Dönum, sem byggja land sem er lítið eitt stærra en Suðurkjördæmi hjá okkur og þar búa tæpar 6 milljónir. Þeir eru ekki nálægt okkar í þessu. Við verðum komin í fyrsta sæti í heiminum varðandi þetta mál. Þetta er gríðarlega mikilvægt.

Hin tækifærin liggja í að efla samgöngur við mismunandi svæði og ekki síður að geta dreift raforku um þessi svæði því eins og ég hef áður sagt munu þær atvinnugreinar sem stuðlað hafa að byggðafestu hér á landi á undanförnum áratugum og enn lengra aftur ekki gera það með sama hætti í framtíðinni. Ný tækni og breyttir búskaparhættir eru þess valdandi. Við þurfum því að horfa til nýrra tækifæra á landsbyggðinni, raunhæfra tækifæra. Þar er augljóst að orkan skiptir öllu máli. Þar sitja byggðarlögin ekki við sama borð þegar kemur að mögulegum aðgangi að orku. Þótt enginn sé að tala um að hún sé nýtt til einhverrar mikillar stóriðju á þessum stöðum er það grundvallaratriði að geta boðið upp á fjölbreyttari tækifæri, að geta haft aðgang að okkar grænu orku. Margt fer þar saman eins og t.d. framleiðsla orkunnar og dreifikerfi og uppbygging á því. En því miður hafa þessir þættir verið í allt of erfiðri stöðu hjá okkur, allt of miklum ágreiningi, og við höfum lítið komist áfram á síðustu árum á þessum vettvangi. Ég tel grundvallaratriði fyrir landsbyggðina, ef við eigum að geta mótað tækifæri til framtíðar, að úr þessu verði bætt hið bráðasta.



[10:51]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð að heyra að hæstv. ráðherra nefnir orkumálin hér í ræðu sinni. Við Framsóknarmenn höfum sérstaklega miklar áhyggjur af þeim málaflokki, þá nefni ég bara orkuöryggi. Það hefur komið fram í umræðum hér á þingi síðustu daga að stórir landshlutar eru orkulausir klukkustundunum saman. Þetta er að gerast ítrekað. Þetta er mikið áhyggjuefni og mikill skaði fyrir atvinnulífið og samfélögin. Þrífösun rafmagns er komin allt of stutt, þar þarf aldeilis að taka til hendinni.

Þar sem tíminn er stuttur langar mig til að nefna hér og benda á umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármálaáætlun sem við höfum verið að ræða í þinginu síðustu daga. Þar kemur fram að sveitarfélögin gagnrýna að framlög til sóknaráætlana til lengri tíma er ekki að finna í fjármálaáætlun, sem er stóra mál ríkisstjórnarinnar sem allt annað byggir á til næstu fimm ára. Ég geri við það stórkostlegar athugasemdir. Þarna eru mikilvæg byggðaverkefni (Forseti hringir.) undir, brothættar byggðir og fleira.

Að lokum: Ríkisstjórnin skilar auðu í samgöngumálum (Forseti hringir.) sem er svo sannarlega eitt stærsta byggðamálið.



[10:52]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þarfa umræðu og ráðherra fyrir svörin. Það er nefnilega þannig að við þurfum að huga að því að áætlanir tali saman. Byggðaáætlun þarf t.d. að fléttast saman við samgönguáætlun. Það gerir hún ekki. Ljósleiðaravæðingin bitnar að mestu leyti á sveitarfélögunum sjálfum, sem átti ekki að gerast samkvæmt upphaflegu áætlunum og það viðurkenndi hæstv. ráðherra í rauninni þar sem úthlutunin fór fram eins og var lagt upp með í upphafi.

Varðandi brothættu byggðirnar skiptir máli að samgöngumálin séu í lagi, því að ef þau eru ekki í lagi er lítið hægt að gera fyrir brothættar byggðir í tímabundnum verkefnum. Þetta þarf allt að tala saman og sú er ekki raunin

Skilgreining á grunnþjónustu er það sem við verðum að fara að takast á við sem þing og þjóð. Ef við vitum ekki og getum ekki sett niður fyrir okkur hvað það er sem hvert sveitarfélag, hvert landsvæði á að hafa sem grunnþjónustu (Forseti hringir.) þá komumst við ekkert áfram.



[10:53]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Byggðaáætlun má ekki vera innantómt plagg. Mér hefur fundist það í gegnum árin. Þar eru skrifuð fögur fyrirheit og svo þegar kemur að því að efna þau strandar allt því að það vantar alltaf fjármuni til þess að fylgja þeim eftir.

Allir flokkar hafa lagt fram mjög metnaðarfulla byggðastefnu, en við erum langt á eftir í því að jafna búsetuskilyrði í landinu. Fjármálaáætlun endurspeglar ekki þann vilja sem hæstv. ráðherra talar hér um, að ríkisstjórnin ætli að taka sig á og gera skurk í byggðamálum, langt í frá. Það vantar mikla fjármuni inn í alla innviðauppbyggingu á landsbyggðinni. Brothættar byggðir eru alltaf að verða fleiri og fleiri. Í stað þess að fyrirbyggja það að byggðir verði brothættar er alltaf einhver eftir á redding sem kemur oft og tíðum allt of seint.

Ef við ætlum að meina eitthvað með sóknaráætlun og byggðaáætlun þá verður að sýna það í fullri alvöru. Og fjármálaáætlun, sem skiptir miklu máli til næstu fimm ára, verður að sýna að menn meini eitthvað með því sem þeir segja.



[10:55]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa mikilvægu spurningu. Svo ætla ég að taka undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að það skiptir voða litlu máli hvað við segjum í þessum stól og hvernig við sláum okkur á brjóst ef því fylgja ekki gjörðir. Stefna hæstv. ráðherra er ljós. Hún kemur fram í ríkisfjármálaáætlun til fimm ára.

Af því að hæstv. ráðherra kom inn á orkumál þá langar mig aðeins að undirstrika mikilvægi þeirra. Staðan er sú að samkvæmt lögum ber enginn aðili þá skyldu að tryggja afhendingaröryggi þegar kemur að almennum markaði. Það er á herðum ýmissa aðila að tryggja afhendingaröryggi þegar kemur að samningum við stórnotendur og fleiri, en það er enginn aðili sem ber þá skyldu að tryggja almenningi í landinu orku. Það er augljóst að taka þarf á í þeim málum.



[10:56]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Eitt af því sem skiptir gríðarlega miklu máli í byggðaþróun og byggðafestu er auðvitað þróttmikill landbúnaður. Nú vitum við að það hefur verið tappi í flöskunni, þ.e. flöskuháls og tappi getum við sagt, þegar kemur að ríkisjörðum. Það hefur gengið mjög illa að fá fram einhverja vitiborna stefnu í sölu eða leigu ríkisjarða og það hefur komið í veg fyrir að jarðir fari í ábúð, sem ættu að vera í ábúð, en hafa farið í eyði eða jarðir sem gætu hentað ungu fólki sem er að byrja búskap. Til dæmis í Skaftárhreppi er þetta mjög áberandi.

Hitt sem ég vil nefna er heilsugæslan. Hún er vanfjármögnuð víða um land einfaldlega vegna þess að álag vegna ferðamennsku er orðið það mikið að íbúar vítt og breitt um landið eru í vandræðum oft og tíðum, það gildir líka um sjúkraflutninga. Menn geta eflaust sagt sem svo að þetta séu ekki aðalatriðin, (Forseti hringir.) en þetta eru atriði sem skipta verulegu máli varðandi búsetuþróun í landinu.



[10:57]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar ég lít á byggðaáætlun og samgönguáætlun og fleiri slíkar áætlanir sem við meðhöndlum á þingi leita ég alltaf að því hvort niðurstaðan verði sjálfbær byggð. Ég hefði áhuga á að heyra skoðanir ráðherra á því hvernig byggðaáætlun vinni að því að þær áætlanir og þau plön sem lögð eru fram leiði til þess að við höfum sjálfbæra byggð á Íslandi.



[10:58]
Fyrirspyrjandi (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra og þeim sama hafa tekið þátt í þessari umræðu. Þetta er virkilega aðkallandi mál sem skiptir okkur öll máli. Þess vegna bind ég vonir við það breytta verklag sem komið hefur verið hér á með þverfaglegri vinnu, þvert á ráðuneyti og annað slíkt. Þetta þarf að vera í gegnum alla vinnu hjá okkur. Við þurfum að setja upp gleraugu byggðasjónarmiða í hverju máli sem við tökum fyrir, það tel ég að sé afskaplega mikilvægt.

Hv. þingmenn komu hér inn á ýmis atriði. Grunnurinn að því að við getum talað um jafnrétti til búsetu er að allir hafi aðgengi að ljósleiðara og tengingum um allt land. Við höfum í mörg ár og áratugi talað um störf án staðsetningar, það er ekki raunhæft og eðlilegt að tala um það, við getum ekki sagt það fyrr en við erum komin með þetta í lag. Við búum í stóru landi, þetta er dýrt, en við þurfum virkilega að leggja áherslu á það. Ég fagna því að svo skuli vera gert áfram.

Þá komum við aftur að orkuflutningum, eins og nokkrir hafa minnst á. Það er skelfilega staða sem mörg sveitarfélög eru í, að ekki er hægt að stækka lítil og meðalstór fyrirtæki af því að orku vantar. Það er ekki hægt að setja upp fatahreinsun á Akureyri af því að það vantar orku. Þetta er annað mál sem við verðum öll að leggjast á eitt með að vinna að og laga.

Ég tek líka undir með hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni um ríkisjarðirnar. Við Framsóknarmenn erum með áætlun um nýtingu á þeim, á ríkisjörðunum. Þetta er gríðarlega mikið mál í mörgum byggðarlögum þar sem hvert bú skiptir máli og hver jörð sem búið er á. Ég vona að við getum unnið þetta áfram.

En við lifum í breyttu samfélagi og við þurfum, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, að vera með skilgreiningar á grunnþörfum samfélaganna betur á hreinu. Það held ég að sé verkefni fyrir okkur öll að vinna að.



[11:00]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Bara til þess að ítreka það þá er aukning í byggðamálin upp á tæpar 400 milljónir á milli ára, þar af 50 milljónir til viðbótar við það sem var á síðasta ári í flokkinn Brothættar byggðir.

Fólk fer hér ansi mikinn um það hvað þurfi að gera og hvað sé ekki verið að gera. Talað er um að ríkisstjórnin skili auðu þegar komi að samgöngumálum. Það eru settir 5,8 milljarðar til viðbótar í samgöngumálin á þessu ári. Það er engan veginn nóg, enda erum við að skoða aðrar þær leiðir sem við mögulega getum farið í þeim efnum því að þetta er mikilvægur málaflokkur, ekki síst fyrir landsbyggðina, en þó ekki síður hér á slysamestu svæðunum.

Það er talað um að svæði séu raforkulaus. Það eru kannski ekki síst þingmenn Vinstri grænna sem koma inn á hversu mikilvægt það sé að efla dreifikerfi raforku og að hægt sé að afhenda raforkukerfi til þeirra byggða sem í dag geta ekki aukið á fjölbreytni atvinnulífs og verðmætasköpunar því að það er ekki raforku að hafa til að byggja upp jafnvel smáan iðnað á þeim stöðum í samanburði við stóriðjuna. Það er þetta sama fólk, virðulegur forseti, sem kom í veg fyrir það á því kjörtímabili þegar það fór með völd að haldið yrði áfram á þeim vettvangi. Ég varaði við því í ræðu minni fyrir um sjö árum síðan þegar hv. þm. Svandís Svavarsdóttir (Gripið fram í.) hafði frumkvæði að því að leggja stein í götu rammaáætlunar og skynsamlegrar nýtingar orkuauðlinda okkar að staðan yrði eins og hún er í dag. Þetta eru afleiðingar þess. Ég varaði við því á þeim tíma og við erum að upplifa nákvæmlega þá stöðu.

Það er líka ekki í lagi fyrir okkur sem þjóð að það skuli ekki hafa verið núna í níu ár hægt að leggja línu í meginflutningskerfi raforku á Íslandi. Landsnet hefur ekki getað lagt línu í meginflutningskerfi raforku vegna endalausra kærumála. Við verðum nefnilega að láta fara saman orð og efndir, gera okkur grein fyrir því að við getum ekki haft löggjöfina með þeim hætti og ekki komið okkur saman um að hægt sé að framkvæma það sem kallað er eftir.

Það er mjög mikilvægt að við (Forseti hringir.) skoðum þetta mjög vel. Ég get sagt í lokin að það er ekki rétt sem kom fram hjá einum þingmanni Vinstri grænna áðan að það væru sveitarfélögin (Gripið fram í.) sem væru að leggja ljósleiðarana, heldur er það samstarfsverkefni og það eru um 2,5 milljarðar hjá ríkinu sem fara í það verkefni (Gripið fram í.) á móti (Forseti hringir.) sirka 2 milljörðum frá sveitarfélögunum. Nú er kallað fram í því að sannleikanum (Forseti hringir.) verður stundum hver sárreiðastur þegar kemur að þessum málum. (Gripið fram í.)