146. löggjafarþing — 73. fundur
 29. maí 2017.
löggjöf gegn umsáturseinelti.
fsp. SSv, 462. mál. — Þskj. 640.

[11:37]
Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Á 145. löggjafarþingi var fjallað um breytingu á almennum hegningarlögum með síðari breytingum, m.a. samninga Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Í nefndaráliti með breytingartillögu sem allir nefndarmenn stóðu að við afgreiðslu málsins 8. mars 2016 var sérstaklega rætt að ástæða væri til þess að fjalla um svokallað umsáturseinelti, en í nefndarálitinu kom fram að slík endurskoðun stæði yfir í dómsmálaráðuneytinu, þá innanríkisráðuneytinu.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvað líði undirbúningi þess að setja í íslenska refsilöggjöf sérstakt ákvæði um það sem kallað er umsáturseinelti, samanber umrætt nefndarálit þar sem kemur fram að ætlunin sé að hefja slíkan undirbúning.



[11:38]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að vekja athygli á hugtakinu umsáturseinelti. Ég hafði ekki áttað mig á því fyrr hversu ágætt þetta hugtak er, hafði ekki tamið mér notkun á því fyrr en ég fór að skoða þetta mál í tilefni af þessari fyrirspurn. Oftar í umræðunni er notað hugtakið eltihrellir, á ensku hugtakið, með leyfi forseta, „stalking“, en mér þykir þetta prýðilegt hugtak, umsáturseinelti.

En ég vil þá geta þess að á síðasta ári tóku gildi lög sem sett voru til breytinga á almennum hegningarlögum svo unnt væri að fullgilda samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, svokallaðan Istanbúl-samning sem málshefjandi vék að. Við undirbúning að fullgildingu samningsins fór þáverandi innanríkisráðherra þess á leit við refsiréttarnefnd að nefndin kannaði hvort og þá hvaða breytingar væri nauðsynlegt að gera á íslenskri refsilöggjöf til að fullgilda mætti þennan Istanbúl-samning. Eitt af ákvæðum samningsins sem refsiréttarnefnd tók sérstaklega til skoðunar í því sambandi var ákvæði 34. gr. samningsins sem fjallar um umsáturseinelti. Í athugasemdum með framangreindu frumvarpi, sem ég nefndi áðan, til breytinga á almennum hegningarlögum var sérstaklega fjallað um þetta ákvæði Istanbúl-samningsins. Þar kemur fram, í 34. gr. samningsins, að samningsaðilar skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir með lagasetningu eða öðrum hætti til að tryggja að ásetningsverknaður sem felst í ógnandi hegðun gagnvart öðrum einstaklingi sé lýstur refsiverður. Í 3. mgr. 78. gr. þessa sama samnings er að finna heimild samningsaðila til fyrirvara um þetta ákvæði og geta þeir því beitt öðrum viðurlögum en refsingum ef þeir kjósa.

Beiting nálgunarbanns getur þannig verið ein tegund viðurlaga sambærileg við refsingu eða viðurlög önnur en refsing.

Í almennum hegningarlögum er í dag ekki að finna ákvæði sem tekur til háttsemi eins og þeirrar sem lýst er í þessu ákvæði Istanbúl-samningsins. Hins vegar eru í gildi lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili, lög nr. 85/2011, og þar er að finna slíkt ákvæði. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga er með nálgunarbanni samkvæmt lögunum átt við þau tilvik þegar manni er bannað að koma á tiltekinn stað eða svæði, veita eftirför, heimsækja eða setja sig með öðru móti í samband við annan mann. Samkvæmt 4. gr. þessara sömu laga er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot, hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola og þar fram eftir götunum. Þá er ástæða til að vekja líka athygli á ákvæði í almennum hegningarlögum sem er 1. mgr. 232. gr. Samkvæmt því ákvæði getur brot gegn nálgunarbanni varðað sektum eða fangelsi allt að einu ári en allt að tveimur árum ef brot er ítrekað eða stórfellt. Þá getur jafnvel 233. gr. almennra hegningarlaga líka komið til álita og viðurlög þar í því sambandi. Þar er kveðið á um að það geti varðað sektum og fangelsi líka ef menn hafa í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað og hótunin til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði og þar fram eftir götunum.

Þegar litið er til ákvæðis almennra hegningarlaga sem og til þessara sérstöku laga nr. 85/2011, um nálgunarbann, og upptöku þeirra í íslenskan rétt og íslenska dómaframkvæmd er í rauninni ekki talið að 34. gr. Istanbúl-samningsins kalli á sérstakar breytingar á íslenskri löggjöf. Það varð niðurstaða refsiréttarnefndar á sínum tíma að ákvæði Istanbúl-samningsins kallaði ekki sérstaklega á breytingar á íslenskri löggjöf. En það er rétt sem fram kemur hjá málshefjanda, við meðferð málsins, þessi breyting á hegningarlögum á síðasta þingi hjá allsherjarnefnd, var farið rækilega yfir þetta ákvæði um umsáturseinelti og ákvæði laga um nálgunarbann. Niðurstaða allsherjarnefndar var sú að þörf væri á sérstöku ákvæði um umsáturseinelti í íslenskri refsilöggjöf en jafnframt væri mikilvægt að ekki yrði dregið úr þeirri réttarvernd sem nú er til staðar. Þetta er auðvitað alltaf grönn lína eða þröngt einstigi sem menn þurfa að feta þegar þeir breyta ákvæðum hegningarlaga, oft í þeim tilgangi að skýra ákvæði, en þá er oft hætta á að menn missi þá réttarvernd sem fyrir er fyrir hendi.

Allt að einu hefur refsiréttarnefnd verið falið að taka málið aftur til skoðunar í framhaldi af niðurstöðu allsherjarnefndar.



[11:43]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hugtakið er vissulega mjög áhugavert því að um leið og orðið einelti er komið þarna inn og þetta er umsáturseinelti, sem er önnur tegund af einelti, hugsa ég sjálfkrafa hvernig þetta eigi við um og endurspegli hefðbundið einelti. Eina niðurstaðan sem ég kemst að um muninn á þessu er að í umsáturseinelti er einn gerandi en í hefðbundnu einelti eru mögulega margir gerendur. Ég velti þessu fyrir mér ef það á að vera refsiákvæði í eineltistilfellum þar sem er aðeins einn gerandi, að öðru leyti er þetta ekkert öðruvísi en hefðbundið einelti, hvað þá þegar gerendurnir eru margir.



[11:44]
Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Eins og fram hefur komið í orðaskiptum okkar telur allsherjar- og menntamálanefnd öll að rétt sé að setja sérstakt lagaákvæði um umsáturseinelti í íslenska löggjöf, en jafnframt sé mikilvægt að ekki sé dregið úr þeirri réttarvernd sem þegar er til staðar, eins og fram hefur komið í máli ráðherra.

Í nefndarálitinu kemur líka fram að til standi að hefja slíka vinnu af hálfu ráðuneytisins. Hér kemur fram í svari ráðherra að refsiréttarnefnd hafi þegar verið falið að taka þetta til sérstakrar athugunar. Hvorug okkar hefur nefnt það sem kemur einnig fram í nefndarálitinu, að nefndin hvetur til þess að sú vinna skili sér til Alþingis í haust í formi frumvarps og var þá náttúrlega átt við haustið 2016. Nú erum við komin fram á vorið 2017. Því vil ég biðja hæstv. ráðherra að vera ögn nákvæmari í svörum sínum að því er varðar væntanlegt frumvarp þar sem beinlínis er tekið á þeim mikilvæga þætti, sem er sannarlega áhyggjuefni hjá þeim sem fyrir umsáturseinelti verða og engum vafa undirorpið að þessi staða verður að endurspeglast með einhverjum hætti í löggjöfinni.



[11:46]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég get ekki lýst starfi refsiréttarnefndar og hvernig hún hefur fjallað um málið en ég geng út frá því að hún geri það faglega. Þessi mál þarf að skoða mjög vandlega. Það er full ástæða til að gera það telji menn að pottur sé brotinn eða að einhverjir missi af réttarvernd út af skorti á sérstöku ákvæði um umsáturseinelti. Það er ágæt ábending sem kom fram hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, að skilgreina þurfi mjög vel hvað umsáturseinelti sé. Það geta verið fleiri en einn sem taka þátt í umsáturseinelti, ég get ekki ímyndað mér að það sé loku fyrir það skotið. En refsiréttarnefndin mun skoða þetta mjög vandlega með tilliti til t.d. dóma sem fallið hafa um þessi mál og leita sjónarmiða frá lögreglu og öðrum sem best þekkja til slíkra mála. Í kjölfarið verður tekin ákvörðun um það hvort ástæða sé til þess að leggja fram frumvarp um það. Þá ákvörðun tekur enginn nema ráðherra ef hann ætlar að leggja fram frumvarpið, en auðvitað er öllum öðrum frjálst sem sitja í þingsal að leggja fram frumvörp um hvað eina.