146. löggjafarþing — 73. fundur
 29. maí 2017.
heimaslátrun og aukinn fjölbreytileiki í matvælaframleiðslu.
fsp. TBE, 224. mál. — Þskj. 313.

[11:16]
Fyrirspyrjandi (Teitur Björn Einarsson) (S):

Frú forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra snýr að því hvernig auka megi fjölbreytileika í íslenskri matvælavinnslu sem kæmi bæði neytendum og bændum til góða. Það eru margvísleg sóknarfæri í íslenskum landbúnaði, ýmsir möguleikar eru í boði til að styrkja starfsemi í hinum dreifðu byggðum landsins. Það getur verið í gegnum hvers konar nýsköpun, ræktun nýrra afurða, rekstur á ýmissi þjónustu í tengslum við fjölgun ferðamanna og svo er það virðisaukning, aukin virðisaukning í keðjunni með frekari vinnslu búvara, eða svokölluð heimavinnsla og sala afurða beint frá býli.

Á síðustu árum ef ekki áratugum hefur sláturhúsum fækkað mjög hér á landi. Í kjölfar þess hefur m.a. sprottið upp sú umræða um þá stöðu sem er að lifandi búfénaður er fluttur í dag um mjög langar vegalengdir til næstu afurðastöðva, fulllangar vegalengdir að mati sumra. Eins koma upp vandamál í dag sem tengjast getu þessara sláturhúsa til að anna eftirspurn og þróa vörur með eðlilegum hætti.

Þess þekkjast dæmi erlendis að brugðist hefur verið við svipaðri þróun og hér er, svo sem með rekstri færanlegra sláturhúsa. Á Norðurlöndunum, þar sem ég hef séð dæmi, m.a. í Noregi, hafa þeir komið sér upp tveimur tegundum sláturhúsa, þ.e. hús sem slátra einungis fyrir heimamarkað og svo sláturhús með útflutningsleyfi sem eru vottuð og uppfylla kröfur ESB. Hér þarf að sjálfsögðu að huga ávallt að matvælaöryggi, að rekjanleika vörunnar og tryggja ábyrgð framleiðenda, að þeir standist kröfur um aðbúnað og hollustuhætti. Þetta er engin töfralausn fyrir bændur sem vilja stærri hlut í virðiskeðjunni. Þeir verða eftir sem áður að standast samkeppni um verð, gæði, fjölbreytileika, verða við kröfum neytenda o.s.frv.

En það er hlutverk stjórnvalda þegar hér kemur við sögu að tryggja rétta umgjörð í lagaverkinu, umgjörð sem nú til dags þykir mögulega með of hátt flækjustig, of mikið skrifræði og íþyngjandi kröfur. Því beini ég þeim spurningum til ráðherra í þremur liðum hvort hann sjái í þessu tækifæri til að rýmka þessar reglur (Forseti hringir.) og hvað hægt sé að gera á kjörtímabilinu til að svo megi vera.



[11:19]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég deili í rauninni þeim sjónarmiðum sem komu fram í ræðu hv. þm. Teits Björns Einarssonar áðan og mun eftir fremsta megni reyna að svara þeim þremur spurningum sem hann beindi til mín á þeim tæpu fimm mínútum sem ég hef.

Auðvitað er það mikilvægt ef við Íslendingar getum státað af miklum fjölbreytileika þegar kemur að matvælaframleiðslu. Ég er sannfærð um að mikil sóknarfæri eru í landbúnaðarframleiðslunni á Íslandi á næstu árum. Það skiptir máli fyrir okkur að við höfum beinan aðgang að fersku hráefni. Flutningsleiðir eru hér á Íslandi mjög stuttar í rauninni og skilja eftir lítið sótspor, sem er mikilvægt. Neyslumynstur hefur breyst umtalsvert á síðustu árum og neytendur gera aðrar og meiri kröfur en áður. Samhliða þessari þróun hefur færst í aukana að ýmsir smáaðilar vilji vinna og framleiða vöru til að selja neytendum beint. Ég held að þetta sé mikið fagnaðarefni. Má í þessu sambandi m.a. benda á samtökin Beint frá býli þar sem fjöldi framleiðenda býður fram vörur sínar. Í síðustu viku fór ég um Suðurland þar sem ég hitti bændur sem voru að kynna framleiðslu sína beint frá býli. Það var gott að finna þennan drifkraft og hugmyndaauðgi og nýsköpunarkraftinn sem er að koma fram hjá bændum víða um land. Það er eitthvað sem stjórnvöld verða að hugsa um að reyna að styðja við, ekki með íþyngjandi reglugerðum heldur frekar opnum.

Það má auðvitað líka segja, talandi um Suðurlandið, að gott er að finna að þessir stóru, eins og SS, sem er einn stærsti vinnuveitandinn á Suðurlandi, sá vinnuveitandi er líka að hugsa um hvernig hægt sé að efla þróun í sínum vörum og koma betur fram til að koma til móts við neytendur. En matvælalöggjöfin hér var innleidd sem hluti af EES-samningnum og tók að fullu gildi í nóvember 2011. Þar er gert ráð fyrir talsverðum sveigjanleika sem gildir víða um hefðbundna framleiðslu og smærri fyrirtæki. Síðan eru þrjár reglugerðir sem við þekkjum sem snúa m.a. að matvælaöryggi og snerta neytandann sem við eigum að hafa í huga, en þær veita ákveðið svigrúm fyrir ýmsa smáframleiðslu og beina afhendingu á vörum.

Varðandi þá spurningu hv. þingmanns hvort leyfa eigi heimaslátrun, ekki aðeins til eigin nota á býli heldur einnig til sölu að því gefnu að vöruverndun og öryggi sé í fyrirrúmi, þá hefur það tíðkast lengi á Íslandi, sem betur fer, að bændur hafa slátrað eigin búfé til eigin neyslu um aldir. Það þekkist auðvitað líka annars staðar. Þetta er leyfilegt og bóndi ber ábyrgð á því sem hann borðar sjálfur og hann hefur vitneskju um aðstæður, heilbrigði viðkomandi gripa o.s.frv. Þess er sérstaklega getið í matvælareglugerðum að þær taki ekki til heimaslátrunar sem slíkrar.

Þær matvælareglugerðir sem ég kom aðeins inn á áðan fjalla m.a. um slátrun og sláturhús á mjög ítarlegan hátt. Sláturhúsum hefur fækkað á Íslandi og sama þróun hefur átt sér stað að mestu um alla Evrópu. Ég tel allrar athygli vert hvað er að gerast í Noregi. Það er eitthvað sem við eigum að líta til, reyndar varðandi ýmsar aðrar afurðir sem við getum rætt um síðar, eins og um sölu á t.d. áfengi sem hægt er að selja á búgörðum þar sem eru aðeins rýmri reglur um en á Íslandi, eitthvað sem við eigum að athuga alla vega síðar meir.

Það er ekkert í dag sem bannar mönnum að setja á stofn sláturhús, hvort sem það er lítið heima á bæ eða stórt iðnaðarsláturhús. Við sjáum það á fyrirspurnum um þetta undanfarin ár, en flestir hafa farið þá leið að vinna frekar áfram eigin afurðir eftir að þeim hefur verið slátrað í einhverjum stærri sláturhúsanna. Talandi um SS þá er greinilegt að þeir eru í ágætissamvinnu við bændur í sínu nærumhverfi, hvort sem eru nautgripa- eða sauðfjárbændur. Það er ýmis þróun þar í gangi.

Bara svo að stóra myndin sé dregin upp af minni hálfu, ég sé að það er lítill tími eftir og ég næ því ekki að svara öllum spurningum, þá vil ég segja að við eigum að gera bændum, ekki síst smábændunum, kleift að geta selt kjötið sitt sjálfir. Við eigum að veita bændum eins mikið svigrúm til að móta afurðir frá sínu býli sjálfir. Það er þróun í þá átt. Auðvitað með þeim fyrirvörum að tryggja matvælaöryggi, rekjanleika, upplýsingar fyrir neytendur, heilbrigðisvottorð o.s.frv. En við eigum að gera allt til að styðja bændur svo þeir geti gert sem mest úr sínum heilbrigðu íslensku vörum sem eru svo frábærar og allir Íslendingar eiga að hafa hjá sér á hverjum degi.



[11:24]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef hér og hvar, m.a. í bókum, varað við samþjöppun í matvælaframleiðslu á Íslandi sem hefur viðgengist í mörg ár. Ég vil raunverulega gera meira úr loftslagsmálum í þessu sambandi en komið hefur fram í máli manna, minnka flutninga á landinu og jafnvel innflutning að hluta. Ég held að loftslagsmálin séu þess eðlis orðin að menn þurfi að hyggja að því. Búið er að nefna hér dýravernd. Ekki er farið illa með dýr almennt á Íslandi en ég held að hægt sé að fara betur með þau með því að stytta flutningsleiðir, m.a. í sláturhús. Augljóslega varðar þetta mál mikið atvinnu í byggðarlögum, það sést vel t.d. í Skaftárhreppi, og ekki síst þegar kemur að ferðaþjónustunni því að ferðamenn sækjast eftir vörum heiman úr héraði. Ég tel að opinberir aðilar þurfi að koma að þessu í meira mæli, aðstoð við að koma á afurðaframleiðslu eða slátrun (Forseti hringir.) í gegnum byggðaáætlanir eða Byggðastofnun og síðast en ekki síst í gegnum aukna nýsköpun. Þar koma opinberir aðilar sterkt inn.



[11:26]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu og góðu umræðu og taka undir með þeim þingmönnum sem hafa minnst á flutning á búfé, hann hefur óneitanlega aukist. Það er mikill og langur akstur víða um land með sláturfé, sem ekki getur talist jákvætt, sláturhúsunum hefur fækkað. En menn eru fullir af hugmyndum og krafti í sveitum landsins. Margir eru að reyna að koma sér upp meiri vinnslu heima. Ég get samt ekki alveg tekið undir með ráðherra að það væri möguleiki að bjóða upp á meira áfengi t.d., landi með lærinu er svo sem alveg þekkt á sumum bæjum en ég ætla ekki að mæla því bót.

Regluverkið er allt of flókið. Þetta er allt of snúið fyrir fólk að fara út í. Við þekkjum gæðavöruna sem við höfum í boði um allt land og við þurfum að gera gangskör að því að einfalda þetta allt saman og hjálpa fólki til meiri framleiðslu heima.



[11:27]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Landi með lærinu, mér hafði ekki dottið það í hug en það er áhugavert.

Mig langar að þakka fyrir þessa umræðu. Hún er afskaplega góð. Rauði þráðurinn, sem við erum öll sammála um, er fyrst og fremst matvælaöryggi og hreinleiki og gæði þeirrar framleiðslu sem við erum með hér á landi. Við erum nú þegar með mjög flott bú, ég nefni sem dæmi Friðheima og Erpsstaði og fleiri bú, sem eru að gera mjög flotta hluti með matvælaþróun og markaðssetningu. Tækifærin eru til staðar.

Mér finnst gott að ráðherra nefnir það að við ættum frekar að draga úr íþyngjandi reglum, horfa meira opið á þetta. Það er mjög gott, ég er ánægð að heyra það, en náttúrlega að því að gefnu að eftirlitið sé mjög gott eins og málshefjandi nefndi í ræðu sinni.

Mig langar til að heyra frá ráðherra á eftir varðandi það sem málshefjandi nefndi um færanlegu sláturhúsin, hvort eitthvað sé komið áleiðis í þeirri stefnumótun í ráðuneytinu, vegna þess að þar eru klárlega tækifæri.



[11:28]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það eru áhugaverðar athugasemdir hérna. Mig langar að vísa stuttlega í nýútkomna stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar þar sem segir að styðja þurfi við nýsköpun í ríkisrekstri. Þar segir einnig að aðkoma ríkisins að slíkum umbóta- og þróunarverkefnum sé þó um margt tilviljana- og brotakennd, að það sé engin heildstæð stefna þar á meðal, og hvetur Ríkisendurskoðun til heildstæðrar stefnumótunar.

Þessi fyrirspurn hljómar mjög kaldhæðnisleg í mínum eyrum þar sem það er nýbúið að gera nýja búvörusamninga. Þetta mál hljómar rosalega mikið eins og mjólkurmálið mikla. Það eru alveg nákvæmlega sömu rök að baki þessu máli og framleiðslu á mjólk og dreifingu. Ég held að við ættum að huga aðeins að því hvernig þau mál vinna saman.



[11:29]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál sé komið til umræðu. Ég verð að taka undir það, ég held að við þurfum að huga að gæðunum. Þau og öryggið eru alltaf það sem þarf að vera á oddinum. Beint frá býli hefur náð að ramma sig inn í eitthvert tiltekið regluverk og hefur gengið mjög vel. Það hefur aukist mjög um land allt að bændur selji beint frá býli undir því regluverki. En auðvitað þarf að auðvelda það til þess að hægt sé að efla þróunina og styrkja bændur í sessi. Hægt er að taka undir varðandi hinn langa og mikla flutning á dýrum sem tíðkast mjög víða um land, því miður. En við þurfum líka að huga að eftirlitinu. Það yrði væntanlega í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Við erum sífellt að færa verkefni þangað án þess að færa með því fjármuni, en þá þarf a.m.k. að hafa í hug að það sé gert. Fyrst og fremst snýr þetta að því að styrkja og styðja við bændur. Það getur hæstv. ráðherra gert með góðum búvörusamningi og með því að létta á regluverkinu.



[11:30]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við vitum að það er mikil samþjöppun í sauðfjárbúskap. Sauðfjárbændur hafa átt undir högg að sækja og ég tel að það þurfi virkilega að skoða hvort þetta sé einhver leið til þess að reyna að auka virðisauka í sauðfjárrækt sérstaklega. Tækifærin eru til staðar. Ég tel að bændur séu manna fróðastir í þessum efnum. Það þyrfti að vinna þetta með þeim og hlusta á hvaða tækifæri þeir sjá. Ég held að þetta sé tækifæri sem við þurfum að skoða til að styrkja sérstaklega sauðfjárbúin sem eru á jaðarsvæðum þar sem tækifæri eru á að auka virðisauka heima á býli og draga úr kostnaði við milliliði í tengslum við ferðaþjónustu. Hér voru nefnd býli eins og Erpsstaðir og Friðheimar, sem eru til fyrirmyndar. Ég held að hér séu tækifæri sem stjórnvöld þurfa að (Forseti hringir.) skoða og vinna með bændum í þessum efnum.



[11:32]
Fyrirspyrjandi (Teitur Björn Einarsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og fagna því sem þar kemur fram um vilja til að gera betur í þessum efnum. Ég heyri líka hér í athugasemdum annarra hv. þingmanna breiðan samhljóm, breiðan þverpólitískan stuðning við að við tökum skref í þessa átt, að því gefnu að við höfum í huga þau sjónarmið sem hér eru uppi og ég kom inn á í máli mínu sem snúa að matvælaöryggi, ábyrgð framleiðanda og rekjanleika vöru þannig að ávallt sé um að ræða góða og heilnæma afurð.

Hér var komið inn á alvarlegt mál sem snýr að dýravelferð. Þessir löngu flutningar landshorna á milli hljóta vera ástæða fyrir okkur til að skoða af miklum krafti hvort hægt sé að koma upp þannig fyrirkomulagi, stigskiptingu krafna sem eru gerðar til sláturhúsa til að mynda, það er alla vega eitt atriði, sem og umhverfismálin, að takmarka umhverfissporið sem af þessu leiðir.

Aðalatriðið er að þetta snýr ekki eingöngu að búfénaði, þá sérstaklega að sauðfjárrækt sem er sannarlega mikilvægt og aðkallandi í þeim efnum, heldur að öllum þeim tækifærum sem er að finna í hinum dreifðu byggðum landsins, þar eru ýmiss konar afurðir, hvort sem þær tengjast grænmetisræktun eða kjötvinnslu. Það er hárrétt sem hæstv. ráðherra kom inn á, að sjálfsögðu eru margvísleg tækifæri sem snúa að ýmiss konar áfengisframleiðslu, bjórframleiðslu í héraði eða annars konar áfengisframleiðslu sem hægt er að sjá fyrir. (Forseti hringir.)

Ég fagna þessari umræðu og þakka hæstv. ráðherra svör hennar. Ég hvet hana eindregið til dáða í þessari vinnu á kjörtímabilinu.



[11:34]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni og fyrirspyrjanda um að það er ánægjulegt að finna þennan samhljóm á Alþingi varðandi það að ýta undir aukið frelsi og tækifæri bænda, hvort sem er til heimaslátrunar eða annarra afurða. Menn höfðu það í flimtingum að selja landa með lambinu, en það vill og svo til að Norðmenn, sem eru kannski mestu púrítanarnir í áfengismálum, fóru þá leið til að ýta undir framleiðsluna á Hardanger-eplunum, sem allir þekkja náttúrlega sem þekkja eitthvað til Noregs. Það er afbragðsvín sem þar er framleitt, 10–12%, sem hefur gert bændum kleift á síðastliðnum árum með nýjum lögum að auka afurðir frá býli. Það hefur leitt til þess að sala annarra afurða frá býlinu hefur aukist. Ég get vel séð fyrir mér t.d. krækiberja- og bláberjavínbændur koma hér fram. Við eigum að vera frekar opin fyrir alls konar tækifærum sem geta falist í íslenskri framleiðslu.

Ég vil líka taka undir það, þrátt fyrir að ég hafi ekki verið mesti aðdáandi búvörusamningsins, að það eru engu að síður ákveðin tækifæri við búvörusamninginn og þá skulum við nýta okkur þau. Það eru ýmis tækifæri falin í búvörusamningnum, m.a. til þess að ýta undir nýsköpun hvers konar á sviði sauðfjárræktar, mjólkurframleiðslu, garðyrkju o.s.frv. Ég bind vonir við að endurskoðunarnefndin skoði það mjög gaumgæfilega.

Ég vil líka benda á að við erum með sérstakt verkefni sem ýtt var úr vör, sem heitir Matarauður Íslands. Því verkefni er ætlað að efla almenna vitund um íslenska matarmenningu, íslensk matvæli og ýta undir hvers kyns nýsköpun í framleiðslu og markaðssetningu matvæla. Verkefnið er til fimm ára og fara heilmiklir fjármunir í það. Ég sé sérstaklega fyrir mér að áhugafólk um heimaslátrun og sölu beint frá býli geti með einum eða öðrum hætti nýtt sér og verið þátttakendur í því starfi á næstu árum. Ég held að mikilvægt sé að menn nýti sér þau tækifæri. Ég vil undirstrika að stjórnvöld eiga ekki að standa í vegi fyrir þróun. Við eigum að gæta að (Forseti hringir.) fyrirvörum varðandi matvælaöryggið, rekjanleika og ábyrgð framleiðanda. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur á þessu kjörtímabili til þess að ýta undir tækifæri bænda til nýsköpunar.